Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2015 Stafafellsfjöll

Árið 2015, miðvikudaginn 21. janúar, tók Nanna Magnadóttur, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 2/2015 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp, til bráðabirgða, svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Eiríkur S. Svavarsson hrl., f.h. tilgreindra umbjóðenda sinna sem eru eigendur sumarhúsa í Stafafellsfjöllum í Lóni, Hornafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar að samþykkja nýtt deiliskipulag í frístundabyggð í Stafafellsfjöllum í Lóni, Hornafirði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er farið fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Hinn 11. september 2013 samþykkti umhverfis- og skipulagsnefnd Hornafjarðar að fela starfsmanni sveitarfélagsins að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Stafafellsfjöll. Á fundi sömu nefndar 16. október s.á., var samþykkt að fjalla um deiliskipulagstillöguna sem nýtt deiliskipulag. Var tillaga að nýju deiliskipulagi kynnt á fundi nefndarinnar 4. desember s.á. og samþykkt að vísa tillögunni til bæjarstjórnar. Var fundur til kynningar deiliskipulagstillöguna auglýstur í fjölmiðlum sama dag og 5. s.m., en þann dag var fundurinn haldinn. Hinn 12. s.m. samþykkti bæjarstjórn Hornafjarðar tillöguna sem og að hún færi í lögformlegt ferli. Bárust athugasemdir við tillöguna sem tekin var afstaða til á fundi bæjarstjórnar hinn 15. maí 2014. Á sama fundi samþykkti bæjarstjórnin nýtt deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Stafafellsfjöllum og var það sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Stofnunin tók deiliskipulagið til nánari skoðunar með vísan til ákvæðis 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og með bréfi, dags. 25. júní s.á., tilkynnti stofnunin sveitarfélaginu að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins þegar brugðist hefði við þeim atriðum sem nánar voru tilgreind í bréfinu og þegar umsögn Minjastofnunar lægi fyrir. Barst umsögn frá Minjastofnun Íslands til sveitarfélagsins með bréfi dags. 23. október s.á. Var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. desember 2014.

Kærendur telja að öllum skilyrðum til að úrskurða um stöðvun framkvæmda sé fullnægt. Bendi allt til þess að landeigendur hafi þegar selt byggingarrétt á einhverjum lóðum samkvæmt hinu umþrætta deiliskipulagi. Með auglýsingu deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda sé hægt að hefja framkvæmdir. Yfirvofandi framkvæmdir verði að einhverju leyti óafturkræfar og munu valda tjóni á fallegu og sérstöku útivistarsvæði. Að auki sé bent á að röskun væntanlegra lóðarhafa á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða sé óveruleg þar sem lóðirnar séu ætlaðar fyrir frístundahús en ekki íbúðarhús. Sú staðreynd að endanlegur úrskurður í málinu muni sennilega ekki liggja fyrir innan hins lögmælta frest skv. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 mæli einnig með því að yfirvofandi framkvæmdir verði stöðvaðar enda sé eðlilegt að tryggja réttmæta hagsmuni og koma í veg fyrir óþörf óendurkræf spjöll á náttúru og eignum.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að samkvæmt upplýsingum frá landeigendum í Stafafellsfjöllum hafi engar nýjar lóðir verið seldar eða þeim úthlutað. Engin gögn eða skýringar fylgi kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða og sé hún ómálefnaleg og ósanngjörn.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekins svæðis. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13. 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:


Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir