Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2014 Austurhöfn

Árið 2014, föstudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 5. júní 2014 um breytingu á deiliskipulagi Austurhafnar í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. júlí 2014, kærir Seltjarnarnesbær ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 5. júní 2014 um breytingu á deiliskipulagi Austurhafnar í Reykjavík. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 1. september 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 23. október 2013 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur forsögn að breytingu á deiliskipulagi Austurhafnar. Í kjölfar þess var hafist handa við gerð tillögu að breytingu skipulagsins sem var lögð fyrir fund ráðsins 11. desember s.á. Í tillögunni var m.a. gert ráð fyrir breytingu á legu Geirsgötu og samþykkti umhverfis- og skipulagsráð á fundi sínum hinn 16. desember 2013 að auglýsa tillöguna til kynningar. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 19. s.m. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti síðan tillöguna hinn 26. mars 2014, með vísan til fyrirliggjandi umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. s.m., og vísaði málinu til borgarráðs sem samþykkti deiliskipulagsbreytinguna hinn 27. s.m. Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birtist svo í B-deild Stjórnartíðinda 25. júní s.á.

Kærandi telur að með hinni umdeildu skipulagsbreytingu kunni að vera þrengt verulega að annarri meginaðkomuleið Seltjarnarnesbæjar með breyttum gatnamótum og umferðarskipulagi á mótum Sæbrautar og Mýrargötu. Gert sé ráð fyrir að umræddum gatnamótum verði breytt í T-gatnamót, í stað þess að göturnar renni beint saman, og að heimilaður ökuhraði á götum skipulagssvæðisins verði lækkaður í 30 km. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekki  með fullnægjandi hætti gerð grein fyrir hvaða áhrif þessar breytingar muni hafa á umferð og flutningsgetu gatnakerfisins, sem þjóni þeim tilgangi að vera rýmingar- og flóttaleið frá vestursvæði borgarinnar og Seltjarnarnesbæ. Með umdeildri skipulagsbreytingu sé jafnframt farið gegn anda samkomulags sveitarfélaganna frá 12. nóvember 2013, þar sem tekið sé fram að akreinum verði ekki fækkað á Mýrargötu/Geirsgötu nema í samkomulagi við Seltjarnarnesbæ og að við heildarendurskoðun á svæðisskipulagi verði rýmingar- og flóttaleiðir skoðaðar ásamt stofnbrautakerfi.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að málsmeðferð umdeildrar breytingar á deiliskipulagi hafi verið lögum samkvæmt og í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar. Kærandi hafi gert athugasemdir á kynningartíma skipulagstillögunnar sem séu á sömu lund og í kæru varðandi áhrif breytinga á umferð og flutningsgetu gatnakerfis svæðisins. Í svari við athugasemdunum til kæranda hafi komið fram að fjöldi akreina yrði óbreyttur, að ekki myndi draga úr umferðarrýmd gatnakerfisins og að í nýju aðalskipulagi borgarinnar væri stefnt að því að draga úr umferð einkabíla á miðborgarsvæðinu, sem stuðla myndi að betra flæði umferðar. Með breytingu á gatnamótum Geirsgötu og Kalkofnsvegar/Lækjargötu, ásamt ákvæði um hámarkshraða 30 km/klst., sé verið að fylgja því markmiði deiliskipulagsins, sem sé í samræmi við stefnu aðalskipulags, að við allar framkvæmdir og úrbætur á gatnakerfi miðborgarsvæðisins skuli þarfir gangandi vegfarenda hafðar að leiðarljósi. Þá komi fram í umhverfismati að lækkun hámarkshraða og fyrrgreind breyting á gatnamótum muni að mati skýrsluhöfunda ekki hafa teljandi áhrif á umferðarflæði. Ekki verði séð að umrædd skipulagsbreyting fari á svig við samkomulag það sem kærandi vísi til, en það sé einkaréttarlegs eðlis og eigi undir dómstóla að leysa úr ágreiningi er upp kunni að koma um brot á því.

Niðurstaða: Seltjarnarnesbær, sem er kærandi í máli þessu, og Reykjavík eiga sameiginleg sveitarfélagamörk. Deilt er um gildi deiliskipulagsbreytingar á hluta miðborgarsvæðis Reykjavíkur, sem m.a. felur í sér breytingu á gatnakerfi og hámarkshraða á skipulagssvæðinu. Telur kærandi að þær breytingar hafi áhrif á samgöngur til og frá Seltjarnarnesbæ.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulags og ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags innan marka sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Taki deiliskipulagstillaga til svæðis sem liggur að mörkum aðliggjandi sveitarfélags skal tillagan kynnt sveitarstjórn þess sveitarfélags skv. 41 gr. skipulagslaga. Að öðru leyti gera lögin ekki ráð fyrir aðkomu nágrannasveitarfélaga við deiliskipulagsgerð annars sveitarfélags. Samráð nágrannasveitarfélaga um sameiginleg hagsmunamál á vettvangi skipulagsmála er við gerð svæðisskipulags. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. nefndra laga er svæðisskipulag skipulagsáætlun tveggja eða fleiri sveitarfélaga þar sem sett er fram sameiginleg stefna þeirra um byggðaþróun og þá þætti landnotkunar sem þörf er talin á að samræma vegna sameiginlegra hagsmuna þeirra. Í 2. mgr. 22. gr. skipulagslaga er kveðið á um að í gildi skuli vera svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, en bæði Reykjavík og Seltjarnarnes eru innan þess svæðis.

Kærandi máls þessa er stjórnvald sem gætir opinberra hagsmuna að lögum og verður ekki talinn aðili að hinni kærðu ákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða eiga þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni tengda henni sem er skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá nýtur kærandi ekki lögfestrar kæruheimildar. Loks er úrskurðarnefndin ekki bær til að fjalla um gildi og efndir einkaréttarlegra samninga sem kunna að vera gerðir milli sveitarfélaga enda heyrir ágreiningur um það efni undir dómstóla.

Að öllu framangreindu virtu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ______________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson