Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11/2012 Frístundabyggð í Grímsnes- og Grafningshrepps

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 13. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 11/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. desember 2011 um að synja um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests í Grímsnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. febrúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir J þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. desember 2011 að synja um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málavextir: Málið á sér nokkra forsögu en á árinu 2007 voru tillögur að breyttu deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests auglýstar til kynningar. Bárust athugasemdir á kynningartíma og í framhaldi af því mun málið hafa farið í bið. Hinn 21. september 2011 var, í kjölfar endurnýjaðrar umsóknar um breytt deiliskipulag Hests, samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps að auglýsa að nýju breytingartillögur að umræddu deiliskipulagi. Þá var samþykkt að tilkynna þeim sérstaklega um auglýsinguna sem áður höfðu komið að athugasemdum. Staðfesti sveitarstjórn téða afgreiðslu hinn 5. október s.á.

Fólu tillögurnar annars vegar í sér að tvær u.þ.b. 0,8 ha frístundalóðir nr. 133 og nr. 138 kæmu í framhaldi af lóðum nr. 131 og nr. 136, þ.e. við enda vegar austast á svæðinu. Hins vegar yrði tveimur 0,8 ha frístundalóðum, nr. 5C og nr. 7C, bætt við í framhaldi af lóðum nr. 5B og 7B, þ.e. við enda vegar nyrst á svæðinu. Bárust athugasemdir frá eigendum lóða nr. 131, 136, 7B og frá Hesti, félagi landeigenda á svæðinu. Síðastnefndar athugasemdir voru afturkallaðar með bréfi formanns stjórnar félagsins, dags. 7. mars 2012, eða eftir að hin kærða ákvörðun var tekin.

Breytingartillögurnar voru teknar fyrir í skipulags- og byggingarnefnd hinn 15. desember 2011 og afgreiddar með svohljóðandi hætti: „Lagðar fram að lokinni auglýsingu tvær tillögur að breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests. Í tillögunum felast að lóðum er fjölgað um samtals fjórar á tveimur svæðum. Tillögurnar voru auglýstar til kynningar 13. október 2011 með athugasemdafresti til 24. nóvember. Athugasemdir bárust og eru þær lagðar fram ásamt umsögn landeigenda um þær. Vegna innkominna athugasemda er fallið frá auglýstum breytingum á deiliskipulagi svæðisins.“ Staðfesti sveitarstjórn nefnda afgreiðslu hinn 21. s.m. og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að eigandi jarðarinnar Hests hafi fengið núgildandi deiliskipulag samþykkt. Land það sem deiliskipulagið taki til liggi meðfram Hvítá í suðvestur, landamerkjum við Kiðjaberg í vestur, að línu skammt frá Hestvatni í norður, undir og meðfram klettabelti í Hestfjalli í norðaustur og að línu skammt frá Torfgili í suður. Telji kærandi að landfræðilega séð sé ekki hægt að fjölga lóðum á svæðinu umfram þær sem nú sé beðið um. Sé umbeðin stækkun svæðisins ákaflega lítil í hlutfalli við þegar skipulagt svæði, en þar séu 136 lóðir. Falli breytingin einkar vel að núgildandi deiliskipulagi og landslagi svæðisins og að stærð lóða og lögun. Valdi hún engum breytingum hjá eigendum annarra lóða á svæðinu, nema hjá þeim fjórum sem eigi lóðir sem liggja muni að hinum nýju lóðum. 

Rekur kærandi athugasemdir þær er bárust og leggur áherslu á í andsvörum að lóð 7B hafi við sölu verið endalóð, en hún hafi verið seld á sama verði og næsta lóð, þ.e. lóð nr. 7A, sem ekki sé endalóð. Því verði ekki um fjárhagslegt tap að ræða hjá eigendum lóðar nr. 7B við breytingarnar. Þá hafi í afsali um lóðina ekki verið að finna ákvæði um að skipulagi yrði ekki breytt. Lóð nr. 131 hafi verið keypt af einkaaðila og hafi sá aðili ekki, svo gilt sé, getað gefið yfirlýsingu um að lóðin yrði ávallt endalóð, þótt hún hafi verið það við söluna. Sömu sjónarmið eigi við vegna lóðar nr. 136. Einnig sé bent á að í athugasemdum eiganda lóðar nr. 136 hafi engin rök verið færð fyrir því hvernig þessi breyting geti skaðað hagsmuni hans. Fyrirhugaðar lóðir nr. 133 og nr. 138 liggi mun lægra en umræddar lóðir þannig að ekki sé mikil hætta á að gróður eða mannvirki hindri útsýni og sé tekið fram að enginn muni þurfa að aka fram hjá fyrirhuguðum lóðum til að komast á sína lóð.

Eins og fyrr greinir afturkallaði Hestur landeigendafélag athugasemdir sínar og bendir kærandi á að ekki verði séð af svörum skipulags- og byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. nóvember 2012, að það erindi Hests landeigendafélags hafi borist honum eða að hann hafi tekið tillit til þess í ákvörðun sinni. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins voru send gögn er málið varðar og greinargerð og er þar byggt á sömu sjónarmiðum og við afgreiðslu málsins sem áður hafa verið rakin.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun sveitarstjórnar á að breyta deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests. Líkt og rakið hefur verið bárust athugasemdir á kynningartíma og vegna þeirra var fallið frá auglýstum breytingum á deiliskipulagi svæðisins, samanber bókun skipulags- og byggingarnefndar, er sveitarstjórn staðfesti 21. desember 2011.

Sveitarfélagi er falið víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags, líkt og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og heyrir það undir sveitarstjórn að samþykkja deiliskipulag endanlega, sbr. 40. til 42. gr. laganna, og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Getur landeigandi óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað skv. 2. mgr. 38. gr. sömu laga, en ekki verður talið að hann eigi lögvarða kröfu til þess að knýja á um breytingu.

Athugasemdir eigenda lóða nr. 131, 136 og 7B beinast að því að þeir hafi talið að um endalóðir hafi verið að ræða er þeir festu kaup á lóðum sínum. Þá telur eigandi lóðar nr. 131 m.a. að breytingarnar muni rýra verðgildi eignarinnar og raska friðhelgi. Eigendur lóðar nr. 7B telja að breytingin muni rýra mjög gæði lands þeirra, en þau hafi við kaup á landinu talið sig fá óhindrað útsýni og að fyrirhugaður bústaður þeirra yrði næst vatninu.

Telja verður að synjun sveitarstjórnar á fram komnum tillögum hafi verið málefnaleg. Var henni heimilt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins sjónarmið er fram komu í gerðum athugasemdum, en umdeildar breytingar gátu raskað einstaklegum hagsmunum þeirra er athugasemdirnar gerðu. Breytir engu þar um þótt athugasemdir Hests landeigendafélags hafi verið afturkallaðar eftir að ákvörðun var tekin í málinu enda liggur ekkert fyrir í gögnum málsins um að aðrar þær athugasemdir sem áður er lýst hafi verið afturkallaðar. Þá verður eins og fyrr segir ekki talið að kærandi hafi átt lögvarða kröfu til að knýja á um breytingar á deiliskipulagi.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfu kæranda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. desember 2011 um að synja um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

118/2012 Þórsgata

Með

Árið 2014, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 118/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr. sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra K og Í, Þórsgötu 13, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 17. október 2012 á umsókn um breytt deiliskipulag lóðar þeirra. 

Kærendur krefjast þess að afgreiðslu skipulagsráðs verði hnekkt og að því verði gert að taka málið til umfjöllunar að nýju á grundvelli fyrri ákvarðana þess og umsagnar fyrrverandi lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur. 

Málsatvik og rök: Kærendur eru búsettir í einbýlishúsi á lóð nr. 13 við Þórsgötu í Reykjavík. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi Þórsgötureits er gert ráð fyrir bílastæðum framan við hús kærenda. Í júní 2007 var á fundi skipulagsráðs tekin fyrir fyrirspurn kærenda um hvort heimilað yrði að leggja niður eitt almenningsbílastæði framan við hús þeirra til að rýma fyrir innkeyrslu inn á lóðina þar sem yrðu þrjú bílastæði. Fyrir lá jákvæð umsögn framkvæmdasviðs um erindið. Var m.a. fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við erindið og að sækja þyrfti um byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 30. september 2008 var lögð fram umsókn um leyfi til að gera innkeyrslu og koma fyrir tveimur bílastæðum á lóð kærenda. Var afgreiðslu málsins frestað og fært til bókar að með vísan til umsagnar skipulagsstjóra væri ekki gerð athugasemd við að umsækjandi gerði breytingu á deiliskipulagi í samræmi við erindið og yrði slík tillaga grenndarkynnt.

Í september 2011 var tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulagsstjóra fyrirspurn kærenda að breyttu deiliskipulagi Þórsgötureits og hún afgreidd neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra. Komu kærendur á framfæri athugasemdum við afgreiðslu skipulagsstjóra og fóru fram á að veittar yrðu leiðbeiningar við gerð nýrrar tillögu til að tryggja að hún yrði í samræmi við fyrri afgreiðslur skipulags- og byggingaryfirvalda. Á fundi skipulagsráðs hinn 22. febrúar 2012 var tekin fyrir tillaga kærenda, dags. 8 desember 2011, um breytt deiliskipulag Þórsgötureits sem fól í sér breyttan byggingarreit á lóð kærenda og tilhögun bílastæða. Jafnframt var lögð fram önnur tillaga þar sem gert var ráð fyrir frávikum frá fyrri tillögu. Tók skipulagsráð erindið fyrir sem fyrirspurn og afgreiddi með neikvæðum hætti.  Erindi kærenda var lagt fram að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 17. október 2012 og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Synjað. Skipulagsráð fellst ekki á að breyta deiliskipulagi á þann hátt sem lagt er til í tillögunni.“ Hinn 18. október 2012 var fundargerð skipulagsráðs lögð fram í borgarráði sem samþykkti B-hluta fundargerðarinnar.    

Kærendur skírskota til þess að hvorki sé í hinni kærðu ákvörðun tilgreind ástæða né gefinn rökstuðningur fyrir synjuninni. Erindinu muni hafa verið hafnað vegna andstöðu við að fjarlægja ætti bílastæði af götu en það hafi þegar verið samþykkt af skipulagsráði.  Hafi skipulagsyfirvöld ítrekað afgreitt málið í mótsögn við afgreiðslu skipulagsráðs frá því í júní 2007, þrátt fyrir að tillagan hafi verið útfærð í samræmi við leiðbeiningar starfsmanna skipulagsyfirvalda.

Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað. Stjórnvald geti breytt afstöðu sinni að vissum skilyrðum uppfylltum og hafi það átt við hér. Skipulagsyfirvöld hafi á grundvelli málefnalegra sjónarmiða komist að annarri niðurstöðu nú. Afgreiðsla erindis kærenda í júní 2007 hafi verið svar við fyrirspurn kærenda en ekki afgreiðsla á umsókn. Fimm árum síðar hafi önnur sjónarmið verið til staðar þegar að endanlegri afgreiðslu hafi komið og því þurfi kærendur að sæta.  

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun skipulagsráðs  Reykjavíkur á beiðni um breytt deiliskipulag fyrir Þórsgötureit. Skipulagsráð afgreiddi beiðnina á fundi 17. október 2012 og var fundargerð ráðsins skipt í tvískiptan A-hluta sem fjallaði um skipulagsmál, B-hluta sem fjallaði um byggingarmál, C-hluta um fyrirspurnir og D-hluta ýmis mál. Mál það sem hér er um deilt var afgreitt í fyrri A-hluta fundargerðarinnar. Fundargerðin var lögð fram á fundi borgarráðs daginn eftir þar sem bókað var að borgarráð samþykkti B-hluta fundargerðarinnar en ekki var fjallað um afgreiðslu skipulagsráðs á áðurgreindri beiðni.

Sveitarstjórnir annast gerð deiliskipulags og breytingu á því, sbr. 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni kynningu á deiliskipulagstillögu skal skv. 4. ml. 4. mgr. 4. gr. laganna leggja hana fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, en sveitarstjórn er heimilt að framselja vald sitt með því að fela skipulagsnefnd eða öðrum í stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. og 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. 

Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skulu í Reykjavík lagðar fyrir borgarráð eða borgastjórn. Innihaldi fundargerðir ályktanir eða tillögur sem þarfnast staðfestingar borgarráðs eða borgarstjórnar ber að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti, sbr. 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og 60 gr. samþykktar nr. 1200/2007. Í 12. gr. samþykktar fyrir Skipulagsráð Reykjavíkurborgar frá 5. apríl 2005, sem gilti þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin, sbr. 1. gr. viðauka 1.1 nefndrar samþykktar nr. 1200/2007, eru talin upp þau verkefni sem skipulagsráði er heimilt að afgreiða án staðfestingar borgarráðs. Verður að skilja tilvitnuð ákvæði á þann veg að skipulagsráði sé ekki heimilt að synja gerð deiliskipulags án staðfestingar borgarráðs enda er slíka afgreiðslu ekki að finna í hópi þeirra verkefna er talin eru í áðurnefndri 12. gr.  Borgarráð þurfti því að staðfesta hina umdeildu ákvörðun skipulagsráðs um að synja beiðni um breytt deiliskipulag fyrir Þórsgötureit.

Fundargerð borgarrráðs frá 18. október 2012 ber með sér samþykki á B-hluta fundargerðar skipulagsráðs frá 17. október 2012 en ekki var fjallað um afgreiðslu skipulagsráðs á beiðni kæranda sem var að finna í fyrri A-hluta fundargerðar skipulagsráðs. Með því að ekki liggur fyrir í málinu að borgarráð hafi tekið hina kærðu afgreiðslu skipulagsráðs fyrir og afgreitt í samræmi við  1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og 60 gr. samþykktar nr. 1200/2007 verður ekki litið svo á að hún hafi falið í sér ákvörðun sem bindi enda á mál og sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærunni því vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________________
Nanna Magnadóttir

68/2011 Hólmsheiði

Með

Árið 2014, föstudaginn 14. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2011, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst 2011 um að endurnýja framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. september 2011, er barst nefndinni 19. s.m., kærir Þ, eiganda lands nr. 113435 í Reynisvatnslandi, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst 2011 að endurnýja framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði í Reykjavík. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Verður málið nú tekið til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Hinn 14. desember 2010 tók gildi deiliskipulag vegna jarðvegsfyllingar og miðlunargeyma á Hólmsheiði.  Skipulagsákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndarinnar og stóð kærandi í máli þessu meðal annars að þeirri kæru.  Hinn 28. júlí 2011 sótti framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkur um endurnýjun á framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði og samþykkti skipulagsráð þá umsókn hinn 17. ágúst s.á. með vísan til 12. gr. samþykktar um skipulagsráð.  Framkvæmdaleyfið var síðan gefið út hinn 9. september 2011.

Kærandi vísar um málsatvik og málsástæður til kærumáls síns vegna fyrrgreinds deiliskipulags Hólmsheiðar, en í því máli sé höfð uppi krafa um ógildingu skipulagsins.  Styðjist hið kærða framkvæmdaleyfi við deiliskipulag sem haldið sé ógildingarannmörkum og beri af þeim sökum að fella leyfið úr gildi.   

Reykjavíkurborg andmælir ógildingarkröfu kæranda.  Framkvæmdaleyfið sé í samræmi við deiliskipulag sem samþykkt hafi verið af borgarráði 4. nóvember 2010.  Það sæti ekki endurskoðun í máli þessu og því hafi ekki verið hnekkt.  

Niðurstaða:  Af hinu kærða framkvæmdaleyfi verður ráðið að heimiluð sé losun á 1,7 milljón m3 af ómenguðum jarðvegi á 32 ha landi á Hólmheiði til viðbótar við tvær milljónir m3 jarðvegs sem þegar hafi verið losaðir á svæðinu.   

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli um gildi deiliskipulags þess sem hið kærða framkvæmdaleyfi styðst við og var skipulagið fellt út gildi m.a. með hliðsjón af því að fyrrgreind jarðvegslosun hafi farið í bága við ákvæði þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Hið kærða framkvæmdaleyfi er sömu annmörkum háð og á ekki lengur  fullnægjandi stoð í gildandi skipulagi.  Verður hin kærða ákvörðun þegar af þeim ástæðum felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst 2011 um að veita framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði í Reykjavík.

____________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                               Hildigunnur Haraldsdóttir

 

27/2009 Njálsgata

Með

Árið 2014, miðvikudaginn 5. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. mars 2009 um að samþykkja veitingu byggingarleyfis fyrir gerð sólpalls við einbýlishúsið að Njálsgötu 28 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. apríl 2009, er barst nefndinni 21. s.m., kærir Hvítsól ehf., eigandi fasteignarinnar að Frakkastíg 17, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. mars 2009 að samþykkja veitingu byggingarleyfis fyrir gerð sólpalls við einbýlishúsið að Njálsgötu 28 í Reykjavík með því skilyrði að leyfishafi fjarlægi óleyfisgirðingu og girðingarstaura í lóðarmörkum og að frágangur á lóðarmörkum verði háður samþykki rétthafa aðliggjandi lóðar.  Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu hinn 2. apríl 2009.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 20. febrúar 2009 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort leyft yrði að útbúa sólpall á lóð einbýlishússins að Njálsgötu 28 í samræmi við útlitsteikningu sem erindinu fylgdi.  Málinu var vísað til umsagnar skipulagsstjóra og á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 17. febrúar 2009 var bókað að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið með vísan til umsagnar skipulagsstjóra.  Í kjölfar þess var sótt um byggingarleyfi fyrir sólpallinum sem samþykkt var á fundi byggingarfulltrúa hinn 31. mars 2009 með svofelldri bókun:  „Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.  Skilyrt er að umsækjandi fjarlægi óleyfisgirðingu og girðingarstaura á lóðamörkum.  Frágangur á lóðamörkum er háður samþykki aðliggjandi lóðarhafa.“  Borgarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 2. apríl s.á., eins og að framan greinir.

Kærandi vísar til þess að umdeildum sólpalli með tilheyrandi girðingu sé komið fyrir í það mikilli hæð að skyggi á sól í garði kæranda sem liggi að lóð  byggingarleyfishafa.  Þar að auki hafi leyfishafi reist allt of háa tvöfalda girðingu á lóðamörkunum í óþökk kæranda, sem valdi skuggavarpi á lóð kæranda langt fram yfir hádegi.  Girðingin virki sem fangelsismúr umhverfis lóð hans en kærandi hafi stundað þar ræktun sér til ánægju og notið þar útivistar í mörg ár eða þar til nýbygging að Njálsgötu 28 hafi verið reist.

Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að hið kærða byggingarleyfi snúi einungis að gerð sólpalls á lóð Njálsgötu 28 og verði ekki séð hvernig hann raski möguleikum kæranda til að njóta sólar í garði sínum.  Deilur um hæðarsetningu palls og girðingar stafi af því að yfirborði beggja lóða hafi verið breytt og hafi yfirborð lóðar kæranda verið lækkað á um það bil 8 m kafla um 40-50 cm.  Að óbreyttu lóðaryfirborði hefði umræddur pallur ekki risið hærra en næmi grasflöt á lóð kæranda.

Niðurstaða:  Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í veðbandsyfirliti frá Þjóðskrá Íslands urðu eigendaskipti á fasteignum kæranda í húsinu að Frakkastíg 17 á árinu 2012.

Í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem eiga við í máli þessu, er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Lögvarðir hagsmunir kæranda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu hans sem handhafa fasteignaréttinda í húsinu að Frakkastíg 17.  Eins og fyrr er rakið á kærandi ekki lengur réttindi tengd umræddri fasteign og á hann því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
  

_________________________________________
Ómar Stefánsson

_________________________________                   _________________________________
Ásgeir Magnússon                                                        Hildigunnur Haraldsdóttir

81/2012 Melavellir

Með

Árið 2014, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 81/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 13. ágúst 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Matfugl ehf., Völuteigi 2, Mosfellsbæ, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 11. júlí 2012 á umsókn um breytt deiliskipulag jarðarinnar Melavalla á Kjalarnesi.

Skilja verður kæruna svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Nefndinni bárust gögn frá Reykjavíkurborg 5. október 2012.

Málsatvik og rök: Á jörðinni Melavöllum á Kjalarnesi er starfrækt kjúklingabú og eru þar fimm alifuglahús, þrjú sambyggð og tvö frístandandi, auk íbúðarhúss. Heimilt er samkvæmt gildandi deiliskipulagi Melavalla frá árinu 2006 að reisa eitt frístandandi alifuglahús til viðbótar á jörðinni. Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur 28. mars 2012 var erindi kæranda um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar tekið fyrir. Vildi hann að heimilað yrði að bæta við fjórum frístandandi alifuglahúsum í stað eins. Skipulagsráð samþykkti að auglýsa tillöguna og var sú afgreiðsla samþykkt í borgarráði 12. apríl 2012.

Tillagan var auglýst í Lögbirtingablaði og var til sýnis í þjónustuveri Reykjavíkurborgar og á heimasíðu umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar frá 23. apríl til 6. júní 2012. Athugasemdir bárust frá fimm aðilum. Að loknum kynningartíma tillögunnar var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs sem haldinn var 11. júlí 2012 og var erindinu synjað með vísan til umsagnar skipulagsstjóra dagsettri 9. júlí s.á. Í niðurlagi umsagnarinnar sagði að í ljósi athugasemda og ábendinga frá nágrönnum, íbúasamtökum og hverfaráði Kjalarness væri ekki mælt með því að deiliskipulagið yrði samþykkt óbreytt heldur að tillögunni yrði synjað. Í ljósi umsagnar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. júlí 2012, þar sem tilgreindar væru mögulegar mótvægisaðgerðir, væri þó ekki gerð athugasemd við að umsækjandi skilaði nýrri tillögu að breyttu skipulagi þess efnis að heimilað yrði eitt alifuglahús til viðbótar, en þá yrðu húsin alls fimm í stað sjö.  Hinn 12. júlí 2012 var fundargerð skipulagsráðs lögð fram í borgarráði sem samþykkti B-hluta fundargerðarinnar. 

Kærandi bendir í fyrsta lagi á að skipulagsráð Reykjavíkur hafi áður samþykkt sambærilegar deiliskipulagstillögur vegna Melavalla, eða árin 2009 og 2010, en þær ekki náð í gegnum stjórnkerfi borgarinnar. Kærandi telur í annan stað að rök skipulagsráðs fyrir synjun á erindi hans séu ómálefnaleg og huglæg. Efnislegum athugasemdum sem hafi borist við auglýsingu tillögunnar hafi verið svarað með umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dagsettri 4. júlí 2012. Í þriðja lagi telur kærandi ómálefnalegt að hafna því að jörðin sé nýtt til landbúnaðar þegar hún sé samkvæmt aðalskipulagi á landbúnaðarsvæði og aukið umfang alifuglaeldis muni ekki samkvæmt framlögðum gögnum, þ.e. umhverfismati eða umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, hafa neikvæð áhrif á umhverfið.
   
Reykjavíkurborg krefst þess að hin umdeilda ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur verði staðfest. Í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að það séu sveitarstjórnir sem annist gerð deiliskipulagsáætlana og breytingar á þeim og beri borgaryfirvöldum ekki skylda til að fallast á þær breytingar sem kærandi vilji gera á gildandi skipulagi. Þá sé það oftúlkun á jafnræðisreglu að telja borgaryfirvöld bundin árum saman af fyrri afgreiðslu mála. Borgin mótmæli því að rök skipulagsráðs hafi verið ómálefnaleg en íbúar í næsta nágrenni, íbúasamtök og hverfaráð Kjalarness hafi gert athugasemdir við tillöguna. Þá sé í umsögn skipulagsstjóra bent á það hversu lítil jörðin sé, en hún sé aðeins rúmir 16 ha. Rétt sé að í umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sé bent á mótvægisaðgerðir gegn mengun. Einmitt þess vegna sé að finna yfirlýsingu í umsögn skipulagsstjóra, sem skipulagsráð hafi samþykkt, þess efnis að ekki sé gerð athugasemd við að umsækjandi sendi borginni nýja tillögu að skipulagsbreytingu sem feli í sér heimild til að byggja eitt hús til viðbótar við það sem þegar sé heimilað. Ekki sé rétt að borgaryfirvöld hafni nýtingu jarðarinnar Melavalla sem landbúnaðarsvæðis en hafa verði í huga að um sé að ræða mjög litla jörð í nágrenni við mesta þéttbýli landsins og það séu takmörk fyrir því hvað unnt sé að heimila öflugt alifuglaeldi á slíkum stað. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun skipulagsráðs Reykjavíkur á beiðni um breytt deiliskipulag jarðarinnar Melavalla. Skipulagsráð afgreiddi beiðni kæranda á fundi 11. júlí 2012 og var fundargerð ráðsins skipt í A-hluta sem fjallaði um skipulagsmál, B-hluta sem fjallaði um byggingarmál, C-hluta um fyrirspurnir og D-hluta ýmis mál. Mál það sem hér er um deilt var afgreitt í A-hluta fundargerðarinnar. Fundargerðin var lögð fram á fundi borgarráðs daginn eftir þar sem bókað var að borgarráð samþykkti B-hluta fundargerðarinnar en ekki var fjallað um afgreiðslu skipulagsráðs á beiðni kæranda.

Sveitarstjórnir annast gerð deiliskipulags og breytingu á því, sbr. 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni kynningu á deiliskipulagstillögu skal skv. 4. ml. 4. mgr. 4. gr. laganna leggja hana fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, en sveitarstjórn er heimilt að framselja vald sitt með því að fela skipulagsnefnd eða öðrum í stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. og 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. 

Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skulu í Reykjavík lagðar fyrir borgarráð eða borgastjórn. Innihaldi fundargerðir ályktanir eða tillögur sem þarfnast staðfestingar borgarráðs eða borgarstjórnar ber að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti, sbr. 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og 60 gr. samþykktar nr. 1200/2007. Í 12. gr. samþykktar fyrir Skipulagsráð Reykjavíkurborgar frá 5. apríl 2005, sem gilti þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin, sbr. 1. gr. viðauka 1.1 nefndrar samþykktar nr. 1200/2007, eru talin upp þau verkefni sem skipulagsráði er heimilt að afgreiða án staðfestingar borgarráðs. Verður að skilja tilvitnuð ákvæði á þann veg að skipulagsráði sé ekki heimilt að synja gerð deiliskipulags án staðfestingar borgarráðs enda er slíka afgreiðslu ekki að finna í hópi þeirra verkefna er talin eru í áðurnefndri 12. gr.  Borgarráð þurfti því að staðfesta ákvörðun skipulagsráðs um að synja ósk kæranda.

Fundargerð borgarrráðs frá 12. júlí 2012 ber með sér samþykki á B-hluta fundargerðar skipulagsráðs frá 11. júlí 2012 en ekki var fjallað um afgreiðslu skipulagsráðs á beiðni kæranda sem var að finna í A-hluta fundargerðar skipulagsráðs. Með því að ekki liggur fyrir í málinu að borgarráð hafi tekið hina kærðu afgreiðslu skipulagsráðs fyrir og afgreitt í samræmi við  1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og 60 gr. samþykktar nr. 1200/2007 verður ekki litið svo á að hún hafi falið í sér ákvörðun sem bindi enda á mál og sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærunni því vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

6/2011 Hólmsheiði

Með

Árið 2014, föstudaginn 14. febrúar kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Ómar Stefánsson, varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2011, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 13. október 2010 um að samþykkja deiliskipulag fyrir jarðvegsfyllingu og miðlunartanka á Hólmsheiði í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. janúar 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir Þ, eiganda landspildu nr. 113435 á Reynisvatnsheiði, ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 13. október 2010 um að samþykkja deiliskipulag fyrir jarðvegsfyllingu og miðlunargeyma á Hólmsheiði.  Ákvörðunin var staðfest af borgarráði hinn 4. nóvember s.á.  Öðlaðist deiliskipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. desember 2010. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri óútkljáð hjá úrskurðarnefndinni.  Þar sem hið kærða deiliskipulag felur ekki í sér beina heimild til framkvæmda voru ekki tilefni til að úrskurða um kröfu kæranda um stöðvun þeirra og kemur hún ekki til frekari umfjöllunar í málinu. 

Með bréfi, dags. 11. janúar 2011, sem barst úrskurðarnefndinni 14. s.m., kærir Guðmundur Ósvaldsson, f.h. Landeigendafélagsins Græðis, sömu deiliskipulagsákvörðun með kröfu um ógildingu hennar.  Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður síðara kærumálið, sem er númer 7/2011, sameinað kærumáli þessu. 
 
Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að á árinu 2001 beindi gatnamálastjórinn í Reykjavík erindi til skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um nýtingu jarðvegs, sem til félli í borgarlandinu, til landmótunar á Hólmsheiði, skammt austan og sunnan við heitavatnsgeyma Orkuveitu Reykjavíkur á svæðinu.  Samþykkti borgarráð í kjölfarið deiliskipulag 20 ha landsvæðis á Hólmsheiði þar sem heimiluð var losun allt að 1,5 milljón m³ jarðvegs, með þeim skilyrðum m.a. að jarðvegsefni sem fyrirhugað væri að nota væri hreint og ómengað af mannavöldum.  Svæðið er innan svonefnds græna trefils, sem er útivistarsvæði og umlykur hluta höfuðborgarsvæðisins.  Hinn 29. nóvember 2007 tók gildi deiliskipulag fyrir hluta Hólmsheiðar vegna stækkunar á losunarsvæði fyrir jarðveg og framlengingar á Reynisvatnsvegi.  Var skipulagsákvörðunin kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem felldi deiliskipulagið úr gildi, með úrskurði uppkveðnum 24. júlí 2008, í máli nr. 167/2007, með þeim rökum að heimiluð jarðvegslosun væri ekki í samræmi við landnotkun svæðisins samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.  Að þeirri niðurstöðu fenginni var gerð breyting á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins í þá veru að heimilað var að losa tímabundið ómengaðan jarðveg innan græna trefilsins enda væri frekari grein gerð fyrir afmörkun og frágangi losunarstaða og tímamörkum losunar í aðal- og deiliskipulagi viðkomandi sveitarfélags, líkt og segir í auglýsingu um gildistöku breytinganna.  Þar var og tilgreint að leitast skyldi við að losa jarðveg á svæðum þar sem uppgræðslu væri þörf og að losun ylli ekki spjöllum á svæðum með verndargildi.  Landmótun og frágangur slíkra staða skyldi taka mið af markmiðum svæðisskipulagsins um græna trefilinn sem útivistar- og skógræktarsvæðis.  Jafnframt var unnin tillaga að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur er fól m.a. í sér að á afmörkuðu svæði á Hólmsheiði væri heimiluð losun ómengaðs jarðvegs.  Kom einnig fram í gildistökuauglýsingu að gert yrði ráð fyrir að jarðvegsfyllingin yrði mótuð og ræktuð upp á skipulagstímabilinu með þarfir útivistar að leiðarljósi.  Öðluðust breytingarnar gildi hinn 10. mars 2010 við birtingu auglýsinga í B-deild Stjórnartíðinda.  Jafnframt var auglýst tillaga að deiliskipulagi fyrir umrætt svæði og hinn 7. apríl 2010 tók gildi deiliskipulag fyrir Hólmsheiði vegna afmörkunar á svæði til jarðvegsfyllingar fyrir tímabundna losun á ómenguðum jarðvegi. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 14. júlí 2010 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir jarðvegsfyllingu á Hólmsheiði er fól í sér heimild til losunar á ómenguðum jarðvegi til ársins 2020.  Í tillögunni var gert ráð fyrir því að fyrrnefnt deiliskipulag á Hólmsheiði frá 7. apríl 2010 og deiliskipulag fyrir miðlunargeyma á Hólmsheiði frá 30. febrúar 2008 féllu úr gildi við samþykkt tillögunnar.  Var samþykkt að auglýsa tillöguna og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 22. s.m.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 11. ágúst til og með 22. september 2010.  Vakin var sérstök athygli hagsmunaaðila á því að í tillögunni væri gert ráð fyrir nýrri afmörkun skipulagssvæðisins þar sem ekki væri tímabært að ákvarða endanlega legu fyrirhugaðrar tengibrautar yfir Hólmsheiði og aðlögun að landi.  Hefði skipulagssvæðið verið minnkað töluvert og næði nú eingöngu til jarðvegsfyllingar og miðlunargeyma á Hólmsheiði, en stærð losunarsvæðis væri um 32 ha.  Gert væri ráð fyrir að svæðið undir jarðvegsfyllinguna yrði ræktað upp og það lagað að núverandi landi og yrði hluti af útivistarsvæðinu á Hólmsheiði eftir árið 2020.  Athugasemdir bárust við tillöguna, m.a. frá kærendum máls þessa.  Á fundi skipulagsráðs hinn 13. október s.á. var tillagan tekin fyrir að nýju en jafnframt var á fundinum lögð fram umsögn skipulagsstjóra um fram komnar athugasemdir, dags. 7. s.m.  Var tillagan samþykkt með vísan til fyrrnefndrar umsagnar og málinu vísað til borgarráðs.  Á fundi borgarráðs hinn 21. október 2010 var lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 13. s.m. og jafnframt voru lagðar fram athugasemdir annars kærenda, dags. 18. s.m.  Málinu var vísað til umsagnar skipulagsstjóra og borgarlögmanns.  Bréf skipulagsstjóra frá 13. október s.á. var lagt fram að nýju á fundi borgarráðs hinn 4. nóvember 2010 og var erindi skipulagsstjóra samþykkt.  Var tillagan síðan send Skipulagsstofnun, er gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins, og var það birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. desember s.á.

Í skilmálum deiliskipulagsins segir m.a. að gert sé ráð fyrir losun á jarðvegi allt að 1,7 milljón m³ umfram þá 2,0 milljón m³ sem þegar hafi verið losaðir á svæðinu.  Þá er tiltekið í skipulagsskilmálum fyrir miðlunargeyma, tengi- og stýrihús, að þrír miðlunargeymar séu á svæðinu og að samkvæmt gildandi skipulagi, sem nú verði hluti af nýju deiliskipulagi, sé gert ráð fyrir fimm geymum til viðbótar ásamt lokahúsi/dælustöð. 

Hafa kærendur skotið skipulagsákvörðun þessari til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir. 
 
Málsrök kærenda:  Kærendur byggja málatilbúnað sinn m.a. á því að breytingar sem gerðar hafi verið á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 séu ekki haldbærar eða til þess fallnar að innbyrðis samræmi sé á milli allra skipulagsstiga, líkt og lög áskilji.  Þá sé hvergi fjallað um losun á ómenguðum jarðvegi í hinu kærða deiliskipulagi eins og gert sé í aðalskipulagi og svæðisskipulagi.

Reykjavíkurborg hafi í engu virt úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 167/2007 og dragi hin kærða ákvörðun á engan hátt úr þeim annmörkum sem á fyrri ákvörðun töldust vera.  Muni framkvæmdin hafa veruleg áhrif á umhverfi sitt og breyta ásýnd landsins til framtíðar.  Eigi framkvæmdirnar, hitaveitumannvirkin, urðunarstaðurinn/jarðvegstippurinn og atvinnurekstur, er haft geti mengun í för með sér, undir 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, vegna stærðar, eðlis og áhrifa á umhverfið.  Það sé skipulagsyfirvöldum til lítils sóma að deiliskipuleggja litla búta hverju sinni til að komast hjá því að fram fari umhverfismat.  Þegar framkvæmdir hafi byrjað á svæðinu hafi Reykjavíkurborg miðað við magn jarðefna sem ekki hafi krafist umhverfismats.  Nú þegar hafi verið farið verulega fram úr því magni og muni með hinni kærðu ákvörðun losun jarðefna verða aukin enn frekar.

Ýmis ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi ekki verið virt, eins og t.d. 2, 9, 25, og 56. gr. laganna sem og fjölmörg ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Þá hafi t.d. ýmis ákvæði jarðarlaga nr. 81/2004, stjórnsýslulög nr. 37/1993, einkum 25. gr. þeirra laga, lög um náttúruvernd nr. 44/1999 og ýmis ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 105/2006, ekki verið virt.

Reynisvatnsland sé jörð og lögbýli og meðan svo sé lúti landið skipulagsskilmálum og öðrum ákvæðum jarðalaga nr. 81/2004.  Í 7. gr. þeirra laga segi að sé í skipulagi fyrirhugað að breyta landnotkun svæða sem nýtt hafi verið til landbúnaðar skuli leyfi landbúnaðarráðherra til að leysa landið úr landbúnaðarnotum liggja fyrir áður en viðkomandi skipulagsáætlun hljóti endanlega afgreiðslu.  Einnig sé vísað til 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis og 13. gr. laganna.  Þá komi fram í ákvæðum greindra laga til bráðabirgða að allar jarðir sem skráðar  hafi verið í jarðaskrá landbúnaðarráðuneytisins 1. desember 2003 teljist lögbýli eftir gildistöku laganna, án tillits til þess hvort þær uppfylli skilyrði 2. gr. um skilgreiningu á hugtakinu lögbýli.  Sé enn fremur kveðið á um í 3. gr. laganna að ákvæði þeirra gildi um öll lögbýli í þéttbýli án tillits til þess hvaða skipulag gildi um landsvæði þeirra. 

Ekki sé gerð grein fyrir því hvernig skipulagi skuli háttað á u.þ.b. 150 ha svæði, en á uppdrætti líti út fyrir að u.þ.b. 200 ha svæði hafi verið minnkað í um 50 ha.  Ekki sé hægt að skilja eftir framkvæmdir og landsvæði í fullri notkun án þess að það sé bundið í deiliskipulagi.  Hljóti deiliskipulagið að halda gildi sínu fyrir umrætt svæði meðan annað sé ekki ákveðið með öðru og/eða breyttu deiliskipulagi.  Gilt deiliskipulag fyrir einstakt svæði verði ekki fellt úr gildi með því einu að breyta deiliskipulagi vegna einstakra, afmarkaðra lóða innan þess.  Þá geti nýtt deiliskipulag fyrir einstakt svæði ekki haft áhrif á, breytt eða fellt út gildi ákvæði aðal- og deiliskipulags sem fyrir sé utan hins afmarkaða svæðis sem skipulagið nái til.  Þá hafi aðkomuvegir, innkeyrsla og aðrir vegir aldrei verið deiliskipulagðir.

Verði að telja að í raun sé ekki um deiliskipulag að ræða, m.a. þar sem hið afmarkaða landsvæði, sem mest sé fjallað um, hafi ekkert landnúmer, engan staðgreini og ekkert heiti, með tilvísun til landnotkunarflokka, og sé í þessu sambandi vísað til 29. og 30. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Hvergi komi fram að um sé að ræða framlagningu á deiliskipulagstillögu, sbr. kafla 5.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, og einungis virðist vera fjallað um fyrirliggjandi skipulag og stærð jarðvegsfyllingarinnar eins og hún sé nú þegar.  Óljóst sé hvað deiliskipulagið snúist um og hvers vegna það sé kallað nýtt þegar engar nýjar tillögur séu settar fram.  Sé framsetningu verulega ábótavant.  Skorti á að gerð sé grein fyrir ýmsu, þ. á m. því að svæðið liggi að hluta inn á vatnsverndarsvæði og að sumarbústaðalóðum og að mörk jarðvegsfyllingar liggi langt inn á lóð hitaveitugeyma Orkuveitu Reykjavíkur.  Upplýsingar séu ónákvæmar eða rangt sé farið með.  Þannig séu lóðir hitaveitumannvirkja sagðar tvær en þær séu þrjár samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár.  Lóð Orkuveitu Reykjavíkur sé 48.027 m² en ekki 50.025 m², líkt og segi í deiliskipulaginu, og sneiðingar á yfirlitsmyndum séu ónothæfar sökum ónákvæmni, t.d. í hæðarsetningum.  Einnig sé óljóst hvort lóðir Orkuveitu Reykjavíkur séu útivistarsvæði eða hvort hlutar frístundalóða séu veitusvæði.  Enn fremur sé óljóst hvað sé jarðvegsfylling og hvað sé ómengaður jarðvegur.

Deiliskipulagið vísi til aðalskipulags en óútskýrt sé hvað felist í „útivistarsvæði til sérstakra nota“ og hvergi komi fram að fyrirliggjandi aðal- og deiliskipulag geri ráð fyrir jarðvegsfyllingu eða urðunarstað fyrir óvirkan úrgang.  Bent sé á að í skýrslunni „Sameiginleg svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009-2020“ komi fram að á Hólmsheiði megi aðeins taka við óvirkum úrgangi samkvæmt starfsleyfi.  Ekkert tillit sé tekið til íslenskrar úrgangslöggjafar meðan svæðið sé ekki skilgreint sem móttökustaður fyrir úrgang, sbr. kafla 4.7 í skipulagsreglugerð.  Veitustöðvar geti einnig fallið undir þann kafla.

Ekki sé haldbært að taka fram í deiliskipulaginu að ný afmörkun á skipulagi svæðisins sé gerð í ljósi þess að endanleg lega og útfærsla tengibrautar frá Suðurlandsvegi yfir Hólmsheiði að Úlfarsfelli samkvæmt gildandi aðalskipulagi liggi ekki fyrir.  Við gerð skipulags verði ekki bæði sleppt og haldið, en í deiliskipulaginu segi einnig að Reykjavíkurborg ráðist í vegagerð á grundvelli aðalskipulags sé því að skipta.  Tengibrautir, stofnbrautir og vegir séu háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. m.a. 13. gr. laga nr. 105/2006.  Vegagerð sú sem hafist hafa verið handa við í kjölfar útboðs árið 2007, úrskurðuð óleyfisframkvæmd og fyrri tíma vegagerð, sé að hluta til inni á skipulagsuppdrætti án þess að hafa hlotið meðferð skv. lögum nr. 106/2000 og 105/2006, eða verið inni á svæðis- og aðalskipulagi.  Sé ekki farið eftir nefndum lögum og skipulagsreglugerð nr. 400/1998, m.a. kafla 4.16.

Varðandi hitaveitugeyma Orkuveitu Reykjavíkur hafi tveir af þremur geymum verið reistir án þess að gert hafi verið deiliskipulag.  Skilgreina þurfi landnotkun að nýju og fylgja settum lögum, en það hafi ekki verið gert.  Eigi mannvirkin einnig undir lög nr. 106/2000.

Í fyrirliggjandi deiliskipulagi segi að deiliskipulag lóðar hitaveitugeyma, sem samþykkt hafi verið árið 2003, gildi um það svæði.  Deiliskipulag fyrir miðlunargeyma, sem birt hafi verið árið 2008 og fellt sé inn í hið kærða deiliskipulag, hafi því fallið úr gildi 7. apríl 2010, enda geti aðeins eitt deiliskipulag verið í gildi á hverjum tíma fyrir afmarkaðan reit.  Í kafla skipulagsins, er beri heitið skipulagsskilmálar fyrir miðlunargeyma, tengi og stýrishús, komi m.a. fram að samkvæmt gildandi skipulagi, sem nú verði hluti af nýju deiliskipulagi, sé gert ráð fyrir fimm geymum til viðbótar.  Sé þetta í mótsögn við það sem áður hafi komið fram.

Rykmökkur hafi legið yfir svæðið í roki.  Einnig sé mengun merkjanleg við Langavatn og um mikla hávaðamengun sé að ræða.  Græða hafi átt svæðið með sambærilegum gróðri og fyrir sé, en engin tilraun hafi verði gerð til þess.  Gróðurfarsleg umhverfisspjöll séu falin í þeim gróðri er nú klæði jarðvegsfyllinguna. Öllu fuglalífi hafi verið eytt og mikil hætta sé á sinubrunum.  Líkist losunarsvæðið helst fagurgrænum fjóshaug á miðri móheiði og falli það því ekki inn í landslagið eða aðliggjandi gróðurlendi.  Þær tegundir sem ríkjandi séu á jarðvegstippnum séu ágengar illgresistegundir sem muni dreifa sér yfir nærliggjandi gróðursvæði, verði ekki spornað við.  Sé hætta á því að eitruð efni berist í drykkjarvatn borgarbúa ef eitra þurfi fyrir illgresinu. 

Hvorki hafi verið haft samráð við landeigendur né félag landeigenda vegna þessarar framkvæmdar né gerð tilraun til að virða reglur nábýlisréttar, en landeigendur á svæðinu eigi ríkra hagsmuna að gæta.  Sé slíkt óeðlilegt og lýsi vanvirðingu gagnvart eignarrétti, sem njóti friðhelgi samkvæmt stjórnarskrá Íslands.  Hafi ítrekuð mótmæli hagsmunaaðila í engu verið virt.  Notaðir hafa verið vegir sem landeigendur á svæðinu hafi sjálfir lagt á sínum tíma og hafi t.d. Reynisvatnsvegurinn verið ófær um margra mánaða skeið.  Hafi valdníðsla borgarinnar kostað landeigendur fyrirhöfn og valdið þeim tjóni.  Reynisvatnsvegurinn eigi að fara í umhverfismat enda sé ekki um „bráðabirgðaveg“ að ræða heldur tengibraut á milli Vesturlands- og Suðurlandsvegar, sem skeri í sundur útivistarsvæði á Hólmsheiði og Reynisvatnsheiði og rýri stórlega gildi þeirra sem útivistarsvæðis borgarbúa.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað.  Hið kærða deiliskipulag hafi fengið lögboðna málsmeðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og hafi fullnægt öllum kröfum þeirra laga.  Hafi kærendur ekki getað sýnt fram á annað.  Um skýrt afmarkað svæði sé að ræða og sé vangaveltum um annað hafnað. 

Eigi deiliskipulagið nú fullnægjandi stoð í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur.  Sé vísað til þess er komi fram í greinargerð með breytingu á aðalskipulaginu.  Þar segi m.a. að þörf hafi verið talin á að setja almenn stefnuákvæði um losun jarðvegs og að rétt hafi þótt að gera sérstaka grein fyrir stækkun losunarstaðarins í aðalskipulagi, einkum í ljósi þess að skipulagsreglugerð fjalli ekki sérstaklega um þessa nýtingu lands, þótt um væri að ræða tímabundna nýtingu þess, sem vel gæti samræmst langtímamarkmiðum um nýtingu svæðisins til útivistar og skógræktar.   Jafnframt sé talið að með settum skilyrðum um uppgræðslu eins fljótt og auðið sé, tímatakmörkunum á losun efnis, þungaflutninga og rykbindingu vega, sé leitast við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif, sem auk þess verði óveruleg og tímabundin.  Einnig muni áætlun um formun lands, uppgræðslu, ræktun og skipulagningu svæðisins til útivistar, lágmarka neikvæð sjónræn áhrif.  Þá teljist svæði það sem afmarkað hafi verið sem losunarsvæði ekki hafa sérstakt verndargildi samkvæmt náttúrufarsúttekt Náttúrufræðistofnunar frá 1996.  Enn fremur muni staðsetning losunarstaðar nálægt helstu uppbyggingarsvæðum Reykjavíkur hafa jákvæð áhrif á loftgæði, orkunotkun og almennt jákvæð hagræn áhrif.  Gerð sé frekari grein fyrir umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og frágangi svæðis í tillögu að deiliskipulagi.  Þá sé tekið fram að losun jarðvegs verði háð sömu skilyrðum og ákveðið hafi verið árið 2001.  Feli tillagan hvorki í sér stefnumörkun, er varði leyfisveitingar til framkvæmda, sem tilgreindar séu í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, né grundvallarbreytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur.

Jafnframt sé vísað til svars skipulagsyfirvalda við fram komnum athugasemdum um deiliskipulagstillöguna.  Þar sé m.a. tilgreint að samþykktar breytingar á aðal- og svæðisskipulagi feli ekki í sér breytingar á grundvallarstefnu um landnotkun fyrir Reynisvatnsheiði, Hólmsheiði og græna trefilinn sem útivistar- og skógræktarsvæði.  Austurheiðarnar séu áfram ætlaðar til almennrar útivistar, frístundaiðju og skógræktar.  Hafi breytingarnar verið útfærðar í samráði við Skipulagsstofnun og væru viðbrögð borgarinnar við úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála uppkveðnum 24. júlí 2008.  Hæpið sé að telja framkvæmdina í ósamræmi við langtímastefnu um þróun svæðisins sem útivistar- og skógræktarsvæðis, ekki síst í ljósi þess að sett hafi verið tímamörk á nýtingu svæðisins vel innan marka skipulagstímabila umræddra skipulagsáætlana.  Hin umdeilda deiliskipulagstillaga hafi ekki fjallað um gerð Reynisvatnsvegar, austan Biskupstungu, og gerð bráðabirgðavegar að losunarstaðnum.  Borgin hafi að öllu leyti farið að lögum við lagningu umrædds vegar.  Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sé gert ráð fyrir tengivegi frá hringtorgi austan Biskupsgötu um Reynisvatnsheiði að fyrirhugaðri tengibraut vestan Langavatns.  Því sé hafnað að gamli vegurinn hafi verið eyðilagður bótalaust.  Með lagningu hins nýja vegar hafi aðgengi að svæðinu austan Reynisvatns verið auðveldað til muna til hagsbóta fyrir alla landeigendur á því svæði.  Þá sé einnig hægt að fara eftir gamla veginum.  Um umfangsmikla losun jarðvegs sé að ræða sem hafi sín staðbundnu umhverfisáhrif.  Losun efnis sé hins vegar bundin við ómengaðan jarðveg og falli því ekki undir skilgreiningu laga um úrgang, sbr. m.a. lög um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, og ætti því ekki undir lið 11b í viðauka 2 um förgunarstaði í lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.  Skipulagsbreytingarnar hafi því ekki átt undir lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 og taki Skipulagsstofnun undir þessa túlkun.  Loks hafi verið á það bent að sveitarstjórn bæri ábyrgð á og annaðist gerð deiliskipulags.  Ekkert kæmi fram í skipulags- og byggingarlögum um að sveitarstjórn sé ekki heimilt að fella úr gildi deiliskipulag við gildistöku nýs deiliskipulags fyrir ákveðið svæði og hafi sú leið verið farin hér.

Borgaryfirvöld skírskoti enn fremur til dóms Hæstaréttar í máli nr. 49/2011 þar sem kröfum annars kærenda, um að felld yrði úr gildi samþykkt borgarráðs frá 2001, hafi verið vísað frá dómi. Hafi verið á því byggt að með deiliskipulagi, er tekið hafi gildi 14. desember 2010 og deilt sé um í máli þessu, gæti samþykktin ekki haft verkanir að lögum sem gild skipulags- og framkvæmdaheimild þar sem framkvæmdir við jarðvegslosun á Hólmsheiði færu ekki fram á grundvelli hennar.  Einnig sé vísað til þess að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi í máli nr. E-6581/2009 fellt efnisdóm sem fjalli um flestar málsástæður kæranda og hafi Reykjavíkurborg verið sýknuð að öllu leyti.

Jarðalög nr. 81/2004 eigi ekki við um hina kærðu ákvörðun og enginn landbúnaður sé eða hafi verið stundaður innan skipulagsreitsins.  Um sé að ræða svæði innan skilgreinds þéttbýlis.  Landið hafi hvorki verið skipulagt fyrir landbúnað í skilningi jarðalaganna né skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Ljóst megi vera að nýting á þeim jörðum sem fjallað sé um í umdeildu deiliskipulagi falli ekki undir skilgreiningu á hugtakinu landbúnaður, sbr. 15. mgr. 2. gr. jarðalaga.  Í málinu liggi fyrir að í aðalskipulagi Reykjavíkur, sem í gildi hafi verið við gildistöku laganna, hafi svæðið ekki verið skilgreint sem landbúnaðarsvæði. 

Verði fallist á að landið hafi á einhverjum tímapunkti verið tekið úr svokallaðri landbúnaðarnotkun sé ljóst að kærufrestir vegna þeirrar ákvörðunar séu löngu liðnir.  Þá bresti úrskurðarnefndina vald til að úrskurða um ákvarðanir ráðherra eða um ákvarðanir teknar samkvæmt jarðalögum.

Því sé alfarið hafnað að með deiliskipulaginu sé verið að skipta landi á einhvern hátt.  Hins vegar sé þó áréttað að ekki sé um landbúnaðarsvæði að ræða og þegar af þeirri ástæðu komi ekki til þess að líta verði til 13. gr. jarðalaga eða 29. gr. og 30. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Ekkert tilefni sé til að ætla að ósamræmi sé milli skipulagsáætlana á svæðinu, en verði svo talið sé á því byggt að það sé ekki af þeim toga er varði ógildingu ákvörðunarinnar.  Þá sé því jafnframt hafnað að deiliskipulagið sé óskýrt eða efni þess sé óljóst.  Stærð svæðisins hafi í engu verið breytt, það sé enn 32 ha að stærð, þrátt fyrir að leyfilegt sé að losa meira magn innan þess svæðis en upphaflega hafi verið heimilað.  Deiliskipulagið sé skýrt hvað alla þætti varði enda hafi ekki verið gerðar athugasemdir við það af hálfu Skipulagsstofnunar. 

Jafnframt sé því hafnað að landnotkun sé ekki nægjanlega vel skilgreind.  Deiliskipulagið vísi hins vegar beint til umfjöllunar um landnotkunina í aðalskipulagi og þá snerti athugasemdir um einstaka skipulagsskilmála að miklu leyti fyrri skipulagsáætlanir.  Sé kærufrestur vegna þessara atriða löngu liðinn, sem og vegna meints óskýrleika aðalskipulags og svæðisskipulags. 

Á það sé bent að svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009-2020 sé gerð á grundvelli laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og hafi ekkert skipulagslegt gildi.  Sé því alfarið mótmælt að jarðvegslosunarsvæðið sé móttökustöð eða urðunarstaður fyrir úrgang.  Þess utan rúmist sjónarmið um hvort jarðvegurinn falli undir fyrrnefnd lög og reglugerðir, settar með stoð í lögunum, ekki innan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar. 

Því sé mótmælt að um sé að ræða einhverja þá framkvæmd innan deiliskipulagsreitsins sem þurfi að sæta mati á umhverfisáhrifum.  Um þennan þátt hafi verið fjallað í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-6581/2009, en þar komi m.a. fram að mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram við förgunarstöðvar þar sem úrgangur sé brenndur, meðhöndlaður með efnum eða urðaður, en ekki hafi verið talið að sýnt hefði verið fram á að slíkt færi fram á losunarstaðnum.

Að því er varði sjónarmið kærenda, um að þau hitaveitumannvirki sem þegar séu risin og hafi staðið um árabil á skipulagsreitnum séu háð mati á umhverfisáhrifum, sé vísað til þess að aðeins sé gert ráð fyrir að allra stærstu flutningsmannvirki hitaveitna hér á landi verði háð mati á umhverfisáhrifum.  Hvorki núverandi mannvirki né þau sem deiliskipulagið heimili falli undir þá skilgreiningu.  Hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemdir við þetta við meðferð málsins.  Loks hafi kærendur enga lögvarða hagsmuni af því að fá efnisúrskurð um þann þátt málsins er varði mannvirki sem séu löngu risin og kærufrestur vegna þeirra því liðinn.

Haft hafi verið lögboðið samráð við kærendur, sem og aðra hagsmunaaðila á öllum stigum málsins.  Þá séu með öllu órökstuddar þær staðhæfingar annars kærenda að hagnýtingarmöguleikar hans séu skertir en hin tímabundna jarðvegslosun eigi sér stað í órafjarlægð frá lóð hans.  Einnig sé á það bent að kærandi hafi keypt landareign sína löngu eftir að losun hafi hafist á svæðinu, eða í árslok 2005.  Engir grenndarhagsmunir hafi því verið skertir sem fyrir hafi verið í öndverðu.  Sé jafnframt vísað til fyrrnefnds héraðsdóms í þessu sambandi en þar komi eftirfarandi fram:  „Þá hefur [kærandi] ekki sýnt fram á það með óyggjandi hætti að friðhelgi hans og grenndarréttur hafi verið skertur með þeirri jarðvegslosun sem þarna fer fram og fullyrðingar hans um að möguleikar hans til útivistar hafi verið skertir þar sem stefnandi hafi byggt fjall, mengað vatn, eytt gróðri, fuglalífi og náttúru allt í kringum lóð [kæranda] eru engum haldbærum gögnum studdar.“ 

Andmæli kæranda við greinargerð Reykjavíkurborgar:  Kærandi áréttar áður fram komin sjónarmið sín og tekur einnig fram að með öllu sé útilokað að starfsemin geti fallið undir landnotkunarflokkinn „opin svæði til sérstakra nota“ skv. skipulagsreglugerð þegar fyrir hendi sé annar landnotkunarflokkur, sorpförgunarsvæði, í kafla 4.1.  Fjalli kaflinn um úrgang í víðasta skilningi, sbr. að þar sé talað um annan ótilgreindan úrgang en ekki bara sorp.  Móttökustaðir fyrir úrgang geti einnig átt undir landnotkunarflokkinn iðnaðarsvæði í kafla 4.7.

Þá sé bent á að ákvörðun skipulagsráðs frá 13. október 2010 hafi ekki enn verið staðfest í borgarráði, enda hafi það hvorki gerst 21. s.m. né 4. nóvember s.á.  Sé auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda ólögmæt með öllu.  Á fundi borgarráðs 4. nóvember 2010 hafi einungis verið samþykkt að svara erindi kæranda frá 18. október s.á. en ekki sé um samþykkt deiliskipulagstillögunnar að ræða.
    
      —–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum, sem verða þó ekki rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á umræddu losunarsvæði við meðferð fyrra kærumáls um deiliskipulag svæðisins.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti deiliskipulags  fyrir jarðvegsfyllingu og miðlunargeyma á Hólmsheiði í Reykjavík.  Gerir skipulagið m.a. ráð fyrir losun á allt að 1,7 milljón m³ af jarðvegi umfram 2,0 milljón m³ sem þegar hafa verið losaðir á um 32 ha losunarsvæði.  Er gert er ráð fyrir að losunarsvæðið nýtist til ársins 2020 í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Ekki er með hinni kærðu ákvörðun verið að ráðstafa landi sem nýtt hefur verið til landbúnaðarnota og stóðu ákvæði jarðalaga nr. 81/2004 því ekki í vegi fyrir þeirri ráðstöfun sem í skipulaginu fólst.  Er landnotkun umrædds svæðis ákvörðuð í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, þar sem fram kemur að um sé að ræða opið svæði til sérstakra nota, en svæðið er innan hins svonefnda græna trefils, sem ætlaður er til útivistar og skógræktar. 

Ekki liggur annað fyrir en að formleg málsmeðferð umrædds deiliskipulags hafi verið lögum samkvæmt.  Þá verður af framsetningu skipulagsins ráðið hvert efnisinnihald þess er.  Verður ekki talið að þeir annmarkar séu á skipulaginu að þessu leyti að leitt geti til ógildingar.
Úrskurðarnefndin felldi úr gildi eldra deiliskipulag losunarsvæðis frá árinu 2007 á umræddum stað, með úrskurði uppkveðnum 24. júlí 2008.  Var niðurstaða nefndarinnar á því byggð að deiliskipulagið væri ekki í samræmi við ákvæði svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og gildandi aðalskipulags Reykjavíkur um landnotkun og um græna trefilinn.
Borgaryfirvöld brugðust við þessari niðurstöðu með því að óska eftir breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og var því breytt á þann veg að heimilað var að losa tímabundið ómengaðan jarðveg innan græna trefilsins, enda væri frekari grein gerð fyrir afmörkun og frágangi losunarstaða og tímamörkum losunar í aðal- og deiliskipulagi viðkomandi sveitarfélags.  Jafnframt var gerð breyting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, er fól m.a. í sér að á afmörkuðu svæði á Hólmsheiði væri heimiluð losun ómengaðs jarðvegs.  Segir þar að Hólmsheiðin sé skilgreind sem opið svæði til sérstakra nota.  Markmið
aðalskipulagsins sé að byggja svæðið upp sem útivistarsvæði, m.a. með skógrækt. Á afmörkuðu svæði á Hólmsheiði sé heimiluð losun ómengaðs jarðvegs og er um staðsetningu vísað til uppdráttar.  Gert sé ráð fyrir að jarðvegsfyllingin verði mótuð og ræktuð upp á skipulagstímabilinu með þarfir útivistar að leiðarljósi.  Í greinargerð hins kærða deiliskipulags er áréttað að í aðalskipulagi sé svæðið skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota og skógræktarsvæði innan græna trefilsins. 
 
Á þeim tíma er hér um ræðir var kveðið á um landnotkunarflokka í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Í ákvæði þeirrar reglugerðar, gr. 4.12, um landnotkun á opnum svæðum til sérstakra nota sagði svo:  „Opin svæði til sérstakra nota eru svæði með útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar er stunduð, s.s. tjald- og hjólhýsasvæði, skrúðgarðar, kirkjugarðar, leiksvæði, íþróttasvæði, golfvellir, sleða- og skíðasvæði, skautasvæði, siglingaaðstaða, hesthús og reiðvellir, rallýbrautir og skotvellir.  Einnig garðlönd og trjáræktarsvæði.“ 

Þegar virt er hvernig ákvæði hins kærða deiliskipulags samræmist tilvitnaðri skilgreiningu verður að líta til þess að framkvæmd skipulagsins felur í sér umfangsmikla starfsemi, sem ætlað er að vara allt til ársins 2020, með tilheyrandi umferð flutningabíla og notkun stórvirkra vinnuvéla, hávaða, mengun og foki jarðefna.   Telja verður þá starfsemi, að teknu tilliti til eðlis og umfangs, langt umfram þau mörk sem setja verður um starfsemi á svæðum sem ætluð eru til útivistar, eins og skilgreind landnotkun gerir ráð fyrir á svæðinu og er sú starfsemi alls óskyld útivistarnotum lands.  Af þessum ástæðum, og með hliðsjón af orðalagi fyrrgreinds ákvæðis skipulagsreglugerðar um landnotkun opinna svæða til sérstakra nota, samræmist ákvæði hins kærða deiliskipulags um losun jarðefna ekki umræddu ákvæði skipulagsreglugerðar.  Ákvæði svæðisskipulags og aðalskipulags um heimild til tímabundinnar losunar ómengaðs jarðvegs innan græna trefilsins geta ekki breytt eða vikið til hliðar nefndu reglugerðarákvæði.

Í hinni kærðu ákvörðun felst breyting frá fyrra skipulagi þar sem heimiluð er aukning um 1,7 milljón m³ á því magni jarðvegs sem losa má á svæðinu.  Framkvæmdir samkvæmt fyrra skipulagi voru í ósamræmi við gildandi aðalskipulag samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í úrskurði hennar hinn 24. júlí 2008, í málinu nr. 167/2007 um gildi deiliskipulags sem tók til umrædds svæðis.  Hefur þeim úrskurði ekki verið hnekkt.  Samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru við samþykkt hins kærða skipulags, var óheimilt að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafði verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefði verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Telja verður að það ákvæði hafi staðið í vegi fyrir því að gerð yrði breyting á skipulagi umrædds svæðis, enda höfðu þar átt sér stað umfangsmiklar jarðvegsframkvæmdir sem ekki voru í samræmi við skipulag. 
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Einn nefndarmanna, Hildigunnur Haraldsdóttir, er sammála niðurstöðu meirihluta nefndarinnar þó með eftirfarandi athugasemd:  Í  skipulagsreglugerð nr. 400/1998 var ekki að finna flokk landnotkunar sem samkvæmt orðanna hljóðan tók til losunar ómengaðra jarðefna.  Hefð hefur hins vegar skapast fyrir losun hóflegs magns ómengaðs jarðvegs á opnum svæðum til sérstakra nota sem nýttur hefur verið til landmótunar.  Styðst sú hefð við fjölda fordæma en vegna umfangs flutnings og losunar jarðefna á Hólmsheiði samræmist losunarsvæðið vart hugmyndum um landnotkun opinna svæða til sérstakra nota.   
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. nóvember 2010 um deiliskipulag fyrir jarðvegsfyllingu og miðlunargeyma á Hólmsheiði.

_______________________________ 
Ómar Stefánsson                            

___________________________                                  _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                                   Hildigunnur Haraldsdóttir
                               

 

4/2012 Lindasmári

Með

Árið 2013, þriðjudaginn 31. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 4/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. janúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir U, Lindasmára 22, Kópavogi þá ákvörðun Bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. nóvember 2011 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kópavogsdals-norðursvæðis þar sem heimiluð var starfræksla hársnyrtistofu í parhúsinu að Lindasmára 20, Kópavogi.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Með bréfi dags. 26. júlí 2012, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, skaut kærandi jafnframt ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 10. júlí 2012, um að veita byggingarleyfi fyrir notkun hluta fasteingarinnar að Lindasmára 20 undir hársnyrtistofu, til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar.  Verður það mál, sem er nr. 77/2012,  sameinað máli þessu enda eru málsatvik beggja mála á sömu lund.    

Úrskurðarnefndinni bárust umbeðin gögn er málið varða frá Kópavogsbæ hinn 10. september 2012.

Málsatvik og rök:  Hinn 19. júlí 2011 tók skipulagsnefnd Kópavogs fyrir umsókn um heimild til að reka hársnyrtistofu að Lindasmára 20.  Var samþykkt að grenndarkynna breytingu á deiliskipulagi í þá veru á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Athugasemdir bárust m.a. frá kæranda á kynningartíma tillögunnar.  Skipulagsnefnd tók málið fyrir hinn 15. nóvember 2011 og samþykkti umrædda skipulagbreytingu með því skilyrði að bætt yrði við einu bifreiðastæði á lóð Lindasmára 20.  Bæjarstjórn samþykkti þá afgreiðslu hinn 22. nóvember s.á. og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. desember 2011.  Hið kærða byggingarleyfi var síðan gefið út með stoð í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hinn 10. júlí eins og að framan greinir.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að umdeild skipulagsbreyting raski hagsmunum hans og með henni sé farið gegn lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 auk þess sem hin kærða ákvörðun sé haldin form- og efnisannmörkum.  Hið kærða byggingarleyfi sé undir sömu sök selt, enda sé farið um sameiginlega lóð að bílastæði því sem þar sé gert ráð fyrir.

Bæjaryfirvöld byggja á því að hin kærða skipulagsbreyting varði séreign eiganda Lindasmára 20.  Farið hafi verið að lögum við málsmeðferð ákvörðunarinnar og sama eigi við um byggingarleyfið.   

Niðurstaða:   Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartiðinda er birtist hinn 15. mars 2013 afturkallaði bæjarstjórn Kópavogs hina kærðu deiliskipulagsbreytingu hinn 12. mars s.á.  Þá liggur fyrir að byggingarfulltrúi samþykkti afturköllun hins kærða byggingarleyfis hinn 22. maí 2013.

Hafa hinar kærðu ákvarðanir að framangreindum ástæðum ekki lengur réttarverkan að lögum og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þeirra ákvarðana.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson

36/2012 Óðinsgata

Með

Árið 2013, þriðjudaginn 31. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 36/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2012, er barst nefndinni 27. sama mánaðar, kærir S Óðinsgötu 15, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 að synja umsókn um að gert yrði ráð fyrir þremur bílastæðum á lóð nefndrar fasteignar.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 7. febrúar 2012 tók byggingarfulltrúinn í Reykjavík fyrir umsókn um „leyfi til að bæta við þriðja bílastæðinu á baklóð fjölbýlishúss á lóð nr. 15 við Óðinsgötu.“   Var umsókninni synjað með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 1. febrúar s.á.  Sú niðurstaða var tilkynnt með bréfi dags. 8. febrúar 2012 og hefur kærandi borið þá synjun undir úrskurðarnefndin eins og að framan greinir.

Kærandi vísar til þess að mál þetta hafi upphaflega lotið að því að leggja fyrir byggingarfulltrúa teikningar að húsinu að Óðinsgötu 15 vegna breytinga innanhúss í tilefni af breyttu eignarhaldi.  Láðst hafi að teikna bíl í einu þriggja bílastæða sem fyrir séu á lóðinni á nefndum teikningum.   Umsókn kæranda, sem synjað hafi verið, hafi aðeins falið í sér leiðréttingu á innsendri teikningu til samræmis við byggingarleyfisteikningar fasteignarinnar og gildandi eignaskiptayfirlýsingu hvað umrætt bílastæði varði.  Verði ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun byggist í besta falli á misskilningi.

Reykjavíkurborg krefst frávísunar málsins þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti skv.  2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Kæranda hafi í síðasta lagi mátt vera ljóst um málalyktir og kæruúrræði hinn 1. mars 2012 svo sem fyrirliggjandi tölvupóstar embættisins og kæranda beri með sér.      

Niðurstaða:   Upplýst hefur verið af hálfu borgaryfirvalda að umsókn kæranda, sem synjað hafi verið í máli þessu, hafi verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. desember 2012 með svofelldri bókun:  „Sótt er um samþykki fyrir núverandi fyrirkomulagi bílastæða á lóð fjölbýlishúss nr. 15 við Óðinsgötu.  Útskrift úr gerðabók embættisafgreiðslufundar skipulagsstjóra frá 7. desember 2012 fylgir erindinu ásamt umsögn skipulagsstjóra dags. 6. desember 2012.  Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010.  Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að umsókn kæranda sem synjað var með hinni kærðu ákvörðun hefur nú verið samþykkt.  Hefur kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi fyrri afgreiðslu borgaryfirvalda á nefndri umsókn hans og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við  3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson

37/2013 Háagerði

Með

Árið 2013, föstudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 37/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. mars 2013 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við einbýlishús að Háagerði 12 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. apríl 2013, er barst nefndinni 11. sama mánaðar, kæra Þ og S þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. mars 2013 að synja umsókn þeirra um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við einbýlishús að Háagerði 12 í Reykjavík.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 28. júní 2013. 

Málavextir:  Kærendur sendu byggingarfulltrúanum í Reykjavík fyrirspurn í maí 2012 þar sem óskað var eftir afstöðu embættisins til stækkunar á húsinu að Háagerði 12.  Lóðin er á íbúðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi og hefur svæðið ekki verið deiliskipulagt.  Fyrirspurnin var tekin fyrir af byggingarfulltrúa sem vísaði henni til umsagnar skipulagsstjóra.  Skipulagsstjóri veitti umsögn, dags. 22. maí 2012.  Niðurstaða hans var að viðbyggingin félli rétt innan marka þess nýtingarhlutfalls sem mælt væri með á svæðinu.  Þá sagði að þrátt fyrir að umfang viðbyggingarinnar væri ekki mikið í fermetrum raskaði hún svipmóti byggðarinnar og félli ekki vel að götumynd.  Viðbyggingin þyrfti að taka betur mið af formi og gerð upprunalegs húss og falla vel að byggingarstíl þess.  Þar sem ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir svæðið yrði væntanleg byggingarleyfisumsókn, sem unnin væri í samræmi við umsögnina, grenndarkynnt.  Loks var fyrirspurnin tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. október 2012.  Bókað var eftirfarandi:  „Jákvætt.  Með vísan til skilyrða í umsögn skipulagsstjóra dags. 22. maí 2012.  Byggingarleyfisumsókn sem unnin yrði í samræmi við umsögn yrði grenndarkynnt.“

Kærendur sóttu um byggingarleyfi með umsókn, dags. 22. janúar 2013.  Erindið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 29. sama mánaðar og vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Skipulagsstjóri tók málið fyrir á fundi 1. febrúar 2013 og bókaði að vísað væri til fyrri umsagnar, frá 22. maí 2012.  Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir að nýju 26. febrúar 2013 og vísaði henni til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 8. mars 2013 var málið tekið fyrir og lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars sama ár, ásamt umsögninni frá 22. maí 2012.  Skipulagsstjóri bókaði að ekki væri fallist á erindið, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars 2013.  Niðurstaða umsagnarinnar var að viðbyggingin félli innan nýtingarhlutfalls sem mælt væri með á svæðinu og teldist ásættanleg í því tilliti.  Viðbygging þyrfti að mati skipulagsfulltrúa og borgarminjavarðar að taka betur mið af formi og gerð upprunalegs húss og falla betur að svipmóti Smáíbúðahverfisins.  Ekki væri því hægt að fallast á umsóknina að óbreyttu.  Byggingarfulltrúi synjaði umsókninni á afgreiðslufundi 12. mars 2013 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. 

Málsrök kærenda:  Kærendur telja í fyrsta lagi að málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar við meðferð umsóknar þeirra. 

Ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010 og skipulagslaga nr. 123/2010 hafi ekki verið virt.  Hafi skipulagsstjóra borið að láta fara fram grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga þegar byggingarfulltrúi sendi erindi þess efnis til hans 26. febrúar 2013.  Málið hafi einnig átt að fara til ákvörðunar sveitarstjórnar að lokinni grenndarkynningu.  Þá sé byggingarfulltrúi ekki bundinn af umsögn skipulagsfulltrúa og honum sé ekki skylt að leita umsagnar skipulagsfulltrúa, sbr. 2. ml. 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga. 

Skipulagsfulltrúi hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þannig hafi ráðleggingar starfsmanns skipulagsfulltrúa á fundi 18. júní 2012 m.a. falið í sér að byggt yrði við norðan megin hússins, sem sé ómögulegt vegna lóðar og nálægðar nágrannahúss.  Sýni þetta að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin.

Loks hafi skipulagsfulltrúi brotið gegn andmælarétti kærenda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.  Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars 2013, hafi verið vísað í umsögn borgarminjavarðar.  Sú umsögn borgarminjavarðar hafi ekki fylgt gögnum málsins og því geti kærendur ekki svarað henni. 

Þá telji kærendur í öðru lagi að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum.  Sjónarmiðin hafi komið fram í umsögn skipulagsstjóra, dags. 7. mars 2013, og fyrri umsögn hans, dags. 22. maí 2012. 

Byggingarfulltrúi hafi talið sig bundinn af neikvæðum og ófaglegum umsögnum skipulagsfulltrúa og hafi þær orðið til þess að erindinu var synjað.  Formlega sé um að ræða umsögn skipulagsstjóra, dags. 7. mars 2013, en hún byggi á og vísi í umsögn frá 22. maí 2012.  Umsagnirnar séu villandi og á köflum beinlínis rangar.  Þá vanti alfarið efnislegan rökstuðning fyrir þeim kröfum sem gerðar séu. 

Niðurstaða umsagnar skipulagsfulltrúa 22. maí 2012 verði ekki skilin öðruvísi en að með nauðsyn þess að raska ekki  „svipmóti byggðar“ og „götumynd“ sé verið að vísa í forsendukafla umsagnarinnar.  Þar sé deiliskipulag Teigagerðisreitsins nefnt og sagt að ætla megi að við deiliskipulag svæðisins, sem Háagerði 12 tilheyri, verði horft til deiliskipulags aðliggjandi svæða, því sé tekið mið af skilmálum þeirra.  Þegar umsögnin sé rýnd sé hins vegar ekki að sjá að annað deiliskipulag en Teigagerðisskipulagið sé lagt til grundvallar.  Við Sogaveginn sé þó í gildi deiliskipulag sem sé mun skyldara umræddri götumynd í sögu og gerð og í því sé allt önnur afstaða til verndunar.  Því sé ljóst að fullyrðing skipulagsfulltrúa um að tekið sé almennt tillit til deiliskipulags nærliggjandi svæða sé röng og villandi.  Það vanti rökstuðning fyrir því hvers vegna skipulag Teigagerðisreits sé lagt til grundvallar.  Þannig sé um að ræða ólögmæt sjónarmið sem leiða skuli til ógildingar á umsögninni og afgreiðslu málsins. 

Þessu til viðbótar séu verndunarsjónarmið í Teigagerðisskipulaginu oftúlkuð, greinar teknar úr samhengi og gefin í skyn víðari túlkun þeirra. 

Skipulagsfulltrúi telji í umsögninni frá 22. maí 2012 að viðbyggingin muni raska svipmóti byggðarinnar og ekki falla vel að götumynd.  Kærendur telji að ekki sé sýnt fram á að svipmót eða götumynd hafi nokkurn tímann kallað á verndun.  Viðbyggingin sé innarlega á lóðinni og vart sýnileg frá götu.  Þá hafi svipmóti byggðarinnar og götumynd þegar verið raskað af breytingum á nærliggjandi húsum.  Ekkert hús sömu megin götu og hús kærenda sé með sama byggingarstíl.  Viðbygging við hús skáhallt á móti húsi kærenda, Háagerði 81, og við hús á horni Háagerðis og Mosgerðis hafi samskonar form og fyrirhuguð viðbygging. 

Þá telji skipulagsfulltrúi viðbygginguna þurfa að taka betur mið af formi og gerð upprunalegs húss og falla betur að byggingarstíl hússins.  Núverandi húsi hafi verið breytt þrisvar og fyrirhuguð viðbygging sé í samræmi við húsið.  Húsið sé látið halda sér óbreytt og gluggar viðbyggingarinnar taki mið af því.  Náttúruleg viðarklæðning tengi saman núverandi hús og stóran garð.  Skipulagsfulltrúi geri að auki enga tilraun til að rökstyðja hvers vegna viðbygging við þetta hús, umfram t.d. Háagerði 14, Háagerði 81 eða fjölmörg hús við Sogaveginn, eigi ein að falla að byggingarstíl upprunalega hússins. 

Að lokum geti tilvísanir í almennar greinar aðalskipulags ekki einar og sér verið grundvöllur að umsögn sem þessari.  Í skipulaginu sé lögð áhersla á mat aðstæðna í hverju tilfelli. 

Um seinni umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars 2013, vísi kærendur til þess að þeir hafi ekki séð þá umsögn borgarminjavarðar sem nefnd sé.  Sambærileg rök eigi við og þau sem rakin séu varðandi fyrri umsögn.  Benda megi á að skipulagsfulltrúi viðurkenni með setningunni „auk þess sem óæskilegt sé að heildarsvipmóti hverfisins verði raskað umfram það sem þegar er orðið“ að verndunargildi hverfisins hafi verið raskað.  Ekki verði því annað séð en að jafnræðisregla hafi verið brotin. 

Kærendur telji þannig að formskilyrðum, sem og jafnræðisreglu og meðalhófsreglu, hafi ekki verið fullnægt.  Efnisatriði umsagnar skipulagsfulltrúa snúi aðeins að húsa- og hverfavernd.  Hann hafi samþykkt að stærð viðbyggingarinnar sé ásættanleg og geri ekki athugasemdir varðandi áhrif skuggavarps eða önnur áhrif á nálægar lóðir.  Því standi og falli umsögn skipulagsfulltrúa með óljósum verndarhagsmunum.  Þessir verndarhagsmunir hafi ekki verið rökstuddir með fullnægjandi hætti og því sé ólögmætt að beita þeim eins og gert hafi verið í málinu.  Framangreind sjónarmið skipulagsfulltrúa gangi gegn þróun götu og hverfis og hvað varði kærendur þá gangi þau þvert gegn jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað og synjun byggingarfulltrúa staðfest.  Byggt sé á því að synjun byggingarfulltrúa hafi verið lögmæt.  Ekki verði séð að ákvæði um málsmeðferð hafi verið brotin á kærendum.  Á það skuli bent að fyrirspurn kærenda árið 2012 hafi verið svarað með umsögn skipulagsstjóra.  Í umsögninni komi fram að fyrirhuguð bygging muni raska svipmóti byggðarinnar og ekki falla vel að götumynd.  Því þurfi hún að taka betur mið af formi og gerð upprunalegs húss og falla að byggingarstíl þess. 

Kærendur hafi gert athugasemdir við umsögn skipulagsstjóra með bréfi, dags. í ágúst 2012, og fundað hafi verið með þeim.  Niðurstaða þeirrar vinnu hafi verið að ekki væri ástæða til að breyta afstöðu skipulagsstjóra.  Því sé þannig hafnað að málsmeðferð hafi verið brotin á kærendum við meðferð fyrirspurnarinnar.  Bent skuli á að hvorki skipulagslög né mannvirkjalög geri ráð fyrir fyrirspurnum sem hluta af málsmeðferð vegna byggingarleyfisumsókna, heldur sé verið að láta uppi almenna afstöðu byggingaryfirvalda til fyrirhugaðra framkvæmda á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggi. Ekki sé þannig um endanlega afstöðu borgaryfirvalda að ræða. 

Byggingarleyfisumsókn kærenda hafi ekki verið í samræmi við þau skilyrði sem fram hafi komið í umsögn skipulagsstjóra, enda hafi ekki verið fallist á erindið og skipulagsfulltrúi hafi vísað til fyrri umsagnar sinnar.  Byggingarfulltrúi hafi engu að síður ákveðið á fundi 26. febrúar 2013 að vísa málinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Ekki hafi verið fallist á það af hálfu skipulagsfulltrúa að láta fara fram grenndarkynningu, en á fundi hans 8. mars 2013 hafi verið bókað að ekki væri fallist á erindið með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars 2013.

Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að endurskoða þurfi hönnun viðbyggingarinnar út frá byggðamynstri Smáíbúðahverfisins, en fyrirhuguð bygging þurfi að mati skipulagsfulltrúa og borgarminjavarðar að taka betur mið af upprunalegu húsi og falla betur að svipmóti hverfis.  Því sé ekki unnt að fallast á umsóknina að óbreyttu.

Ekki hafi verið skylt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina enda hafi hún ekki uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga að vera í samræmi við byggðamynstur hverfisins.  Af uppdráttum sjáist að hin fyrirhugaða viðbygging sé gjörsamlega úr takti við það hús sem fyrir sé og byggðamynstur hverfisins sem einkennist af samskonar húsum.  Viðbygging á lóðinni nr. 81 við Háagerði, sem kærendur vísi til, sé ekki sambærileg þeirri sem kærendur vilji reisa.  Viðbyggingin við Háagerði 81 hafi verið samþykkt árið 1965 en þá hafi verið samþykkt að setja kvist á bakhlið og stækka húsið um 29,6 m2.  Fyrirhuguð bygging kærenda sé rúmlega 41 m² með nýtískulegu yfirbragði sem ekki falli vel að húsi eða hverfi. 

Málsástæðum kærenda þess efnis að byggingarfulltrúa hafi ekki verið skylt að vísa málinu til umsagnar skipulagsstjóra eða taka mark á umsögn hans sé einnig mótmælt.  Byggingarfulltrúa beri að vísa byggingarleyfisumsókn til umsagnar skipulagsfulltrúa þar sem ekkert deiliskipulag sé í gildi.  Skipulagsfulltrúi taki svo ákvörðun um framhald máls, þ.e. hvort vinna þurfi deiliskipulag eða hvort beita megi undanþáguákvæði 44. gr. og grenndarkynna byggingarleyfisumsóknir.  Skv. gr. 2.3.4. í gildandi byggingarreglugerð þurfi að leita samþykkis hlutaðeigandi skipulagsnefndar varði breyting á mannvirki form eða útlit.  Tekið sé fram í ákvæðinu að ekki þurfi að leita slíks samþykkis sé breyting óveruleg, breyti ekki eða hafi áhrif á götumynd. 

Ekki sé fallist á að þar sem svipmóti hverfisins sé þegar raskað sé ekki þörf fyrir verndun.  Í fyrsta lagi sé ekki fallist á að svipmóti hverfisins hafi verið raskað svo neinu nemi og í öðru lagi leiði eitthvert rask á svipmóti byggðar í áranna rás ekki til þess að raska eigi byggðinni meira. 

Því sé jafnframt hafnað að meðalhófsregla eða jafnræðisregla hafi verið brotnar á kærendum og að eignarréttur hafi verið rýrður.  Þvert á móti hafi verið tekið jákvætt í að stækka húsið og kærendum því í lófa lagið að laga umsókn sína að umsögn skipulagsstjóra í málinu.  Því sé mótmælt að rannsóknarregla hafi verið brotin eða andmælaréttur ekki virtur.  Engin skylda sé til að veita andmælarétt við umsögn umsagnaraðila enda skoðist slíkar umsagnir sem hluti af þeim gögnum sem borgaryfirvöld styðjist við áður en ákvörðun sé tekin um afgreiðslu umsókna.  Ekki sé heldur skylt að veita andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum teljist það augljóslega óþarft.  Bent skuli þó á að leitað hafi verið álits borgarminjavarðar umfram skyldu. 

Beinast hafi legið við að líta til deiliskipulags Teigagerðisreits við meðferð umsóknarinnar þar sem það hverfi sé hluti af sömu heild og sé unnið eftir skipulagsuppdrætti frá 1953 „Smáhúsahverfi“.  Sogavegur hafi byrjað að byggjast upp töluvert áður og algerlega án skipulags.  Deiliskipulag fyrir Sogaveg, sem unnið hafi verið árið 2004, hafi því verið orðið mjög brýnt verkefni og mikil þörf hafi verið fyrir endurnýjun lélegra húsa.  Hafi skipulagið því gert ráð fyrir bæði nýbyggingum og niðurrifi.  Fráleitt sé að gera þá kröfu að tekið verði mið af óskyldum deiliskipulagsáætlunum sem byggi á öðrum forsendum.  Í máli þessu hafi það verið mat skipulagsyfirvalda að hin fyrirhugaða viðbygging hæfi húsinu og byggðamynstri hverfisins illa.  Sú afstaða borgaryfirvalda hafi strax verið látin uppi er kærendur hafi lagt inn fyrirspurn.  Jafnframt hafi kærendum verið leiðbeint um þau atriði sem uppfylla þyrfti til að byggingarleyfisumsókn yrði grenndarkynnt.  Kærendur hafi hins vegar kosið að leggja inn byggingarleyfisumsókn sem hafi ekki verið í samræmi við afstöðu skipulagsyfirvalda.  Kærendur hafi því tekið alla áhættu af því að byggingarleyfisumsókninni yrði synjað.  Því sé þannig hafnað að synjun byggingarfulltrúa hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum.  Á það skuli bent að skipulagsvaldið liggi hjá sveitarfélögunum og samkvæmt lögum sé það hlutverk sveitarstjórna að fjalla um og meta leyfisumsóknir og tryggja faglega umfjöllun, m.a. varðandi útlit og form bygginga. 

Aðilar hafa gert nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum, sem ekki þykir ástæða til að rekja hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn um leyfi til að byggja við einbýlishús að Háagerði 12, sem er í þegar byggðu hverfi sem ekki hefur verið deiliskipulagt.  Í umræddu tilviki lögðust skipulagsyfirvöld gegn byggingarleyfisumsókn kærenda án undangenginnar grenndarkynningar. 

Til stuðnings afstöðu sinni til umsóttrar viðbyggingar vísa skipulagsyfirvöld til þess að viðbyggingin þurfi að taka betur mið af formi og gerð upprunalegs húss og falla betur að svipmóti Smáíbúðahverfisins auk þess sem óæskilegt sé að heildarsvipmóti hverfisins verði raskað umfram það sem þegar sé orðið.  Þau sjónarmið sem búa að baki hinni kærðu ákvörðun byggja, að því er fram kemur í umsögn skipulagsfulltrúa, á aðalskipulagi og deiliskipulagsskilmálum Teigagerðisreits.  Fram kemur í aðalskipulagi Reykjavíkur, kafla 3.3, Þéttleiki byggðar og nýtingarhlutfall, að þegar fjallað sé um byggingarleyfisumsókn þar sem ekki hefur verið unnið deiliskipulag og ekki liggur fyrir í aðalskipulagi hver þéttleiki, byggingarmagn og yfirbragð byggðar skuli vera, skuli taka tillit til hæðar nærliggjandi húsa við sömu götu og nýtingarhlutfalls á viðkomandi götureit, auk þess sem áhrif á m.a. götumynd skuli metin, og þess gætt að framkvæmdin leiði aðeins til óverulegra breytinga á byggðamynstri hverfisins.  Byggðamynstur er skilgreint í 5. tl. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem lögun og yfirbragð byggðar, svo sem hæð og þéttleiki, og í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er byggðamynstri lýst sem lögun og yfirbragði byggðar, þar með talið fyrirkomulag byggðar og landnotkunar, svo sem hæð og þéttleiki, tegund landnotkunar, gatnakerfi, gerð og uppröðun bygginga, sbr. gr. 1.3. 

Skipulagsyfirvöld hafa ekki beitt skipulagsvaldi sínu til að gera nefnd skipulagsmarkmið um svipmót hverfis bindandi gagnvart stjórnvöldum og borgurum með skipulagsákvörðunum.  Það er óumdeilt að hæð hússins og nýtingarhlutfall lóðar eftir umsótta breytingu yrðu í samræmi við nærliggjandi hús, en ekki verður í þessu sambandi byggt á ákvæðum deiliskipulags annars götureits, s.s. Teigagerðisreits, sem ekki tengist umræddum götureit og liggur í nokkurri fjarlægð.  Umdeild viðbygging  yrði 20,8 m² að grunnfleti, og á tveimur hæðum, og hún risi ekki hærra en núverandi hús á lóðinni sem liggur við botngötu.  Með hliðsjón af þessu, og því að viðbyggingin yrði staðsett innarlega í lóð frá götu, verður hvorki séð að hún myndi raska götumynd að marki né að með henni yrði vikið frá landnotkun eða þéttleika byggðar svæðisins. 

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og bar því samkvæmt framansögðu að grenndarkynna fyrirhugaða viðbyggingu áður en skipulagsyfirvöld tóku afstöðu til umsóknar kærenda. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið þykja þeir annmarkar vera á málsmeðferð og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að fella verði hana úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 12. mars 2013 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við einbýlishús að Háagerði 12 í Reykjavík. 

____________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

 

    

 

 

52/2012 Staðarbakki Rangárþingi eystra

Með

Árið 2013, mánudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 52/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 27. október 2011 um að hafna kröfu um ógildingu og afturköllun á deiliskipulagi vegna frístundabyggðar í landi Staðarbakka í Fljótshlíð, Rangárþingi eystra. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. maí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir B, Kvoslæk II, f.h. E, Kirkjulæk, V, Hlíðarbóli og V, Hellishólum, Fljótshlíð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 27. október 2011 að hafna kröfu um að ógilda og afturkalla deiliskipulag vegna frístundabyggðar í landi Staðarbakka í Fljótshlíð.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir sveitarstjórn að fjalla efnislega um málið.  Þá er þess óskað að úrskurðarnefndin feli sveitarstjórn Rangárþings eystra að beita sér fyrir sáttum. 

Málavextir:  Hinn 22. nóvember 2005 tók gildi deiliskipulag frístundabyggðar í landi Staðarbakka í Fljótshlíð, Rangárþingi eystra, er gerði ráð fyrir 11 frístundahúsalóðum á 20 ha svæði, auk 16 ha útivistarsvæðis.  Breyting á umræddu skipulagi tók gildi hinn 4. apríl 2011 og fól hún í sér að byggingarreitir voru stækkaðir og allt að þrjú hús heimiluð á hverjum byggingarreit. 

Með bréfi til sveitarstjórnar Rangárþings eystra, dags. 3. október 2011, fóru tveir kærenda fram á að sveitarstjórn myndi ógilda og afturkalla framangreindar ákvarðanir.  Var skírskotað til forsögu málsins og m.a. bent á að komið hefði verið á framfæri athugasemdum við undirbúning að deiliskipulaginu um að landamerki Staðarbakka, á því svæði sem tekið væri til skipulags, væru ranglega staðsett á uppdrætti.  Hefði í framhaldi af því verið leitað sátta, m.a. með atbeina sýslumanns og landskipta- og sáttanefndar.  Sættir hefðu ekki náðst og ríkti því enn óvissa um landamerki á hinu umdeilda svæði.  Var og vísað til bókunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 13. september 2005 þar sem fært hefði verið til bókar að eigendur aðliggjandi jarða, sem gert hefðu athugasemdir á auglýsingatíma skipulagsins, hefðu ekki getað sýnt fram á ,,eigið eignarhald lands inn í hið skipulagða svæði að Staðarbakka“.  Hefði nefndin ítrekað fyrra samþykki sitt á tillögunni og í framhaldi af því hafi deiliskipulagið öðlast gildi.

Krafa kærenda var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar hinn 27. október 2011 og afgreidd með eftirfarandi hætti:  „Sveitarstjórn Rangárþings eystra telur að um eðlilega stjórnsýslu hafi verið að ræða og að gætt hafi verið allra viðeigandi málsmeðferðarreglna í meðferð á deiliskipulagstillögunni. Lykilatriði er að ákvörðun um deiliskipulag tekur ekki afstöðu til eða sker úr um eignarhald á landi þar sem skipulagið nær til. Þessi meginregla hefur verið staðfest af Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Vísað er til óformlegs álits lögfræðinga Sambands íslenskra sveitarfélaga á málinu.“ 

Kærendum var tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar með bréfi, dags. 28. október s.á.  Í framhaldi af því skutu kærendur málinu til innanríkisráðuneytisins, með bréfi, dags. 5. janúar 2012.  Hinn 6. janúar sama mánaðar framsendi ráðuneytið erindi kærenda til Skipulagsstofnunar, sem svaraði erindinu með bréfi, dags. 16. febrúar s.á., og taldi hvorki hafa verið um form- eða efnisgalla að ræða við afgreiðslu skipulagsins.  Kærendur sendu stjórnsýslukæru til umhverfisráðuneytisins með bréfi, dags. 12. mars 2012, en ráðuneytið vísaði kærunni frá þar sem kæran ætti ekki undir umhverfisráðherra lögum samkvæmt.  Í kjölfar þess kvörtuðu kærendur við umboðsmann Alþingis um málsmeðferð skipulags á svæðinu.  Með áliti umboðsmanns, dags. 21. maí 2012, var kærendum bent á að freista þess að leita með málið til úrskurðarnefndarinnar, en umboðsmaður gæti ekki tekið afstöðu til málsins meðan kæruleiðir væru ekki tæmdar. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að í bréfi sveitarstjórnar til umboðsmanns kærenda, dags. 28. október 2011, hafi ekki verið veittar leiðbeiningar um kæruheimild eða kærufrest vegna ákvörðunar sveitarstjórnar, svo sem þeim hafi verið skylt lögum samkvæmt.  Verði af þeim sökum að telja að úrskurðarnefndinni beri að taka kæruna til efnislegrar meðferðar. 

Deiliskipulag vegna frístundabyggðar í landi Staðarbakka hafi verið ákveðið og auglýst þrátt fyrir ágreining um eignarhald á hinu skipulagða landi og óleysta deilu um landamerki.  Dregið sé í efa að hið deiliskipulagða svæði sé allt í landi Staðarbakka.  Sjónarmið þeirra sem hafi gert tilkall til hluta landsins hafi verið höfð að engu og lögmætar athugasemdir hunsaðar.  Látið hafi verið undan þrýstingi um staðfestingu á deiliskipulagi í stað þess að knýja á um lausn landamerkjadeilu. 

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi sveitarstjórn borið ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og borið að láta gera skrá yfir allar jarðir, lönd og lóðir innan sveitarfélagsins skv. 29. gr. tilvitnaðra laga.  Þá hafi sveitarstjórn skv. 30. gr. laganna getað krafist þess af eigendum lands og jarða að gerður yrði fullnægjandi hnitsettur uppdráttur af nýjum landamerkjum eða lóðamörkum til afnota fyrir landeignaskrá. 

Við gerð skipulags beri að taka tillit til ríkra hagsmuna og þá sérstaklega þeirra sem njóti verndar stjórnarskrár, eins og beinna eða óbeinna eignarréttinda yfir landi, lóðum og mannvirkjum á skipulagssvæðinu.  Ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar um eignarréttindi setji því skýrar skorður að raskað sé við slíkum réttindum.  Ef það sé talið óhjákvæmilegt í þágu heildarhagsmuna hafi sveitarfélagið heimild til eignarnáms lögum samkvæmt.  Séu slíkir hagsmunir ekki í húfi beri sveitarfélagi að halda að sér höndum og láta hjá líða að samþykkja deiliskipulag þar til aðilar hafi leyst úr ágreiningi sínum.  Sé um vafa að ræða geti sveitarstjórn krafist þess að fyrir hana sé lagður hnitsettur uppdráttur með lögmætum landamerkjum. 

Skipulagsyfirvöld hafi látið undir höfuð leggjast að bíða eftir sameiginlegri niðurstöðu deiluaðila og hafi í þess stað tekið afstöðu með einum á kostnað annarra.  Sé með öllu ólíðandi og ólögmætt að sveitarstjórn, nefndir á hennar vegum og embættismenn, svipti eigendur lands, eða þá sem geri tilkall til eignarhalds á landi, rétti sínum með skipulagsvaldi.  Þá sé ámælisvert að Skipulagsstofnun leggi blessun sína yfir slík vinnubrögð. 

Augljóst sé af gögnum málsins að öllum er komið hafi að ákvörðuninni á vettvangi sveitarstjórnar hafi verið kunnugt um að deilur væru um eignarhald á hinu deiliskipulagða landi og að gæta þyrfti stjórnsýslureglna.  Vísi kærendur til forsögu málsins og bendi m.a. á að í minnisblaði lögmanns, dags. 2. mars 2005, komi m.a. fram að óhjákvæmilegt virðist annað en að fella staðfestingu deiliskipulagsins úr gildi á grundvelli fram kominna rökstuddra mótmæla.  Síðar, eða í minnisblaði sama lögmanns, dags. 16. ágúst s.á., hafi verið bent á að ekkert dómsmál hafi farið í gang vegna landamerkjadeilunnar og nágrannar hafi ekki fylgt andmælum eftir.  Í ljósi þess yrði að álykta sem svo að þinglýst merki Staðarbakka væru rétt, enda hafi þeim ekki verið hnekkt.  Þá hafi verið bent á að landeigandi yrði á endanum að teljast ábyrgur fyrir því tjóni sem kynni að verða ef í ljós kæmi að hann hefði látið skipuleggja land utan eignarhalds síns, enda skipulagið gert á þeim forsendum að verið væri að skipuleggja land Staðarbakka.  Í krafti ábendinga lögmannsins hafi á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 13. september 2005 verið staðfest fyrra samþykki á fram kominni tillögu að deiliskipulagi en minnisblað lögmanns sýni á hve veikum og einhliða grunni sú bókun hafi verið reist. 

Samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi ekki mátt gefa út framkvæmdaleyfi nema að allir sameigendur að landi samþykktu það.  Í samkomulagi aðila um lóð nr. 5 við Mýrbug hafi falist viðurkenning af hálfu allra aðila á réttaróvissu um eignarheimildir. 

Sveitarstjórn hafi við hina kærðu ákvörðun m.a. vísað til álits frá lögfræðingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í tölvupósti máli sínu til stuðnings, en sé litið til þess er fram komi í formála álitsins veki það undrun að sá er það veiti telji sér fært að komast að lögfræðilegri niðurstöðu um álitamál er snerti eignarréttindi og spurningu um brot sveitarstjórnar á stjórnarskrárvernd þeirra.  Í álitinu sé m.a. vitnað til 4. mgr. gr. 3.1.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 þar sem segi að gera skuli grein fyrir eignarhaldi á landi innan skipulagssvæðisins, eftir því sem kostur sé, og hafi í álitinu verið talið að „ítrasta rannsóknarskylda“ yrði ekki reist á ákvæðinu.  Kærendur bendi á að ríki vafi um eignarhald beri sveitarstjórn að kanna það til hlítar og láta menn njóta vafans með frestun máls í stað þess að ganga á rétt þeirra.  Í rannsóknarskyldunni felist ábyrgð, taka beri mið af því sem rannsóknin leiði í ljós.  Stjórnvaldið hafi ekki þurft annað en að leita til byggingarfulltrúa til að fá upplýsingar um að ágreiningur væri um eignarhald á umræddu landi og hafi sveitarstjórn borið skylda til að taka mið af slíkum upplýsingum.  Telji kærendur að óljós efnistök í greindu áliti megi ekki ráða úrslitum í máli sem þessu.  Þá sé mál kærenda ekki sambærilegt máli frá úrskurðarnefndinni sem skírskotað hafi verið til í tölvubréfinu. 

Skipulagsnefnd og sveitarstjórn hafi borið að huga að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaganna, en samkvæmt henni skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti.  Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakir en nauðsyn krefji.  Við ákvörðun í máli þessu hafi sveitarstjórnarmenn haft val um fleiri úrræði en eitt til að ná því markmiði að staðfesta deiliskipulag, en valinn hafi verið harðasti kosturinn í stað þess að gæta hófs, eins og mælt sé fyrir um í nefndu ákvæði.  Jafnframt hafi verið brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt og gegn 10. gr. sömu laga um rannsóknarskyldu stjórnvalds. 

Með tilliti til lögmætisreglu íslensks réttar, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar og krafna um skýrleika laga á grundvelli hennar, þegar um íþyngjandi ákvörðun eins og eignaupptöku sé að tefla, sbr. hér 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda, standist ekki að skipulagsyfirvöld gangi gegn eignarréttindum eins og gert hafi verið með samþykktum sveitarstjórnar 13. september og 13. október 2005.  Þegar stjórnvöld fari út fyrir valdsvið sitt og valdþurrð sé fyrir hendi varði það ógildi ákvörðunar.  Að ekki hafi verið leyst úr ágreiningi með því að skjóta honum til dómstóla veiti sveitarstjórn ekki vald til að koma í stað dómstóls og taka af skarið um rétt samkvæmt deiliskipulagi sem jafna megi til eignarréttar.  Skipulagsstofnun hafi tekið fram að ekki væri gerð krafa um það í gr. 3.1.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að eignarhald á landi væri að fullu upplýst.  Megi skilja þau orð á þann veg að ákvæðið heimili skipulagsyfirvöldum að virða stjórnarskrárvarinn eignarrétt að engu við ákvarðanir sínar.  Sé sá skilningur í raun fráleitur þegar hugað sé að fyrirmælum stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttarins.  Beri úrskurðarnefndinni að taka af skarið í úrskurði sínum um að virða beri eignarrétt en ekki ganga á hann í skjóli óljóss reglugerðarákvæðis. 

Málsrök Rangárþings eystra:  Sveitarfélaginu var tilkynnt um fram komna kæru og hefur að því tilefni sent gögn er málið varðar til úrskurðarnefndarinnar. Sveitarfélagið hefur hins vegar ekki lýst sérstaklega sjónarmiðum sínum vegna kærunnar.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra hinn 27. október 2011 að synja þess að afturkalla og ógilda ákvarðanir sveitarstjórnar um deiliskipulag Staðarbakka.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kæra í máli þessu var móttekin 5. janúar 2012, eða rúmum tveimur mánuðum eftir að kærendum var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun.  Barst kæran því að liðnum kærufresti.  Hins vegar var kærendum ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest af hálfu sveitarfélagsins, svo sem því bar að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laganna, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti. 

Í hinni kærðu ákvörðun fólst synjun um endurupptöku máls samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga og synjun afturköllunar stjórnvaldsákvörðunar samkvæmt 25. gr. laganna.  Samkvæmt tilvitnaðri 25. gr. getur stjórnvald að eigin frumkvæði afturkallað ákvörðun sína, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg.  Það er því á valdi stjórnvalds að ákveða hvort heimild þessi til afturköllunar verði nýtt og verður ekki talið að kærendur eigi lögvarinn rétt til að knýja stjórnvald til töku slíkrar ákvörðunar, en aðili máls á hins vegar rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný að vissum skilyrðum uppfylltum skv. 24. gr. stjórnsýslulaga.  Þannig kemur fram í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.  Í 2. tl. nefndrar málsgreinar er svo kveðið á um að aðili eigi rétt á endurupptöku máls hafi íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin.  Beiðni um endurupptöku verður þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins, eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina skv. 1. tl. 1. mgr. eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingar á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tl. 1. mgr. var byggð á, sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna.  Þá verður, samkvæmt nefndu ákvæði, mál ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. 

Deiliskipulag Staðarbakka tók gildi hinn 22. nóvember 2005 og samkvæmt auglýsingu um gildistöku gerði skipulagið ráð fyrir 11 frístundahúsalóðum á 20 ha svæði, auk 16 ha útivistarsvæðis.  Þá tók breyting á skipulaginu gildi hinn 4. apríl 2011 og fól í sér, samkvæmt auglýsingu um gildistöku þess, að byggingarreitir væru stækkaðir og húsum á skipulagsreitnum fjölgað.  Umrætt deiliskipulag skapar réttindi fyrir þriðja aðila og verður ákvörðun um það því ekki endurupptekin nema fyrir liggi samþykki annarra aðila málsins.  Slíkt samþykki lá ekki fyrir þegar hin kærða ákvörðun var tekin og skorti þar með skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Vegna beiðni kærenda um að úrskurðarnefndin feli sveitarstjórn að beita sér fyrir sáttum í málinu tekur úrskurðarnefndin fram að það sé ekki á verksviði nefndarinnar að gefa slík fyrirmæli.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 27. október 2011 um að hafna kröfu kærenda um ógildingu og afturköllun á deiliskipulagi vegna frístundabyggðar í landi Staðarbakka í Fljótshlíð, Rangárþingi eystra. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________              ______________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson