Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2013 Hafnarsvæði í Bíldudal

Árið 2015, þriðjudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Vesturbyggðar frá 16. janúar 2013 um að samþykkja deiliskipulag iðnaðarsvæðis í Bíldudalshöfn og Hafnarteigs 4, Bíldudal í Vesturbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. mars 2013, er barst nefndinni næsta dag, kæra Ó og H, f.h. Rækjuvers ehf., eiganda fasteignarinnar Strandgötu 9, Bíldudal, þá ákvörðun sveitarstjórnar Vesturbyggðar frá 16. janúar 2013 að samþykkja deiliskipulag iðnaðarsvæðis í Bíldudalshöfn og Hafnarteigs 4 í Bíldudal. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Þar sem ákvörðunin fól ekki í sér heimild til framkvæmda þótti ekki tilefni til að taka síðargreindu kröfuna til úrlausnar með sérstökum úrskurði og verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 6. maí 2013 og í maí 2015.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu en árið 2004 var samþykkt í bæjarstjórn Vesturbyggðar tillaga að deiliskipulagi, er gerði m.a. ráð fyrir landfyllingu austan við höfnina á Bíldudal, sunnan Strandgötu. Yrðu þar þrjár nýjar lóðir og á einni þeirra, er væri 15.820 m² að flatarmáli, yrði heimilt að reisa kalkþörungaverksmiðju, allt að 4.500 m² að stærð. Var starfsleyfi vegna þeirrar starfsemi gefið út til Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. 12. júlí 2006 og er nú starfrækt kalkþörungaverksmiðja á umræddri lóð, sem er nr. 4 við Hafnarteig. Í mars 2012 var samþykkt í bæjarstjórn breyting á nefndu skipulagi er fól m.a. í sér stækkun lóðarinnar að Hafnarteigi 4 til norðvesturs og á fyllingu til norðurs, sem og stækkun byggingarreits. Þeirri ákvörðun var skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er kvað upp úrskurð í málinu í október 2012. Taldi nefndin að fella bæri hina kærðu ákvörðun úr gildi þar sem samþykkt deiliskipulag fyrir umrætt svæði frá 2004 hefði ekki þýðingu að lögum, en ekki hafði birst auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda, líkt og áskilið var í lögum.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar hinn 15. október 2012 var tekin fyrir ný deiliskipulagstillaga að hafnarsvæðinu á Bíldudal, er gerði m.a. ráð fyrir stækkun landfyllingar og auknu byggingarmagni á lóðinni Hafnarteigi 4. Með tillögunni fylgdu greinargerð og umhverfisskýrsla. Fært var til bókar að meginforsendur tillögunnar væri að finna í aðalskipulagi Vesturbyggðar og var samþykkt að auglýsa hana skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 17. s.m. Var í framhaldi af því auglýst „Nýtt deiliskipulag á hafnarsvæðinu á Bíldudal“ og barst athugasemd frá kæranda máls þessa á kynningartíma tillögunnar.

Hinn 14. janúar 2013 var málið að nýju til umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd. Lagt var til að breytingar yrðu gerðar á umhverfisskýrslunni og frekari upplýsinga óskað frá Íslenska Kalkþörungafélaginu ehf. varðandi áhrif mengunar af starfseminni. Gerði nefndin jafnframt umsögn lögmanns um fram komnar athugasemdir að sínum, samþykkti tillöguna og lagði til við bæjarstjórn að hún yrði samþykkt með fyrrgreindum breytingum og með vísan til fyrirliggjandi umsagnar. Bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi hinn 16. s.m. Var tillagan  samþykkt með þeim breytingum að mörk lóðarinnar að Strandgötu 10-12 yrðu gerð skýrari og að sett yrðu inn ákvæði um hámarkshæð skorsteins og hreinsibúnaðar á nýju þurrkarahúsi að Hafnarteigi 4. Auk þess yrði bætt við í umhverfisskýrslu ákvæðum um umhverfismarkmið og vöktun. Þá var farið fram á að Íslenska Kalkþörungafélagið ehf. gerði grein fyrir því hvernig spornað yrði við foki vegna aukningar uppsáturs efnis á fyrirhugaðri landfyllingu og hvernig vöktun á hávaðamengun á nærliggjandi lóðum færi jafnan fram. Jafnframt var vísað til og tekið undir umsögn lögmanns um fram komnar athugasemdir.

Í kjölfarið var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögbundinnar yfirferðar sem gerði ekki athugasemd við birtingu þess. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar „um nýtt deiliskipulag iðnaðarsvæðis í Bíldudalshöfn og Hafnarteigs 4, Vesturbyggð“ í B-deild Stjórnartíðinda hinn 27. febrúar 2013. Í auglýsingu segir m.a.: „Um er að ræða nýtt deiliskipulag byggt á áður ógildu deiliskipulagi fyrir Hafnarteig 4 og aðliggjandi svæði. Nýja deiliskipulagið fjallar í meginatriðum um stækkun landfyllingar í samræmi við gildandi aðalskipulag, lóðin fyrir Hafnarteig 4 verði stækkuð til norðurs og byggingarreitur stækkaður vegna nýs þurrkarahúss og húss fyrir forþurrkun hráefnis og mötun hráefnis til beggja þurrkara Kalkþörungaverksmiðunnar á Bíldudal. Einnig er ráðgert að lóðarmörkum Hafnarteigs 140609 og Strandgötu 2 verði breytt þannig að gata, sem var fyrirhuguð milli lóðanna, verði felld niður.“
 
Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að í auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda komi fram að bæjarstjórn hafi samþykkt skipulagið 25. febrúar 2013. Ekki verði af fundargerðum ráðið að skipulagið hafi þá verið til afgreiðslu heldur á fundi bæjarstjórnar 16. janúar s.á. Einnig sé deiliskipulagið auglýst í B-deild sem „nýtt deiliskipulag iðnaðarsvæðis í Bíldudalshöfn og Hafnarteigs 4, Vesturbyggð“ en í allri umfjöllum um málið sé það kynnt sem „deiliskipulagstillaga að hafnarsvæðinu á Bíldudal“. Valdi þessir annmarkar því að ógilda beri hið kærða deiliskipulag.

Umhverfisþættir tillögunnar og umhverfisskýrslunnar séu vanreifaðir. Í umhverfisskýrslu, sem sé hluti af deiliskipulagstillögu, sé fullyrt að umrædd breyting á deiliskipulaginu snerti ekki lög um mat á umhverfisáhrifum, lög um mat áætlana og tengdar reglugerðir. Að öðru leyti segi aðeins um umhverfismál í skýrslunni: „Stækkun fyllingar til norðurs er undir stærðarmörkum laga nr. 106/2000, sbr. gr. 6 og 2. viðauka.“ Hafi því ekki verið framkvæmt mat á umhverfisáhrifum starfseminnar og skipulagstillögunnar. Skorti á að gerð hafi verið nægileg grein fyrir umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, t.d. með vísun til lagaákvæða. Sé nefnd fullyrðing ekki fullnægjandi skýring á því að öll framkvæmdin, landfyllingin og stækkun vinnslunnar sé undanþegin tilvitnuðum lagaákvæðum og öðrum er máli skipti. Þá sé í umhverfisskýrslu ekki getið ákveðinna atriða sem ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 105/2006 áskilji og tilgreind séu í e-, d-, f- og g-liðum ákvæðisins.  

Sveitarfélagið hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum, sbr. skipulagslög og lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Verði að telja þetta brot á lögum nr. 106/2000, lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 og tilskipunum 85/337/EBE og 97/11/EB, er varði mat á umhverfisáhrifum, sem og tilskipunar 2001/42/EB. Þótt sveitarfélag telji sig deiliskipuleggja innan formlegra marka gildandi aðalskipulags leysi það ekki sveitarfélagið undan skyldu til að fara að lögum við meðferð málsins, en aðalskipulag víki fyrir lögum.

Sveitarstjórn virðist byggja á ákvæði i-liðar 10. tölul. í 2. viðauka með lögum um mat á umhverfisáhrifum. Sé þá litið fram hjá því að umrædda landfyllingu eigi ekki að gera í þeim tilgangi sem ákvæðið kveði á um heldur sé tilgangur landfyllingarinnar landstækkun til atvinnustarfsemi. Jafnframt sé horft fram hjá hinum almennu fyrirmælum í 2. viðauka laganna að meta skuli framkvæmdir sem kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar, en aðeins virðist litið til umfangs þeirra. Vísi kærandi til athugasemda í frumvarpi til laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. þingskjal nr. 933 á 140. löggjafarþingi 2011-2012 og þingskjals nr. 87 á 141. löggjafarþingi 2012-2013, sem og þeirra dóma sem þar sé vitnað til. Ákveðinna upplýsinga hafi ekki verið aflað við undirbúning hins kærða deiliskipulags, svo sem hvaða atvinna og eignir geti orðið fyrir áhrifum af fyrirhuguðu skipulagi og fyrirhuguðum framkvæmdum, auk venjulegra umhverfisþátta eins og byggðar, vatns (sjór) lofts o.s.frv., sbr. og 4. tl. 2. gr. laga nr. 105/2006 og k-lið 3. gr. laga nr. 106/2000.

Reynslan af starfsemi kalkþörungavinnslunnar sé sú að hún hafi mjög veruleg og skaðleg umhverfisáhrif. Hafi starfsemin verið undir eftirliti Umhverfisstofnunar vegna fjölda kvartana sem borist hafi, sérstaklega vegna mikillar rykmengunar frá henni. Einnig hafi gætt hávaða og titrings frá verksmiðjunni, er starfrækt sé allan sólarhringinn. Með hliðsjón af eðli og umfangi hinnar fyrirhuguðu starfsemi og reynslunnar af henni hingað til, nauðsynlegra varúðarsjónarmiða umhverfisréttarins og til þess að dregið verði eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum verði að telja að skylt sé, eða rétt, að fram fari vönduð athugun á umhverfisáhrifum deiliskipulagsins. Gert sé ráð fyrir mikilli stækkun á hráefnislager verksmiðjunnar með stækkun verksmiðjunnar sjálfrar og aukinni afkastagetu og verði að gera ráðstafanir sem komi í veg fyrir að ryk frá lager fari um allt byggðarlagið. Hafi sveitarfélagið ekki sýnt fram á hvernig hin svokallaða vöktun muni draga úr hávaða og titringi frá verksmiðjunni, en það sé búnaður verksmiðjunnar sem valdi honum.

Óviðunandi sé að gerð verði ný lóð fyrir rykmengandi starfsemi fyrir framan starfsstöð kæranda í átt til sjávar. Verði af þeirri ráðstöfun, megi nær öruggt telja, að verksmiðjuhús félagsins verði ónothæft til vinnslu matvæla en einnig hafi þetta áhrif á verðmæti fasteignarinnar. Njóti atvinnurekstur félagsins og eignir þess verndar stjórnarskrárinnar og megi skipulag ekki brjóta gegn þeim réttindum. Eigi félagið einnig einstaklingsbundna kröfu til viðunandi heilnæms umhverfis fyrir starfsemi sína og hugsanlegt starfsfólk sitt. Ráðstafanir til að takmarka áhrif af starfseminni séu ófullnægjandi.

Loks verði engan veginn séð að fyrirhuguð starfsemi kalkþörungaverksmiðjunnar krefjist svo stórs landsvæðis sem hin kærða tillaga geri ráð fyrir og sé stærð og umfang landfyllingar algerlega órökstutt. Með tillögunni sé að auki óþarflega þrengt að öðrum aðilum, þ.á m. kæranda. Sé í þessu sambandi vísað til álits Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2009 er fjallað hafi um skipulag, lóðaúthlutanir og samkeppni. Verði ákvörðunin að teljast brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og almennt á jafnræðissjónarmiðum, sbr. t.d. 11. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök sveitarfélagins Vesturbyggðar: Af hálfu sveitarfélagins er þess krafist að öllum kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað. Bent sé á að misritun dagsetningar í auglýsingu um gildistöku hins kærða deiliskipulags hafi verið leiðrétt með sérstakri auglýsingu þar um, sem birst hafi í B-deild Stjórnartíðinda. Hið kærða deiliskipulag sé að öllu leyti í samræmi við gildandi aðalskipulag fyrir Bíldudal.

Framkvæmdir sem fyrirhugaðar séu á svæðinu á grundvelli deiliskipulagsins séu ekki matsskyldar skv. 5. gr. laga nr. 106/2000 og því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Hafi Skipulagsstofnun einnig metið það svo í umsögn sinni um deiliskipulagið. Þá sé bent á að hvorki kærandi né aðrir hafi nýtt sér ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um að leita álits Skipulagsstofnunar um matsskylduna eða hvort áætlanagerðin félli undir lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið um matsskylda framkvæmd að ræða hafi verið unnin sérstök umhverfisskýrsla og hafi t.a.m. Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og Siglingastofnun gefið umsagnir. Breyting hafi verið gerð á skýrslunni, t.d. vegna nauðsynlegra aðgerða til að sporna við foki frá uppsátursefni á fyrirhugaðri landfyllingu og vöktunar vegna hávaðamengunar. Hafi bæjaryfirvöld, m.a. vegna fram kominna athugasemda kæranda um deiliskipulagið, óskað eftir því við höfund skýrslunnar að farið yrði enn frekar yfir umhverfisáhrif deiliskipulagsins, að fram kæmu með skýrum hætti þær forsendur og umhverfisviðmið sem miðað væri við varðandi umhverfisáhrifin og vöktunaráætlun vegna þeirra áhrifa sem framkvæmdir og/eða rekstur á svæðinu hefðu í för með sér. Muni vöktunin uppfylla kröfur sem gerðar séu í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Í endanlegri umhverfisskýrslu sé gerð grein fyrir umhverfisáhrifum breytts deiliskipulags og þeim framkvæmdum og rekstri sem fyrirhugaður sé á svæðinu. 

Því sé hafnað að sveitarfélagið hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni eða að umhverfisþættir deiliskipulagsins og fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu séu vanmetnir. Einnig sé því hafnað að umhverfisskýrslan sé vanreifuð og uppfylli ekki þær kröfur sem gera beri til slíkra skýrslna. Ekki verði betur séð en að í umhverfisskýrslu komi að öllu leyti fram þau atriði sem tilgreind séu í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 105/2006 og fullyrðingar um annað séu rangar. Þá verði ekki séð að framkvæmdin feli í sér brot á lögum nr. 106/2000, lögum nr. 105/2006 eða tilskipunum 85/337/EBE, 97/11/EB og 2001/42/EB.

Kalkþörungaverksmiðjan starfi eftir sérstöku starfsleyfi frá Umhverfisstofnun, sem hafi eftirlit með því að starfsemin uppfylli þau skilyrði sem fram komi í leyfinu og að fylgt sé þeim lögum og reglugerðum sem um hana gildi. Miði hið umdeilda deiliskipulag einungis að því að fullnýta starfsleyfið. Áður en það hafi verið gefið út hafi farið fram afar ítarleg skoðun af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda á fyrirhuguðum framkvæmdum félagsins, m.a. á mögulegum umhverfisáhrifum verksmiðjunnar. Í starfsleyfinu séu ítarleg ákvæði um varnir gegn mengun ytra umhverfis, innra eftirlit rekstraraðila, umhverfismarkmið og umhverfisvöktun auk fleiri atriða sem varði rekstur verksmiðjunnar. Framkvæmi Umhverfisstofnun reglulega mælingar vegna hávaða, styrks ryks í útblæstri o.fl. frá verksmiðjunni. Geymsla á hráefni á lóð verksmiðjunnar verði þannig háttað að mengun verði ætíð innan leyfilegra marka. Séu ákvæði í starfsleyfinu um leyfilegan hávaða og úrræði til að tryggja að þau mörk séu virt.

Þeim órökstuddu fullyrðingum að hæpið sé að skilyrði séu til að starfrækja rækjuvinnslu í núverandi húsakynnum kæranda á Bíldudal sé alfarið hafnað. Ekkert hafi verið lagt fram í málinu sem renni stoðum undir þessa fullyrðingu og verði ekki séð að neitt sé því til fyrirstöðu að kærandi geti starfrækt rækjuverksmiðju sína. Ekki verði séð að með stækkun á athafnasvæði verksmiðjunnar verði á nokkurn hátt þrengt að öðrum aðilum á svæðinu eða gengið á þeirra rétt. Hafi jafnræðis verið gætt við lóðaúthlutanir í sveitarfélaginu, sem og reglna stjórnsýslulaga og ólögfestum meginreglum stjórnsýsluréttar hafi verið fylgt.

Athugasemdir Íslenska kalkþörungafélagsins ehf.: Félagið tekur fram að kærandi sé ekki búsettur í Bíldudal og eigi eingöngu viðskiptalegra hagsmuna að gæta sem séu litlir sem engir því enginn rekstur hafi verið í fasteignum hans um hríð.
                        —–

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til skoðunar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags á Bíldudal er tók gildi 27. febrúar 2013 og gerir m.a. ráð fyrir landfyllingu við höfnina og stækkun verksmiðju Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. á lóðinni að Hafnarteigi 4. Kærandi er eigandi fasteigna á nærliggjandi lóð þar sem hefur verið rækjuvinnsla. Að teknu tilliti til þess að umfang og möguleg áhrif af starfsemi nefndrar verksmiðju gætu haft áhrif á framtíðar starfsemi í fasteignum kæranda verður að líta svo á að hann geti átt lögvarða hagsmuni tengda hinu kærða deiliskipulagi í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en vafa þar um verður að skýra kæranda í hag.

Í 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um auglýsingu og samþykkt deiliskipulags og fer um afgreiðslu þess eftir 42. gr. sömu laga. Skal m.a. birta auglýsingu um samþykkt þess í B-deild Stjórnartíðinda. Svo sem nánar greinir í málavaxtalýsingu var ekki tilgreint sama heiti á deiliskipulaginu þegar auglýsing um gildistöku þess birtist í B-deild Stjórnartíðinda og þegar það var auglýst til kynningar. Þá var dagsetning á samþykkt sveitarstjórnar ranglega tilgreind í auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins. Heldur kærandi því fram að misræmi þetta leiði til þess að ógilda skuli hið kærða deiliskipulag. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að glögglega megi ráða af efnisinnihaldi nefndrar gildistökuauglýsingar að um sé að ræða samþykkt tillögu þeirrar sem kynnt var með auglýsingu fyrir hafnarsvæðið á Bíldudal og að með því hafi tilvitnuðum lagaákvæðum verið fullnægt. Þá var dagsetning samþykktar sveitarstjórnar síðar lagfærð með sérstakri auglýsingu sveitarfélagsins birtri í B-deild Stjórnartíðinda og verður að telja það heimilt skv. 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Leiða framangreindir formgallar, eins og málum er sérstaklega háttað hér, því ekki til þess að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Hið umdeilda deiliskipulag er á iðnaðarsvæði samkvæmt skilgreindri landnotkun í Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018. Er þar einkum gert ráð fyrir umfangsmikilli iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem haft getur í för með sér mengun, s.s. fiskeldisstöðvum, veitustöðvum, skólpdælu- og hreinsistöðvum, verksmiðjum og virkjunum. Mestu breytingarnar verða á Hafnarteig 4, en sú lóð er að mestu á landfyllingu samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins. Þannig er gert ráð fyrir 10.178 m² landfyllingu norðan núverandi fyllingar þar sem hráefni kalkþörungaverksmiðjunnar verður geymt. Jafnframt felur deiliskipulagið í sér heimild til að reisa hús hvar sem er innan byggingarreits lóðarinnar. Verður stærð lóðar eftir stækkunina 26.958 m², heimilað byggingarmagn á lóðinni verður 4.554 m² og nýtingarhlutfall hennar 0,17.
 
Eins og rakið hefur verið í málavaxtalýsingu átti hið kærða deiliskipulag sé nokkurn aðdraganda, en á árinu 2004 samþykkti sveitarstjórn deiliskipulag fyrir landfyllingu við Bíldudalshöfn og var þar m.a. gert ráð fyrir um 16.000 m² lóð þar sem heimilt væri að reisa kalkþörungaverksmiðju. Áður, eða á árinu 2001, hafði fyrirhugað nám allt að 57.000 m³ kalkþörungasets á ári úr Arnarfirði, Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ verið tilkynnt Skipulagsstofnun samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Stofnunin féllst á tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun með athugasemdum og laut ein þeirra að fyrirhugaðri verksmiðju. Tók stofnunin fram að verksmiðjan félli ekki undir ákvæði 1. og 2. viðauka við lög nr. 106/2000 en taldi eðlilegt að í matsskýrslu yrði greint frá starfseminni og mögulegum áhrifum kalkríks ryks á umhverfið. Í úrskurði stofnunarinnar frá 3. mars 2003 kom fram að staðarval verksmiðju, þar sem úrvinnsla kalkþörungasetsins færi fram, væri ekki endanlega ákveðið en að samkvæmt matsskýrslu yrði verksmiðjuhúsið í heild um 3.500 m² og athafnasvæði alls um 12.000 m², ásamt um 5.000 m² hráefnisþró. Féllst Skipulagsstofnun á fyrirhugað nám og taldi að það hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Hinn 21. maí 2004 gaf Skipulagsstofnun út ákvörðun um matsskyldu vegna fyrirhugaðrar landfyllingar og hafnaraðstöðu fyrir kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og liðum 2a og 13a í 2. viðauka laganna, en tilefni fyrirhugaðra framkvæmda var að Íslenska kalkþörungafélagið ehf. hafði fengið leyfi fyrir kalkþörunganámi úr Arnarfirði og vinnsluleyfi fyrir kalkþörungamjölvinnslu. Í nefndri ákvörðun kom fram að gert væri ráð fyrir því að afmarka um 17.000 m² fyllingarsvæði austan við höfnina á Bíldudal með fyrirstöðugarði og yrði heildarlengd hans um 370 m. Þar yrði lóð kalkþörungaverksmiðju, 5.000 m² setþró fyrir uppdælt efni og hafnaraðstaða, þ.m.t. 80 m viðlegukantur með 10 m dýpi. Var niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Ofangreindum niðurstöðum hefur ekki verið hnekkt af dómstólum eða öðrum þar til bærum aðilum og stendur því óbreytt það mat Skipulagsstofnunar að um 3.500 m² verksmiðjuhús ætlað til vinnslu kalkþörunga falli ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sem og að um 17.000 m² landfylling skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Miðað við allt framangreint felur hið kærða deiliskipulag í sér breytingu að því leyti að heimilt verður að stækka landfyllinguna um 10.178 m² og verður heimilað byggingarmagn á lóðinni að Hafnarteigi 4 um 1.054 m² meira en var í matsferli því fyrir Skipulagsstofnun sem lauk með úrskurði hennar 3. mars 2003. Telur kærandi umhverfisáhrif deiliskipulagsins vanreifuð og jafnframt að sveitarfélagið hafi m.a. brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

Lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 gilda skv. 1. mgr. 3. gr. laganna um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Leiki vafi á hvort skipulags- eða framkvæmdaáætlun sé háð ákvæðum laganna getur almenningur eða sá sem ber ábyrgð á áætlanagerð óskað eftir að Skipulagsstofnun taki ákvörðun um hvort áætlunin falli undir lögin og er sú ákvörðun kæranleg til umhverfis- og auðlindaráðherra, sbr. nánar 3. mgr. 3. gr. Þá var heimilt að leita álits Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og var ákvörðun þar um kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, en sambærilegt ákvæði er enn að finna í lögunum. Hvorki mun liggja fyrir ákvörðun á grundvelli framangreindra lagaákvæða vegna hins kærða deiliskipulags né vegna þeirra framkvæmda sem þar eru heimilaðar og fela í sér breytingar frá fyrra ástandi. Einskorðast athugun nefndarinnar því við lögmæti deiliskipulagsins á grundvelli þeirrar kæruheimildar sem til staðar er í máli þessu og finna má í 52. gr. skipulagslaga, en hún kveður á um að stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli þeirra laga sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Kveðið er á um skipulagsskyldu sveitarfélaga í 12. gr. skipulagslaga og kemur fram í 5. mgr. hennar að við gerð skipulagsáætlana skuli gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina komi, og umhverfismati áætlunarinnar, ef við á. Nánar er kveðið á um deiliskipulag í 37. gr. laganna, þar sem fram kemur að deiliskipulag skuli setja fram á skipulagsuppdrætti ásamt skipulagsgreinargerð. Í henni skuli forsendum skipulagsins lýst og sett fram stefna þess og umhverfismat áætlunarinnar, þegar við á, sbr. 4. mgr. ákvæðisins.

Í máli þessu háttar svo til að umhverfisskýrsla var unnin samhliða deiliskipulagsgerð og var hún kynnt með tillögu að deiliskipulagi umrædds svæðis. Er í skýrslunni gerð grein fyrir ástæðum stækkunarinnar, mögulegum umhverfisáhrifum deiliskipulagsins og vöktunaráætlun, en starfsemi kalkþörungaverksmiðjunnar flokkast samkvæmt starfsleyfi hennar í 1. flokk skv. viðauka 1 í reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, og skal reglubundið eftirlit, sbr. gr. 12.2 í reglugerð nr. 786/1999, um mengunarvarnareftirlit, vera skv. 3. flokki. Við afgreiðslu málsins lá því fyrir tillaga að deiliskipulagi ásamt umhverfisskýrslu sem hlaut lögboðna yfirferð Skipulagsstofnunar án þess að nokkrar athugasemdir kæmu fram af hálfu hennar. Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að meðferð sveitarstjórnar hafi verið umfram þau lágmarksskilyrði skipulagslaga sem að framan er lýst hvað varðar umhverfismat hins kærða deiliskipulags og að rannsóknarskyldu hafi jafnframt verið fullnægt. Í þessu sambandi er vert að benda á að fyrri ákvarðanir Skipulagsstofnunar, sem áður er lýst og lúta að athafnasvæði og starfsemi umræddrar kalkþörungaverksmiðju, lágu fyrir á þeim tíma þegar hið umdeilda deiliskipulag var unnið auk þess sem farið var fram á að bætt yrði við umhverfisskýrslu umfjöllun um umhverfismarkmið, vöktun og mótvægisaðgerðum vegna hávaða og rykmengunar.

Loks bendir ekkert í gögnum málsins til annars en að meðalhófs og jafnræðis hafi verið gætt við deiliskipulagsgerðina. Með hliðsjón af öllu framangreindu, og þar sem ekki verður séð að fyrir hendi séu neinir þeir annmarkar á meðferð málsins að ógildingu varði, verður kröfu kæranda þar um hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Vesturbyggðar frá 16. janúar 2013 um að samþykkja deiliskipulag iðnaðarsvæðis í Bíldudalshöfn og fyrir lóðina að Hafnarteigi 4 á Bíldudal, Vesturbyggð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon