Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2013 Njarðargata

Árið 2015, þriðjudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2013, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 30. maí 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.185.6, Nönnugötureits.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra G, Urðarstíg 15, Reykjavík, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 15. maí 2013 um breytingu á deiliskipulagi Nönnugötureits vegna lóðarinnar nr. 25 við Njarðargötu í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júlí 2013, sem barst nefndinni 24. júlí s.m., kæra Helena Óladóttir og Theodór Welding, Urðarstíg 13, Reykjavík, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur á tillögu um breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.185.6 vegna lóðarinnar nr. 25 við Njarðargötu. Þar sem sama ákvörðun er kærð í báðum málum og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 75/2013, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 26. ágúst og 5. nóvember 2013.

Málavextir: Deiliskipulag staðgreinireits 1.185.6, Nönnugötureits, var samþykkt í borgarráði 6. september 1988. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins hækkaði nýtingarhlutfall á svæðinu og er tekið fram að það sé aðallega hugsað sem svigrúm til að byggja litlar viðbyggingar eða kvisti eða hækka þak. Við Njarðargötu sé leyfð þó nokkur hækkun þar sem byggja megi upp að háum brunagafli. Ekki sé gert ráð fyrir fjölgun íbúða. Ný hámarks nýting á reitnum verði 1,5 með deiliskipulaginu.

Með úrskurði í máli nr. 41/2010, kveðnum upp 15. febrúar 2012, felldi úrskurðarnefndin úr gildi breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Njarðargötu, en breytingin laut að hækkun á nýtingarhlutfalli og afmörkun á kvöð um aðgengi að nefndri lóð.

Á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 23. mars 2013 var lagt fram erindi umhverfis- og skipulagssviðs varðandi breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna áðurnefndrar lóðar, en í breytingunni fólst aukning á nýtingarhlutfalli úr 1,5 í 1,9 og stækkun hámarksgólfflatar úr 153 m² í 193,8 m² samkvæmt uppdrætti arkitekts, dags. 14. mars 2013. Á fundinum var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum í næsta nágrenni lóðarinnar. Tillagan var grenndarkynnt frá 2. apríl til 1. maí 2013 og bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum. Að grenndarkynningu lokinni var málið tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 15. maí s.á. og var þar lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. s.m. Var tillagan samþykkt með vísan til umsagnarinnar og vísað til borgarráðs þar sem hún var samþykkt á fundi 30. maí 2013. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 21. júní 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur gera athugasemdir við nýja útreikninga á brúttóflatarmáli hússins við Njarðargötu 25. Ef reiknað sé eftir þeim teikningum sem í gildi séu fyrir húsið sé það nákvæmlega 108,68 m². Ekki sé hægt að stækka húsið um 18,3 m² með því einu að benda á nýjar reikningsaðferðir. Brúttógólfflötur hverrar hæðar sé 54,34 m² og sé gengið út frá því að hæðirnar séu þrjár geri það 163,02 m². Þá sé raunar byggingarmagnið þegar komið 10 m² yfir leyfilegt byggingarmagn. Ef reglugerð segi virkilega að aðeins lítill hluti rishæðar þurfi að vera manngengur til að allur gólfflöturinn teljist með þá eigi það ekki við í þessu tilfelli því enginn hluti rishæðar Njarðargötu 25 sé manngengur. Mesta lofthæð sé u.þ.b. einn metri og því sé risið ekki gjaldgengt í útreikningum.

Í gildandi deiliskipulagi segi að leyfileg hækkun við Njarðargötu sé töluverð þar sem byggt sé upp að háum brunagafli, en almennt sé ekki gert ráð fyrir fjölgun íbúða á skipulagssvæðinu þótt svigrúm sé veitt, aðallega til byggingar lítilla viðbygginga eða kvista eða til að hækka þak. Ekkert í deiliskipulaginu frá 1988 gefi til kynna hversu mikið eða lítið megi hækka húsið að Njarðargötu 25, aðeins að það sé ekki meira en 153 m² að stærð og fari ekki út fyrir lóðarmörk. Það sé hægt að gera á marga vegu og þótt heimilt sé samkvæmt deiliskipulaginu frá 1988 að byggja eina og hálfa hæð ofan á húsið sé ekkert sem segi að það verði að gera það og alls ekki hægt að fullyrða að nýtingarhlutfallið hafi verið rangt reiknað, eins og haldið sé fram í greinargerðinni með skipulagstillögunni. Telji kærendur fráleitt að það stækka þurfi húsið upp í 193,8 m² til að uppfylla einhver ímynduð skilyrði.

Með stækkun hússins að Njarðargötu 25 um 85,2 m² megi gera ráð fyrir að húsið geti hýst fleiri íbúa, jafnvel fleiri íbúðir. Það myndi þýða aukna umferð með tilheyrandi ónæði og óþægindum fyrir nágranna.

Sé fallist á að um villu hafi verið að ræða í gildandi deiliskipulagi hefði verið hægt að fara þá leið að líta svo á að ranglega hefði verið veitt heimild til hækkunar um eina og hálfa hæð. Sá kostur að hækka nýtingarhlutfallið fórni hagsmunum kærenda og fleiri nágranna fyrir minni hagsmuni. Margir fasteignareigendur hafi lýst áhyggjum og fært rök fyrir neikvæðum afleiðingum breytinganna á húseignir sínar, sbr. innsendar athugasemdir. Framangreind rök eigi að vega þyngra en rök skipulagsfulltrúa fyrir breytingunni. Uppfylli deiliskipulagið frá 1988 ekki þau skilyrði sem gerð séu til slíks beri að fella það úr gildi og hefja vinnu við nýtt deiliskipulag í samræmi við lög og reglugerðir.

Ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs halli á rétt kærenda að Urðarstíg 13 til friðhelgi einkalífs með aukinni innsýn í húseign þeirra, auk þess sem breytingartillagan feli í sér aukið skuggavarp og dragi þar með úr gæðum fasteignar þeirra. Þeir geti ekki fallist á þau rök fyrir breytingunni að verið sé að leiðrétta villu í deiliskipulagi sem sé í gildi. Það sé ekki nægjanlegt til að rökstyðja þá grundvallarbreytingu á nýtingarhlutfalli fasteignarinnar við Njarðargötu 25 sem sé til umfjöllunar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar kemur fram að hin umdeilda deiliskipulagsbreyting feli aðeins í sér leiðréttingu á hámarksbyggingarmagni og þar með nýtingarhlutfalli lóðarinnar. Eingöngu sé í breytingunni fjallað um lóðina að Njarðargötu 25 og þann rétt sem eigandi hennar hafi samkvæmt deiliskipulagi Nönnugötureits frá 1988. Samkvæmt því megi hækka húsið um eina og hálfa hæð í tvær hæðir og ris, eins og sjá megi af götumynd af deiliskipulagsuppdrættinum. Nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt því skipulagi megi vera allt að 1,5 en þar sem lóðarstærðin sé aðeins 102 m² væri ekki heimilt að byggja nema 153 m² á lóðinni. Byggingarmagn sé samkvæmt fasteignamati 108,6 m² en við útreikninga á brúttóflatarmáli hússins hafi komið í ljós að það sé 126,9 m². Samkvæmt því væri hægt að stækka húsið um 26 m² eða 44 m² ef gengið sé út frá því að brúttóflatarmálið sé rétt reiknað í fasteignamatinu. Samkvæmt nýjum reglum um útreikning á brúttóflatarmáli bygginga reiknist rishæð með að fullu þótt aðeins lítill hluti hennar sé manngengur. Hús að grunnfleti 60-65 m², eins og húsið við Njarðargötu 25, sem sé tvær hæðir og ris, reiknist því með nálægt 200 m² brúttóflatarmál. Samkvæmt því þurfi nýtingarhlutfallið að vera 1,9 til þess að hægt sé að byggja samkvæmt deiliskipulaginu frá 1988. Ytra formi hússins sé ekki breytt frá gildandi deiliskipulagi.

Því miður sé deiliskipulagið frá 1988 ekki mjög nákvæmt og þar komi t.d. ekki fram hæð húsa í metrum. Athugasemdir snúi m.a. að því að heimiluð bygging muni skerða birtu og útsýni úr nærliggjandi húsum. Ekki sé borið á móti því að hækkun hússins muni hafa einhver áhrif á þau atriði en þó verði að athuga að húsið verði eftir sem áður talsvert lægra en aðliggjandi hús að Nönnugötu 16. Skiljanlegt sé að nágrannar hafi áhyggjur vegna breytinga í umhverfi þeirra en breytingin nú sé eingöngu gerð til að eigendur Njarðargötu 25 geti stækkað hús sitt í samræmi við gildandi deiliskipulag. Skipulagið hafi verið í gildi í næstum aldarfjórðung en sé gallað, eins og áður hafi verið rakið.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar borgarráðs frá 30. maí 2013 um breytingu á deiliskipulagi fyrir stðagreinireit 1.186.5, Nönnugötureit, vegna lóðarinnar nr. 25 við Njarðargötu.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að önnur kæran í málinu sé of seint fram komin og skuli því vísa henni frá úrskurðarnefndinni. Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um útreikning frests. Þar kemur fram í 1. mgr. að sá dagur sem frestur telst frá sé ekki talinn með í frestinum. Í 2. mgr. segir síðan að ef lokadagur frests er almennur frídagur lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir. Ákvörðunin var birt í B-deild Stjórnartíðinda 21. júní 2013. Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum 8. gr. stjórnsýslulaga ber að byrja að telja frest daginn eftir birtinguna, eða 22. júní. Þann dag bar hinsvegar upp á laugardag og því byrjaði fresturinn að líða frá mánudeginum 24. júní. Umrædd kæra barst nefndinni 24. júlí og samkvæmt framangreindu telst hún því hafa borist innan lögmælts kærufrests.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum er hámarksnýtingarhlutfall 1,5 samkvæmt deiliskipulagi Nönnugötureits. Því er lýst í greinargerð hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar að samkvæmt gildandi skipulagi sé gert ráð fyrir að hækka megi húsið úr 1,5 hæðum í 3 hæðir. Lóðarstærð sé 102 m² og samkvæmt fasteignamati sé núverandi byggingarmagn 108,6 m². Dugi heimilað brúttóbyggingarmagn ekki fyrir 1,5 hæðum, eins og heimilt sé. Við gerð skráningartöflu hafi komið í ljós að núverandi byggingarmagn sé 126,9 m² og muni því aðeins 26,1 m² á raunverulegu núverandi byggingarmagni og byggingarmagni húss sem byggja megi 1,5 hæð ofan á.

Samkvæmt gögnum málsins snýr hin umdeilda deiliskipulagsbreyting því einungis að hækkun leyfilegs nýtingarhlutfalls á lóðinni í 1,9 og samsvarandi aukningu hámarksbyggingarmagns, en í gildandi deiliskipulagi frá 1988 var þegar gert ráð fyrir hækkun hússins upp að háum brunagafli. Sýna götumyndir deiliskipulagsins heimilaða hækkun glögglega. Útreikningar á því sem talið er nauðsynlegt nýtingarhlutfall fyrir leyfða stækkun á húsinu samkvæmt gildandi skipulagi liggja því til grundvallar hinni umdeildu breytingu. Verður ekki annað séð en að þær forsendur hinnar kærðu breytingar, að 1,5 sé of lágt nýtingarhlutfall vegna þeirrar viðbótar sem þegar sé heimiluð í gildandi deiliskipulagi, séu málefnalegar. Þá verður ekki talið að deiliskipulagsbreytingin sé slík að umfangi, miðað við efnisheimildir í fyrra deiliskipulagi, að réttur kærenda sé fyrir borð borinn.

Loks verður ekki annað séð en að meðferð málsins hafi verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Umrædd tillaga að deiliskipulagsbreytingu var grenndarkynnt fyrir næstu nágrönnum Njarðargötu 25, með vísan til 43. gr. laganna, sem heimilar að grenndarkynna óverulegar breytingar á samþykktu deiliskipulagi, en í ljósi atvika málsins verður að telja nefnda breytingu á nýtingarhlutfalli úr 1,5 í 1,9 óverulega í skilningi ákvæðisins. Þá var hin umdeilda breytingartillaga auglýst til kynningar samkvæmt lögunum, fram komnum athugasemdum var svarað, tillagan samþykkt og gildistaka breytingarinnar auglýst í kjölfarið.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 30. maí 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.185.6, Nönnugötureits.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson