Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2011 Nönnustígur

Árið 2015, föstudaginn 14. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 14/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. febrúar 2011, sem barst nefndinni sama dag, kærir Sverrir Pálsson hdl., f.h. Á, Reykjavíkurvegi 27, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 8. desember 2010 að veita að nýtt byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum á lóð nr. 2 við Nönnustíg í Hafnarfirði. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök: Að undangenginni grenndarkynningu samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar hinn 13. maí 2009 umsókn um gerð tveggja bílastæða á lóðinni Nönnustíg 2.  Kærendur sendu bæjaryfirvöldum erindi, dags. 22. október 2010, þar sem mælst var til þess að nefnt byggingarleyfi yrði fellt úr gildi þar sem meira en tólf mánuðir væru liðnir frá samþykki leyfisins án þess að ráðist hefði verið í framkvæmdir.  Málið var á dagskrá skipulags- og byggingarráðs 16. nóvember 2010 þar sem ákveðið var að beina því til eigenda Nönnustígs 2 að sækja skriflega um endurnýjun byggingarleyfisins. Umsókn um endurnýjun leyfis varðandi lóðarfrágang sem veitt var 13. maí 2009 var síðan samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 8. desember 2010 og staðfest í bæjarstjórn 17. s.m.  Kærendur fóru fram á rökstuðning bæjaryfirvalda fyrir þeirri ákvörðun að veita leyfishafa tækifæri til að endurnýja umrætt byggingarleyfi í stað þess að afturkalla það. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. janúar 2011, kemur fram að skipulags- og byggingarráð taki undir og geri að sínu svar skipulags- og byggingarsviðs við erindi kærenda. Tekið er fram að umdeild framkvæmd hafi verið grenndarkynnt á sínum tíma og þá hafi borist athugasemd frá kærendum. Byggingarleyfið hafi verið samþykkt með vísan til fyrri afgreiðslu og þess að ekkert nýtt hafi komið fram sem breyti þeirri niðurstöðu. Framkvæmdin sé jafnframt í samræmi við gr. 64.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Kærendur byggja kröfu sína á því að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ólögmæt og hún sé því ógildanleg. Enga heimild sé að finna í lögum til að endurnýja byggingarleyfi líkt og gert hafi verið í máli þessu en verði svo talið sé um nýja stjórnvaldsákvörðun að ræða sem sæta þurfi meðferð samkvæmt form- og efnisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í kæru var boðaður frekari rökstuðningur kærenda en hann hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Bæjaryfirvöld benda á að eðlilegt hafi þótt að gefa byggingarleyfishafa kost á að gefa skýringu á því hvers vegna framkvæmdir sem heimilaðar voru á árinu 2009 hafi tafist og honum hafi verið leiðbeint um framhald málsins. Fullnægjandi skýringar á töfunum hafi borist bæjaryfirvöldum. Þótt hafi til bóta að tvö bílastæði væru gerð innan lóðar í stað eins sem var í landi bæjarins. Engin breyting hefði orðið á afstöðu bæjaryfirvalda í þessu efni þótt erindið hefði verið grenndarkynnt að nýju þar sem nágrannar hafi verið þeir sömu og við fyrri afgreiðslu byggingarleyfisins.

Niðurstaða: Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997  gátu þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem áttu lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Kærendur byggja málskot sitt vegna hins umdeilda byggingarleyfis á atvikum er tengjast réttarstöðu þeirra sem eigenda fasteignarinnar að Reykjavíkurvegi 27 í Hafnarfirði, sem liggur að lóð þeirri er leyfið tekur til. Fyrir liggur kaupsamningur dags. 1. apríl 2014 þar sem kærendur selja fasteignina að Reykjavíkurvegi 27 og samkvæmt samningnum var eignin afhent hinn 1. júlí s.á. Afsal fyrir fasteigninni var gefið út hinn 23. mars 2015 og þinglýst. Frá þeim tíma hafa kærendur ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar sem heimilaði gerð tveggja bílastæða á nágrannalóð.

Vegna þessara ástæðna eiga kærendur nú ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreiningsefni máls þessa og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ómar Stefánsson