Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2009 Austurey II

Árið 2015, föstudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2009, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 um deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Krossholtsmýri í landi Austureyjar 2 í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. nóvember 2009, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur lóðar með landnúmer 167725 í landi Austureyjar í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 að samþykkja deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Krossholtsmýri í landi Austureyjar 2. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 19. október 2006 var lögð fram umsókn landeiganda Austureyjar 2 að deiliskipulagi frístundabyggðar í svonefndri Krossholtsmýri. Kemur þar fram að á 3,51 ha svæði, sem liggur upp að eldra frístundabyggðarsvæði við Apavatn, sé gert ráð fyrir þremur nýjum lóðum, auk þess sem eldri lóð verði stækkuð og verði þær þá samtals um 1,48 ha. Fallist var á að auglýsa tillöguna þegar komið hefði verið til móts við þá athugasemd að lóðir þyrftu að jafnaði að vera 0,5 ha í samræmi við ákvæði Aðalskipulags Laugardalshrepps 2000-2012. Hinn 15. nóvember 2006 var á fundi skipulagsnefndar ákveðið að auglýsa tillöguna óbreytta í ljósi þess að sýnt hefði verið fram á að afmörkun umræddra lóða hefði verið ákveðin fyrir löngu og þeim hefði í raun þegar verið úthlutað, auk þess sem aðliggjandi lóðir væru af svipaðri stærð. Afgreiðslan var staðfest í sveitarstjórn 28. nóvember 2006. Tillagan var auglýst 14. desember s.á. og var frestur til að gera athugasemdir til 25. janúar 2007. Athugasemdir bárust frá kærendum, sem eru, ásamt umsækjanda og öðrum sameigendum, eigendur lands sem liggur að svæði því sem deiliskipulagstillagan tók til. Um það sameignarland liggur svonefndur Krossholtsvegur að sumarbústaðalandi kærenda og var því m.a. mótmælt að vegurinn yrði nýttur í þágu eigenda hinna nýju sumarhúsalóða. Í bréfi frá eiganda Austureyjar 2, dags. 7. febrúar 2007, kom fram að Krossholtsvegur væri einkavegur er lægi um land lögbýlisins Austureyjar IV, sem væri eyðijörð í eigu níu systkina í jöfnum hlutföllum. Um 2/3 af heildarlengd vegarins myndi nýtast sem vegtenging til þeirra fjögurra frístundalóða sem yrðu deiliskipulagðar. Sú vegtenging væri eðlileg og til þess fallin að koma í veg fyrir umferð um vatnsbakka Apavatns og óþarfa landröskun. Fráleitt væri að leggja annan veg í landi Austureyjar 2, samsíða Krossholtsveginum, og auka þannig sjón- og rykmengun af vegum. Með því yrði einnig gengið gegn markmiðum skipulagslaga um skynsamlega og hagkvæma nýtingu lands. Óuppbyggður vegslóði lægi meðfram Apavatni að syðstu lóðinni og myndi umferð sem um hann færi falla niður með tilkomu þeirrar vegtengingar sem fram kæmi í deiliskipulagstillögunni. Með því að banna eiganda að hagnýta veginn væri verið að tálma honum eðlilegri hagnýtingu sameignar.

Hin auglýsta tillaga var samþykkt óbreytt á fundi skipulagsnefndar 23. ágúst 2007 og staðfesti sveitarstjórn Bláskógabyggðar afgreiðsluna 4. september s.á. Með bréfum, dags. 2. október 2007, var athugasemdum kærenda frá því í janúar s.á. svarað. Skipulagsstofnun gerði athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda með bréfi, dags. 15. október 2007, þar sem sveitarstjórn hefði ekki rökstutt svör við athugasemdum nægilega vel varðandi aðkomuveg að svæðinu.

Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 30. janúar 2008 var málið tekið fyrir og fyrri niðurstaða þess áréttuð. Var á það bent að eigandi fyrirhugaðra lóða væri einnig einn eigenda þess lands sem núverandi vegur lægi um og hefði þannig jafnan rétt á við aðra sameigendur til að nýta veginn. Staðfesti sveitarstjórn Bláskógabyggðar afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 5. febrúar 2008. Kærendur gerðu á ný athugasemdir við deiliskipulagstillöguna með bréfi, dags. 18. s.m. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 28. febrúar 2008, gerði hún enn athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Í bréfi stofnunarinnar kom fram að landið sem umræddur vegur lægi um væri í óskiptri sameign. Af því leiddi að hverjum eiganda væri heimilt að hagnýta veginn og nota að virtum sama rétti annarra eigenda, að teknu sanngjörnu tilliti til þeirra. Eigendum væri óheimilt að nýta óskipta sameign til annars en hún væri ætluð og einstökum eigendum yrði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar umfram aðra eigendur nema allir eigendur léðu því samþykki sitt með formlegum hætti. Það væri mat Skipulagsstofnunar að með hagnýtingu vegarins sem aðkomu að frístundabyggð, sem kynni að leiða til aukinnar umferðar og þar af leiðandi aukinna óþæginda fyrir aðra eigendur, yrði til aukinn réttur til hagnýtingar sem til þyrfti samþykki annarra eigenda.

Á fundi skipulagsnefndar 27. mars 2008 kom fram að samþykki fimm af níu eigendum viðkomandi lands væri fyrir notkun vegtengingarinnar. Að mati nefndarinnar hefðu forsendur afgreiðslu hennar ekki breyst og myndi samþykki deiliskipulagsins gilda. Málið var til umfjöllunar á fundum sveitarstjórnar og byggðaráðs á tímabilinu 8. apríl 2008 til 11. nóvember s.á. er afgreiðslan var samþykkt á fundi sveitarstjórnar. Í kjölfarið var þess farið á leit við Skipulagsstofnun að hún myndi endurskoða afstöðu sína þar sem fyrir lægi samþykki meirihluta eigenda. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 30. júní 2009, var ekki gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda en mælt með því að ágreiningur milli landeigenda um veginn yrði til lykta leiddur áður en sú auglýsing yrði birt. Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. nóvember 2009. Með bréfi, dags. 17. s.m., var þeim sem gert höfðu athugasemdir við tillöguna tilkynnt að deiliskipulagið hefði tekið gildi auk þess sem bent var á kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að deiliskipulagið feli í sér vegtengingu af því svæði sem skipulagið nái yfir í vestur, yfir skurð og inn á einkaveg, er liggi um svæði með landnúmer 167725, en kærendur séu eigendur þess ásamt öðrum. Einkavegurinn liggi að svonefndu Krossholti þar sem kærendur eigi sumarhús. Kæran snúi að þeirri vegtengingu sem fyrirhuguð sé samkvæmt deiliskipulaginu en hún sé utan þess svæðis sem deiliskipulagið nái til. Önnur vegtenging sé til staðar inn á svæðið sem hið nýja deiliskipulag nái til og væri eðlilegast að tenging að hinum nýju lóðum færi um þá vegtengingu. Sú vegtenging liggi alfarið um land í eigu eiganda hins deiliskipulagða svæðis. Landsvæðið sem einkavegurinn liggi um hafi verið samþykkt sem nýbýli fyrir skógrækt og garðyrkju. Um málefni nýbýlisins fari að jarðalögum nr. 81/2004. Í 9. gr. þeirra laga sé fjallað um fyrirsvar jarða í sameign o.fl. en samkvæmt henni skuli tilnefna fyrirsvarsmann sem hafi umboð til að koma fram fyrir hönd annarra eigenda jarðarinnar við úrlausn mála sem lúti að réttindum og skyldum eigenda. Þar sem eigendahópurinn hafi ekki tilnefnt slíkan fyrirsvarsmann sé því haldið fram að málefni jarðarinnar hljóti að ráðast í samræmi við 2. tl. 1. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög. Í ákvæðinu komi fram að lögin gildi einnig um óskráð sameignarfélög þar sem meiri hluti félagsmanna búi hér á landi, enda sé meginhluti starfsemi félagsins ekki rekinn í öðru landi. Í 19. gr. laganna um sameignarfélög sé fjallað um stjórnunarheimildir félagsmanna en þar segi í 1. mgr. að sé stjórn ekki kosin og framkvæmdastjóri ekki ráðinn geti hver og einn félagsmaður gert ráðstafanir sem séu eðlilegur þáttur í rekstri félagsins og enginn félagsmaður hafi lýst sig mótfallinn. Þrír félagsmanna hafi sent skrifleg mótmæli til skipulagsnefndar vegna umræddrar vegtengingar og sé því ljóst að einn félagsmaður, þ.e. eigandi bújarðarinnar Austureyjar 2, geti ekki gert slíkar ráðstafanir varðandi rekstur þessa sameignarfélags samkvæmt lögum.

Kærendur hafi gert fleiri athugasemdir við meðferð málsins hjá skipulagsnefndinni og sveitarstjórn Bláskógabyggðar en samskipti við þessi stjórnvöld hafi verið erfið og svör þeirra við athugasemdum hafi borist seint og verið efnisrýr. Athugasemdum kærenda hafi verið svarað rúmum níu mánuðum eftir að þær hafi verið sendar, sem geti tæplega talist góðir stjórnsýsluhættir og sé raunar andstætt ákvæðum 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi í bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 18. febrúar 2009, verið vísað til þess að leitað hefði verið lögfræðiráðgjafar þar sem m.a. hafi komið fram að ekki þyrfti samþykki allra sameigenda landsins með tilvísun í fjöleignarhúsalög nr. 26/1994. Þessu sé mótmælt þar sem umrædd lög hafi ekki gildi í málinu enda séu engar sameiginlegar byggingar eða fjöleignarhús á landinu.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarstjórnar Bláskógabyggðar er vísað til þess að málið hafi verið tekið fyrir alloft í skipulagsnefnd, skipulags- og byggingarnefnd og sveitarstjórn Bláskógabyggðar, enda hafi meðferð þess tekið þrjú ár. Fljótlega hafi komið í ljós ágreiningur milli landeigenda og þá aðallega um aðkomu að hinu deiliskipulagða svæði. Vegna þessa hafi verið skoðaðar þrjár mögulegar aðkomur, þ.e. sú sem gert hafi verið ráð fyrir í auglýstri tillögu, nýr vegur samhliða núverandi vegi og að vegslóðin meðfram Apavatni yrði byggð upp. Hafi það verið álit skipulagsyfirvalda að sú tenging sem auglýst tillaga gerði ráð fyrir væri hentugust út frá skipulagslegum forsendum og myndi valda minnstu raski. Talið hafi verið óskynsamlegt að leggja nýjan veg samhliða þeim vegi sem þegar væri til staðar. Auk þess væri ólíklegt að Vegagerðin leyfði nýja tengingu við hlið þeirrar sem fyrir væri. Þá hafi einnig verið talið óheppilegt að byggja upp nýjan veg rétt við vatnsbakka Apavatns, sérstaklega í ljósi þess að fyrirhugaðar frístundahúsalóðir liggi upp að áður gerðum vegi sem liggi um land sem sé að hluta til í eigu þess aðila sem sé eigandi landsins sem deiliskipulagið nái yfir. Ekki verði talið að nýting vegarins hafi neikvæð áhrif á byggðina við bakka Apavatns enda muni umferð frá nýjum lóðum ekki fara um það svæði.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er giltu á þeim tíma er hér um ræðir, er landeiganda eða framkvæmdaraðila heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deilskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Í máli þessu er deilt um samþykki sveitarstjórnar á umsókn landeiganda um gerð deiliskipulags, er tekur til séreignarlands hans og felur í sér stofnun þriggja sumarhúsalóða og stækkun þeirrar fjórðu sem fyrir er. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir vegtengingu þessara lóða við svonefndan Krossholtsveg, sem liggur við mörk hins deiliskipulagða svæðis í landi sem er í sameign nefnds landeiganda og átta annarra að jöfnu. Er ágreiningur með aðilum um þá vegtengingu og byggja kærendur á því að fyrirhuguð vegtenging, og sú notkun á Krossholtsvegi sem henni fylgi, sé háð þeirra samþykki sem sameigenda.

Svæði það sem hin kærða deiliskipulagsákvörðun tekur til nær ekki inn á umrætt sameignarland þar sem Krossholtsvegur liggur. Hvort af ráðgerðri vegtengingu verður ræðst af rétti einstakra sameigenda til nýtingar vegarins. Ágreiningur um slík afnot af landi í sameign ræðst af óskráðum reglum eignaréttarins um réttarstöðu sameigenda við töku ákvarðana um afnot og ráðstöfun sameignar. Réttarágreiningur á því sviði heyrir ekki undir úrskurðarnefndina enda geta skipulagsákvarðanir ekki falið í sér ráðstöfum eignaréttinda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki liggja fyrir annmarkar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem geta haft áhrif á gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda í máli þessu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 11. nóvember 2008 um að samþykkja deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Krossholtsmýri í landi Austureyjar 2 í Bláskógabyggð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson