Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

112/2013 Klettaskóli

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2013, kæra á þeirri ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. nóvember 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. desember 2013, er barst nefndinni 9. s.m., kæra 25 íbúar við Beykihlíð, Birkihlíð, Víðihlíð og Reynihlíð í Reykjavík þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. nóvember 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júlí 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra 34 íbúar við Beykihlíð, Birkihlíð og Víðihlíð í Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2015 að samþykkja umsókn um takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu vegna viðbyggingar við Klettaskóla á lóðinni nr. 9 við Suðurhlíð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 57/2015, sameinað máli þessu. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 18. febrúar 2014 og 30. júlí 2015.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 24. október 2012 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suðurhlíða vegna lóðarinnar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla. Tillagan var auglýst frá 12. nóvember 2012 og var frestur til að gera athugasemdir upphaflega veittur til 24. desember s.á. Kynningartími og athugasemdafrestur var þó framlengdur fjórum sinnum og rann hann út 19. mars 2013. Kynningarfundir voru haldnir 19. desember 2012 og 25. febrúar 2013. Á tímabilinu frá janúar til júlí 2013 var unnið að endurskoðun tillögunnar og voru þá haldnir þrír fundir með fulltrúum hagsmunaaðila/íbúa. Hinn 24. maí 2013 var enn haldinn kynningarfundur og var þar greint frá breyttri tillögu og samráði.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. júlí 2013 var lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu á deiliskipulagi Suðurhlíða vegna lóðarinnar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla, sbr. deiliskipulagsuppdrátt, dags. 30. apríl 2013. Einnig var lagður fram skýringaruppdráttur, dags. sama dag. Í tillögunni var gert ráð fyrir uppbyggingu á lóðinni, m.a. breytingu á byggingarreit og aukningu byggingarmagns, auk þess sem gert var ráð fyrir boltagerði á lóðinni. Hagsmunaaðilar á svæðinu voru upplýstir um tillöguna bréflega og var hún auglýst frá 2. ágúst til og með 13. september 2013. Athugasemdir bárust á kynningartíma, auk yfirlýsingar yfir 200 íbúa í Suðurhlíðum frá 5. mars 2013. Athugasemdirnar voru kynntar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 23. október s.á. og var þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. s.m. Tillagan var lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 30. s.m. og samþykkt með vísan til áðurnefndrar umsagnar skipulagsfulltrúa. Borgarráð samþykkti tillöguna hinn 7. nóvember s.á. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. janúar 2014.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar 11. mars 2014 var tekin fyrir umsókn Reykjavíkurborgar um að byggja við matshluta 01 og 02, viðbyggingu við Klettaskóla, sundlaug, íþróttahús, hátíðarsal, stjórnunarálmu, félagsmiðstöð og nýtt anddyri og breyta fyrirkomulagi í öllu núverandi húsi á lóð nr. 9 við Suðurhlíð. Var umsóknin samþykkt með vísan til þess að hún samræmdist ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Lá þar með fyrir samþykkt byggingaráforma. Hinn 24. mars 2015 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu vegna viðbyggingar við Klettaskóla á lóðinni nr. 9 við Suðurhlíð, einnig með vísan til laga nr. 160/2010.

Klettaskóli, sem stendur á lóð Suðurhlíðar 9, er sérskóli á grunnskólastigi sem tók til starfa árið 2011. Skólinn leysti af hólmi Öskjuhlíðarskóla, sem áður var starfræktur á sama stað, og Safamýrarskóla og þjónar hann öllu landinu. Um svæðið gildir deiliskipulag Suðurhlíða, sem samþykkt var í borgarráði 10. febrúar 1987.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að breytingaráform á lóðinni nr. 9 við Suðurhlíð, eins og þau liggi fyrir í tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar, gangi þvert á ákvæði gildandi aðalskipulags Reykjavíkur um Suðurhlíðahverfi, en þar sé því lýst sem fullbyggðu og fastmótuðu hverfi sem skipulagt hafi verið sem ein heild og hafi heilsteypt yfirbragð. Gert sé ráð fyrir að leyfilegt byggingarmagn verði aukið úr 4.993 m2 í 7.000 m2 eða um ríflega 40%. Þá sé gert ráð fyrir að hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar hækki úr 0,29 í 0,41, eða um 41,4%. Slík aukning á tiltölulega þröngu svæði sé langt umfram það sem eðlilegt geti talist ef gera þurfi smávægilegar breytingar á deiliskipulagi innan þess ramma sem aðalskipulag og grenndarréttur myndi. Hún samræmist ekki yfirlýsingu aðalskipulagsins um fullbyggt og fastmótað hverfi og sé auk þess í andstöðu við þann léttleika og þau opnu rými sem gildandi deiliskipulag geri ráð fyrir að séu ríkjandi á lóðinni. Samkvæmt tillögunni verði hið aukna byggingarmagn að langmestu leyti á nyrðri hluta lóðarinnar, í suðurátt séð frá Beykihlíð og efri hluta Birkihlíðar.

Deiliskipulagsbreytingin uppfylli ekki kröfur og skilyrði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um framsetningu og skilmála. Samkvæmt tillögunni sé gert ráð fyrir um 80 m löngum vegg nálægt lóðarmörkum gagnvart Beykihlíð 2-8 en af sneiðmyndum að dæma sé veggurinn 5,0-7,5 m hár næst aðliggjandi lóðum. Illmögulegt sé þó að gera sér grein fyrir hæðarsetningu og ekki verði séð að gætt hafi verið ákvæðis 3. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð um hæðartölur, sbr. einnig 4. mgr. gr. 5.3.2.2. að því er hæðarsetningu lóðarinnar varði. Eftir sé að gera ráð fyrir loftræsibúnaði ofan á þak þess húss sem veggurinn sé hluti af og samræmist það ekki heldur framangreindu ákvæði skipulagsreglugerðar, en samkvæmt því beri að tilgreina hámarkshæð á þaki og öðrum byggingarhlutum sem nái upp fyrir vegg, svo sem skorsteinum og tæknirýmum. Verði veggurinn reistur muni hann takmarka verulega rýmistilfinningu og útsýni kærenda. Útsýnisskerðing og skuggavarp verði meira en byggingar samkvæmt núgildandi deiliskipulagi myndu valda auk þess sem hljóð- og ljósmengun, sem fylgi sundlaugum, hafi ekki verið könnuð á viðhlítandi hátt við gerð deiliskipulagstillögunnar, sbr. 4. mgr. gr. 5.3.2. og gr. 5.3.2.6. í skipulagsreglugerð.

Í deiliskipulagstillögunni sé á engan hátt gerð grein fyrir því hvernig stefnt sé að framkvæmd skipulagsins, sbr. gr. 5.3.2.20. í skipulagsreglugerð, þrátt fyrir að ráðgert sé að verja 1,7 milljörðum króna í framkvæmdirnar og að þær muni standa yfir árum saman. Þá virðist sem íþróttahúsið og sundlaugin verði ekki eingöngu til afnota fyrir nemendur Klettaskóla heldur standi jafnvel til að leigja húsnæðið út utan hefðbundins skólatíma. Ekkert mat hafi hins vegar farið fram á umferðarálagi og bílastæðaþörf verði íþróttahúsið og sundlaugin nýtt af öðrum en nemendum, svo sem ef haldin verða þar fjölmenn íþróttamót. Ólíklegt sé að fyrirhugaður fjöldi bílastæða dugi við mannmargar samkomur. Þá liggi ekkert fyrir um það hvaða forsendur búi að baki áliti umferðarsérfræðings borgarinnar að því er varði áhrif á umferð og bílastæðaþörf, en álitið hafi ekki verið kynnt. Fara þurfi fram viðhlítandi könnun á áhrifum nýbygginganna og starfsemi í þeim á umferð og bílastæðaþörf, þar á meðal á kvöldin og um helgar.

Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 24. október 2013 hafi verið vísað til þess að þeir húshlutar skólans sem eftir hafi verið að byggja samkvæmt gildandi deiliskipulagi, þ.e. íþróttahús og sundlaug, hafi breyst með tilliti til þarfa samtímans um slíkar byggingar. Ekki sé nánar útskýrt hvað í þessum orðum felist. Útsýnismyndir sem fylgt hafi deiliskipulagstillögunni hafi verið ónákvæmar og umsögn skipulagsfulltrúa hafi ekki fylgt skuggavarpsmynd miðað við gildandi deiliskipulag, en kærendur séu ósammála því að birtuskerðing verði lítil sem engin samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni. Það sé ekki aðeins lengd skugga sem máli skipti heldur einnig birtu- og rýmistilfinning nágranna, en ljóst sé að svo há og löng bygging skapi á öllum árstímum stórt, samfellt, dökkt svæði á norðurhlið, sem snúi að húsunum við Beykihlíð og efri hluta Birkihlíðar.

Heimildir sveitarstjórna til breytinga á gildandi deiliskipulagi samkvæmt 43. gr. skipulagslaga takmarkist meðal annars af réttindum nágranna og réttmætum væntingum þeirra um að yfirbragði og byggðamynstri rótgróins hverfis verði ekki raskað verulega og þrengt að nágrönnum á þann hátt sem tillagan feli í sér. Þær breytingar sem gerðar hafi verið á deiliskipulagstillögunni frá því að hún var fyrst lögð fram hafi ekki dugað til þess að milda áhrifin af hæð húsanna. Þá sé því hafnað að hin kærða tillaga til breytingar á deiliskipulagi hafi verið unnin í samráði við íbúa hverfisins. Tillagan feli í sér víðtækar breytingar á yfirbragði Suðurhlíðahverfis og byggðamynstri sem séu langt umfram það sem íbúar á svæðinu hafi mátt búast við.

Í kæru vegna útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis til framkvæmda á lóð Suðurhlíðar 9 kemur fram að samþykkt hafi verið að veita leyfið hinn 24. mars 2015, en íbúum hafi þó ekki orðið kunnugt um leyfið strax. Raunar hafi starfsmenn Reykjavíkurborgar fullyrt, í lok mars og byrjun apríl 2015, að byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út. Sprengivinna hafi hafist 21. júlí 2015 á grundvelli leyfisins án nokkurs fyrirvara eða aðvörunar til íbúa í nágrenninu og hafi íbúar kallað lögreglu til af þeim sökum.

Undanþáguheimild 2. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga þar sem fjallað sé um heimild til að veita takmarkað byggingarleyfi beri að beita af varúð og, eins og segi í lagaákvæðinu, þegar sérstaklega standi á, en þær aðstæður séu ekki fyrir hendi í þessu máli. Grundvallarágreiningur sé um gildi deiliskipulagsbreytingarinnar sem borgarráð hafi samþykkt 7. nóvember 2013 og sá ágreiningur standi í vegi fyrir því að gefið sé út takmarkað byggingarleyfi sem feli í sér verulega umfangsmiklar, óafturkræfar jarðvegsframkvæmdir, þar á meðal mikla sprengivinnu í bergi. Hið kærða byggingarleyfi hafi því verið veitt á röngum forsendum og án viðhlítandi lagaheimildar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg vísar til þess að á lóð Suðurhlíðar 9 hafi verið rekinn skóli frá árinu 1974, en áætlað hafi verið að byggja hann í þremur áföngum. Annar áfangi skólans hafi verið byggður árið 1985 og áform um þriðja áfangann, sem hafi meðal annars samanstaðið af hátíðarsal, íþróttasal og sundlaug, komi fram á byggingarnefndarteikningum frá árinu 1983. Hinn 9. febrúar 2012 hafi borgarráð ákveðið að ráðast í byggingu þriðja og síðasta áfangans. Breyta hafi þurft deiliskipulagi til þess að koma mætti fyrir nauðsynlegum byggingum, með hliðsjón af breyttum áherslum og kröfum til skólabygginga frá því sem miðað hafi verið við árið 1983. Markmiðið hafi verið að uppfylla þarfir Klettaskóla um nauðsynlegt húsnæði sem hæfði nemendum hans og að tryggja að byggingin félli vel að lóðinni og hefði sem mildasta ásýnd. Skólinn sé ætlaður börnum með sérþarfir og hannaður með það í huga, sbr. m.a. 20. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og reglugerð nr. 657/2009 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða.

Í kjölfar athugasemda, sem gerðar hafi verið við deiliskipulagstillöguna sem borgarráð samþykkti að auglýsa 25. október 2012, hafi verið gerðar breytingar á henni. Meðal annars hafi byggingarreitir verið færðir af eystri hluta lóðarinnar yfir á norðurhluta hennar, en sú staðsetning þjóni þörfum skólans best, leiði til minnstrar röskunar á ásýnd hverfisins og fjölgi opnum rýmum á lóðinni. Þá hafi hönnun húsa verið breytt, fyrirhuguð bílastæði felld brott, aðkomu bíla að skólanum breytt, hús lækkuð og boltagerði fært til. Fyrirhugaðar byggingar á lóðinni séu í samræmi við aðra byggð á svæðinu, meðal annars hæð þeirra. Þá verði hæðarmunur í landslaginu nýttur og einstaka byggingar grafnar inn í landið, sem leiði til mildunar á sjónrænum áhrifum af salarhæð þeirra. Er skírskotað til þess að salarhæð íþróttahúss hafi jafnframt verið lækkuð um 1,0 m og salarhæð sundlaugarhúss um 0,5 m. Ekki séu gerðar breytingar á byggðamynstri með hinni kærðu tillögu og því sé mótmælt að aukið byggingarmagn og hærra nýtingarhlutfall samræmist ekki byggðamynstri hverfisins, sem sé þéttbyggt. Þá sé ekki tekin afstaða til útlits bygginga í deiliskipulagi heldur ráðist það af teikningum sem fylgi byggingarleyfisumsókn. Bent sé á að útsýni í þéttri byggð teljist ekki réttur eigenda fasteigna, en geti talist til lífsgæða.

Því sé með öllu hafnað að deiliskipulagsbreytingin sé í andstöðu við lýsingu á hverfinu í aðalskipulagi. Hvað aukningu á heimiluðu byggingarmagni varði þurfi að hafa í huga að Suðurhlíð 9 sé meðalstór lóð, samtals 17.223 m2. Hámarksnýtingarhlutfall hennar fari úr 0,29 í 0,41 með samþykkt hinnar kærðu tillögu, en það sé í samræmi við almennt nýtingarhlutfall í hverfinu. Auðséð sé að nýtingarhlutfallið sé tiltölulega lágt og að byggingar á lóðinni verði í minnihluta gagnvart opnum svæðum.

Bent sé á að í deiliskipulagi Suðurhlíða frá 1987 hafi verið afmarkaðir byggingarreitir á norðvestanverðri lóðinni og því hafi verið ráðgert að byggja þar áður, þótt byggingarreitum hafi nú verið breytt og gert sé ráð fyrir meiri byggingarmassa. Þá sé vakin athygli á því að við vinnslu hinnar kærðu tillögu hafi byggingarreitir verið færðir til suðurs frá lóðarmörkum og þannig komið til móts við óskir nágranna.

Eins og fram komi í skilmálum hinnar kærðu tillögu hafi byggingarreitum verið skipt í reiti A-F og tilgreind sé hámarksþakhæð bygginga á hverjum reit. Jafnframt segi þar að loftræsimannvirki og þakgluggar megi ná upp fyrir hámarkshæð þakplatna. Með því sé lögð áhersla á að heimilt sé að lítilvæg mannvirki, sem séu í eðlilegum tengslum við starfsemi í byggingunni, nái upp fyrir hámarkshæð. Slíkt sé alvanalegt um umfangslítil tæknirými og skorsteina og í samræmi við almennar venjur um framsetningu deiliskipulags. Ef hins vegar væri tekið tillit til þessa við ákvörðun hámarkshæðar myndi það leiða til þess að hæð byggingarinnar í heild yrði tilgreind meiri en hún væri í raun. Slík framsetning væri ekki í samræmi við kröfur sem gerðar væru til deiliskipulagstillagna um að sýna með skýrum hætti umfang byggingarheimilda.

Athugasemdum um að ekki hafi verið gerð grein fyrir því hvernig stefnt sé að framkvæmd deiliskipulagstillögunnar sé vísað á bug, en Reykjavíkurborg sem framkvæmdaraðili muni ljúka frágangi utanhúss innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis, sbr. samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 1998. Ljóst megi vera að framkvæmdir hefjist um leið og heimildir til verksins hafi fengist. Því sé hafnað að framsetning deiliskipulagstillögunnar sé í ósamræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar, en allar nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt reglugerðinni komi skýrt fram í tillögunni. Þá hafi tillagan verið kynnt íbúum á svæðinu með greinargóðum hætti allt frá því að vinna við deiliskipulagsbreytinguna hófst. Jafnframt hafi umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir við auglýsta tillögu til breytinga á deiliskipulagi Suðurhlíða verið unnin í samræmi við 1. mgr. gr. 5.7.1. í skipulagsreglugerð.

Byggingar þær sem rísi á lóðinni séu fyrst og fremst ætlaðar nemendum Klettaskóla. Hins vegar sé um mikla fjárfestingu að ræða og til greina komi að nýta húsnæðið að einhverju leyti undir aðra starfsemi. Leitast verði við að nýta sérhæfðar byggingar eins vel og mögulegt er. Til að mynda sé ráðgert að sérhæfð íþróttafélög, svo sem Íþróttafélag fatlaðra, og skyld starfsemi geti nýtt aðstöðuna utan skólatíma, enda samrýmist það fyllilega notkun bygginganna og skipulagi að öðru leyti. Því sé hafnað að ekki hafi verið gerð fullnægjandi könnun á áhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar á umferð í hverfinu. Leitað hafi verið óformlegs álits sérfræðinga á samgönguskrifstofu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar en ekki hafi verið talin þörf á sérstakri greiningu á áhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar á umferð. Samþykkt tillögunnar hafi ekki verið talin hafa í för með sér aukna umferð um hverfið enda legðist af sérhæfður akstur, svo sem akstur með skólabörn á skólatíma í íþróttir og félagsstarf, þegar byggingarnar yrðu fullkláraðar. Þá væri ekki gert ráð fyrir fjölgun nemenda eða starfsfólks. Þrátt fyrir að sérstök íþróttafélög geti nýtt aðstöðuna muni heildarumferð ekki aukast. Þá sé það faglegt mat Reykjavíkurborgar að fyrirhugaður fjöldi bílastæða fyrir lóðina sé nægur.

Heimildarákvæði 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sæti ekki öðrum takmörkunum en þeim að fara skuli um deiliskipulagsbreytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Þótt það sé meginregla að deiliskipulag sé bindandi og varanleg samþykkt um skipulag tiltekins svæðis hafi löggjafinn heimilað sveitarstjórn að breyta því, enda geti þróun borga og bæja kallað á slíkar breytingar, meðal annars vegna þarfa íbúa sveitarfélagsins. Hafa verði í huga að skóli hafi staðið við Suðurhlíð 9 frá því áður en deiliskipulag fyrir svæðið tók gildi og að í deiliskipulaginu hafi verið til staðar heimild fyrir auknu byggingarmagni á lóðinni sem ekki hafi enn verið nýtt. Í ljósi breyttra aðstæðna og krafna hafi Reykjavíkurborg talið hagkvæmt að færa rekstur annarra þjónustustofnana á umrædda lóð. Auknar byggingarheimildir séu nátengdar starfsemi sem nú þegar sé á lóðinni og raski ekki yfirbragði svæðisins og byggðamynstri.

Varðandi kæru vegna útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis til framkvæmda á lóð Suðurhlíðar 9 sé vísað til þess að deiliskipulagsbreytingin, sem kærendur vísi til, sé í gildi og hafi ekki verið hnekkt. Á meðan svo standi á sé heimilt að veita leyfi til framkvæmda í samræmi við hana. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga geti leyfisveitandi, þegar sérstaklega standi á, veitt skriflegt leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkist leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn. Þau hafi legið fyrir vegna verksins þegar hið umþrætta leyfi var samþykkt, en um sé að ræða stóra, flókna og viðamikla framkvæmd. Alvanalegt sé að veita takmörkuð byggingarleyfi fyrir undirbúningi framkvæmda í slíkum tilvikum. Leyfið eigi sér fullnægjandi lagastoð og sé í samræmi við skipulagsheimildir á svæðinu.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 28. ágúst 2015.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Suðurhlíðar 9, Klettaskóla, og byggingarleyfi til framkvæmda á sömu lóð.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Kærendur máls þessa eru íbúar og eigendur tilgreindra húsa við Beykihlíð, Birkihlíð, Víðihlíð og Reynihlíð. Hverfið er gróið og standa hús kærenda við Reynihlíð í töluverðri fjarlægð frá Suðurhlíð 9 og skilja bæði götur og hús þar á milli. Sömu sögu er að segja um húsin að Beykihlíð nr. 1, 3, 5, 9, 11, 13 og 15. Þau hús standa reyndar nær framkvæmdasvæðinu en gróinn lundur skilur einnig á milli hluta þeirra. Telur nefndin ljóst, þegar miðað er við staðsetningu húsa nefndra kærenda og afstöðu til fyrirhugaðra mannvirkja, að hvorki verði um útsýnisskerðingu að ræða né svo verulegar breytingar á umferð að varðað geti hagsmuni þessara kærenda á þann veg að þeir eigi þá einstaklingsbundnu og lögvörðu hagsmuni tengda gildi umdeildra ákvarðana að skapi þeim kæruaðild skv. áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfum þeirra því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kærendur skírskota til þess að fyrirhugaðar breytingar á lóð Suðurhlíðar 9 samræmist ekki aðalskipulagi og vísa máli sínu til stuðnings til umfjöllunar í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þegar hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt var Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 í gildi, en samkvæmt því var Suðurhlíð 9 á svæði fyrir þjónustustofnanir og er lóðin skráð sem viðskipta- og þjónustulóð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Fram kemur í greinargerð aðalskipulagsins að byggingarmagn og nýtingarhlutfall á svæðum fyrir þjónustustofnanir sé ákveðið í deiliskipulagi. Ekki verður annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu þágildandi aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Af gögnum málsins verður ekki séð að fyrirhugaðar byggingar á lóð Suðurhlíðar 9 muni varpa skugga á aðliggjandi lóðir svo nokkru varði. Af skýringaruppdrætti og könnun úrskurðarnefndarinnar á aðstæðum er hins vegar ljóst að byggingarnar munu skerða útsýni frá nágrannalóðum við Beykihlíð og Birkihlíð auk þess sem starfsemi í þeim kann að hafa í för með sér aukningu á umferð utan hefðbundins skólatíma. Þá liggur fyrir að óþægindi geta stafað af lýsingu fyrirhugaðs sundlaugarhúss, að innan sem utan. Á hinn bóginn verður að hafa hugfast að umrædd lóð hefur frá byggingu hverfisins verið ætluð fyrir þjónustu þá sem þar fer fram og að nýting byggingarheimilda að fullu samkvæmt óbreyttu skipulagi hefði einnig haft í för með sér aukin grenndaráhrif miðað við fyrra ástand. Þá var hæð bygginga lækkuð frá því sem í upphafi var auglýst til að koma til móts við athugasemdir íbúa í hverfinu. Að teknu tilliti til framangreinds verður ekki talið að breytingin sé slík að réttur kærenda sé fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Kærendur geta hins vegar eftir atvikum leitað bótaréttar úr hendi sveitarfélagsins í samræmi við 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Hvorki er í lögum né reglugerðum að finna kröfur um lágmarksfjölda bílastæða að öðru leyti en því að fram kemur í 1. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að taka skuli mið af ákvæðum byggingarreglugerðar varðandi fjölda og fyrirkomulag bílastæða fyrir fatlaða. Deiliskipulagsbreytingin gerir ráð fyrir þremur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð Suðurhlíðar 9 og er það í samræmi við kröfur 5. mgr. gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, með þeim breytingum sem þá höfðu verið gerðar á ákvæðinu. Samkvæmt 3. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð skal tilgreina í deiliskipulagi hámarkshæð á þaki og öðrum byggingarhlutum sem ná upp fyrir vegg, svo sem skorsteinum og tæknirýmum. Í skilmálum hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er hámarkshæð þakflata tilgreind en jafnframt tiltekið að loftræsimannvirki og þakgluggar megi ná upp fyrir þá hæð án þess að hámarkshæð þeirra sé tiltekin. Er þessi framsetning ekki í fullu samræmi við framangreint ákvæði skipulagsreglugerðar en þykir þó ekki gefa tilefni til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, enda eru loftræsimannvirki og þakgluggar almennt ekki þeirrar gerðar að um verulega breytingu verði að ræða.

Loks var málsmeðferð í samræmi við skipulagslög. Þannig var hin umdeilda breytingartillaga auglýst til kynningar lögum samkvæmt, fram komnum athugasemdum var svarað, tillagan samþykkt og gildistaka breytingarinnar auglýst í kjölfarið.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafnað.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar liggur fyrir að samþykkt byggingaráforma átti sér stoð í gildandi deiliskipulagi og telur úrskurðarnefndin að skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 hafi verið fyrir hendi til útgáfu hins kærða takmarkaða byggingarleyfis, enda ljóst að um umfangsmikla framkvæmd er að ræða. Ónæði af framkvæmdunum er tímabundið og hefur ekki áhrif á niðurstöðu um lögmæti leyfisins og þurfa íbúar hverfisins, rétt eins og íbúar í þéttbýli almennt, að sæta því. Með vísan til framangreinds, og þar sem ekki liggur fyrir að neinir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við ákvarðanatökuna, verður gildi leyfisins heldur ekki raskað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfum kærenda við Reynihlíð sem og að Beykihlíð nr. 1, 3, 5, 9, 11, 13 og 15.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. nóvember 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 9 við Suðurhlíð, Klettaskóla.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2015 um að samþykkja umsókn um takmarkað byggingarleyfi fyrir aðstöðusköpun og jarðvinnu vegna viðbyggingar við Klettaskóla á lóðinni nr. 9 við Suðurhlíð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

61/2015 Sævangur

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
 
Fyrir var tekið mál nr. 61/2015, kæra á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2015, sem barst nefndinni 5. ágúst s.á., kærir G, Sævangi 7, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og var fallist á þá kröfu í úrskurði uppkveðnum 28. ágúst 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Hafnarfirði 29. apríl 2015 voru teknar fyrir kvartanir sem borist höfðu vegna framkvæmda á lóðinni nr. 5 við Sævang, við lóðarmörk Sævangs 7. Var lóðarhafa Sævangs 5 gert að stöðva framkvæmdir þar sem þær samræmdust ekki deiliskipulagi og samþykktum uppdráttum, auk þess sem hafa skyldi samráð við nágranna um frágang á lóðamörkum.

Hinn 30. júní 2015 sótti lóðarhafi Sævangs 5 um byggingarleyfi til að reisa sólpall og skjólveggi skv. teikningum, dags. 24. s.m. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júlí 2015 og afgreiðslu hennar frestað með vísan til athugasemda. Nýjar teikningar voru lagðar fram 13. júlí s.á. og hinn 22. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina. Hefur sú samþykkt verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að gert sé ráð fyrir að staurar og sólpallur á lóð Sævangs 5 verði nær lóðamörkum en byggingarreglugerð heimili. Þá skuli sorpskýli ekki vera á lóðamörkum þar sem það hindri útsýni frá innkeyrslu Sævangs 7. Frárennslislagnir frá Sævangi 7 liggi rétt innan við lóðarmörkin og ógerlegt gæti orðið að komast að þeim vegna fyrirhugaðra mannvirkja. Gluggar séu á bílskúr Sævangs 7, u.þ.b. 1,5 m frá lóðamörkum, og eldvarnarkröfum sé ekki fullnægt þegar timburmannvirki standi svo nálægt skúrnum.

Kærandi hafi ítrekað komið mótmælum sínum gegn framkvæmdinni á framfæri við byggingarfulltrúann í Hafnarfirði. Þess hafi þó ekki verið getið í fundarbókun frá 22. júlí 2015 er framkvæmdin var samþykkt. Hins vegar hafi komið þar fram að samþykki íbúa að Sævangi 3 og 8 lægi fyrir, en þeir hefðu engra sýnilegra hagsmuna að gæta varðandi framkvæmdina. Þá sé bókun byggingarfulltrúa mjög óljós varðandi það hvaða teikningar hafi verið samþykktar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er skírskotað til þess að hinn 16. desember 2009 hafi byggingarfulltrúi samþykkt erindi lóðarhafa að Sævangi 5 er hafi m.a. lotið að frágangi lóðarinnar. Kærandi hafi ekki gert athugasemd við þá samþykkt. Er hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi samþykktur uppdráttur frá 2009 verið hafður til hliðsjónar, ásamt deiliskipulagi svæðisins. Þá sé vísað til þess að á mæliblaði komi fram að engar kvaðir séu á lóðum hvað varði lagnir eða gröft.

Meginbreytingin sem í hinni kærðu ákvörðun felist sé sú að heitur pottur sé færður til á lóðinni, bílastæðum á lóðinni fjölgað úr tveimur í þrjú og staðsetning sorpskýlis sé færð inn á lóðaruppdrátt. Á samþykktum uppdrætti frá 22. júlí 2015 sé ekki gert ráð fyrir girðingu á lóðarmörkum heldur komi stakir staurar í stað þeirrar girðingar sem gert hafi verið ráð fyrir árið 2009 og síðar í breyttri útfærslu árið 2015. Á staurunum sé hengibúnaður til að setja upp tjöld á góðum dögum. Þessi útfærsla sé á 7,5 m kafla á lóðamörkum Sævangs 5 og 7. Bifreiðageymsla Sævangs 7 sé í 1,5 m fjarlægð frá lóðamörkunum en á henni sé röð glugga sem staðsettir séu upp undir loftplötu bílskúrsins. Ekki sé fyrirsjáanleg nein birtu- eða útsýnisskerðing að Sævangi 5 vegna framkvæmdanna.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að teikningar sem sýnt hafi framtíðarskipulag lóðar Sævangs 5 hafi verið samþykktar árið 2009. Kærandi hafi þá lýst andstöðu sinni vegna staðsetningar á heitum potti en ekki hreyft öðrum mótmælum. Ekkert hafi orðið af framkvæmdum þá, en ákveðið hafi verið að hefja þær vorið 2015. Leitast hafi verið við að ná samkomulagi við kæranda og hafi leyfishafi talið að samkomulag hefði tekist í apríl 2015. Það hafi verið handsalað og undirritað af beggja hálfu en kærandi hafi hins vegar neitað að afhenda það. Samkomulagið heimili leyfishafa að reisa trévegg á lóðamörkum, ákveðin hafi verið ný staðsetning á heitum potti og leyfishafi hafi samþykkt að greiða kostnað við að losa upp vegg og pall á lóð sinni og ganga frá tréverki ef bilun yrði á frárennslislögn frá Sævangi 7 og ekki yrði komist að lögninni með öðrum hætti.

Eftir að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar á lóðinni hafi enn verið reynt að ná samkomulagi við kæranda, en án árangurs. Því hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum og hafi það verið veitt 22. júlí 2015. Samkvæmt samþykktum uppdráttum séu nánast engin mannvirki á lóðamörkum, en sótt hafi verið um leyfi til að láta staura á lóðamörkunum standa svo hengja mætti á þá laus tjöld og nýta sólpallinn á sumardögum. Þá sé því mótmælt að sorpskýli á lóð Sævangs 5 hindri útsýni frá innkeyrslu Sævangs 7.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

Auk mannvirkja taka lög nr. 160/2010 um mannvirki m.a. til gróðurs á lóðum, frágangs og útlits lóða og til girðinga í þéttbýli, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Á grundvelli 60. gr. sömu laga hefur verið sett byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd þeirra og er þar m.a. að finna ákvæði um girðingar og sorpskýli. Þá er fjallað um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi í gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sbr. einnig 1. mgr. 9. gr. nefndra laga.

Kveðið er á um í 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð að girðing eða skjólveggur á mörkum lóða sé alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa, óháð hæð girðingar eða skjólveggs, og skal samþykkis leitað áður en hafist er handa við slíkar smíðar. Samkvæmt þeim uppdrætti sem samþykktur var 22. júlí 2015 er gert ráð fyrir sex staurum á lóðamörkum Sævangs 5 og 7. Staurarnir eru 1,4 m háir og er tekið fram á uppdrættinum að hægt verði „…að hengja tjöld á súlurnar á góðum dögum“. Úrskurðarnefndin er þeirrar skoðunar að eins og hér hátti til verði að telja að um skjólvegg eða girðingu sé að ræða í skilningi framangreinds reglugerðarákvæðis, þótt einungis hluti hans sé varanlega skeyttur við landið. Leyfishafi vísar til þess að samkomulag hafi tekist með lóðahöfum Sævangs 5 og 7 um að reisa mætti trévegg á lóðamörkum, en ekkert slíkt samkomulag liggur fyrir úrskurðarnefndinni. Verður því að miða við að samþykki lóðarhafa Sævangs 7 hafi ekki legið fyrir er hið kærða byggingarleyfi var veitt. Leyfið var því veitt í andstöðu við fortakslaust ákvæði byggingarreglugerðar.

Svo sem áður segir er fjallað um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Kemur nánar fram í e-lið tilvitnaðs ákvæðis að pallur úr brennanlegu efni megi ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Með hinni kærðu ákvörðun var samþykkt að sólpallur á lóð Sævangs 5 nái að lóðarmörkum Sævangs 7 á nokkurra metra kafla og verður ráðið af málsgögnum að pallurinn verði úr timbri. Um sorpskýli á lóð gilda ákvæði gr. 6.12.8. í byggingarreglugerð sem kveða nánar á um gerð og frágang sorpskýla án þess að um staðsetningu þeirra innan lóðar sé kveðið. Lóðin á Sævangi 5 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulagið Íbúðarhverfi í Norðurbæ sem endurgert var á árinu 2012 og öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 26. september það ár. Í skipulagsskilmálunum kemur m.a. fram að lóðarhafi skuli hafa samráð við nágranna um frágang á sameiginlegum lóðamörkum þeirra og að sorpgeymslur skuli vera staðsettar þannig að ekki valdi óþægindum fyrir nágranna. Verður ekki séð að þess hafi verið gætt að leyfið væri í samræmi við nefnda skipulagsskilmála svæðisins.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun háða slíkum annmörkum að ekki verði komist hjá ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi sú ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

61/2015 Sævangur

Með
Árið 2015, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
 
Fyrir var tekið mál nr. 61/2015, kæra á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2015, sem barst nefndinni 5. ágúst s.á., kærir G Sævangi 7, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 22. júlí 2015 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

Kærandi skírskotar til þess að gert sé ráð fyrir að staurar á lóðamörkum, sólpallur og sorpskýli verði nær lóðamörkum en byggingarreglugerð heimili. Þá liggi frárennslislagnir frá Sævangi 7 rétt innan við lóðarmörk og ógerlegt gæti orðið að komast að þeim. Gluggar séu á bílskúr Sævangs 7, u.þ.b. 1,5 m frá lóðamörkum, og eldvarnarkröfum sé ekki fullnægt þegar timburmannvirki standi svo nálægt skúrnum.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um lóðauppdrætti, skjólveggi og girðingar á lóðum. Auk þess er skírskotað til þess að hinn 16. desember 2009 hafi byggingarfulltrúi samþykkt erindi er laut að frágangi lóðar að Sævangi 5. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þá samþykkt. Meginbreytingin sem í hinni kærðu ákvörðun felist sé sú að heitur pottur sé færður til á lóðinni, bílastæðum á lóðinni fjölgað úr tveimur í þrjú og staðsetning sorpskýlis sé færð inn á lóðaruppdrátt.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði. Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Leikur meðal annars vafi á því hvort hún samræmist ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Framkvæmdir eru langt komnar. Eigi að síður þykir rétt að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, enda geta þær haft röskun í för með sér fyrir hann. Byggingarleyfishafi getur hins vegar óskað þess að málið sæti flýtimeðferð, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir sem hafnar eru á lóð Sævangs 5 á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                      ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                               Þorsteinn Þorsteinsson

72/2013 Arnarholt

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 18. júní 2013 um að veita leyfi til að reisa sumarhús á lóð nr. 8B í landi Arnarholts.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2013, sem barst nefndinni 17. s.m., kærir Björn Jóhannesson hrl., f.h. eigenda jarðarinnar Hlöðutún, Borgarbyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 18. júní 2013, að veita leyfi til að reisa sumarhús á lóð nr. 8B í landi Arnarholts.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 26. maí 2015.

Málavextir: Á árinu 1994 keyptu núverandi eigendur jörðina Arnarholt. Sama ár voru gerð drög að landskiptagerð milli eigenda Arnarholts og Hlöðutúns. Á árinu 1996 hófst deiliskipulagsgerð jarðarinnar Arnarholts að frumkvæði eigenda hennar. Var deiliskipulagið samþykkt af bæjarstjórn Borgarbyggðar 11. febrúar 1998, yfirfarið af Skipulagsstofnun 12. mars s.á. og tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 31. s.m. Með umræddu deiliskipulagi var landinu skipt upp í 40 byggingarreiti, hver að stærð 500 m2. Hinn 5. júní 2003 undirrituðu eigendur Arnarholts stofnskjal lóða og voru greindir byggingarreitir gerðir að sérstökum fasteignum. Stofnskjalið var móttekið til þinglýsingar 23. s.m. Hinn 28. júní 2007 var lóðum nr. 8A og 8B í landi Arnarholts afsalað til leyfishafa. Var afsalið móttekið til þinglýsingar 31. mars 2008 og innfært í þinglýsingarbækur 3. apríl s.á.

Hinn 18. júní 2013 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar tekin fyrir umsókn, dags. 11. febrúar s.á., þar sem sótt var um leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni Arnarholt 8B. Var erindið samþykkt með eftirfarandi bókun: „Samþykkt, enda fellur framkvæmdin að skipulagi svæðisins“.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að sameiginlegt beitiland hafi fylgt jörðunum Hlöðutúni og Arnarholti og sé það land í óskiptri sameign jarðanna. Hafi verið reynt að ná samkomulagi um skiptingu landsins allt frá árinu 1994 en það hafi ekki borið árangur. Þrátt fyrir að ekki sé samkomulag um landskiptin hafi eigendur Arnarholts látið vinna deiliskipulag fyrir jörðina sem hafi m.a. náð inn á land í óskiptri sameign jarðanna. Einnig hafi verið skipulagður hluti lands sem hafi átt að koma í hlut Hlöðutúns samkvæmt greindum drögum.

Árið 2009 hafi verið undirrituð landskiptagerð af eigendum Hlöðutúns og meirihluta eigenda Arnarholts. Sú landskiptagerð hafi verið samþykkt af sveitarstjórn Borgarbyggðar og þinglýst á viðkomandi jarðir. Landbúnaðarráðuneytið hafi hins vegar synjað staðfestingu hennar sökum formgalla. Sé landið því enn í óskiptri sameign og hafi árangurslaust verið reynt að ná samkomulagi um landskipti milli jarðanna. Bygging sú, sem hið kærða byggingarleyfi taki til, sé í óskiptu landi Hlöðutúns og Arnarholts. Ekkert samkomulag sé á milli eigenda Hlöðutúns og Arnarholts um nýtingu eða afnot af umræddu landi. Af þeim sökum hafi ekki verið heimilt að gefa út byggingarleyfið. Skipti engu máli þó fyrir hendi sé gilt deiliskipulag og að fyrirhuguð bygging sé í samræmi við það.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að 18. júní 2013 hafi byggingarfulltrúinn í Borgarbyggð veitt byggingarleyfi vegna lóðar nr. 8B úr landi jarðarinnar Arnarholts. Við þá ákvörðun hafi annars vegar legið til grundvallar að leyfishafi væri þinglýstur eigandi umræddrar lóðar og hins vegar að umrætt frístundahús uppfyllti alla skilmála gildandi deiliskipulags.

Eigendur Arnarholts hafi látið vinna deiliskipulag fyrir jörðina sem hafi tekið gildi 31. mars 1998. Sé það enn í gildi. Við gerð þess hafi verið farið eftir öllum gildandi lögum. Deiliskipulagið hafi verið yfirfarið af Skipulagsstofnun sem hafi hvorki talið á því form- né efnisgalla. Ennfremur hafi verið haft samráð við eigendur jarðarinnar Hlöðutúns við gerð deiliskipulagsins þar sem það hafi m.a. tekið til óskipts lands jarðanna tveggja. Í bréfi kæranda til Skipulagsnefndar Borgarbyggðar, dags. 23. september 1996, séu nefnd tvö ófrágengin atriði um landaskiptin. Engin þeirra 40 lóða sem tilteknar hafi verið í skipulaginu liggi á þeim svæðum. Skipulag jarðarinnar Arnarholts og tilurð lóðanna 40 hafi verið í fullu samráði og með samþykki kærenda. Umræddar lóðir hafi svo orðið að sjálfstæðum fasteignum í eigu eigenda Arnarholtsjarðarinnar með þinglýsingu stofnskjals, dags. 23. júní 2003.

Þrátt fyrir að skiptingu á sameiginlegu landi Arnarholts og Hlöðutúns sé enn ekki lokið og enn sé til staðar óskipt land jarðanna tveggja sé ekki hægt að líta svo á að lóð 8B við Arnarholt sé hluti af því. Samkvæmt þinglýsingabók sé lóð 8B sjálfstæð fasteign með sérstöku landnúmeri og þinglýst eign leyfishafa.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að efnislegt samkomulag um skipti á landi Hlöðutúns og Arnarholts hafi legið fyrir allt frá árinu 1994. Að auki hafi kærendur ekki gert athugasemdir við gerð deiliskipulags fyrir jörðina Arnarholt á sínum tíma. Það deiliskipulag hafi tekið gildi 31. mars 1998 og sé enn í gildi. Í umræddu deiliskipulagi séu tilteknar 40 lóðir undir frístundahús sem séu allar í landi sem hafi komið í hlut Arnarholts samkvæmt greindu samkomulagi frá 1994. Hafi kærendur ekki gert neinar athugasemdir við þau frístundahús sem byggð hafi verið á hinu meinta óskipta landi, en fyrsta frístundahúsið hafi risið rétt fyrir síðustu aldamót. Styðji það enn frekar að kærendur hafi litið svo á að samkomulag hafi ríkt um landskiptin og að þessar lóðir hafi allar komið í hlut Arnarholts.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis sem heimilar byggingu frístundahúss á lóð nr. 8B á jörðinni Arnarholti. Telja kærendur að ekki hafi verið heimilt að veita byggingarleyfið. Þeir séu sameigendur að því landi þar sem umrædd lóð sé staðsett þar sem  ekki hafi náðst samkomulag um skiptingu á því.

Fasteignareigendur fara með ráðstöfunarrétt yfir fasteignum sínum og eru eðli máls samkvæmt einir til þess bærir að sækja um byggingarleyfi fyrir mannvirkjum á lóð sinni. Líkt og greinir í málavöxtum varð leyfishafi þinglýstur eigandi umræddrar lóðar þegar afsali þess efnis var þinglýst árið 2008. Af þinglýstum gögnum verður ekki annað ráðið en að leyfishafi sé einn eigandi lóðar 8B í landi Arnarholts. Þinglýsingum fylgir tiltekinn áreiðanleiki að lögum og verða þær lagðar til grundvallar við töku stjórnvaldsákvarðana. Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ljóst að efnislegur ágreiningur er uppi um eignarréttindi á svæðinu. Slíkur ágreiningur, sem og um efni þinglýstra réttinda, heyrir hins vegar undir dómstóla en ekki undir úrskurðarnefndina. Það er því ekki á valdsviði nefndarinnar að skera úr um hann. Að teknu tilliti til framangreinds var byggingarfulltrúa heimilt að samþykkja umsókn þinglýsts eiganda fyrrgreindrar lóðar um byggingu frístundahúss þar, enda væru greind byggingaráform í samræmi við gildandi skipulag svæðisins.

Af öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 18. júní 2013 að veita leyfi til að reisa sumarhús á lóð nr. 8B í landi Arnarholts.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

61/2014 Reynifellskrókur

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 61/2014, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangársþings ytra frá 13. maí 2013 að samþykkja að veita leyfi til að byggja frístundahús á lóð nr. 2b í landi Reynifells. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2014, sem barst 4. s.m., kærir eigandi lóðar nr. 6 í Reynifellskrók í landi Reynifells, Rangárþingi Ytra, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra frá 13. maí 2013 að samþykkja að veita leyfi til að byggja frístundahús á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. júní 2015, gerir sami aðili þá kröfu um að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 13. maí 2013 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra að veita leyfi fyrir byggingu frístundahúss á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Var byggingarleyfið gefið út 21. s.m.

Kærandi skírskotar til þess að húsið samræmist ekki byggingarskilmálum svæðisins. Húsið sé of lítið, húslagið ekki í samræmi við önnur hús og efnið sem notað sé á húsið sé ekki í samræmi við húsin á svæðinu. Hið umrædda hús stingi mjög í stúf við landslagið og önnur hús og rýri útlit svæðisins. Sjónmengun sé mikil vegna hússins. Auk þess geti hin kærða ákvörðun gefið fordæmi fyrir því að fleiri hús af þessu tagi rísi á svæðinu.

Af hálfu Rangárþings ytra er skírskotað til þess að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin um að leyfa tiltekna stærð á sumarhúsi þrátt fyrir ákvæði um lágmarksstærð í byggingarskilmálum svæðisins. Sé það mjög eðlilegt að leyfa byggjendum að byrja smátt með möguleika á stækkun eða viðbyggingu síðar. Í byggingarskilmálum segi að hús skulu byggð úr timbri. Tiltekið hús sé alfarið úr timbri en veðurkápa sé þó úr stáli. Nokkuð sé um að sumarhús á svæðinu hafi ómálað stál á þökum og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við umrætt efni á útvegg þar sem auðvelt sé að mála það í þeim lit sem hæfir. Hafi verið rétt staðið að veitingu umrædds byggingarleyfis samkvæmt lögum og reglum og almennum hefðum í landinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþing ytra að veita leyfi til að byggja frístundahús í landi Reynifells þar sem kærandi á einnig frístundahús, en hann telur að húsið samræmist ekki skilmálum svæðisins.  

Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ljóst að framkvæmdum við byggingu hins umdeilda frístundahús var að mestu lokið þegar stöðvunarkrafa kæranda kom fram. Þykir af þeim sökum ekki hafa þýðingu að stöðva framkvæmdir á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir

58/2015 Njálsgata

Með
Árið 2015, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júlí 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Stefán Geir Þórisson hrl., f.h. E, Njálsgötu 76, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 12. ágúst 2015.

Málavextir: Á árinu 2013 bárust byggingarfulltrúanum í Reykjavík tvær fyrirspurnir sem teknar voru fyrir á afgreiðslufundum hans 9. apríl og 21. maí s.á. Annars vegar var spurst fyrir um byggingu kvista á hús nr. 78 við Njálsgötu og hins vegar um hækkun þess um eina hæð. Umsagnir skipulagsfulltrúa um nefndar framkvæmdir voru jákvæðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og lagðist hann ekki gegn þeim.

Hinn 6. maí 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn þar sem sótt var um leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu. Var erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn hans, dags. 15. s.m., var lagt til að uppdrættir yrðu lagfærðir, m.a. að svalir yrðu minnkaðar, gömlum gluggum yrði ekki breytt og að húsið yrði ekki hærra en Njálsgötu 80. Hinn 6. júní s.á. var á fundi skipulagsfulltrúa samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Njálsgötu 76, 77, 79, 80, 81 og Bergþórugötu 53 og 55 þegar búið væri að lagfæra uppdrætti. Var umsóknin grenndarkynnt frá 9. október til og með 7. nóvember 2014. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Var þeim svarað með umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember s.á. Hinn 26. s.m. var greind umsögn skipulagsfulltrúa samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs og erindinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.

Hinn 21. apríl 2015 var umsóknin samþykkt af byggingarfulltrúanum í Reykjavík og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
 
Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að um óhjákvæmilega notkun á sinni fasteign sé að ræða og að framkvæmdaraðili muni nýta austurgafl fasteignar kæranda við hækkunina. Húsin tvö, þ.e. Njálsgata 76 og 78, séu aðliggjandi en austurgafl fasteignar kæranda sé séreign hans og hafi hann því einn ráðstöfunarrétt yfir veggnum. Ef talið verði að austurgaflinn sé sameign sé á því byggt að óheimilt sé að nýta vegginn án samþykkis kæranda. Samkvæmt meginreglum eignarréttar geti sameigandi aðeins nýtt eða ráðstafað sameign ef nýting eða ráðstöfun sé öðrum sameigendum að bagalausu. Ráðstöfun eða nýting sameigenda á sameign megi ekki ganga inn á rétt annarra sameigenda. Þá verði sameigandi að sýna öðrum sameigendum tillitssemi við nýtingu eignar eða ráðstöfun.

Fyrirhugaðar framkvæmdir muni valda kæranda verulegu óhagræði og jafnvel umtalsverðu tjóni. Húsin að Njálsgötu séu byggð á árunum 1927-1930, séu því hátt í 90 ára gömul og þoli því illa framkvæmdir líkt og þær sem séu fyrirhugaðar. Fyrir u.þ.b. 30 árum hafi þáverandi eigandi húss nr. 74 við Njálsgötu byggt tvær hæðir á hús sitt, en húsið hafi áður verið ein hæð og ris. Við þessar framkvæmdir hafi myndast miklar sprungur á veggjum og lofti í húsi kæranda. Þótt margsinnis hafi verið gert við sprungurnar myndist þær alltaf aftur. Byggingarfróðir menn hafi sagt að um sé að kenna hinum mikla þunga sem bættist á sameiginlegan vegg húsanna við hækkun á nr. 74. Í kjölfar viðbyggingar við Njálsgötu 74 hafi þótt sýnt að burðarþol veggjanna hafi ekki þolað álagið og hafi eigendum að Njálsgötu 76 verið greiddar bætur vegna málsins. Megi ganga út frá því að burðarþol sameiginlegra veggja húsanna, þ.e. Njálsgötu 76 og Njálsgötu 78, hafi miðast við tvær hæðir. Ljóst sé að ef byggt verði ofan á Njálsgötu 78 megi búast við enn frekari skemmdum á eign kæranda.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember 2014, komi fram að krafa sé gerð um að ekki verði byggt ofan á vegg nágrannans að Njálsgötu 76 heldur verði byggðir nýir sjálfstæðir veggir. Ekki séu nein fyrirmæli í byggingarreglugerð sem kveði á um samþykki aðliggjandi lóðarhafa fyrir framkvæmdum á lóðarmörkum öðrum en girðingum.

Röksemdum kæranda um umtalsverð óþægindi og tjón sé vísað á bug sem ósönnum og ósönnuðum. Almennt verði borgarar að sætta sig við einhver tímabundin óþægindi eða rask á meðan á byggingarframkvæmdum standi í nágrenninu. Geti íbúar ekki vænst þess að byggingar taki engum breytingum í tímans rás og megi því alltaf búast við að einhver óþægindi skapist, ekki síst þar sem þröngt sé byggt í borginni. Auk þess beri byggingarleyfishafa að haga framkvæmd þannig að sem minnst rask verði og beri hann enn fremur ábyrgð á mögulegu tjóni sem hann kunni að valda gagnvart kæranda eftir almennum reglum skaðabótaréttar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til að byggja hæð og ris á fjöleignarhúsið að Njálsgötu 78. Telur kærandi að ekki sé heimilt að hækka húsið án hans samþykkis auk þess sem hækkunin muni valda honum tjóni.

Fjallað er um hús í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og er þar átt við byggingu sem varanlega er skeytt við land og stendur sjálfstæð og aðgreind frá öðrum húsum eða skilur sig þannig frá þeim þótt sambyggð eða samtengd séu að eðlilegt og haganlegt sé að fara með hana sem sjálfstætt hús. Húsin að Njálsgötu 76 og 78 standa á aðskildum lóðum. Byggingarnar voru reistar á mismunandi tímum og það sama á við um þær breytingar sem gerðar hafa verið á þeim. Þá er útlit þeirra mismunandi er varðar litaval og útfærslu á kvistum og gluggum. Þegar litið er til byggingarsögu og útlits húsaraðar þeirrar, þar sem umrædd hús standa, verður ekki annað séð en að líta beri á hvert hús sem sjálfstæða einingu. Með vísan til framangreinds verður hvorki talið að 30. gr. fjöleignarhúsalaga, sem áskilur samþykki meðeiganda, né 2. mgr. 3. gr. laganna þess efnis að lögin geti átt við um málefni sem sameiginleg séu á milli tveggja eða fleiri sjálfstæðra húsa, eigi við um hið kærða byggingarleyfi. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verða reistir nýir sjálfstæðir gaflveggir í framhaldi af steyptum einingum 3. hæðar og slitnir frá gaflveggjum aðliggjandi húsa. Ekki er að finna nein þau ákvæði í gildandi lögum eða reglum þar sem áskilið er samþykki aðliggjandi lóðarhafa í slíkum tilvikum. Þurfti því ekki til samþykki kæranda af þeim sökum við veitingu hins umdeilda byggingarleyfis. Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að tjón verði af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru telur úrskurðarnefndin að með hinni kærðu ákvörðun sé leitast við að koma í veg fyrir slíkt tjón en bendir jafnframt á að rísi ágreiningur þess efnis á undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. 

Eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis er að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði en til þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að deiliskipulag liggi fyrir skal fyrirhuguð framkvæmd vera í samræmi við landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarsvæði, ÍB Grettisgata. Um það svæði segir að það hafi byggst upp að stórum hluta fyrir 1920. Fjölbreytni í húsagerð og byggingarstíl einkenni svæðið en gatnakerfið sé að mestu reglubundið. Þá er það eitt af markmiðum aðalskipulagsins að skapa heildstæðari og þéttari borgarbyggð og kanna frekari þéttingarmöguleika. Verður ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags.

Loks liggur fyrir að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar var í samræmi við mannvirkja- og skipulagslög. Ítarleg gögn lágu til grundvallar ákvörðuninni, þ.á m. fjórar umsagnir frá skipulagsfulltrúa þar sem hann gerði athugasemdir við uppdrætti, setti skilyrði um að þeim yrði breytt til að samræma hækkun hússins við byggingarmynstur á reitnum og að ekki yrði byggt ofan á vegg húss kæranda heldur nýir sjálfstæðir veggir byggðir upp. Eftir að uppdrættir höfðu verið lagfærðir var umsóknin grenndarkynnt og athugasemdum svarað. Umsóknin var samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði, sbr. gr. 2.3.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, og síðar samþykkt af byggingarfulltrúa eftir að nefnd skilyrði skipulagsfulltrúa höfðu verið uppfyllt.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé haldin neinum þeim annmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar og er kröfu kæranda þar um hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

14/2011 Nönnustígur

Með
Árið 2015, föstudaginn 14. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 14/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. febrúar 2011, sem barst nefndinni sama dag, kærir Sverrir Pálsson hdl., f.h. Á, Reykjavíkurvegi 27, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 8. desember 2010 að veita að nýtt byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum á lóð nr. 2 við Nönnustíg í Hafnarfirði. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök: Að undangenginni grenndarkynningu samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar hinn 13. maí 2009 umsókn um gerð tveggja bílastæða á lóðinni Nönnustíg 2.  Kærendur sendu bæjaryfirvöldum erindi, dags. 22. október 2010, þar sem mælst var til þess að nefnt byggingarleyfi yrði fellt úr gildi þar sem meira en tólf mánuðir væru liðnir frá samþykki leyfisins án þess að ráðist hefði verið í framkvæmdir.  Málið var á dagskrá skipulags- og byggingarráðs 16. nóvember 2010 þar sem ákveðið var að beina því til eigenda Nönnustígs 2 að sækja skriflega um endurnýjun byggingarleyfisins. Umsókn um endurnýjun leyfis varðandi lóðarfrágang sem veitt var 13. maí 2009 var síðan samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 8. desember 2010 og staðfest í bæjarstjórn 17. s.m.  Kærendur fóru fram á rökstuðning bæjaryfirvalda fyrir þeirri ákvörðun að veita leyfishafa tækifæri til að endurnýja umrætt byggingarleyfi í stað þess að afturkalla það. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. janúar 2011, kemur fram að skipulags- og byggingarráð taki undir og geri að sínu svar skipulags- og byggingarsviðs við erindi kærenda. Tekið er fram að umdeild framkvæmd hafi verið grenndarkynnt á sínum tíma og þá hafi borist athugasemd frá kærendum. Byggingarleyfið hafi verið samþykkt með vísan til fyrri afgreiðslu og þess að ekkert nýtt hafi komið fram sem breyti þeirri niðurstöðu. Framkvæmdin sé jafnframt í samræmi við gr. 64.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Kærendur byggja kröfu sína á því að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ólögmæt og hún sé því ógildanleg. Enga heimild sé að finna í lögum til að endurnýja byggingarleyfi líkt og gert hafi verið í máli þessu en verði svo talið sé um nýja stjórnvaldsákvörðun að ræða sem sæta þurfi meðferð samkvæmt form- og efnisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í kæru var boðaður frekari rökstuðningur kærenda en hann hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Bæjaryfirvöld benda á að eðlilegt hafi þótt að gefa byggingarleyfishafa kost á að gefa skýringu á því hvers vegna framkvæmdir sem heimilaðar voru á árinu 2009 hafi tafist og honum hafi verið leiðbeint um framhald málsins. Fullnægjandi skýringar á töfunum hafi borist bæjaryfirvöldum. Þótt hafi til bóta að tvö bílastæði væru gerð innan lóðar í stað eins sem var í landi bæjarins. Engin breyting hefði orðið á afstöðu bæjaryfirvalda í þessu efni þótt erindið hefði verið grenndarkynnt að nýju þar sem nágrannar hafi verið þeir sömu og við fyrri afgreiðslu byggingarleyfisins.

Niðurstaða: Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997  gátu þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem áttu lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Kærendur byggja málskot sitt vegna hins umdeilda byggingarleyfis á atvikum er tengjast réttarstöðu þeirra sem eigenda fasteignarinnar að Reykjavíkurvegi 27 í Hafnarfirði, sem liggur að lóð þeirri er leyfið tekur til. Fyrir liggur kaupsamningur dags. 1. apríl 2014 þar sem kærendur selja fasteignina að Reykjavíkurvegi 27 og samkvæmt samningnum var eignin afhent hinn 1. júlí s.á. Afsal fyrir fasteigninni var gefið út hinn 23. mars 2015 og þinglýst. Frá þeim tíma hafa kærendur ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar sem heimilaði gerð tveggja bílastæða á nágrannalóð.

Vegna þessara ástæðna eiga kærendur nú ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreiningsefni máls þessa og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ómar Stefánsson

 

35/2014 Brautarholt

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 19. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 35/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs frá 20. febrúar 2014 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Brautarholt 7. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Hulda Árnadóttir hdl., f.h. Hvíta hússins ehf., S. Waage ehf. og XO eignarhaldsfélags ehf., eigenda og rekstraraðila Brautarholts 6 og 8, þá ákvörðun borgarráðsfrá 20. febrúar 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir Brautarholt 7. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 23. júlí 2015, gera sömu aðilar þá kröfu að fyrirhugaðar framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Á árinu 1987 var samþykkt deiliskipulag fyrir reit sem markast af Laugavegi, Mjölnisholti, Brautarholti og Ásholti. Þar var skipulagssvæðinu skipt upp í tvo hluta, þ.e. nyrðri hluta sem tekur til lóðarinnar Ásholts 2-42 og syðri hluta sem er lóðin Brautarholt 7. Gert var ráð fyrir bæði íbúðum og atvinnustarfsemi á hvoru svæði fyrir sig. Uppbygging á nyrðri hluta svæðisins gekk eftir en ekki hefur átt sér stað uppbygging á syðri hlutanum. Hinn 20. febrúar 2014 samþykkti borgarráð nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Brautarholt 7 sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þar um 1. apríl s.á. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir að á lóðinni megi reisa 100 íbúðir fyrir nemendur með þjónustustarfsemi á hluta jarðhæðar. Hinn 22. júlí 2015 birtist frétt í fjölmiðlum þess efnis að framkvæmdir myndu hefjast á svæðinu 23. s.m.

Kærendur skírskota til þess rík og veigamikil rök hnígi að því að stöðva beri yfirvofandi framkvæmdir til bráðabirgða. Hið umþrætta deiliskipulag sé í andstöðu við lög og að ekkert sé fram komið hjá Reykjavíkurborg sem breyti þeirri staðreynd. Hafi kærendur þungar áhyggjur af því að veruleg fækkun bílastæða, frá því sem áður hafi verið gert ráð fyrir, muni koma til með að hafa neikvæð áhrif á  umferð á svæðinu og auki á bílastæðavanda einstaklinga og atvinnufyrirtækja sem sé þar staðsett. Verði yfirvofandi framkvæmdir ekki stöðvaðar verði réttur kærenda til að bera mál sitt undir úrskurðarnefndina að engu hafður. Því sé afar brýnt að óafturkræfar framkvæmdir verði stöðvaðar þegar í stað áður en hagsmunum þeim sem kærunni sé ætlað að verja verði fórnað.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að deiliskipulagið sé í fullu samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkurborgar 2010-2030. Sé hvorki í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 né byggingarreglugerð nr. 112/2012 gerð lágmarkskrafa um fjölda bílastæða á hverja íbúð. Við skipulagsgerðina hafi verið litið til samþykktar umhverfis- og skipulagsráðs varðandi bílastæðamál á svæðinu. Málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við skipulagslög, reglugerðir og stjórnsýslulög, þ.á.m. meðalhófs- og jafnræðisreglu þeirra laga. Við ákvörðun um fjölda bílastæða hafi verið tekið mið af stefnu gildandi aðalskipulags í þeim efnum og því að svæðið sé í nágrenni við samgöngumiðstöð. Hafi það verið ein af ástæðum þess að ákveðið hafi verið að staðsetja stúdentaíbúðir á greindum stað.  

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt.  Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekinnar lóðar. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, er slík auglýsing skilyrði fyrir gildistöku deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur þó ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir

37/2014 Hólmsheiði

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 37/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. mars 2014 um breytingu á deiliskipulagi Hólmsheiðar, svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. apríl 2014, er barst nefndinni 30. s.m., kæra eigendur landspildna nr. 113435, 113410, 113426 og 113422 á Reynisvatnsheiði, auk Landeigendafélagsins Græðis, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 19. mars 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hólmsheiðar, svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða en með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 1. september 2014 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. maí 2014.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 19. mars 2014 var lögð fram umsókn Fisfélags Reykjavíkur, dags. 13. s.m., varðandi breytingu á deiliskipulagi svæðis félagsins á Hólmsheiði. Samkvæmt deiliskipulaginu var svæðinu skipt í þrennt, í A-, B- og C-svæði. Breytingin felur í sér að skilgreindar eru tvær lóðir á svæði A, annars vegar 200 m2 lóð undir hús fyrir félagsaðstöðu og hins vegar 4.150 m2 lóð undir vélageymslur. Byggja má frjálst innan lóðamarka. Byggingarreitur á svæði C er felldur út, en þar var áður gert ráð fyrir húsi undir félagsaðstöðu. Þá er felld niður skilgreining á „svæði 1“ innan svæðis A.

Umsóknin var samþykkt með vísan til 2. mgr. 12. gr. samþykktar um umhverfis- og skipulagsráð. Jafnframt var samþykkt að falla frá grenndarkynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðaði ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. apríl 2014.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að deiliskipulag svæðis Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 28. febrúar 2011. Athugasemdir kærenda í því máli skoðist sem athugasemdir við þá deiliskipulagsbreytingu sem hér sé kærð, auk þess sem vísað sé til annarra kæra og erinda, sem úrskurðarnefndinni hafi borist á umliðnum árum vegna skipulagsákvarðana Reykjavíkurborgar á Reynisvatns- og Hólmsheiði, og þess sem fram komi í niðurstöðum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 6/2011, 68/2011 og 26/2010 er varðað hafi jarðvegslosunarsvæði á Hólmsheiði.

Gerð er athugasemd við að fallið hafi verið frá grenndarkynningu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar með vísan til þess að hún hafi ekki varðað hagsmuni annarra en umsækjanda. Í þessu felist alvarlegt brot á réttaröryggisreglum skipulagslaga, skipulagsreglugerðar og stjórnsýslulaga. Er vísað til þess að Reykjavíkurborg hafi borist u.þ.b. 10 athugasemdir við tillögu að deiliskipulagi svæðisins, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 9. desember 2010. Reykjavíkurborg sé fullkunnugt um baráttu landeigenda frístundalóða í Reynisvatnslandi gegn öllum áformum um að skipuleggja flugvöll í landi jarðarinnar og lögbýlisins Reynisvatns, en flugvöllur og aðstaða Fisfélagsins skerði rétt allra þeirra sem eigi lönd og lóðir á þessu svæði. Því beri að fella nú þegar úr gildi deiliskipulagið frá 9. desember 2010.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda í málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða deiliskipulagsbreyting varði ekki hagsmuni annarra en Fisfélags Reykjavíkur. Því hafi Reykjavíkurborg verið heimilt að samþykkja umsóknina með þeim hætti sem gert hafi verið. Í gildi sé deiliskipulag fyrir svæðið sem samþykkt hafi verið í borgarráði 9. desember 2010. Frávísunarkrafan byggist á því að hin umþrætta breyting hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni kærenda, hvorki í sjónrænu tilliti né öðru. Kærendur eigi því enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þeir einir geti kært ákvörðun sem eigi lögvarða hagsmuni henni tengda. Því beri að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:
Hin kærða ákvörðun felur í sér  breytingu á deiliskipulagi fyrir svæði Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði. Með úrskurði í máli nr. 18/2011, uppkveðnum 30. júlí 2015, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um ógildingu þess deiliskipulags. Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá þar sem kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun.

Sú ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu byggðist á 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar sem samþykkt var af borgarstjórn 18. desember 2012. Þar er kveðið á um að umhverfis- og skipulagsráð afgreiði, án staðfestingar borgarráðs, nánar tilgreind verkefni skv. skipulagslögum samkvæmt heimild í 42. gr. sveitarstjórnarlaga og viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir m.a. gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana. Er vísað til sveitarstjórnarlaga um þetta atriði, sem nú eru lög nr. 138/2011. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum segir um 2. mgr. 6. gr. að þar séu lagðar til breytingar til samræmis við ákvæði sveitarstjórnarlaga sem heimili að fela nefndum sveitarfélags fullnaðarafgreiðslu mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins. Lagt sé til að sveitarstjórn sé heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að vísa afgreiðslum til skipulagsnefnda. Er tekið fram í athugasemdunum að í slíkum samþykktum „… yrði að kveða á með skýrum hætti um hvað fælist í fullnaðarafgreiðslu mála hjá skipulagsnefnd, svo sem kynningu gagnvart sveitarstjórn, og hvort afstaða sveitarstjórnar þurfi að liggja fyrir á einhverju stigi mála“.

Í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga segir að sveitarstjórnir skuli gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annist. Skuli slík samþykkt send ráðuneytinu til staðfestingar. Ákveður sveitarstjórn valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. laganna. Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar, sbr. 2. mgr. 40. gr. Kveðið er á um framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála í 42. gr. laganna. Segir í 1. mgr. að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Þá segir í 4. mgr. að þegar sveitarstjórn nýti sér heimild skv. 1. mgr. skuli jafnframt kveða á um það í samþykkt sveitarfélagsins hver skuli taka fullnaðarákvörðun í máli skv. 3. mgr. og hvernig skuli fara með endurupptöku mála sem hljóti afgreiðslu samkvæmt þessum ákvæðum.

Um V. kafla sveitarstjórnarlaga um nefndir, ráð og stjórnir segir í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna að í ljósi þess að sveitarstjórn fari með æðsta vald í málefnum sveitarfélagsins, og taki ákvarðanir um stjórn þess og stjórnskipulag innan ramma laga, sé í frumvarpinu lagt til grundvallar að stærstu ákvarðanir um málefni sveitarfélagsins geti aðeins sveitarstjórnin sjálf tekið. Sveitarfélög fari með mikla hagsmuni og ákvarðanir um málefni þeirra geti haft mikil áhrif á íbúa sveitarfélaganna og jafnvel á þjóðfélagið í heild sinni. Enn fremur segir að það sé í samræmi við þann lýðræðislega grundvöll sem kjör sveitarstjórnar byggist á að eiginlegt ákvörðunarvald um mikilvæg málefni sé í hennar höndum, en ekki undirnefnda hennar eða einstakra starfsmanna.

Samþykkt fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar var samþykkt af borgarstjórn 18. desember 2012. Í henni er vísað til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Samþykkt nr. 715/2013 þess efnis var staðfest fyrir hönd innanríkisráðherra 8. júlí 2013 og öðlaðist gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m. Frá sama tíma féll eldri samþykkt um sama efni, ásamt viðaukum, úr gildi. Í VI. kafla gildandi samþykktar er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en borgarráð. Í 58. gr. samþykktarinnar er kveðið á um fullnaðarafgreiðslu og er orðalag greinarinnar áþekkt orðalagi 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Segir nánar í 1. mgr. 58. gr. að borgarstjórn geti ákveðið með viðauka við samþykktina að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Reykjavíkurborgar fullnaðarafgreiðslu mála og eru sett við því sömu skilyrði og er að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkir viðaukar við samþykktina höfðu ekki verið samþykktir þegar hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 19. mars 2014.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið samkvæmt skipulagslögum og er framsal þess valds undantekning frá greindri meginreglu. Heimild 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga til valdframsals innan sveitarfélaga er almenns eðlis en í 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn veitt sérstök heimild til framsals valds síns samkvæmt þeim lögum. Er ljóst af orðalagi ákvæðanna að valdframsal þetta fer fram í sérstakri samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélaga, en kveðið er á um slíkar samþykktir í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Fer lögmætt valdframsal ekki fram með öðrum hætti á þessum lagagrundvelli. Með hliðsjón af athugasemdum með frumvörpum til nefndra laga sem að framan eru raktar þykir einnig ljóst að í slíkri samþykkt þurfi að koma fram efnislegt valdframsal. Nægir í því sambandi ekki að endurtaka í samþykkt orðalag lagaheimildar til valdframsals heldur verður að koma skýrt fram í samþykktinni sjálfri hvert það vald er sem framselt er og hverjum. Valdframsal borgarstjórnar til umhverfis- og skipulagsráðs í samþykkt um umhverfis- og skipulagsráð frá 18. desember 2012 var því ekki í samræmi við lög.

Samkvæmt framansögðu brast umhverfis- og skipulagsráð vald til að samþykkja umþrætta deiliskipulagsbreytingu og verður að líta svo á að í samþykkt hennar hafi falist tillaga til sveitarstjórnar um afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar sem sveitarstjórn hefur ekki komið að málinu er ekki fyrir hendi lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

37/2015 Urðarhvarf

Með
Árið 2015, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 12. maí 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendahvarf – athafnasvæði vegna lóðar nr. 4 við Urðarhvarf.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. maí 2015, er barst nefndinni 20. s.m., kærir Hjörleifur B. Kvaran hrl., f.h. Húsa & lóða ehf., eiganda Urðarhvarfs 2, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. maí 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendahvarf – athafnasvæði vegna lóðar nr. 4 við Urðarhvarf. Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin fresti réttaráhrifum hennar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni. Var kröfu um frestun réttaráhrifa hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 22. júní 2015.

Með bréfi, dags. 3. júlí 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 3. júlí 2015 um að veita leyfi fyrir hækkun hússins á lóð nr. 4 við Urðarhvarf um eina hæð. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 50/2015, sameinað máli þessu. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 28. maí og 13. júlí 2015.

Málavextir: Hinn 19. janúar 2015 var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar umsókn, dags. 15. s.m., um breytt deiliskipulag vegna Urðarhvarfs 4, en þar er í gildi deiliskipulagið Vatnsendahvarf – athafnasvæði. Í breytingunni fólst að hús á lóðinni yrði hækkað um tvær hæðir með inndregna efstu hæð og að það yrði sjö hæðir auk kjallara. Heildarbyggingarmagn myndi aukast um 530 m2 og nýtingarhlutfall fara úr 0,8 í 0,93. Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu og var sú afgreiðsla staðfest af bæjarráði 22. janúar 2015 og bæjarstjórn 27. s.m. Tillagan var auglýst í fjölmiðlum 3. febrúar 2015 með athugasemdafresti til 23. mars s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Að lokinni kynningu var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 23. mars s.á. og málinu vísað til frekari meðferðar hjá skipulags- og byggingardeild Kópavogsbæjar. Á fundi skipulagsnefndar hinn 4. maí 2015 var hinni kynntu skipulagstillögu hafnað en fallist á hækkun umrædds húss um eina hæð í stað tveggja í samræmi við umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. sama dag. Heildarbyggingarmagn myndi þá aukast um 350 m2 og nýtingarhlutfall yrði 0,89. Var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest af bæjarráði 7. s.m. og í bæjarstjórn 12. s.m. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2015. Byggingarfulltrúi samþykkti hinn 3. júlí 2015 umsókn um leyfi til að hækka húsið á lóð nr. 4 við Urðarhvarf um eina hæð.

Hefur kærandi skotið fyrrgreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hækkun hússins að Urðarhvarfi 4 muni leiða til þess að það verði hærra en fasteign hans að Urðarhvarfi 2 og brjóti í bága við skipulags- og útlitshönnun hverfisins í heild. Engin frambærileg rök hafi verið færð fyrir hækkuninni en hún muni jafnframt hafa í för með sér þrengra umhverfi en áður hafi verið með aukinni umferð. Kærandi leigi út fasteign sína fyrir líkamsræktarstöð og gistiheimili. Eitt aðalsmerki gistiheimilisins sé víðfeðmt útsýni frá efstu hæðum hússins. Það útsýni muni skerðast verulega með heimilaðri hækkun hússins að Urðarhvarfi 4. Verði að gera þá kröfu til skipulagsyfirvalda sveitarfélaga og bæjarstjórna að deiliskipulagstillaga sé vönduð og að henni fylgi rökstuðningur. Gengið sé á grenndarhagsmuni kæranda og leiði breytingin til þess að fasteign hans muni lækka í verði.

Að auki sé á það bent að deiliskipulagstillagan standist ekki ákvæði 38. gr. sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem kveðið sé á um að sveitarstjórn/framkvæmdaraðili taki saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram komi hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhuguð skipulagsferli, s.s. um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaðilum. Hafi Kópavogsbær virt þessi lagaákvæði að vettugi og beri því að fella hina ólögmætu stjórnvaldsákvörðun úr gildi.

Séu gerðar verulegar athugasemdir við þau gögn sem fylgdu afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarstjórnar Kópavogsbæjar við afgreiðslu deiliskipulagsins. Hafi skýringarmyndir verið villandi og þá hafi kærandi ekki fengið vitneskju um sumar myndirnar fyrr en eftir að deiliskipulagið hafi verið samþykkt af bæjarstjórn. Lóðin nr. 4 við Urðarhvarf hafi verið fullbyggð samkvæmt breyttu deiliskipulagi sem hafi verið samþykkt 2007. Loks sé á það bent að afgreiðsla bæjarstjórnar stríði gegn ákvæðum skipulagslaga. Í 4. mgr. 41. gr. laganna sé kveðið á um að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagins er skírskotað til þess að umrætt svæði sé skipulagt sem atvinnuhúsnæði og verði að telja að aðrar kröfur séu gerðar til útsýnis á atvinnuhúsalóðum en á íbúðarhúsalóðum. Umsótt skipulagsbreyting hafi falið í sér hækkun um tvær hæðir, efsta hæðin yrði inndregin og byggingarmagn myndi aukast um 530 m2. Við meðferð málsins hafi verið talið rétt að koma til móts við athugasemdir kæranda að hluta og heimila hækkun um eina hæð í stað tveggja og aukið byggingarmagn um 350 m2. Hafi hin samþykkta tillaga því gengið skemur en hin kynnta tillaga og hafi því ekki verið þörf á að auglýsa tillöguna að nýju.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulagsbreytingar og veitingu byggingarleyfis sem heimilar hækkun húss að Urðarhvarfi 4 um eina hæð. Umrætt hús stendur á svæði sem hefur blandaða landnotkun verslunar og þjónustu og athafnasvæðis í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald í lögsagnarumdæmi sveitarfélags nema á annan veg sé mælt í lögum og annast gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við töku skipulagsákvarðana ber að líta til markmiða sem tíunduð eru í a-c lið 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en þar er tekið fram að ekki þurfi að gera lýsingu vegna breytinga á deiliskipulagi. Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar, fram komnum athugasemdum svarað, breytingin samþykkt og gildistaka hennar auglýst í samræmi við ákvæði 41. og 42. gr. skipulagslaga. Sú breyting sem gerð var á skipulagstillögunni eftir kynningu fól í sér að heimiluð var hækkun húss um eina hæð í stað tveggja og þar með dregið úr byggingarmagni og nýtingarhlutfall lækkað. Var því ekki þörf á að kynna tillöguna að nýju samkvæmt 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Heimilað nýtingarhlutfall lóða á þeim hluta skipulagsreits sem hér um ræðir er á bilinu 0,74-1,26 og hús 5-8 hæða. Með umþrættri skipulagsbreytingu verður nýtingarhlutfall lóðarinnar Urðarhvarfs 4 0,89 og hús á lóðinni hækkar um eina hæð og verður sex hæðir. Nýting umræddrar lóðar og umfang húss á henni telst því ekki óhófleg í samanburði við aðrar lóðir á skipulagssvæðinu. Vegna landhalla stendur Urðarhvarf 4 lægra en hús kæranda að Urðarhvarfi 2. Eftir heimilaða hækkun húss að Urðarhvarfi 4 yrði þakkóti þess 120,3 en þakkóti húss kæranda er 122,7 og rís húsið að Urðarhvarfi 4 því 2,4 m lægra en hús kæranda.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum að raskað geti gildi hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi á sér stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess og þar sem ekki verður talið að annmarkar hafi verið á undirbúningi og töku ákvörðunar um veitingu byggingarleyfisins, verður kröfu kæranda um ógildingu þess hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 12. maí 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsendahvarf – athafnarsvæði vegna lóðar nr. 4 við Urðarhvarf.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 3. júlí 2015 um að veita leyfi fyrir hækkun hússins á lóð nr. 4 við Urðarhvarf um eina hæð.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Hólmfríður Grímsdóttir                                            Þorsteinn Þorsteinsson