Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

28/2013 Hólmgarður

Árið 2014 þriðjudaginn 30. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 28/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir R, Hólmgarði 2, Reykjavík, erindi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem tilkynnt var í bréfi til kæranda, dags.13. febrúar 2013, þar sem farið var fram á að óskráður hundur á vegum kæranda yrði fjarlægður frá Hólmgarði 2 innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins og áréttuð sú krafa að skráður hundur kæranda yrði ekki hafður í sameiginlegum rýmum eða garði hússins. Skilja verður málskot kæranda svo að krafa heilbrigðiseftirlitsins, um að hinn óskráði hundur verði fjarlægður, verði felld úr gildi.  

Umbeðin gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hinn 15. apríl 2013.

Málsatvik og rök:  Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu mun kærandi hafa haldið tvo hunda í íbúð sinni að Hólmgarði 2 í Reykjavík.  Leyfi hefur verið veitt fyrir öðrum hundinum á umræddum stað en hinn hundurinn mun hafa verið í umsjá kæranda um nokkurn tíma án þess að leyfi hafi verið veitt fyrir því að halda hundinn á nefndum stað. Í kjölfar kvartana íbúa að Hólmgarði 2 sendi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kæranda bréf, dags. 13. febrúar 2013, með yfirskriftinni „Óleyfis hundur – lokaviðvörun“. Í bréfinu er vísað til fyrri bréfaskrifta eftirlitsins til kæranda vegna hins óskráða hunds sem heilbrigðiseftirlitið hvað sig ekki geta veitt leyfi fyrir sökum ofnæmis sameiganda að fyrrgreindri fasteign, Var farið fram á að hundurinn yrði fjarlægður frá Hólmgarði 2 innan tilskilins frests og að hundur kæranda sem leyfi var fyrir yrði ekki hafður í sameiginlegum rýmum hússins eða í sameiginlegum garði.  Er greint bréf tilefni málskots kæranda.

Kærandi vísar til þess að þær tvær íbúðir sem séu að Hólmgarði 2 hafi sérinngang en garður sé sameiginlegur.  Mikið hafi gengið á í samskiptum kæranda og íbúa í húsinu vegna hunda- og kattahalds kæranda og kvartanir ítrekað sendar heilbrigðiseftirliti. Staðhæfingar um óþrifnað í sameiginlegum garði hússins vegna hunda á vegum kæranda séu tilhæfulausar en lausagöngukettir geri þar þarfir sínar sem annars staðar. Dregið sé í efa að hundahald kæranda valdi íbúa hússins ofnæmi enda um engan samgang að ræða eða sameiginleg rými þar sem gæludýr kæranda séu. Hundur sé haldinn að Hólmgarði 4, sem sé sambyggt húsinu að Hólmgarði 2, sem sé nær íbúð nefnds íbúa en íbúð kæranda. Kærandi og dóttir hennar hafi sætt hótunum og ofbeldi af hálfu fyrrgreinds íbúa og sambýlismanns hennar og sé það ósk kæranda að leyfi verði veitt fyrir umræddum hundi svo þessu linni.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er á það bent að eftirlitið hafi haft afskipti af hundahaldi kæranda vegna kvartana um óþrif á lóð Hólmgarðs 2 vegna hunds sem ekki hafi verið veitt leyfi fyrir. Borist hafi staðfesting á því að íbúi í húsinu sé haldinn ofnæmi fyrir hundum. Farið hafi verið fram á að skráður hundur kæranda yrði ekki hafður í sameiginlegum rýmum og garði hússins og farið fram á að hinn óskráði hundur yrði fjarlægður. Vísa beri máli þessu frá þar sem ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun af hálfu heilbrigðiseftirlitsins.        

Niðurstaða: Í bréfi því frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til kæranda sem er tilefni kærumáls þessa er tekið fram að um lokaviðvörun sé að ræða. Eins og fyrr er rakið var í bréfinu farið fram á að óskráður hundur á vegum kæranda yrði fjarlægður frá Hólmgarði 2 svo ekki þyrfti að koma til frekari aðgerða. Þá var þar áréttað að skráður hundur kæranda yrði ekki hafður í sameiginlegum rýmum  eða garði greinds húss.

Með hliðsjón af tilvitnuðu orðalagi bréfsins verður ekki talið að í því hafi falist lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina heldur hafi verið um að ræða áskorun og tilmæli. Þá liggur fyrir samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands að kærandi hefur selt íbúð sína að Hólmgarði 2 samkvæmt kaupsamningi dags. 28. júní 2013 og afsali, dags. 2. september s.á. og afhent nýjum eiganda 1. september 2013. Liggur því fyrir að kærandi heldur ekki lengur hund í fyrrgreindri fasteign.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson