Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2014 Brautarholt

Árið 2015, miðvikudaginn 19. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 35/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs frá 20. febrúar 2014 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Brautarholt 7. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Hulda Árnadóttir hdl., f.h. Hvíta hússins ehf., S. Waage ehf. og XO eignarhaldsfélags ehf., eigenda og rekstraraðila Brautarholts 6 og 8, þá ákvörðun borgarráðsfrá 20. febrúar 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir Brautarholt 7. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 23. júlí 2015, gera sömu aðilar þá kröfu að fyrirhugaðar framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Á árinu 1987 var samþykkt deiliskipulag fyrir reit sem markast af Laugavegi, Mjölnisholti, Brautarholti og Ásholti. Þar var skipulagssvæðinu skipt upp í tvo hluta, þ.e. nyrðri hluta sem tekur til lóðarinnar Ásholts 2-42 og syðri hluta sem er lóðin Brautarholt 7. Gert var ráð fyrir bæði íbúðum og atvinnustarfsemi á hvoru svæði fyrir sig. Uppbygging á nyrðri hluta svæðisins gekk eftir en ekki hefur átt sér stað uppbygging á syðri hlutanum. Hinn 20. febrúar 2014 samþykkti borgarráð nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Brautarholt 7 sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þar um 1. apríl s.á. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir að á lóðinni megi reisa 100 íbúðir fyrir nemendur með þjónustustarfsemi á hluta jarðhæðar. Hinn 22. júlí 2015 birtist frétt í fjölmiðlum þess efnis að framkvæmdir myndu hefjast á svæðinu 23. s.m.

Kærendur skírskota til þess rík og veigamikil rök hnígi að því að stöðva beri yfirvofandi framkvæmdir til bráðabirgða. Hið umþrætta deiliskipulag sé í andstöðu við lög og að ekkert sé fram komið hjá Reykjavíkurborg sem breyti þeirri staðreynd. Hafi kærendur þungar áhyggjur af því að veruleg fækkun bílastæða, frá því sem áður hafi verið gert ráð fyrir, muni koma til með að hafa neikvæð áhrif á  umferð á svæðinu og auki á bílastæðavanda einstaklinga og atvinnufyrirtækja sem sé þar staðsett. Verði yfirvofandi framkvæmdir ekki stöðvaðar verði réttur kærenda til að bera mál sitt undir úrskurðarnefndina að engu hafður. Því sé afar brýnt að óafturkræfar framkvæmdir verði stöðvaðar þegar í stað áður en hagsmunum þeim sem kærunni sé ætlað að verja verði fórnað.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að deiliskipulagið sé í fullu samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkurborgar 2010-2030. Sé hvorki í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 né byggingarreglugerð nr. 112/2012 gerð lágmarkskrafa um fjölda bílastæða á hverja íbúð. Við skipulagsgerðina hafi verið litið til samþykktar umhverfis- og skipulagsráðs varðandi bílastæðamál á svæðinu. Málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við skipulagslög, reglugerðir og stjórnsýslulög, þ.á.m. meðalhófs- og jafnræðisreglu þeirra laga. Við ákvörðun um fjölda bílastæða hafi verið tekið mið af stefnu gildandi aðalskipulags í þeim efnum og því að svæðið sé í nágrenni við samgöngumiðstöð. Hafi það verið ein af ástæðum þess að ákveðið hafi verið að staðsetja stúdentaíbúðir á greindum stað.  

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt.  Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekinnar lóðar. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, er slík auglýsing skilyrði fyrir gildistöku deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur þó ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir