Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

94/2012 Hásteinn

Árið 2014, föstudaginn 10. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 94/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 um að heimila breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2012, er barst nefndinni 1. október s.á., kærir Steinberg Finnbogason hdl., f.h. I og A, Áshamri 49, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 að samþykkja tillögu að breytingu að deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum. Öðlaðist breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. ágúst 2012. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ hinn 15. nóvember 2012.

Málsatvik: Hinn 14. mars 2007 tók gildi deiliskipulag fyrir íþrótta- og útivistarsvæði við Hástein. Skipulagssvæðið er í norðvestanverðum jaðri bæjarins og afmarkast af Hamarsvegi í norðri og vestri, íbúðarbyggð við Áshamar og Bessahraun í suðvestri, Hraunvegi í suðri og íbúðarbyggð við Illugagötu og Brekkugötu í austri. Í maí 2007 var staðfest í bæjarstjórn breyting á téðu deiliskipulagi er gerði ráð fyrir að tjaldsvæði yrði staðsett við Þórsheimili, en sú breyting mun ekki hafa tekið gildi. Á árinu 2010 tók gildi breyting á umræddu deiliskipulagi. Fól breytingin í sér að afmarkað var tjaldsvæði frá Þórsheimili og austur í átt að íþróttamiðstöð við Illugagötu. Sætti ákvörðunin kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Bæjarstjórn Vestmannaeyja afturkallaði þá ákvörðun, þar sem ósamræmi væri á milli gildandi aðalskipulags og nefndrar breytingar, en ekki var í aðalskipulagi gert ráð fyrir tjaldsvæði á nefndu svæði. Var málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í kjölfar þessa var unnin tillaga að breytingu á aðalskipulagi Vestmannaeyja er gerði m.a. ráð fyrir að heimilað yrði tjaldsvæði á íþróttasvæði við Hástein. Samhliða því hófst hjá Vestmannaeyjabæ vinna við gerð tillögu að breyttu deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein. Tillaga þess efnis var kynnt á opnum fundi hinn 24. apríl 2012 og sama dag var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagslagsráðs að auglýsa til kynningar tillögu að breyttu deiliskipulagi umrædds svæðis. Samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 26. s.m. Fól tillagan m.a. í sér að afmarkað yrði 7.900 m² svæði sunnan og austan við Þórsheimili fyrir tjaldsvæði sem og byggingarreitur fyrir hótel í Hásteinsgryfju. Bárust tvær athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum.

Deiliskipulagstillagan var tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 27. júní 2012 og var hún samþykkt með breytingum er fólu m.a. í sér að á skipulagsuppdrátt yrði sett inn hljóðmön á mótum tjaldsvæðis og íbúðarbyggðar við Áshamar og jafnframt yrði kveðið á um hljóðvarnir í skilmálum. Þá var skipulagsfulltrúa falið að gera breytingar á skipulagsgögnum og svara innsendum athugasemdum í samræmi við framlagða greinargerð skipulagsráðgjafa. Var málinu vísað til bæjarstjórnar er samþykkti framangreinda afgreiðslu á fundi hinn 28. júní 2012. Var Skipulagsstofnun tilkynnt um afgreiðslu málsins og með bréfi stofnunarinnar, dags. 18. júlí s.á., kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt breytingarinnar að ákveðnum atriðum leiðréttum, s.s. að skilgreina þyrfti göngustíga á uppdrætti og að sparkvöllur væri tilgreindur sem tjaldsvæði, en ekki kæmi fram í greinargerð að svo væri.

Fyrrgreind breyting á aðalskipulagi Vestamanneyja var að kynningu lokinni samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 28. júní 2012 og tók gildi 10. ágúst s.á. Þá öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. ágúst s.á., og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar að því er varðar heimild til staðsetningar tjaldsvæðis við Þórsheimili.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að starfrækt hafi verið tjaldsvæði við mörk lóðar þeirra í andstöðu við aðalskipulag og deiliskipulag í fimm ár. Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið, samþykktu í febrúar 2007, sé svæðið merkt sem leiksvæði. Breyting á nefndu deiliskipulagi, sem samþykkt hafi verið í maí 2007, hafi gert ráð fyrir að tjaldsvæði yrði staðsett við Þórsheimili, á reit U2. Hafi breytingin ekki rúmast innan samþykkts aðalskipulags og því verið ólögmæt. Í júní s.á. hafi umhverfis- og skipulagsráð veitt leyfi til framkvæmda á fyrirhuguðu tjaldsvæði, svo sem lagningu vegar, göngustíga og grindverks. Telji kærendur, með vísan til 11. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, að óheimilt hafi verið að samþykkja ákvörðun þá sem nú sé kærð nema að því undangengnu að þær framkvæmdir sem farið höfðu í bága við eldra skipulag yrðu fjarlægðar.

Með hinni kærðu ákvörðun sé verulega vegið að hagsmunum kærenda. Mikið ónæði stafi frá gestum tjaldsvæðisins og hafi þeir ítrekað raskað nætursvefni kærenda. Óþrifnaður frá svæðinu sé mikill og aukin og óásættanleg umferð fylgi starfseminni. Sé ónæðið langt umfram það sem kærendur hafi mátt vænta er þeir hafi keypt fasteign sína. Gengið sé verulega gegn friðhelgi einkalífs kærenda og hafi þeir orðið fyrir eignaspjöllum vegna þessa. Þá rýri starfsemin verðgildi fasteignar þeirra.

Hafa verði í huga þá meginreglu eignarréttarins, sem byggi m.a. á 72. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944, um að menn eigi ákveðinn rétt til hagnýtingar á eigin eignum. Verði takmörkun á þeim rétti að skýra þröngt og byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Svo hátti ekki hér en margir staðir séu ákjósanlegri fyrir tjaldsvæði í Vestmannaeyjum en umrætt svæði. Jafnframt sé vísað til 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en telja verði að Vestamannaeyjabær hafi við ákvarðanatöku borið að gæta hagsmuna kærenda og annarra íbúa sem ítrekað hafi mótmælt tjaldsvæði svo nærri íbúðarbyggð. Einnig sé bent á 32. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skuli þess gætt að ónæði berist ekki frá tjaldsvæði til nærliggjandi húsa. Muni mótvægisaðgerðir, sem ætlaðar séu til að draga úr hávaða á svæðinu, ekki skila árangri þar sem tjaldsvæðið liggi að lóðarmörkum kærenda. Verði sú skerðing á friðhelgi heimilisins sem þeir þurfi að þola ekki bætt með öðru móti en því að tjaldsvæðið verði flutt fjær íbúðarbyggð.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Vestmannaeyjabær hafnar því að ógilda beri hina kærðu ákvörðun. Framkvæmdir sem vísað sé til séu fyllilega lögmætar. Þær hafi verið gerðar á grundvelli gildandi deiliskipulags og hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi vegna þeirra 2. mars 2011. Leiði breyting á deiliskipulagi ekki til þess að fyrra deiliskipulag hafi verið ólögmætt. Um uppsetningu girðingar og lagningu gönguslóða hafi verið að ræða. Girðingin sé um 1,4 m há og vel innan lóðarmarka íþróttasvæðis og hafi því í raun ekki verið leyfisskyld, sbr. 67. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Vegna lagningu malarslóða sé vísað til þess að gert hafi verið ráð fyrir göngu- og hlaupaslóðum á svæðinu í eldra deiliskipulagi frá mars 2007 og því hafi breyting á umræddu deiliskipulagi er tekið hafi gildi árið 2010 ekki verið forsenda fyrir lagningu malarslóðans.

Í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 1975-1995 hafi umrætt svæði verið skilgreint sem íþrótta- og útivistarsvæði og hafi íbúðarbyggð við svæðið byggst upp eftir þann tíma. Sú notkun sem nú sé á svæðinu geti því ekki komið á óvart. Hvorki hafi verið brotið gegn þeim tilgreindu laga- og reglugerðarákvæðum sem kærendur vísi til né gegn eignarrétti þeirra og séu engin efnisleg rök færð fyrir slíku broti. Við mat á staðsetningu tjaldsvæðis hafi verið færð fram málefnaleg rök á fyrri stigum auk þess sem gætt verði að fremsta megni að ónæði frá svæðinu verði sem minnst, m.a. með gerð hljóðmanar sem búið sé að veita framkvæmdaleyfi fyrir. Í þéttbýli verði aldrei hjá því komist að ónæði hljótist af nábýli við íbúa eða lögmæta starfsemi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 um að heimila þá breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein í Vestmannaeyjum að tjaldsvæði skuli staðsett sunnan og austan við Þórsheimili.

Samkvæmt Aðalskipulagi Vestamannaeyja 2002-2014 er umrætt svæði merkt U2, opin svæði til sérstakra nota, en þau voru skilgreind svo í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að um væri að ræða svæði með útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert væri ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar væri stunduð, s.s. tjald- og hjólhýsasvæði. Í aðalskipulaginu, svo sem því var breytt með samþykkt bæjarstjórnar 28. júní 2012, er nú einnig heimilt að nýta grassvæði innan íþróttasvæðis sem tjaldsvæði og er sérstaklega tilgreint að heimilt verði að nýta grassvæði við Þórsheimili undir tjaldsvæði. Er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana fullnægt með breytingu þessari. Er landnotkun mörkuð í aðalskipulagi og sætir hún ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.

Í málsrökum sínum hafa kærendur vísað til 11. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, sem í gildi var er hin kærða ákvörðun var tekin, en tilvitnað ákvæði kvað á um að óheimilt væri að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefði verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega framkvæmd hefði verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Nefnt ákvæði átti sér stoð í 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Samkvæmt núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010, sem í gildi voru við hina kærðu ákvörðunartöku, getur skipulagsfulltrúi nú krafist þessa, sbr. 3. mgr. 53. gr. laganna, en ber ekki skylda til greindra aðgerða.

Almannahagsmunir, þróun byggðar, skipulagsrök eða önnur málefnaleg sjónarmið geta knúið á um breytingu á gildandi deiliskipulagi, einkum þegar skipulag er komið til ára sinna. Ber sveitarfélaginu m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Eru kröfur í aðalskipulagi um að tryggja þurfi góða hljóðvist í nágrenni við tjaldsvæðið og kvöð um hljóðvörn á mótum tjaldsvæðis og íbúðarbyggð við Áshamars, sem lögð er á í hinu umdeilda deiliskipulagi, til þess fallnar að draga úr áhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar. Þá er og bent á að einstaklingum er tryggður bótaréttur í 51. gr. skipulagslaga sé sýnt fram á að skipulagsáætlanir valdi tjóni.

Að öllu framangreindu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði er kröfu kærenda um ógildingu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:


Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 um að heimila breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum.

___________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________            ___________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                            Þorsteinn Þorsteinsson