Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

102/2011 Stafafellsfjöll

Árið 2015, þriðjudaginn 13. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 102/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 24. júní 2011, sem barst úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála 27. s.m., var úrskurðarnefndinni framsend kæra, eins fjögurra eigenda lóðar nr. 10 í Stafafellsfjöllum í Lóni, dags. 7. júní 2011, vegna afskiptaleysis Sveitarfélagsins Hornafjarðar af húsbyggingu á lóð nr. 11 í Stafafellsfjöllum. Skilja verður málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Hornafjarðar frá 2. mars 2011 um að nefndin telji ekki rétt að fara fram á við eiganda húss á lóð nr. 11 í Stafafellsfjöllum að hann færi húsið og að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Hornafirði 2. ágúst 2013.

Málavextir og rök: Með bréfi til bæjarráðs og byggingarfulltrúa Hornafjarðar, dags. 1. september 2009, fór kærandi fram á að eiganda lóðar nr. 11 í Stafafellsfjöllum yrði gert að „fjarlægja húsið, pall og allt það jarðfast, sem byggt hefur verið á klettinum – og því fylgt eftir.“ Var þar vísað til vinnuskúrs sem komið hafði verið fyrir nálægt mörkum lóðar nr. 10. Rakti kærandi það í erindi sínu að framkvæmdir hefðu hafist sumarið 2006 á lóð nr. 11, og hefði hún þá samstundis haft samband við skrifstofu byggingarfulltrúa Hornafjarðar og spurst fyrir um málið. Hún hafi fengið þær skýringar að einungis yrði veitt tímabundið leyfi til tveggja ára fyrir vinnuskúr á þessum stað. Eigandi lóðar nr. 11 hafi jafnframt upplýst að vinnuskúrinn ætti að standa næstu tvö árin á meðan bygging frístundahúss á lóðinni færi fram. Í stað þess að byggja frístundahúsið á réttum stað og rífa skúrinn væri hins vegar unnið að endurbótum á honum en húsið stæði í 3-5 m fjarlægð frá mörkum lóðar nr. 10. Stöðuleyfið væri útrunnið og engin merki sæjust um byggingu á byggingarreit. Húsið líktist í engu vinnuskúr og hér væri um að ræða brot gegn ákvæðum byggingarreglugerðar og deiliskipulags.

Erindi kæranda var tekið fyrir í bæjarráði Hornafjarðar 8. september 2009 og vísað til skipulags- og byggingarnefndar. Var það kynnt á fundi nefndarinnar 10. s.m. og starfsmönnum falið að afla frekari gagna áður en málið fengi endanlega afgreiðslu. Erindið var tekið fyrir á ný á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Hornafjarðar 2. mars 2011. Í fundargerð kemur fram að nefndin sé sammála um að á undanförnum árum hafi ýmislegt sem framkvæmt hafi verið á umræddu svæði verið gert án þess að skipulagi hafi verið fylgt í hvívetna. Nefndin telji hins vegar ekki jafnræði fólgið í að krefja einn af eigendum sumarhúsa, þar sem framkvæmd kunni að stangast á við skipulag, um að fara í breytingar þannig að ótvírætt sé að farið sé eftir skipulagi. Af þeim sökum telji nefndin ekki rétt að fara fram á við eiganda húss á lóð nr. 11 í Stafafellsfjöllum að hann færi húsið.

Kærandi vísar í kæru sinni til sömu atvika og sjónarmiða og rakin voru í framangreindu erindi frá 1. september 2009. Hann hafi haldið áfram mótmælum sínum og fyrirspurnum og óskað eftir afskiptum byggingaryfirvalda á staðnum af byggingarframkvæmdunum. Þá hafi verið farið fram á að húsið yrði fjarlægt eða flutt á byggingarreit og spurt hafi verið um áætlun sem lyti að því, en án árangurs. Húsið á lóð nr. 11 sé byggt án tilskilinna leyfa, í trássi við skipulag og of nálægt lóðamörkum, en hin umdeilda bygging rýri mjög notagildi lóðar kæranda. Sveitarfélagið hafi brugðist skyldu sinni og ekki farið að lögum.

———-

Sveitarfélaginu og eiganda lóðar nr. 11 í Stafafellsfjöllum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum í tilefni af kærumálinu en úrskurðarnefndinni hafa ekki borist athugasemdir af hálfu nefndra aðila.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sem tóku gildi hinn 1. janúar 2011, kemur fram að ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brýtur í bága við skipulag getur byggingarfulltrúi eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, ef mannvirkið fellur undir 3. mgr. 9. gr. laganna, krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað.

Í máli þessu liggur fyrir að umhverfis- og skipulagsnefnd Hornafjarðar tók hinn 2. mars 2011 afstöðu til erindis kæranda, þar sem þess var óskað að sveitarfélagið beitti eiganda lóðar nr. 11 í Stafafellsfjöllum þvingunarúrræðum vegna húss sem stæði nær lóðamörkum en byggingarreglugerð og deiliskipulag heimiluðu. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að byggingarfulltrúi hafi tekið afstöðu til erindisins, svo sem áðurnefnt lagaákvæði kveður á um.

Af framangreindum ástæðum liggur ekki fyrir ákvörðun þar til bærs stjórnvalds sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Af þeim sökum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson