Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2015 Sævangur

Árið 2015, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
 
Fyrir var tekið mál nr. 61/2015, kæra á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2015, sem barst nefndinni 5. ágúst s.á., kærir G Sævangi 7, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 22. júlí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 22. júlí 2015 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði.

Kærandi skírskotar til þess að gert sé ráð fyrir að staurar á lóðamörkum, sólpallur og sorpskýli verði nær lóðamörkum en byggingarreglugerð heimili. Þá liggi frárennslislagnir frá Sævangi 7 rétt innan við lóðarmörk og ógerlegt gæti orðið að komast að þeim. Gluggar séu á bílskúr Sævangs 7, u.þ.b. 1,5 m frá lóðamörkum, og eldvarnarkröfum sé ekki fullnægt þegar timburmannvirki standi svo nálægt skúrnum.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um lóðauppdrætti, skjólveggi og girðingar á lóðum. Auk þess er skírskotað til þess að hinn 16. desember 2009 hafi byggingarfulltrúi samþykkt erindi er laut að frágangi lóðar að Sævangi 5. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þá samþykkt. Meginbreytingin sem í hinni kærðu ákvörðun felist sé sú að heitur pottur sé færður til á lóðinni, bílastæðum á lóðinni fjölgað úr tveimur í þrjú og staðsetning sorpskýlis sé færð inn á lóðaruppdrátt.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar að veita byggingarleyfi fyrir sólpalli og skjólveggjum á lóð Sævangs 5 í Hafnarfirði. Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Leikur meðal annars vafi á því hvort hún samræmist ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Framkvæmdir eru langt komnar. Eigi að síður þykir rétt að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, enda geta þær haft röskun í för með sér fyrir hann. Byggingarleyfishafi getur hins vegar óskað þess að málið sæti flýtimeðferð, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir sem hafnar eru á lóð Sævangs 5 á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                      ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                               Þorsteinn Þorsteinsson