Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2013 Austurvegur á Ísafirði

Árið 2015, þriðjudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 6. júní 2013 um breytingar á skólalóð Grunnskólans á Ísafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. ágúst 2013, er barst nefndinni 2. s.m., kæra Á, Austurvegi 7, Ísafirði, framkvæmdir Ísafjarðarbæjar vegna skólalóðar Grunnskólans á Ísafirði. Verður að skilja kæruna svo að kærð sé ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 6. júní 2013 um breytingar á skólalóð Grunnskólans á Ísafirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Ísafjarðarbæ 4. október 2013.

Málavextir: Á fundi umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar 29. maí 2013 var lagt fram erindi Grunnskólans á Ísafirði, dags. 8. s.m., þar sem þess var óskað að blómagarðurinn við Austurvöll yrði skilgreindur sem skólalóð. Jafnframt voru lagðar fram nokkrar tillögur að nýrri skólalóð og lagði nefndin til að farið yrði eftir tillögu 3, sem fól m.a. í sér að sá hluti Austurvegar, sem hafði verið skilgreindur sem vistgata og lokaður á skólatíma, var gerður að hluta skólalóðarinnar og þeim hluta því lokað varanlega. Þá var bókað að óheimilt væri að skerða umfang garðsins og var grunnskólanum veitt leyfi til að nýta hann sem hluta af skólalóð undir eftirliti skólastjórnenda. Á fundi bæjarstjórnar 6. júní s.á. var samþykkt að nýta Austurvöll sem hluta af skólalóð Grunnskólans á Ísafirði og var bókað að sú nýting gengi ekki gegn hverfisvernd Austurvallar, sem samþykkt væri í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar. Á sama fundi var fundargerð umhverfisnefndar frá 29. maí s.á. staðfest.

Fréttir af greindum ákvörðunum ásamt teikningu að fyrirhugaðri skólalóð birtust í Bæjarins Besta, fréttablaði á Vestfjörðum, í byrjun júlí 2013. Hófust framkvæmdir við lóðina og var leiktækjum komið fyrir seinna í sama mánuði.

Málsrök kæranda: Kærendur taka fram að með hinum kærðu breytingum verði þeim meinuð aðkeyrsla að fasteign þeirra að Austurvegi 7, og þá sérstaklega að bílskúr austan megin við húsið. Aðkeyrslan hafi verið um sund á milli Sundhallar Ísafjarðar og skrúðgarðsins Austurvallar. Ekki hafi farið fram grenndarkynning vegna framkvæmdanna og ákvörðunin hafi ekki verið auglýst. Kærendur hafi þær upplýsingar frá Skipulagsstofnun að framkvæmdir þessar séu unnar í trássi við gildandi deiliskipulag frá 16. október 1997. Það fyrsta sem kærendur hafi séð um málið hafi verið frétt á vef bæjarblaðsins, dags. 3. júlí 2013, þar sem birt hafi verið teikning af fyrirhugaðri skólalóð.

Með lokun á innkeyrslunni séu nýtingarmöguleikar kærenda á fasteign þeirra stórlega takmarkaðir. Útilokað sé að koma bifreið að húsinu eða inn í bílskúrinn nema um innkeyrsluna. Sé um að ræða rýrnun á verðmæti fasteignarinnar vegna hinna kærðu framkvæmda.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að gildandi deiliskipulag hafi verið samþykkt af bæjarstjórn Ísafjarðar 16. október 1997. Í skipulaginu komi fram að Austurvegur sé lokaður á skólatíma milli sundhallar og Grunnskólans á Ísafirði, en einstefna sé þar á öðrum tímum. Austurvegur sé skólalóð samkvæmt skipulaginu og því hafi nægt að breyta umferðarsamþykkt til að banna umferð um þennan hluta Austurvegar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að loka hluta Austurvegar á Ísafirði, en aðkoma að innkeyrslu að fasteign kærenda Austurvegi 7 er innan þess svæðis sem lokað var.

Þegar ákvörðun sú er málið snýst um var tekin var í gildi deiliskipulag fyrir Eyrina á Ísafirði frá 16. október 1997. Þar var sá hluti Austurvegar sem lokað var skilgreindur sem vistgata en í greinargerð með skipulaginu kom fram í kafla 2.8 Kvaðir: „Kvöð er um umferð að Austurvegi 7 um lóðir Austurvegar 9 og 11.“ Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni var hafist handa við breytingu á nefndu deiliskipulagi í kjölfar kæru til nefndarinnar og segir í greinargerð með breytingunni að kæran hafi verið ástæða þess að ákveðið hafi verið að breyta deiliskipulaginu. Í öðrum kafla greinargerðarinnar segir eftirfarandi: „Meginbreyting deiliskipulagsins felst í að Austurvegi milli grunnskólans (Aðalstræti 36) og Austurvallar (Austurvegar 5) og Sundhallarinnar (Austurvegur 9) er lokað að fullu, í stað þess að vera skilgreindur sem vistgata með lokun á skólatíma. Lóð skólans stækkar sem þessari lokun nemur.“ Einnig segir: „Aðkoma að Austurvegi 7 verður áfram um lóð Sundhallarinnar (Austurvegar 9) líkt og í gildandi skipulagi.“ Á skipulagsuppdrættinum kemur fram að gatan fyrir framan innkeyrslu þá er kæra málsins snýst um sé nú lokuð en kvöð um umferðarrétt sé að húsi kærenda milli húsanna við Austurveg 9 og 11. Loks kemur fram í greinargerðinni að annar kærenda hafi skilað inn athugasemdum á auglýsingartíma skipulagsins.

Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. september 2014 og hefur sú skipulagsákvörðun hvorki verið borin undir úrskurðarnefndina af kærendum né öðrum aðilum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Ljóst er af framangreindu að hvað sem líður lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar liggur nú fyrir ný ákvörðun um breytingu deiliskipulags, sem gildir fyrir hið umdeilda svæði. Hefur hin kærða ákvörðun af framangreindum ástæðum ekki lengur réttarverkan að lögum eftir gildistöku hinnar yngri ákvörðunar. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda stæði hin nýja skipulagsákvörðun óhögguð allt að einu. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurgreinda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson