Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

117/2014 Hamraborg

Árið 2015, föstudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 15. júlí 2014, sem breytt var 27. nóvember s.á., um að veita leyfi fyrir breytingu á innra skipulagi og að innrétta gistiheimili að Hamraborg 11.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2014, sem barst nefndinni 19. s.m., kærir Lárentsínus Kristjánsson, f.h. Þvottabjarnarins ehf. og Catalinu ehf., sem eru annars vegar eigendur þriggja eignarhluta í fasteigninni Hamraborg 11 og hins vegar rekstraraðilar í sama húsnæði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 15. júlí 2014, sem breytt var 27. nóvember s.á., að veita leyfi fyrir breytingu á innra skipulagi og að innrétta gistiheimili að Hamraborg 11. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 19. desember 2014 og 19. janúar 2015.

Málavextir: Í húsi á lóð nr. 11 við Hamraborg í Kópavogi hafa verið starfræktar verslanir og önnur þjónusta, þ. á. m. vínveitingastaður annars kærenda á fyrstu hæð hússins. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Kópavogs 15. júlí 2014 var samþykkt umsókn um leyfi til að gera breytingar á innra skipulagi og gera gistirými á 2. og 3. hæð. Hinn 4. nóvember s.á. sendu kærendur bréf til byggingarfulltrúans þar sem þess var krafist að framkvæmdir sem stæðu yfir í húsinu yrðu stöðvaðar. Þá var þess krafist að byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum yrði afturkallað þar sem samþykki sameigenda lægi ekki fyrir og leyfið því ólögmætt. Í svarbréfi sínu, dags. 17. s.m., tók Kópavogsbær fram að byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út og hafnaði afturköllun á samþykkt byggingarfulltrúa á byggingaráformum. Eftir ítrekun frá kærendum voru framkvæmdir stöðvaðar með bréfi byggingarfulltrúa þar um, dags. 18. s.m. Í bréfinu var bent á að byggingarleyfi lægi ekki fyrir og að við skoðun hefði komið í ljós að framkvæmdir væru ekki í samræmi við samþykktar teikningar.

Hinn 27. s.m. var umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi gistiheimilis að Hamraborg 11 tekin fyrir á ný og samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa. Var byggingarleyfi síðan gefið út 11. desember 2014, með skírskotun til samþykktar byggingaráforma 15. júlí s.á. og breytinga á þeim 27. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Kærendur skírskota til þess að umrædd breyting, þ.e. að breyta efri hæð hússins í gistiheimili, geti skapað vandræði í húsinu og fyrir rekstur vínveitingastaðarins enda fylgi honum mun meiri umferð utan húss sem innan, þ.m.t. í sameign. Greind breyting sé þess eðlis að hún kalli á samþykki annarra eigenda skv. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og því hafi skilyrði 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 ekki verið uppfyllt. Hefði af þeirri ástæðu átt að vísa umsókn um byggingarleyfi frá. Fengist samþykki fyrir slíkri breytingu myndi umrædd byggingarleyfisumsókn kalla á deiliskipulagsferli eða að minnsta kosti grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Kærendur leggi áherslu á að ákvæði 27. gr. fjöleignarhúsalaga sé óháð því hvernig svæði séu skipulögð þótt í ákveðnum tilvikum sé tekið mið af skipulagi. Ekki liggi fyrir deiliskipulag af umræddu svæði en í aðalskipulagi séu mjög almenn ákvæði er um það gildi. Hafi ekki verið rekinn gististaður í húsinu og svo hafi ekki verið þegar kærendur hafi keypt sína eignarhluta. Sé því augljóst að verið sé að breyta hagnýtingu á séreign í húsinu frá því sem verið hafi. Slíkt þurfi sameigendur að samþykkja.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að byggingarfulltrúi hafi metið það svo að ekki væri þörf á samþykki meðeigenda, sbr. lög um fjöleignarhús nr. 26/1994. Ekki hafi verið gert deiliskipulag fyrir svæðið og Hamraborg 11 sé á svokölluðu miðsvæði samkvæmt aðalskipulagi Kópavogs. Skilgreining slíkra svæða skv. b-lið 2. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóni heilu landssvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi, sem talin sé samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis. Sé því samkvæmt aðalskipulagi beinlínis gert ráð fyrir gistihúsum á þessu svæði. Húsið við Hamraborg 11 sé skráð sem atvinnuhúsnæði og verði ekki breyting á því þrátt fyrir framangreint samþykki byggingaráforma. Sé því ekki um grundvallarbreytingu á notkun hússins að ræða, enda verði það áfram notað til atvinnustarfsemi. Sé um að ræða hljóðláta starfsemi sem trufli lítt aðra og verði því að líta svo á að breytingin hafi ekki í för með sér meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar m.a. breytta notkun rýmis á 2. og 3. hæð í fjöleignarhúsi að Hamraborg 11.

Fasteignin Hamraborg 11 er staðsett á ódeiliskipulögðu svæði. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 19. gr. laga nr. 59/2014, er skipulagsnefnd heimilað að ákveða að veita megi byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir fyrir, enda fari áður fram grenndarkynning. Kemur og skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er þannig með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram áður en leyfi er gefið til framkvæmda á ódeiliskipulögðu svæði og það þrátt fyrir að framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum hefur grenndarkynning ekki farið fram. Þá voru ekki skilyrði fyrir því að falla frá grenndarkynningu á grundvelli undantekningaákvæðis 3. mgr. 44. gr. laganna, enda ekki girt fyrir að umþrætt framkvæmd muni hafa áhrif á aðra en sveitarfélagið og umsækjanda hins kærða leyfis.

Að öllu framagreindu virtu, og með hliðsjón af skýru orðalagi greinds ákvæðis skipulagslaga, verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 15. júlí 2014, sem breytt var 27. nóvember s.á., um að veita leyfi fyrir breytingu á innra skipulagi og að innrétta gistiheimili að Hamraborg 11.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson