Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2014 Viðvík

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 26. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 21/2014, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra um álagningu heilbrigðiseftirlitsgjalds fyrir árið 2012 vegna vatnsveitu að Viðvík í sveitarfélaginu Skagafirði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. mars 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir K, Viðvík, Sauðárkróki, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra að leggja á kæranda heilbrigðiseftirlitsgjald fyrir árið 2012 vegna vatnsveitu að Viðvík í sveitarfélaginu Skagafirði. Skilja verður málskot kæranda svo að að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefninni 11. apríl 2014.

Málsatvik og rök: Með greiðsluseðli gefnum út 31. desember 2012 var lagt á kæranda „heilbrigðiseftirlitsgjald 2012“, kr. 19.056, með gjalddaga 21. janúar 2013 og eindaga 4. febrúar s.á. Gjaldið kom til vegna eftirlits á vegum Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra á vatnsveitu kæranda að Viðvík í Skagafirði þar sem fram fer mjólkurframleiðsla. Með tölvupósti 5. febrúar s.á. var gjaldinu mótmælt af hálfu kæranda. Var þess farið á leit að gjaldtakan yrði rökstudd og krafan felld niður. Svar barst frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra með tölvupósti 14. s.m. Í framhaldinu var eindaga frestað til 10. mars s.á. að ósk kæranda.

Með tölvupósti heilbrigðiseftirlitsins 17. júlí 2013 var kæranda bent á að hann gæti vísað ágreiningi um framkvæmd laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvernd og reglugerða settra samkvæmt þeim til sérstakrar úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, sbr. 31. gr. laganna. Heilbrigðiseftirlitið hefði gefið umbeðnar skýringar á gjaldtökunni en ef enn væri ágreiningur um hana væri rétti farvegurinn að kæra málið til úrskurðarnefndarinnar. Hinn 9. október s.á. var kæranda svo tilkynnt með tölvupósti frá að á næsta fundi heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra yrði lagt til að starfsleyfi vatnsveitu kæranda yrði fellt úr gildi þar sem ekki hefðu enn verið greidd lögbundin eftirlitsgjöld fyrir árið 2013. Var kæranda gefinn kostur á að koma fram sínum sjónarmiðum á fundi heilbrigðisnefndarinnar og var jafnframt ítrekuð ábending um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar. Samdægurs var heilbrigðiseftirlitinu tjáð að kært hefði verið til úrskurðarnefndarinnar um sumarið en erindi kæranda þar um mun hafa verið verið sent til umhverfis- og auðlindaráðuneytis í stað úrskurðarnefndarinnar. Í tölvupósti 11. október 2013 áréttaði heilbrigðiseftirlitið að ágreiningnum skyldi skotið til nefndarinnar. Hinn 2. desember 2013 barst kæranda svarbréf frá umhverfis og auðlindaráðuneyti og er í niðurlagi þess bent á að heimilt sé að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar. Í kjölfar frekari samskipta við heilbrigðiseftirlitið skaut kærandi málinu svo til úrskurðarnefndarinnar hinn 25. mars 2014, svo sem að framan greinir.

Kærandi krefst niðurfellingar eftirlitsgjaldsins á þeirri forsendu að gjaldið hafi hvorki stoð í lögum né gjaldskrá. Sýni sé eingöngu tekið annað hvert ár en gjaldið innheimt á hverju ári. Ekki sé lögmætt að innheimta gjald fyrir árið 2012 þegar ekkert sýni hafi verið tekið. Gjaldskráin sé breytileg þar sem hún byggi á áætlunum sem breytist á milli ára og megi ekki vera hærri en sem nemi kostnaði við eftirlitið. Sé gjaldtakan ólögmæt þar sem ekki sé neinn kostnaður við sýnatökuna þau ár sem ekkert sýni er tekið.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra er bent á að kærufrestur sé liðinn samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011 en heilbrigðiseftirlitið vilji gjarnan láta skera úr málinu. Bent sé á að samkvæmt lögum og reglugerðum hafi heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga umsjón með neysluvatni sem feli í sér eftirlit með vatnsvernd, skoðun vatnsbóla, innra eftirlit og sýnatöku. Árið 2004 hafi Umhverfisstofnun farið að gera ríkari kröfur til vatnsveitna er þjónuðu mjólkurframleiðendum á þeim grundvelli að þar færi fram matvælaframleiðsla samkvæmt matvælalögum nr. 93/1995. Nú sé skylt að taka sýni annað hvert ár úr þeim vatnsbólum sem sýnt hefðu góðar niðurstöður tvö ár í röð. Gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra hafi verið samþykkt af heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra, eins og lög kveði á um, og birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurstaða: Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, ásamt síðari breytingum. Samkvæmt 2. mgr. 31. gr. fer um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er kærufrestur í máli einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Kæranda var ítrekað leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar eins og nánar er rakið í málsatvikum. Kæra barst nefndinni hins vegar ekki fyrr en 25. mars 2014 eða ríflega þremur mánuðum frá því að kæranda var síðast leiðbeint um kæruleið og var þá liðið á fjórtánda mánuð frá hinni umdeildu álagningu og mótmælum kæranda á henni. Þar sem kæra í máli þessu barst þegar meira en ár var liðið frá því að kæranda var kunnugt um hina kærðu ákvörðun er óheimilt að taka málið til efnismeðferðar, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

1/2015 Hólmbergsbraut

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2015, kæra á samþykkt byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 13. nóvember og 10. desember 2014 um að veita leyfi fyrir smávægilegum breytingum á innra skipulagi og til að bæta við innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101, Reykjanesbæ, og á samþykkt byggingarfulltrúa einnig frá 10. desember 2014 á teikningum vegna breytinga á frárennsli og niðursetningu olíuskilju á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. janúar 2015, sem barst nefndinni 8. s.m., kærir Björg Ásta Þórðardóttir lögfræðingur, f.h. Summus ehf., eiganda eignarhluta 0110 við Hólmbergsbraut 1, þá samþykkt byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 13. nóvember og 10. desember 2014 að veita leyfi fyrir breytingu á innra skipulagi og bæta við innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi hvað varðar innkeyrsludyr. Að auki er þess krafist að ákvörðun byggingarfulltrúans frá 10. desember s.á. um að samþykkja teikningar vegna breytinga á frárennsli og niðursetningu olíuskilju á sömu lóð verði felld úr gildi og að leyfishafa verði gert að fjarlægja nefnda olíuskilju að viðlögðum dagsektum. Loks er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var fallist á þá kröfu í úrskurði uppkveðnum 30. janúar 2015.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 20. janúar og 18. febrúar 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar hinn 13. nóvember 2014 var samþykkt umsókn Blue Car Rental ehf. um leyfi til að breyta innra skipulagi og setja innkeyrsludyr á vesturhlið Hólmbergsbrautar 2 [svo], matshluta 0101, en húsið er fjöleignarhús sem skiptist í 10 séreignarhluta. Sama dag var haldinn fyrsti aðalfundur húsfélagsins Hólmbergsbraut 1, þar sem leyfishafi gerði grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum, sem og því að koma ætti fyrir olíuskilju sem væri í hans eigu. Með bréfi, dags. 19. s.m., var leyfishafa tilkynnt um samþykkt á umsókn hans um byggingarleyfi fyrir smávægilegum breytingum á innra skipulagi og innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1 samkvæmt aðaluppdráttum, dags. 27. október 2014. Hinn 24. nóvember s.á. var greindri olíuskilju komið fyrir.

Hinn 10. desember 2014 samþykkti byggingarfulltrúi annars vegar uppdrætti, dags. 27. október s.á., vegna breytinga á innra skipulagi og nýrra innkeyrsludyra og hins vegar uppdrætti, dags. 5. nóvember s.á., vegna olíuskilju og breytinga á frárennsli tengdum henni.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hin kærða framkvæmd sé byggingarleyfisskyld á grundvelli 9. gr. laga um mannvirki og beri að afla samþykkis sameigenda svo slík framkvæmd sé heimil, sbr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Ótækt sé að leyfishafi hafi það í hendi sér hvernig heildarútlit fasteignarinnar sé án nokkurs samráðs við aðra eigendur fasteignarinnar. Hafi leyfishöfum borið að leita samþykkis annarra eigenda áður en umsókn hafi verið lögð inn. Að auki hafi leyfishafar fengið leyfi til að framkvæma breytingu á sameignarlóð án fyrirliggjandi samþykkis ⅔ hluta eigenda fasteignarinnar, sbr. 2. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga. Framkvæmdin felist í niðursetningu á tæplega 7 m langri olíuskilju sem tengist sameiginlegum frárennslislögnum. Sé greind framkvæmd byggingarleyfisskyld og eigi sér stað utan við sérafnotaflöt matshluta 0101 samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu. Takmarki framkvæmdin möguleika annarra meðeigenda til að setja niður olíuskilju vegna starfsemi sinnar. Sé ljóst að samþykki sameigenda lóðarinnar hafi ekki legið fyrir og hafi byggingarfulltrúa því verið óheimilt að samþykkja teikninguna sem hafi legið umræddum framkvæmdum til grundvallar. Af þeim sökum beri að fella ákvörðun byggingarfulltrúa úr gildi og skylda leyfishafa til að fjarlægja umrædda olíuskilju. Sé ljóst að hin kærða ákvörðun sé ólögmæt og að umþrættar framkvæmdir séu til tjóns fyrir aðra meðeigendur, þ.á m. kæranda.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að kæran sé of seint fram komin þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið tekin 13. nóvember 2014 en kæran hafi ekki borist fyrr en tæpum tveimur mánuðum síðar.

Leyfishöfum hafi verið bent á að ræða við meðeigendur og fá formlegt samþykki vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Að auki hafi verið bent á að þar sem húsið væri fjöleignarhús væri rétt að koma á fót formlegu húsfélagi. Hafi umræða meðeigenda um útlitsbreytingu, þ.e. að bæta við innkeyrsludyrum, verið jákvæð og sumir upplýst að þeir hefðu áhuga á að gera slíkt hið sama við sína eignarhluta. Afgreiðsla byggingarfulltrúa á umsókn leyfishafa um byggingarleyfi fyrir minniháttar breytingum á innra skipulagi og óverulegri útlitsbreytingu hafi því verið jákvæð. Að mati embættisins feli framkvæmdin ekki í sér aukin umsvif í starfsemi leyfishafa og sé hún á engan hátt íþyngjandi fyrir meðeigendur hússins. Kostnaður við framkvæmdina sé alfarið á hendi eigenda eignarhluta 0101 og viðhaldskostnaður á ytri skel hússins muni ekki aukast.

Byggingarfulltrúi hafi tekið tillit til þeirra sjónarmiða leyfishafa að ekki sé fýsilegt að deila olíuskilju með samkeppnisaðilum. Hafi leyfishafi sótt það fast að vera með sjálfstæðan búnað á sérafnotafleti lóðar. Rökin séu fyrst og fremst þau að ekki sé samkomulag milli meðeigenda um sameiginlega olíuskilju fyrir allt húsið. Grundvallist útgáfa starfsleyfis frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja á því að viðurkenndur hreinsibúnaður sé á frárennsli frá mengandi starfsemi og hafi heilbrigðiseftirlitið ekki gert athugasemdir við umþrætta olíuskilju.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi telur að vísa eigi málinu frá þar sem kæran sé of seint fram komin. Verði ekki fallist á þau rök sé á það bent að leyfishafi sé í beinni samkeppni við kæranda málsins. Teikningar hafi fylgt með byggingarleyfisumsókn, sem hafi sýnt greinilega hvað fælist í fyrirhuguðum framkvæmdum og hafi þær verið kynntar byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar. Nauðsynlegt hafi verið að setja upp umþrætta olíuskilju þar sem heilbrigðisnefnd Suðurnesja hafi gert það að skilyrði fyrir starfsleyfi.

Á húsfundi hafi leyfishafi kynnt fyrir fundarmönnum samþykkt byggingaráform um að bæta við innkeyrsludyrum og setja niður olíuskilju. Hafi hvorki verið gerðar athugasemdir af hálfu kæranda á fundinum né annarra eigenda. Á fundinum hafi kærandi komið með þá tillögu að allir eigendur skyldu í sameiningu koma upp olíuskilju og hafi hann ætlað að leita eftir tilboðum. Hafi leyfishafi ekki getað beðið eftir þeirri athugun og því farið í framkvæmdir í samræmi við útgefið byggingarleyfi. Fylgi því áhætta að hafa sameiginlega olíuskilju en að auki myndi slík framkvæmd taka tíma sem leyfishafi hefði ekki haft. Þrátt fyrir að ekki hafi fylgt formlegt samþykki annarra eigenda með byggingarleyfisumsókninni þá liggi engu að síður fyrir að byggingarleyfið hafi verið kynnt öðrum sameigendum á húsfundi 13. nóvember 2014, án sérstakra athugasemda. Hafi því mátt líta svo á að sameigendur væru samþykkir framkvæmdinni. Framkvæmdirnar séu ekki verulegar og þarfnist ekki samþykkis allra sameigenda skv. 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga. Þær snúi fyrst og fremst að séreign leyfishafa og snerti ekki aðra sameigendur. Olíuskiljan sé að öllu leyti niðurgrafin á sérafnotafleti leyfishafa og hvíli lögboðin skylda á honum að koma henni fyrir. Um slíkar framkvæmdir gildi 2. mgr. 37. gr. fjöleignarhúsalaga, sem heimili leyfishafa framkvæmdina án sérstaks samþykkis. Þá sé því mótmælt að olíuskilja leyfishafa komi á einhvern hátt í veg fyrir að kærandi geti sett niður olíuskilju á eigin sérafnotafleti.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingar á innra skipulagi og uppsetningu á innkeyrsludyrum á einum eignarhluta af tíu í atvinnuhúsnæði við Hólmbergsbraut 1. Er og deilt um samþykkt byggingarfulltrúa á teikningum vegna greindra framkvæmda sem og á teikningum vegna breytinga á frárennsli og niðursetningar olíuskilju á sömu lóð. Auk þess krefst kærandi þess að úrskurðarnefndin geri leyfishafa að fjarlægja olíuskiljuna að viðlögðum dagsektum. Beiting slíkra þvingunarúrræða er ekki á forræði úrskurðarnefndarinnar, sbr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og tekur nefndin því aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests ræðst af því hvenær kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um efni kæranlegrar ákvörðunar miðað við málsatvik.

Í málinu liggur fyrir að byggingaráform voru samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. nóvember 2014. Bókun byggingarfulltrúa tilgreinir umsókn um byggingarleyfi að Hólmbergsbraut 2 fyrir smávægilegum breytingum á innra skipulagi og að einnig sé verið að bæta við innkeyrsludyrum á vesturhlið samkvæmt aðaluppdráttum, dags. 27. október s.á. Þeir uppdrættir voru hins vegar ekki samþykktir fyrr en 10. desember s.á, eða tæpum mánuði eftir að byggingaráform voru samþykkt. Hafa þær skýringar fengist af hálfu sveitarfélagsins að þær hafi verið ranglega merktar Hólmbergsbraut 2 í stað Hólmbergsbraut 1 og því hafi verið farið fram á leiðréttar teikningar. Hvorki byggingarleyfisumsóknin né samþykkt byggingarfulltrúa á byggingaráformum ber með sér framkvæmdir vegna olíuskilju. Hins vegar liggur fyrir í málinu uppdráttur, dags. 5. nóvember 2014, þar sem gert er ráð fyrir niðursetningu á tæplega sjö metra olíuskilju og breytingum á frárennsli vegna þess. Er sá uppdráttur einnig áritaður um samþykki 10. desember s.á. Með hliðsjón af framangreindu verður að líta svo á kærandi hafi ekki getað gert sér fyllilega grein fyrir því hvaða framkvæmdir hefðu verið samþykktar fyrr en með áritun aðaluppdrátta þar um, eins og áður er lýst. Miðast upphaf kærufrests við það tímamark, þ.e. 10. desember 2014. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 8. janúar 2015, eða innan lögmælts kærufrests, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 8. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, sbr. einnig 6. gr. laganna, telst allt ytra byrði húss í sameign allra eigenda fjöleignarhúss. Gildir það þótt fjöleignarhús samanstandi af einingum sem eru sjálfstæðar eða aðgreindar að einhverju leyti, sbr. 2. mg. nefndrar 6. gr. Þá fellur öll lóð húss og mannvirki, búnaður og tilfæringar á henni undir sameign fjöleignarhúss, sbr. 5. tl. 8. gr. Allir eigendur sameignar í fjöleignarhúsi eiga óskoraðan rétt á að taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina, bæði innan húss sem utan, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna. Samkvæmt 30. gr. sömu laga verða ekki gerðar breytingar á sameign nema með samþykki meðeiganda. Hvað sem líður fyrirkomulagi sérafnotaflata leyfishafa og annarra eigenda Hólmbergsbrautar 1 sem lýst er í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu stendur fjöleignarhúsið samkvæmt sömu eignaskipatyfirlýsingu á lóð sem er í „hlutfallslegri en óskiptri sameign“. Er af öllu því sem að framan er rakið ljóst að samþykkis meðeiganda var þörf fyrir hinum umþrættu byggingaráformum að því er varðaði innkeyrsludyr, breytingar á frárennsli og lagningu olíuskilju, enda um að ræða hluta sameignar fjöleignarhússins. Þá var ekki um að ræða framkvæmdir sem ekki gátu þolað bið í skilningi 2. mgr. 37. gr. fjöleignarhúsalaganna.

Áskilið er í 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 að hönnunargögn og önnur nauðsynleg gögn fylgi með umsókn um byggingarleyfi, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga. Samkvæmt gögnum málsins lá slíkt samþykki ekki fyrir við ákvarðanatöku byggingarfulltrúa. Voru því ekki lagaskilyrði fyrir samþykkt hinna umþrættu byggingaráforma og teikninga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verða hinar kærðu ákvarðanir byggingarfulltrúa felldar úr gildi, en með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir rétt að ógilda þær einungis að hluta. Eru þær því felldar úr gildi að öðru leyti en varðar breytingar á innra skipulagi Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 13. nóvember og 10. desember 2014 að því er varðar að veitingu leyfis til að bæta við innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101.

Felld er úr gildi samþykkt byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 10. desember 2014 á teikningum vegna breytinga á frárennsli og niðursetningu olíuskilju á lóðinni að Hólmbergsbraut 1.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

16/2010 Hrauntunga

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2010, kæra vegna afgreiðslu Kópavogsbæjar á erindi vegna stækkunar húss að Hrauntungu 59, sem fólst í nýtingu sökkulrýmis, og vegna skilgreiningar bæjaryfirvalda á umferðarrétti um lóðina Hrauntungu 51 að baklóð Hrauntungu 59.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. mars 2010, er barst nefndinni 17. s.m., kærir Sveinn Guðmundsson hrl., f.h. Ó, Hrauntungu 51, Kópavogi, afgreiðslu Kópavogsbæjar á erindi kæranda vegna stækkunar hússins að Hrauntungu 59, sem fólst í nýtingu sökkulrýmis, og vegna skilgreiningar bæjaryfirvalda á umferðarrétti um lóðina Hrauntungu 51 að baklóð Hrauntungu 59.

Gerir kærandi þá kröfu að réttur hans vegna lóðarinnar Hrauntungu 51 verði viðurkenndur og að umferðarréttur nágranna verði þannig takmarkaður í samræmi við skilgreiningu bæjaryfirvalda Kópavogs frá 7. ágúst 2007.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Raðhús kæranda nr. 51 við Hrauntungu er innst í botngötu sem liggur að húsunum nr. 43-51 (oddatölur) við þá götu og stendur gegnt raðhúsi nr. 59 við götuna. Greind raðhús eru með aðalinngang að austan og kjallarainngang úr bakgarði að vestan og liggur sitthvor botngatan að framhlið húsanna.

Forsaga málsins er sú að á fundi skipulagsnefndar Kópavogs 7. ágúst 2007 var tekið fyrir erindi kæranda varðandi eignarrétt á bílastæðum við lóðina að Hrauntungu 51. Á fundinum samþykkti nefndin umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, dags. 7. ágúst 2007, þar sem fram er tekið: „Samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi eru umrætt svæði sem afmarkað er af hálfu lóðarhafa, innan lóðar. Um er að ræða svæði innan lóðar sem telst vera hluti götunnar þe. bílastæði eða snúningshaus. Þar sem umrætt svæði er hluti af götu en innan lóðar eru afnot nágranna af umræddri lóð háð verulegum takmörkunum. Slík afnot byggja á umferðarrétti sem felst eingöngu í tímabundinni aðkomu að lóð t.d. til umhirðu og viðhalds. Sem dæmi má nefna er aðkoma lóðarhafa að Hrauntungu 51 að sinni lóð háð umferðarrétti í gegnum lóðirnar Hrauntungu 43-49. Umræddur lóðarhafi hefur samsvarandi rétt til aðgangs að bakgarði sínum í gegnum lóðirnar Hrauntungu 31-41.“

Á fundi bæjarráðs Kópavogs 21. febrúar 2008 var á dagskrá erindi kæranda varðandi aukna umferð um lóðina að Hrauntungu 51 vegna framkvæmda við Hrauntungu 57 og 59. Var ákveðið að óska eftir umsögn byggingarfulltrúa og á fundi ráðsins 28. s.m. var byggingarfulltrúa falið að svara kæranda á grundvelli hennar. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 19. mars 2008, segir: „Teikningar húsa við Hrauntungu (Sigvaldahús) sýna kjallara með gluggum og útgönguhurð. Þrátt fyrir það þá er óheimilt að nýta næsta botnlanga fyrir vestan til aðkomu að húsunum Hrauntungu 57 og 59.“

Með bréfi, dags. 8. apríl 2009, fór kærandi fram á við skipulagsnefnd að skoðað yrði m.a. lögmæti stækkunar kjallara hússins að Hrauntungu 59, hvort hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar kallaði á grenndarkynningu og hvort eðlileg aðkoma að kjallaranum væri um aðalinngang hússins og íbúar þar hefðu aðgang að bílastæði inni á lóð Hrauntungu 59.

Skipulagsnefnd tók bréf kæranda fyrir hinn 15. desember 2009 þar sem fyrir lá umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, dags. 10. s.m. Í umsögninni kemur m.a. fram að við skoðun á vettvangi hafi komið í ljós að lítill gluggi sé á vesturhlið hússins að Hrauntungu 59 þar sem upphaflegar teikningar sýni óútgrafið rými. Gluggar séu á samsvarandi stað á fleiri húsum í götunni og því virðist sem þetta rými hafi verið grafið út í allmörgum tilfellum. Húsin séu byggð á árunum 1965-1969 og hafi þetta verið látið óátalið í mjög langan tíma. Eigandi Hrauntungu 59 segist ekki hafa stækkað húsið frá því að hann keypti það árið 2004 og því eðlilega ekki sótt um leyfi. Telji umsagnaraðili ekkert benda til þess að núverandi eigandi hafi gert umrædda breytingu og ekki sé ástæða til að krefjast breytinga eða beita viðurlögum vegna tilhögunar í kjallara hússins.

Í greindri umsögn kemur fram að við athugun hafi komið í ljós að í mörgum tilfellum liggi gangstéttir frá inngangi á vesturhlið út að lóðarmörkum og ekki sé girt fyrir þann aðgang að lóðarmörkunum. Þannig hátti m.a. til bæði í Hrauntungu 51 og 59 og líklegt sé að opið hafi verið fyrir aðkomu gangandi vegfarenda að bakhlið húsanna frá upphafi. Ekki sé hægt að banna slíka umferð sem hafi að öllum líkindum viðgengist í um 40 ár. Hins vegar hafi ekki verið gert ráð fyrir aðkomu bifreiða að bakhlið húsanna nema í þeim tilfellum sem um hafi verið getið í fyrri umsögn um málið. Snúningshaus liggi að gangstígnum bak við Hrauntungu 59 sem alls ekki sé bílastæði fyrir íbúa kjallara hússins. Eigandi Hrauntungu 59 hafi mótmælt því að hann beini allri umferð leigjenda kjallarans um lóðina að Hrauntungu 51. Aðeins sé um að ræða eðlilega og mjög takmarkaða umferð sem samræmist algerlega hefðum og venjum sem skapast hafi í hverfinu. Í umsögninni er komist að þeirri niðurstöðu að aðkoma gangandi vegfarenda sé heimil að bakhlið húsa við Hrauntungu og ekki sé rétt að gera ráðstafanir til að hindra aðkomu. Komi t.d. ekki til álita að krefjast þess að allar lóðir verði afgirtar baka til. Á meðan aðeins sé um gangandi umferð að ræða, auk tilfallandi aðkomu ökutækja vegna umhirðu og viðhalds, sé ekki ástæða til að grípa til sérstakra aðgerða annarra en þeirra að upplýsa eigendur Hrauntungu 59 um skilning bæjaryfirvalda á umferðarrétti um lóð Hrauntungu 51. Hins vegar komi til greina að grípa til viðeigandi ráðstafana ef bifreiðaumferð verði meiri en ætlast sé til eða ef íbúar Hrauntungu 59 leggi bílum sínum á lóð Hrauntungu 51.

Skipulagsnefnd tók undir framangreinda umsögn og lagði til að eigendur húsanna að Hrauntungu 51 og 59 yrðu upplýstir um afstöðu bæjaryfirvalda og að ekki yrði gripið til neinna aðgerða af hálfu skipulagsnefndar að svo stöddu. Var niðurstaðan kynnt kæranda og eiganda Hrauntungu 59 með bréfi, dags. 18. desember 2009.

Kærandi ritaði skipulagsnefnd bréf, dags. 23. desember 2009, þar sem því m.a. er haldið fram að rannsóknarskylda stjórnsýslulaga hafi ekki verið uppfyllt við meðferð málsins. Til séu ljósmyndir sem sýni að gluggi á vesturhlið hússins nr. 59 við Hrauntungu hafi verið gerður snemma árs 2007. Árið 2006 hafi kærandi ítrekað lagt fram kvartanir og óskað eftir að leigjendur notuðu bílastæði austan við húsið. Hafi honum verið boðið inn og séð að lokað hafi verið fyrir aðkomu inn í íbúðina um aðalinnganginn með vegg og ekki hafi verið búið að opna inn í rými í sökklinum. Það sé skilningur kæranda að með óheimilli aðkomu að húsunum að Hrauntungu 57 og 59 sé í bréfi byggingarfulltrúa frá 19. mars 2008 átt við það þegar íbúum sé alfarið beint um kjallarainngang. Kærandi hafi óskað eftir því við eiganda Hrauntungu 57 að hann beindi umferð leigjenda í kjallara um aðalinngang hússins. Fullreynt sé að ná einhverri niðurstöðu við eigendur nefndra húsa í samræmi við samþykktir Kópavogsbæjar. Óski kærandi eftir því að rannsakað verði hvort brotið hafi verið gegn 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ef rétt reynist þá verði sökkulrýmið fært í upprunalegt horf eins og það birtist á upphaflegum teikningum.

Með bréfi til bæjarráðs, dags. 29. janúar 2010, fór lögmaður kæranda fram á að kannað yrði til hlítar hvort rökstuddur grunur kæranda um stækkun hússins að Hrauntungu 59 og um aðkomu að kjallara þess húss væri í samræmi við veruleikann og að tilkynnt yrði til eiganda hússins að umferðaréttur um lóð kæranda væri háður takmörkunum. Bréfið var lagt fram á fundi bæjarráðs 11. febrúar 2010 og gerð svofelld bókun: „Lagt er til að viðkomandi aðila verði tilkynnt að málinu hafi lokið með afgreiðslu byggingarnefndar (sic) 15/12 sl. og að honum verði leiðbeint um kæruleið. Bæjarráð samþykkir tillögu um afgreiðslu og felur skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs að svara bréfritara.“

Málið var loks til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar hinn 16. febrúar 2010 þar sem m.a. var bókað: ,,… er erindið lagt fram að nýju, ásamt bréfi eiganda Hrauntungu 51 dags. 23. desember 2009. Jafnframt er lögð fram fundargerð bæjarráðs frá 11. febrúar 2010. Sviðstjóri gerði grein fyrir bréfi hans og skrifstofustjóra dags. 11. febrúar 2010 til eiganda Hrauntungu 51“. Í bréfi til lögmanns kæranda, dags. 17. febrúar 2010, var vísað í fyrrgreindan fund skipulagsnefndar og tekið fram að málið væri afgreitt á þessu stjórnsýslustigi og ekki komnar fram ástæður til endurupptöku þess.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að frá árinu 2006 hafi hann barist fyrir þeim rétti sínum að takmarkaður verði umferðarréttur þriðja aðila um lóð hans að Hrauntungu 51. Til margra ára hafi eigendur íbúðarhúsa við Hrauntungu 57 og 59 leigt út hluta af jarðhæð húsanna og stefnt leigjendum sínum um inngang sem snúi í vestur og teljist ekki aðalinngangur þeirra húsa. Eigandi íbúðarhússins að Hrauntungu 59 hafi komið málum þannig fyrir að ekki sé lengur hægt að komast inn í þann hluta hússins um aðalinnganginn, sem hafi haft í för með sér ómæld óþægindi fyrir kæranda árum saman. Bifreiðum hafi verið lagt til lengri tíma á lóð kæranda án þess að athugasemdum hans þar að lútandi hafi verið sinnt af eiganda eða leigjendum að Hrauntungu 59. Öll aðkoma að leiguhluta jarðhæðar hússins sé um lóð kæranda. Vegna sannanlegs umráðaréttar kæranda yfir lóð sinni eigi afnot nágranna af henni að vera háð verulegum takmörkunum. Slík afnot hafi verið skilgreind sem tímabundin aðkoma að lóð, t.d. til umhirðu og viðhalds, sbr. umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, dags. 7. ágúst 2007. Þrátt fyrir þá skilgreiningu hafi bæjaryfirvöld kosið síðar að túlka aðkomu um lóð kæranda með mun rýmri hætti en fyrrgreind umsögn þeirra sjálfra hafi kveðið á um án þess að rökstyðja þá niðurstöðu með skírskotun til laga þar um.

Eigendur íbúðarhúsa að Hrauntungu 57 og 59 hafi verið að stækka fasteignir sínar, sem bæði megi sjá á vettvangi og með því að bera saman ytri ummerki á milli ára, eins og sjá megi á ljósmyndum. Þrátt fyrir ábendingar kæranda hafi yfirvöld ekki talið sér skylt að verða við áskorun hans um að gerðar yrðu athugasemdir og gripið yrði inn í ferlið. Við þetta allt vilji kærandi ekki una og óski eftir því að bæjaryfirvöld taki málið til formlegrar skoðunar og afgreiðslu í samræmi við lög og reglur.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld krefjast þess að kröfu kæranda verði hafnað enda sé afgreiðsla bæjarins á erindum kæranda bæði formlega og efnislega rétt.

Í kæru sé ekki tilgreint með ótvíræðum hætti hvaða ákvörðun sé verið að kæra en þó megi álykta að kærandi óski eftir að nýjustu ákvarðanir varðandi málið komi til skoðunar hjá úrskurðarnefndinni. Á fundi skipulagsnefndar hinn 15. desember 2009 hafi erindi kæranda verið afgreitt og hafnað að grípa til aðgerða í málinu. Ákvörðunin hafi byggst á umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs Kópavogs, dags. 10. desember 2009. Í þeirri umsögn sé að finna þau sjónarmið sem byggt sé á af hálfu skipulagsnefndar og vísist til hennar hvað varði málsástæður og lagarök. Í janúar 2010 hafi lögmaður kæranda síðan sent erindi þar sem óskað hafi verið skoðunar á sama máli. Með bréfi, dags. 17. febrúar 2010, hafi endurupptöku málsins verið hafnað.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir málatilbúnaði sínum sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu eru uppi álitaefni er snerta nýtingu sökkulrýmis húss að Hrauntungu 59 í Kópavogi, umferðarrétt íbúa þess húss um lóð kæranda að Hrauntungu 51 og afgreiðslur bæjaryfirvalda á erindum kæranda af því tilefni.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru á umræddum tíma, var m.a. óheimilt að breyta húsi eða notkun þess nema að fengnu leyfi sveitarstjórnar. Ef það var gert án tilskilins leyfis voru skipulags- og byggingaryfirvöldum tiltæk úrræði sem kveðið var á um í 56. gr. laganna. Í 5. mgr. ákvæðisins var tekið fram að byggingarnefnd gæti ávallt mælt fyrir um að fjarlægja skyldi ólöglega byggingu eða byggingarhluta, jarðrask skyldi afmáð eða starfsemi hætt og ef ekki var orðið við fyrirmælum byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar innan frests sem sveitarstjórn setti gat hún ákveðið dagsektir þar til úr yrði bætt eða byggingarnefnd látið vinna verk á kostnað eiganda fasteignar.

Hinn 15. desember 2009 afgreiddi skipulagsnefnd erindi kæranda frá 8. apríl s.á. en þar hafði kærandi m.a. farið fram á að skoðað yrði hvort húsinu að Hrauntungu 59 hefði verið breytt frá samþykktum teikningum án leyfis. Umsögn var unnin fyrir nefndina vegna erindisins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki þætti tilefni til þvingunaraðgerða í tilefni af notkun sökkulrýmis. Afgreiddi skipulagsnefnd þann þátt málsins með því að taka undir nefnda umsögn. Kæranda var tilkynnt þessi niðurstaða skipulagsnefndar en ekki var leiðbeint um kæruheimild í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af nefndum aðdraganda málsins og afgreiðslu verður ekki annað ráðið en að fyrrgreind afgreiðsla skipulagsnefndar hafi aðeins falið í sér skoðun nefndarinnar á álitaefninu en ekki lokaákvörðun í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga enda á slík ákvörðun undir byggingarnefnd samkvæmt áðurnefndri 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í kjölfar tilkynningar til kæranda um niðurstöðuna setti hann hins vegar fram í bréfi, dags. 23. desember 2009, kröfu um að húsið að Hrauntungu 59 yrði fært til fyrra horfs en ekki liggur fyrir í gögnum málsins að sú krafa hafi verið tekin til formlegrar afgreiðslu af þar til bæru stjórnvaldi.

Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögum. Úrlausn á álitaefni um umferðarrétt um lóð kæranda að bakgarði Hrauntungu 59 ræðst ekki af ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nema í þeim tilfellum þegar skipulagskvöð er sett í deiliskipulagi um slíkan rétt. Um það er ekki að ræða í máli þessu. Það er því ekki á valdi sveitarstjórna eða úrskurðarnefnarinnar að skera úr um hvort um slíkan rétt sé að ræða eða um inntak þess réttar í máli þessu.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

66/2011 Móavík

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2011, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2011 um að synja umsókn um að skipta út lóð úr landi Móavíkur á Kjalarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. september 2011, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur að landi Móavíkur á Kjalarnesi, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2011 að hafna umsókn kærenda um að skipta út lóð úr landi Móavíkur.

Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að kærendur erfðu sameiginlega bátahús í landi Móa ásamt landspildu sem húsinu fylgdi. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 20. ágúst 2010 var tekin fyrir fyrirspurn varðandi stofnun nýrrar lóðar úr landi Móavíkur. Lögð var fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 12. ágúst 2010, þar sem fram kom að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 lægi umrædd spilda á mörkum landnotkunarflokkanna opins svæðis til sérstakra nota og landbúnaðarsvæðis. Fyrirhugaður stofnstígur um Kjalarnes myndi liggja um svæðið og fyrirhuguð Sundabraut myndi auk þess tengjast svæðinu nálægt landspildunni. Ekki væri til deiliskipulag af svæðinu en ef afmarka ætti lóðina yrði það að liggja fyrir. Við gerð þess deiliskipulags yrði allt svæðið skoðað heildstætt og í kjölfarið lagt mat á það hve margar lóðir gætu byggst upp á svæðinu. Gerð deiliskipulags fyrir svæðið væri ekki á starfsáætlun skipulags- og byggingarsviðs. Uppskipting landskika á landbúnaðarsvæðum á Kjalarnesi hafi ekki þótt vera í samræmi við markmið gildandi aðalskipulags og hafi mörgum slíkum erindum verið synjað. Niðurstaðan hafi verið sú að ekki væri mælt með að sérstök lóð yrði afmörkuð í landi Móavíkur. Skipulagsstjóri afgreiddi fyrirspurnina neikvætt með vísan til umsagnarinnar.

Hinn 20. október 2010 var á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur tekið fyrir málskot vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsstjóra frá 20. ágúst 2010. Var fyrri afgreiðsla skipulagsstjóra staðfest.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 27. janúar 2011 var lögð fram umsókn kærenda um skiptingu á landi Móavíkur. Skipulagsstjóri vísaði málinu til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu. Á fundi skipulagsráðs 17. ágúst 2011 var samþykkt umsögn lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 29. júní 2011, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að synja ætti erindinu. Synjunin var samþykkt í borgarráði 1. september 2011.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi fengið í arf sumarhús og 5.945 m² landspildu úr landi Móavíkur. Jafnframt eigi hver þeirra 4% af landi Móavíkur og hafi allir samerfingjarnir samþykkt eign þeirra að sumarhúsinu og landskikanum. Þrátt fyrir óumdeildan eignarétt kærenda á nánar afmörkuðum eignarhluta jarðarinnar hafi þeim ekki tekist að fá hann skráðan með sérgreindum hætti í fasteignaskrá eins og lög nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna mæli fyrir um.

Eins og fram hafi komið í umsögn skipulagsstjóra sé svæðið skilgreint sem landbúnaðarsvæði og opið svæði til sérstakra nota. Þá komi einnig fram að gera megi ráð fyrir mannvirkjum sem tengist notkun svæðanna til útivistar. Ætlun kærenda sé einmitt að nota land og sumarbústað til útivistar. Kærendur séu hvorki að fara fram á að umrætt svæði verði deiliskipulagt né að byggingarleyfi verði veitt, enda sé sumarbústaður fyrir á lóðinni. Einungis sé farið fram á stofnun lóðarinnar Móavíkur 1, sem kærendur eigi réttilega. Ekki verði séð að stofnun lóðarinnar snerti með nokkrum hætti áform um legu stofnstígs um landskikann enda standi sumarbústaðurinn og ræktað landið á sínum stað eftir sem áður og skipti þá ekki máli hvernig eignarhald sé. Stofnstígurinn myndi liggja um fjölda eignarlóða meðfram ströndinni og yrðu kærendur að lúta sama gjörningi og aðrir landeigendur. Sömu rök eigi við um fyrirhugaða Sundabraut. Arfláti hafi skömmu fyrir andlát sitt látið af hendi tvo landskika og hafi eigendur þeirra fengið að sameina þá lóðum sem þeir hafi átt fyrir. Afmarkanir lóða úr landi Móavíkur séu því ekki óþekktar. Kærendur telji sig hafa skilað inn gögnum er dugi til að fá hina erfðu eign skráða með sérgreindum hætti í fasteignaskrá og þinglýsingarbækur. Eignaskiptasamningur hugnist kærendum ekki enda sé það ekki það sama og að lóð ásamt sumarhúsi verði þinglýst sem séreign þeirra. Eign kærenda sé þegar afmörkuð lóð með skurði á þrjá vegu og fjöru á fjórðu hliðina og verði ekki séð að sérgreining hennar geti skapað óæskilegt fordæmi.

Eignarrétturinn sé friðhelgur skv. 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu og séu hér engar málefnalegar forsendur fyrir því að reisa honum skorður. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 skuli þinglýsa réttindum yfir fasteign til þess að þau haldi gildi gegn þeim er reisi rétt sinn á samningum um eignina og gegn skuldheimtumönnum eiganda eða annars rétthafa að eign. Fasteignaskrá sé grundvöllur þinglýsingarbókar fasteignar skv. 2. mgr. 1. gr. laga um skráningu og mat fasteigna. Í fasteignaskrá eigi að felast nýjustu upplýsingar sem á hverjum tíma séu tiltækar og fasteignina varði. Réttur kærenda gæti því farið forgörðum fáist ekki skráning í fasteignaskrá.

Þar sem umrædd ákvörðun sé íþyngjandi verði hún að vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum auk þess sem gæta verði meðalhófs. Enn fremur telji kærendur að það kunni að baka borgarsjóði bótaskyldu komi til þess að arfur sem þeim hafi tæmst verði að engu vegna réttinda þriðja manns þar sem eignin hafi ekki fengist þinglýst.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað.

Því sé hafnað að hin kærða ákvörðun hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum. Umrædd landspilda sé um 5.900 m² að stærð og ekki þyki æskilegt að setja fordæmi fyrir afmörkun lóðarinnar. Slík uppskipti lands hefðu í för með sér að erfitt yrði að leggjast gegn öðrum slíkum erindum og færu þau gegn þeirri stefnu Reykjavíkurborgar að afmarka ekki smærri lóðir á landbúnaðarsvæðinu á Kjalarnesi. Ekki sé fallist á það með kærendum að fordæmi hafi skapast fyrir uppskiptingu lóða með þeim hætti sem óskað hafi verið eftir en Reykjavíkurborg hafi á hinn bóginn í einhverjum tilfellum heimilað sameiningu lóða á svæðinu. Sé því ekki saman að jafna uppskiptingu og sameiningu lóða. Ekki sé heldur verið að hindra framgang ákvæða erfðaskrár enda geti erfingjar átt spilduna í óskiptri sameign og gert eignaskiptasamning sín á milli.

Því sé alfarið mótmælt að synjun skipulagsyfirvalda hafi falið í sér takmörkun eignarréttinda kærenda samkvæmt stjórnarskrá en sú fullyrðing sé með öllu órökstudd. Lögum samkvæmt liggi skipulagsvaldið hjá sveitarfélögunum og ekki sé sjálfgefið að menn geti ráðstafað eða haft þau not af eignum sínum sem þeir sjálfir kjósi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2011 um heimild til að skipta út lóð í eigu kærenda úr landi Móavíkur á Kjalarnesi. Ákvörðun borgarráðs var tekin á grundvelli 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Laut beiðni kærenda einungis að því að landskiki þeirra í sameign yrði skipt út úr landi sem er í sameign fleiri aðila. Ekki fólst í umsókn þeirra beiðni um breytingu á gildandi landnotkun umrædds svæðis.
Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er landið Móavík á skilgreindu landbúnaðarsvæði en með strandlengjunni er opið svæði til sérstakra nota þar sem gert er ráð fyrir stofnstíg.
Sveitastjórnir og skipulagsnefndir í hverju sveitarfélagi fara með skipulagsvald skv. 3. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga. Eru ákvarðanir sveitarstjórna um skipulag bindandi fyrir borgarana og verða þeir að lúta þeim almennu takmörkunum sem af þeim leiðir. Verður að telja að sveitastjórnir eigi frjálst mat um það hvenær lóðum verður skipt út úr landi enda sé ákvörðun rökstudd og jafnræðis gætt við afgreiðslu sambærilegra mála. Borgaryfirvöld hafa fært þau rök fyrir hinni kærðu ákvörðun að varhugavert sé að skapa fordæmi fyrir uppskiptingu lands á svæðinu, sem ekki hefur verið deiliskipulagt, og verður að telja það málefnalegt sjónarmið. 

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því að kærendur eiga ekki lögvarinn rétt til breytinga á skipulagi umrædds svæðis verður kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs frá 1. september 2011 um að synja umsókn um að skipta út lóð úr landi Móavíkur á Kjalarnesi.

________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________   _____________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

49/2014 Grettisgata

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 24. febrúar, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 49/2014, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 7. febrúar 2014 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi reits 1.172.2, Laugavegur, Frakkastígur, Grettisgata, Klapparstígur, vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júní 2014, er barst nefndinni 6. s.m., kæra nánar tilgreindir íbúar að Grettisgötu 6, 8, 11, 12, 13, 13b, 13c, 16, 18, 19, 19b og 20b, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 7. febrúar 2014 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi reits 1.172.2, Laugavegur, Frakkastígur, Grettisgata, Klapparstígur, vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki gera kærendur þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 20. júní 2014 og 16. febrúar 2015.

Málsatvik og rök: Breyting á deiliskipulagi fyrir reit 1.172.2, Laugavegur, Frakkastígur, Grettisgata, Klapparstígur, vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu, var samþykkt af skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 7. febrúar 2014. Í breytingunni fólst að nýbyggingar á reitnum yrðu í takt við byggðamynstur á svæðinu, rými myndaðist milli húsa og varðveisla núverandi friðaðra húsa. Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. mars 2014.

Kærendur benda á að framsetning á skipulagsuppdrætti sé ekki í samræmi við lög. Uppdrátturinn sé svo óskýr að erfitt sé að sjá í hverju breytingin sé fólgin. Þá hafi auglýsing fyrirhugaðra deiliskipulagsbreytinga ekki verið í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki verið til þess fallin að ná fram markmiðum um íbúasamráð. Tillöguna hafi borið að kynna á íbúafundi. Slíkur fundur hafi ekki verið haldinn og leiði sá málsmeðferðarannmarki til ógildingar deiliskipulagsins. Loks gangi deiliskipulagið með ólögmætum hætti gegn verulegum nábýlis- og grenndarhagsmunum kærenda.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Sé kæra of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu reits 1.172.2 sem  samþykkt var af skipulagsfulltrúa Reykjavíkur hinn 7. febrúar 2014 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. mars s.á. Tók breytingin til lóðanna nr. 34A og nr. 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti 18. desember 2014 breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.2 vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu. Öðlaðist sú deiliskipulagsbreyting gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. febrúar 2015. Hin kærða ákvörðun, sem varðaði sömu lóðir svo sem áður er lýst, hefur því ekki lengur réttarverkan að lögum og eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Nanna Magnadóttir

4/2015 Ísfélag Vestmannaeyja

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 25. febrúar, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 4/2015, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita Ísfélagi Vestmannaeyja hf. – Vestmannaeyjum áminningu og krefja það um úrbætur, en ákvörðunin var birt með bréfi, dags. 8. desember 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Finnur Magnússon hdl., f.h. Ísfélags Vestmannaeyja hf., Strandvegi 26, Vestmannaeyjum, ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita Ísfélagi Vestmannaeyja hf. – Vestmannaeyjum, áminningu skv. 26. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Áminningin var birt kæranda með bréfi, dags. 8. desember 2014, og var þar veittur frestur til úrbóta til og með 22. desember s.m.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Umhverfisstofnunar verði felld úr gildi. Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa meðan kæran er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Athugasemdir Umhverfisstofnunar vegna stöðvunarkröfu kæranda bárust nefndinni 20. febrúar sl.

Málsatvik og rök: Kærandi er útgerðarfyrirtæki og rekur m.a. fiskimjölsverksmiðju í Vestmannaeyjum. Kærandi notar olíublöndu sem er búin til úr svartolíu og notaðri olíu sem hefur verið hreinsuð og síuð. Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar hinn 20. júní 2014 var skráð frávik vegna brennslu úrgangsolíu á starfsstöð kæranda í Vestmannaeyjum. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 28. júlí s.á., var vísað til fyrra bréfs hennar frá 2. október 2012 um að olían teldist til úrgangsolíu samkvæmt reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang. Til þess að heimilt væri að brenna hana þyrfti að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, þar sem segi að einungis sé heimilt að brenna úrgangsolíu í starfsstöðvum sem hafi starfsleyfi sem uppfylli kröfur reglugerðarinnar um sambrennslu. Ljóst væri að kærandi hefði ekki slíkt starfsleyfi. Vísaði Umhverfisstofnun til þess að þá þegar hefði kæranda verið veitt áminning fyrir brennslu úrgangsolíu á starfsstöð sinni á Þórshöfn, sbr. mál nr. 10/2014 fyrir úrskurðarnefndinni. Þar sem kærandi brenndi nú úrgangsolíu á starfsstöð sinni í Vestmannaeyjum og hefði ekki farið að tilmælum Umhverfisstofnunar varðandi brennslu úrgangsolíu áformaði stofnunin að veita Ísfélagi Vestmannaeyja hf. áminningu, skv. 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, vegna starfsstöðvar kæranda í Vestmannaeyjum. Eftir nokkur samskipti kæranda og stofnunarinnar veitti stofnunin kæranda áminningu með bréfi, dags. 8. desember 2014, og var þar gefinn frestur til úrbóta til og með 22. desember s.m., sem fyrr segir.

Kærandi segir málið varða sig miklum fjárhagslegum hagsmunum en endurunna olían sé u.þ.b. 20% ódýrari en svartolía. Sparnaður kæranda með innkaupum á endurunninni olíu nemi því verulegum fjárhæðum á ári hverju. Mikil olía sé notuð í stuttan tíma í senn og ráðgert hafi verið að nota olíuna á næstu loðnuvertíð. Fyrirmæli um að kærandi noti ekki endurunna olíu muni leiða til mikils tjóns á loðnuvertíðinni og vertíðum sem eftir fylgi. Kærandi telji kröfu Umhverfisstofnunar byggja á veikum lagalegum grunni. Að öðru leyti vísi hann til málsástæðna og lagaraka í fyrra máli, 20/2014, varðandi kröfu um frestun réttaráhrifa, m.a. um hugsanlega bótaskyldu Umhverfisstofnunar komist úrskurðarnefndin síðar að þeirri niðurstöðu að fella beri ákvörðun stofnunarinnar úr gildi.

Umhverfisstofnun telur ekki vera tilefni til þess að úrskurðarnefndin fallist á kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar umdeildu ákvörðunar. Bent er á að kærandi verði að sýna fram á verulega hagsmuni af því að réttaráhrifum verði frestað og að 20% sparnaður nægi ekki til að telja að svo sé. Algengt sé að mengunarvarnir kosti fjármuni í mengandi starfsemi og meintur sparnaður kæranda í mengunarvörnum geti þýtt aukinn kostnað fyrir aðra aðila. Umhverfisstofnun hafi ekki gripið til annarra þvingunarúrræða en áminningar og hafi því ratað meðalhóf í málinu. Sérstaklega sé mótmælt þeirri fullyrðingu kærða að hagsmunir kæranda af frestun réttaráhrifa séu meiri en hagsmunir af að krafan nái fram að ganga, en Umhverfisstofnun hafi stöðvað brennslu á olíuúrgangi hjá öllum öðrum rekstraraðilum fiskimjölsverksmiðja á landinu. Vísi stofnunin í þessu samhengi til hagsmuna almennings af heilnæmu umhverfi. Stofnunin geti þess einnig að verði réttaráhrifum frestað geti hún ekki beitt dagsektum gagnvart kæranda meðan kæran sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni þar sem áminning sé forsenda frekari þvingunarúrræða. Óásættanlegt sé að rekstraraðili geti viðhaldið ástandi sem stofnunin telji ólögmætt, enda sé sem fyrr segi ekki um verulega hagsmuni að ræða.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og sé um að ræða ákvörðun sem ekki feli í sér heimild til framkvæmda geti úrskurðarnefndin frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sem fól í sér að veita kæranda áminningu og gefa honum tilhlýðilegan frest til úrbóta í samræmi við 2. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hafði ákvörðunin þann tvíþætta tilgang að veita formlega viðvörun og gefa færi á úrbótum. Áhrif ákvörðunarinnar eru einkum þau að minna þarf til að beita beinskeyttari þvingunarúrræðum í kjölfar hennar. Þannig er ákvörðunin nauðsynlegur undanfari þess að dagsektum verði beitt skv. 27. gr. laganna. Þá getur hún verið undanfari þess að starfsemi kæranda verði stöðvuð skv. 3. tl. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 26. gr.

Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða og að kærandi á hagsmuna að gæta. Beiting beinskeyttari þvingunarúrræða er þó ávallt háð því að ný stjórnvaldsákvörðun þess efnis sé tekin og væri slík ákvörðun þá kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Þá gæti kærandi, ef til kæmi, krafist frestunar réttaráhrifa slíkrar ákvörðunar. Er því hvorki hægt að telja að réttaráhrif ákvörðunarinnar séu yfirvofandi í skilningi 5. gr. laga nr. 130/2011 né að þau séu slík að hagsmunir kæranda knýi á um frestun þeirra. Verður kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að frestað verði réttaráhrifum ákvörðunar Umhverfisstofnunar um að veita Ísfélagi Vestmannaeyja hf. – Vestmannaeyjum áminningu og krefja félagið um úrbætur, eins og tilkynnt var með bréfi, dags. 8. desember 2014.

_______________________________
Nanna Magnadóttir

108/2014 Hleinar

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2014 og á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 29. s.m., í umboði bæjarstjórna greindra sveitarfélaga, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum fyrir lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2014, sem barst nefndinni 10. s.m., kæra íbúar við Drangagötu, Herjólfsgötu, og Klettagötu þá ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2014 og  ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 29. s.m. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum fyrir lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu, Hafnarfirði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Að auki er gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Var kröfu kærenda um að yfirvofandi framkvæmdir yrðu stöðvaðar hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum, 2. desember 2014.

Með bréfi, dags. 9. janúar 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir W Drangagötu 1, Hafnarfirði, ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 5. nóvember 2014 um að veita leyfi til að byggja tvö 16 íbúða fjölbýlishús ásamt sameiginlegri bílgeymslu. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og einn af kærendum fyrra málsins stendur að baki síðari kærunni verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 5/2015, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til síðari stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðabæ 22. október 2014 og 21. janúar 2015.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar hinn 11. mars 2014 og hjá skipulagsnefnd Garðabæjar hinn 10. apríl s.á., var tekin fyrir umsókn um breytingu á sameiginlegu deiliskipulagi Garðabæjar og Hafnarfjarðar fyrir Hleina að Langeyrarmölum vegna lóðanna Herjólfsgötu 30-34. Fólst breytingin í því að lóðirnar Herjólfsgata 30, 32 og 34 yrðu sameinaðar í eina lóð þar sem gert væri ráð fyrir tveimur fjögurra hæða byggingum með 32 íbúðum og bílakjallara. Samþykkt var að auglýsa tillöguna til kynningar og var það gert 6. maí 2014 með fresti til athugasemda til 18. júní s.á. Athugasemdir bárust frá ellefu einstaklingum, þ. á m. frá kærendum. Hin kynnta skipulagstillaga var síðan tekin fyrir og samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar hinn 8. júlí 2014 og í skipulagsnefnd Garðabæjar 28. s.m. Bæjarráð Hafnarfjarðar staðfesti samþykki tillögunnar í umboði bæjarstjórnar 10. júlí 2014 og bæjarráð Garðabæjar gerði slíkt hið sama 29. s.m., einnig í umboði bæjarstjórnar. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2014.

Hinn 5. nóvember 2014 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir áður greindum fjölbýlishúsum við Herjólfsgötu 30-34 á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar og hefur sú ákvörðun jafnframt verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að grenndarréttur nágranna fyrirhugaðra fjölbýlishúsa sé verulega skertur. Muni íbúar Herjólfsgötu 26 og Drangagötu 1 búa í 25 metra fjarlægð frá fyrirhuguðum nýbyggingum og útsýni þeirra muni skerðast. Útsýni muni einnig skerðast hjá íbúum við Klettagötu. Þá muni fjölbýlishúsin varpa skugga á lóðir húsa í 25 m fjarlægð sérstaklega á þeim árstíma þegar sól sé lágt á lofti. Að auki muni innsýn valda óþægindum vegna háreistari nýbygginga í sjónlínu við glugga húsanna og aukið ónæði verði vegna aukinnar umferðar um götu.

Undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi í ýmsu verið ábótavant. Vindálag á núverandi byggingar sé óþekkt en vitað sé að vindasamt geti verið á svæðinu. Nauðsynlegt hafi verið að reikna út hvaða áhrif trekkur geti haft á milli húsa enda geti slíkir vindsveipir valdið húseigendum tjóni. Ekki hafi verið auglýst af hálfu bæjaryfirvalda að eldra deiliskipulag skyldi falla úr gildi og ekki hafi verið leitað umsagna frá viðeigandi stofnunum, s.s. Umhverfisstofnun, sem eigi hagsmuna að gæta vegna breyttrar landnýtingar við friðlýst svæði við Hleina. Þá sé ekki í anda aðalskipulags Hafnarfjarðar að breyta grónu íbúðarhverfi hjá vinsælum friðlýstum útivistarstað í fjölbýlishúsahverfi. Aðalskipulag gangi framar deiliskipulagi og beri að taka fullt tillit til þess við breytingar á deiliskipulagi.

Svör skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar við athugasemdum við deiliskipulagið séu ekki fullnægjandi. Svörin einkennist af huglægu mati og séu án nokkurs rökstuðnings eða rannsókna. Ekki hafi verið komið til móts við athugasemdir íbúa eins og krafa sé um. Tilgangslaust sé að auglýsa eftir athugasemdum ef þeim sé ekki svarað með rökum. Að auki hafi ekki verið sýnt fram á nokkra útreikninga varðandi skuggavarp á svæðinu heldur hafðar uppi órökstuddar staðhæfingar í því efni. Útgáfur umrædds skipulags hafi verið með ýmsu móti undanfarin ár og sé orðið tímabært að Hafnarfjörður haldi sig við útgefið deiliskipulag lengur en nokkur ár í senn svo íbúar viti hverju þeir gangi að þegar þeir flytji í hverfi bæjarins.

Umdeildar fjölbýlishúsabyggingar falli ekki að eldri byggð og óeðlilegt sé að Hafnarfjarðarbær semji eða gefi loforð um breytt deiliskipulag áður en íbúar hafi haft tækifæri til að koma að athugasemdum, en íbúðir í fyrirhuguðum húsum hafi þegar verið auglýstar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að ekki hafi verið farið með deiliskipulagsbreytinguna sem óverulega, heldur hafi málsmeðferðin verið í samræmi við almenn ákvæði 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við gerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið reynt að minnka þau áhrif sem nýbyggingarnar gætu haft, t.d. með því að minnka byggingarmagn frá eldri tillögu sem úrskurðarnefndin á sínum tíma felldi úr gildi. Að auki hafi byggingarnar verið færðar aftar í lóðina og fjær lóðarmörkum en fyrri tillaga hafi gert ráð fyrir til að minnka áhrif skuggavarps á lóð við Drangagötu. Þá hafi þær verið stallaðar til að draga úr skerðingu útsýnis, sem nú teljist óveruleg. Þakform húsanna taki mið af húsum sunnan við lóðina, en hæðin taki mið af húsum við Herjólfsgötu 36-40.

Markmið Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025 sé að þétta núverandi byggð þar sem það eigi við, m.a. með endurskipulagningu vannýttra svæða. Sama markmið hafi verið sett fram í eldra aðalskipulagi. Telji bæjaryfirvöld að lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu séu vannýttar og sé þar kjörið þéttingarsvæði í anda gildandi og eldra aðalskipulags. Að auki sé bent á að athugasemdum kærenda hafi verið svarað skriflega og athugun vegna skuggavarps hafi legið fyrir 8. júlí 2014.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi bendir á að lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu standi utan við friðlýst svæði en mörk þess liggi við ofanverð lóðarmörk þeirra, sbr. auglýsingu nr. 399/2009 sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 3. apríl 2009. Sé lögð áhersla á að hinu friðlýsta svæði verði ekki raskað. Undirbúningur að breytingu á deiliskipulagi svæðisins hafi þegar verið byrjaður þegar leyfishafi hafi tekið við skyldum lóðarleigutaka árið 2014. Breytingarnar hafi miðast við að ná fram aukinni hagkvæmni við uppbyggingu á lóðunum til samræmis við yfirlýst markmið aðalskipulags Hafnarfjarðar um þéttingu byggðar og nýtingu á óbyggðum lóðum innan sveitarfélagsins. Skipulagsbreytingin hafi verið gerð í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og afgreiðsla því verið í samræmi við málsmeðferðarreglur. Þó að breytingarnar séu ekki óverulegar sé ekki gerð krafa um að gert sé nýtt deiliskipulag fyrir allt svæðið og eldra deiliskipulag fellt úr gildi nema fyrirhugað sé að gera grundvallarbreytingar, t.d. varðandi landnotkun, byggðamynstur eða yfirbragð alls svæðisins.

Umtalsverð uppbygging hafi átt sér stað á svæðinu á undanförnum árum og hafi m.a. verið reist 4-5 hæða fjölbýlishús á Herjólfsgötu 36-40. Fyrirhugaðar nýbyggingar samræmist vel þeim fjölbýlishúsum, þrátt fyrir að vera nokkuð lágreistari, og muni húsin mynda samfellda götumynd í jaðri hverfisins. Geti eigendur fasteigna alltaf vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagsáætlunum sem geti leitt til skerðingar á útsýni, aukinnar umferðar eða annars konar breytinga á umhverfi þeirra. Þurfi íbúar að sæta því að slík gæði séu skert með almennum hætti. Þótt eigendur fasteigna í grónum íbúðarhverfum megi almennt reikna með stöðugleika í skipulagi verði ekki hjá því litið að hér sé um að ræða lóðir sem hafi verið verulega vannýttar. Þær hafi ýmist verið óbyggðar um nokkurra ára skeið eða með mannvirkjum í niðurníðslu.

Við útfærslu á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið tekið tillit til hagsmuna kærenda. Byggingarreitir hafi verið færðir fjær eignum kærenda og innar á lóðina og byggingarmagn minnkað frá upphaflegri tillögu. Hafi Hafnarfjarðarbær látið vinna sérstaka athugun á skuggavarpi nýbygginganna og af þeim gögnum sé ljóst að ekkert skuggavarp verði af þeim á nærliggjandi hús á þeim tíma sem sól sé hæst á lofti. Þá sé að sama skapi ljóst að aðeins lítils háttar skuggavarp verði af byggingunum að kvöldlagi sem aðeins hafi áhrif á íbúðarhús eins kæranda að Drangagötu 1. Ekkert skuggavarp verði á fasteignir annarra kærenda. Áhrif skuggavarpsins sé ekki meira en fólk þurfi almennt að búa við í þéttbýli. Eigi fullyrðingar um innsýn ekki við rök að styðjast. Byggingarnar hafi verið færðar eins langt frá mörkum lóða kærenda og kostur hafi verið og hafi einnig verið gert ráð fyrir að hraunklettur yrði látinn óhreyfður til þess að lágmarka áhrif nýbygginganna á hagsmuni kærenda.

——————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum fyrir lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu í Hafnarfirði. Felur skipulagsbreytingin í sér að lóðir við Herjólfsgötu verða sameinaðar og er gert ráð fyrir tveimur fjögurra hæða fjölbýlishúsum. Er einnig deilt um samþykki umsóknar um byggingarleyfi fyrir þeim framkvæmdum.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga nr. 123/2010 um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna, og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Að lokinni auglýsingu var tekin afstaða til athugasemda kærenda og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð tillögunnar þannig í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er merkt íbúðarsvæði, ÍB3, Vesturbær. Svæðinu er lýst sem gömlum bæjarhluta í nábýli við miðbæ Hafnarfjarðar sem fyrirhugað sé að haldi yfirbragði sínu. Í aðalskipulaginu er lögð áhersla á að fullnýta byggingarmöguleika sem eru í nánasta umhverfi við miðbæinn áður en uppbygging hefjist á svæðum sem fjær eru. Að auki er þétting byggðar eitt af markmiðum þess sem og endurnýting vannýttra lóða. Með hinni kærða deiliskipulagsbreytingu er stefnt að þéttingu byggðar á svæði í göngufjarlægð við miðbæ Hafnarfjarðar með uppbyggingu á fyrrgreindum lóðum. Á næstu lóðum, nr. 36-40, við götuna hafa verið reist sambærileg fjölbýlishús og að því leyti falla fyrirhuguð hús að götumynd sem fyrir er. Gefa teikningar af hinum umdeildu framkvæmdum til kynna að húsin verði ekki stærri en fjölbýlishúsin sem fyrir standa við götuna. Með hliðsjón af framangreindu voru hinar umdeildu deiliskipulagsbreytingar í samræmi við stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið og bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Er sveitarstjórnum því veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga markmið þau sem tíunduð eru í a- til c-liðum 1. mgr. 1. gr. laganna um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og að tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Fallast má á að einhver grenndaráhrif geti fylgt heimiluðum framkvæmdum samkvæmt umdeildri skipulagsbreytingu sem felast einkum í útsýnisskerðingu, auknu skuggavarpi og umferð, en við undirbúning skipulagstillögunnar var leitast við að draga úr þeim áhrifum með því að minnka byggingar og breyta staðsetningu þeirra miðað við eldri tillögu frá árinu 2006. Samkvæmt fyrirliggjandi könnun sveitarfélagsins á skuggavarpi mun það ekki verða verulegt gagnvart fasteignum kærenda.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku verður gildi leyfisins ekki raskað.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. júlí 2014 og á ákvörðun Garðabæjar frá 29. s.m., í umboði bæjarstjórna greindra sveitarfélaga, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hleina að Langeyrarmölum fyrir lóðir nr. 30-34 við Herjólfsgötu, Hafnarfirði.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. nóvember 2014 um að samþykkja leyfi til að byggja tvö 16 íbúða fjölbýlishús ásamt sameiginlegri bílgeymslu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

113/2013 Hamragil

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 24. febrúar, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 113/2013, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar sveitarfélagsins Ölfuss frá 28. nóvember 2013 á umsókn Íþróttafélags Reykjavíkur um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu sinni á Hengilsvæðinu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2013, er barst nefndinni 23. s.m., kæra formaður og varaformaður aðalstjórnar sem og framkvæmdastjóri Íþróttafélags Reykjavíkur, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Ölfuss frá 29. nóvember 2013 að synja umsókn félagsins um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námu þess á Hengilsvæðinu. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Ölfusi 7. janúar 2015.

Málsatvik og rök: Hinn 19. nóvember 2013 var umsókn Íþróttafélags Reykjavíkur um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu sinni tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingar- og umhverfisnefndar Ölfuss. Í umsókninni var tekið fram að óskað væri eftir endurnýjun námuleyfis til efnistöku og var þess jafnframt óskað að mið væri tekið af umsókninni við gerð næsta aðalskipulags. Fundargerð nefndarinnar ber með sér að farið var með umsóknina sem fyrirspurn og var svohljóðandi bókað: „Afgreiðsla. Lagt fram. Kynna skal erindið fyrir Orkuveitur Reykjavíkur.“ Var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt í bæjarstjórn 28. s.m. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa fyrir hönd skipulags- og byggingarnefndar var kæranda tilkynnt um afgreiðslu málsins. Segir jafnframt í bréfinu að erindi um opnun námu sé hafnað og að sú ákvörðun sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Hefur kærandi kært greinda afgreiðslu til nefndarinnar svo sem áður er lýst.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að forsendur sveitarfélagsins fyrir synjun erindis kæranda standist ekki. Fullyrðing sveitarfélagsins um að náman sé nær fjarsvæði vatnsverndar sveitarfélagsins sé einfaldlega röng. Röksemdir um að umferð þungaflutningstækja sé ekki æskileg geti ekki staðist þar sem vegstæði að námunni sé á opnum vegi. Kærandi hafi verið eigandi að landsvæðinu frá árinu 1932 og hafi efnistaka farið fram þar frá því upp úr 1970. Ekki hafi verið leitað umsagnar kæranda sem landeiganda við þá ákvörðun að hafa ekki námu á aðalskipulaginu. Hafi sveitarfélagið þannig reynt að takmarka ráðstöfunarrétt kæranda en slíkt verði ekki gert án þess að bætur komi fyrir.

Skipulagsyfirvöld Ölfuss  skírskota til þess að erindi kæranda hafi verið hafnað þar sem ekki sé gert ráð fyrir námunni í Aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022. Sé það stefna sveitarfélagsins að vera með fáar en stórar námur. Samkvæmt náttúruverndarlögum þurfi allar námur leyfi og hafi lokafrestur þar um verið til 1. júlí 2012.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu sinni. Samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er öll efnistaka á landi háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Í 52. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli þeirra laga sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Svo sem nánar er lýst í málavöxtum samþykkti bæjarstjórn Ölfuss þá afgreiðslu umsóknar kæranda að hún væri lögð fram og kynnt fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Í því felst ekki nein sú ákvörðun sem bundið getur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Breytir synjunarbréf skipulags- og byggingarfulltrúa fyrir hönd skipulags- og byggingarnefndar engu þar um, enda er ákvörðunarvaldið á hendi sveitarstjórnar, sbr. áðurnefnda 13. gr. skipulagslaga. Þar sem ekki er fyrir hendi kæranleg ákvörðun í máli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Nanna Magnadóttir

66/2014 Aðalskipulag Grófin – Berg

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 19. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 66/2014, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 á tillögu að breyttu Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2014, er barst nefndinni 8. júlí s.á., kæra lóðarhafar Bakkavegar 18, 20, og 21 í Reykjanesbæ, þá ákvörðun Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 um að samþykkja tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 25. júlí 2014.

Málavextir og málsrök: Hinn 3. júní 2014 samþykkti sveitarstjórn Reykjanesbæjar breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024 fyrir hafnar og miðsvæði. Jafnframt var gert ráð fyrir að íbúðasvæði á Berginu yrði minnkað og að lóðir Bakkavegar 17 og 19 yrðu á miðsvæði en ekki íbúðarsvæði. Þá var samþykkt breyting á afmörkun sjávar við hafnarsvæði. Staðfesti Skipulagsstofnun téða breytingu 11. s.m. og birtist auglýsing um gildistöku breytinganna í B-deild Stjórnartíðinda 26. júní 2014.

Kærendur taka fram að ekkert samráð hafi verið haft við þá vegna breytinganna og ekki hafi verið farið að lögum við auglýsingu þeirra. Séu umræddar breytingar á Bakkavegi verulega íþyngjandi fyrir kærendur. Rekstur hótels að Bakkavegi 17 hafi valdið kærendum miklu ónæði, líkt og þeir hafi margoft bent á. Muni sú mikla stækkun sem áformuð sé á athafnasvæði hótelsins skerða lífsgæði kærenda með ónæði og umferðarhættu og hafa áhrif á verðmæti og sölumöguleika fasteigna þeirra.  

Reykjanesbær krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Hin kærða ákvörðun hafi hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. sömu laga sæti ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber samkvæmt lögunum að staðfesta ekki kæru til nefndarinnar. Af þessu leiði að umrædd ákvörðun sé ekki kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Er mælt svo fyrir um í 2. ml. 3. mgr. 32. gr. tilvitnaðra laga  að aðalskipulag taki gildi þegar það hafi verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Eins og að framan er rakið var hin umþrætta breyting á aðalskipulagi Reykjanesbæjar staðfest af Skipulagsstofnun 11. júní 2014 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. s.m. Sæta ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að fyrrgreindum lögum að staðfesta ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 52. gr. téðra laga. Af þeim sökum brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar  og verður málinu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

65/2014 Grófin og Bergið

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Grófina og Bergið í Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júní 2014, er barst nefndinni 8. júlí s.á., kæra lóðarhafar Bakkavegar 18, 20, og 21 í Reykjanesbæ, ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Grófina og Bergið í Reykjanesbæ. Er þess krafist að samþykkt bæjarstjórnar verði hnekkt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu 24. júlí 2014 sem og 2. og 16. febrúar 2015.

Málavextir: Hinn 15. janúar 2014 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar kynnt tillaga að deiliskipulagi fyrir Grófina og Bergið. Afmarkast skipulagssvæðið frá Grófinni í suðri, Bergvegi í vestri og endamörkum íbúðalands Bergsins í norðri og austri. Var samþykkt að áfram yrði unnið að tillögunni og að aðalskipulagi yrði breytt til samræmis við hana. 

Í kjölfar þessa var auglýstur kynningarfundur um deiliskipulagstillöguna. Var tekið fram í auglýsingu að tillagan fæli m.a. í sér stækkun smábátahafnar, byggingu hótels, verslunar og annarrar þjónustu á miðsvæði. Einnig væri gert ráð fyrir styrkingu byggðar á Berginu. Í kynningargögnum var sýnd tillaga er gerði m.a. ráð fyrir nýjum vegkafla við enda Bakkavegar upp á Bergið þar sem yrði útsýnishæð. Þá var sýnd viðbygging við norðurgafl hússins að Bakkavegi 17, ein hæð og ris. Hinn 12. mars s.á. var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi umrædds svæðis. Jafnframt var samþykkt að auglýsa breytingu á aðalskipulagi er fælist í breytingu á afmörkun sjávar við hafnarsvæði, stækkun á hafnar- og miðsvæði og minnkun á íbúðarsvæði á Bergi. Þá kom fram í bókun að athugasemdir hefðu borist frá nokkrum aðilum eftir kynningu á vinnutillögum á íbúafundi og að þær yrðu teknar fyrir að loknum auglýsingatíma. Komu kærendur t.a.m. að athugasemdum.

Tillaga að deiliskipulagi fyrir Grófina og Bergið var auglýst til kynningar í Víkurfréttum og Lögbirtingablaði. Hafði hún sætt breytingum frá kynntri tillögu að því er varðar svæði við Bakkaveg. Þannig náði nú heimiluð stækkun hússins að Bakkavegi 17 yfir alla norðurhlið þess og gert var ráð fyrir aðkomu að umræddri lóð frá norðri en ekki frá Bakkavegi eins og áður.

Greind deiliskipulagstillaga var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 28. maí 2014. Svör við fram komnum athugasemdum voru færð til bókar og tekið fram að athugasemdir lóðarhafa að Bakkavegi 18, 20 og 21 hefðu ekki áhrif á afgreiðslu málsins. Var samþykkt að senda deiliskipulagið til lögboðinnar afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu á fundi 3. júní 2014 með svofelldri bókun: „… deiliskipulag Grófin-Berg, athugasemdir. Samþykkt 10-0 í samræmi við tillögu Umhverfis- og skipulagsráðs að senda breytinguna til Skipulagsstofnunar til afgreiðslu“. Jafnframt var breyting á aðalskipulagi samþykkt. Með bréfi Skipulagsstofnunar til Reykjanesbæjar, dags. 20. júní s.á., kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda þegar staðfest hefði verið breyting á gildandi aðalskipulagi. Birtist auglýsing um gildistöku breytingar á aðalskipulagi 26. júní 2014 og öðlaðist hið kærða deiliskipulag gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí s.á.

Kærendur eru búsettir innan umrædds svæðis, nánar tiltekið við austurenda Bakkavegar sem er botngata. Á lóð nr. 17 við Bakkaveg er starfrækt hótel en fjögur hús, þ.á m. kærenda, eru austan við lóðina. Smábátahöfn í Grófinni liggur sunnan byggðarinnar við Bakkaveg.

Hafa kærendur skotið afgreiðslu bæjarstjórnar um deiliskipulag fyrir Grófina og Bergið til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að sveitarstjórn hafi hvorki tekið athugasemdir þeirra fyllilega til greina né svarað þeim með fullnægjandi hætti. Gerðar hafi verið athugasemdir við fyrirhugaðan veg upp á Bergið þar sem komið yrði fyrir bílastæðum/viðsnúningi. Muni umferð í götunni aukast til muna við breytinguna og valda ónæði og skerða lífsgæði íbúa við götuna. Jafnframt geti staðsetning bílastæða á Berginu verið hættuleg sökum staðhátta. Hafi í svari sveitarstjórnar ekkert verið fjallað um ábendingar kærenda um aukið ónæði. Þá hafi þar komið fram að efri hluti Bakkavegar yrði vistgata, en kærendum hafi fyrst verið gerð þau áform ljós með svari sveitarfélagsins. Þar hafi verið upplýst um atriði sem ekki hafi komið fram áður við meðferð málsins, hvorki á fundi með umhverfis- og skipulagsráði né í afhentum gögnum. Kærendur hafi því ekki haft færi á að tjá sig um þau atriði.

Gert hafi verið samkomulag sem hafi falið í sér að viðsnúningur bíla yrði framan við hótelið, en að öðru leyti yrðu þar ekki bílastæði. Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir kærenda hafi eigendur hótelsins komist upp með að þverbrjóta það samkomulag. Viðsnúningurinn sé notaður sem bílastæði og sé auk þess of lítill. Jafnframt hafi bílastæðum verið bætt við framan við hótelið og bílum gesta og starfsmanna sé gjarnan lagt á gangstétt framan við það. Tekið hafi verið fram í svari sveitarfélagsins til kærenda að til stæði að breyta aðkomu að hótelinu. Sé það raunin verði ekki lengur á því byggt að nauðsynlegt sé að koma fyrir viðsnúningi við enda götu. Með því að setja þar bílastæði og útsýnisstað sé markvisst verið að beina umferð bíla um götuna og upp á Bergið og færa vandann hinum megin við hús kærenda.

Jafnframt hafi komið fram í svari til kærenda að gert væri ráð fyrir þriðjungs stækkun á hótelinu. Það sé langt umfram þá stækkun sem kynnt hafi verið í gögnum og á kynningarfundi. Á teikningu sem kynnt hafi verið kærendum hafi aðeins komið fram stækkun á einum hluta hússins en eftir samþykkt deiliskipulagsins hafi kærendur fengið gögn er sýni fram á áform um mjög mikla stækkun lóðarinnar við Bakkaveg 17. Virðist sem eigendum nefndrar lóðar hafi verið gefinn kostur á að senda inn tillögur að stækkun lóðarinnar við gerð deiliskipulagsins. Muni áform um stækkun lóðarinnar og hússins hafa í för með sér enn meira ónæði fyrir kærendur og sæti furðu að þeir hafi ekki fengið að tjá sig um stækkunina. Alvarlegast sé að eigendum Bakkavegar 17 hafi verið gefinn kostur á að koma sínum sérhagsmunum að í deiliskipulagi sem kærendur hafi ekki haft vitneskju um að væri í vinnslu. Með þessu hafi jafnræðisregla verið brotin. Rétt hefði verið að upplýsa jafnframt kærendur um fyrirhuguð áform og gefa þeim kost á að koma á framfæri óskum sínum við skipulagsgerðina.

Málsrök Reykjanesbæjar: Sveitarfélagið tekur fram að í Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024 sé mörkuð stefna um þéttingu byggðar, m.a. í Grófinni og á Berginu. Til að fylgja fram þeirri stefnu hafi verið nauðsynlegt að ráðast í gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Jafnframt hafi verið áformað að ráðast í uppbyggingu á miðsvæði í Grófinni þar sem gert væri ráð fyrir aukinni fjölbreytni með íbúðum og þjónustu. Hið kærða deiliskipulag sé sett á grundvelli aðalskipulagsins með áorðnum breytingum og sé í samræmi við það. Séu engir þeir annmarkar á meðferð málsins að varðað geti ógildingu. Skilyrði hafi verið fyrir því að falla frá lýsingu skipulagsverkefnisins þar sem allar meginforsendur hafi legið fyrir í aðalskipulagi. Brugðist hafi verið við þeim athugasemdum sem fram hafi komið á kynningartíma, m.a. með því að breyta aðkomu að atvinnuhúsnæði að Bakkavegi 17.

Áhyggjur kærenda af opnun akstursleiðar út á Bergið séu ekki á rökum reistar. Verði þess gætt að ekki skapist ónæði af umferð út á útivistarsvæðið. Ef svo færi væri unnt að takmarka umferð um akstursleiðina að fengnu leyfi lögreglustjóra með stoð í 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og þyrfti ekki skipulagsbreytingu til. Ekki komi til álita að ógilda deiliskipulagið á grundvelli sjónarmiða um umferð. Vísist einnig um þetta til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 11/2000.

Með breytingu á aðalskipulagi Reykjanesbæjar hafi lóðin að Bakkavegi 17 verði felld undir miðsvæði en hún hafi áður tilheyrt íbúðarsvæði. Leiði af þeirri breytingu að aðrar forsendur séu fyrir uppbyggingu á lóðinni en áður hafi verið og eðlilegt að gert sé ráð fyrir meira byggingarmagni. Þess sé þó gætt að auka ekki á hæð mannvirkja á lóðinni og fullt tillit sé tekið til hagsmuna íbúa á íbúðarsvæðinu við uppbyggingu atvinnustarfsemi að Bakkavegi 17. Ekkert sé við það að athuga þótt lóðarhafi hafi vegna nefndra breytinga fengið sérstaklega að koma að sjónarmiðum sínum um uppbyggingu á lóðinni og hafi jafnræðisregla ekki verið brotin, enda staða aðila ekki sambærileg.

Engin mótsögn sé í því fólgin að Bakkavegur sé gerður að vistgötu þótt ekið verði um hann að útsýnissvæði. Verði að skilja 1. mgr. 7. gr. umferðarlaga á þann veg að hluti götu geti verið skilgreindur sem vistgata og fái sá skilningur stoð í umferðarmerki D14.21, en það merki sé notað til að gefa til kynna að reglur um vistgötu gildi ekki lengur.

Samkvæmt skipulagslögum geti sveitarstjórn gert breytingar á auglýstri tillögu að deiliskipulagi og þurfi ekki að auglýsa hana að nýju nema henni sé breytt í grundvallaratriðum, en svo sé ekki í hinu kærða tilviki. Eins og þessum reglum sé háttað sé ekki gert ráð fyrir því að þeim íbúum sem gert hafi athugasemdir við skipulagstillögu sé gefinn kostur á að gera athugasemdir við slíkar breytingar heldur beri einungis að svara athugasemdum þeirra svo sem gert hafi verið. Málsástæða kærenda um að þeir hafi ekki fengið gögn um þær breytingar sem gerðar hafi verið á skipulagstillögunni við meðferð hennar sé því ekki á rökum reist. Aðrar athugasemdir séu léttvægar og ekki til þess fallnar að valda ógildingu.

——

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags fyrir Grófina og Bergið. Tillaga að deiliskipulagi fyrir umrætt svæði var kynnt á almennum fundi og almenningi veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Í kjölfar þess voru gerðar breytingar á tillögunni og hún auglýst til kynningar með fresti til athugasemda. Færð voru til bókar svör við fram komnum athugasemdum á fundi umhverfis- og skipulagsráðs og staðfesti bæjarstjórn þá bókun. Tillagan var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda, en áður hafði breyting á aðalskipulagi Reykjanesbæjar tekið gildi. Þeim er gert höfðu athugasemdir var tilkynnt um afgreiðslu málsins og send svör við athugasemdum. Var skipulagsyfirvöldum heimilt að víkja frá gerð lýsingar skipulagsverkefnisins þar sem meginforsendur deiliskipulagsins lágu fyrir í aðalskipulagi. Þá verður af gögnum ekki annað ráðið en að kærendur hafi bæði gert athugasemdir við kynnta sem og auglýsta tillögu en á auglýstri tillögu var m.a. sýnd breytt aðkoma að lóðinni að Bakkavegi 17. Telja verður að með bókun bæjarstjórnar hinn 3. júní 2014 hafi falist afstaða hennar til athugasemda kærenda, svo sem áskilið er lögum samkvæmt. Með vísan til framangreinds verður ekki séð að formlegri meðferð skipulagstillögunnar hafi verið ábótavant.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags. Við beitingu þess ber að fylgja markmiðsetningu laganna sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Athugasemdir kærenda lúta einkum að þeim heimildum sem deiliskipulagið veitir við Bakkaveg. Annars vegar að nýr vegkafli verði lagður við Bakkaveg er liggi að útsýnishæð austan við hús kærenda og hins vegar stækkun lóðarinnar að Bakkavegi 17 og aukið byggingarmagn á henni. Benda kærendur á að þeir hafi um langt skeið komið á framfæri athugasemdum sínum vegna ónæðis er fylgi hótelrekstri að Bakkavegi 17, sér í lagi vegna aukinnar umferðar í götunni, en á árinu 2013 skutu kærendur máli til úrskurðarnefndarinnar m.a. vegna samþykktra breytinga á þeirri lóð.

Með breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024 var samþykkt stækkun á miðsvæði til norðausturs. Við þá breytingu varð lóðin að Bakkavegi 17 innan miðsvæðis en á slíkum svæðum er heimilt að starfrækja hótel, sbr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Er nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,33 sem telja verður hóflegt á miðsvæði og eins og atvikum er hér háttað. Telja verður að sú breyting sem gerð var á aðkomu að lóðinni, sem og breyting hluta Bakkavegar í vistgötu, sé til þess fallin að draga úr neikvæðum áhrifum umferðarinnar. Var með því að nokkru komið til móts við athugasemdir kærenda. 

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 um deiliskipulag fyrir Grófina og Bergið sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí s.á.

____________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ómar Stefánsson                                               Þorsteinn Þorsteinsson