Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

15/2014 Silfurgata

Árið 2015, fimmtudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 um stækkun á lóð Silfurgötu 15 með útgáfu nýs lóðarblaðs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2014, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir I, Bókhlöðustíg 9, Stykkishólmi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 að samþykkja stækkun á lóð Silfurgötu 15 með útgáfu nýs lóðarblaðs. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði nú tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa.

Málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 10. mars 2014.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 22. apríl 2013 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa að Silfurgötu 15 um að stækka lóð og minnka landhæð til að koma fyrir bílastæði, sem og um að endurnýja og stækka geymsluskúr. Lóðin er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Var lagt til að leyfa eingöngu stækkun lóðar og yrði stækkunin grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir eigendum húsa við Bókhlöðustíg 7 og 9 og Silfurgötu 13. Var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 16. maí s.á. og af bæjarstjórn 23. s.m. Athugasemdir frá kæranda bárust á grenndarkynningartíma.

Nýtt lóðarblað vegna stækkunar á nefndri lóð var samþykkt af skipulags- og byggingarnefnd 13. nóvember 2013. Var það grenndarkynnt fyrir sömu aðilum og áður, sem og fyrir eigendum Silfurgötu 17. Bæjarráð og bæjarstjórn frestuðu afgreiðslu málsins þar til grenndarkynningu væri lokið. Kom kærandi athugasemdum sínum á framfæri á grenndarkynningartíma. Að grenndarkynningunni lokinni fór umsóknin aftur fyrir fund skipulags- og byggingarnefndar 13. janúar 2014, sem vísaði til fyrri fundar síns 13. nóvember 2013. Jafnframt var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gera „smá breytingu á lóðarblaði“ og svara athugasemdum. Mun breytingin hafa verið fólgin í því að sneitt var af austurhorni hinnar stækkuðu lóðar til að forðast skörun við lóð kæranda. Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarráðs 23. janúar s.á. og á fundi bæjarstjórnar 30. s.m.  Athugasemdum kæranda var svarað með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 31. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi mótmælir því að með lóðarblaði sé sett bílastæði á lóð sem hafi frá árinu 1903 verið óaðskiljanlegur hluti lóðar sinnar, en þar hafi m.a. verið matjurtagarður. Hafi þessi áratugalanga notkun myndað hefðarrétt á þessari nýtingu skv. 2., 3. og 8. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Þá sé byggt á lóðarlýsingu í erfðafestubréfi, dags. 8. maí 1916. Kærandi telji að Stykkishólmsbær hafi ekki sýnt fram á að lega lóðarinnar hafi frá öndverðu verið sú sem nú sé gengið út frá samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.

Kærandi hafi í bréfi sínu til skipulags- og byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar, dags. 2. júní 2010, vegna deiliskipulagstillögu fyrir Þinghúshöfða í Stykkishólmi, m.a. bent á að samkvæmt tillögunni væru mörk lóðanna Bókhlöðustígs 9 og Silfurgötu 15 í ósamræmi við nýtingu lóðar sinnar. Hafi kærandi tekið fram að sér hefði verið tjáð af seljanda eignarinnar að umrætt bílastæði hefði áður tilheyrt Bókhlöðustíg 9 og þá nýlega verið tekið í notkun af eigendum Silfurgötu 15. Kærandi hafi beðið Stykkishólmsbæ um upplýsingar um þetta fyrirkomulag en ekki hlotið nein viðbrögð vegna þessa.

Fyrri grenndarkynning vegna stækkunar umræddrar lóðar hafi verið ófullkomin og ógerningur hafi verið að átta sig á áhrifum fyrirhugaðra breytinga. Upplýsingar um hæðarpunkta hafi vantað og hafi þær teikningar sem fylgdu tillögunni verið óljósar. Þá hafi við grenndarkynningu tillögu að nýju lóðarblaði verið ómögulegt að gera sér grein fyrir í hverju breytingin væri fólgin eða hvaða áhrif hún kynni að hafa á nálægar lóðir og notkunarmöguleika þeirra. Þá hafi ekki verið orðið við kröfu kæranda um nýtt lóðarblað sem sýndi afstöðu annarra lóða.

Að mati kæranda sé það óásættanlegt að aðkoma vélknúinna ökutækja verði á þrjá vegu um eign sína og að bílastæði verði við stofugluggann. Slíkt fyrirkomulag sé í andstöðu við þann staðaranda sem hverfið á Þinghúshöfða búi yfir. Eðlileg aðkoma að Silfurgötu 15 sé frá Silfurgötu en ekki með aðkomu frá Bókhlöðustíg á kostnað venjuhelgaðrar nýtingar eignar sinnar. Silfurgata sé öll utan þess deiliskipulagssvæðis sem nái til Bókhlöðustígs en að mati kæranda sé óeðlilegt að breyta skipulagi þannig að það hafi bein áhrif á annað skipulagssvæði. Þá sé lega lóða og staðhættir þannig að fyrirhugaðar breytingar virðist óeðlilegar.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að skúr sem tilheyri Silfurgötu 15 hafi sennilega staðið þar í 50 til 60 ár, ef ekki lengur, og að umrætt bílastæði hafi verið notað af Silfurgötu 15 árum saman. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum skerði stækkun lóðar að Silfurgötu 15 á engan hátt lóð kæranda þar sem stækkunin hafi ekki verið á kostnað þeirrar lóðar. Sé í raun ekki verið að breyta neinu heldur staðfesta þau not sem verið hafi. Kærandi hafi hvorki lagt fram uppdrátt sem sýni hvernig hann telji að lóð sín liggi né hvernig hann telji að lóðin eigi að vera samkvæmt lóðarsamningi frá árinu 1916. Umrædd stækkun sé úr landi sveitarfélagsins og byggist sú niðurstaða m.a. á erfðafestubréfi frá 1916, en þar sé lóðin mæld í álnum. Miði sveitarfélagið við löggilta danska alin frá 1776 sem teljist vera 24 þumlungar, eða 62,7 cm, að lengd. Þá sé höfð hliðsjón af uppdrætti af Stykkishólmi frá árunum 1942-1943, sem sýni girðingu við Bókhlöðustíg 9 og loftmynd sem tekin hafi verið áður en Bókhlöðustígur 7 hafi verið rifinn og nýtt hús byggt á þeirri lóð. Þá sé byggt á deiliskipulagi fyrir Þinghúshöfða frá árinu 2011. Telja verði ólíklegt að fyrri eigandi hafi átt landið undir þeim matjurtagarði sem kærandi vísi til og virðist eldri uppdráttur gefa til kynna að matjurtagarður hafi verið upp við húsið sjálft. Þegar kærandi hafi keypt eignina hafi matjurtagarðurinn verið farinn. Fyrri eigandi hafi gert munnlegt samkomulag um að nota mætti þá spildu sem bílastæði. Hafi kærandi haft vitneskju um þetta.

Þrjár íbúðir hafi verið að Silfurgötu 15 frá árinu 1981 og hafi aðgengi íbúa þar að bakhluta hússins verið til staðar fyrir kaup kæranda á eign sinni árið 2004. Með lóðarblaðinu sé ekki verið að breyta legu umræddrar lóðar þannig að leiði til skerðingar á lóð kæranda. Þá nái deiliskipulag frá árinu 2011 ekki inn á það svæði sem um sé deilt og því tilheyri það ekki Bókhlöðustíg 9.

Loks sé því hafnað að Stykkishólmsbær hafi ekki upplýst kæranda um málið. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi sent kæranda gögn til rökstuðnings því að umdeild landspilda tilheyri ekki eign hans og sé vísað til bréfasamskipta við kæranda frá 30. desember 2013 og 31. janúar 2014.

———–

Úrskurðarnefndin tilkynnti lóðarhafa Silfurgötu 15 um fram komna kæru og veitti honum frest til að koma að athugasemdum en þær hafa ekki borist nefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 að samþykkja stækkun lóðar að Silfurgötu 15. Er gert ráð fyrir því á lóðarblaði að stækkunin sé til austurs, að lóð kæranda.

Í máli þessu liggur fyrir samþykkt sveitarstjórnar fyrir breyttum lóðarmörkum Silfurgötu 15, svo sem áskilið er í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að nefndri grein undanskilinni er ekki að finna neinar þær sérstöku reglur í lögunum sem eiga við um málsmeðferð þegar lóðarmörkum er breytt. Sveitarfélagið kaus að grenndarkynna hina umdeildu tillögu að lóðarblaði á grundvelli 44. gr. laganna, en að öðru leyti fór um meðferð málsins eftir almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrir liggur að samskipti kæranda og Stykkishólmsbæjar hafa verið töluverð í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar. Þannig kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins og var þeim svarað af hálfu sveitarfélagsins. Af þeim svörum og öðrum gögnum málsins verður ráðið að sveitarfélagið hefur rannsakað þinglýstar heimildir hvað varðar lóð kæranda og þá lóð sem stækkuð var, sem og litið til tiltækra uppdrátta og loftmynda við rannsókn sína. Við grenndarkynningu tillögu að hinu umdeilda lóðarblaði í nóvember 2013 var tekið fram að stækkun lóðarinnar væri úr óskiptu landi sveitarfélagsins en auk þess fylgdi hnitaskrá. Kærandi vísar til þess að í ákvörðuninni  sé gert ráð fyrir bílastæði á spildu sem hafi frá árinu 1903 verið óaðskiljanlegur hluti lóðar hans og m.a. verið þar nýtt sem matjurtagarður. Hafi þessi áratugalanga notkun myndað hefðarrétt á þessari nýtingu. Úr slíkum eignarréttarlegum ágreiningi verður ekki skorið fyrir úrskurðarnefndinni heldur á hann undir almenna dómstóla. Af öllu framangreindu er því ljóst að sveitarfélagið uppfyllti skyldu sína til rannsóknar máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, kynnti fyrirhugaða breytingu á grundvelli 44. gr. skipulagslaga og veitti kæranda andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, auk þess að svara fram komnum andmælum. Þá verður ekki séð að málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar hafi að öðru leyti verið áfátt.

Silfurgata 15 er ekki á deiliskipulögðu svæði en húseign kæranda er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag á Þinghúshöfða, sem tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 2011. Hefur nefndu deiliskipulagi ekki verið hnekkt, en úrskurðarnefndin hafnaði ógildingu þess í úrskurði sínum fyrr í dag, í máli nr. 57/2011. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir aðkomu að Silfurgötu 13 og 15 með vegi milli húss kæranda að Bókhlöðustíg 9 og hússins að Bókhlöðustígs 11. Gerir hin kærða ákvörðun ráð fyrir því að nefnd aðkoma verði nýtt til þess að komast að bílastæðum á hinni stækkuðu lóð. Verður ekki séð að hin kærða ákvörðun leiði að þessu leyti til aukinna grenndaráhrifa gagnvart kæranda frá því sem verið hefur.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 um stækkun á lóð Silfurgötu 15 með útgáfu nýs lóðarblaðs.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson