Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

46/2014 Fiskeldi Eyjafirði

Árið 2015, fimmtudaginn 15. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2014, kæra á þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. apríl 2014 að breyting á eldi, úr þorski í allt að 2.000 tonnum á ári af laxi í sjókvíum Krossaness ehf. í vestanverðum Eyjafirði, kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Krossanes ehf., Glerárgötu 30, Akureyri, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. apríl 2014 að breyting á eldi, úr þorski í allt að 2.000 tonnum á ári af laxi í sjókvíum kæranda í vestanverðum Eyjafirði, kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 8. júlí 2014.

Málavextir: Með bréfi, dags. 29. maí 2013, tilkynnti kærandi til Skipulagsstofnunar fyrirhugaða breytingu á 2.000 tonna sjókvíaeldi sínu í Eyjafirði úr þorski í lax. Í tilkynningunni kom fram að áform kæranda um þorskeldi hefðu ekki gengið eftir og að stefnt væri að því að samnýta leyfið með leyfi Íslandslax hf. sem væri í eigu sömu aðila. Vísaði kærandi til upphaflegrar umsóknar, gagna og umsagna, vegna gildandi leyfis fyrir 2.000 tonna sjókvíaeldi á þorski, en einnig vísaði hann til umsagna og gagna vegna leyfis Íslandslax hf. til 1.000 tonna laxeldis í Eyjafirði.

Skipulagsstofnun leitaði álits Dalvíkurbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Umbeðnar umsagnir bárust í nóvember og desember 2013. Var það álit Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar og dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun að eldisbreytingin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum og taldi sá síðastnefndi að laxeldi af þessari stærðargráðu myndi ekki hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang villtra fiskistofna í vistkerfi Eyjafjarðar. Viðbrögð kæranda vegna umsagnanna bárust í desember 2013. Skipulagsstofnun bauð Fiskistofu að gefa á ný umsögn og í frekari umsögn sinni frá febrúar 2014 benti Fiskistofa á að laxeldi í sjókvíum fylgdi hætta á blöndun strokulaxa af norskum uppruna við villta laxa auk hættu á að sjúkdómar eða sníkjudýr í eldisfiski hefðu áhrif á viðkomu villtra fiska. Tók Fiskistofa fram að hætta væri fyrir hendi á verulegum áhrifum á náttúrulega stofna laxfiska í Eyjafirði ef upp kæmi sjúkdómur eða sníkjudýr í eldislaxinum. Í sama mánuði bárust viðbrögð kæranda við umsögninni. Í kjölfar framangreinds umsagnarferlis leitaði Skipulagsstofnun einnig umsagnar Veiðimálastofnunar og barst hún í mars 2014. Var það álit Veiðimálastofnunar að áhætta af erfðablöndun yrði að teljast vera til staðar og að laxalús gæti aukið afföll af fiskum á gönguleiðum þeirra og beitarsvæðum í firðinum. Dró Veiðimálastofnun þá ályktun að fyrirhugað fiskeldi gæti haft í för með sér neikvæð áhrif á erfðafræði fiskistofna, stofnstærð og veiði úr stofnum laxfiska í Eyjafirði. Viðbrögð kæranda við umsögninni bárust Skipulagsstofnun síðar í sama mánuði.

Var það niðurstaða Skipulagsstofnunar, á grundvelli framlagðra gagna og með vísan til viðmiða í 3. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, að fyrirhugað sjókvíaeldi kæranda, sem gerði ráð fyrir allt að 2.000 tonna ársframleiðslu af laxi, kynni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því háð mati á umhverfisáhrifum. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að straummælingar, LENKA mat og umfangsmiklar rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar í Eyjafirði bendi eindregið til þess að fjörðurinn henti mjög vel til fiskeldis. Burðarþol fjarðarins sé mikið og vatnsskipti hröð. Samkvæmt LENKA mati sé burðarþol Eyjafjarðar um 30.000 tonn en nýrri forsendur geri ráð fyrir burðarþoli allt að 40.000 tonnum. Magnið sem um sé að ræða sé því ekki nema lítið brot af burðarþoli fjarðarins, en eins og staðan sé í dag sé ekkert kvíaeldi stundað í honum. Rök sem snúi að umfangi framkvæmdarinnar geti því ekki talist gildur rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu.

Mótmælt sé rökstuðningi Skipulagsstofnunar þess efnis að 3.000 tonna ársframleiðsla á laxi í Eyjafirði geti haft áhrif á endurnýjunargetu náttúrulegs laxastofns Fnjóskár og stofna annarra laxfiska í Eyjafirði. Ekki hafi komið nægilega skýrt fram hvaða neikvæð áhrif umrædd framkvæmd gæti mögulega haft á aðra stofna laxfiska í firðinum en náttúrulegan laxastofn í Fnjóská. Þar sé ekki um að ræða hættu á erfðablöndun og reynsla úr fiskeldi hafi sýnt að laxeldi stafi frekar hætta af villtum stofnum en öfugt þegar komi að sjúkdómshættu.

Ekki sé vitað um nein skráð tilfelli hér á landi þar sem smitsjúkdómar hafi borist úr eldisfiski í villta stofna og sé vísað til umsagnar dýralæknis fiskisjúkdóma hjá Matvælastofnun þar sem segi orðrétt: „Frá því að undirritaður gaf síðast út álit vegna sjókvíaeldis í Eyjafirði hafa forsendur frá heilbrigðissjónarmiðum á engan hátt breyst. Niðurstaðan er sú að ekki er talin þörf á því að fyrirhuguð tegundarbreyting í sjókvíaeldi frá þorski yfir í lax í Eyjafirði fari í sérskylt umhverfismat þ.e.a.s. um þá þætti sem snúa að sjúkdómum. Hér vega þyngst þau rök að laxeldi að ofangreindri stærðargráðu er ekki talið hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang þeirra villtu fiskistofna sem fyrir eru í vistkerfi Eyjafjarðar og nágrennis.“  

Ein af ástæðum þess að Eyjafjörður teljist hentugur til laxeldis, og sé skilgreindur sem slíkur af yfirvöldum, sé hversu fáar laxveiðiár séu á svæðinu. Í reglugerð nr. 105/2000 sé kveðið á um að lágmarksfjarlægð kvía frá ám þar sem veiðin sé á bilinu 100-500 laxar á ári skuli vera 5 km. Meðalveiði í Fnjóská frá 1974 hafi verið 299 laxar á ári en sl. 10 ár hafi meðalveiði verið 496 laxar á ári. Fjarlægð fyrirhugaðs eldissvæðis þar sem það sé næst ósum árinnar sé um 8 km, eða vel yfir þeim mörkum sem kveðið sé á um.

Í eldinu yrði um að ræða kynbættan norskan laxastofn sem alinn hafi verið hér á landi í meira en 20 ár. Nái umræddur stofn ekki að verða kynþroska á venjulegum eldisferli í sjókvíum. Lax sem sleppi muni því ekki leita upp í straumvatn sama ár og hann sleppi. Hann verði að leita sér fæðu í hafinu þar til kynþroska sé náð, en á þeim tíma megi búast við miklum afföllum. Fjöldi eftirlifandi fiska sem hugsanlega rati í nærliggjandi ár yrði því mjög lítill og ekki líklegur til að valda merkjanlegum breytingum á villtum laxastofnum. Miklar framfarir hafi orðið á búnaði og vinnuaðferðum við sjókvíaeldi undanfarin ár sem hafi gert það að verkum að verulega hafi dregið úr því að eldisfiskur sleppi úr sjókvíum. Hér á landi sé unnið eftir norskum staðli (NS 9415) sem skilgreini lágmarkskörfur á búnaði miðað við þær aðstæður sem séu á sjókvíaeldisstað. Stöðugt sé unnið að því að bæta þennan árangur enn frekar og stefnt fullum fetum að „núllsleppingu“ laxfiska í sjókvíaeldi.
   
Eyjafjörður sé einn mest rannsakaði fjörður landsins. Hafrannsóknastofnun og fleiri fagaðilar hafi stundað umfangsmiklar rannsóknir á öllu vistkerfi fjarðarins um áratugaskeið. Sé ekki ljóst hvaða rannsóknum þyrfti mögulega að bæta við til að fullnægja kröfum Skipulagsstofnunar. Eyjafjörður sé einnig sá staður þar sem kvíaeldi hafi átt lengsta samfellda sögu hérlendis og ekki hafi komið fram neinar vísbendingar sem bendi til þess að það hafi haft nein varanleg neikvæð umhverfisáhrif.

Ekki séu líkur á því að umrædd tegundarbreyting úr þorski í lax í gildandi starfsleyfi kæranda kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þar sé nærtækast að vísa í umsagnir Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknastofnunar, dýralæknis fiskisjúkdóma hjá Matvælastofnun og fyrri umsögn Fiskistofu þar sem komi fram samdóma álita þessara aðila á að litlar líkur séu á því að umrædd framkvæmd hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og eigi því ekki að vera matsskyld.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að skoða eigi umfang fyrirhugaðs eldis, þ.e. framleiðslumagn, í samanburði við stofnstærð villtra laxastofna og annarra laxfiska í ám nálægt eldissvæðinu en ekki einblína á burðarþol Eyjafjarðar. Sé bent á umsögn Fiskistofu í málinu þar sem fram komi að „[þ]ó svo að 3.000 tonna framleiðsla sé aðeins lítið brot af burðarþoli Eyjafjarðar yrði fjöldi eldisfiska geysilega mikill samanborið við náttúrulegan laxastofn Fnjóskár og stofna annarra laxfiska í Eyjafirði.“ Sé því ljóst að 3.000 tonna ársframleiðsla af laxi sé mikið magn í samanburði við fjölda laxa sem séu hluti af náttúrulegum stofni Fnjóskár og annarra laxfiska í firðinum. 

Kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem renni stoðum undir þá fullyrðingu hans að reynsla úr fiskeldi hafi sýnt að laxeldi stafi frekar hætta af villtum stofnum en öfugt. Þá sé rétt að hafa fyrirvara á framangreindri tilvísun um að það sé óþekkt að smit hafi borist úr eldisfiski í villta stofna, því það sé ekki þar með sjálfgefið að eldisfiskar geti ekki í framtíðinni haft neikvæð áhrif á náttúrulega laxastofna í ám, hvort sem um Fnjóská eða aðrar ár sé að ræða. Nánar tiltekið geti vísbendingar eða upplýsingar úr fortíðinni eðli máls samkvæmt ekki verið áreiðanlegur grundvöllur fyrir slíkri ályktun. Aðstæður í umhverfinu, svo sem sjávarhiti, geti verið breytilegar frá einu tímabili til annars og því geti framkvæmd á ákveðnu tímabili haft önnur áhrif en sambærileg eða svipuð framkvæmd á öðru tímabili.

Það dragi úr vægi umsagnar dýralæknis fiskisjúkdóma að ekki sé útskýrt nánar hvaða sjónarmið liggi að baki þeim orðum að 2.000 tonna laxeldi sé ekki talið hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang hinna villtu fiskistofna. Þá leggi Skipulagsstofnun áherslu á að í umsögnum sé ekki minnst á hættu á erfðablöndun sem leiði af því að eldislaxar sleppi úr kvíum og mögulega leiti upp í nærliggjandi ár þar sem villtir fiskistofnar lifa.

Í umsögn Veiðimálastofnunar, sem taki ekki aðeins til laxastofnsins í Fnjóská heldur til annarra laxastofna í ám við Eyjafjörð, sé þeirri afstöðu lýst að erfðablöndun vegna sleppifiska sé verulegt áhyggjuefni. Komi m.a. fram að mesta hættan af laxeldi sé vegna stofna norskra eldislaxa sem séu erfðafræðilega frábrugðnir íslenskum laxi. Hversu mikil áhrifin verði sé háð mörgum þáttum, svo sem fjölda og stærð sleppilaxa, hvenær árs þeir sleppi og tíðni þess sem fiskar sleppa, stefnu og styrk sjávarstrauma og stærð þeirra laxastofna þar sem innblöndun verði og hversu ólíkir stofnar eldislax og villts lax séu. Þannig séu litlir stofnar viðkvæmari en stórir gagnvart innblöndun erfðaefnis og blöndun geti haft áhrif á afkomu þeirra, stofnstærð og verðmæti hlunninda. Í umsögninni komi fram að laxastofnar í ám við Eyjafjörð séu litlir og því líklegt að fáa eldislaxa þurfi til að fram komi merkjanleg erfðablöndun í villta laxinum en ekki sé hægt að segja til um hvaða afleiðingar það hefði fyrir stofnstærð og veiðinýtingu. Áhætta af erfðablöndun verði því til staðar. Þá telji Veiðimálastofnun að fyrirhugað fiskeldi geti haft í för með sér neikvæð áhrif á erfðafræði fiskistofna, stofnstærð og veiði úr stofnum laxfiska í Eyjafirði. Samkvæmt 5. tölul. 4. gr. laga nr. 59/2006 sé það hlutverk Veiðimálastofnunar að rannsaka hvernig „fiskeldi og fiskrækt megi best stunda í sátt við íslenska náttúru og villta stofna.“ Með hliðsjón af þessu hlutverki stofnunarinnar telji Skipulagsstofnun að hjá stofnun veiðimála sé að finna sérfræðiþekkingu um hvort og þá hvaða áhrif fiskeldi hafi á villta fiskistofna og hafi umsögn slíks stjórnavalds töluvert vægi. 

Í kæru sinni vísi kærandi til reglugerðar nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fiskisjúkdómum og blöndun laxastofna. Ef miðað sé við að meðalveiði í Fnjóská sé 496 laxar á ári þá sé ljóst að lágmarksfjarlægð kvía frá Fnjóská skuli vera 5 km. Hins vegar ef veiddir laxar séu fleiri en 500, t.d. 501, á tíu ára tímabili skuli fjarlægðin vera 15 km samkvæmt ofangreindri reglugerð. Lítill munur á fjölda laxa ráði því hvor fjarlægðarmörkin eigi við. Í ljósi þess telji Skipulagsstofnun að ekki eigi að leggja of mikla áherslu á að skoða það nákvæmlega hvor fjarlægðarmörkin eigi við í málinu, eins og kæra kæranda beri með sér. Fram komi í ákvörðun stofnunarinnar að fyrirhugað laxeldi við Haganes og eldissvæði við Ystu-Vík sé í innan við 10 km fjarlægð frá ósum Fnjóskár. Fyrirhuguð staðsetning á eldi kæranda sé á mörkum þess að fullnægja ákvæðum reglugerðarinnar um 15 km. Stofnunin leggi áherslu á að þetta atriði ráði ekki eitt og sér þeirri niðurstöðu að eldið skuli háð mati á umhverfisáhrifum, heldur sé lagt til grundvallar að til staðar sé ákveðin hætta á erfðablöndun með eldi á laxi af norskum uppruna í sjókvíum í nágrenni við ár með náttúrulega laxastofna. Í því efni sé umsögn Veiðimálastofnunar höfð til hliðsjónar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar í málinu lúti ekki að leyfisveitingu heldur matsskyldu, bendi Skipulagsstofnun á að umrædd fjarlægðarmörk eigi við þegar tekin sé ákvörðun um að veita hafbeitar- og sjókvíastöð leyfi, sbr. orðalag í gr. 4.2. í reglugerð nr. 105/2000.

Fullyrðing kæranda þess efnis að norskur eldislax nái ekki kynþroska í venjulegu eldisferli í sjókvíum, og verði því að leita á haf þar til kynþroska sé náð, sé ekki studd staðreyndum. Skipulagsstofnun sé ekki kunnugt um að rannsóknir hafi verið gerðar á afdrifum eldislax sem sloppið hafi úr sjókvíum við strendur Íslands og telji stofnunin ekki hægt að fullyrða að hann muni leita á haf út en ekki í nærliggjandi straumvatn sleppi hann úr eldi. Mikilvægt sé að hafa í huga að íslenskur lax sé fjarskyldur öðrum laxi í Evrópu, þar með norskum eldislaxi.

Við eldi á laxi af norskum uppruna í sjókvíum í nágrenni við ár með náttúrulega laxastofna sé til staðar ákveðin hætta á erfðablöndun. Ekki sé hægt að fullyrða um það með nægilegri vissu að sleppilax muni ekki ganga í ár. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi komist að þeirri niðurstöðu að í málum sem þessu beri að líta til varúðarreglu umhverfisréttar og að skortur á grunnþekkingu eigi ekki að leiða til þeirrar niðurstöðu að framkvæmd teljist ekki matskyld, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 43/2012. 

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu vegna fyrirhugaðrar breytingar á 2.000 tonna eldi á ári í Eyjafirði úr þorski í lax.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir markmiðum laganna og eiga þau m.a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar, en jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar.

Í 2. viðauka við lögin, eins og þau voru á þeim tíma, eru taldar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Er þar á meðal talið þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar, sbr. lið 1. g. Fellur fyrirhugað 2.000 tonna sjókvíaeldi kæranda á laxi í vestanverðum Eyjafirði undir ákvæðið og var tilkynnt um áformin til Skipulagsstofnunar í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laganna. Var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að umrætt 2.000 tonna sjókvíaeldi kynni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi háð mati á umhverfisáhrifum.

Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar sem tilgreind er í 2. viðauka laganna ber Skipulagsstofnun að fara eftir viðmiðum 3. viðauka þeirra, en þar eru taldir þeir þættir sem líta ber til við matið.

Kærandi hefur mótmælt því að skilyrði hafi verið til að taka hina kærðu ákvörðun þar sem tegundarbreytingin muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og bendir hann á umsagnir tiltekinna umsagnaraðila máli sínu til stuðnings. Þegar Skipulagsstofnun tekur ákvörðun um matsskyldu skal hún leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Leitaði stofnunin eftir umsögnum Dalvíkurbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar sem og Veiðimálastofnunar, eins og nánar er lýst í málavöxtum. Úrskurðarnefndin leggur hins vegar áherslu á að Skipulagsstofnun er ekki bundin af umsögnum sem aflað er sem hluta af rannsókn máls samkvæmt fyrirmælum í lögum heldur leggur hún sjálfstætt mat á það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í því felst að stofnunin leggur jafnframt mat á innbyrðis vægi þeirra umsagna sem leitað er eftir.

Skipulagsstofnun kemst að því í ákvörðun sinni að beita beri varúðarreglunni þar sem fyrirhugað fiskeldi kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif á villta stofna laxfiska. Kalli það á að áhrif eldisins séu metin í mati á umhverfisáhrifum. Byggir stofnunin niðurstöðu sína að töluverðu leyti á ítarlegri umsögn Veiðimálastofnunar sem og athugasemdum sem fram komu í umsögn Fiskistofu, en óumdeilt er að greindir álitsgjafar eru sérfróðir á þessu sviði. Þá vísar stofnunin í rökstuðningi sínum fyrir hinni kærðu ákvörðun sérstaklega til nánar tilgreindra ákvæða 3. viðauka laga nr. 106/2000. Vísar hún til ákvæðis 1. tl. i. um eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, en stofnunin tekur fram að framkvæmdin feli í sér þreföldun laxeldis í Eyjafirði miðað við núverandi leyfi. Þá byggir stofnunin á 2. tl. ii. sem vísar til staðsetningar framkvæmdar með tilliti til magns, gæða og endurnýjunargetu, og vísar hún þar til mögulegra áhrifa á endurnýjunargetu náttúrulegs laxastofns Fnjóskár og stofna annarra laxfiska, en Fnjóská sé í innan við 10 km fjarlægð frá hluta eldissvæðanna. Loks vísar stofnunin til 3. tl. iii. um eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar með tilliti til óvissu um áhrif hennar, svo sem vegna slysasleppinga sem gætu haft umtalsverð neikvæð áhrif á smáa náttúrulega stofna laxfiska. Af því sem að framan er  rakið og þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðanefndinni verður ráðið að nokkur óvissa ríki um möguleg umhverfisáhrif af 2.000 tonna ársframleiðslu á laxi í Eyjafirði, einkum að teknu tilliti til smæðar villtra laxastofna á svæðinu. Er þannig hvorki hægt að fullyrða að eldislax gangi ekki í ár né um möguleg áhrif á lítinn staðarstofn laxfiska. Bendir því ekkert í málinu til annars en að mat Skipulagsstofnunar um það hvort fyrirhugað eldi skuli háð mati á umhverfisáhrifum sé forsvaranlegt og byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Þykir hin kærða ákvörðun studd haldbærum rökum, enda leikur vafi á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs eldis eins og áður hefur komið fram.

Af öllu framangreindu er ljóst að við ákvörðunartöku Skipulagsstofnunar var farið eftir viðmiðum í 3. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum og þar sem ekki liggur annað fyrir en að farið hafi verið að lögum að öðru leyti verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. apríl 2014 um að breyting á eldi, úr þorski í allt að 2.000 tonnum á ári af laxi í sjókvíum Krossaness ehf. í vestanverðum Eyjafirði, kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Geir Oddsson