Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

70/2013 Ægisíða

Árið 2014, fimmtudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 um að veita leyfi til að stækka núverandi þakglugga hússins að Ægisíðu 74, Reykjavík og byggja þar inndregnar þaksvalir, færa útidyr á norðvesturhlið yfir á norðausturhlið, bæta við nýjum útgangi á suðausturhlið og samþykkja ýmsar breytingar á fyrirkomulagi innanhúss.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. júlí 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Ó, Ægisíðu 76, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 að veita leyfi til að stækka núverandi þakglugga hússins að Ægisíðu 74, Reykjavík og byggja þar inndregnar þaksvalir, færa útidyr á norðvesturhlið yfir á norðausturhlið, bæta við nýjum útgangi á suðausturhlið og samþykkja ýmsar breytingar á fyrirkomulagi innanhúss.

Verður að skilja málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar breytingar á þaki með gerð inndreginna þaksvala.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. september 2013.

Málavextir: Hinn 19. mars 2013 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík umsókn um leyfi til að stækka núverandi þakglugga og byggja inndregnar þaksvalir á húsinu að Ægisíðu 74. Jafnframt var í umsókninni óskað samþykkis fyrir þegar framkvæmdum breytingum og endurnýjun sem fólst í að í kjallara hefði verið bætt við stiga upp á 1. hæð, baðherbergi fært, útidyr á norðvesturhlið færðar á norðausturhlið, nýjum útgangi bætt við á suðausturhlið og að á 1. og 2. hæð hefðu tvö herbergi verið sameinuð í eitt og gert innangengt í baðherbergi. Með umsókninni fylgdi samþykki eiganda neðri hæðar, dags. 18. febrúar 2013, og bréf arkitekts, dags. sama dag. Var umsóknin samþykkt með eftirfarandi bókun „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010. Skilyrt er að ný eignaskiptayfirlýsing sé samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfis, henni verður þinglýst eigi síðar en við lokaúttekt. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“

Í gildi er deiliskipulag frá árinu 2006 sem tekur til nefndrar lóðar. Í því segir að markmið þess sé að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum en um leið hlúa að því sem fyrir sé og búa þannig um hnútana að uppbygging geti gerst á forsendum þeirrar byggðar sem þar standi. Þá segir í fyrsta kafla almennra skilmála deiliskipulagsins að heimilt sé að byggja viðbyggingu innan byggingarreits og sé leyfilegt að svalir og þakkantar fari lítillega út fyrir byggingarreiti. Að auki eru í deiliskipulaginu skilmálar fyrir hverja lóð. Í skilmálum fyrir lóðina nr. 74 við Ægisíðu segir að heimilt sé að auka byggingarmagn á lóðinni með því að byggja ris með kvistum sem falli vel að stíl hússins. Skuli lengd þeirra ekki vera meiri en 1/3 af húshliðinni. Mest skuli hæð riss vera 4.400 mm yfir gólfplötu. Að auki sé heimilt að byggja létta viðbyggingu innan byggingarreits en óheimilt að breyta útliti þakkanta.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að heimilaðar þaksvalir séu ekki í samræmi við ákvæði deiliskipulags svæðisins en að auki hafi svalirnar í för með sér meiri röskun á hagsmunum hans en við verði unað. Í skilmálum deiliskipulagsins sé tekið fram að lagt sé til að svip húsa verði sem minnst raskað, t.d. þaki og gluggagerðum, að við endurnýjun og viðgerðir húsa á reitnum skuli taka sérstakt tillit til upphaflegs stíls og að sýna þurfi aðgát við hönnun breytinga og viðbygginga. Sé breytingin á þaki Ægisíðu 74 langt frá því að vera í samræmi við þessa skilmála deiliskipulagsins. Raski hönnun þaksvalanna svip hússins verulega og ekki hafi verið tekið tillit til upphaflegs stíls þess.

Innsýn verði frá þaksvölunum á svalir og inn um stofuglugga kæranda. Þá verði hljóðbært frá þessum svölum en þær séu stórar og henti því til meiri notkunar og viðveru en ella, ekki síst þar sem gert sé þar ráð fyrir heitum potti. Telji kærandi að með heimiluðum svölum sé gengið með óhæfilegum hætti á hagsmuni hans. Séu svalir íbúðar hans stórar og hafi þær verið vel nýttar til útivistar. Hingað til hafi mikilvægur hluti af gæðum svalanna verið sá að þar hafi verið hægt að hafast við án teljandi innsýnar eða hávaða frá Ægisíðu 74. Hafi hann ekki getað gert sér það í hugarlund að nýting á þaki næsta húss myndi breytast með jafn afgerandi hætti á hans kostnað, enda ekki haft ástæðu til að ætla svo með hliðsjón af gildandi deiliskipulagi. Hafi hann mátt búast við litlum þaksvölum en ekki útivistarsvæði á borð við það sem í raun hafi orðið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því hafnað að hin kærða ákvörðun fari í bága við deiliskipulag Ægisíðu. Þar sem lóðir við Ægisíðu séu fullbyggðar sé í skipulaginu tekið fram að byggja megi svalir, þ.e. útistandandi svalir sem megi fara lítillega út fyrir byggingarreit. Hafi það ekki þótt fara húsinu að Ægisíðu 74 vel að vera með útstandandi svalir og af þeim sökum sé ekkert sagt um svalir í skilmálum þess húss í deiliskipulaginu. Inndregnar svalir séu hins vegar í samræmi við skipulag og sé þannig heimilt að byggja kvisti yfir 1/3 af þakfleti hússins. Hinar inndregnu svalir hafi rúmast innan þeirra heimilda en þær séu fjögurra metra breiðar og þakflöturinn 12 metrar. Séu inndregnar svalir á nokkrum öðrum húsum í götunni og raski þetta því ekki götumyndinni. Einnig séu mörg hús í götunni með kvistum. Rúmist svalirnar innan byggingarreits og muni þakkantar haldast óbreyttir. Að auki sé æskilegt að hafa svalir, m.a. með tilliti til brunavarna, en unnt sé að nýta þær sem flóttaleið. Þakgerðir húsa í götunni séu mjög fjölbreyttar og sé því alfarið hafnað að breytingin raski svip hússins á þann hátt að óviðunandi sé.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi skírskotar til þess að samkvæmt deiliskipulagi sé heimilað að reisa léttar viðbyggingar og byggja kvisti á húsið að Ægisíðu 74. Það eina sem sé bannað sé að breyta útliti þakkanta hússins. Kveði deiliskipulagið í heild ekki á um byggingu svala nema í tilfelli Ægisíðu 76 og 96, sem hafi þá verið einu fullbyggðu lóðirnar við götuna. Sé tekið fram að þrátt fyrir að lóðirnar séu fullbyggðar sé þar heimilt að byggja svalir. Slíka sérheimild til byggingar svala á fullbyggðum lóðum sé ekki hægt að túlka á þann hátt að óheimilt sé að byggja svalir á öllum öðrum húsum. Með breytingunni sé þakgerð hússins ekki breytt og aðeins tekið úr burðarviði og sperrum þar sem tekið sé úr fyrir þaksvölunum. Hafi þak Ægisíðu 74 verið, og sé, ósamhverft um miðju sem og grunnflötur hússins í heild. Húsin við Ægisíðu 50-98 hafi mismunandi þakmyndir og sé fjölbreytileikinn það mikill að ekki sé hægt að tala um heildarsvip hvað það varði. Falli inndregnu þaksvalirnar vel að útliti hússins og þakformi, en að auki séu þær mikilvæg flóttaleið. Sé ekki fallist á að notkun svalanna varði nágranna í næsta húsi, svo lengi sem farið sé að lögreglusamþykkt eða öðrum viðeigandi reglum um hegðun og velsæmi. Þá hljóti sjónarmið jafnræðisreglunnar að vega þungt þegar eigandi 15 m² hornsvala í einu húsi sé að agnúast út í 15 m² hornsvalir á því næsta.

Sú hagsmunaskerðing sem kærandi telji sig verða fyrir sé ekki raunveruleg, hvort sem um lífsgæði eða peningaleg verðmæti sé að ræða. Hafi meint verðmætarýrnun átt sér stað við samþykki deiliskipulagsins fyrir Ægisíðu en ekki við framkvæmdina sem hér um ræði. Kærandi hafi haft öll tækifæri til að andmæla þegar deiliskipulagsdrög hafi verið kynnt á sínum tíma.

Niðurstaða: Í málinu liggur fyrir að hin kærða stjórnvaldsákvörðun var tekin 19. mars 2013 og barst kæra í málinu 16. júlí s.á. Kærandi sendi byggingarfulltrúa athugasemdir í tölvupósti 14. júní s.á., vegna framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar, lýsir því að íbúar hússins hafi ekki gert sér grein fyrir breytingunum og áhrifum þeirra fyrr en þann dag og skorar á byggingarfulltrúa að afturkalla ákvörðun sína. Var kæranda svarað með tölvupósti 18. s.m. og frekari tölvupóstsamskipti áttu sér stað sama dag og 19. s.m. án þess að kæranda væri leiðbeint um kæruleiðir og kærufrest vegna greindrar ákvörðunar, svo sem rétt hefði verið að gera með hliðsjón af 1. mgr. 7. gr. og 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður hin umdeilda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars. 2013 því tekin til efnislegrar meðferðar, með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem afsakanlegt þykir í ljósi atvika að kæra hafi borist að liðnum þeim kærufresti sem tiltekinn er í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um leyfi byggingarfulltrúans í Reykjavík fyrir gerð inndreginna svala á þaki húss að Ægisíðu 74. Telur kærandi að nefndar svalir samræmist ekki gildandi deiliskipulagi og að með tilvist þeirra sé gengið á grenndarhagsmuni hans og verðmæti fasteignar hans rýrt. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Í gildi er deiliskipulag fyrir Ægisíðu frá árinu 2006. Í sérskilmálum fyrir lóð nr. 74 við Ægisíðu segir m.a. „Heimilt að auka byggingarmagn á lóðinni með því að byggja ris með kvistum sem falla vel að stíl hússins.“ Hins vegar er ekki tekið fram í greindum lóðarskilmálum að heimilt sé að byggja svalir.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að einhver hækkun hefur orðið á sjónlínu inn á svalir kæranda með tilkomu hinna umdeildu þaksvala. Hins vegar verður að meta umrædd grenndaráhrif með hliðsjón af heimildum þeim sem felast í deiliskipulagi. Líkt og áður greinir er þar að finna heimild fyrir byggingu á risi með kvistum á Ægisíðu 74. Verður að telja að bygging á slíku risi með kvistum myndi hafa svipuð grenndaráhrif og hinar umþrættu þaksvalir hvað innsýn varðar. Þá verður ekki séð að áhrif af byggingu þaksvalanna, með tilliti til hljóðvistar, yrðu umtalsvert meiri en almennt má búast við frá svölum húsa. Að þessu virtu, og þegar hafðar eru í huga heimildir deiliskipulags fyrir byggingu á risi með kvistum á húsið að Ægissíðu 74 og ákvæði almennra skilmála skipulagsins um svalir húsa, verður að telja að bygging umræddra þaksvala rúmist innan heimilda skipulagsins og brjóti ekki gegn grenndarhagsmunum kæranda þannig að ógildingu varði.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 um að veita leyfi til að stækka núverandi þakglugga hússins að Ægisíðu 74, Reykjavík og byggja þar inndregnar þaksvalir, færa útidyr á norðvesturhlið yfir á norðausturhlið, bæta við nýjum útgangi á suðausturhlið og samþykkja ýmsar breytingar á fyrirkomulagi innanhúss.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson