Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

91/2014 Glerárgata

Árið 2014, föstudaginn 3. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011fyrir:

Mál nr. 91/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar frá 6. maí 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir miðbæ Akureyrar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir F, Hafnarstræti 10, Akureyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar frá 6. maí 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir miðbæ Akureyrar. Deiliskipulagið var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 22. júlí s.á.

Verður að skilja kæruna svo að krafist sé ógildingar á þeim hluta deiliskipulagstillögunnar er varðar þrengingu Glerárgötu.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Akureyrarbæ 19. september 2014.

Málsatvik og rök: Kærandi er íbúi á Akureyri. Hinn 18. febrúar 2014 samþykkti bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Akureyrar. Samkvæmt deiliskipulagstillögunni er gert er ráð fyrir að breyta Glerárgötu frá Kaupvangsstræti norður að gatnamótum Grænugötu úr fjórum akreinum í tvær en um leið yrði tryggt að hægt yrði að breikka hana á ný í fjórar ef þörf væri á. Umferðarhraða yrði breitt úr 50 km/klst. í 40 km/klst. á kaflanum Grænugata/Smáragata að Kaupvangsstræti og á þeim kafla yrði ein akrein í hvora átt í stað tveggja. Frestur til að skila inn athugasemdum var frá 21. febrúar til 6. apríl 2014. Alls bárust 22 athugasemdir, þar á meðal frá kæranda þar sem hann mótmælti þrengingu Glerárgötu og fyrirhugaðri lækkun umferðarhraða úr 50 km/klst. í 40 km/klst., og úr 40 km/klst. í 30 km/klst. Að auki gerði kærandi athugasemdir við að notaðir væru norskir staðlar við áætlun umferðar. Skipulagsstjóri Akureyrarbæjar svaraði kæranda með bréfi, dags. 8. maí 2014, þar sem kom fram að með breytingu á umferðarhraða og fækkun akreina yrði gatan öruggari og umhverfið rólegra og skemmtilegra. Tillit hefði verið tekið til athugasemda Vegagerðarinnar og hámarkshraði færður í 40 km/klst. í stað 30 km/klst. Þá gæti einbreið Glerárgata þjónað umferðinni í fyrirsjáanlegri framtíð. Deiliskipulagstillagan var samþykkt af bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar 6. maí 2014 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 22. júlí s.á.

Kærandi vísar til þess að skortur hafi verið á rannsóknum og talningu við gerð deiliskipulagsins og að athugasemdum hans hafi ekki verið svarað á fullnægjandi hátt. Þá telji hann ekki hafa legið fyrir fullnægjandi rök fyrir því af hverju stuðst hafi verið við erlenda staðla.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að málinu verði vísað frá. Kærandi vísi ekki til lögvarinna hagsmuna sinna heldur fyrst og fremst til vinnubragða bæjarins við feril deiliskipulagsmálsins. Hafi kærandi þar af leiðandi ekki byggt á því að deiliskipulagið muni hafa íþyngjandi áhrif á einstaklega og lögvarða hagsmuni hans. Þá búi kærandi ekki innan þess svæðis sem deiliskipulagið taki til og ekki hafi verið sýnt fram á að það hafi áhrif á hagsmuni hans að öðru leyti.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Í kæru heldur kærandi því fram að vinnu við gerð deiliskipulagsins hafi verið ábótavant og að svar skipulagsstjóra við  athugasemdum hans sem og rökstuðningur fyrir notkun á erlendum stöðlum hafi ekki verið fullnægjandi. Deiliskipulagssvæðið tekur til miðbæjar Akureyrar og er kærandi búsettur utan þess í um kílómeters fjarlægð frá suðurenda Glerárgötu þar sem hún mun þrengjast. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsákvörðun, hvað þrengingu Glerárgötu varðar, snerti lögvarða hagsmuni kæranda þannig að skapi honum kæruaðild. Þá eiga undantekningartilvik nefndrar lagagreinar ekki við í málinu. Þar sem ekki þykir sýnt fram á kæruaðild í málinu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir