Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

118/2014 Seljadalsnáma

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014 um að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60.000 m3.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. nóvember 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Ásgeir Þór Árnason hrl., f.h. G, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60.000 m3. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kröfu kærenda um að stöðva yfirvofandi framkvæmdir var hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 12. desember 2014.

Fleiri kærendur stóðu að kærunni er hún barst til nefndarinnar, en þeir drógu til baka kæru sína undir rekstri málsins fyrir nefndinni.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 28. nóvember og 22. desember 2014.

Málavextir: Hinn 14. október 2014 var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar umsókn, dags. 3. s.m., um efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, Mosfellsbæ. Sótt var um leyfi fyrir áframhaldandi efnistöku, sem hófst árið 1985 á grundvelli samnings til 30 ára milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar, en samningstíminn var til 9. október 2015. Var í umsókninni gert ráð fyrir efnistöku allt að 60.000 m3 og vinnslutíma frá 14. október til 15. nóvember 2014 og frá 1. apríl til 9. október 2015. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafði farið fram og fyrir lá endanleg matsskýrsla, sem og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 1. október 2014, en til þess var vísað í framkvæmdaleyfisumsókninni. Umsóknin var samþykkt á greindum fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar með eftirfarandi bókun: „Skipulagsnefnd samþykkir veitingu framkvæmdaleyfis m.a. með skilyrðum um óháðan úttektar- og eftirlitsaðilum auk annarra atriða sem fram koma í framkvæmdalýsingunni.“ Var afgreiðsla skipulagsnefndar samþykkt á fundi bæjarstjórnar 22. október 2014 og framkvæmdaleyfið gefið út af skipulagsfulltrúa 23. s.m. Útgáfa leyfisins var tilkynnt með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og fjölmiðlum 31. s.m.

Hinn 5. nóvember 2014 lagði leyfishafi fram beiðni til skipulagsfulltrúa um breytingu á vinnslutíma á þann hátt að hann yrði til 24. desember 2014 og frá 16. mars til 9. október 2015 með hléi frá 1. júlí til 7. ágúst 2015. Var greind breyting grenndarkynnt hagsmunaraðilum með bréfi, dags. 14. nóvember 2014, og þeim gefinn frestur til 21. s.m. til að gera athugasemdir vegna breytingarinnar. Skipulagsfulltrúi gaf umsögn um málið 25. s.m. og lagði til að fallist yrði á ósk um breyttan vinnslutíma þar sem það gæti dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Hinn 27. s.m. var samþykkt á fundi bæjarráðs að taka undir tillögu skipulagsfulltrúa og var sú afgreiðsla bæjarráðs samþykkt af bæjarstjórn á fundi hennar 3. desember s.á.

Málsrök kæranda: Kærendur skírskota til þess að hið kærða framkvæmdaleyfi muni skerða einkaréttindi og friðhelgi heimila þeirra og frístundahúsa með stórkostlegum hætti. Grjót-námið og tilheyrandi þungaflutningar muni einnig leiða til verulegrar verðrýrnunar á eignum þeirra. Umfang fyrirhugaðra framkvæmda sé ekki í samræmi við gildandi skipulagsáætlun fyrir Mosfellsbæ heldur sé það miklu meira en búast mátti við. Í gildandi Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 sé fjallað um efnisnámur. Þar komi fram að úr Seljadalsnámu sé tekið árlega 10-11.000 m3 af efni. Í kjölfar samþykktar á aðalskipulagi hafi Mosfellsbær bannað frekari efnisvinnslu í námunni þar sem framkvæmdaraðili hafi ekki haft framkvæmdaleyfi skv. 14. gr. og 15. gr. skipulagslaga, sbr. ákvæði IV. kafla til bráðabirgða í lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd, sbr. 1. gr. laga nr. 104/2006.

Hafi kærendur sent athugasemdir til Skipulagsstofnunar sem hafi beinst að þremur þáttum. Í fyrsta lagi að ástand Hafravatnsvegar væri með þeim hætti að ómögulegt væri að leyfa þungaflutninga með grjót eftir honum. Í öðru lagi að loftgæði yrðu ófullnægjandi á rekstrar-tíma námunnar og að hljóðvist yrði ófullnægjandi. Hafi Mosfellsbæ ekki verið heimilt að gefa út hið umþrætta framkvæmdaleyfi til að starfrækja Seljadalsnámu vegna framangreindra atriða sem hafi áhrif á kærendur. Að auki hafi verið óheimilt að veita leyfi fyrir námi á 60.000 m3 af efni á einu ári þegar gert hafi verið ráð fyrir sex sinnum minni efnistöku í aðalskipulagi. Engu máli skipti hvort Seljadalsnáma hafi verið nýtt á árum áður. Veiti ákvæði til bráðabirgða með lögum um náttúruvernd nr. 44/1999, sbr. 1. gr. laga nr. 104/2006, eigendum eða umráðamönnum eldri náma ekki aukin rétt til veitingar framkvæmdaleyfis umfram þær kröfur sem séu gerðar til nýrra náma. Sömu sjónarmið um veitingu framkvæmdaleyfis til námuvinnslu eigi því við um Seljadalsnámu og séu uppi þegar um nýja námu sé að ræða, þó að teknu tilliti til þess að náman sé sýnd á aðalskipulagsuppdrætti. Hafi Mosfellsbæ því borið að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem sé lýst í IV. kafla náttúruverndarlaga, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og 13. gr. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki sé að sjá að Umhverfisstofnun eða náttúruverndarnefnd hafi gefið umsögn sína um svo stórfellt jarðefnanám líkt og hér um ræði, skv. 2. mgr. 47. gr. náttúruverndarlaga, sbr. 8. gr. laga nr. 140/2001. Þá sé ekki að sjá í framkvæmdaleyfinu að greint sé frá stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi eða gerð þess efnis sem heimilt sé að nýta samkvæmt leyfinu líkt og áskilið sé í 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Loks sé ekki að sjá að sveitarstjórn hafi tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar líkt og áskilið sé í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

Útgáfa framkvæmdaleyfisins sé haldin svo verulegum ágöllum að óhjákvæmilegt sé að fella það úr gildi. Skorti mjög á að nægjanlega hafi verið gengið úr skugga um að mengun af völdum hávaða og svifryks sé innan marka sem kærendur verði að þola. Eigi kærendur rétt til þess að búa við heilnæm lífsskilyrði og í ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Bent sé á að fyrirhugað sé að sexfalda það efnismagn sem taka eigi úr námunni og því megi gera ráð fyrir að bæði hávaða og svifryksmengun muni sexfaldast. Hefði verið nauðsynlegt að Mosfellsbær léti fara fram sérstaka rannsókn á áhrifum þessa í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðir sem hafa verið settar með stoð í þeim lögum, s.s. nr. 724/2008 um hávaða, nr. 1000/2005 um kortlagningu hávaða og nr. 817/2002 um mörk fyrir fallryk úr andrúmslofti. Fullnægjandi rannsókn á málinu hafi ekki verið gerð, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þau skilyrði séu ófullnægjandi, sem hafi verið sett í framkvæmdarleyfið af hálfu Mosfells-bæjar, að leitast skuli við að lágmarka rykmengun og annað ónæði af akstri með því að halda niðri hraða flutningabíla og vökva Hafravatnsveg þegar nauðsyn krefji á framkvæmdartíma. Sé ljóst að skilyrðin séu ómarkviss. Að auki sé lítið hald í því að banna efnisvinnslu og flutninga á laugardögum og sunnudögum á tímabilinu 1. júlí – 15. ágúst 2015 enda dvelji flestir kærendur á staðnum alla daga vikunnar, jafnt að sumri sem vetri. Gerð sé krafa um að skýrari skilyrði verði sett með áskilnaði um að sveitarfélagið geti sjálft gripið inn í framkvæmd þeirra á kostnað leyfishafa ef út af sé brugðið.

Loks bendi kærendur á að sem íbúar og eigendur fasteigna við Hafravatnsveg og í nágrenni Seljadalsnámu hafi þeir verulega hagsmuni af því að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi. Eigi þeir því einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni umfram aðra.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geti þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi, sbr. 52. gr. skiplagslaga nr. 123/2010. Kærendur eigi ekki slíkra hagsmuna að gæta, hvorki einstaklega né verulegra. Til þess að kærendur eigi lögvarða hagsmuni í málinu beri þeim að sýna fram á með ótvíræðum hætti að þeir eigi slíka hagsmuna að gæta. Framkvæmd sú sem heimiluð hafi verið með hinu umþrætta framkvæmdarleyfi sé byggð á samningi um efnistöku í Seljadal í landi Mosfellsbæjar, dags. 9. október 1985, og hafi efnistaka átt sér stað á nefndu svæði allt frá því að samningur þessi hafi verið gerður. Feli framkvæmdin því aðeins í sér áframhaldandi heimild til efnistöku sem átt hafi sér stað um langt skeið og verði af þeim sökum ekki séð að hin kærða ákvörðun gangi gegn einstaklingsbundnum og lögvörðum hagsmunum kærenda. Þá sé ekki hægt að takmarka umferð á Hafravatnsvegi auk þess sem ástand hans sé á ábyrgð Vegagerðarinnar en ekki sveitarfélagsins. Beri af þeim sökum að vísa kærunni frá.

Vísað sé til þess að hið kærða framkvæmdaleyfi hafi fengið meðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og hafi verið gefin út sérstök skýrsla þar að lútandi. Hafi þar verið komist að þeirri niðurstöðu að heildaráhrif framkvæmdarinnar væru óveruleg. Að auki hafi legið fyrir jákvætt álit Skipulagsstofnunar á hinum umþrættu framkvæmdum og þær séu jafnframt í samræmi við gildandi Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2011-2030. Hafi því legið fyrir ítarlegt mat á umhverfisáhrifum þar sem leitað hafi verið afstöðu og sjónarmiða hlutaðeigandi aðila. Í umsókn leyfishafa hafi að auki verið skýrlega greint frá fyrirhuguðum framkvæmdum. Hafi allt framagreint leitt til þess að tekin hafi verið ákvörðun um að gefa út framkvæmdaleyfi hinn 23. október 2014, en þó með ítarlegum skilyrðum.

Í aðalskipulagi sé aðeins að finna tölur um umfang efnistöku í fortíð en ekki sé sett takmörkun á efnistöku í framtíð. Hafi verið sótt um framkvæmdarleyfið samkvæmt ákvæði IV. til bráðabirgða í náttúruverndarlögum, sbr. einnig 2. mgr. 47. gr. sömu laga. Liggi fyrir að aðalskipulagið hafi hlotið umsögn lögbundinna aðila og komi þar fram áætlun um efnistöku og frágang á efnistökusvæðinu. Sé umfjöllun kærenda um að ekki hafi verið fylgt 2. mgr. 47. gr. laga um náttúruvernd eða sjónarmiða IV. kafla því röng. Að auki sé því mótmælt að ekki sé skýrlega greint frá stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi eða gerð þess efnis sem heimilt sé að nýta samkvæmt leyfinu í samræmi við 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Hafi verið fjallað um allt framangreint í framkvæmdaleyfinu og í þeim gögnum sem leyfisveitingin hafi verið byggð á. Séu forsendur leyfisins því skýrar og í samræmi við fyrrgreint ákvæði laganna. Þá sé því mótmælt að ekki hafi verið gætt rannsóknarreglunni við meðferð málsins. Í greindri skýrslu um mat á umhverfisáhrifum sé vikið bæði að loftgæðum og hljóðvist á framkvæmdatíma. Í báðum tilvikum hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að áhrif framkvæmdanna séu bæði tímabundin og óveruleg. Hafi rannsóknin því verið fullnægjandi og í raun ítarlegri en sé gert ráð fyrir í lögum.

Hafi mögulegt ónæði og röskun sem kærendur geti orðið fyrir verið lágmarkað eins og hægt sé. Að auki sé rétt að líta til eðli framkvæmdanna, en hið kærða leyfi gildi aðeins til 9. október 2015 og renni samningurinn þá út. Sé það hugsanlegt að kærendur þurfi að sætta sig við aukna umferð og svifryksmengun um nokkurra mánaða skeið. Fráleitt sé að hin tímabundna umferð sem stafi frá framkvæmdarleyfishafa muni hafa í för með sér varanlega skerðingu á einkaréttindum og friðhelgi kærenda eða rýri verðmæti eigna þeirra. Sé um hóflega og eðlilega nýtingu að ræða.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að ekkert fjárhagslegt tjón verði hjá kærendum þótt efnistakan fari fram í hinn fyrirfram afmarkaða og stutta gildistíma leyfisins og sé fullyrðingum um verðmætarýrnun vísað á bug. Hafi framkvæmdaleyfið verið veitt hinn 23. október 2014 að loknu umhverfismati, en mati á umhverfisáhrifum hafi lokið með áliti Skipulagsstofnunar frá 1. október 2014. Taki framkvæmdaleyfið til allt að 60.000 m3 af efni og sé tímabundið, eða til 9. október 2015.

Sú efnistaka sem hafi átt sér stað á svæðinu eigi sér jarðfræðilegar skýringar. Í námunni sé að finna berg með fágætri hörku sem ekki sé vitað til að sé annars staðar að finna í nýtanlegri nálægð við Reykjavík. Það séu því rík efnisrök að baki námuvinnslunni sem vert sé að hafa í huga þegar málið sé skoðað í heild. Kærendur hafi þegar átt kost á, og hafi nýtt sér, að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í aðdraganda málsins í umhverfismatsferlinu. Hafi verið ákveðið á sínum tíma að leiða málið í þann farveg að fá umhverfismat vegna framkvæmdarinnar, þó ljóst sé að það hafi verið umfram skyldu. Hafi Mosfellsbær óskað eftir því að umhverfisáhrif efnistökunnar yrðu metin áður en framkvæmdaleyfisumsókn yrði tekin fyrir og hafi verið orðið við þeirri beiðni að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar fyrir málsmeðferðinni. Hafi því mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verið unnið sam-kvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð um mat á umhverfis-áhrifum nr. 1123/2005. Umhverfismatið hafi leitt í ljós að framkvæmdin sé tímabundin, möguleg umhverfisáhrif séu afturkræf, að frátöldum áhrifum á ásýnd lands sem þegar séu komið fram. Jafnframt hafi verið sett ströng skilyrði um tilhögun vinnslu og efnisflutninga til að draga úr því tímabundna ónæði sem gæti hlotist af efnisflutningum. Að auki hljóti efnistaka að vetri til að valda minni ama en á öðrum árstíma þar sem hugsanleg rykmengun sé almennt miklu minni af veðurfarslegum ástæðum, sem og minni útivera íbúa.

Sé efnistakan í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og innan marka þess, bæði hvað varði afmörkun og umfang. Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2011-2030 hafi ekki sett hámark á efnistöku í Seljadal né öðrum námum. Engin mörk séu sett á magn efnistöku. Framkvæmdin sé því í fullu samræmi við skipulagsáætlanir Mosfellsbæjar. Umfang efnistökunnar teljist minniháttar sem og sá tímarammi sem hafi verið skammtaður til vinnslunnar. Hafi vinnslu- og frágangsáætlun námunnar verið sett fram í fullu samræmi við IV. kafla náttúruverndarlaga og hafi Umhverfisstofnun í tvígang gefið umsögn í tilefni af mati á umhverfisáhrifum. Benda megi á að í skilyrðum framkvæmdaleyfisins séu m.a. atriði sem hafi komið fram í umsögnum stofnunarinnar. Sé leyfið í fullu samræmi við áherslur og umsagnir stofnunarinnar.

Í matsskýrslu hafi verið fjallað um áhrif af völdum hávaða og rykmengunar og hafi verið tekið tillit til upplýsinga um umferð, gerð tækja, vinnutíma o.fl. Sýni niðurstöður matsskýrslunnar að hávaði af völdum efnistökunnar verði innan marka sem sett séu í reglugerð nr. 724/2008. Talið sé að lítil sem engin rykmengun stafi af námuvinnslunni sjálfri þar sem efni sé ekki malað þar. Uppspretta svifryks sé því aðeins við þungaflutninga og ef mótvægisaðgerðum sé beitt, líkt og tekið sé fram í matsskýrslu, eigi að vera hægt að draga verulega úr rykmengun og halda henni innan marka reglugerða. Liggi fyrir bæði umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis og Umhverfisstofnun, sem og álit Skipulagsstofnunar, um þennan þátt. Áhersla sé lögð á mótvægisaðgerðir vegna þessara þátta sem séu hluti af skilyrðum framkvæmdarleyfisins.

——————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi framkvæmdaleyfis vegna efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, Mosfellsbæ. Var heimild veitt fyrir allt að 60.000 m³ tímabundinni efnistöku. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar fór fram og er álit Skipulagsstofnunar þar um frá 1. október 2014.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Kærendur ýmist eiga eða eru íbúar fasteigna sem standa flestar við Hafravatns- og Nesjavallaveg og fer meginþungi umferðar vörubifreiða vegna hinnar umdeildu efnistöku um þá vegi. Blasir því við að kærendur eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og skiptir ekki máli í því sambandi að efnistaka úr námunni hafi átt sér stað áður.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru allar framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess framkvæmdaleyfisskyldar. Nánari skilyrði fyrir ákvarðanatöku sveitarstjórnar eru tíunduð í nefndri 13. gr. sem og 14. gr. sömu laga hvað varðar framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum.
 
Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir og er henni heimilt að binda framkvæmd skilyrðum í samræmi við þær áætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Í bókun bæjar-stjórnar, þegar hin kærða ákvörðun var tekin, kemur fram að framkvæmdalýsing hafi fylgt umsókn um framkvæmdaleyfi. Í lýsingunni er m.a. fjallað um skipulagsáætlanir og gerð grein fyrir því að gengið verði út frá því að leyfið muni byggja á gildandi aðalskipulagi. Í greinargerð með Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 er í kafla 4.9 fjallað sérstaklega um efnistöku úr Seljadalsnámu. Er þar greint frá forsögu efnistöku í Seljadal, samningi þeim er að baki efnistökunni standi og því að um 325.000 m³ efnis hafi verið teknir þaðan til ársins 2012, eða um 12.000 m³ á ári. Einnig er greint frá áframhaldandi efnistöku, að undangengnu mati á umhverfisáhrifum, og að efnistökusvæðið muni stækka út fyrir þau mörk sem fyrir séu. Að auki er tekið fram að stefna sveitarfélagsins við nýtingu auðlinda sé að spilla ekki umhverfinu að óþörfu og farið sé eftir ýtrustu kröfum um mengunarvarnir samkvæmt lögum hverju sinni. Við nýtingu jarðefna skuli leggja áherslu á að gengið sé frá námum á vandaðan hátt. Hin umdeilda framkvæmd fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum og í framkvæmdalýsingu er gerð ítarleg grein fyrir frágangi við verklok. Þá kemur fram í lýsingunni að efnistakan verði innan þess svæðis sem þegar sé afmarkað sem efnistökusvæði í aðalskipulagi. Verður að telja með hliðsjón af framangreindu að skilyrði 4. mgr. 13. gr. hafi verið uppfyllt og hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélagsins, enda er ljóst af orðalagi aðalskipulagsins að þar sé einungis verið að lýsa þeirri nýtingu sem verið hafði en ekki verið að takmarka efnistöku til framtíðar við neitt ákveðið viðmið umfram samning þann sem um hana gildir. Nýtti sveitarfélagið sér aukinheldur þá heimild sama lagaákvæðis að binda framkvæmdina skilyrðum til samræmis við gildandi skipulagsáætlanir, sbr. t.d. skilyrði í framkvæmdaleyfi er varðar rykmengun. Loks bar ekki nauðsyn til fyrir sveitarstjórnina að afla umsagnar Umhverfisstofnunar samkvæmt 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, sbr. 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga, enda lá fyrir við ákvarðanatökuna samþykkt aðalskipulag sem stofnunin hafði gefið umsögn sína um.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar þar um liggur fyrir. Í samræmi við 2. mgr. 14. gr. skal sveitarstjórn við umfjöllun um framkvæmdaleyfisumsókn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fram-kvæmdarinnar. Í bókun bæjarstjórnar við töku hinnar kærðu ákvörðunar kemur fram að efnistakan hafi sætt mati á umhverfisáhrifum og að álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir. Var það álit stofnunarinnar að neikvæð áhrif vegna framkvæmdanna yrðu að mestu tímabundin og ekki veruleg, sem og að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Einnig var áréttað að umsögnum og athugasemdum hefði verið svarað á fullnægjandi hátt. Við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hjá sveitarfélaginu lágu því fyrir greinargóð gögn. Var framangreindum skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um málsmeðferð fullnægt með hliðsjón af því sem rakið er. Þá nýtti sveitarstjórn sér heimild 3. mgr. 14. gr. skipulagslaga til að binda leyfið skilyrðum sem fram komu í áliti Skipulagsstofnunar. Veiting framkvæmdaleyfisins var síðan tilkynnt með auglýsingu í fjölmiðlum og Lögbirtingablaði í samræmi við 4. mgr. 14. gr. Loks var breyting á vinnslutíma síðar grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á að tjá sig áður en hún var samþykkt af bæjarráði.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki annað séð en að bæði efnisleg og formleg málsmeðferð hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga.

Grenndaráhrif sem fylgt geta hinum umræddum framkvæmdum felast einkum í aukinni umferð þungaflutningabíla og hávaða og rykmengun sem henni fylgir. Hins vegar verður ekki framhjá því litið að um er að ræða tímabundna framkvæmd. Auk þess voru framangreind áhrif ítarlega könnuð við mat á umhverfisáhrifum og þau talin innan þeirra marka sem kveðið er á um í lögum og reglugerðum. Var og komið til móts við athugasemdir íbúa í nágrenni við framkvæmdasvæðið með því að setja í framkvæmdaleyfið skilyrði með það að markmiði að minnka greind neikvæð umhverfisáhrif á meðan á framkvæmdum stendur. Loks verður ekki annað séð en að sveitarfélagið hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda lágu fyrir því ítarleg gögn eins og áður er lýst sem lutu m.a. að áhrifum framkvæmdarinnar á loftgæði og hávaða.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin neinum þeim annmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014 um að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku í grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60.000 m3.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

32/2011 Dalbraut Bíldudal

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 24. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 27. apríl 2011 varðandi afmörkun lóðar að Dalbraut 4 á Bíldudal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. maí 2011, er barst nefndinni 9. s.m., kærir A, Flétturima 35, Reykjavík, ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 27. apríl 2011 varðandi afmörkun lóðar að Dalbraut 4, Bíldudal. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Kærandi hefur verið eigandi íbúðarhúsnæðis að Dalbraut 4 á Bíldudal frá árinu 2001. Suðaustan við lóðina nr. 4 liggur Dalbraut, að suðvestan og norðvestanverðu liggur vegur upp að grunnskóla Vesturbyggðar og norðaustan við lóðina er leiksvæði. Í lóðarleigusamningi um greinda lóð frá árinu 1938 kemur fram að: ,,Lóð þessi er 20 metrar með götu og húsið fyrir miðri lóðinni. Breidd lóðarinnar er einnig 20 m. Lóðin er því í alt 400 ferm.“

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar 2. júlí 2010 var tekið fyrir erindi kæranda um staðfestingu á stærð og legu lóðarinnar að Dalbraut 4. Í erindinu kom fram að þegar Dalbrautin hafi verið breikkuð á árunum 1976-1978 hafi verið tekinn af lóðinni fimm metra skiki meðfram götunni. Í erindinu kom jafnframt fram að samkvæmt munnlegum heimildum hafi bætur fyrir þessa skerðingu verið þær að lóðin hafi verið stækkuð í norðvestur og suðvestur þannig að hún hafi orðið 700 m² til samræmis við lóðir á svæðinu sem úthlutað hafi verið eftir árið 1960. Byggingarfulltrúa var falið að gera tillögu að ásættanlegri lausn.

Kærandi ítrekaði erindið með bréfi, dags. 7. janúar 2011. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. s.m. var erindið tekið fyrir og eftirfarandi bókað: ,,Byggingarfulltrúi gerði grein fyrir þeim tillögum sem ræddar hafa verið og þá tillögu um 700 m² lóð sem Arnari stendur til boða. Skipulags- og byggingarnefnd felur byggingarfulltrúa að ljúka málinu skv. þeirri tillögu“.

Hinn 14. febrúar 2011 var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar að lóðin nr. 4 við Dalbraut yrði 460 m² eins og hún væri sýnd á uppdrætti frá 18. janúar s.á. Var sú samþykkt byggð á því að komið hefði í ljós að lóðin, sem talin hefði verið 700 m², væri ekki nema 460 m². Sú afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt af bæjarstjórn 16. febrúar 2011 og hún tilkynnt kæranda með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. s.m.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26. apríl 2011 var tekið fyrir erindi kæranda, dags. 31. mars s.á., þar sem farið var fram á að lóðin yrði afmörkuð í samræmi við uppdrátt sem kærandi kvaðst hafa fengið í hendur frá Skipulagsstofnun að viðbættu því sem tekið hefði verið af lóðinni við gerð vegarins að grunnskólanum á Bíldudal. Nefndin vísaði til fyrri umfjöllunar um málið þar sem ákveðið hefði verið að lóðin yrði 60 m² stærri en þinglýst skjöl bæru með sér. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 27. apríl 2011 og var kæranda tilkynnt um þær málalyktir með bréfi, dags. 2. maí s.á.

Samkvæmt framangreindri teikningu, dags. 18. janúar 2011, sem skipulags- og byggingarnefnd skírskotaði til við afgreiðslu málsins, verða lóðarmörk Dalbrautar 4 færð til suðvesturs og í suðurhorni hennar er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi talið að afgreiðsla byggingarfulltrúa hinn 12. janúar 2011 um tillögu að 700 m² lóð sem honum stæði til boða, væri lyktir málsins. Ákvörðun um að lóðin sé ekki talin vera nema 460 m² sé ekki studd neinum gögnum og ekki hafi verið rætt við þá heimildarmenn sem kærandi hafi bent á. Kærandi hafi aðeins fengið teikningu af lóðinni eins og nefndin hafi ákveðið upp á sitt eindæmi en teikningin hafi verið nánast sú sama og þáverandi bæjarstjóri hafi sýnt honum sumarið 2009. Þá hafi bæjarstjóri verið að óska eftir að kærandi gæfi eftir hluta af lóð sinni að norðvestanverðu undir bílastæði fyrir grunnskólann. Um eignaskerðingu sé að ræða, sér í lagi ef sveitarfélagið ætli að gera bílastæði á þessum hluta lóðarinnar.

Kærandi hafi fengið þær upplýsingar eftir að ákvörðun hafi verið tekin hinn 14. febrúar 2011 að hætt hefði verið við fyrirhuguð bílastæði fyrir skólann og að sveitarfélagið ætlaði sér engin not á norðvesturhluta lóðarinnar. Hafi kæranda verið bent á að senda inn nýtt erindi sem hægt væri að afgreiða í sátt. Því hafi kærandi sent inn annað erindi um afmörkun lóðarinnar, öllu ítarlegra, og m.a. stuðst við teikningu frá Skipulagsstofnun. Þrátt fyrir það hafi niðurstaðan orðið sú að ákvörðun bæjaryfirvalda um eignarupptöku væri óbreytt. Við afgreiðslu erindis kæranda hafi verið bent á þinglýst skjal frá árinu 1938 um að umrædd lóð væri 400 m² en ekki verið minnst á að sú lóð taki yfir mestan part vegarins neðan við hús kæranda. Bílastæði sé í austurhorni lóðar kæranda, sem hafi verið úthlutað af sveitarfélaginu við lóðarbreytingu, en vilji sveitarfélagið breytingu eða færslu á bílastæðinu hljóti sú framkvæmd að verða í umsjá og á kostnað sveitarfélagsins. Orðalag fundargerðar skipulags- og byggingarnefndar þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin bendi hvorki til vilja til að kanna tiltæk gögn hjá Skipulagsstofnun né að fara eftir þeim. Þá liggi fyrir teikning verkfræðistofu, að öllum líkindum frá árinu 1980, sem sýni umdeilda lóðarlínu norðvestan við húsið og sé í samræmi við áðurnefnda teikningu frá Skipulagsstofnun.

Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. febrúar 2011, sem póstlagt hafi verið 2. mars s.á. hafi ekki verið getið um kærufrest. Virðist byggingarfulltrúi hafa haldið bréfinu hjá sér í alltof marga daga meðan kærufrestur leið. Þá hafi fullyrðing nefndarmanns í skipulags- og byggingarnefnd um lausn málsins tafið fyrir því að kærandi færi strax með málið í kæruferli.

Málsrök Vesturbyggðar:
Bæjaryfirvöld benda á að íbúðarhúsið að Dalbraut 4 hafi verið byggt árið 1938 og sé nú í raun sumarhús, en sú sé þróunin með mörg hús á Bíldudal. Frá því að húsið hafi verið byggt hafi lega og breidd Dalbrautar breyst mjög mikið. Það sé ljóst að sá hluti lóðarinnar sem hafi verið götumeginn sé að mestu kominn undir götuna. Ekki séu til neinir samningar, lóðarblöð eða önnur gögn, hvorki hjá sveitarfélaginu né þinglýst hjá sýslumanni um þessar breytingar, en skráningu hafi ekki verið breytt í landsskrá fasteigna. Það bendi til þess að engar formlegar ákvarðanir hafi verið teknar. Deiliskipulag hafi ekki verið gert fyrir svæðið en þéttbýlisuppdráttur sem sýni landnotkun sé hluti af Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018.

Eins og fram komi í kæru hafi verið reynt að ná samkomulagi við kæranda um legu og lögun lóðarinnar en það hafi ekki tekist. Því hafi skipulagsyfirvöld tekið einhliða ákvörðun um stærð og legu lóðarinnar eins og hún sé sýnd á hnitasettu mæliblaði. Skýringin á því hvers vegna lóðin sé stækkuð úr 400 m² í 460 m² sé sú að með því móti sé hægt að koma fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni með sæmilegu móti eins og sýnt sé á mæliblaðinu. Búast hefði mátt við mótmælum lóðarhafa vegna stækkunar á gjaldstofni fasteignagjalda en ekki hinu gagnstæða.

Því sé mótmælt sem rangfærslu að um einhverja eignarupptöku sé að ræða þar sem húsinu hafi aldrei fylgt stærri lóð en 400 m² og ekki hafi verið greidd lóðarleiga af stærri lóð en það.

——————

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar var tekin á grundvelli þágildandi 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem kveðið var á um að óheimilt væri að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar kæmi til.

Samkvæmt Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018, Bíldudalur, er lóðin nr. 4 við Dalbraut á skilgreindu óbyggðu svæði en var áður á íbúðarsvæði skv. Aðalskipulagi Bíldudals 1986-2006. Ekki hefur verið gert deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Eins og rakið hefur verið varð breyting á lóðarmörkum Dalbrautar 4, frá því að lóðarleigusamningur um þá lóð var gerður á árinu 1938, með því að Dalbrautin var færð nær húsinu. Ekki liggja fyrir úrskurðarnefndinni gögn um það hvort samkomulag hafi orðið milli þáverandi lóðarhafa og skipulagsyfirvalda um þá breytingu eða hvernig lóðarmörkum yrði háttað eftir það.

Almennt er stærð og lega lóða ákvörðuð í deiliskipulagi. Þar sem það lá ekki fyrir átti sveitarstjórn þess kost samkvæmt 30. gr. skipulags- og byggingarlaga að taka einstakar ákvarðanir um skiptingu lands og lóða og lóðarmörk á svæðinu. Verður að telja slíka ákvörðun í eðli sínu skipulagsákvörðun. Fyrir liggur að eina þinglýsta skjalið um afmörkun nefndrar lóðar er lóðarleigusamningur frá árinu 1938 þar sem lengd og breidd lóðarinnar er tilgreind 20 metrar með hús fyrir miðju lóðar og lóðarmörk við götu. Ákvörðun um önnur mörk lóðarinnar verður ekki tekin nema með samkomulagi við lóðarhafa eða eftir atvikum með eignarnámi, séu skilyrði til þess fyrir hendi, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga. Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að komið hafi í ljós að af þess hálfu hafi ekki verið gert formlegt samkomulag við þáverandi lóðarhafa í tilefni af færslu Dalbrautar. Þá liggur ekki fyrir að eignarnámi hafi verið beitt vegna þeirrar breytingar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Uppkvaðningu úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 27. apríl 2011 varðandi afmörkun lóðar að Dalbraut 4 á Bíldudal í Vesturbyggð.

___________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________         ____________________________
Ómar Stefánsson                                      Þorsteinn Þorsteinsson

12/2011 Selvogsgata

Með
Ár 2015, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. október 2010 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar frá 1981 að því er varðar lóðina Selvogsgötu 1, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. janúar 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hdl., f.h. J, Brekkugötu 26, Hafnarfirði, ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. október 2010 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar frá 1981 að því er varðar lóðina Selvogsgötu 1. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Kærendur hafa verið eigendur kjallaraíbúðar að Brekkugötu 26 frá árinu 2007. Forsaga málsins er sú að árið 1993 var samþykkt byggingarleyfi, m.a. fyrir stækkun anddyris hússins að Selvogsgötu 1 og fyrir bílastæði á lóðinni meðfram vegg hússins að Brekkugötu 26, en ekkert varð af framkvæmdum. Árið 1994 var samþykkt leyfi fyrir íbúð í kjallara Brekkugötu 26 með tveimur ljósopum, þ.e. eldföstum glersteinum á suðurhlið hússins við lóðarmörk Selvogsgötu 1. Byggingarleyfið fyrir Selvogsgötu 1 frá árinu 1993 var endurnýjað árið 2005 og aftur árið 2008. Í lok árs 2008 var lögð inn ný umsókn fyrir stækkun 1. hæðar og kjallara að Selvogsgötu 1. Umsóttar breytingar voru grenndarkynntar og í janúar 2009 var byggingarleyfi fyrir þeim breytingum samþykkt. Í kjölfarið gerðu kærendur athugasemdir við framkvæmdirnar, þar sem steypt væri fyrir glugga kjallaraíbúðar þeirra að Brekkugötu 26. Byggingaryfirvöld stöðvuðu framkvæmdirnar að hluta og leitað var álits Skipulagsstofnunar, sem komst að þeirri niðurstöðu með bréfi, dags. 8. desember 2009, að þurft hefði að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi hefði sveitarstjórn metið það svo að umrædd byggingarleyfisumsókn samræmdist ekki gildandi deiliskipulagi. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar felldi byggingarleyfið úr gildi á fundi sínum hinn 7. apríl 2010 og á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 27. s.m. var fallist á kröfu kærenda um að fjarlægð yrðu ummerki um framkvæmdir, en nægilegt væri að fjarlægja það sem sneri að Brekkugötu 26 ef sátt næðist um það.

Eigandi Selvogsgötu 1 fór fram á að unnin yrði tillaga að breytingu á deiliskipulagi er heimilaði uppbyggingu á lóðinni í samræmi við áður veitt byggingarleyfi og á fundi skipulags- og byggingarráðs 22. júní 2010 var skipulags- og byggingarsviði falið að gera tillögu að deiliskipulagsbreytingu í samræmi við umsóknina en skipulags- og byggingarfulltrúi ítrekaði tilmæli um að uppsláttur yrði fjarlægður frá kjallaraglugga Brekkugötu 26. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 24. ágúst s.á. var eiganda Selvogsgötu 1 heimilað að steypa þann vegg sem snýr að Brekkugötunni, sökum hættu á hruni, og skipulags- og byggingarfulltrúa falin endaleg afgreiðsla málsins. Á sama fundi var samþykkt að senda í grenndarkynningu tillögu að breytingu að deiliskipulagi fyrir lóðina að Selvogsgötu 1, sem heimilaði viðbyggingu að lóðamörkum Brekkugötu 26 og Selvogsgötu 1. Kærendur skiluðu inn athugasemdum, sem var svarað með bréfi skipulags- og byggingarsviðs, dags. 15. október 2010, og hinn 27. s.m. samþykkti bæjarstjórn tillöguna um hið breytta deiliskipulag. Tók skipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 29. desember 2010.

Umrædd breyting tekur til svæðis sem afmarkast af Selvogsgötu, Brekkugötu og Suðurgötu og í henni fólst að byggingareitir húsa á lóðunum Selvogsgötu 1 og Suðurgötu 27 voru stækkaðir og heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar að Selvogsgötu 1 fór úr 0,73 í 1,31.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða deiliskipulagsbreyting geti ekki talist óveruleg og því hefði þurft að auglýsa hana í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Húsið að Selvogsgötu 1 standi á horni Selvogsgötu og Brekkugötu, en við þær götur standi mörg gömul hús og íbúar hafi margir hverjir lagt talsvert af mörkum til að halda við upprunalegu útliti húsa og götumynd. Skipulagsyfirvöld Hafnarfjarðarbæjar myndu leggjast gegn miklum breytingum á flestum þessara húsa.

Með umdeildri breytingu sé gert ráð fyrir að viðbygging að Selvogsgötu 1 verði í um 0,5 m fjarlægð frá báðum suðurgluggum kjallaraíbúðar kærenda, en sú fjarlægð sé alls ófullnægjandi. Fyrirhugað plan, sem eigandi Selvogsgötu 1 vilji byggja, sé það hátt fyrir ofan gluggaopin að birta inn um þau skerðist verulega. Umræddir gluggar séu þeir einu í kjallaraíbúðinni sem snúi í suður og því sérstaklega mikilvægir birtugjafar vegna dýptar hennar. Þó að ekki eigi að loka fyrir gluggana með umdeildu deiliskipulagi sé verið að loka fyrir birtuna, sem sé megintilgangurinn með hinum steyptu gluggaflísum á suðurhlið íbúðarinnar. Nái tillagan fram að ganga verði íbúðin ólögmæt, m.a. með vísan til gr. 78.3, 92.1 og 104.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Jafnframt sé bent á að fyrirhuguð viðbygging verði tengd við Brekkugötu 26 og þrengi því um of að eign kærenda.

Augljóst sé að með hinni kærðu ákvörðun muni verðmæti fasteignarinnar að Brekkugötu 26 rýrna og þar með væri brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Bæjaryfirvöld fara fram á að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað. Í greinargerð með skipulags- og byggingarlögum komi ekkert fram um það hvað teljist veruleg eða óveruleg breyting. Ráðist það því af mati þar til bærra skipulagsyfirvalda hverju sinni og hafi skipulagsyfirvöld talið að um óverulega breytingu á deiliskipulagi hafi verið að ræða.

Viðbygging jarðhæðar Selvogsgötu 1 breyti ásýnd Brekkugötu óverulega þar sem viðbyggingin sé einnar hæðar, nái ekki fram að götu og verði með sama þakhalla og húsið. Stækkun kjallara nái aðeins 50 cm upp fyrir gangstétt og sé með flötu þaki. Af þeim aðilum sem grenndarkynning hafi náð til hafi aðeins eigendur tveggja íbúða af þremur að Brekkugötu 26 andmælt breytingartillögunni. Kynningin hafi verið send til allra þeirra sem hafi verið taldir eiga hagsmuna að gæta og því hefði málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga engu breytt efnislega. Af forsögu málsins megi ráða að afstaða bæjaryfirvalda myndi ekki breytast þótt deiliskipulagsbreytingin yrði auglýst í stað grenndarkynningar.

Hleðslugler en ekki gluggar hafi verið samþykkt á suðurhlið hússins nr. 26 við Brekkugötu og því uppfylli íbúðin hvorki skilyrði gr. 79.1 né gr. 96 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Samkvæmt reglugerð nr. 269/1978 um brunavarnir og brunamál hafi ekki mátt setja stærra op á eldvarnarvegg er snúi að aðlægri lóð en 600 cm² án skriflegs samþykkis lóðarhafa, en slíkt samþykki hafi þáverandi eigandi Selvogsgötu 1 ekki veitt. Auk þess hleypi hleðslugler aðeins um 75% af birtu í gegn. Með byggingarleyfinu hafi verið gert ráð fyrir að byggt væri að fullu fyrir kjallaragluggann en samkvæmt skipulagsbreytingunni verði geil milli hússins og viðbyggingar Selvogsgötu 1. Þar sem geilin sé mjóst sé hún 50 cm en breikki og verði 95 cm við vestara ljósopið. Birtuopin séu ofarlega í geilinni og hafi deiliskipulagsbreytingin ekki afgerandi áhrif á gæði kjallaraíbúðar að Brekkugötu 26.

Viðbyggingin nái á styttri kafla að lóðamörkum við Brekkugötu 26 en fylling að húsinu sem samþykkt hafi verið árið 1993 og nái sú fylling fyrir þá glugga/ljósop sem síðar hafi verið gerð. Samþykktar teikningar að íbúð kærenda hafi sýnt aðra herbergjaskipan en nú sé, þannig að ekki hafi verið sýnt sérherbergi fyrir innan umrædda glugga, og hefðu áhrif glugga/glersteins því ekki haft afgerandi þýðingu. Sú breyting sem síðar hafi verið gerð hafi ekki hlotið samþykki byggingaryfirvalda og sé því á ábyrgð fyrri eigenda.

Samkvæmt formála greinargerðar með skipulaginu Hafnarfjörður, miðbær 1981, hafi eitt af markmiðum þess verið að uppbygging gæti átt sér stað án þess að fórnað væri miklu af þeim sérkennum sem setji svip á miðbæinn í dag. Skipulaginu hafi verið skipt í reiti og umrætt svæði sé á reit 19, en þar séu engir nánari skilmálar um hvernig heimila megi stækkun húsa. Sökum þessa hafi skapast sú hefð að grenndarkynna fyrirhugaðar framkvæmdir á reitnum án þess að breyta deiliskipulaginu.

Forsaga málsins lýsi eindregnum vilja bæjaryfirvalda til að heimila stækkun á húsinu nr. 1 við Selvogsgötu. Viðbyggingin samkvæmt gildandi deiliskipulagi raski ekki götumynd Brekkugötu, þar sem hún sé að mestu leyti neðan götu, og því sé um óverulega breytingu að ræða.

Málsrök lóðarhafa Selvogsgötu 1: Samkvæmt hinum nýju skipulagslögum nr. 123/2010 skuli við mat á því hvort breytingar séu óverulegar eða ekki líta til þess að hve miklu leyti tillaga víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Það sé því rétt mat að breytingar sem samþykktar hafi verið á deiliskipulaginu hafi verið óverulegar. Ekki sé fyrirhuguð nein breyting á notkun svæðisins og þær breytingar sem samþykktar hafi verið varðandi útlit og form séu mjög takmarkaðar. Götumynd muni lítið sem ekkert breytast og nýtingarhlutfall aðeins að óverulegu leyti.

Þegar leyfi hafi verið veitt til að breyta kjallara Brekkugötu 26 úr geymslum í íbúð hafi verið í gildi byggingarleyfi til eigendum Selvogsgötu 1 sem hafi gert ráð fyrir mun meiri tengingu við Brekkugötu 26 en verði með deiliskipulagsbreytingunni. Deilur hafi risið vegna breytinga á kjallara Brekkugötu 26 og framkvæmdir hafi verið stöðvaðar við að setja glugga á suðurhlið hússins. Leyfi hafi verið fyrir ljósopi en ekki gluggum eins og gerðir hafi verið. Á þeim tíma þegar umrædd breyting hafi verið heimiluð hafi verið í gildi byggingarreglugerð nr. 177/1992. Um brunavarnir hafi farið samkvæmt reglugerð nr. 269/1978, en ekki hafi legið fyrir samþykki samkvæmt gr. 3.1.7 og því séu gluggaop á suðurvegg Brekkugötu 26 í núverandi mynd ólögleg. Fyrirhugaðar framkvæmdir muni ekki draga úr birtustigi í íbúð kærenda umfram það sem vænta megi við að koma ljósopunum í lögmætt form. Verði um einhverja verðrýrnun að ræða á eigninni sé það vegna ólögmætrar framkvæmdar fyrri eigenda. Ekki verði séð hvernig fyrirhugaðar framkvæmdir komi til með að þrengja að húsnæði sem standi að lóðamörkum og ekki fylgi umferðaréttur um lóðina að Selvogsgötu 1.

————–

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi.

Niðurstaða: Fyrir liggur að veitt var byggingarleyfi fyrir viðbyggingu hússins að Selvogsgötu 1 og að framkvæmdir hófust áður en hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt og ekki liggur fyrir að nýtt byggingarleyfi hafi verið samþykkt og gefið út eftir gildistöku deiliskipulagsbreytingar.

Þegar hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Í 4. mgr. 56. gr. þeirra laga var kveðið á um að óheimilt væri að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefði verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefði verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 137/2012 reyndi á túlkun þessa lagaákvæðis, en þar var komist að þeirri niðurstöðu að fella bæri úr gildi umdeilda ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi svæðis á grundvelli ákvæðisins. Í dóminum er lagt til grundvallar að stærð margra húsa á svæðinu hafi verið í ósamræmi við skilmála deiliskipulags eins og þeir hafi verið fyrir hina umdeildu breytingu. Var nefndu ákvæði beitt án tillits til þess hvort hliðstætt ákvæði væri að finna í skipulagslögum nr. 123/2010, sem tóku gildi hinn 1. janúar 2011. Gögn kærumáls þessa bera ekki með sér að byggingarframkvæmdir þær sem ráðist var í eftir veitingu byggingarleyfis á árinu 2009 hafi verið fjarlægðar og jarðrask afmáð fyrir gildistöku hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður því ekki hjá því komist að ógilda hina kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. október 2010 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar frá 1981.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson

5/2010 Fróðengi og Spöngin

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 24. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 5/2010, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 um að breyta deiliskipulagi Spangarinnar, verslun og þjónusta í Borgarholti, vegna lóðanna nr. 1-11 við Fróðengi og Spönginni 43 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. janúar 2010, er barst nefndinni 29. s.m., kærir H, Fróðengi 14, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs frá 10. desember 2009 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Spangarinnar vegna lóðanna Fróðengi 1-11 og nr. 43 við Spöngina í Reykjavík. Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2010. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að öðrum kosti verði borgaryfirvöldum gert að kaupa fasteign kæranda.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Í nóvember 2007 tók gildi breyting á deiliskipulagi Spangarinnar, verslun og þjónusta í Borgarholti, er fól í sér að á svæðinu yrðu tvær lóðir með tvíþættri og samtengdri uppbyggingu, annars vegar þjónustuhús með aðkomu frá Spönginni og hins vegar allt að 112 þjónustuíbúðir fyrir aldraða með aðkomu frá Fróðengi.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 17. júlí 2009 var lagt fram minnisblað ásamt uppdrætti að breytingu á deiliskipulagi Spangarinnar við Fróðengi, er fól í sér að bílastæðaskilmálum fyrir lóðirnar að Spönginni 43 og Fróðengi 1-11 yrði breytt. Var málinu vísað til meðferðar hjá verkefnisstjóra svæðisins og á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 30. s.m. var samþykkt að kynna það formanni skipulagsráðs. Hinn 12. ágúst 2009 var tillagan tekin fyrir á fundi skipulagsráðs og samþykkt að auglýsa hana til kynningar þegar uppdrættir hefðu verið lagfærðir „…í þeim tilgangi að auka hlutverk gróðurs og landslagshönnunar á bílastæðalóðum“. Jafnframt var málinu vísað til borgarráðs er samþykkti þá afgreiðslu hinn 20. s.m. Að loknum kynningartíma tillögunnar var hún lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 23. október 2009 ásamt fram komnum athugasemdum og tillögum til úrbóta, þ.á m. frá kæranda, og samþykkt að framlengja frest til athugasemda. Málið var á ný tekið fyrir hjá skipulagsráði hinn 25. nóvember s.á. og hin kynnta tillaga samþykkt með þeim breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsstjóra, dags. 20. s.m. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 10. desember s.á. Í kjölfar þess var málið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar sem gerði ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt breytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að í upphaflegu deiliskipulagi umrædds svæðis hafi verið gert ráð fyrir byggingu kirkjusels Grafarvogssóknar og hafi það átt að vera tiltölulega smátt í sniðum. Auglýst hafi verið breyting á deiliskipulagi við Spöng, verslun og þjónusta, sem rétt hefði verið að auglýsa sem breytt deiliskipulag fyrir Fróðengi/Spöng, en Fróðengi teljist íbúðarsvæði en ekki þjónustusvæði. Með breytingunni sé þeirri stefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 kollvarpað að ekki sé gert ráð fyrir sérstökum þéttingarreitum innan Engjahverfis né breytingum á landnotkun. Ljóst sé að borgaryfirvöldum hafi orðið á mikil mistök við að heimila í skipulagi þjónustubyggingar sem séu mjög stórar og auk þess gert ráð fyrir miklum fjölda bílastæða á kostnað íbúa og annarra fasteignareigenda á svæðinu. Sé staðsetningu bílastæða norðan Fróðengis 14-16 og sunnan Borgarholtsskóla sérstaklega mótmælt.

Mjög óheppilegt sé að blanda saman íbúðarsvæði og þjónustusvæði enda sé starfsemi á þjónustusvæðum allan sólarhringinn árið um kring, mikil umferð og stór svæði lögð undir bílastæði. Megi vænta aukinnar umferðar við svefnherbergisglugga íbúa að Fróðengi 14 er raskað geti svefnfriði. Þá verði hávaði og loftmengun vegna umferðar. Komið hafi verið á framfæri athugasemdum og tillögum að hugsanlegum úrbótum, til að mynda um breytta aðkomu að bílastæðum, en þær hafi verið hafðar að engu. Með góðu móti hafi verið hægt að draga úr áhrifum umferðar með hljóðmön. Deiliskipulagið hafi í för með sér óhæfilega röskun á hagsmunum kæranda og annarra íbúa og verði þau lífsgæði kæranda sem felist í að búa við botngötu að engu gerð. Þá muni breytingin valda töluverði verðrýrnun á fasteign kæranda. Mál þetta snúist ekki aðeins um réttindi íbúa heldur einnig um lýðræði og rétt til þátttöku í ákvörðunum er snerti nánasta umhverfi þeirra.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því hafnað að hin kærða ákvörðun feli í sér slíka hagsmunaröskun að ógildingu varði. Að auki sé bent á að úrskurðarnefndin sé ekki bær um taka afstöðu til kröfu kæranda um skyldu borgarinnar til kaupa á fasteign hans.

Meðferð umræddrar deiliskipulagstillögu hafi að öllu leyti verið í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Við meðferð málsins hafi verið komið til móts við þær athugasemdir sem kærandi hafi sett fram um aukið umferðarálag. Fyrirhuguð 48 bílastæði á lóð Borgarholtsskóla hafi verið færð norðar á lóðina, sem nemi fimm metrum, svo unnt væri að koma fyrir auknum gróðri og jarðvegsmön til að draga úr ásýnd bíla frá nálægum íbúðarhúsum. Einnig hafi bílastæðunum verið fækkað úr 48 í 42 til samræmis við eldra skipulag.

Sérstaklega skuli áréttað að ekki sé um fjölgun bílastæða að ræða frá eldra deiliskipulagi. Einungis sé verið að draga úr sameiginlegum heildarfjölda bílastæða lóðanna tveggja, þ.e. við Spöngina 43 og Fróðengi 1-11, sem gæti aukið nokkuð nýtingu stæðanna við Fróðengi. Einnig hafi í ljósi athugasemda verið talin ástæða til að bæta við heiti deiliskipulagstillögunnar.

Ekki verði séð hvernig breytingin geti talist íþyngjandi fyrir kæranda en yfirleitt sé talið mjög heppilegt að blanda saman íbúðum og þjónustu þar sem hægt sé m.a. að samnýta bílastæði. Fullyrðingum kæranda um að breytingin muni valda hávaða og loftmengun og raska hagsmunum hans og lífsgæðum sé mótmælt sem órökstuddum og ósönnum. Það sé umferð í Reykjavík alla daga, alls staðar, og geti kærandi ekki vænst þess að borgarskipulag taki sérstaklega mið af svefnvenjum hans. Geti eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Að því er varði meinta rýrnun á verðmæti eignar kæranda sé bent á að ekki sé gerð nein tilraun af hálfu kæranda til að renna stoðum undir þá fullyrðingu með haldbærum rökum. Þá sé jafnframt bent á bótaákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga. Valdi þessi málsástæða því ekki að deiliskipulagsbreytingin teljist ógildanleg.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi breytingar á deiliskipulagi Spangarinnar fyrir lóðirnar Spöngin 43 og Fróðengi 1-11. Fram hefur komið að bygging þjónustuhúss og þjónustuíbúða var heimiluð með deiliskipulagsákvörðun er tók gildi árið 2007 og jafnframt voru í greinargerð deiliskipulagsins ákvæði um bílastæði fyrir húsin og fyrirkomulag þeirra sýnt á uppdrætti. Sætir sú ákvörðun ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar enda er eins mánaðar kærufrestur skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 löngu liðinn.

Hin kærða ákvörðun fól í sér breytingar á tilhögun bílastæða fyrir umrædd hús. Gerði ákvörðunin ráð fyrir fækkun bílastæða fyrir þjónustuhús. Í stað 160 stæða, þ.e 29 ofanjarðar og 131 í bílakjallara, var gert ráð fyrir 86 stæðum. Bílastæðum fyrir 1. hæð, alls 56 stæði yrði fullnægt á lóð og fyrir 2. hæð yrði allt að 40 bílastæði samnýtt með Fróðengi 1-11. Aðkoma að stæðum á lóð þjónustuhúss yrði frá Spönginni líkt og áður. Sem fyrr er gert ráð fyrir samnýtingu bílastæða skóla og þjónustuíbúða norðan við þjónustuíbúðir aldraðra að Fróðengi 1-11.  Samnýtt eru 56 bílastæði norðvestan við fasteign kæranda og 42 bílastæði norðan við fasteignina. Ekið er að þeim bílastæðum um Fróðengi, framhjá fjölbýlishúsinu að Fróðengi 14. Við meðferð skipulagsbreytingarinnar var fallið frá því að auka fjölda stæða norðan við hús kæranda, sem eru sameiginleg þjónustuíbúðum og skóla, úr 42 í 48. Þá var sett kvöð um gróður og landmótun framan við þau bílastæði, sem og framan við þau stæði sem eru norðvestan við fasteign kæranda. Þeim bílastæðum á svæðinu sem ekið er að um Fróðengi var ekki fjölgað. Bílastæði sem staðsett eru vestan og norðan við fasteign kæranda að Fróðengi 14 færast samkvæmt uppdrætti deiliskipulagsins fjær fasteigninni frá því sem áður hafði verið.

Samkvæmt ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga höfðu sveitarstjórnir víðtækt skipulagsvald innan marka sveitarfélags, sbr. 2. mgr. 3. gr., 23. gr. og 26. gr. laganna. Fækkun bílastæða við þjónustuhús að Spönginni 43 kann að auka umferð um Fróðengi vegna samnýtingar nefndra bílastæða norðan við þjónustuíbúðir aldraðra við Fróðengi, en hafa verður í huga að fjöldi stæðanna er óbreyttur og heimild til að samnýta þau stæði var fyrir hendi fyrir umdeilda skipulagsbreytingu. Breytingin er og að nokkru til hagsbóta fyrir kæranda með færslu bílastæða frá fasteign hans og kvöð um gróður til að skerma af stæði sem eru norðan við fasteignina. Hins vegar skal bent á að valdi gildistaka skipulags því að verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var heimilt eða hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, á sá er sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða að hann leysi fasteignina til sín, sbr. 33. nefndra laga. Það er þó ekki í verkahring úrskurðarnefndarinnar að fjalla um mögulegan bótarétt samkvæmt nefndu ákvæði og verður því ekki fjallað um kröfu kæranda í þá veru.

Með vísan til þess sem að framan greinir og þar sem ekki verður annað af gögnum ráðið en að meðferð umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi verið lögum samkvæmt er kröfu kæranda um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 10. desember 2009 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Spangarinnar, verslun og þjónusta, vegna lóðanna Fróðengi 1-11 og Spöngin 43.

___________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________            ___________________________
Ómar Stefánsson                                       Þorsteinn Þorsteinsson

17/2015 Brú í landi Elliðakots

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2015, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 4. febrúar 2015 og á ákvörðun bæjarstjórnar frá 11. s.m. um að samþykkja að veita megi byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni Brú í landi Elliðakots í Mosfellsbæ.

Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana verði frestað til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Hjalti Steinþórsson hrl., f.h. eigenda fasteignarinnar Elliðakots í Mosfellsbæ, ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 4. febrúar 2015 og ákvörðun bæjarstjórnar frá 11. s.m. um að samþykkja að veita megi byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni Brú í landi Elliðakots. Er þess krafist að ákvörðunum verði hnekkt. Jafnframt er þess krafist að úrskurðarnefndin fresti réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar fyrir nefndinni.

Málsatvik og rök: Árið 2014 brann sumarhúsið Brú sem var í landi lögbýlisins Elliðakots í Mosfellsbæ. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar hinn 1. júlí 2014 var tekin fyrir fyrirspurn eiganda hússins um hvort leyft yrði að endurbyggja sumarbústað á lóðinni er yrði samkvæmt framlögðum gögnum að hámarksstærð 130 m² með útgröfnum skriðkjallara/tæknirými með 179 cm lofthæð. Var fært til bókar að samkvæmt aðalskipulagi væri heildarhámarksstærð húss á lóðinni 130 m². Jafnframt var bókað að nefndin væri neikvæð fyrir gerð skriðkjallara undir húsi og verönd en að heimiluð yrði grenndarkynning á málinu þegar breyttir uppdrættir lægju fyrir. Í kjölfar þess var grenndarkynnt umsókn um leyfi til að reisa 130 m² sumarbústað með kjallara í stað bústaðar þess sem brann. Komu kærendur að athugasemdum við fyrirhugaða byggingu og kváðust hafna þessari endurbyggingu. Athugasemdum kærenda var svarað með bréfum, dags. 9. september 2014, og þeim gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum, sem þeir og gerðu með bréfum, dags. 18. og 22. s.m.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 11. nóvember 2014. Taldi nefndin að hafna bæri umsókninni þar sem stærð hússins væri yfir stærðarmörkum í aðalskipulagi. Jafnframt var þeim athugasemdum hafnað að meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við lög. Þá var tekið fram að nefndin tæki ekki afstöðu til ágreinings aðila um túlkun á lóðarleigusamningi. Með bréfum, dags. 20. nóvember 2014, var kærendum að nýju grenndarkynnt umsókn um leyfi til að reisa frístundahús að Brú í Elliðakotslandi og var nú ekki lengur gert ráð fyrir kjallara undir húsinu. Var andmælum og sjónarmiðum kærenda komið á framfæri við bæjaryfirvöld með bréfi, dags. 2. desember s.á. Hinn 4. febrúar 2015 var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Nefndin samþykkir framlögð drög að svörum og samþykkir jafnframt að hún gerir ekki athugasemdir við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi skv. fyrirliggjandi umsókn þegar hann telur hönnunargögn vera orðin fullnægjandi.“ Var forsvarsmanni kærenda tilkynnt um þá niðurstöðu skipulagsnefndar með bréfi, dagsettu sama dag, og vakin athygli á því að nefnd ákvörðun væri kæranleg. Staðfesti bæjarstjórn samþykkt skipulagsnefndar hinn 11. febrúar 2015.

Kærendur vísa til þess að veiting fyrirhugaðs byggingarleyfis fari í bága við gildandi aðalskipulag Mosfellsbæjar. Að auki hafi ekki verið skilyrði til að viðhafa grenndarkynningu í málinu. Loks telji kærendur að fyrirhuguð bygging húss á lóð þeirra sé háð samþykki þeirra. Engin stoð sé fyrir slíkum byggingarrétti í lóðarleigusamningi.

Krafa um frestun réttaráhrifa sé á því byggð að hin kærða samþykkt skipulagsnefndar veiti heimild til útgáfu byggingarleyfis án frekari undangenginnar málsmeðferðar. Skilja verði ákvæði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, svo sem því hafi verið breytt með lögum nr. 59/2014, að skipulagsnefnd ákveði að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning, og að sú ákvörðun sé endanleg en háð staðfestingu eða samþykki sveitarstjórnar. Megi þannig segja að samþykkt skipulagsnefndar jafngildi samþykkt byggingaráforma skv. 11. gr. laga um mannvirki og standi öll efnisrök til þess að fresta beri réttaráhrifum. Telji kærendur að óeðlilegt væri þegar svona standi á, að gera þeim að bíða þess að byggingarfulltrúi veiti leyfið enda sé skipulagsnefnd í raun búin að taka lokaákvörðun um veitingu þess. Eigi kærendur ríka hagsmuni því tengda að ekki verði byggt á lóðinni stærra eða varanlegra mannvirki en réttur lóðarhafa standi til, m.a. þegar litið sé til mögulegrar innlausnar kærenda í lok leigutíma skv. lögum nr. 75/2008.

Af hálfu Mosfellsbæjar er þess krafist að kröfu um frestun réttaráhrifa verði hafnað. Fyrirhugað hús samræmist fyllilega aðalskipulagi hvað varði landnotkun, stærð og fjölda húsa/lóða á svæðinu. Hvað varði kröfu um frestun réttaráhrifa verði að hafa í huga að ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 kveði á um þá meginreglu að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Heimild til stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða sé undantekning frá meginreglunni sem beri að túlka þröngt. Þurfi ríkar ástæður eða veigamikil rök að liggja til grundvallar slíkri íhlutun. Ekki verði séð að slíkar ástæður eða rök séu fyrir hendi í máli þessu. Þá verði að líta til þess að í hinni kærðu ákvörðun felist aðeins að ekki sé gerð athugasemd við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi skv. fyrirliggjandi umsókn þegar hann telji hönnunargögn vera orðin fullnægjandi, en ekki að byggingarfulltrúi skuli veita byggingarleyfi. Þá leiði af 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að önnur skilyrði ákvæðisins verði jafnframt að vera uppfyllt.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar eru undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi þeirrar afgreiðslu skipulagsnefndar, sem staðfest var af bæjarstjórn, um að samþykkja að gera ekki athugasemdir við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi í samræmi við umsókn leyfishafa. Fela hinar kærðu ákvarðanir ekki í sér heimild til að hefja framkvæmdir og geta þær ekki hafist áður en til útgáfu byggingarleyfis kemur, sbr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Eru framkvæmdir því ekki yfirvofandi í skilningi nefndrar 5. gr. laga nr. 130/2011 og er þar með ekki tilefni til að kveða á um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

71/2010 Garðarsbraut

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 71/2010, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 13. október 2010 á erindi vegna framkvæmda við setlaug á þaksvölum Garðarsbrautar 48, Húsavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni 18. nóvember 2010, kærir E, Túngötu 18, Húsavík, afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 13. október 2010 á erindi vegna framkvæmda við setlaug á þaksvölum Garðarsbrautar 48, Húsavík. Samkvæmt gögnum málsins samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings, á fundi sínum 13. október 2010, leyfi fyrir setlaug á þaki hússins og verður að líta svo á að það sé sú ákvörðun er sætir kæru í máli þessu. Þá verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings 10. nóvember 2014.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Garðarsbraut 48 er fjöleignarhús sem í eru sjö eignarhlutar, þar af er einn eignarhluti íbúðarhúsnæði og sex eignarhlutar eru skráðir sem atvinnuhúsnæði. Kærandi er eigandi þriggja eignarhluta undir iðnaðarstarfsemi á jarðhæð hússins en leyfishafi er eigandi íbúðarhúsnæðis á jarðhæð og 2. hæð. Eignarhlutar kæranda og leyfishafa mynda matshluta 1 í húsinu. Af 2. hæð í eignarhluta leyfishafa er útgengt á flatt þak hússins, en húsnæði kæranda er staðsett undir því. Ágreiningur hefur verið með kæranda og leyfishafa um heimildir leyfishafa til framkvæmda á þakinu.

Kærandi eignaðist eignarhluta sína í húsinu með þremur afsölum sem öll eru undirrituð 1. janúar 2008 og kemur fram í þeim öllum að hann hafi tekið við eigninni sama dag. Leyfishafi var seljandi allra þriggja eignarhlutanna. Leyfishafi hafði þá skömmu áður, eða hinn 7. desember 2007, undirritað nýja eignaskiptayfirlýsingu fyrir Garðarsbraut 48, matshluta 1, og þinglýst henni.

Með bréfi til skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings, dags. 4. október 2010, óskaði kærandi eftir því að nefndin léti til sín taka og stöðvaði allar framkvæmdir á þaki Garðarsbrautar 48. Í bréfinu kom fram að unnið væri að uppsetningu á setlaug á þakinu án samráðs við kæranda og án leyfis sveitarstjórnar.

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings 13. október 2010 og á sama fundi var tekin fyrir umsókn leyfishafa um byggingarleyfi fyrir setlaug á þaki umrædds húss. Samkvæmt fundargerð var erindi leyfishafa tekið fyrir á undan erindi kæranda og samþykkti nefndin umsóknina „… að því tilskildu að setlaugin sé sett niður í samræmi við ákvæði 69. gr. byggingarreglugerðar, umsækjandi sýni fram á að burðarvirki hússins beri það álag sem af setlauginni getur hlotist og frágangur lagna verði á þann veg að ekki sé líklegt til að valda nágranna óþægindum eða tjóni“. Erindi kæranda um stöðvun framkvæmda var síðan tekið fyrir og í niðurstöðu nefndarinnar er vísað til þess að í fyrri lið fundargerðarinnar hafi nefndin samþykkt leyfi fyrir setlauginni sem unnið væri að á þaki hússins. Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að skrifa leyfishafa bréf og fara fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til leyfi sveitarstjórnar hefði fengist fyrir þeim. Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi sveitarstjórnar Norðurþings hinn 19. október 2010 og var kæranda tilkynnt um afgreiðslu nefndarinnar á báðum erindunum með bréfi, dags. 20. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að leyfishafa hafi verið óheimilt að koma fyrir setlaug á þaki Garðarsbrautar 48 án þess að samráð væri haft við hann sem meðeiganda og án þess að leyfi sveitarstjórnar lægi fyrir. Hann hafi reynt að fá byggingarfulltrúa Norðurþings til að beita sér í málinu en byggingarfulltrúinn hafi borið því við að kærandi hafi þegar veitt skjalfest samþykki fyrir þeim byggingum sem hefðu risið á þakinu sem og því sem unnið væri að, þ.e. uppsetningu á setlaug. Kærandi hafi bent á að hann hafi veitt samþykki fyrir sólstofu sem þegar hafi verið byggð en lengra hafi samþykkið ekki náð. Þá hafi engin könnun verið gerð á því hvort niðurfall það sem sett hafi verið á þakið flytji allt það vatnsmagn sem komi úr pottinum eða hvort rennslið sé þétt og temprað, en allt vatn sem lendi á þakinu fari nánast óhindrað niður í eignarhluta kæranda við núverandi aðstæður.

Málsrök Norðurþings: Í athugasemdum Norðurþings kemur fram að í þinglýstum afsölum til kæranda vegna eignarhlutanna á neðri hæð hússins að Garðarsbraut 48 segi: „Þakið yfir hinni seldu eign tilheyrir afsalsgjafa og er honum heimilað að gera þar þær framkvæmdir sem hann óskar og bæjaryfirvöld samþykkja, en þegar hefur verið samþykkt á þakinu bygging sólstofu.“ Skipulags- og byggingarnefnd hafi litið svo á að þessi texti í afsölunum gæfi leyfishafa nokkuð frjálsar hendur við afnot og framkvæmdir á sérafnotafleti ofan á þakinu. Nefndin hafi einnig horft til álits kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 60/2002 þar sem niðurstaðan hafi virst vera sú að setlaug á svölum félli innan ramma þess svigrúms sem eigandi sérafnotaflatar hefði til notkunar á sinni eign. Setlaugin á þaki Garðarsbrautar 48 sé lítið og léttvægt mannvirki og litið hafi verið svo á að ákvæði byggingarreglugerðar um setlaugar snerust fyrst og fremst um öryggismál fremur en skipulagsmál. Þar sem eign kæranda sé iðnaðarhúsnæði sé vart um að ræða truflun vegna hávaða við notkun laugarinnar. Í skýrslu verkfræðistofu, dags. 24. maí 2011, sem leyfishafi hafi aflað, sé rökstutt að þakvirki þoli álag frá setlauginni. Fráveita frá henni hafi verið tengd inn á þakniðurfall sem eigi auðveldlega að anna losun úr henni.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi fer fram á að niðurstaða skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings standi óhögguð. Fullnægjandi úrbætur hafi verið gerðar til að stöðva leka sem bent hafi verið á í ástandsmati í október 2010 og fyrir liggi í álitsgerð verkfræðistofu að burðarþol þaksins standist það álag sem nú sé á þakinu. Þakið sé nú notað sem einkasvalir með sólstofu og setlaug og frekari framkvæmdir séu ekki fyrirhugaðar þar. Í afsölum kæranda hafi hann samþykkt þá takmörkun á eignarrétti sínum að leyfishafi hefði eignar- og ráðstöfunarrétt á þaki eignarinnar. Í þeim komi fram að leyfishafa sé heimilt að ráðast í þær framkvæmdir sem hann óski og bæjaryfirvöld samþykki. Þessa samningsskilmála hafi kærandi samþykkt án fyrirvara með undirskrift sinni á afsölin. Þá hafi kæranda verið kunnugt um að húsnæðið væri í lélegu ástandi þegar hann keypti það en leyfishafi hafi unnið að úrbótum á fasteigninni, þar á meðal á niðurfalli af þakinu, til að gæta sameiginlegra hagsmuna eigenda. Þakið sé sérafnotaflötur/svalir leyfishafa og því beri að hafna beiðni kæranda vegna skorts á lögvörðum hagsmunum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar um veitingu byggingarleyfis fyrir setlaug á þaki Garðarsbrautar 48. Kærandi heldur því fram í málinu að óheimilt hafi verið að koma setlauginni fyrir á þakinu án samráðs við hann. Í eignaskiptayfirlýsingu Garðarsbrautar 48, matshluta 1, kemur fram að eignarhluta leyfishafa tilheyri svalir 0203 og er þar um að ræða þaksvalirnar þar sem setlaugin er staðsett. Þá er í afsölum til kæranda vegna eignarhluta í fasteigninni tiltekið að afsalsgjafi, þ.e. leyfishafi, hafi full umráð umrædds þakflatar.

Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru er hin kærða ákvörðun var tekin, skal sá sem óskar byggingarleyfis senda um það skriflega umsókn til hlutaðeigandi byggingarnefndar ásamt nauðsynlegum hönnunargögnum og skilríkjum, þar með talið samþykki meðeigenda ef um sameign er að ræða.

Um Garðarsbraut 48 gilda lög um fjöleignarhús nr. 26/1994. Samkvæmt 1. tl. 8. gr. laganna, sbr. 6. gr. þeirra, telst allt ytra byrði húss, þar á meðal þak, í sameign allra eigenda fjöleignarhússins. Í 8. tl. 5. gr. sömu laga kemur hins vegar fram að innra byrði svalaveggja og gólfflötur svala teljist til séreignar, en húsfélag hafi ákvörðunarvald um allar breytingar, búnað og annað á svölum sem áhrif hafi á útlit hússins og heildarmynd. Gólfflötur svalanna telst því séreign leyfishafa þótt þakið sé að öðru leyti í sameign.

Í 26. gr. laga um fjöleignarhús segir að eigandi hafi einn rétt til hagnýtingar og umráða yfir séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem greinir í lögunum eða öðrum lögum sem leiðir af óskráðum grenndarreglum eða eðli máls eða byggjast á löglegum ákvörðunum og samþykktum húsfélagsins. Er eiganda skylt á sinn kostnað að halda allri séreign sinni vel við og að haga afnotum og hagnýtingu hennar með þeim hætti að aðrir eigendur eða afnotahafar í húsinu verði ekki fyrir ónauðsynlegu og óeðlilegu ónæði, þ.e. meiri ama, ónæði og óþægindum en óhjákvæmilegt er og eðlilegt þykir í sambærilegum húsum.

Af gögnum málsins er ljóst að framkvæmdir við uppsetningu á setlaug á þaki hússins hófust eftir að kærandi eignaðist eignarhluta sína í húsinu. Í 27. gr. laga um fjöleignarhús er fjallað um breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi og er þar gert ráð fyrir að meðeigendur samþykki breytta hagnýtingu nema sýnt sé að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum þeirra. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur ekki fyrir að hagnýting þaksvalanna undir setlaug raski ein og sér hagsmunum kæranda með þeim hætti að samþykki hans þurfi fyrir breytingunni samkvæmt nefndu lagaákvæði. Er þá litið til þess að hið umdeilda byggingarleyfi var meðal annars veitt með því skilyrði að frágangur lagna yrði á þann veg að ekki væri líklegt til að valda nágranna óþægindum eða tjóni.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið bar ekki nauðsyn til að afla samþykkis kæranda fyrir umdeildri setlaug áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Verður kröfu hans um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 13. október 2010 um að veita leyfi fyrir setlaug á þaki Garðarsbrautar 48, Húsavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson
 

23/2009 Hvammar

Með
Árið 2015, föstudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 4. febrúar 2009 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvamma, Fellabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. apríl 2009, er barst nefndinni 14. s.m., kæra íbúar að, Fjóluhvammi 1, Smárahvammi 1, Smárahvammi 2 og  Ranavaði 6, Fljótsdalshéraði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 4. febrúar 2009 að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvamma, Fellabæ.

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi. Jafnframt var þess krafist að framkvæmdir við Fjóluhvamm í Fellabæ yrðu stöðvaðar. Verður málið nú tekið til efnislegrar úrlausnar en ekki þótti tilefni til að taka sérstaklega fyrir stöðvunarkröfu kærenda enda felst ekki í hinni kærðu ákvörðun heimild til að hefja framkvæmdir.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs hinn 10. mars 2008 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi Hvamma, sem er svæði er tekur til Fífuhvamms, Fjóluhvamms og Smárahvamms í Fellabæ. Gerði tillagan ráð fyrir stofnun þriggja lóða við Fjóluhvamm og tveggja lóða við götu er nefnd yrði Fífuhvammur og byggingarheimildum á þeim. Ekki var gert ráð fyrir breytingum á þegar reistum húsum á skipulagsreitnum. Var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að tillagan yrði auglýst til kynningar og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 19. s.m. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. bréf er undirritað var af 37 íbúum við Hvamma þar sem m.a. var skorað á sveitarstjórn og skipulags- og byggingarnefnd að skilgreina svæði við suðurenda Fjóluhvamms sem opið útivistarsvæði, en í tillögunni var gert ráð fyrir að á því svæði yrði heimilað að reisa tveggja hæða tvíbýlishús.

Var umrætt athugasemdabréf lagt fram á fundi bæjarráðs hinn 25. júní 2008 og bókað að athugasemdum íbúa yrði komið til skipulags- og byggingarnefndar. Jafnframt yrði tillögum íbúa um úrbætur á svæðinu vísað til skoðunar og umsagnar í umhverfis- og náttúruverndarnefnd og fasteigna- og þjónustunefnd. Tillaga að deiliskipulagi fyrir Hvamma var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. júlí s.á. Voru fram komnar athugasemdir og svör við þeim færð til bókar og lagt til að tillagan yrði samþykkt með þeim breytingum að bílastæði við Smárahvamm 2 yrðu staðsett við Fjóluhvamm. Jafnframt var lagt til að tillagan yrði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Bæjarráð samþykkti skipulagstillöguna á fundi hinn 23. júlí 2008 og í kjölfar þess var hún send Skipulagsstofnun til lögbundinnar meðferðar.

Með bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarfélagsins, dags. 19. september s.á., kom fram að ekki væri unnt að taka afstöðu til efnis eða forms deiliskipulagsins þar sem upplýsingar væru óljósar. Í kjölfar þessa samþykkti bæjarstjórn hinn 17. desember 2008, að undangenginni afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar, breytt deiliskipulag þar sem bætt hafði verið við tillöguna skilmálum fyrir þegar byggðar lóðir. Skipulagsstofnun tók málið fyrir að nýju og með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. janúar 2009, var gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins þar sem nýjum skipulagsskilmálum hefði verið bætt við án þess að þær breytingar hefðu verið kynntar hagsmunaaðilum eða rökstutt hvers vegna ekki þyrfti að kynna þær breytingar sérstaklega. Í framhaldi af því var sú breyting gerð á tillögunni að byggingarreitir á þegar byggðum lóðum voru teknir út af uppdrætti. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 26. janúar 2009 var lagt til við bæjarstjórn að skipulagið yrði samþykkt og það sent Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Jafnframt yrði breytingin auglýst opinberlega samhliða auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Samþykkti bæjarstjórn nefnda afgreiðslu hinn 4. febrúar s.á. Var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun að nýju, sem gerði nú ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins, og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 13. mars 2009.

Hafa kærendur skotið ákvörðun bæjarstjórnar um deiliskipulag fyrir Hvamma til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að deiliskipulagið sé ekki að öllu leyti í samræmi við Aðalskipulag Fellahrepps 2000-2012 að því er varði vegtengingu á svæðinu. Einnig sé bætt við götu, sem nefnd sé Fífuhvammur, sem ekki eigi sér stoð í aðalskipulagi. Skipulagsyfirvöld og höfundur skipulagsins hafi hvorki kynnt sér stöðu skipulagsmála né hugað nægjanlega að ríkjandi aðstæðum. Hafi deiliskipulagið verið samþykkt svo hægt væri að standa við þegar samþykkta lóðaúthlutun.

Í 1. mgr. gr. 3.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé kveðið á um samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila við skipulagsgerð. Ekkert samráð hafi verið haft við íbúa Hvamma við gerð deiliskipulagsins umfram lögboðna kynningu. Vegna forsögu málsins hafi skipulagsyfirvöldum mátt vera ljóst að veruleg þörf væri á virku samráði við íbúa við að finna lausn mála sem allir gætu sætt sig við. Að upplýsa um valdboð og ákvarðanir sé ekki það sama og að hafa samráð við hagsmunaaðila.

Húsakönnun skv. 3. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð hafi ekki verið gerð. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði sé sú skylda lögð á skipulagsyfirvöld að kanna með fullnægjandi hætti þær aðstæður innan hverfis sem máli skipti fyrir deiliskipulagið sem slíkt og ekki síður fyrir þá sem ríkra hagsmuna eigi að gæta, líkt og íbúðareigendur á svæðinu. Sem dæmi um ókunnugleika þeirra sem að gerð deiliskipulagsins hafi komið megi nefna að í umræddu skipulagi komi fram að á lóð nr. 1 við Fjóluhvamm skuli vera þrjú bílastæði en samkvæmt þinglýstum gögnum séu þau fjögur. Sé undirbúningur og aðdragandi skipulagsins ekki með þeim hætti sem áskilið sé samkvæmt greindu ákvæði og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Breytingar sem fram komi í deiliskipulaginu séu hvorki brýnar né byggi á almannahagsmunum. Í svari við athugasemdum komi fram að skipulagsyfirvöldum beri að nýta allt það land þar sem gert sé ráð fyrir íbúðarbyggð í gildandi aðalskipulagi. Ekki sé þetta rökstutt frekar enda vandséð að tiltekin staða í samningum um kaup á byggingarlandi feli í sér skyldu til að þétta byggð í nær fullbyggðu hverfi og það í andstöðu við alla íbúa og húseigendur hverfisins. Því sé alfarið vísað á bug að sveitarfélaginu beri skylda til að fara út í þá þéttingu byggðar sem deiliskipulagið geri ráð fyrir. Íbúðarsvæði sé skilgreint í gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerðinni. Af því ákvæði verði ekki dregin sú ályktun að sjálfgefið sé að sérhver skiki sem skilgreindur sé sem íbúðarsvæði í aðalskipulagi verði útfærður sem byggingarlóð. Það sé því ekki í andstöðu við aðalskipulag þótt svæði við suðurenda Fjóluhvamms verði látið standa óbyggt eða nýtt til sameiginlegra þarfa hverfisins, líkt og samstaða virðist um meðal íbúa Hvamma. Líti kærendur á umrætt svæði sem opið svæði með aðgengi að Lagarfljóti. Hafi skipulagsyfirvöld í engu komið til móts við sjónarmið íbúa, þrátt fyrir að ekki hafi verið sýnt fram á að sveitarfélagið hafi ríka hagsmuni af því að þarna verði byggt. Sé vísað til kafla 2.2.1 í greinargerð með aðalskipulaginu en þar segi: „Íbúðarsvæði falli ávallt sem best að náttúrulegu umhverfi og lagður sé metnaður í … samfellu byggðar og náttúru.“

Hvammarnir séu einbýlishúsahverfi, lóðir séu stórar og húsin standi þannig að þau skyggi ekki hvert á annað. Bygging tveggja hæða parhúss syðst í einbýlishúsahverfi sé stílbrot við ríkjandi byggð. Nyrst í hverfinu séu háreistari parhús, Fjóluhvammur 9 og 11, og því eðlilegt að byggð hækki til norðurs. Fyrirhugað parhús muni skerða útsýni þeirra er búi í nærliggjandi húsum. Jafnframt hafi verið felldur niður göngustígur meðfram lóðarmörkum Smárahvamms 2 frá götu og niður að Fljóti. Erfitt sé um aðkomu að því annars staðar þar sem brattara sé þar frá götubrún og niður að ánni. Þá torveldi breytingin snjómokstur í götunni.

Götur í Hvömmum séu þröngar, brattar og bugðóttar og séu öll bílastæði inni á lóðum. Eina mögulega staðsetning bílastæða fyrir gesti sé syðst í Fjóluhvamminum, en brýn þörf sé fyrir gestabílastæði á svæðinu og hefðu íbúar óskað eftir því að úr þessu yrði bætt með áskorun til sveitarfélagsins, dags. 30. maí 2008. Þeim rökum skipulags- og byggingarnefndar að gestabílastæði auki umferð um Hvammana sé vísað á bug.

Málsrök Fljótsdalshéraðs: Bent er á að umrætt deiliskipulag byggi á gildandi Aðalskipulagi Fellahrepps 2000-2012. Í tillögu að aðalskipulagi fyrir Fljótsdalshérað, sem bæjarstjórn hafi samþykkt 20. maí 2009 að senda Skipulagsstofnun til afgreiðslu, sé gert ráð fyrir óbreyttri íbúðarbyggð við Fjóluhvamm. Ekki hafi verið talið nauðsynlegt að gera bæja- og húsakönnun enda einungis um það að ræða að útfæra nánar byggingar á lóðum nr. 2 og 4 við Fífuhvamm og lóðum nr. 3, 4a og 4b við Fjóluhvamm. Skipulagshöfundur þekki svæðið allvel og hafi farið ásamt skipulagsfulltrúa í skoðunarferðir um það. Bílastæði við hús nr. 1 við Fjóluhvamm þurfi ekki að vera fleiri en þrjú þar sem önnur íbúðin í húsinu sé minni en 80 m². Enn fremur sé bent á að vegna landleysis sé það stefna sveitarfélagsins að byggja á öllum skipulögðum lóðum í eigu þess áður en meira land verði tekið undir frekari byggð.

                ————————–

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar í máli þessu.

Niðurstaða: Hvammar í Fellabæ mun vera gróin byggð. Gerir hið kærða deiliskipulag ráð fyrir að stofnaðar séu þar tvær lóðir við nýja götu sem nefnd er Fífuhvammur og heimiluð bygging tveggja hæða einbýlishúss á hvorri lóð. Jafnframt er heimiluð bygging einbýlis- eða tvíbýlishúss á lóðinni Fjóluhvammi 3 og bygging tveggja hæða tvíbýlishúss á lóðum nr. 4a og 4b við suðurenda Fjóluhvamms. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á þegar reistum húsum. Stendur einkum styr um þær heimildir sem veittar eru á lóðunum að Fjóluhvammi 4a og 4b.

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, er giltu á þeim tíma sem hér um ræðir, er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. laganna. Skipulag gróinna hverfa er að því leyti frábrugðið skipulagningu nýbyggingarsvæða að á grónum svæðum hefur byggð mótast í samræmi við skipulag sem sett hefur verið af sveitarstjórn eða með veittum byggingarleyfum. Gera tilvitnuð lög ráð fyrir að með skipulagsákvörðun geti lögvörðum hagsmunum eigenda fasteigna verið raskað vegna ríkari hagsmuna, en þeim er hins vegar tryggður bótaréttur skv. 33. gr. laganna valdi skipulagsákvörðun fjártjóni.

Í 4. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur fram að við gerð skipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið. Fallast má á með kærendum að vanda hefði mátt betur undirbúning málsins með samráði við hagsmunaaðila og kynningu á frumstigi þess með hliðsjón af nefndu lagaákvæði, en fyrir lá að ekki ríkti eining um skipulagsáætlunina. Ekki verður þó talið að þessi ágalli á meðferð málsins sé þess eðlis að leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Orðalag nefndrar 4. mgr. 9. gr. er ekki afdráttarlaust og umdeild skipulagstillaga var allt að einu auglýst til kynningar, svo sem áskilið er í 1. mgr. 25. gr. nefndra laga, og gafst íbúum þar með kostur á að koma að athugasemdum sínum og ábendingum vegna hennar.

Deiliskipulag skal gera á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði og reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og útfæra nánar ákvæði aðalskipulags um viðkomandi svæði. Samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Fellahrepps 2000-2012 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarsvæði. Hefur sveitarfélagið borið fyrir sig að stefnt sé að því að byggja á öllum skipulögðum lóðum í eigu sveitarfélagsins áður en meira land verði tekið undir frekari byggð og verður að telja þau markmið málefnaleg og lögmæt.

Í 2. mgr. gr. 4.16.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir að í aðalskipulagi skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum samgöngumannvirkjum, s.s. þjóðvegum og höfnum, svo og helstu umferðaræðum, stofnbrautum og tengibrautum. Ekki er gerð krafa um að sýna þurfi á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags aðrar samgönguæðar, s.s. íbúðar- eða safngötur. Fer hin kærða skipulagsákvörðun að þessu leyti ekki í bága við gildandi aðalskipulag.

Huga skal að bæja- og húsakönnun áður en ráðist er í skipulagsgerð til þess að afstaða sé tekin til varðveislu mannvirkja. Fyrir liggur að með hinni kærðu ákvörðun var ekki hróflað við byggð þeirri sem fyrir var á skipulagssvæðinu og þykir sá annmarki að ekki hafi legið fyrir sérstök húsakönnun því ekki geta raskað gildi ákvörðunarinnar, eins og atvikum er hér háttað.

Að öllu framangreindu virtu þykir hið kærða deiliskipulag ekki haldið slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 4. febrúar 2009 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvamma, Fellabæ.

___________________________
Ómar Stefánsson

____________________________            ___________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson

44/2011 Rjúpnahæð

Með
Árið 2015, föstudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 24. maí 2011 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. júní 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Austurkór 26 (áður Austurkór 24), Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 24. maí 2011 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 13. febrúar 2012.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs 17. ágúst 2010 var lögð fram tillaga sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs um að veitt yrði heimild til að hefja endurskoðun á gildandi deiliskipulagi á nýbyggingarsvæðum bæjarins. Tillagan var samþykkt og vísað til bæjarráðs, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi hinn 26. ágúst 2010. Í kjölfarið voru tillögur að breytingum á aðalskipulagi Kópavogs og deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta settar fram á uppdráttum, dags. 19. október 2010. Að lokinni auglýsingu var tillaga um breytingu á aðalskipulagi lögð fram á ný og afgreidd í skipulagsnefnd Kópavogs 15. mars 2011 og samþykkt í bæjarstjórn 22. s.m. Umhverfisráðherra staðfesti aðalskipulagsbreytinguna 2. maí 2011 og var auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda 20. s.m.

Tillaga um breytingu á deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta var auglýst til kynningar frá 7. desember 2010 til 11. janúar 2011, með athugasemdafresti til 25. s.m., og bárust m.a. athugasemdir frá kæranda. Haldnir voru samráðsfundir dagana 8. og 9. mars 2011 með lóðarhöfum Austurkórs 22 og 24 og í kjölfarið voru gerðar breytingar á auglýstri deiliskipulagstillögu. Fólust þær m.a. í því að í stað parhúss að Austurkór 64-66 var gert ráð fyrir einbýlishúsi, hæð einbýlishúsanna nr. 28, 60, 62 og 64 við Austurkór var minnkuð um einn metra, ákveðið var að leiksvæði norðan Austurkórs nr. 89 og 90 yrði áfram skilgreint sem boltavöllur og lagt var til að gerðar yrðu ráðstafanir til að minnka umferðarhraða á safngötunni Austurkór. Þá var ákveðið að Kópavogsbær myndi standa straum af kostnaði við breytingar á húsnúmerum á þegar byggðum húsum. Deiliskipulagstillagan, með áorðnum breytingum, var samþykkt í skipulagsnefnd 15. mars 2011. Bæjarráð samþykkti tillöguna á fundi sínum 19. maí s.á. og bæjarstjórn hinn 24. s.m. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní 2011.

Samkvæmt hinu breytta aðalskipulagi er landnotkun íbúðarbyggðar á svæðinu aukin úr 120 íbúðum í liðlega 162 íbúðir í sérbýli og fjölbýli og þéttleiki byggðar aukinn úr 9 íbúðum á ha í 11. Í greinargerð með hinu nýja deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta kemur fram að leitast sé við að byggð á svæðinu fái að stórum hluta yfirbragð sérbýlishúsabyggðar, ný byggð verði lágreist og að hún falli sem best að umhverfi svæðisins svo og fyrirhugaðri og núverandi byggð í Kórahverfi. Skipulag og hönnun gatna taki mið af landslagi, öryggi íbúa og að hljóðmengun verði sem minnst. Gert er ráð fyrir að íbúðum fjölgi um 22 frá gildandi deiliskipulagi frá árinu 2007, með áorðnum breytingum, og að eftir breytingu verði 161 íbúð innan deiliskipulagssvæðisins. Áætlað er að um 500 manns komi til með að búa á svæðinu fullbyggðu og að stærstur hluti fyrirhugaðrar byggðar verði í einnar til tveggja hæða sérbýli. Reiknað er með um 56 íbúðum í einbýli, 20 íbúðum í parhúsum, 66 íbúðum í tveggja og þriggja hæða fjölbýlishúsum ásamt 19 íbúðum í raðhúsum. Aðkoma að Rjúpnahæð verði um Austurkór sem tengist Vatnsendavegi og safngötu sem liggur í landi Garðabæjar. Stefnt er að því að allar húsagötur og safngötur verði með 30 km/klst. hámarkshraða. Gerðar verði ráðstafanir til að minnka umferðarhraða á safngötunni Austurkór, svo sem með hraðahindrunum eða þrengingum. Ekki sé gert ráð fyrir hljóðvistarvandamálum í hverfinu.

Málsrök kæranda: Kærandi telur breytingar á aðalskipulagi Kópavogs og deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta hafa neikvæð áhrif á lögvarða hagsmuni sína. Íbúðum sé fjölgað um 23 á svæðinu og þéttleiki byggðarinnar aukist úr níu íbúðum á ha í ellefu. Áhrif þessara breytinga séu m.a. að byggingarreitir og húsnúmer breytist. Einbýlishúsalóðum sé breytt í raðhúsalóðir og íbúðum í fjölbýlishúsum fjölgað. Breytingarnar hafi verið rökstuddar af skipulags- og umhverfissviði Kópavogs með vísan til þess að fjölda lóða hafi verið skilað. Með þeim sé verið að færa tjón bæjarins að hluta til yfir á núverandi eigendur fasteigna á svæðinu. Sanngjarnari og betri lausn hefði verið að lækka verðið á byggingarréttinum á svæðinu til að örva eftirspurn eftir lóðum. Breytingarnar hafi afgerandi áhrif á skipulag hverfisins, heildaryfirbragð og ásýnd þess. Í upprunalegum deiliskipulagsskilmálum segi að leitast hafi verið við að byggð á svæðinu fengi að stórum hluta yfirbragð sérbýlishúsabyggðar. Einkum hafi verið úthlutað glæsilegum einbýlishúsalóðum sem skapað hafi ákveðið byggðarmynstur og hafi það vegið þungt í ákvörðun kæranda um að kaupa byggingarrétt í Austurkór 24. Vesturhluti Rjúpnahæðar hafi ekki verið skilgreindur sem þéttingarsvæði í upprunalegum skilmálum og núverandi íbúar hafi ekki getað gert ráð fyrir svo róttækum breytingum á skipulagi svæðisins. Verð byggingarréttarins hafi miðast við þær skipulagsforsendur sem gilt hafi við úthlutun lóðanna. Með fyrirhuguðum breytingum sé verðmæti fasteigna á skipulagssvæðinu rýrt og gengið harkalega á eignarétt núverandi íbúa hverfisins.

Þótt óumdeilt sé að Þjóðskrá Íslands skilgreini sérbýli sem bæði einbýlishús og raðhús, þ.e. húsnæði sem hafi sérinngang, sé túlkun skipulagsyfirvalda Kópavogs á því hvað sé sérbýli bæði villandi og röng í skipulagslegu samhengi þar sem rangt sé að leggja raðhús og einbýlishús að jöfnu. Horfa verði til áhrifa breytinganna á heildaryfirbragð hverfisins, þ.e. byggðarmynstrið. Í stað stílhreins einbýlishúsahverfis verði til mjög óstílhreinn bræðingur húsa sem líti klasturslega út. Áhrif breytinganna séu sérstaklega mikil fyrir eigendur Austurkórs 24 því húsið sé staðsett yst í húsagötu þar sem til standi að fjölga lóðum verulega og einnig standi húsið við safngötu sem tengi allt hverfið saman. Sértæk áhrif þessara breytinga á íbúa Austurkórs 24 séu þau að umferð um Austurkór muni aukast verulega þar sem íbúðum í hverfinu fjölgi um 42%, eða úr 120 í 170, og megnið af umferðinni fari fram hjá Austurkór 24. Umferðarhraði í safngötunni sé mikill og leiða megi líkur að því að öryggi íbúanna verði lakara en gera hafi mátt ráð fyrir áður. Breytingarnar hafi væntanlega umtalsverð áhrif á hljóðmengun við hús sem staðsett séu við safngötuna. Þá fjölgi íbúðum við húsagötuna sem Austurkór 24 standi við um 31% eða úr 16 í 21. Breytingin hafi afgerandi áhrif á öryggi og næði þeirra sem búi við götuna, einkum þeirra sem búi fremst í henni, og leiði af sér mun meiri umferð um hana.

Kærandi vísar í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 31/2007 (Fróðaþing), 94/2007 (Vesturhverfi) og 98/2008 (Ármannsreitur) málstað sínum til stuðnings.

Málsrök Kópavogsbæjar:
Kópavogsbær krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá þar sem kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Með skipulagsbreytingunni hafi ekki verið hróflað við fasteign kæranda á nokkurn hátt. Stærð lóðar hans og byggingarskilmálar séu hinir sömu og áður, útsýni sé ekki skert með skipulagsbreytingunni og skuggavarp á lóð hans sé ekki meira en áður hafi verið gert ráð fyrir. Kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni sem tengist almennri ásýnd hverfisins en hún sé raunar mjög svipuð því sem áður hafi verið enda ennþá mikill meirihluti lóða ætlaður fyrir  sérbýlishús. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni sem tengist óverulegri fjölgun íbúða í hverfinu. Einstakir fasteignaeigendur hafi ekki sértæka hagsmuni tengda umferðarmálum í því hverfi sem þeir búi í. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að íbúar verði fleiri í hverfinu vegna breytinganna, enda minnki heildarbyggingarmagn í hverfinu við þær. Áhrif umferðar séu sáralítil í húsagötum eins og Austurkór.

Til vara er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað og að staðfest verði sú breyting sem gerð var á aðalskipulagi og deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta. Málefnalegar ástæður hafi búið að baki breytingu á skipulagi vesturhluta Rjúpnahæðar. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hafi aðstæður á húsnæðis- og byggingarmarkaði gjörbreyst og forsendur brostið fyrir skipulagi sem gerði ráð fyrir fjölda stórra einbýlishúsa og íbúða. Byggingarkostnaður hafi hækkað mjög og almennt hafi fasteignakaupendur og húsbyggjendur haft minna fé til ráðstöfunar. Fljótlega hafi orðið ljóst að breyttar forsendur kölluðu á endurskoðun á skipulagi nýbyggingarsvæða í Kópavogi. Breyttar þarfir byggingarmarkaðarins og almennings hafi legið að baki breytingunni en ekki tjón bæjarins vegna lóðaskila. Endurskoðun á deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta hafi verið liður í almennri endurskoðun deiliskipulags á nýbyggingarsvæðum í Kópavogi, en tiltölulega fá hús hafi þá verið risin á svæðinu.

Íbúðir á svæðinu hafi verið 139 samkvæmt eldra deiliskipulagi. Aðalskipulag hafi upphaflega gert ráð fyrir færri íbúðum og því hafi verið gerð breyting á því til samræmis við hið nýja deiliskipulag og nú sé gert ráð fyrir 161 íbúð í aðal- og deiliskipulagi. Fjölgun íbúða á svæðinu nemi því aðeins 15,8%. Þar sem íbúðir hafi almennt minnkað með nýja skipulaginu sé heildarbyggingarmagn á svæðinu nú minna en það hafi verið eða 37.802 m2 í stað 39.285 m2. Byggð í hverfinu muni áfram hafa yfirbragð sérbýlisbyggðar að stórum hluta enda aukist hlutfall sérbýla um 2%. Bent sé á að raðhús og parhús teljist til sérbýla skv. gr. 4.32 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Ekki sé verið að kollvarpa heildaryfirbragði hverfisins með skipulagsbreytingunni en upphaflegt deiliskipulag hafi einnig gert ráð fyrir blandaðri byggð einbýlishúsa, parhúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa. Engin rök séu færð fyrir því að skipulagsbreytingin rýri verðmæti fasteigna á svæðinu enda séu engar líkur á að slíkt gerist þótt íbúðafjöldi í hverfinu aukist um 15,8%. Áfram verði aðeins einbýlishús í þeim botnlanga sem kærandi búi í, íbúðum í hverfinu fjölgi aðeins um 22 eða 15,8% en ekki 42% eins og kærandi haldi fram. Íbúðum í þeim botnlanga sem kærandi búi við sé fjölgað í 20 en ekki 21 og aukningin þar sé því 25% en ekki 31%. Hámarksstærð húsa í botnlanganum hafi verið minnkuð þannig að heildarbyggingarmagn verði minna og gera megi ráð fyrir að færra fólk muni að jafnaði búa í húsunum fyrir vikið. Kærandi ætti því ekki að verða fyrir ónæði vegna þessara breytinga og óvíst sé hvort þær hafi áhrif á umferð við Austurkór. Samkvæmt úttekt verkfræðistofu aukist umferð óverulega þótt um fjölgun íbúa verði að ræða og breyting á skipulaginu skapi engin hljóðvistarvandamál.

Þeir úrskurðir sem kærandi vísi til hafi ekki fordæmisgildi í málinu þar sem fullkomlega lögmætar ástæður hafi legið að baki skipulagsbreytingu á Rjúpnahæð. Þá sé bent á að úrskurður í máli nr. 31/2007 hafi verið felldur úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 11. desember 2007 og að í úrskurði í máli nr. 94/2007 hafi því verið hafnað að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Þá sagði í þágildandi 5. mgr. 52. gr. sömu laga að ákvarðanir sem ráðherra eða Skipulagsstofnun bæri að staðfesta sættu ekki kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Lögmæti nefndrar aðalskipulagsbreytingar verður því ekki endurskoðað af hálfu úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt fyrrnefndri 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga gátu þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem áttu lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru tilgreind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur kærandi ekki einstaklingsbundna hagsmuni tengda ásýnd og heildaryfirbragði skipulagssvæðisins. Hins vegar má fallast á að hin umdeilda skipulagsbreyting geti haft nokkur grenndaráhrif gagnvart kæranda vegna aukinnar umferðar, sem vænta má að leiði af fjölgun íbúða, og staðsetningar fasteignar hans við Austurkór. Verður hann því talinn eiga kæruaðild að máli þessu.

Sveitarstjórnir í hverju sveitarfélagi fara með skipulagsvaldið, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í því valdi felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Samkvæmt hinu breytta deiliskipulagi verða íbúðirnar 161 talsins, en áður gerði aðalskipulagið ráð fyrir 120 íbúðum og deiliskipulagið 139 íbúðum. Við mat á áhrifum þessa ber þó að líta til þess að hámarkshraði um Austurkór verður 30 km/klst. samkvæmt umferðarskipulagi hverfisins og að aukning umferðar í hverfinu vegna fjölgunar íbúða um tæp 16% verður ekki talin veruleg.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir, og því að hið kærða deiliskipulag er í samræmi við gildandi aðalskipulag með þeirri breytingu sem á því var gerð, eru ekki skilyrði til þess að fallast á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 24. maí 2011  um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Rjúpnahæðar – vesturhluta í Kópavogi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

76/2014 Þórsgata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. júní 2014, er staðfest var af borgarráði 3. júlí s.á., um að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Þórsgötureits vegna lóðarinnar nr. 13 við Þórsgötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júlí 2014, er barst nefndinni 17. s.m., kæra K, Þórsgötu 13, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 25. júní 2014 að synja ósk þeirra um breytingu á deiliskipulagi Þórsgötureits vegna lóðar nr. 13 við Þórsgötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að skipulagsráði verði gert að taka málið til umfjöllunar að nýju á grundvelli fyrri ákvarðana skipulagsráðs og umsagnar lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 19. september 2014 og 27. febrúar 2015.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi Þórsgötureits er gert ráð fyrir bílastæðum framan við einbýlishús kærenda nr. 13 við Þórsgötu. Á fundi skipulagsráðs hinn 13. júní 2007 var tekið fyrir erindi kærenda um hvort heimilað yrði að fækka almenningsstæðum um eitt framan við hús þeirra til að koma að innkeyrslu á lóðina þar sem yrðu þrjú bílastæði. Gerði skipulagsráð ekki athugasemd við erindið að vissum skilyrðum uppfylltum og tók fram að sækja þyrfti um byggingarleyfi. Hinn 30. september 2008 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa lögð fram umsókn um leyfi til að gera innkeyrslu og koma fyrir tveimur bílastæðum á umræddri lóð. Var afgreiðslu málsins frestað og fært til bókar að með vísan til umsagnar skipulagsstjóra væri ekki gerð athugasemd við að umsækjandi legði fram tillögu um breytingu á deiliskipulagi í samræmi við erindið. Bærist slík tillaga yrði hún grenndarkynnt.

Hinn 30. september 2011 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra fyrirspurn kærenda um breytingu á deiliskipulagi Þórsgötureits vegna lóðarinnar Þórsgötu 13 skv. uppdrætti, dags. 18. ágúst s.á. Fól tillagan í sér að byggingarreitur yrði lengdur að lóðarmörkum. Komið yrði fyrir tveimur bílastæðum á lóð og bílastæðum í götu fækkað um eitt fyrir innkeyrslu að lóðinni. Var talið að ekki væri unnt að fallast á erindið með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. sama dag, þar sem vísað var til sjónarmiða um umferðaröryggi, skuggavarp og byggðamynstur.

Með umsókn til skipulagsstjóra, dags. 8. desember 2011, var sótt um breytingu á deiliskipulagi vegna fyrrgreindrar lóðar, sbr. breytta uppdrætti dags. sama dag. Gerði tillagan ráð fyrir breytingu á byggingarreit ásamt því að 1. hæð heimilaðrar viðbyggingar yrði breytt í bílgeymslu. Þá yrði fellt niður eitt almenningsstæði á götu fyrir aðkomu að bílgeymslunni. Jafnframt var lögð fram önnur tillaga til vara er gerði ráð fyrir frávikum frá fyrri tillögu. Tók skipulagsráð málið fyrir á fundi hinn 22. febrúar 2012 og færði til bókar að ekki væri fallist á að leggja til breytingu á deiliskipulagi svæðisins í samræmi við fyrirspurnina. Í kjölfar þessa lögðu kærendur að nýju inn umsókn um breytingu á nefndu deiliskipulagi samkvæmt áðurnefndum uppdráttum, dags. 8. desember 2011. Á fundi skipulagsráðs hinn 17. október 2012 var umsóknin tekin fyrir og henni synjað. Var tekið fram að ekki væri fallist á að breyta deiliskipulagi á þann hátt sem tillagan gerði ráð fyrir. Hvorki var vísað til umsagnar skipulagsstjóra við afgreiðslur skipulagsráðs 22. febrúar 2012 né 17. október s.á. Var síðari afgreiðsla skipulagsráðs kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem með úrskurði uppkveðnum 31. janúar 2014 vísaði kærunni frá þar sem ekki lægi fyrir lokaákvörðun er sætt gæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Umsókn kærenda, sbr. uppdrætti dags. 8. desember 2011, var tekin fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 7. mars 2014. Var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem tók það fyrir á fundi hinn 25. júní s.á. og afgreiddi með svohljóðandi hætti: „Synjað. Umhverfis- og skipulagsráð fellst ekki á að breyta deiliskipulagi á þann hátt sem lagt er til í tillögunni. Vísað til borgarráðs.“ Staðfesti borgarráð téða afgreiðslu hinn 3. júlí s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að hinn 13. júní 2007 hafi skipulagsráð samþykkt erindi þeirra um að fella niður eitt almenningsbílastæði á götu til að koma fyrir innkeyrslu að bílastæðum á lóðinni að Þórsgötu 13, með því skilyrði að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir breytingunni. Hafi skipulagsyfirvöld ítrekað afgreitt erindi kærenda á síðari stigum í andstöðu við fyrrgreinda afgreiðslu skipulagsráðs, þrátt fyrir að tillagan hafi verið útfærð í samræmi við leiðbeiningar starfsmanna skipulagsyfirvalda.

Þá telji kærendur að skoða þurfi hvort þörf sé á því að breyta deiliskipulagi svo unnt sé að veita kærendum byggingarleyfi til að breyta gangstétt við götu svo unnt sé að aka inn á lóðina en bílastæði yrði staðsett innan byggingarreits á lóðinni. Það hljóti að vera val lóðareigenda hvort þeir nýti svæði, sem einnig sé ætlað fyrir viðbyggingu, sem bílastæði þangað til  byggingarréttur verði nýttur, en bílastæði sé afturkræf tilhögun. Þessu til stuðnings sé bent á að umhverfis- og skipulagsráð hafi árið 2007 samþykkt algjörlega sambærilegt erindi vegna Þórsgötu 4.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið tekur fram að skipulagsráð hafi árið 2007 veitt álit sitt í kjölfar fyrirspurnar kærenda um leyfi til að breyta deiliskipulagi fyrir Þórsgötureit. Ekki hafi verið um stjórnvaldsákvörðun að ræða sem skuldbundið hafi skipulagsráð á þeim tíma eða síðar. Ef byggja ætti á sjónarmiðum um réttmætar væntingar hefði þurft að taka stjórnvaldsákvörðun. Geti afstaða stjórnvalds og tekið breytingum á sjö árum enda geti áherslur í skipulagsmálum breyst.

Skipulagsvald sé í höndum sveitarstjórnar samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem ákvarði hvernig markmiðum laganna samkvæmt 1. gr. verði náð. Útfærsla þess skuli meðal annars koma fram í deiliskipulagi en sveitarstjórn hafi ákvörðunarvald um heimildir innan ramma þess. Af markmiðsákvæðum skipulagslaga og sérstökum markmiðsákvæðum fyrir deiliskipulagsgerð samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013 megi ráða að sveitarstjórn beri að hafa hagsmuni almennings að leiðarljósi við skipulagsákvarðanir. Þá verði ákvarðanir að byggjast á málefnalegum og rökstuddum sjónarmiðum þar sem í skyldu sveitarstjórnar til skipulagningar felist skerðing á hagnýtingarrétti og eignarréttindum eiganda fasteignar.

Umsókn kærenda feli í sér að almenningsstæðum verði fækkað og að heimilaður verði akstur yfir gangstétt sem sé í eigu sveitarfélagsins. Með umsókninni sé verið að fara fram á að sveitarstjórn færi almannahagsmuni yfir til einstaklings og skerði með því gæði almennings þar sem færri almenningsbílastæði verði í götunni. Vísað sé til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 30. september 2011, sem legið hafi til grundvallar hinni kærðu ákvörðun. Þar komi m.a. fram að slíkt fyrirkomulag skerði öryggi vegfarenda um gangstéttina en það hafi þegar verið skert vegna framkvæmda sem heimilaðar hefðu verið síðustu áratugina, eða látnar afskiptalausar. Væri ekki ástæða til að heimila nýframframkvæmdir sem skerða myndu öryggi gangandi enn frekar. Ættu engin jafnræðissjónarmið við í slíku tilfelli. Jafnframt hafi skipulagsfulltrúi komist að þeirri niðurstöðu að götumynd Þórsgötu myndi breytast við þetta. Þar væri nú fínleg og heilsteypt byggð og auk þess væri byggðamynstur innan reitsins verndað. Féllu bílastæði á lóðum ekki vel að götumyndinni og settu hana í uppnám.

                    ——————

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. júní 2014, sem staðfest var af borgarráði hinn 3. júlí s.á., um að synja umsókn kærenda um að breytt yrði deiliskipulagi Þórsgötureits vegna lóðarinnar nr. 13 við Þórsgötu, sbr. uppdrætti frá 8. desember 2011.

Fram kemur í greinargerð borgarinnar til úrskurðarnefndarinnar að til grundvallar hinni kærðu afgreiðslu hafi legið umsögn skipulagsstjóra, dags. 30. september 2011, en hún var gerð í tilefni af fyrirspurn kærenda um breytt deiliskipulag lóðar þeirra. Var það erindi tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 30. september 2011 og af því tilefni lagður fram uppdráttur, dags. 18. ágúst s.á. Með umsókn kærenda, er hin kærða ákvörðun tekur til fylgdu tvær nýjar tillögur að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar, sbr. uppdrætti frá 8. desember 2011, þar sem önnur tillagan er merkt aðaltillaga en hin til vara.

Í fyrrgreindri umsögn skipulagsstjóra er á því byggt að ekki sé unnt að fallast á tillögu kærenda, sbr. uppdrætti dags. 18. ágúst 2011. Var vísað til þess að bílastæði á jarðhæð byggingar féllu ekki vel að götumynd Þórsgötu, sem væri heilsteypt og fín. Einnig var vísað til slysahættu vegna fyrirhugaðs fyrirkomulags bílastæða. Ekki væri mælt með að fjölga slíkum stæðum í hverfinu, enda væri það ekki gott fordæmi. Loks var vísað til þess að eitt stæði myndi breytast úr almenningsstæði í einkastæði, sem og að tillagan leiddi til aukins skuggavarps á leiksvæði á næstu lóð. Tillögur kærenda samkvæmt uppdráttum frá 8. desember 2011, rétt eins og fyrri tillaga þeirra frá 18. ágúst s.á., gera ráð fyrir bílageymslu eða bílastæði á lóð þeirra og að almenningsstæði framan við hús kærenda víki. Að öðru leyti eru þær ekki sambærilegar, t.a.m. er byggingarreitur minnkaður, að ætla má til að draga úr skuggavarpi. Er ekki að sjá að við meðferð málsins hafi verið tekin afstaða til þess hvort skipulagsleg markmið eða önnur málefnaleg rök stæðu í vegi fyrir samþykkt hinna nýju tillagna og verður að telja að nefndar breytingar hafi gefið skipulagsyfirvöldum tilefni til að rannsaka málið frekar í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er þá sérstaklega litið til þess að umsögn skipulagsstjóra var veitt vegna fyrri tillögu, sem og þess að ekki verður séð að skipulagsyfirvöld hafi beitt skipulagsvaldi sínu til að koma í veg fyrir það fyrirkomulag að bílum sé bakkað út yfir gangstétt. Dæmi eru um slíkt fyrirkomulag í götunni og ekkert liggur fyrir um  að gerð hafi verið könnun á áhrifum tillagna kærenda á umferðaröryggi þar. Verður með hliðsjón af framangreindu að telja að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið svo áfátt að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Vegna þeirrar kröfu kærenda að skipulagsráði verði gert að taka málið til umfjöllunar að nýju á ákveðnum grundvelli skal tekið fram að valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en fjallar ekki um kröfu þeirra að öðru leyti. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. júní 2014, sem staðfest var af borgarráði 3. júlí s.á., um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Þórsgötureits vegna lóðarinnar nr. 13 við Þórsgötu í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

100/2014 Löngubrekka

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2014, sem barst nefndinni 12. s.m., kæra eigendur fasteignar að Löngubrekku 1 þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2015, sem barst nefndinni 16. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 18. desember 2014 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús að Löngubrekku 2. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að baki síðari kærunni verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 7/2015, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 30. október 2014 og 23. janúar 2015.

Málavextir: Hinn 18. mars 2014 var á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar tekin fyrir umsókn frá 13. s.m. um breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2. Í henni fólst bygging tveggja hæða fjölbýlishúss með kjallara. Gert var ráð fyrir fimm íbúðum í húsinu og 10 bílastæðum á lóðinni, tveimur með aðkomu frá Löngubrekku og átta frá Laufbrekku. Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna og var það gert 25. s.m. með athugasemdafresti til og með 2. maí s.á. Bárust athugasemdir frá hagsmunaðilum, þ.á m. frá kærendum. Var þeim svarað af skipulagsnefnd með bréfi, dags. 20. s.m. Sama dag var tillagan tekin fyrir á ný á fundi skipulagsnefndar þar sem henni var hafnað og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Hinn 22. s.m. var erindið tekið fyrir á fundi bæjarráðs og afgreiðslu þess frestað. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi bæjarráðs hinn 5. júní s.á. og því vísað aftur til skipulagsnefndar til úrvinnslu. Hinn 21. júlí s.á. var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar og þá bókað að erindið væri lagt fram að nýju ásamt viðbótargögnum lóðarhafa, þar sem komið væri til móts við innsendar athugasemdir. Var málinu frestað en það tekið fyrir að nýju hinn 28. júlí og þá bókað að heildarbyggingarmagn yrði 512 m², nýtingarhlutfall yrði 0,65 og bílastæði yrðu áfram tíu, líkt og í gildandi deiliskipulagi. Var framlögð tillaga samþykkt með áorðnum breytingum og sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarráðs hinn 14. ágúst s.á. Var hagsmunaaðilum tilkynnt um afgreiðsluna með bréfi, dags. 18. ágúst 2014, og hún síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að forsögu málsins megi rekja til ársins 2006 þegar deiliskipulagsgerð fyrir Löngubrekku 2 hafi hafist. Henni hafi frá upphafi verið mótmælt af hálfu íbúa í nágrenninu. Sé ekki vilji fyrir því að hafa svona stóra byggingu í eins litlum botnlanga og Langabrekka sé, sem hafi aðeins að geyma fasteignir með nýtingarhlutfall í kringum 0,3, en nýtingarhlutfall hins umdeilda fjölbýlishúss sé 0,7. Eldra skipulag, sem samþykkt hafi verið árið 2007, hafi leyft byggingu þríbýlis á lóðinni. Með tillögu að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið sótt um sjö íbúðir. Þeim hafi síðan verið fækkað niður í fimm, en þær séu þó enn of margar. Ekki sé hægt að sættast á fleiri en þrjár íbúðir líkt og áður hafi verið gert ráð fyrir.

Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 sé tekið fram að fyrirhugaðar breytingar á einstökum lóðum eða hluta götureita í eldri hverfum bæjarins skuli ekki raska yfirbragði aðliggjandi byggðar þar sem m.a. sé gætt samræmis hvað varði götumynd, hlutföll bygginga og byggingarlistar. Með hliðsjón af framangreindu sé það óskiljanlegt hvernig hægt sé að heimila fjölbýli í götu þar sem aðeins sé að finna einbýli- og tvíbýli.

Í svari skipulagsnefndar við þeim athugasemdum sem borist hafi vegna breytingartillögunnar sé viðurkennt að hin kærða deiliskipulagsbreyting muni hafa í för með sér aukinn bílastæðavanda. Einnig sé viðurkennt að fyrirhuguð nýbygging sé stærri og meiri en nærliggjandi hús, sem og að nokkrar lóðir á umræddum reit séu stærri að flatarmáli en lóðin við Löngubrekku 2. Geti umrædd bygging því verið fordæmisgefandi. Telji kærendur þetta ekki í samræmi við aðalskipulag bæjarins. Á árinu 2012, þegar kærendur hafi keypt húsið að Löngubrekku 1, hafi þau kannað hvort að framkvæmdir væru fyrirhugaðar á lóðinni Löngubrekku 2. Hafi þeim þá verið tjáð af starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs bæjarins að byggingarleyfi, sem hafi átt stoð í greindu deiliskipulagi frá 2007, væri fallið úr gildi og ef byggja ætti á lóðinni yrði aldrei gert ráð fyrir fleiri en þremur íbúðum, líkt og heimilað væri í deiliskipulaginu.

Að auki megi velta því fyrir sér hvort að um sé að ræða pólitíska ákvörðun þar sem breytingartillögunni hafi verið hafnað fyrir síðustu kosningar en hún hafi svo verið send aftur til úrvinnslu skipulagsnefndar strax að loknum kosningum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að fyrra deiliskipulag hafi heimilað byggingu á tveggja hæða húsi og kjallara með þremur íbúðum. Hið breytta skipulag sé innan þess byggingarreits sem samþykktur hafi verið árið 2007. Sé stærð hússins því í samræmi við skipulag. Að auki hafi umfang hússins verið minnkað frá því sem upphaflega hafi verið lagt til og sé nýtingarhlutfall nú 0,65.

Hafnað sé ályktunum um að um pólitíska ákvörðun hafi verið að ræða. Skipulagsnefnd hafi ekki fullnaðarvald í málum sem varði breytingar á skipulagi heldur sé endanlegt ákvörðunarvald í höndum bæjarstjórnar, eða eftir atvikum bæjarráðs. Sé því mögulegt að mál sé sent á ný til skipulagsnefndar til frekari skoðunar hafi bæjarráð ekki fallist á tillögu nefndarinnar. Við meðferð málsins hjá skipulagsnefnd, eftir að bæjarráð hafi vísað erindinu til baka, hafi verið lögð fram ný gögn með breytingum sem hafi falið í sér minna flatarmál hússins. Hafi greindar breytingar verið forsenda fyrir því að breytingartillagan hafi verið samþykkt. Sé því ekki að sjá að ómálefnaleg eða pólitísk sjónarmið hafi ráðið niðurstöðunni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að við kaup hans á lóðinni Löngubrekku 2 haustið 2013 hafi verið í gildi deiliskipulag fyrir lóðina sem heimilað hafi þriggja hæða 615 m2 byggingu, tvö bílastæði í Löngubrekku og átta bílastæði við Laufbrekku/Bröttubrekku. Hafi samþykkt nýtingarhlutfall verið 0,77 og byggingarreiturinn 276 m2. Deiliskipulagið hafi einnig gert ráð fyrir sléttu þaki, sem ekki hafi samræmst götumyndinni. Upphaflega hafi verið skilað inn breytingartillögu til Kópavogsbæjar sem hafi gert ráð fyrir sjö íbúðum, en endanleg tillaga hafi hljóðað upp á fimm íbúðir. Fyrirhuguð bygging samkvæmt hinni kærðu breytingartillögu sé rúmum 100 m2 minni en gert hafi verið ráð fyrir í eldra deiliskipulagi. Að auki sé nýtingarhlutfallið nú 0,65 og gert sé ráð fyrir hallandi bárujárnsþaki, sem sé í samræmi við götumynd. Muni byggingin því verða minni en eldra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir.

——————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarráðs á breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2 sem gerir ráð fyrir fimm íbúða fjölbýli ásamt 10 bílastæðum á lóð. Er og deilt um gildi byggingarleyfis þess er styðst við hið breytta deiliskipulag.

Á árinu 2007 var samþykkt deiliskipulag fyrir lóðina eina og sér þar sem heimiluð var bygging 615 m2 fjölbýlis, með þremur íbúðum og hámarksnýtingarhlutfalli 0,77, ásamt sex bílastæðum á lóð og fjórum stæðum í bílgeymslu. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er hins vegar veitt heimild fyrir 511,9 m2 fjölbýli með fimm íbúðum, hámarksnýtingarhlutfalli 0,65 og 10 bílastæðum á lóð. Deiliskipulagsbreytingin var grenndarkynnt samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og áttu kærendur þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Að lokinni grenndarkynningu var tekin afstaða til athugasemda kærenda og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð hennar því í samræmi við skipulagslög.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóðar á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er merkt íbúðarsvæði, ÍB2, Digranes. Svæðinu er lýst sem fastmótaðri byggð með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli, og er gert ráð fyrir fjölgun íbúða á svæðinu. Í aðalskipulaginu er lögð áhersla á góða nýtingu lands og landgæða og að mótun byggðarinnar tryggi sjálfbærni og hagkvæma uppbyggingu, sem felist m.a. í þéttingu byggðar. Jafnframt er lögð áhersla á blandaða byggð með fjölbreyttu framboði húsnæðis, þjónustu og útivistar. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Fallast má á að einhver grenndaráhrif geti fylgt heimiluðum framkvæmdum en svo sem áður er rakið er með hinni kærðu ákvörðun dregið úr byggingarmagni og hámarksnýtingarhlutfalli frá gildandi deiliskipulagi. Þá er gert ráð fyrir sama fjölda bílastæða og áður og að þau verði öll ofanjarðar og innan lóðar. Er áfram gert ráð fyrir aðkomu að sama fjölda þeirra frá Löngubrekku. Verður ekki séð að fjölgun íbúða um tvær muni hafa í för með sér teljandi aukningu á umferð eða annað óhagræði fyrir nágranna fjölbýlisins.

Umrædd lóð er deiliskipulögð ein og sér og tekur deiliskipulagið því ekki til svæðis sem myndar heildstæða einingu í skilningi 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Lögun þaks byggingarinnar var breytt við meðferð skipulagstillögunnar og þegar litið er til þess að við sömu götu er að finna annað fjölbýli, bæði þríbýli og fjórbýli, verður ekki á það fallist að umrædd bygging sé í ósamræmi við götumynd.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi á sér stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku, verður kröfu kærenda um ógildingu leyfisins hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Löngubrekku 2, Kópavogi.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 18. desember 2014 um að samþykkja leyfi til að byggja fjölbýlishús að Löngubrekku 2, Kópavogi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson