Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

56/2011 Fákaborg

Árið 2015, fimmtudaginn 15. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hesthúsasvæðið Fákaborg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. júlí 2011, er barst nefndinni 20. s.m., kæra E, Hjallatanga 6, G, Hjallatanga 11 og G, Nestúni 2, Stykkishólmi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 að samþykkja deiliskipulag fyrir hesthúsasvæðið Fáka¬borg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, en til vara að skipulagið verði ógilt að því er varði staðsetningu reiðskemmu á skipulagssvæðinu.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til endanlegs úrskurðar á grund-velli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Stykkishólmsbæ 12. ágúst 2011.

Málavextir: Fyrirspurn um byggingu reiðskemmu í landi Hesteigendafélags Stykkishólms var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 8. desember 2009. Tók nefndin jákvætt í erindið og var kynningarbréf sent tilgreindum eigendum í nágrenni svæðisins 17. febrúar 2010. Jafnframt var stofnaður vinnuhópur um deiliskipulag á svæði hesteigendafélagsins sem í áttu sæti fulltrúi félagsins, byggingarfulltrúi og fulltrúi skipulags- og byggingarnefndar. Fóru þrír formlegir vinnufundir fram á tímabilinu 28. september 2010 til 14. desember s.á. Tillaga að deiliskipulagi á hesthúsasvæðinu Fákaborg var auglýst hinn 27. janúar 2011 í Lögbirtingarblaði, í Fréttablaðinu og í Stykkishólms-Póstinum og frestur til athugasemda gefinn til og með 11. mars s.á. Bárust athugasemdir frá níu aðilum á kynningartíma þ. á m. frá kærendum.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 9. maí 2011 var deiliskipulags¬tillagan lögð fram ásamt samantekt á fram komnum athugasemdum og umsögn skipulags- og byggingarfulltrúa, dagsett sama dag. Samþykkti meirihluti nefndarinnar tillöguna. Á fundi bæjarráðs 12. s.m. var fundargerð nefndarinnar lögð fram en bæjarráð samþykkti að fresta ákvörðun um staðfestingu deiliskipulagsins og fór fram á að gerður yrði samanburður á staðsetningu fyrirhugaðrar reiðskemmu samkvæmt deiliskipulagstillögunni annars vegar og tillögu eins bæjarráðsfulltrúa hins vegar. Á fundi bæjarstjórnar 19. s.m. var afgreiðsla bæjarráðs felld og deiliskipulagstillagan samþykkt með meirihluta atkvæða bæjarstjórnar. Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 30. maí 2011.

Deiliskipulagið tekur til svæðis sem er um 5 ha að stærð og afmarkast af Hjallatanga, Móholti, Búðanesvegi, Stykkishólmsvegi og Fúlutjörn. Fyrir eru á svæðinu átta hesthús auk skeið¬vallar. Hið umþrætta deiliskipulag gerir ráð fyrir fimm nýjum lóðum, einni fyrir reiðskemmu en hinum fyrir ný hesthús.

Málsrök kæranda: Kærendur vísa til þess að með tilkomu reiðskemmunnar, sem hin kærða ákvörðun heimili, verði hagsmunum þeirra raskað. Reiðskemman muni hafa sjónræn áhrif og skerða útsýni til suð-austurs verði bygging hennar heimiluð, líkt og ráðgert sé í deiliskipulaginu. Megi gera ráð fyrir talsverðri skerðingu á útsýni frá Hjallatanga 11 og óbyggðum lóðum nr. 9, 13, 15, 17 og 19 í sömu götu, sem og frá húsum við Móholt 6, 10, 12 og óbyggðri lóð nr. 14 í sömu götu.

Hið deiliskipulagða svæði sé aukinheldur innan við 20 m frá lóðum við Hjallatanga. Vegna þeirrar nálægðar sé augljóst að hesthúsasvæðið muni að lokum víkja fyrir íbúðarbyggð í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá skírskota kærendur einnig til 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Í 4. mgr. þess ákvæðis, sem fjalli um íbúðarhúsnæði, sé m.a. tekið fram að óheimilt sé að hafa loðdýrabú, alifuglabú og svínabú nær mannabústöðum, matvæla-fyrirtækjum eða vinnustöðum annarra en sjálfs búsins en sem nemi 500 m. Á sama hátt skuli vera hæfileg fjarlægð milli mannabústaða og matvælafyrirtækja annars vegar og hins vegar þeirrar starfsemi sem valdið geti samsvarandi óþægindum eins og sú sem talin sé upp í 1. ml., s.s. annað búfjárhald og mengandi atvinnustarfsemi. Þá starfsemi sem fari fram innan hesthúsa megi fella undir „annað búfjárhald“. Innan 500 m frá svæðinu sé m.a. að finna íbúðarhúsnæði, matvælavinnsluhúsnæði og leikskóla. Þá sé ráðgert að við sum hesthúsanna verði taðgeymslur. Slíkar geymslur yrðu staðsettar mjög nálægt mörkum íbúðarhúsalóða og í næsta nágrenni við byggt íbúðarhverfi og fylgi óþefur slíku fyrirkomulagi.

Af hálfu sveitarfélagsins hafi ekki verið haft samband við kærendur vegna meðferðar málsins fyrr en með bréfi, dags. 24. maí 2011, þar sem tilkynnt hafi verið um samþykkt deiliskipulagsins. Jafnframt hafi enginn svarað innsendum athugasemdum kærenda með efnislegum hætti eða rökstuðningi. Einungis samantekt skipulags- og byggingarfulltrúa hafi borist frá sveitar¬félaginu, en í þá samantekt hafi athugasemdir íbúa vantað. Þær athugasemdir hafi skipulags- og byggingar¬fulltrúi jafnframt borið undir formann hesteigendafélags Stykkishólms til umsagnar. Megi því vera ljóst að kynningu og samráði við hagsmunaaðila hafi verið ábótavant, sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þá hafi þáverandi forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs, sem einnig hafi verið í forsvari fyrir hesteigendafélag Stykkishólms, verið einn þeirra sem skrifaði undir bréf félagsins um beiðni um leyfi fyrir reiðskemmunni. Hann hafi stjórnað meirihlutanum í bæjarstjórn og ekki vikið frá sem skyldi vegna vanhæfis.

Þrátt fyrir að umrætt svæðið sé skilgreint í Aðalskipulagi Stykkishólmsbæjar 2002-2022 sem hesthúsasvæði sé ekki þar með sagt að sú skilgreining sé ófrávíkjanleg. Viðbárur sveitarfélagsins varðandi þann kostnað að kaupa hesthúsin og flytja hesthúsasvæðið annað þurfi að skoða í ljósi þess að ástand núverandi hesthúsa á svæðinu teljist tæplega viðunandi eða jafnvel algjörlega óviðunandi. Einungis tvö hesthús séu í góðu ástandi. Ástand húsanna sé slíkt að af þeim stafi brunahætta.

Að öllu virtu hafi ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 ekki verið fullnægt. Umþrætt deiliskipulag fari m.a. gegn markmiðum sem lýst sé í 1. og 12. gr. laganna.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Sveitarfélagið sendi úrskurðarnefndinni gögn málsins en lét málið að öðru leyti ekki til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hesthúsasvæðið Fákaborg.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fer sveitarfélagið með skipulagsvald og ber því ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Í því felst tæki sveitarstjórnar til þess að hafa bein áhrif á þróun byggðar og umhverfis með bindandi hætti. Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar tók hina kærðu ákvörðun á fundi sínum 19. maí 2011 og samkvæmt fundargerð þess fundar skar bæjarstjórn úr um hæfi tiltekinna nefndar- og ráðsmanna skipulags- og byggingarnefndar og bæjarráðs við fyrri afgreiðslu málsins auk hæfis tiltekins bæjarstjórnarmanns er sat fundinn. Var sá talinn hæfur en vék engu að síður af fundi og tók varamaður hans sæti við umfjöllun og afgreiðslu hins umdeilda deiliskipulags. Þá verður af fyrirliggjandi gögnum ráðið að bæjarráðsmaður sá er kom að undirbúningi málsins fyrir hönd hesteigendafélagsins vék iðulega af fundum við meðferð þess á fyrri stigum. Verður því ekki séð að um hafi verið að ræða vanhæfi við töku ákvörðunar samkvæmt vanhæfisreglum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 hafi verið að ræða.

Samkvæmt 40. gr. skipulagslaga, sbr. einnig d-lið 1. gr. laganna, skal sveitarstjórn við gerð deiliskipulags kynna tillögur þar um og leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra hagsmunaaðila. Skal sveitarstjórn þannig tryggja eftir föngum að samráð sé haft við almenning við skipulagsgerðina. Hin umþrætta deiliskipulagstillaga var auglýst til kynningar og gafst almenningi kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Athugasemdum kærenda og annarra voru gerð skil í samantekt skipulags- og byggingarfulltrúa og lá sú samantekt fyrir við málsmeðferð sveitarfélagsins. Í framangreindri samantekt var afstaða tekin til athugasemda með almennri umsögn auk þess sem lagðar voru fram breytingar á tillögunni. Þá má sjá af gögnum málsins að þeim aðilum sem gerðu athugasemdir við tillöguna var sérstaklega tilkynnt um niðurstöðu sveitarfélagsins og þeim jafnhliða send nefnd samantekt. Tillagan var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda. Með vísan til alls framangreinds var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að formi til í samræmi við lög.

Samkvæmt Aðalskipulagi Stykkishólms 2002-2022 er umrætt landssvæði skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota, en afmarkaður hluti þess, sem merktur er með bókstafnum H, er skilgreindur nánar sem hesthúsabyggð. Í greinagerð með aðalskipulaginu kemur m.a. fram að stefnt sé að því að skapa sem hagstæðust skilyrði fyrir hestamenn og að hesthúsin verði áfram upp af Fúluvík. Nær hið deiliskipulagða svæði aðeins út fyrir hið merkta hesthúsasvæði og inn á það svæði sem skilgreint er sem opið svæði til sérstakra nota. Í gr. 4.12.1 þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 voru opin svæði til sérstakra nota skilgreind sem svæði með útivistargildi þar sem gert væri ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar væri stunduð, s.s. hesthúsum og reiðvöllum. Eðlislíkt ákvæði er nú að finna í g-lið gr. 4.3.1. í gildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem gert er ráð fyrir að þar sem aðalskipulag ákveði landnotkun sem opin svæði, útivist og íþróttir sé stefna mörkuð um útivistarsvæði og aðstöðu til íþróttaiðkana og að gerð sé grein fyrir helstu atriðum sem varði aðstöðu og mannvirkjagerð í tengslum við notkun svæðanna og öðrum skipulagsforsendum sem þörf sé á fyrir gerð deiliskipulags. Er hið deiliskipulagða svæði því í samræmi við landnotkun gildandi aðalskipulags, svo sem kveðið er á um í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Þá mátti kærendum vera ljóst með hliðsjón af gildandi aðalskipulagi hvernig afstöðu hesthúsabyggðarinnar og íbúðarbyggðar væri háttað.

Kærendur telja fyrirhugaða hesthúsabyggð fara í bága við ákvæði 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002. Í 1. ml. nefnds ákvæðis segir að óheimilt sé að hafa loðdýrabú, alifuglabú og svínabú nær mannabústöðum en sem nemi 500 m. Þá er í 2. ml. kveðið á um að hæfileg fjarlægð skuli vera milli mannabústaða og starfsemi sem valdið geti samsvarandi óþægindum eins og sú sem talin er upp í 1. ml. greinarinnar, s.s. annað búfjárhald og mengandi atvinnustarfsemi. Tilvitnuð reglugerð á hún sér stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Markmið þeirra laga er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. laganna. Taka þau til hvers konar starfsemi og framkvæmda sem hafa áhrif á áðurnefnt, sbr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar er markmið hennar að stuðla að framkvæmd hollustuverndar og eru þar settar fram lágmarkskröfur til nánar tilgreindra þátta. Eins og áður er rakið eru öll tvímæli tekin af um að ákveðin starfsemi skuli ekki heimil í tiltekinni fjarlægð frá íbúðarbyggð, sbr. 1. ml. 4. mgr. 24. gr. reglugerðarinnar. Verður að skýra 2. ml. sömu greinar með hliðsjón af markmiðum reglugerðarinnar og þeirra laga sem veita henni lagastoð. Verður ekki séð að umdeild stækkun þeirrar hesthúsabyggðar sem fyrir er á svæðinu sé þess eðlis að brotið sé gegn markmiðum laganna enda verður hestahald til útivistar ekki lagt að jöfnu við eldi loðdýra, alifugla og svína með tilliti til hollustuhátta og hættu á mengun.

Að öllu framangreindu virtu er hið kærða deiliskipulag ekki haldið neinum þeim annmörkum að ógildingu varði, hvorki í heild né að hluta, og er því ekki fallist á ógildingarkröfur kærenda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 19. maí 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hesthúsasvæðið Fákaborg.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson