Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2011 Vesturvör

Árið 2015, föstudaginn 9. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 81/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. október 2011, er barst nefndinni 4. nóvember s.á., kærir D, f.h. Idea ehf., Vesturvör 36, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 25. ágúst 2011 að samþykkja tillögu að breyttu deiliskipulagi Kársneshafnar þar sem gert er ráð fyrir nýrri lóð nr. 38 við Vesturvör. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök: Í gildi er deiliskipulag fyrir Kársneshöfn frá árinu 1990 en á því hafa verið gerðar nokkrar breytingar, m.a. vegna þess að landrými hefur verið aukið með landfyllingu. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. janúar 2004 tók gildi breyting á nefndu skipulagi þar sem gert var ráð fyrir þremur nýjum lóðum nr. 32, 34 og 36 við Vesturvör.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs 19. apríl 2011 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi hafnarsvæðisins á Kársnesi í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með breytingartillögunni var gert ráð fyrir nýrri athafnalóð, nr. 38 við Vesturvör, á landfyllingu norðan Vesturvarar 34 og 36. Samkvæmt tillögunni verður lóðin að Vesturvör 38 tæplega 11.000 m2 að flatarmáli og verður heimilt að reisa þar allt að 6.000 m2 byggingu á 1-2 hæðum með vegghæð að hámarki 10 m og mænishæð 12 m. Bæjarráð staðfesti afgreiðslu nefndarinnar 28. apríl 2011 og í kjölfarið samþykkti ráðið hinn 26. maí s.á. samning um úthlutun hinnar nýju lóðar til byggingar iðnaðarhúsnæðis fyrir báta- og skipasmíði á Kársnesi. Skipulagstillagan var auglýst til kynningar og bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda. Á fundi skipulagsnefndar 19. júlí 2011 var lagt fram erindi skipulagsstjóra, dags. 26. maí s.á., til lögboðinna umsagnaraðila og framkomnar athugasemdir kynntar. Málið var síðan á dagskrá nefndarinnar 23. ágúst 2011 og lá þá fyrir umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. s.d., um framkomnar athugasemdir. Var tillagan samþykkt ásamt greindri umsögn og málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs sem samþykkti erindið á fundi sínum hinn 25. s.m. Skipulagsbreytingin öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. október 2011.

Kærandi vísar til þess að jafnræðis hafi ekki verið gætt við töku hinar kærðu ákvörðunar. Þegar lóðum hafi verið bætt við gildandi deiliskipulag fyrir Vesturvör 32-36, sem samþykkt hafi verið í bæjarráði árið 2003, hafi byggingarskilmálar miðað við 6 m vegghæð og 8 m mænishæð, þrátt fyrir beiðni um heimild fyrir meiri lofthæð húss að Vesturvör 36 sem hefði auðveldað starfsemi í húsinu til muna og gert hana arðbærari. Fyrirhugað mannvirki við Vesturvör 38 verði helmingi lengra en þær byggingar sem fyrir séu á athafnasvæðinu og með því að staðsetja bygginguna langsum meðfram ströndinni muni ásýnd Kópavogs breytast frá Reykjavík séð og öll stærðarhlutföll.

Af hálfu Kópavogsbæjar er gerð krafa um frávísun málsins en ella að kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verði hafnað.

Kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Þó að honum hafi verið settar einhverjar skorður varðandi stærð byggingar á sínum tíma á lóð sinni við Vesturvör 36, hafi hann enga hagsmuni af því að hindra að öðrum verði gert kleift að byggja hærra hús.  Kærandi hafi sett fram tillögur um frávik frá samþykktu deiliskipulagi varðandi lóðina að Vesturvör 36 og hafi þær verið samþykktar. Byggingarnefndarteikningar hússins beri með sér að vegghæð þess sé 7,33 m og mænishæð sé 9,95 m. Lóðarhöfum á svæðinu hafi verið heimilað að haga húsbyggingum með ýmsum hætti í samræmi við þarfir þeirra. Það sé því ekki um brot á jafnræðisreglu að ræða þó að heimilað verði að byggja hús með 12 m mænishæð að Vesturvör 38. Lítil aukning umferðar muni fylgja starfsemi á lóð Vesturvarar 38 og húsið á lóðinni, sem liggi norðan við lóð kæranda, muni ekki draga úr birtu á þeirri lóð eða hafa veruleg áhrif á útsýni. Hafa verði í huga að um svæði fyrir iðnaðarstarfsemi sé að ræða en ekki íbúðarsvæði en hið kæða deiliskipulag fylgi stefnu gildandi aðalskipulags um landnotkun.

Niðurstaða: Eftir gildistöku hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var ný tillaga að breytingu deiliskipulags Kársneshafnar við Vesturvör 38-50 lögð fram og samþykkt á fundi bæjarstjórnar 27. nóvember 2012. Tók sú deiliskipulagsbreyting gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. nóvember 2012.  Eftir þá breytingu er í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis gert ráð fyrir nýjum lóðum nr. 40-50 (sléttar tölur) og hefur  lóðinni nr. 38 við Vesturvör í Kópavogi verið skipt í tvær lóðir, um 5000 m² að flatarmáli, hvor með sinn byggingarreit, 32 x 65 m að stærð. Heimiluð mænishæð húsa var lækkuð úr 12 m í 10 m og vegghæð úr 10 m í 8 m frá því sem gert hafði verið ráð fyrir eftir hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Liggur því fyrir að ný ákvörðun um breytt skipulag lóðarinnar að Vesturvör 38 tók gildi 30. nóvember 2012. Hefur sú deiliskipulagsbreyting ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Hefur hin kærða ákvörðun af framangreindum ástæðum ekki réttarverkan að lögum eftir gildistöku hinnar yngri ákvörðunar og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Hvað sem lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar líður, stæði hin nýja skipulagsákvörðun óhögguð allt að einu. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með hliðsjón af 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________________
Ómar Stefánsson