Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

57/2011 Þinghúshöfði

Árið 2015, fimmtudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag á Þinghúshöfða í Stykkishólmi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júlí 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir I, Bókhlöðustíg 9, þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 að samþykkja deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð á Þinghúshöfða. Er gerð sú krafa að ákvörðunin verði felld úr gildi, en til vara að skipulagið verði ógilt að hluta að því er varði staðsetningu bílgeymslu á lóðinni að Bókhlöðustíg 10. Þá er gerð krafa um stöðvun framkvæmda. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Málavextir: Hinn 21. apríl 2010 auglýsti skipulags- og byggingarfulltrúi Stykkishólmsbæjar tillögu að deiliskipulagi fyrir íbúðarbyggð á Þinghúshöfða í Stykkishólmi sem tekur til 2,4 ha byggðar eldri húsa sem standa við Bókhlöðustíg, nyrðri hluta Skólastígs og Höfðagötu. Var íbúum svæðisins jafnframt sent bréf, dags. 19. s.m., þar sem athygli þeirra var vakin á auglýstri tillögu. Þá var haldinn opinn kynningarfundur um tillöguna 3. maí s.á. Leitað var umsagnar Húsafriðunarnefndar ríkisins og gerð fornleifaskráning af svæðinu. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 9. maí 2011 var tillagan lögð fram ásamt umsögn nefndarinnar, dags. 16. ágúst 2010. Var lagt til að tillagan yrði samþykkt með nokkrum breytingum. Athugasemdum kæranda var lýst í fimm liðum í umsögn nefndarinnar. Nefndin varð við beiðni kæranda um að fella út gangstétt að Silfurgötu 13 og 15 en hafnaði athugasemdum hans að öðru leyti. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar og samþykkti deiliskipulagið hinn 19. s.m., með frekari breytingum á skilmálatexta þess. Var afgreiðsla bæjarstjórnar tilkynnt eigendum fasteigna á skipulagssvæðinu með bréfi, dags. 24. maí 2011, og deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögbundinnar meðferðar. Gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt skipulagsins. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 2011.

Málsrök kæranda: Kærandi telur undirbúningi deiliskipulagsins hafa verið ábótavant og að ekki hafi verið fylgt eftir mikilvægum ófrávíkjanlegum málsmeðferðarreglum skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki hafi verið gerð húsakönnun eins og áskilið sé samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laganna. Slík húsakönnun sé afar mikilvæg þegar unnið sé að deiliskipulagsgerð vegna eldri hverfa og verði ekki tryggt að svipmót byggðar verði varðveitt með forsvaranlegum hætti nema slíkt mat fari fram. Öll hús á umræddum skipulagsreit séu gömul, sum reist fyrir 1874, og um sjötíu af hundraði húsanna séu reist fyrir 1930. Sé full ástæða til að gæta ýtrustu varfærni við gerð deiliskipulags fyrir slík svæði, einkum þegar svo virðist sem tilgangur skipulags sé að innleiða breytingar á svipmóti byggðar með því að heimila byggingar sem ekki hafi verið almennar við heimili fólks á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, svo sem bílgeymslur. Enga þýðingu hafi þótt til sé eldri húsakönnun, enda sé engan veginn tryggt að hún uppfylli þau skilyrði sem lög nr. 123/2010 eða lög nr. 73/1997 geri til slíkra kannana.

Málsmeðferð hafi ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og meginreglur stjórnsýsluréttar. Við meðferð málsins hafi verið tekið tillit til athugasemda allra annarra hagsmunaaðila en kæranda. Sambærilegar athugasemdir hafi t.d. komið fram vegna mögulegrar stækkunar Bókhlöðustígs 19 og hafi verið tekið tillit til þeirra. Sé þessi óútskýrði munur á afgreiðslu athugasemda í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og fáist ekki staðist.

Kærandi telur og að bygging bílgeymslu að Bókhlöðustíg 10 muni skerða útsýni frá húsi hans verulega og rýra verðgildi eignar hans til muna. Ekki hafi verið staðið málefnalega að ákvarðanatöku og verði það enn ljósara þegar litið sé til markmiða deiliskipulagsins, einkum í ljósi þeirrar skyldu sem þar sé sett fram um að staðsetja skuli bílgeymslur eins lágt í landi og mögulegt sé. Sú staðsetning sé skyldubundin en ekki valkvæð. Feli hin kærða ákvörðun því í sér brot gegn 10. gr. stjórnsýslulaga en afgreiðsla á deiliskipulaginu bendi til þess að sveitarfélagið hafi ekki kynnt sér aðstæður og afleiðingar þess að velja bílgeymslunni þann byggingarreit sem gert sé ráð fyrir. Vel hafi mátt velja annan byggingarreit á lóðinni fyrir umrædda bílgeymslu og sé eðlilegra að eigandi Bókhlöðustígs 10 verði fyrir útsýnisskerðingu vegna mögulegrar framkvæmdar sinnar fremur en kærandi. Jafnframt segi í deiliskipulaginu að „Geymsluskúrar [megi] ekki taka útsýni frá nágrönnum […]“. Ekki sé hægt að sjá að eðlismunur sé á útsýnisskerðingu er verði vegna geymsluskúrs og vegna bílskúrs þó að gert sé að skilyrði að geymsluskúrar séu nokkuð lægri en bílgeymslur. Skipulagið sé að þessu leyti í innbyrðis mótsögn við sjálft sig þar sem húseigendum sé ómálefnalega mismunað eftir því hvort nágrannar hyggist reisa geymslu eða bílgeymslu og séu meiri kröfur gerðar til þeirra sem ætli að reisa geymslu.

Loks vísi kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 71/2005, þar sem kært hafi verið byggingarleyfi vegna bílgeymslu við Bókhlöðustíg 10, en byggingarreitur sé hinn sami þar og hið kærða deiliskipulag geri nú ráð fyrir.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Sveitarfélagið lét málið ekki til sín taka en úrskurðarnefndin hefur undir höndum gögn er varða afgreiðslu hins kærða deiliskipulags.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag á Þinghúshöfða og þá fyrst og fremst að því er varðar staðsetningu bílskúrs á lóðinni Bókhlöðustíg 10.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarstjórnir með skipulagsvald og annast gerð deiliskipulags. Með því getur sveitarstjórn haft áhrif á þróun byggðar og umhverfi með bindandi hætti. Markmið deiliskipulags er m.a. að útfæra nánar ákvæði aðalskipulags, taka ákvarðanir um notkun lóða og stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands. Þegar unnið er að deiliskipulagi í þegar byggðu hverfi skal með gerð húsakönnunar leggja mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru, sbr. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum nr. 123/2010 segir að tilgangur húsakönnunar sé að tekið sé tillit til menningararfsins við gerð deiliskipulags, hvort heldur um sé að ræða einstök hús eða yfirbragð hlutaðeigandi byggðar, og að slík húsakönnun sé lögð til grundvallar deiliskipulagsskilmálum um þau hús sem fyrir séu. Þannig sé lagður betri grundvöllur til að taka ákvarðanir um hvaða hús skuli varðveita, í hverju varðveisluhlutverkið felist og þar með taka afstöðu til þess hvaða framkvæmdir eru heimilar með hliðsjón af slíku mati. Vegna vinnu við gerð umþrætts deiliskipulags var gerð svonefnd „Deiliskráning á Þinghúshöfða í Stykkishólmi“ og þar gerð ítarleg greining á fornminjum á svæðinu og vísað til ítarlegri heimilda hvað varðaði úttekt og byggingarsögu húsa á svæðinu. Þá fylgdi greining á aldri húsa og byggingarlistagreining í greinargerð með deiliskipulaginu. Verður með hliðsjón af þessu ekki annað séð en að skilyrðum 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga hafi verið fylgt við málsmeðferð hins kærða deiliskipulags.

Í almennum skilmálum umdeilds skipulags kemur fram að þar sem aðstæður leyfi hafi verið skilgreindur byggingarreitur fyrir bílgeymslur innan lóða og sé stærð þeirra og hæð takmörkuð með skilmálunum. Jafnframt er tekið fram að leitast skuli við að staðsetja þær eins lágt í landi og mögulegt sé. Er um eðlilega kröfu að ræða í ljósi staðhátta á svæðinu, en um er að ræða gróið og þegar byggt íbúðarhverfi sem staðsett er á klettahöfða. Veitir orðalag skilmálanna að þessu leyti skipulagsyfirvöldum visst svigrúm um staðsetningu byggingarreita bílskúra. Þá samrýmist umrædd ákvörðun um byggingarreit fyrir bílgeymslu að Bókhlöðustíg 10 því markmiði deiliskipulagsins að leyfa íbúum að laga svæðið að þörfum nútímans og heimila breytingar sem miði að því að uppfylla nútímaþarfir fjölskyldna, eins og nánar segir í greinargerð með skipulaginu. Byggðist ákvörðun sveitarfélagsins því á málefnalegum sjónarmiðum.

Einnig kemur fram í almennum skilmálum skipulagsins að heimilt sé að byggja geymsluskúr eða garðhýsi á lóð utan byggingarreits og sé staðsetning háð samþykki byggingarnefndar. Er sérstaklega tekið fram að með því megi ekki taka útsýni frá nágrönnum og telur kærandi eðlilegt að svo sé einnig um bílgeymslur. Er hér um sérstaka skilmála að ræða sem gilda einungis þegar byggt er utan byggingarreits. Verður þeim eðli máls samkvæmt ekki beitt þegar byggt er innan byggingarreits, enda ólíku saman að jafna. Loks verður ekki annað séð en að nægilega hafi legið fyrir hver áhrif yrðu af staðsetningu fyrirhugaðrar bílgeymslu enda afstaða byggingarreits hennar gagnvart eign kæranda ljós af deiliskipulagsuppdrætti. Var þannig gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði hins vegar í ljós leitt að umdeild skipulagsákvörðun hafi valdið kæranda fjártjóni kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga. Úrlausn um það álitaefni er hins vegar ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Af gögnum málsins verður ráðið að tekið var jákvætt tillit til athugasemda kæranda að hluta en öðrum var hafnað. Hvað varðar Bókhlöðustíg 19 verður að líta til þess að sú fasteign er safnhús. Þar fer fram sérhæfð starfsemi og er nýting þess því ólík öðru húsnæði innan deiliskipulagssvæðisins. Er stærð, staðsetning og áhrif stækkunar þeirrar eignar, með hliðsjón af þeirri starfsemi sem þar fer fram, ekki sambærileg við það tilvik sem hér er til meðferðar. Var því ekki brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar þrátt fyrir ólíka afgreiðslu athugasemdanna.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar og verður kröfum kæranda í máli þessu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag á Þinghúshöfða í Stykkishólmi.  

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson