Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

52/2013 Hesteyri

Með
Árið 2014, föstudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 22. febrúar 2013 um að samþykkja byggingaráform til breytinga á húsinu Heimabæ II, Hesteyri, Jökulfjörðum, Ísafjarðarbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

        úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. maí 2013, er barst nefndinni 29. s.m., kærir Sævar Geirsson, f.h. G, eiganda íbúðarhússins Heimabæjar I, Hesteyri og B, eiganda Hesteyrarjarðarinnar, „útgáfu byggingarleyfis“ fyrir húsið Heimabæ II, Hesteyri. Samkvæmt gögnum málsins samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráform með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, og verður að líta svo á að það sé sú ákvörðun er sætir kæru í máli þessu.

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að taka það til efnislegrar meðferðar og verður því ekki kveðinn upp sérstakur úrskurður um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarnefndinni bárust málsgögn frá Ísafjarðarbæ 10. júní 2013.

Málsatvik: Á árinu 2009 fór byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar fram á við eigendur Heimabæjar II, Hesteyri, að veittar yrðu skýringar á breytingum er gerðar hefðu verið á umræddu húsi án þess að sótt hefði verið um tilskilin leyfi til Ísafjarðarbæjar. Fram kom í svarbréfi til byggingarfulltrúa að á fjögurra ára tímabili hefði verið unnið að endurbótum við húsið og það til að mynda rétt af, klætt að utan með bárujárni, nýtt þak sett á og tveir þakgluggar. Einnig kom fram að eigendur hefðu metið það svo í kjölfar fyrirspurna sinna til byggingaryfirvalda á árunum 2002 og 2005 að leyfilegt væri að sinna viðhaldi húsa að vissum skilyrðum uppfylltum.

Með bréfi byggingarfulltrúa til eigenda Heimabæjar II, dags. 29. janúar 2010, var tiltekið að ekki væru gerðar athugasemdir við almennar endurbætur á húsinu í þeirri mynd sem það hefði verið. Hins vegar væri gerð athugasemd við að þak hússins næði nú yfir anddyri þess og húsið þannig stækkað sem því næmi. Kæmi til álita að fjarlægja téða stækkun og færa húsið í upprunalega mynd. Var eigendunum gefið færi á að koma að athugasemdum vegna þessa, sem þeir og gerðu. Málið var áfram í vinnslu hjá sveitarfélaginu og á fundi umhverfisnefndar hinn 31. janúar 2011 var samþykkt að beina því til eigendanna að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum að öðrum kosti yrði málið sent í „vinnuferil mála byggingarfulltrúa […] við beitingu dagsekta“. Nokkur bréfaskipti urðu á milli eigendanna og byggingarfulltrúa í kjölfar þessa er lutu m.a að því hvort framkvæmdirnar væru byggingarleyfisskyldar lögum samkvæmt. Fór svo að eigendur Heimabæjar II ákváðu „í sáttaskyni“ að leggja inn umsókn til byggingarfulltrúa fyrir þeim „endurbótum og lagfæringum“ við Heimabæ II sem ráðist hafði verið í á árunum 2006-2009. Var umsókn þeirra tekin fyrir á fundi umhverfisnefndar hinn 15. júní 2011 og samþykkt að óska umsagnar Hornstrandanefndar vegna framlagðra teikninga. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi umhverfisnefndar hinn 26. október s.á. og byggingarfulltrúa falið að grenndarkynna það fyrir eiganda Heimabæjar I, öðrum kærenda málsins. Kom kærandinn að athugasemdum vegna þessa og krafðist þess jafnframt að samþykkt umhverfisnefndar frá 26. október 2011 yrði afturkölluð.

Á fundi umhverfisnefndar hinn 9. nóvember 2011 var málið tekið fyrir á ný og byggingarfulltrúa falið að grenndarkynna nú erindið fyrir öllum eigendum sumarhúsa á Hesteyri og bárust athugasemdir frá fimm aðilum á kynningartíma þ. á m. frá öðrum kæranda. Erindið, athugasemdir og umsögn Hornstrandanefndar voru lögð fram á fundi umhverfisnefndar hinn 4. janúar 2012. Á fundinum voru færð til bókar svör við fram komnum athugasemdum og téðri umsögn. Var samþykkt að erindið yrði tekið fyrir að nýju þegar fullgildar byggingarnefndarteikningar og umsögn Eldvarnareftirlits Ísafjarðarbæjar lægju fyrir hjá byggingarfulltrúa.

Umhverfisnefnd tók málið fyrir að nýju hinn 18. apríl 2012. Gerði nefndin athugasemdir við fram lagðar teikningar af húsinu og taldi að þakgluggar væru ekki í samræmi við byggingarstíl á Hesteyri og að útlit glugga skyldi vera í samræmi við byggingarstíl á staðnum. Þá skyldi setja skorstein á húsið. Var óskað eftir nýjum teikningum að teknu tilliti til athugasemda. Jafnframt var lagt fyrir fundinn bréf frá Landeigendafélagi Sléttu- og Grunnavíkurhrepps, þar sem framkvæmdunum var andmælt. Hinn 18. maí s.á. voru á fundi umhverfisnefndar lagðar fram nýjar teikningar að húsinu. Var þakgluggum enn á ný hafnað og var húseigendum Heimabæjar II tilkynnt um þá afgreiðslu. Í kjölfar þess óskuðu þeir eftir því að umhverfisnefnd endurskoðaði þá afgreiðslu sína, sem hún og gerði á fundi sínum hinn 14. nóvember s.á. Var fyrri afstaða nefndarinnar þar ítrekuð.

Á fundi umhverfisnefndar hinn 9. janúar 2013 voru enn lagðar fram breyttar teikningar að húsinu, þær samþykktar og bókað að farið hefði verið eftir ábendingum nefndarinnar. Staðfesti bæjarstjórn greinda afgreiðslu hinn 17. s.m. Byggingarfulltrúi samþykkti byggingaráform með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, og var byggingarleyfi gefið út 20. mars s.á. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að íbúðarhúsin Heimabær I og Heimabær II séu samliggjandi en bil milli húsanna sé um 4 m. Muni hinar samþykktu framkvæmdir hafa grenndaráhrif gagnvart kærendum.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Bent er á að sveitarfélaginu hafi orðið ljóst haustið 2008 að framkvæmd hafi verið stækkun á þaki Heimabæjar II. Málið hafi verið í ferli hjá sveitarfélaginu frá júlí 2009 og að fengnu áliti frá lögfræðingi bæjarins hafi verið ákveðið að fá eigendur Heimabæjar II til að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni. Hafi með því verið talið að gætt væri meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafar vísa til þess að auk Heimabæjar II eigi þeir þrjú hundruð að fornu mati í jörðinni Hesteyri. Telji þeir að engar efnislegar röksemdir séu tilgreindar fyrir því í kæru hvers vegna fella beri umrætt byggingarleyfi úr gildi. Auk þess sé kæra of seint fram komin með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Byggingarleyfi hafi verið samþykkt á fundi umhverfisnefndar 9. janúar 2013 og staðfest af sveitarstjórn 17. s.m. Hafi fundargerðir vegna beggja þessara funda verið á vefsíðu sveitarfélagsins allt frá þessum tímasetningum. Þá geti bréf byggingarfulltrúa til umboðsmanns kærenda, dags. 29. apríl 2013, ekki markað upphafstíma kærufrests, enda blasi við að það bréf hafi verið sent á grundvelli fyrri samskipta. Verði að telja að sveitarfélagið myndi aldrei senda bréf sem þetta til óviðkomandi aðila, sem ekki væri sjálfur fasteignareigandi á svæðinu, nema með sérstakri beiðni þar að lútandi. Með vísan til framangreinds sé kæran, þegar af þessum ástæðum, of seint fram komin.

Umdeilt byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir þegar unnum endurbótum en eftir sé að setja falskan skorstein á húsið og fjarlægja þakglugga. Framkvæmdir hafi átt sér stað á árunum 2006 til 2009 og hafi þær í verki verið samþykktar af byggingaryfirvöldum. Hafi kærendur sótt um byggingarleyfi án viðurkenningar á því að þess hafi þurft. Þá hafi verið gerður fyrirvari við lögmæti og réttmæti þeirrar kröfu bæjarins að þakgluggar verði fjarlægðir af húsinu.

———————————

Í gögnum málsins eru sjónarmið aðila rakin frekar og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis fyrir framkvæmdum að Heimabæ II, Hesteyri. Krefst leyfishafi þess í fyrsta lagi að málinu verði vísað frá nefndinni þar sem kæran hafi ekki borist innan lögboðins kærufrests.

Í samþykkt um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 975/2010, er tók gildi 15. desember 2010, er kveðið á um að umhverfisnefnd fari með byggingar- og skipulagsmál samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Nefnd lög féllu úr gildi hinn 1. janúar 2011 við gildistöku skipulagslaga nr. 123/2010 og laga um mannvirki nr. 160/2010. Samkvæmt 9.-11. og 13. gr. mannvirkjalaga annast byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, meðferð byggingarleyfisumsókna, samþykkir byggingaráform og gefur út byggingarleyfi. Sveitarstjórn er þó heimilt skv. 1. mgr. 7. gr. nefndra laga að setja sérstaka samþykkt þar sem kveðið er á um aðra skipan mála. Í athugasemdum við frumvarp til nefndra laga kemur fram að meðal helstu nýmæla sé að gert sé ráð fyrir að byggingarnefndir verði valkvæðar og að sveitarstjórnum verði heimilt að kveða á um starfrækslu slíkrar nefndar í sérstakri samþykkt. Komi sveitarstjórnir að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti en þær geti takmarkað heimildir byggingarfulltrúa með sérstakri samþykkt þannig að útgáfan verði í einhverjum tilvikum eða öllum háð samþykki byggingarnefndar og/eða sveitarstjórnar. Ekki liggur fyrir að Ísafjarðarbær hafi sett sér slíka samþykkt á þeim tíma er umþrætt byggingarleyfi var afgreitt og að teknu tilliti til framangreindra lagabreytinga verður ekki talið að umhverfisnefnd hafi verið til þess bær að afgreiða byggingarleyfi á grundvelli tilvitnaðrar samþykktar nr. 975/2010. Verður því með hliðsjón af fyrrgreindum ákvæðum mannvirkjalaga að líta svo á að samþykkt byggingarfulltrúa á umræddum byggingaráformum með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, sé hin kærða ákvörðun.

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 29. maí 2013 en samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst því af því hvenær kærendum varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar eða mátti af aðstæðum vera ljóst að leyfi hafi verið veitt fyrir framkvæmdunum. Fram hefur komið að framkvæmdir við umrætt hús áttu sér að mestu stað á árunum 2006-2009 og að töluverður aðdragandi var að samþykkt hins umdeilda byggingarleyfis. Til að mynda voru framkvæmdirnar grenndarkynntar árið 2011. Af forsögu málsins er ljóst að kærendur vissu af framkvæmdum. Hins vegar verður ekki ráðið af gögnum málsins að þeim hafi orðið ljós veiting byggingarleyfisins fyrr en þeim var tilkynnt um hana með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 29. apríl 2013, en í því var hvorki getið um kærufrest né kæruleiðir. Að öllu framangreindu virtu verður við það að miða að kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests.

Heimabær II er sem fyrr segir á Hesteyri og telst því hluti af Hornstrandarfriðlandi skv. auglýsingu nr. 332/1985, um friðland á Hornströndum, sem sett var með heimild í 24. gr. laga nr. 47/1971 um náttúruvernd. Sambærilega lagaheimild er að finna í 1. mgr. 53. gr., sbr. 60. og 63. gr., núgildandi laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Í auglýsingunni er tekið fram að í friðlandinu sé öll mannvirkjagerð háð leyfi Umhverfisstofnunar. Ekki er til deiliskipulag fyrir Hesteyri en í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020, er tók gildi árið 2010, er að finna skipulagsákvæði fyrir frístundabyggð í sveitarfélaginu. Byggja skipulagsákvæðin samkvæmt aðalskipulagi einnig á samkomulagi Ísafjarðarbæjar, Umhverfisstofnunar og Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhreppa um byggingarleyfi í Hornstrandafriðlandi frá árinu 2004. Í nefndu samkomulagi er tekið fram að nýbyggingar og/eða breytingar á byggingum í friðlandinu á Hornströndum séu háðar byggingarleyfi. Jafnframt er tekið fram að þær séu háðar leyfi Umhverfisstofnunar, sbr. framangreinda auglýsingu. Samkvæmt samkomulaginu skal sveitarfélagið við meðferð byggingarleyfisumsókna leita umsagnar Umhverfisstofnunar og skal stofnunin leita umsagnar Hornstrandanefndar áður en leyfi er veitt til framkvæmda. Skal Umhverfisstofnun upplýsa Ísafjarðarbæ um niðurstöður Hornstrandanefndar og um heimild eða höfnun stofnunarinnar á fyrirhugaðri framkvæmd.

Byggingarfulltrúi samþykkti byggingaráform með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, og var byggingarleyfi gefið út 20. mars s.á. vegna Heimabæjar II. Líkt og áður greinir er gert að fortakslausu skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfa í friðlandinu á Hornströndum að leyfi Umhverfisstofnunar liggi fyrir vegna fyrirhugaðra framkvæmda, sbr. auglýsingu nr. 332/1985. Fram hefur komið að við meðferð málsins hjá byggingaryfirvöldum var leitað umsagnar Hornstrandanefndar vegna hinna umdeildu framkvæmda. Tók Ísafjarðarbær að nokkru undir fram komnar athugasemdir en taldi ekki, ólíkt Hornstrandarnefnd, að hækkun þaks yfir viðbyggingu og stækkun húss gengi í berhögg við ríkjandi byggingarstíl á Hesteyri. Hins vegar verður ekki ráðið af gögnum málsins að leyfi Umhverfisstofnunar hafi legið fyrir. Var ekki nægjanlegt að leita umsagnar Hornstrandanefndar enda skýrt kveðið á um í auglýsingunni, og áréttað í fyrrgreindu samkomulagi, að Umhverfisstofnun þyrfti að samþykkja framkvæmdina. Þar sem leyfi Umhverfisstofnunar lá ekki fyrir, eins og áskilið var samkvæmt því sem að framan er rakið, skorti lagaskilyrði fyrir veitingu hins umdeilda byggingarleyfis. Verður hin kærða ákvörðun þegar af þeirri ástæðu felld úr gildi. Þá verður ekki séð að óskað hafi verið eftir umsögn Fornleifaverndar ríkisins, nú Minjavernd ríkisins, eins og áskilið er í aðalskipulagi vegna breytinga á húsum sem reist eru fyrir 1950, svo sem hér háttar.

Að öllu framangreindu virtu verður fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 22. febrúar 2013 um að samþykkja byggingaráform til breytinga á húsinu Heimabæ II, Hesteyri, Jökulfjörðum, Ísafjarðarbæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

69/2014 Austurhöfn

Með
Árið 2014, föstudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 5. júní 2014 um breytingu á deiliskipulagi Austurhafnar í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. júlí 2014, kærir Seltjarnarnesbær ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 5. júní 2014 um breytingu á deiliskipulagi Austurhafnar í Reykjavík. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 1. september 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 23. október 2013 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur forsögn að breytingu á deiliskipulagi Austurhafnar. Í kjölfar þess var hafist handa við gerð tillögu að breytingu skipulagsins sem var lögð fyrir fund ráðsins 11. desember s.á. Í tillögunni var m.a. gert ráð fyrir breytingu á legu Geirsgötu og samþykkti umhverfis- og skipulagsráð á fundi sínum hinn 16. desember 2013 að auglýsa tillöguna til kynningar. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 19. s.m. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti síðan tillöguna hinn 26. mars 2014, með vísan til fyrirliggjandi umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. s.m., og vísaði málinu til borgarráðs sem samþykkti deiliskipulagsbreytinguna hinn 27. s.m. Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birtist svo í B-deild Stjórnartíðinda 25. júní s.á.

Kærandi telur að með hinni umdeildu skipulagsbreytingu kunni að vera þrengt verulega að annarri meginaðkomuleið Seltjarnarnesbæjar með breyttum gatnamótum og umferðarskipulagi á mótum Sæbrautar og Mýrargötu. Gert sé ráð fyrir að umræddum gatnamótum verði breytt í T-gatnamót, í stað þess að göturnar renni beint saman, og að heimilaður ökuhraði á götum skipulagssvæðisins verði lækkaður í 30 km. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekki  með fullnægjandi hætti gerð grein fyrir hvaða áhrif þessar breytingar muni hafa á umferð og flutningsgetu gatnakerfisins, sem þjóni þeim tilgangi að vera rýmingar- og flóttaleið frá vestursvæði borgarinnar og Seltjarnarnesbæ. Með umdeildri skipulagsbreytingu sé jafnframt farið gegn anda samkomulags sveitarfélaganna frá 12. nóvember 2013, þar sem tekið sé fram að akreinum verði ekki fækkað á Mýrargötu/Geirsgötu nema í samkomulagi við Seltjarnarnesbæ og að við heildarendurskoðun á svæðisskipulagi verði rýmingar- og flóttaleiðir skoðaðar ásamt stofnbrautakerfi.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að málsmeðferð umdeildrar breytingar á deiliskipulagi hafi verið lögum samkvæmt og í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar. Kærandi hafi gert athugasemdir á kynningartíma skipulagstillögunnar sem séu á sömu lund og í kæru varðandi áhrif breytinga á umferð og flutningsgetu gatnakerfis svæðisins. Í svari við athugasemdunum til kæranda hafi komið fram að fjöldi akreina yrði óbreyttur, að ekki myndi draga úr umferðarrýmd gatnakerfisins og að í nýju aðalskipulagi borgarinnar væri stefnt að því að draga úr umferð einkabíla á miðborgarsvæðinu, sem stuðla myndi að betra flæði umferðar. Með breytingu á gatnamótum Geirsgötu og Kalkofnsvegar/Lækjargötu, ásamt ákvæði um hámarkshraða 30 km/klst., sé verið að fylgja því markmiði deiliskipulagsins, sem sé í samræmi við stefnu aðalskipulags, að við allar framkvæmdir og úrbætur á gatnakerfi miðborgarsvæðisins skuli þarfir gangandi vegfarenda hafðar að leiðarljósi. Þá komi fram í umhverfismati að lækkun hámarkshraða og fyrrgreind breyting á gatnamótum muni að mati skýrsluhöfunda ekki hafa teljandi áhrif á umferðarflæði. Ekki verði séð að umrædd skipulagsbreyting fari á svig við samkomulag það sem kærandi vísi til, en það sé einkaréttarlegs eðlis og eigi undir dómstóla að leysa úr ágreiningi er upp kunni að koma um brot á því.

Niðurstaða: Seltjarnarnesbær, sem er kærandi í máli þessu, og Reykjavík eiga sameiginleg sveitarfélagamörk. Deilt er um gildi deiliskipulagsbreytingar á hluta miðborgarsvæðis Reykjavíkur, sem m.a. felur í sér breytingu á gatnakerfi og hámarkshraða á skipulagssvæðinu. Telur kærandi að þær breytingar hafi áhrif á samgöngur til og frá Seltjarnarnesbæ.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulags og ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags innan marka sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Taki deiliskipulagstillaga til svæðis sem liggur að mörkum aðliggjandi sveitarfélags skal tillagan kynnt sveitarstjórn þess sveitarfélags skv. 41 gr. skipulagslaga. Að öðru leyti gera lögin ekki ráð fyrir aðkomu nágrannasveitarfélaga við deiliskipulagsgerð annars sveitarfélags. Samráð nágrannasveitarfélaga um sameiginleg hagsmunamál á vettvangi skipulagsmála er við gerð svæðisskipulags. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. nefndra laga er svæðisskipulag skipulagsáætlun tveggja eða fleiri sveitarfélaga þar sem sett er fram sameiginleg stefna þeirra um byggðaþróun og þá þætti landnotkunar sem þörf er talin á að samræma vegna sameiginlegra hagsmuna þeirra. Í 2. mgr. 22. gr. skipulagslaga er kveðið á um að í gildi skuli vera svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, en bæði Reykjavík og Seltjarnarnes eru innan þess svæðis.

Kærandi máls þessa er stjórnvald sem gætir opinberra hagsmuna að lögum og verður ekki talinn aðili að hinni kærðu ákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða eiga þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni tengda henni sem er skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá nýtur kærandi ekki lögfestrar kæruheimildar. Loks er úrskurðarnefndin ekki bær til að fjalla um gildi og efndir einkaréttarlegra samninga sem kunna að vera gerðir milli sveitarfélaga enda heyrir ágreiningur um það efni undir dómstóla.

Að öllu framangreindu virtu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ______________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

70/2013 Ægisíða

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 um að veita leyfi til að stækka núverandi þakglugga hússins að Ægisíðu 74, Reykjavík og byggja þar inndregnar þaksvalir, færa útidyr á norðvesturhlið yfir á norðausturhlið, bæta við nýjum útgangi á suðausturhlið og samþykkja ýmsar breytingar á fyrirkomulagi innanhúss.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. júlí 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Ó, Ægisíðu 76, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 að veita leyfi til að stækka núverandi þakglugga hússins að Ægisíðu 74, Reykjavík og byggja þar inndregnar þaksvalir, færa útidyr á norðvesturhlið yfir á norðausturhlið, bæta við nýjum útgangi á suðausturhlið og samþykkja ýmsar breytingar á fyrirkomulagi innanhúss.

Verður að skilja málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar breytingar á þaki með gerð inndreginna þaksvala.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. september 2013.

Málavextir: Hinn 19. mars 2013 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík umsókn um leyfi til að stækka núverandi þakglugga og byggja inndregnar þaksvalir á húsinu að Ægisíðu 74. Jafnframt var í umsókninni óskað samþykkis fyrir þegar framkvæmdum breytingum og endurnýjun sem fólst í að í kjallara hefði verið bætt við stiga upp á 1. hæð, baðherbergi fært, útidyr á norðvesturhlið færðar á norðausturhlið, nýjum útgangi bætt við á suðausturhlið og að á 1. og 2. hæð hefðu tvö herbergi verið sameinuð í eitt og gert innangengt í baðherbergi. Með umsókninni fylgdi samþykki eiganda neðri hæðar, dags. 18. febrúar 2013, og bréf arkitekts, dags. sama dag. Var umsóknin samþykkt með eftirfarandi bókun „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010. Skilyrt er að ný eignaskiptayfirlýsing sé samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfis, henni verður þinglýst eigi síðar en við lokaúttekt. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“

Í gildi er deiliskipulag frá árinu 2006 sem tekur til nefndrar lóðar. Í því segir að markmið þess sé að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum en um leið hlúa að því sem fyrir sé og búa þannig um hnútana að uppbygging geti gerst á forsendum þeirrar byggðar sem þar standi. Þá segir í fyrsta kafla almennra skilmála deiliskipulagsins að heimilt sé að byggja viðbyggingu innan byggingarreits og sé leyfilegt að svalir og þakkantar fari lítillega út fyrir byggingarreiti. Að auki eru í deiliskipulaginu skilmálar fyrir hverja lóð. Í skilmálum fyrir lóðina nr. 74 við Ægisíðu segir að heimilt sé að auka byggingarmagn á lóðinni með því að byggja ris með kvistum sem falli vel að stíl hússins. Skuli lengd þeirra ekki vera meiri en 1/3 af húshliðinni. Mest skuli hæð riss vera 4.400 mm yfir gólfplötu. Að auki sé heimilt að byggja létta viðbyggingu innan byggingarreits en óheimilt að breyta útliti þakkanta.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að heimilaðar þaksvalir séu ekki í samræmi við ákvæði deiliskipulags svæðisins en að auki hafi svalirnar í för með sér meiri röskun á hagsmunum hans en við verði unað. Í skilmálum deiliskipulagsins sé tekið fram að lagt sé til að svip húsa verði sem minnst raskað, t.d. þaki og gluggagerðum, að við endurnýjun og viðgerðir húsa á reitnum skuli taka sérstakt tillit til upphaflegs stíls og að sýna þurfi aðgát við hönnun breytinga og viðbygginga. Sé breytingin á þaki Ægisíðu 74 langt frá því að vera í samræmi við þessa skilmála deiliskipulagsins. Raski hönnun þaksvalanna svip hússins verulega og ekki hafi verið tekið tillit til upphaflegs stíls þess.

Innsýn verði frá þaksvölunum á svalir og inn um stofuglugga kæranda. Þá verði hljóðbært frá þessum svölum en þær séu stórar og henti því til meiri notkunar og viðveru en ella, ekki síst þar sem gert sé þar ráð fyrir heitum potti. Telji kærandi að með heimiluðum svölum sé gengið með óhæfilegum hætti á hagsmuni hans. Séu svalir íbúðar hans stórar og hafi þær verið vel nýttar til útivistar. Hingað til hafi mikilvægur hluti af gæðum svalanna verið sá að þar hafi verið hægt að hafast við án teljandi innsýnar eða hávaða frá Ægisíðu 74. Hafi hann ekki getað gert sér það í hugarlund að nýting á þaki næsta húss myndi breytast með jafn afgerandi hætti á hans kostnað, enda ekki haft ástæðu til að ætla svo með hliðsjón af gildandi deiliskipulagi. Hafi hann mátt búast við litlum þaksvölum en ekki útivistarsvæði á borð við það sem í raun hafi orðið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því hafnað að hin kærða ákvörðun fari í bága við deiliskipulag Ægisíðu. Þar sem lóðir við Ægisíðu séu fullbyggðar sé í skipulaginu tekið fram að byggja megi svalir, þ.e. útistandandi svalir sem megi fara lítillega út fyrir byggingarreit. Hafi það ekki þótt fara húsinu að Ægisíðu 74 vel að vera með útstandandi svalir og af þeim sökum sé ekkert sagt um svalir í skilmálum þess húss í deiliskipulaginu. Inndregnar svalir séu hins vegar í samræmi við skipulag og sé þannig heimilt að byggja kvisti yfir 1/3 af þakfleti hússins. Hinar inndregnu svalir hafi rúmast innan þeirra heimilda en þær séu fjögurra metra breiðar og þakflöturinn 12 metrar. Séu inndregnar svalir á nokkrum öðrum húsum í götunni og raski þetta því ekki götumyndinni. Einnig séu mörg hús í götunni með kvistum. Rúmist svalirnar innan byggingarreits og muni þakkantar haldast óbreyttir. Að auki sé æskilegt að hafa svalir, m.a. með tilliti til brunavarna, en unnt sé að nýta þær sem flóttaleið. Þakgerðir húsa í götunni séu mjög fjölbreyttar og sé því alfarið hafnað að breytingin raski svip hússins á þann hátt að óviðunandi sé.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi skírskotar til þess að samkvæmt deiliskipulagi sé heimilað að reisa léttar viðbyggingar og byggja kvisti á húsið að Ægisíðu 74. Það eina sem sé bannað sé að breyta útliti þakkanta hússins. Kveði deiliskipulagið í heild ekki á um byggingu svala nema í tilfelli Ægisíðu 76 og 96, sem hafi þá verið einu fullbyggðu lóðirnar við götuna. Sé tekið fram að þrátt fyrir að lóðirnar séu fullbyggðar sé þar heimilt að byggja svalir. Slíka sérheimild til byggingar svala á fullbyggðum lóðum sé ekki hægt að túlka á þann hátt að óheimilt sé að byggja svalir á öllum öðrum húsum. Með breytingunni sé þakgerð hússins ekki breytt og aðeins tekið úr burðarviði og sperrum þar sem tekið sé úr fyrir þaksvölunum. Hafi þak Ægisíðu 74 verið, og sé, ósamhverft um miðju sem og grunnflötur hússins í heild. Húsin við Ægisíðu 50-98 hafi mismunandi þakmyndir og sé fjölbreytileikinn það mikill að ekki sé hægt að tala um heildarsvip hvað það varði. Falli inndregnu þaksvalirnar vel að útliti hússins og þakformi, en að auki séu þær mikilvæg flóttaleið. Sé ekki fallist á að notkun svalanna varði nágranna í næsta húsi, svo lengi sem farið sé að lögreglusamþykkt eða öðrum viðeigandi reglum um hegðun og velsæmi. Þá hljóti sjónarmið jafnræðisreglunnar að vega þungt þegar eigandi 15 m² hornsvala í einu húsi sé að agnúast út í 15 m² hornsvalir á því næsta.

Sú hagsmunaskerðing sem kærandi telji sig verða fyrir sé ekki raunveruleg, hvort sem um lífsgæði eða peningaleg verðmæti sé að ræða. Hafi meint verðmætarýrnun átt sér stað við samþykki deiliskipulagsins fyrir Ægisíðu en ekki við framkvæmdina sem hér um ræði. Kærandi hafi haft öll tækifæri til að andmæla þegar deiliskipulagsdrög hafi verið kynnt á sínum tíma.

Niðurstaða: Í málinu liggur fyrir að hin kærða stjórnvaldsákvörðun var tekin 19. mars 2013 og barst kæra í málinu 16. júlí s.á. Kærandi sendi byggingarfulltrúa athugasemdir í tölvupósti 14. júní s.á., vegna framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar, lýsir því að íbúar hússins hafi ekki gert sér grein fyrir breytingunum og áhrifum þeirra fyrr en þann dag og skorar á byggingarfulltrúa að afturkalla ákvörðun sína. Var kæranda svarað með tölvupósti 18. s.m. og frekari tölvupóstsamskipti áttu sér stað sama dag og 19. s.m. án þess að kæranda væri leiðbeint um kæruleiðir og kærufrest vegna greindrar ákvörðunar, svo sem rétt hefði verið að gera með hliðsjón af 1. mgr. 7. gr. og 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður hin umdeilda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars. 2013 því tekin til efnislegrar meðferðar, með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem afsakanlegt þykir í ljósi atvika að kæra hafi borist að liðnum þeim kærufresti sem tiltekinn er í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um leyfi byggingarfulltrúans í Reykjavík fyrir gerð inndreginna svala á þaki húss að Ægisíðu 74. Telur kærandi að nefndar svalir samræmist ekki gildandi deiliskipulagi og að með tilvist þeirra sé gengið á grenndarhagsmuni hans og verðmæti fasteignar hans rýrt. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Í gildi er deiliskipulag fyrir Ægisíðu frá árinu 2006. Í sérskilmálum fyrir lóð nr. 74 við Ægisíðu segir m.a. „Heimilt að auka byggingarmagn á lóðinni með því að byggja ris með kvistum sem falla vel að stíl hússins.“ Hins vegar er ekki tekið fram í greindum lóðarskilmálum að heimilt sé að byggja svalir.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að einhver hækkun hefur orðið á sjónlínu inn á svalir kæranda með tilkomu hinna umdeildu þaksvala. Hins vegar verður að meta umrædd grenndaráhrif með hliðsjón af heimildum þeim sem felast í deiliskipulagi. Líkt og áður greinir er þar að finna heimild fyrir byggingu á risi með kvistum á Ægisíðu 74. Verður að telja að bygging á slíku risi með kvistum myndi hafa svipuð grenndaráhrif og hinar umþrættu þaksvalir hvað innsýn varðar. Þá verður ekki séð að áhrif af byggingu þaksvalanna, með tilliti til hljóðvistar, yrðu umtalsvert meiri en almennt má búast við frá svölum húsa. Að þessu virtu, og þegar hafðar eru í huga heimildir deiliskipulags fyrir byggingu á risi með kvistum á húsið að Ægissíðu 74 og ákvæði almennra skilmála skipulagsins um svalir húsa, verður að telja að bygging umræddra þaksvala rúmist innan heimilda skipulagsins og brjóti ekki gegn grenndarhagsmunum kæranda þannig að ógildingu varði.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 um að veita leyfi til að stækka núverandi þakglugga hússins að Ægisíðu 74, Reykjavík og byggja þar inndregnar þaksvalir, færa útidyr á norðvesturhlið yfir á norðausturhlið, bæta við nýjum útgangi á suðausturhlið og samþykkja ýmsar breytingar á fyrirkomulagi innanhúss.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

104/2014 Öldutún

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnafjarðar frá 17. mars 2003 um að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað að Öldutúni 4, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. september 2014, er barst nefndinni 1. október s.á., kæra J, Öldutúni 2, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 17. mars 2003 að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað að Öldutúni 4, Hafnarfirði. Greind ákvörðun var staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 1. apríl 2003.

Verður að skilja kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og var fallist á þá kröfu í úrskurði 10. október 2014.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 8. október, 10. október og 17. október 2014.

Málavextir: Hinn 30. júlí 2002 var fyrirspurn um hvort rífa mætti bílskúr og byggja annan í hans stað að Öldutúni 4 tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar. Meðfylgjandi var samþykki nágranna og meðeigenda í húsinu. Áður hafði byggingarfulltrúi sent skipulagsdeild fyrirspurnina til umsagnar vegna stækkunar og hækkunar nýs skúrs. Ráðið samþykkti að óska eftir fullnaðarteikningum og að heimila grenndarkynningu erindisins í samræmi við 7. mgr. 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Erindið var kynnt nágrönnum með bréfi, dags. 25. október 2002, og veittur frestur til 25. nóvember s.á. til að gera athugasemdir. Var tekið fram í kynningarbréfinu að í erindinu fælist fyrirspurn „…um að rífa núverandi bílskúr og byggja annan í hans stað. Samkv. teikningum Halldórs Hannessonar, dags. 19. 07. 2002“. Ein athugasemd barst á grenndarkynningartíma og á fundi sínum 3. desember s.á. samþykkti skipulags- og byggingarráð að fallast á erindið með þeim breytingum að byggingarreitur bílskúrs yrði færður upp að lóðarmörkum og atriði sem lytu að frágangi yrðu leyst í samráði við nágranna. Var byggingarfulltrúa heimilað að gefa út byggingarleyfi þegar umsókn þar um lægi fyrir. Hinn 17. mars 2003 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráformin með áritun sinni á teikningar, dags. 14. s.m., sem sýna 3,9 m hæð þess veggjar er snýr að lóð kærenda. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 25. s.m. var erindið lagt fram að nýju og eftirfarandi fært til bókar: „17.03.2003 Samþykkt af byggingarfulltrúa. Umsóknin samræmist lögum nr. 73/1997 og nr. 82/1994.“ Fundargerð ráðsins var svo lögð fyrir og samþykkt af bæjarstjórn á fundi hennar 1. apríl s.á. Botnúttekt fór fram 11. júlí 2003.

Hinn 26. janúar 2005 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja bílskúr að Öldutúni 4 og var bókað að nýjar teikningar hefðu borist 20. s.m. Leyfið var samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 23. febrúar s.á. Samkvæmt nýjum teikningum fól leyfið í sér að heimiluð var breyting á innra fyrirkomulagi bílskúrsins frá fyrra leyfi frá árinu 2003 og heimiluð gerð gryfju undir bíla. Staðfesti skipulags- og byggingarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 14. mars s.á.

Deiliskipulag Öldugötu, Öldutúns 2-6, Ölduslóðar 1-10 og 12 og Hringbrautar 1-15 var samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hinn 25. nóvember 2008 og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní 2009. Hinn 21. október 2009 voru enn samþykktar af byggingarfulltrúa breytingar á innra fyrirkomulagi bílskúrsins. Fór úttekt á plötu yfir kjallara fram 6. júní 2011.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að hið kærða byggingarleyfi brjóti í bága við gildandi deiliskipulag á svæðinu. Leyfi sé veitt fyrir mun hærra bílskýli, með töluvert hærri útvegg sem snúi að lóðarmörkum en gildandi deiliskipulag segi til um og fordæmi séu fyrir á svæðinu. Ákvörðun byggingarfulltrúa snerti hagsmuni kærenda verulega. Þannig skerði útveggur á lóðarmörkum útsýni og varpi miklum skugga á lóð kærenda og rýri þannig lífsgæði þeirra og verðmæti fasteignar þeirra. Muni bygging umrædds bílskýlis hindra að sól skíni á lóð kærenda úr helstu sólarátt. Fyrstu stoðir að útveggjum hafi risið sumarið 2014 og kærendum hafi ekki orðið ljóst hver hæð og áhrif veggjarins yrðu fyrr en steypumótum hafi verið komið fyrir hinn 13. september s.á. og í raun ekki fyrr en fyrsta sólríka dag þar á eftir, eða 16. s.m.

Útveggur bílskýlisins við lóðarmörk kærenda muni verða 3,9 m á hæð en megi ekki vera nema 2,8 m samkvæmt núgildandi deiliskipulagi. Hæðarmunur sé 1,1 m, eða um 40%. Þar sem ekki hafi verið til deiliskipulag fyrir svæðið við leyfisveitingu hafi verið rík ástæða til að fylgja gr. 113.1 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 hvað varði stærð og hæð bílskýlis. Leyfi fyrir hærra bílskýli á þessum stað valdi verulegri röskun á umhverfi og aðstæðum. Þá sé hæðarmunur á lóðum kærenda og byggingarleyfishafa, sem valdi því að steyptur flötur útveggja, séð frá lóð kærenda, verði um 5 m hár. Séu forsendur fyrir frávikum frá þágildandi byggingareglugerð og leyfisveitingu fyrir óvenju háreistu bílskýli því enn veikari. Möl hafi verið borin í lóð byggingarleyfishafa og hún hækkuð þannig að bílskýli standi hærra en ella. Miklir ágallar séu því á samþykktum teikningum þar sem ekki séu gefnir upp hæðarpunktar sem hæð útveggjar gangi út frá, þvert á gr. 18.8 í þágildandi byggingarreglugerð, sem og núgildandi byggingarreglugerð. Þá séu engin dæmi um svo háreist bílskýli á svæðinu, hvorki fyrir né eftir hina umdeildu leyfisveitingu.

Standist leyfisveitingin ekki lög þar sem í 46. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 18. gr. þágildandi byggingarreglugerðar komi fram að aðaluppdráttur skuli sýna hvernig mannvirki falli að nærliggjandi umhverfi og gefa skuli upp hæðarkóta hverrar hæðar og hæsta punkt þakvirkis. Ekkert af þessu sé hins vegar að finna á teikningum fyrir umrætt bílskýli. Þá hafi kærendur ekki fengið gögn um grenndarkynningu skýlisins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hafi grenndarkynning farið fram telji kærendur hana marklausa. Ómögulegt hafi verið fyrir þá sem grenndarkynnt hafi verið fyrir að gera sér grein fyrir umfangi byggingarinnar þar sem ákvæðum laga um aðaluppdrætti hafi ekki verið fylgt og teikningar sýnt bílskýlið eitt og sér með enga stærðarviðmiðun.

Efist kærendur um að undirskriftir nágranna hafi legið fyrir. Hafi svo verið sé hins vegar bent á að samkvæmt fundargerðum Hafnarfjarðabæjar hafi þær legið fyrir 24. júlí 2002 og hafi því liðið um 12 ár frá samþykki nágranna þar til steypumótum bílskýlisins hafi verið komið fyrir. Deiliskipulag svæðisins sé frá árinu 2008 og hafi því sex ár liðið frá samþykkt þess þar til fyrstu steypumótum hafi verið slegið upp. Kærendur veki athygli á framangreindu, telji leyfið útrunnið og óski eftir að ný grenndarkynning fari fram. Þá megi ráða af eigendasögu fasteignarinnar að Öldutúni 2 að líklega hafi verið grenndarkynnt fyrir röngum aðilum þar en milli þess sem undirskriftir nágranna hafi verið fengnar og þar til grenndarkynning hafi farið fram hafi eigendaskipti orðið að íbúð efri hæðar hússins. Réttir eigendur og íbúar að Öldutúni 2 hafi því ekki fengið gögn um grenndarkynningu og sé hún því ómarktæk.

Samþykktar teikningar frá árinu 2009 sýni hvar búið sé að bæta kjallara við teikningar umrædds bílskýlis en sú breyting virðist ekki hafa farið í grenndarkynningu. Telji kærendur að slík kynning hefði átt að fara fram þar sem kjallari í bílskýli Öldutúns 4 fari gegn deiliskipulagi á svæðinu.

Kærendur telji að réttur þeirra til að sjá til sólar á lóð sinni vegi þyngra en réttur byggingarleyfishafa til að geyma t.d. vöruflutningabíla innandyra á lóð sinni.
   
Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til afgreiðslu málsins hjá skipulags- og byggingarsviði Hafnarfjarðar. Erindið hafi verið grenndarkynnt frá 25. október til 25. nóvember 2002, byggingaráform verið samþykkt í mars 2003 og botnúttekt farið fram í júlí s.á. Breytingar á byggingarleyfi hafi verið samþykktar á árinu 2005, þegar gryfja undir bíla hafi verið heimiluð, og á árinu 2009, er aðrar breytingar á innra fyrirkomulagi bílskúrs hafi verið samþykktar. Úttekt á plötu yfir kjallara hafi farið fram 6. júní 2011 og skýringar á byggingartíma hafi borist frá byggingarleyfishafa og byggingarstjóra með bréfi, dags. 22. september 2014.

Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi bendir á að framkvæmdir þær sem hann vinni að við Öldutún 4 séu unnar samkvæmt samþykktu byggingarleyfi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar, dags. 21. og 22. október 2009. Veki hann athygli á að samkvæmt deiliskipulagi sé á lóð kærenda gert ráð fyrir bílskúr sem gæti verið hluti af ófyrirséðu skuggavarpi og útsýnistapi og að tré á lóðinni og nærliggjandi lóðum valdi slíku einnig. Augljóst hafi verið að bílskúr væri í smíðum þar sem sökklar og gryfja hafi verið risin og kærendur því átt að kynna sér málið til hlítar við kaup á fasteign sinni. Gryfja undir gólfi hafi verið samþykkt 23. febrúar 2005 en ekki á árinu 2009 eins og kannski hafi mátt misskilja. Hafi skúrinn verið færður að lóðamörkum að beiðni nágranna og Hafnarfjarðar.

Varðandi möl í stæðið bendi leyfishafi á að almennt sé talað um 80-120 cm þykkt frostfrítt lag ofan á frárennslisrör og að hér sé um 90 cm að ræða. Almennt sé mikill hæðarmunur á húsum á þessu svæði þar sem byggt sé í halla. Enginn hæðarkóti hafi fylgt húsi hans eða eldri bílskúr. Þá sé ljóst að annar tilgreindur bílskúr í Hafnarfirði sé einnig reistur á lóðarmörkum og að hann sé hærri en núgildandi byggingarreglur kveði á um.

Niðurstaða: Hið kærða byggingarleyfi fyrir bílskúr að Öldutúni 4 var samþykkt af byggingarfulltrúa 17. mars 2003 og verður að líta svo á að það hafi verið staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar á fundi hennar 1. apríl s.á. Botnúttekt fór fram í júní 2003, byggingarleyfi voru gefin út 2005 og 2009 vegna breytinga á innra fyrirkomulagi bílskúrsins og fór úttekt á plötu yfir kjallara fram í júní 2011. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 1. október 2014.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar eða mátti af aðstæðum vera það ljóst.

Fyrir liggur af gögnum málsins að framkvæmdir hafa staðið yfir í langan tíma og munu framkvæmdir við útveggi bílskúrsins hafa hafist sumarið 2014. Hins vegar verður ekki ráðið af gögnum málsins að neinar þær framkvæmdir hafi byrjað sem bent gætu til hæðar bílskúrsins fyrr en 13. september 2014 þegar kærendur urðu að eigin sögn þess varir að steypumótum hefði verið komið fyrir til að steypa útveggi. Í kjölfar þess leituðu þeir til skipulagsyfirvalda og fengu upplýsingar um byggingarleyfi vegna bílskúrsins, sem þeir svo kærðu til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður er lýst. Þótt framkvæmdir hafi átt sér stað áður, og kærendum mátt vera það ljóst af aðstæðum að bílskúr myndi rísa, verður að líta til þess að í skilmálum gildandi deiliskipulags frá árinu 2009 kemur fram að á svæðinu skuli byggingarreitur bílageymslna að jafnaði vera 5×7 m og hámarksvegghæð við aðliggjandi lóðarmörk 2,8 m. Var þess ekki að vænta að kærendur gerðu sér grein fyrir því að bílskúr sá er var í byggingu yrði háreistari en deiliskipulag mælti fyrir um. Með hliðsjón af framangreindu verður við það að miða að kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna varð veiting byggingarleyfis að styðjast við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Sú undantekning var gerð í 7. mgr. ákvæðisins, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna, að unnt var að veita byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þótt ekki lægi fyrir deiliskipulag, en þá að undangenginni grenndarkynningu þar sem nágrönnum sem hagsmuna ættu að gæta væri kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig. Við grenndarkynningu var vísað til teikninga, dags. 19. júlí 2002. Þær teikningar sýna flatarmál þáverandi og áformaðs bílskúrs og staðsetningu innan lóðar. Á teikningunum er hins vegar ekki að finna afstöðu bílskúrsins til næstu lóða og gatna, hæðarkóta eða þversnið. Þá er enga textalýsingu að finna á teikningunum. Loks kemur ekkert fram í texta grenndarkynningarbréfs um það hvort eða hvaða breytingar yrðu með nýjum bílskúr. Leiðir af framangreindu að nágrannar gátu engan veginn gert sér grein fyrir hæð áformaðs bílskúrs af grenndarkynningargögnum. Var grenndarkynningunni því verulega ábótavant að þessu leyti og hún ekki í samræmi við tilvitnað lagaákvæði.

Þá skal tekið fram að í gr. 113.1 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 er að finna ákvæði um hámarksstærð ásamt vegg- og mænishæð bílgeymslna fyrir einn bíl og að umdeildur bílskúr er bæði stærri og hærri en þar er tilgreint. Byggingarnefnd gat heimilað frávik frá umræddu ákvæði þar sem það myndi ekki valda verulegri röskun og aðstæður leyfðu að öðru leyti. Ekki liggur fyrir að skipulags- og byggingarráð hafi tekið afstöðu til málsins, þrátt fyrir að ærið tilefni hafi verið til, en fyrir liggur að byggingarfulltrúi sendi skipulagsdeild fyrirspurnina til umsagnar vegna stækkunar og hækkunar skúrsins. Eins og áður er lýst er hvorki á teikningum né í grenndarkynningarbréfi gerð grein fyrir því að um frávik frá áðurgreindu ákvæði sé að ræða og verður að telja að þessa ákvæðis hafi ekki verið gætt við meðferð málsins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var málsmeðferð við töku hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi að því er varðar byggingu nýs bílskúrs að Öldutúni 4.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 17. mars 2003, sem staðfest var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 1. apríl s.á., að því er varðar byggingu bílskúrs í stað annars að Öldutúni 4, Hafnarfirði.

_________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________                             _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Þorsteinn Þorsteinsson

 

62/2014 Auðbrekka

Með
Árið 2014, föstudaginn 10. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. maí 2014 um að veita leyfi til að byggja við jarðhæð húss við Auðbrekku 3 sem nemur 3,5×14,8 m eða 51,8 m2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júlí 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Eik fasteignafélag hf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. maí 2014, um að veita leyfi til að byggja við jarðhæð húss við Auðbrekku 3 að stærð 3,5×14,8 m eða 51,8 m2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 25. júlí, 25. ágúst og 15. september 2014.

Málavextir: Lóðirnar Auðbrekka 1 og 3-5 eru hlið við hlið. Hinn 16. júní 1960 var gerður lóðarleigusamningur fyrir lóð nr. 52 ,nú Auðbrekka 3-5, og honum þinglýst. Var slíkur samningur gerður vegna Auðbrekku 54, nú Auðbrekka 1, hinn 31. desember 1965 og honum ásamt afstöðumynd þinglýst samdægurs. Í þeim samningi segir um aðra skilmála að gagnkvæmur umferðarréttur sé um norðurhluta nefndra lóða og sameiginleg afnot af þeim norðan við hús fyrir bifreiðastæði og er vísað til meðfylgjandi yfirlýsingar sem ekki hefur verið þinglýst. Með yfirlýsingu, dags. sama dag eða 31. desember 1965, og undirritaðri af sömu aðilum f.h. Kópavogskaupstaðar annars vegar og þáverandi lóðarhafa Auðbrekku 52 hins vegar er því lýst að samkomulag sé til staðar um breytingar á og viðauka við lóðarleigusamninginn og verði ákvæði þau sem lýst er í yfirlýsingunni færð inn í lóðarsamning sem gefinn verði út að nýju þegar endanleg mæling á lóðinni liggi fyrir. Er annars vegar um að ræða ákvæði líkt og áður er lýst um umferðarrétt og afnot af bifreiðastæðum og hins vegar ákvæði þess efnis að af norðvestur horni lóðarinnar (nú nr. 3-5 við Auðbrekku) sé tekinn skiki að stærð 3,8×24,0 m og færður á þá lóð sem nú er nr. 1 við Auðbrekku. Sú yfirlýsing er ekki til staðar í þinglýstum gögnum lóðanna en sömu rétthafar munu hafa verið á þeim tíma að báðum lóðunum. Með lóðarleigusamningi lóðar þeirrar sem nú er nr. 1 fylgdi uppdráttur með lóðarmörkum eins og þeim er lýst í nefndri yfirlýsingu. Hins vegar er hvergi að finna hin breyttu lóðarmörk í þinglýstum gögnum lóðar nr. 3-5 við Auðbrekku eins og áður er lýst.

Haustið 2013 sótti lóðarhafi Auðbrekku 3 um leyfi fyrir viðbyggingu við húsið. Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsnefndar sem samþykkti á fundi sínum 21. janúar 2014 að grenndarkynna tillöguna með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem ekkert deiliskipulag er á umræddu svæði. Var lóðarhöfum Auðbrekku 1 og 5 og Skeljabrekku 4 tilkynnt um greinda umsókn með bréfum, dags. 28. s.m., og þeim gefinn frestur til 27. febrúar s.á. að gera athugasemdir við tillöguna. Barst athugasemd frá einum lóðarhafa Auðbrekku 1 og þess krafist að tillögunni yrði hafnað þar sem lóðarmörk hefðu verið færð með þeim hætti að hann gæti ekki lengur notað bílastæði eða nýtt húsnæði sitt eins og lagt hefði verið upp með samkvæmt samþykktri lóðarteikningu og þinglýstum eignaskiptasamningi. Mun kærandi einnig hafa sent athugasemd innan þeirra tímamarka sem tilgreind voru í bréfi um grenndarkynningu en á annað tölvupóstfang en þar var gefið var upp og barst hún því ekki skipulagsnefnd fyrr en að kynningunni lokinni.

Hinn 15. apríl s.á. hafnaði skipulagsnefnd leyfisumsókninni á grundvelli umsagnar skipulags- og byggingardeildar þar sem fram kom að fyrirhuguð framkvæmd myndi rýra möguleika lóðarhafa Auðbrekku 1 um afnot að sameiginlegum bílastæðum norðan lóðanna Auðbrekku nr. 1 og 3-5. Hinn 22. apríl s.á. samþykkti bæjarstjórn að vísa málinu aftur til skipulagsnefndar. Var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar hinn 20. maí s.á. og afgreitt með eftirfarandi bókun: „Við nánari skoðun er það mat skipulagsnefndar að fyrirhuguð viðbygging rýrir ekki aðkomu eða sameiginlega nýtingu bílastæða á lóð. Vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar.“ Á fundi sínum 22. s.m. vísaði bæjarráð málinu til bæjarstjórnar til afgreiðslu og samþykkti bæjarstjórn erindið 27. s.m. Var leyfishafa og þeim lóðarhafa Auðbrekku 1 er gert hafði athugasemdir tilkynnt um samþykki erindis leyfishafa með bréfum, dags. 1. júní s.á., en ekki kæranda.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs gangi á lögvarða hagsmuni hans þar sem fyrirhuguð viðbygging sé inni á lóð hans að Auðbrekku 1. Þá minnki lóðin um þriðjung samkvæmt breytingunni og gangi því gegn gildandi lóðarleigusamningi, dags. 31. desember 1965.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að í upphafi hafi skipulagsnefnd hafnað erindi leyfishafa á grundvelli umsagnar skipulags- og byggingardeildar, dags. 15. apríl 2014. Hafi bæjarstjórn vísað málinu aftur til skipulagsnefndar sem við nánari skoðun hafi komist að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð viðbygging myndi ekki rýra aðkomu eða sameiginlega nýtingu bílastæða á lóð. Hafi sú niðurstaða fyrst og fremst byggst á því að á umræddum bílastæðum á lóðinni stæðu gámar og svæðið hafi því ekki verið nýtt sem bílastæði. Myndi viðbygging við Auðbrekku 3 því ekki breyta nýtingu svæðisins. Skipulagsnefnd hafi því samþykkt umsóknina á fundi sínum 20. maí 2014 og bæjarstjórn staðfest tillöguna 27. s.m.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa hefur því verið lýst yfir að hann muni ekki láta málið til sín taka en hann bendi þó á að hann hafi staðið í þeirri trú að mörk lóðar sinnar að Auðbrekku 3 væru önnur en hin kærða ákvörðun sýni. Hafi hann án árangurs reynt að fá skýringar frá Kópavogsbæ um hin breyttu lóðarmörk sem felist í hinni kærðu ákvörðun.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. maí 2014 að heimila viðbyggingu við hús að Auðbrekku nr. 3. Snýst ágreiningurinn um lóðamörk eins og þau koma fram í hinni kærðu ákvörðun og hvort heimiluð viðbygging muni fara inn á lóð kæranda. Ber aðilum, þ.e. kæranda, leyfishafa og sveitarfélaginu, ekki saman um hvar hin eiginlegu mörk umræddra lóða liggja.

Í fyrirliggjandi gögnum málsins er að finna þinglýsta lóðarleigusamninga. Slíkir samningar afmarka það land sem ráðstafað er og verður þeim ekki breytt nema með samkomulagi aðila þar um. Var gerður lóðarleigusamningur vegna Auðbrekku 3-5 árið 1960 en vegna Auðbrekku 1 árið 1965. Við gerð lóðarleigusamnings Auðbrekku 1 var að auki gerð breyting á lóð Auðbrekku 3-5 en á þeim tíma munu sömu aðilar hafa verið lóðarhafar beggja lóða. Var skiki af norðvesturhorni lóðar Auðbrekku 3-5 færður á lóð nr. 1, sbr. uppdrátt þann er þinglýst var með lóðarleigusamningnum 1965. Verður ekki séð af gögnum málsins, eða þeim þinglýstu skjölum sem úrskurðarnefndin hefur aflað sér hjá Fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, að þeim lóðarmörkum hafi verið breytt síðar með samningum þar um.

Þinglýsingum fylgir ákveðinn áreiðanleiki að lögum og mátti kærandi treysta því að þeim lóðarmörkum sem fram koma í lóðarleigusamningi þinglýstum á fasteign hans yrði ekki breytt án hans aðkomu. Að sama skapi mátti leyfishafi treysta því að þinglýsingabækur greindu frá tilvist réttinda yfir hans eign, þ. á m. hverjum þeim breytingum á lóðarmörkum sem gerðar hefðu verið. Þinglýsingarstjórar hafa eftir atvikum heimildir til þess að endurskoða úrlausnir sínar í þinglýsingarmálum og heyrir ágreiningur um efnisatvik að baki þinglýstum réttindum og eftir atvikum forgangsvernd þeirra samkvæmt þinglýsingalögum undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að þau lóðamörk sem felast í hinni kærðu ákvörðun eru hvorki í samræmi við lóðarleigusamning Auðbrekku 3-5 (áður Auðbrekku 52) né lóðarleigusamning Auðbrekku 1 (áður Auðbrekku 54). Þá verður ekki annað séð en að fyrirhuguð viðbygging muni að hluta til fara inn á lóð kæranda þegar litið er til lóðarmarka á þinglýstum uppdrætti vegna Auðbrekku 1. Að teknu tilliti til eðlis þeirrar athugasemdar sem barst frá einum lóðarhafa Auðbrekku 1 á grenndarkynningartíma og með hliðsjón af þeim gögnum sem sveitarfélagið sem lóðarleigjandi hafði undir höndum og var jafnframt samningsaðili að var ástæða til frekari rannsóknar af hálfu sveitarfélagsins varðandi umdeild lóðamörk. Þykir svo verulega skorta á að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri fullnægt við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði enda geta mörk lóðanna ráðið úrslitum um lögmæti hennar.

Í ljósi alls framangreinds verður fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:


Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. maí 2014 um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við jarðhæð húss við Auðbrekku 3.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                   Þorsteinn Þorsteinsson

104/2014 Öldutún

Með
Árið 2014, föstudaginn 10. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2014, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnafjarðar frá 3. desember 2002 um að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað að Öldutúni 4, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. september 2014, er barst nefndinni 1. október s.á., kæra J, Öldutúni 2, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnafjarðar frá 3. desember 2002 um að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað að Öldutúni 4, Hafnarfirði.

Verður að skilja kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn bárust frá Hafnarfirði 8. og 10. október 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 30. júlí 2002 var fyrirspurn um að rífa þáverandi bílskúr og byggja annan í hans stað að Öldutúni 4 tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar. Meðfylgjandi var samþykki nágranna og meðeigenda í húsi. Áður hafði byggingarfulltrúi sent fyrirspurnina til skipulagsdeildar til umsagnar vegna stækkunar og hækkunar nýs skúrs. Ráðið samþykkti að óska eftir fullnaðarteikningum og að heimila grenndarkynningu erindisins í samræmi við 7. mgr. 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Ein athugasemd barst á grenndarkynningartíma og á fundi sínum 3. desember s.á. samþykkti skipulags- og byggingarráð að verða við erindinu með þeim breytingum að byggingarreitur bílskúrs yrði færður upp að lóðarmörkum og atriði sem lutu að frágangi yrðu leyst í samráði við nágranna. Var byggingarfulltrúa heimilað að gefa út byggingarleyfi þegar umsókn þar um lægi fyrir. Hinn 17. mars 2003 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráformin með áritun sinni á teikningar, dags. 14. s.m., sem sýna 3,9 m hæð þess veggjar er snýr að lóð kærenda. Botnúttekt fór fram 11. júlí 2003.

Hinn 26. janúar 2005 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja bílskúr að Öldutúni 4 og var bókað að nýjar teikningar hefðu borist 20. s.m. Leyfið var samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 23. febrúar s.á. Samkvæmt nýjum teikningum fól leyfið í sér að heimiluð var breyting á innra fyrirkomulagi bílskúrsins frá fyrra leyfi 2003 og heimiluð gerð gryfju undir bíla. Staðfesti skipulags- og byggingarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 14. mars s.á. Hinn 21. október 2009 voru enn samþykktar af byggingarfulltrúa breytingar á innra fyrirkomulagi bílskúrsins. Fór úttekt á plötu yfir kjallara fram 6. júní 2011. Deiliskipulag Öldugötu, Öldutúns 2-6, Ölduslóðar 1-10 og 12 og Hringbrautar 1-15 var samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hinn 25. nóvember 2008 og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní 2009.

Kærendur vísa til þess að hið kærða byggingarleyfi brjóti í bága við gildandi deiliskipulag á svæðinu. Leyfi sé veitt fyrir mun hærra bílskýli með töluvert hærri útvegg sem snúi að lóðarmörkun en gildandi deiliskipulag segi til um og fordæmi séu fyrir á svæðinu. Ákvörðun byggingarfulltrúa snerti hagsmuni kærenda verulega og skerði hæð útveggjar á lóðarmörkum útsýni og varpi miklum skugga á lóð kærenda og rýri þannig lífsgæði þeirra og verðmæti fasteignar þeirra. Muni bygging umrædds bílskýlis skyggja á einu mögulega áttina þaðan sem sól skíni á lóð kærenda. Fyrstu stoðir að útveggjum hafi risið sumarið 2014 og kærendum ekki orðið ljóst hver hæð og áhrif veggjar yrðu fyrr en steypumótum hefði verið komið fyrir hinn 13. september s.á. og í raun ekki fyrr en fyrsta sólríka dag þar á eftir eða 16. s.m.

Hinn umdeildi útveggur er snúi að lóðarmörkum muni verða 3,9 m á hæð en megi ekki vera nema 2,8 m samkvæmt núgildandi deiliskipulagi, hæðarmunur sé 1,1 m eða sem nemi um 40%. Þar sem ekki hafi verið til deiliskipulag fyrir svæðið við leyfisveitingu sé rík ástæða til að fylgja gr. 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 hvað varði stærð og hæð bílskýlis. Leyfi fyrir hærra bílskýli á þessum stað valdi verulegri röskun á umhverfi og aðstæðum. Þá sé hæðarmunur á lóðum kærenda og byggingarleyfishafa og séu forsendur fyrir frávikum frá þágildandi byggingareglugerð og leyfisveitingu fyrir óvenju háreistu bílskýli því enn veikari. Möl hafi verið borin í lóð byggingarleyfishafa og hún hækkuð þannig að bílskýli standi hærra en ella og séu miklir ágallar á samþykktum teikningum þar sem ekki séu gefnir upp hæðarpunktar sem hæð útveggjar gangi útfrá þvert á gr. 18.8 þágildandi byggingarreglugerðar sem og núgildandi byggingarreglugerð. Þá séu engin dæmi um svo háreist bílskýli á svæðinu, hvorki fyrir né eftir hina umdeildu leyfisveitingu.

Standist leyfisveitingin ekki lög en í 46. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 18. gr. þágildandi byggingarreglugerðar hafi komið fram að aðaluppdráttur skyldi sýna hvernig mannvirki félli að nærliggjandi umhverfi, gefa skyldi upp hæðarkóta hverrar hæðar og hæsta punkt þakvirkis en ekkert af þessu sé að finna á teikningum fyrir umrætt bílskýli. Þá hafi kærendur ekki fengið gögn um grenndarkynningu umrædds bílskýlis þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þar um. Hafi grenndarkynning farið fram telji kærendur hana ómerka. Ómögulegt hafi verið fyrir þá sem grenndarkynnt hafi verið fyrir að gera sér grein fyrir umfangi byggingarinnar þar sem lögum um aðaluppdrætti hafi ekki verið fylgt og teikningar sýnt bílskýlið eitt og sér með enga stærðarviðmiðun.

Virðist undirskriftir nágranna sem bjuggu á svæðinu þegar sótt var um leyfi ekki hafa legið fyrir. Bent sé á að samkvæmt fundargerðum Hafnarfjarðabæjar hafi þær legið fyrir 24. júlí 2002 og hafi því liðið um 12 ár frá samþykki nágranna þar til steypumót risu að grunni bílskýlis. Deiliskipulag svæðisins sé frá árinu 2008 og hafi því sex ár liðið þar til fyrstu steypumótum var slegið upp. Kærendur veki athygli á framangreindu, óski eftir að leyfi verði fyrnt og ný grenndarkynning fari fram.

Loks fyrirfinnist samþykktar teikningar frá árinu 2009 sem sýni hvar búið sé að bæta kjallara við teikningar umrædds bílskýlis en sú breyting virðist ekki hafa farið í grenndarkynningu. Telji kærendur að þegar byggingarfulltrúi samþykkti þær teikningar hefði grenndarkynning átt að fara fram þar sem kjallari á bílskýli Öldutúns 4 fari gegn deiliskipulagi á svæðinu.

Vegi réttur kærenda að sjá til sólar á lóð sinni þyngra en réttur byggingarleyfishafa til að geyma t.d. vöruflutningabíla innandyra á lóð sinni.

Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til afgreiðslu málsins hjá skipulags- og byggingarsviði Hafnarfjarðar. Erindið hafi verið grenndarkynnt frá 25. október til 25. nóvember 2002, byggingaráform verið samþykkt í mars 2003 og botnúttekt farið fram í júlí s.á. Breytingar á byggingarleyfi hafi verið samþykktar á árinu 2005 þegar gryfja undir bíla var heimiluð og á árinu 2009 er aðrar breytingar á innra fyrirkomulagi bílskúrs hafi verið samþykktar. Úttekt á plötu yfir kjallara hafi farið fram 6. júní 2011 og skýringar á byggingartíma hafi borist frá byggingarleyfishafa og byggingarstjóra með bréfi, dags. 22. september 2014.

Byggingarleyfishafi bendir á að framkvæmdir þær sem hann vinni að við Öldutún 4 séu unnar samkvæmt samþykktu byggingarleyfi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar, dags. 21. og 22. október 2009.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar ákvörðunar frá árinu 2002 sem heimilaði að reistur yrði 44,9 m² bílskúr að Öldutúni 4. Úttekt á plötu yfir kjallara mun hafa farið fram 6. júní 2011 en framkvæmdir við útveggi bílskúrsins hafist sumarið 2014. Byggingarleyfi sem gefið var út í skjóli hinnar kærðu ákvörðunar heimilar að hæð skúrsins verði mest 3,9 m þar sem hann stendur á mörkum lóða kærenda og leyfishafa. Deiliskipulag er í gildi á svæðinu samkvæmt birtingu auglýsingar þar um 10. júní 2009. Þar kemur fram að á svæðinu sé byggingarreitur bílageymslna að jafnaði 5×7 m og að hámarksvegghæðar við aðliggjandi lóðarmörk sé 2,8 m.

Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitaefni eru uppi sem áhrif geta haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Til dæmis liggi ekki fyrir gögn um grenndarkynningu þá sem fram fór á sínum tíma og hvort fjallað hafi verið um erindi leyfishafa með tilliti til ákvæðis gr. 113.1 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998. Framkvæmdir eru þegar hafnar og eru til þess fallnar að hafa röskun í för með sér fyrir kærendur. Eins og atvikum er háttað þykir rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, en byggingarleyfishafi getur óskað þess að málið sæti flýtimeðferð, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir sem hafnar eru samkvæmt hinni kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 3. desember 2002 um að heimila niðurrif bílskúrs og byggingu annars í hans stað að Öldutúni 4, Hafnarfirði, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

_________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________                             _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                                Þorsteinn Þorsteinsson

95/2014 Skipholt

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 16. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. mars 2014 um að veita byggingarleyfi til að byggja þrjár hæðir ofan á eldra hús að Skipholti 11-13 með 20 íbúðum, nota 1. hæð undir verslun og að kjallari verði innréttaður sem geymslur og bílageymsla fyrir sex bíla.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. ágúst 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Sveinn Sveinsson hrl., f.h. G, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 4. mars 2014, að veita leyfi til að byggja þrjár hæðir ofan á eldra hús að Skipholti 11-13 með 20 íbúðum, nota 1. hæð undir verslun og að kjallari verði innréttaður sem geymslur og bílageymsla fyrir sex bíla.

Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. september 2014.

Málavextir: Húsin Skipholt 11-13 og Brautarholt 10-14 voru reist á sameiginlegri lóð sem mun hafa verið í eigu Mjólkursamsölunnar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum seldi Mjólkursamsalan Samspili ehf. eignarhlut í húsinu Skipholt 11-13 ásamt hlutdeild í leigulóðarréttindum. Var tekið fram í afsali, dags. 30. júní 1998, að í sölunni fylgir „…allur ofanábyggingarréttur á húsið…“ en að ekki fylgi „…viðbyggingarréttur við vesturgafl hússins…“. Samkvæmt afsali, dags. 6. september 2000, fékk félag í eigu kæranda „… óbyggða leigulóð og byggingarrétt á lóðinni Brautarholt 10-14 og Skipholt 11-13, Reykjavík, en seljanda var með tveimur bréfum byggingarfulltrúa Reykjavíkur, dags. 14. október 1988, veitt byggingarleyfi á lóðinni, að frátöldum rétti til að byggja 3. hæð að Skipholti 11-13, stærð 484,8 fermetrar.“

Í kjölfar breytingar á deiliskipulagi svæðisins þar sem gert var ráð fyrir skiptingu umræddrar lóðar var lóðinni Brautarholt 10-14 og Skipholt 11-13 skipt upp með yfirlýsingu, dags. 2. október 2007. Var yfirlýsingin um greinda lóðarskiptingu undirrituð af lóðarhöfum og móttekin til þinglýsingar 25. nóvember 2008 en hins vegar var skjalinu í framhaldi vísað frá þinglýsingu. Með afsali, dags. 10. nóvember 2009, afsalaði félag í eigu kæranda fyrrgreindum byggingarrétti á lóðinni Skipholt 11-13 til hans persónulega. Hinn 29. ágúst 2013 keypti leyfishafi allar eignir á nefndri lóð og hinn 14. janúar 2014 sótti hann um byggingarleyfi til þess að byggja þrjár hæðir ofan á núverandi byggingu samkvæmt deiliskipulagi. Var umsóknin samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 4. mars 2014 með því skilyrði að ný eignaskiptayfirlýsing yrði samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfis og henni þinglýst eigi síðar en við fokheldi. Hinn 23. apríl s.á. barst leyfishafa bréf um að komið hefði í ljós að ekki væri að finna í opinberum gögnum skiptingu á lóðinni Brautarholt 10-14/Skipholt 11-13. Hafði lóðarblaði sem gert var í kjölfar deiliskipulags fyrir lóðina árið 2007 ekki verið þinglýst. Var leyfishafa gefinn kostur á að bæta úr þessu og var fyrrgreindri lóðarskiptingu þinglýst hinn 4. júlí 2014 þar sem undirskrift núverandi eiganda Skipholts 11-13 hafði verið bætt við. Byggingarleyfi var síðan gefið út 28. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi ekki heimilað að byggingarréttur sinn væri nýttur af leyfishafa og hafi samþykkis hans ekki verið aflað. Hafi leyfishafi viljað kaupa byggingarrétt hans en samkomulag ekki náðst. Hafi kærandi næst heyrt af því að leyfishafar hafi farið af stað með breytingar á húsi sínu. Samkvæmt afsali sem Mjólkursamsalan hafi gefið út hinn 6. september 2000, hafi félag í hans eigu eignast „óbyggða leigulóð og byggingarrétt á lóðinni Brautarholt 10-14 og Skipholt 11-13, Reykjavík“. Hafi kærandi keypt byggingarréttinn af félagi sínu hinn 10. nóvember 2009 og hafi afsali og kaupsamningi þar um verið þinglýst. Leiki því enginn vafi á eignarrétti kæranda á umræddum byggingarrétti. Gengið hafi verið frá yfirlýsingu vegna lóðarskipta hinn 2. október 2007 en henni hafi verið vísað frá þinglýsingu. Hafi ekkert frekar verið gert í málinu og kærandi því talið að lóðin væri enn óskipt.

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi tilkynnt leyfishöfum um afturköllun byggingarleyfisins með bréfi, dags. 23. apríl 2014, ef ekki yrði sýnt fram á samþykki kæranda á byggingarframkvæmdunum þar sem að lóðin væri óskipt. Hafi leyfishafar þá dregið fram eldri yfirlýsinguna frá 2. október 2007 og bætt við undirritun kæranda. Hafi leyfishafi fengið greindu skjali þinglýst og framvísað því til byggingarfulltrúa. Kærandi telji að afturkalla beri leyfið þar sem leyfishafi hafi komist hjá því að uppfylla skilyrði um samþykki meðeiganda lóðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að í ákvæðum byggingarreglugerðar séu ekki gerðar kröfur til þess að leyfisveitandi framkvæmi sjálfstæða könnun á eignarheimildum. Við útgáfu byggingarleyfisins hafi byggingarfulltrúi kannað skráningu í fasteignaskrá fyrir fasteignina Skipholt 11-13. Hafi við þá könnun komið í ljós að leyfishafi væri þinglýstur eigandi. Hafi ekki verið gerð sjálfstæð könnun á gögnum þeim sem þinglýst hafi verið á fasteignina til að kanna eignarheimildir að byggingarrétti enda sé ekki gerð slík krafa til byggingarfulltrúa við útgáfu byggingarleyfis.

Á þeim tíma sem byggingarfulltrúi ritaði bréf til leyfishafa um að afla þyrfti samþykkis meðeiganda að lóðinni hafi hún enn verið óskipt samkvæmt þinglýsingargögnum en í kjölfar þinglýsingar á yfirlýsingu um skiptingu lóðarinnar hafi ekki verið lengur þörf á samþykki eiganda Brautaholts 10-14. Hafi með bréfinu ekki verið tekin afstaða til þess hvorum byggingarrétturinn tilheyri. Telji kærandi að skjal til grundvallar skiptingu lóðarinnar Brautarholt 10-14 og Skipholts 11-13 hafi verið falsað þurfi hann að leita til lögreglu með slíkt. Byggingarfulltrúi geti ekki afturkallað útgefið leyfi þótt grunur sé um fölsun. Sé það ekki á valdsviði hans og utan rannsóknarskyldu hans að leggja mat á réttmæti skjala ef ágreiningur sé um slíkt.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi skírskotar til þess að í kæru séu ámælisverðar rangfærslur. Leyfishafi sé eini þinglýsti eigandi fasteignarinnar Skipholt 11-13. Komi mörk lóðarinnar skýrt fram í yfirlýsingu um skiptingu lóðarinnar Brautarholt 10-14/Skipholt 11-13, sem gefin hafi verið út af Reykjavíkurborg 2. október 2007. Að auki samræmist skiptingin gildandi deiliskipulagi. Sé því allur réttur til að byggja ofan á hús við Skipholt 11-13 á hans hendi, sem eiganda fasteignarinnar, og hafi honum verið veitt byggingarleyfi af Reykjavíkurborg á þeim grundvelli.

Bent sé á að sá byggingarréttur sem kærandi reisi mál sitt á nái hvorki til breytinga á húsinu að Skipholti 11-13 né til að byggja ofan á það eða austan við húsið. Þvert á móti komi fram í afsali Mjólkursamsölunnar frá árinu 2000 að réttur til byggingar ofan á húsið sé undanskilinn. Einnig sé á það bent að hinn meinti byggingarréttur sé tengdur byggingarleyfum sem hafi fallið úr gildi.

Umræddri lóð hafi verið skipt með yfirlýsingu Reykjavíkurborgar hinn 2. október 2007 í lóðina Skipholt 11-13 og Brautarholt 10-14. Sú yfirlýsing hafi verið samþykkt af kæranda án fyrirvara um meintan byggingarrétt hans. Ástæðan fyrir því að greindri yfirlýsingu hafi ekki verið þinglýst á sínum tíma sé sú að láðst hafi að uppfæra skráningarupplýsingar um breytingarnar í fasteignaskrá, en það hafi verið forsenda fyrir þinglýsingu skjala um breytt lóðamörk. Sé ákvörðun Reykjavíkurborgar um skiptingu lóðarinnar bindandi og í samræmi við gildandi deiliskipulag enda hafi eigendur fasteigna og lóðarleiguhafar samþykkt skiptinguna. Sé því ótvírætt að öll lóðarréttindi Skipholts 11-13 séu á hendi leyfishafa samkvæmt lóðarleigusamningi.

Aðilar hafa gert frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verður rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er um það deilt hvort hið kærða byggingaleyfi fari í bága við svonefndan byggingarrétt kæranda samkvæmt þinglýstu afsali og hafi verið háð samþykki hans sem meðeiganda lóðarinnar Skipholts 11-13. Uppi er ágreiningur milli leyfishafa og kæranda um túlkun á efni afsalsins og deilur um réttmæti þinglýsinga skjala er snerta fasteignirnar Skipholt 11-13 og Brautarholt 10-14.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis frá árinu 2007 var heimilt að skipta hinni óskiptu lóð Brautarholts 10-14 og Skipholts 11-13 og liggur fyrir samningur, dags. 2. október 2007, um skiptingu lóðarinnar í lóðina Brautarholt 10-14 annars vegar og lóðina Skipholt 11-13 hins vegar sem samþykktur var af Reykjavíkurborg. Var samningurinn færður í veðmálabækur Sýslumannsins í Reykjavík hinn 4. júlí 2014.

Eigandi fasteignar fer með ráðstöfunarrétt og nýtingu hennar, þ.m.t. lóðarréttindi, í skjóli lóðarleigusamnings. Eðli máls samkvæmt eru fasteignaeigendur einir til þess bærir að sækja um byggingarleyfi fyrir mannvirkjum á sinni lóð enda er í 1. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 áskilið að byggingarleyfisumsókn þurfi að fylgja samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús.

Þinglýsingum fylgir ákveðinn áreiðanleiki að lögum og verður við þær að styðjast við töku stjórnvaldsákvarðana hverju sinni. Þinglýsingarstjórar hafa eftir atvikum heimildir til að endurskoða úrlausnir sínar í þinglýsingarmálum og heyrir ágreiningur um efni þinglýstra réttinda, og eftir atvikum forgangsvernd þeirra samkvæmt þinglýsingalögum, undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. Fyrir liggur að leyfishafi er eigandi allrar fasteignarinnar Skipholts 11-13 samkvæmt afsali, dags. 29. ágúst 2013, sem þinglýst var hinn 4. september s.á. Var borgaryfirvöldum því rétt að samþykkja umsókn þinglýsts rétthafa fyrrgreindrar fasteignar um byggingu ofan á hús hans, sem stendur á lóðinni, enda væru byggingaráform í samræmi við heimildir gildandi deiliskipulags.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki verður talið að neinir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun sem geti raskað gildi hennar, verður kröfu kæranda um ógildingu hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. mars 2014 um að veita leyfi til að byggja þrjár hæðir ofan á eldra hús að Skipholti 11-13 með 20 íbúðum, nota 1. hæð hússins undir verslun og að kjallari verði innréttaður sem geymslur og bílageymsla fyrir sex bíla.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

91/2014 Glerárgata

Með
Árið 2014, föstudaginn 3. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011fyrir:

Mál nr. 91/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar frá 6. maí 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir miðbæ Akureyrar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir F, Hafnarstræti 10, Akureyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar frá 6. maí 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir miðbæ Akureyrar. Deiliskipulagið var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 22. júlí s.á.

Verður að skilja kæruna svo að krafist sé ógildingar á þeim hluta deiliskipulagstillögunnar er varðar þrengingu Glerárgötu.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Akureyrarbæ 19. september 2014.

Málsatvik og rök: Kærandi er íbúi á Akureyri. Hinn 18. febrúar 2014 samþykkti bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Akureyrar. Samkvæmt deiliskipulagstillögunni er gert er ráð fyrir að breyta Glerárgötu frá Kaupvangsstræti norður að gatnamótum Grænugötu úr fjórum akreinum í tvær en um leið yrði tryggt að hægt yrði að breikka hana á ný í fjórar ef þörf væri á. Umferðarhraða yrði breitt úr 50 km/klst. í 40 km/klst. á kaflanum Grænugata/Smáragata að Kaupvangsstræti og á þeim kafla yrði ein akrein í hvora átt í stað tveggja. Frestur til að skila inn athugasemdum var frá 21. febrúar til 6. apríl 2014. Alls bárust 22 athugasemdir, þar á meðal frá kæranda þar sem hann mótmælti þrengingu Glerárgötu og fyrirhugaðri lækkun umferðarhraða úr 50 km/klst. í 40 km/klst., og úr 40 km/klst. í 30 km/klst. Að auki gerði kærandi athugasemdir við að notaðir væru norskir staðlar við áætlun umferðar. Skipulagsstjóri Akureyrarbæjar svaraði kæranda með bréfi, dags. 8. maí 2014, þar sem kom fram að með breytingu á umferðarhraða og fækkun akreina yrði gatan öruggari og umhverfið rólegra og skemmtilegra. Tillit hefði verið tekið til athugasemda Vegagerðarinnar og hámarkshraði færður í 40 km/klst. í stað 30 km/klst. Þá gæti einbreið Glerárgata þjónað umferðinni í fyrirsjáanlegri framtíð. Deiliskipulagstillagan var samþykkt af bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar 6. maí 2014 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 22. júlí s.á.

Kærandi vísar til þess að skortur hafi verið á rannsóknum og talningu við gerð deiliskipulagsins og að athugasemdum hans hafi ekki verið svarað á fullnægjandi hátt. Þá telji hann ekki hafa legið fyrir fullnægjandi rök fyrir því af hverju stuðst hafi verið við erlenda staðla.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að málinu verði vísað frá. Kærandi vísi ekki til lögvarinna hagsmuna sinna heldur fyrst og fremst til vinnubragða bæjarins við feril deiliskipulagsmálsins. Hafi kærandi þar af leiðandi ekki byggt á því að deiliskipulagið muni hafa íþyngjandi áhrif á einstaklega og lögvarða hagsmuni hans. Þá búi kærandi ekki innan þess svæðis sem deiliskipulagið taki til og ekki hafi verið sýnt fram á að það hafi áhrif á hagsmuni hans að öðru leyti.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Í kæru heldur kærandi því fram að vinnu við gerð deiliskipulagsins hafi verið ábótavant og að svar skipulagsstjóra við  athugasemdum hans sem og rökstuðningur fyrir notkun á erlendum stöðlum hafi ekki verið fullnægjandi. Deiliskipulagssvæðið tekur til miðbæjar Akureyrar og er kærandi búsettur utan þess í um kílómeters fjarlægð frá suðurenda Glerárgötu þar sem hún mun þrengjast. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsákvörðun, hvað þrengingu Glerárgötu varðar, snerti lögvarða hagsmuni kæranda þannig að skapi honum kæruaðild. Þá eiga undantekningartilvik nefndrar lagagreinar ekki við í málinu. Þar sem ekki þykir sýnt fram á kæruaðild í málinu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

94/2012 Hásteinn

Með
Árið 2014, föstudaginn 10. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 94/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 um að heimila breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2012, er barst nefndinni 1. október s.á., kærir Steinberg Finnbogason hdl., f.h. I og A, Áshamri 49, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 að samþykkja tillögu að breytingu að deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum. Öðlaðist breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. ágúst 2012. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ hinn 15. nóvember 2012.

Málsatvik: Hinn 14. mars 2007 tók gildi deiliskipulag fyrir íþrótta- og útivistarsvæði við Hástein. Skipulagssvæðið er í norðvestanverðum jaðri bæjarins og afmarkast af Hamarsvegi í norðri og vestri, íbúðarbyggð við Áshamar og Bessahraun í suðvestri, Hraunvegi í suðri og íbúðarbyggð við Illugagötu og Brekkugötu í austri. Í maí 2007 var staðfest í bæjarstjórn breyting á téðu deiliskipulagi er gerði ráð fyrir að tjaldsvæði yrði staðsett við Þórsheimili, en sú breyting mun ekki hafa tekið gildi. Á árinu 2010 tók gildi breyting á umræddu deiliskipulagi. Fól breytingin í sér að afmarkað var tjaldsvæði frá Þórsheimili og austur í átt að íþróttamiðstöð við Illugagötu. Sætti ákvörðunin kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Bæjarstjórn Vestmannaeyja afturkallaði þá ákvörðun, þar sem ósamræmi væri á milli gildandi aðalskipulags og nefndrar breytingar, en ekki var í aðalskipulagi gert ráð fyrir tjaldsvæði á nefndu svæði. Var málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í kjölfar þessa var unnin tillaga að breytingu á aðalskipulagi Vestmannaeyja er gerði m.a. ráð fyrir að heimilað yrði tjaldsvæði á íþróttasvæði við Hástein. Samhliða því hófst hjá Vestmannaeyjabæ vinna við gerð tillögu að breyttu deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein. Tillaga þess efnis var kynnt á opnum fundi hinn 24. apríl 2012 og sama dag var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagslagsráðs að auglýsa til kynningar tillögu að breyttu deiliskipulagi umrædds svæðis. Samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 26. s.m. Fól tillagan m.a. í sér að afmarkað yrði 7.900 m² svæði sunnan og austan við Þórsheimili fyrir tjaldsvæði sem og byggingarreitur fyrir hótel í Hásteinsgryfju. Bárust tvær athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum.

Deiliskipulagstillagan var tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 27. júní 2012 og var hún samþykkt með breytingum er fólu m.a. í sér að á skipulagsuppdrátt yrði sett inn hljóðmön á mótum tjaldsvæðis og íbúðarbyggðar við Áshamar og jafnframt yrði kveðið á um hljóðvarnir í skilmálum. Þá var skipulagsfulltrúa falið að gera breytingar á skipulagsgögnum og svara innsendum athugasemdum í samræmi við framlagða greinargerð skipulagsráðgjafa. Var málinu vísað til bæjarstjórnar er samþykkti framangreinda afgreiðslu á fundi hinn 28. júní 2012. Var Skipulagsstofnun tilkynnt um afgreiðslu málsins og með bréfi stofnunarinnar, dags. 18. júlí s.á., kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt breytingarinnar að ákveðnum atriðum leiðréttum, s.s. að skilgreina þyrfti göngustíga á uppdrætti og að sparkvöllur væri tilgreindur sem tjaldsvæði, en ekki kæmi fram í greinargerð að svo væri.

Fyrrgreind breyting á aðalskipulagi Vestamanneyja var að kynningu lokinni samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 28. júní 2012 og tók gildi 10. ágúst s.á. Þá öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. ágúst s.á., og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar að því er varðar heimild til staðsetningar tjaldsvæðis við Þórsheimili.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að starfrækt hafi verið tjaldsvæði við mörk lóðar þeirra í andstöðu við aðalskipulag og deiliskipulag í fimm ár. Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið, samþykktu í febrúar 2007, sé svæðið merkt sem leiksvæði. Breyting á nefndu deiliskipulagi, sem samþykkt hafi verið í maí 2007, hafi gert ráð fyrir að tjaldsvæði yrði staðsett við Þórsheimili, á reit U2. Hafi breytingin ekki rúmast innan samþykkts aðalskipulags og því verið ólögmæt. Í júní s.á. hafi umhverfis- og skipulagsráð veitt leyfi til framkvæmda á fyrirhuguðu tjaldsvæði, svo sem lagningu vegar, göngustíga og grindverks. Telji kærendur, með vísan til 11. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, að óheimilt hafi verið að samþykkja ákvörðun þá sem nú sé kærð nema að því undangengnu að þær framkvæmdir sem farið höfðu í bága við eldra skipulag yrðu fjarlægðar.

Með hinni kærðu ákvörðun sé verulega vegið að hagsmunum kærenda. Mikið ónæði stafi frá gestum tjaldsvæðisins og hafi þeir ítrekað raskað nætursvefni kærenda. Óþrifnaður frá svæðinu sé mikill og aukin og óásættanleg umferð fylgi starfseminni. Sé ónæðið langt umfram það sem kærendur hafi mátt vænta er þeir hafi keypt fasteign sína. Gengið sé verulega gegn friðhelgi einkalífs kærenda og hafi þeir orðið fyrir eignaspjöllum vegna þessa. Þá rýri starfsemin verðgildi fasteignar þeirra.

Hafa verði í huga þá meginreglu eignarréttarins, sem byggi m.a. á 72. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944, um að menn eigi ákveðinn rétt til hagnýtingar á eigin eignum. Verði takmörkun á þeim rétti að skýra þröngt og byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Svo hátti ekki hér en margir staðir séu ákjósanlegri fyrir tjaldsvæði í Vestmannaeyjum en umrætt svæði. Jafnframt sé vísað til 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en telja verði að Vestamannaeyjabær hafi við ákvarðanatöku borið að gæta hagsmuna kærenda og annarra íbúa sem ítrekað hafi mótmælt tjaldsvæði svo nærri íbúðarbyggð. Einnig sé bent á 32. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skuli þess gætt að ónæði berist ekki frá tjaldsvæði til nærliggjandi húsa. Muni mótvægisaðgerðir, sem ætlaðar séu til að draga úr hávaða á svæðinu, ekki skila árangri þar sem tjaldsvæðið liggi að lóðarmörkum kærenda. Verði sú skerðing á friðhelgi heimilisins sem þeir þurfi að þola ekki bætt með öðru móti en því að tjaldsvæðið verði flutt fjær íbúðarbyggð.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Vestmannaeyjabær hafnar því að ógilda beri hina kærðu ákvörðun. Framkvæmdir sem vísað sé til séu fyllilega lögmætar. Þær hafi verið gerðar á grundvelli gildandi deiliskipulags og hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi vegna þeirra 2. mars 2011. Leiði breyting á deiliskipulagi ekki til þess að fyrra deiliskipulag hafi verið ólögmætt. Um uppsetningu girðingar og lagningu gönguslóða hafi verið að ræða. Girðingin sé um 1,4 m há og vel innan lóðarmarka íþróttasvæðis og hafi því í raun ekki verið leyfisskyld, sbr. 67. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Vegna lagningu malarslóða sé vísað til þess að gert hafi verið ráð fyrir göngu- og hlaupaslóðum á svæðinu í eldra deiliskipulagi frá mars 2007 og því hafi breyting á umræddu deiliskipulagi er tekið hafi gildi árið 2010 ekki verið forsenda fyrir lagningu malarslóðans.

Í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 1975-1995 hafi umrætt svæði verið skilgreint sem íþrótta- og útivistarsvæði og hafi íbúðarbyggð við svæðið byggst upp eftir þann tíma. Sú notkun sem nú sé á svæðinu geti því ekki komið á óvart. Hvorki hafi verið brotið gegn þeim tilgreindu laga- og reglugerðarákvæðum sem kærendur vísi til né gegn eignarrétti þeirra og séu engin efnisleg rök færð fyrir slíku broti. Við mat á staðsetningu tjaldsvæðis hafi verið færð fram málefnaleg rök á fyrri stigum auk þess sem gætt verði að fremsta megni að ónæði frá svæðinu verði sem minnst, m.a. með gerð hljóðmanar sem búið sé að veita framkvæmdaleyfi fyrir. Í þéttbýli verði aldrei hjá því komist að ónæði hljótist af nábýli við íbúa eða lögmæta starfsemi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 um að heimila þá breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein í Vestmannaeyjum að tjaldsvæði skuli staðsett sunnan og austan við Þórsheimili.

Samkvæmt Aðalskipulagi Vestamannaeyja 2002-2014 er umrætt svæði merkt U2, opin svæði til sérstakra nota, en þau voru skilgreind svo í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að um væri að ræða svæði með útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert væri ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar væri stunduð, s.s. tjald- og hjólhýsasvæði. Í aðalskipulaginu, svo sem því var breytt með samþykkt bæjarstjórnar 28. júní 2012, er nú einnig heimilt að nýta grassvæði innan íþróttasvæðis sem tjaldsvæði og er sérstaklega tilgreint að heimilt verði að nýta grassvæði við Þórsheimili undir tjaldsvæði. Er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana fullnægt með breytingu þessari. Er landnotkun mörkuð í aðalskipulagi og sætir hún ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.

Í málsrökum sínum hafa kærendur vísað til 11. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, sem í gildi var er hin kærða ákvörðun var tekin, en tilvitnað ákvæði kvað á um að óheimilt væri að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefði verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega framkvæmd hefði verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Nefnt ákvæði átti sér stoð í 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Samkvæmt núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010, sem í gildi voru við hina kærðu ákvörðunartöku, getur skipulagsfulltrúi nú krafist þessa, sbr. 3. mgr. 53. gr. laganna, en ber ekki skylda til greindra aðgerða.

Almannahagsmunir, þróun byggðar, skipulagsrök eða önnur málefnaleg sjónarmið geta knúið á um breytingu á gildandi deiliskipulagi, einkum þegar skipulag er komið til ára sinna. Ber sveitarfélaginu m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Eru kröfur í aðalskipulagi um að tryggja þurfi góða hljóðvist í nágrenni við tjaldsvæðið og kvöð um hljóðvörn á mótum tjaldsvæðis og íbúðarbyggð við Áshamars, sem lögð er á í hinu umdeilda deiliskipulagi, til þess fallnar að draga úr áhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar. Þá er og bent á að einstaklingum er tryggður bótaréttur í 51. gr. skipulagslaga sé sýnt fram á að skipulagsáætlanir valdi tjóni.

Að öllu framangreindu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði er kröfu kærenda um ógildingu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:


Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 um að heimila breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum.

___________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________            ___________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

28/2013 Hólmgarður

Með
Árið 2014 þriðjudaginn 30. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 28/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir R, Hólmgarði 2, Reykjavík, erindi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem tilkynnt var í bréfi til kæranda, dags.13. febrúar 2013, þar sem farið var fram á að óskráður hundur á vegum kæranda yrði fjarlægður frá Hólmgarði 2 innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins og áréttuð sú krafa að skráður hundur kæranda yrði ekki hafður í sameiginlegum rýmum eða garði hússins. Skilja verður málskot kæranda svo að krafa heilbrigðiseftirlitsins, um að hinn óskráði hundur verði fjarlægður, verði felld úr gildi.  

Umbeðin gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hinn 15. apríl 2013.

Málsatvik og rök:  Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu mun kærandi hafa haldið tvo hunda í íbúð sinni að Hólmgarði 2 í Reykjavík.  Leyfi hefur verið veitt fyrir öðrum hundinum á umræddum stað en hinn hundurinn mun hafa verið í umsjá kæranda um nokkurn tíma án þess að leyfi hafi verið veitt fyrir því að halda hundinn á nefndum stað. Í kjölfar kvartana íbúa að Hólmgarði 2 sendi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kæranda bréf, dags. 13. febrúar 2013, með yfirskriftinni „Óleyfis hundur – lokaviðvörun“. Í bréfinu er vísað til fyrri bréfaskrifta eftirlitsins til kæranda vegna hins óskráða hunds sem heilbrigðiseftirlitið hvað sig ekki geta veitt leyfi fyrir sökum ofnæmis sameiganda að fyrrgreindri fasteign, Var farið fram á að hundurinn yrði fjarlægður frá Hólmgarði 2 innan tilskilins frests og að hundur kæranda sem leyfi var fyrir yrði ekki hafður í sameiginlegum rýmum hússins eða í sameiginlegum garði.  Er greint bréf tilefni málskots kæranda.

Kærandi vísar til þess að þær tvær íbúðir sem séu að Hólmgarði 2 hafi sérinngang en garður sé sameiginlegur.  Mikið hafi gengið á í samskiptum kæranda og íbúa í húsinu vegna hunda- og kattahalds kæranda og kvartanir ítrekað sendar heilbrigðiseftirliti. Staðhæfingar um óþrifnað í sameiginlegum garði hússins vegna hunda á vegum kæranda séu tilhæfulausar en lausagöngukettir geri þar þarfir sínar sem annars staðar. Dregið sé í efa að hundahald kæranda valdi íbúa hússins ofnæmi enda um engan samgang að ræða eða sameiginleg rými þar sem gæludýr kæranda séu. Hundur sé haldinn að Hólmgarði 4, sem sé sambyggt húsinu að Hólmgarði 2, sem sé nær íbúð nefnds íbúa en íbúð kæranda. Kærandi og dóttir hennar hafi sætt hótunum og ofbeldi af hálfu fyrrgreinds íbúa og sambýlismanns hennar og sé það ósk kæranda að leyfi verði veitt fyrir umræddum hundi svo þessu linni.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er á það bent að eftirlitið hafi haft afskipti af hundahaldi kæranda vegna kvartana um óþrif á lóð Hólmgarðs 2 vegna hunds sem ekki hafi verið veitt leyfi fyrir. Borist hafi staðfesting á því að íbúi í húsinu sé haldinn ofnæmi fyrir hundum. Farið hafi verið fram á að skráður hundur kæranda yrði ekki hafður í sameiginlegum rýmum og garði hússins og farið fram á að hinn óskráði hundur yrði fjarlægður. Vísa beri máli þessu frá þar sem ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun af hálfu heilbrigðiseftirlitsins.        

Niðurstaða: Í bréfi því frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til kæranda sem er tilefni kærumáls þessa er tekið fram að um lokaviðvörun sé að ræða. Eins og fyrr er rakið var í bréfinu farið fram á að óskráður hundur á vegum kæranda yrði fjarlægður frá Hólmgarði 2 svo ekki þyrfti að koma til frekari aðgerða. Þá var þar áréttað að skráður hundur kæranda yrði ekki hafður í sameiginlegum rýmum  eða garði greinds húss.

Með hliðsjón af tilvitnuðu orðalagi bréfsins verður ekki talið að í því hafi falist lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina heldur hafi verið um að ræða áskorun og tilmæli. Þá liggur fyrir samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands að kærandi hefur selt íbúð sína að Hólmgarði 2 samkvæmt kaupsamningi dags. 28. júní 2013 og afsali, dags. 2. september s.á. og afhent nýjum eiganda 1. september 2013. Liggur því fyrir að kærandi heldur ekki lengur hund í fyrrgreindri fasteign.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson