Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2014 Reynifellskrókur

Árið 2015, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 61/2014, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangársþings ytra frá 13. maí 2013 að samþykkja að veita leyfi til að byggja frístundahús á lóð nr. 2b í landi Reynifells. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2014, sem barst 4. s.m., kærir eigandi lóðar nr. 6 í Reynifellskrók í landi Reynifells, Rangárþingi Ytra, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra frá 13. maí 2013 að samþykkja að veita leyfi til að byggja frístundahús á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. júní 2015, gerir sami aðili þá kröfu um að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 13. maí 2013 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra að veita leyfi fyrir byggingu frístundahúss á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Var byggingarleyfið gefið út 21. s.m.

Kærandi skírskotar til þess að húsið samræmist ekki byggingarskilmálum svæðisins. Húsið sé of lítið, húslagið ekki í samræmi við önnur hús og efnið sem notað sé á húsið sé ekki í samræmi við húsin á svæðinu. Hið umrædda hús stingi mjög í stúf við landslagið og önnur hús og rýri útlit svæðisins. Sjónmengun sé mikil vegna hússins. Auk þess geti hin kærða ákvörðun gefið fordæmi fyrir því að fleiri hús af þessu tagi rísi á svæðinu.

Af hálfu Rangárþings ytra er skírskotað til þess að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin um að leyfa tiltekna stærð á sumarhúsi þrátt fyrir ákvæði um lágmarksstærð í byggingarskilmálum svæðisins. Sé það mjög eðlilegt að leyfa byggjendum að byrja smátt með möguleika á stækkun eða viðbyggingu síðar. Í byggingarskilmálum segi að hús skulu byggð úr timbri. Tiltekið hús sé alfarið úr timbri en veðurkápa sé þó úr stáli. Nokkuð sé um að sumarhús á svæðinu hafi ómálað stál á þökum og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við umrætt efni á útvegg þar sem auðvelt sé að mála það í þeim lit sem hæfir. Hafi verið rétt staðið að veitingu umrædds byggingarleyfis samkvæmt lögum og reglum og almennum hefðum í landinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþing ytra að veita leyfi til að byggja frístundahús í landi Reynifells þar sem kærandi á einnig frístundahús, en hann telur að húsið samræmist ekki skilmálum svæðisins.  

Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ljóst að framkvæmdum við byggingu hins umdeilda frístundahús var að mestu lokið þegar stöðvunarkrafa kæranda kom fram. Þykir af þeim sökum ekki hafa þýðingu að stöðva framkvæmdir á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir