Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

37/2015 Urðarhvarf

Árið 2015, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 12. maí 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendahvarf – athafnasvæði vegna lóðar nr. 4 við Urðarhvarf.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. maí 2015, er barst nefndinni 20. s.m., kærir Hjörleifur B. Kvaran hrl., f.h. Húsa & lóða ehf., eiganda Urðarhvarfs 2, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. maí 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendahvarf – athafnasvæði vegna lóðar nr. 4 við Urðarhvarf. Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin fresti réttaráhrifum hennar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni. Var kröfu um frestun réttaráhrifa hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 22. júní 2015.

Með bréfi, dags. 3. júlí 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 3. júlí 2015 um að veita leyfi fyrir hækkun hússins á lóð nr. 4 við Urðarhvarf um eina hæð. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 50/2015, sameinað máli þessu. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 28. maí og 13. júlí 2015.

Málavextir: Hinn 19. janúar 2015 var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar umsókn, dags. 15. s.m., um breytt deiliskipulag vegna Urðarhvarfs 4, en þar er í gildi deiliskipulagið Vatnsendahvarf – athafnasvæði. Í breytingunni fólst að hús á lóðinni yrði hækkað um tvær hæðir með inndregna efstu hæð og að það yrði sjö hæðir auk kjallara. Heildarbyggingarmagn myndi aukast um 530 m2 og nýtingarhlutfall fara úr 0,8 í 0,93. Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu og var sú afgreiðsla staðfest af bæjarráði 22. janúar 2015 og bæjarstjórn 27. s.m. Tillagan var auglýst í fjölmiðlum 3. febrúar 2015 með athugasemdafresti til 23. mars s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Að lokinni kynningu var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 23. mars s.á. og málinu vísað til frekari meðferðar hjá skipulags- og byggingardeild Kópavogsbæjar. Á fundi skipulagsnefndar hinn 4. maí 2015 var hinni kynntu skipulagstillögu hafnað en fallist á hækkun umrædds húss um eina hæð í stað tveggja í samræmi við umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. sama dag. Heildarbyggingarmagn myndi þá aukast um 350 m2 og nýtingarhlutfall yrði 0,89. Var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest af bæjarráði 7. s.m. og í bæjarstjórn 12. s.m. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2015. Byggingarfulltrúi samþykkti hinn 3. júlí 2015 umsókn um leyfi til að hækka húsið á lóð nr. 4 við Urðarhvarf um eina hæð.

Hefur kærandi skotið fyrrgreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hækkun hússins að Urðarhvarfi 4 muni leiða til þess að það verði hærra en fasteign hans að Urðarhvarfi 2 og brjóti í bága við skipulags- og útlitshönnun hverfisins í heild. Engin frambærileg rök hafi verið færð fyrir hækkuninni en hún muni jafnframt hafa í för með sér þrengra umhverfi en áður hafi verið með aukinni umferð. Kærandi leigi út fasteign sína fyrir líkamsræktarstöð og gistiheimili. Eitt aðalsmerki gistiheimilisins sé víðfeðmt útsýni frá efstu hæðum hússins. Það útsýni muni skerðast verulega með heimilaðri hækkun hússins að Urðarhvarfi 4. Verði að gera þá kröfu til skipulagsyfirvalda sveitarfélaga og bæjarstjórna að deiliskipulagstillaga sé vönduð og að henni fylgi rökstuðningur. Gengið sé á grenndarhagsmuni kæranda og leiði breytingin til þess að fasteign hans muni lækka í verði.

Að auki sé á það bent að deiliskipulagstillagan standist ekki ákvæði 38. gr. sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem kveðið sé á um að sveitarstjórn/framkvæmdaraðili taki saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram komi hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhuguð skipulagsferli, s.s. um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaðilum. Hafi Kópavogsbær virt þessi lagaákvæði að vettugi og beri því að fella hina ólögmætu stjórnvaldsákvörðun úr gildi.

Séu gerðar verulegar athugasemdir við þau gögn sem fylgdu afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarstjórnar Kópavogsbæjar við afgreiðslu deiliskipulagsins. Hafi skýringarmyndir verið villandi og þá hafi kærandi ekki fengið vitneskju um sumar myndirnar fyrr en eftir að deiliskipulagið hafi verið samþykkt af bæjarstjórn. Lóðin nr. 4 við Urðarhvarf hafi verið fullbyggð samkvæmt breyttu deiliskipulagi sem hafi verið samþykkt 2007. Loks sé á það bent að afgreiðsla bæjarstjórnar stríði gegn ákvæðum skipulagslaga. Í 4. mgr. 41. gr. laganna sé kveðið á um að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagins er skírskotað til þess að umrætt svæði sé skipulagt sem atvinnuhúsnæði og verði að telja að aðrar kröfur séu gerðar til útsýnis á atvinnuhúsalóðum en á íbúðarhúsalóðum. Umsótt skipulagsbreyting hafi falið í sér hækkun um tvær hæðir, efsta hæðin yrði inndregin og byggingarmagn myndi aukast um 530 m2. Við meðferð málsins hafi verið talið rétt að koma til móts við athugasemdir kæranda að hluta og heimila hækkun um eina hæð í stað tveggja og aukið byggingarmagn um 350 m2. Hafi hin samþykkta tillaga því gengið skemur en hin kynnta tillaga og hafi því ekki verið þörf á að auglýsa tillöguna að nýju.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulagsbreytingar og veitingu byggingarleyfis sem heimilar hækkun húss að Urðarhvarfi 4 um eina hæð. Umrætt hús stendur á svæði sem hefur blandaða landnotkun verslunar og þjónustu og athafnasvæðis í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald í lögsagnarumdæmi sveitarfélags nema á annan veg sé mælt í lögum og annast gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við töku skipulagsákvarðana ber að líta til markmiða sem tíunduð eru í a-c lið 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en þar er tekið fram að ekki þurfi að gera lýsingu vegna breytinga á deiliskipulagi. Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar, fram komnum athugasemdum svarað, breytingin samþykkt og gildistaka hennar auglýst í samræmi við ákvæði 41. og 42. gr. skipulagslaga. Sú breyting sem gerð var á skipulagstillögunni eftir kynningu fól í sér að heimiluð var hækkun húss um eina hæð í stað tveggja og þar með dregið úr byggingarmagni og nýtingarhlutfall lækkað. Var því ekki þörf á að kynna tillöguna að nýju samkvæmt 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Heimilað nýtingarhlutfall lóða á þeim hluta skipulagsreits sem hér um ræðir er á bilinu 0,74-1,26 og hús 5-8 hæða. Með umþrættri skipulagsbreytingu verður nýtingarhlutfall lóðarinnar Urðarhvarfs 4 0,89 og hús á lóðinni hækkar um eina hæð og verður sex hæðir. Nýting umræddrar lóðar og umfang húss á henni telst því ekki óhófleg í samanburði við aðrar lóðir á skipulagssvæðinu. Vegna landhalla stendur Urðarhvarf 4 lægra en hús kæranda að Urðarhvarfi 2. Eftir heimilaða hækkun húss að Urðarhvarfi 4 yrði þakkóti þess 120,3 en þakkóti húss kæranda er 122,7 og rís húsið að Urðarhvarfi 4 því 2,4 m lægra en hús kæranda.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum að raskað geti gildi hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi á sér stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess og þar sem ekki verður talið að annmarkar hafi verið á undirbúningi og töku ákvörðunar um veitingu byggingarleyfisins, verður kröfu kæranda um ógildingu þess hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 12. maí 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsendahvarf – athafnarsvæði vegna lóðar nr. 4 við Urðarhvarf.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 3. júlí 2015 um að veita leyfi fyrir hækkun hússins á lóð nr. 4 við Urðarhvarf um eina hæð.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Hólmfríður Grímsdóttir                                            Þorsteinn Þorsteinsson