Árið 2015, föstudaginn 17. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 39/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 20. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði, Fjarðabyggð, og að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi á sama stað.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. júní 2011, er barst nefndinni 16. s.m., kærir, annar sameigenda jarðarinnar Fjarðar 1 í Mjóafirði, Fjarðabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Fjarðabyggð frá 20. maí 2011 að samþykkja byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði og að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi á sama stað. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun um afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar verði felld úr gildi og að leyfishafa verði gert að fjarlægja byggingarnar.
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. júní 2011, er barst nefndinni 16. s.m., kærir sami kærandi ákvörðun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 12. maí 2011 um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegar í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að nefnd ákvörðun verði felld úr gildi og framkvæmdaaðila verði gert að fjarlægja veginn og afmá jarðrask vegna hans.
Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 42/2011, sameinað máli þessu.
Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.
Gögn málsins bárust frá Fjarðabyggð 11. júlí 2011 og viðbótargögn 26. febrúar 2015.
Málavextir: Jörðin Fjörður 1 var í óskiptri sameign kæranda og framkvæmdaaðila, en þau eignuðust hana með gjafaafsali frá móður sinni 9. janúar 1984. Íbúðarhús sem stendur á jörðinni var selt frá henni árið 1978 ásamt útihúsum og keypti framkvæmdaaðili það árið 1995. Í kaupsamningum um íbúðarhúsið, dags. 5. júní 1978 og 3. febrúar 1995, segir meðal annars: „Í kaupunum [felst] leiga á 5000 fermetra lóð umhverfis húsið. Um lóðamörk skal gera nánari samning síðar.“ Ekki verður af gögnum málsins ráðið að sú fyrirætlan hafi gengið eftir en þrátt fyrir það var lóðin skráð í fasteignaskrá á árinu 2006 án þess að staðsetning hennar væri afmörkuð. Með úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 5. mars 2013, var ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 10. nóvember 2006 um að breyta fasteignaskráningu fasteignarinnar Fjarðar 1, landnr. 158124, og stofna með því 5.000 m2 lóð með landnr. 209836 í fasteignaskrá, felld úr gildi og lagt fyrir Þjóðskrá Íslands að taka málið til nýrrar meðferðar.
Kærandi sendi byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar erindi hinn 3. ágúst 2010 vegna framkvæmda í landi Fjarðar 1, annars vegar við geymsluhús yfir tvo 20 feta gáma og hins vegar við rafstöðvarhús. Húsin höfðu þá þegar verið reist. Einnig var þar nefndur nýr 400 m langur vegur frá Mjóafjarðarvegi og að íbúðarhúsinu sem lægi um 50 m innar í dalnum en eldri vegur. Í bréfinu vísaði kærandi til þess að ekki hefði verið aflað leyfis fyrir framkvæmdunum og skort hefði samþykki sameigenda að landinu fyrir þeim. Farið var fram á að framkvæmdaaðila yrði gert að afla tilskilinna leyfa auk samþykkis sameigenda, ellegar yrði honum gert að fjarlægja byggingarnar og veginn.
Framkvæmdaaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri skýringum vegna áðurnefndra framkvæmda og gerði hann það með bréfi til byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 23. september 2010. Í því segir að reistur hafi verið bráðabirgðaskúr yfir rafstöð sökum lélegs ástands fjóss sem áður hýsti rafstöðina. Hann hafi talið skúrinn vera undir þeim stærðarmörkum sem sækja þyrfti um byggingarleyfi fyrir. Geymsluhúsið hafi verið endurbygging og viðhald á gömlu fjárhúsi og hafi engar breytingar haft í för með sér á útliti gamla hússins. Hann hafi því talið að ekki væri um leyfisskylda framkvæmd að ræða. Þá hafi vegurinn upp frá Mjóafjarðarvegi verið lagður meðfram læknum Beljanda. Lækurinn beri ávallt talsvert magn af framburði og meðfram austurbrún hans hafi hlaðist upp mikið af grjóti sem slétt hafi verið út í umræddan veg ásamt einhverju af aukaefni, en vegurinn hafi verið lagður í september 2007. Enginn vegur hafi áður legið upp að fasteigninni en ekið hafi verið upp eftir túni Fjarðar 1.
Byggingarfulltrúi svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 20. desember 2010, þar sem viðhorfum byggingaryfirvalda var lýst og tekið fram að eigendum umræddra bygginga yrði gert að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim og um framkvæmdaleyfi fyrir veginum. Í kjölfarið kærði kærandi afgreiðslu byggingarfulltrúa á erindinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem vísaði kærunni frá hinn 1. apríl 2011 með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki hafi legið fyrir lokaákvörðun í málinu sem borin yrði undir úrskurðarnefndina.
Framkvæmdaaðili sótti hinn 1. apríl 2011 um byggingarleyfi fyrir 42 m2 geymsluhúsi og 9,6 m2 rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1. Erindið var tekið fyrir á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 11. s.m. og samþykkti nefndin að byggingarfulltrúi gæfi út byggingarleyfi fyrir báðum húsunum. Byggingarfulltrúi tilkynnti framkvæmdaaðila um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 18. apríl 2011, og upplýsti jafnframt að málið hefði verið tekið fyrir á fundi nefndarinnar sem fyrirspurn og að á þeim grundvelli hefði verið veitt undanþága frá kröfum um hönnunargögn samkvæmt gr. 12.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Teikningum af húsunum tveimur hefði verið skilað inn og hefðu teikningar vegna rafstöðvarhússins verið metnar fullnægjandi með hliðsjón af stærð og eðli byggingarinnar. Byggingarfulltrúi kallaði hins vegar eftir frekari hönnunargögnum vegna geymsluhússins og var þess óskað að þeim yrði skilað eigi síðar en 13. maí 2011.
Með bréfi, dags. 20. maí 2011, tilkynnti byggingarfulltrúinn í Fjarðabyggð framkvæmdaaðila að umbeðnar teikningar af geymsluhúsinu hefðu ekki borist og yrði erindi um byggingarleyfi vegna þess því hafnað og eigendum gert að fjarlægja það. Leyfi væri hins vegar veitt fyrir rafstöðvarhúsi. Kæranda var tilkynnt um þessa niðurstöðu með bréfi byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 24. maí 2011.
Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 12. maí 2011 var tekið fyrir erindi framkvæmdaaðila þar sem sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir veglagningu í landi Fjarðar 1. Samkvæmt bókun í fundargerð þess fundar hafði Fjarðabyggð með óformlegum hætti leitað umsagnar Skipulagsstofnunar vegna vegagerðarinnar, sbr. bráðabirgðaákvæði 1 í skipulagslögum nr. 123/2010. Stofnunin var ekki tilbúin að mæla með veglagningunni, sem þegar hafði farið fram, auk þess sem samþykki allra landeigenda þyrfti að liggja fyrir áður en framkvæmdaleyfi yrði gefið út. Um óleyfisframkvæmd væri að ræða sem félli undir 53. gr. skipulagslaga, en í 3. mgr. þeirrar greinar segði að skipulagsfulltrúi gæti krafist þess að hin ólöglega framkvæmd yrði fjarlægð. Niðurstaða eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar var svohljóðandi: „Nefndin getur ekki gefið út framkvæmdaleyfi nema fyrir liggi samþykki allra landeigenda. Að öðrum kosti þurfa landeigendur að fjarlægja veginn.“ Framkvæmdaaðila var tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar með bréfi, dags. 18. maí 2011, og fékk kærandi afrit af því bréfi hinn 27. s.m.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að byggingarfulltrúinn í Fjarðabyggð hafi, við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi og geymsluhúsi í landi Fjarðar 1, litið fram hjá því skilyrði laga að samþykki meðeigenda þyrfti að liggja fyrir ef um sameign væri að ræða. Afgreiðsla byggingarleyfisumsóknarinnar hafi verið ólögmæt af þessum sökum. Telur kærandi sig ekki geta unað við þetta enda sé það verulegt hagsmunamál fyrir hann að skipulags- og byggingaryfirvöld virði friðhelgan eignarrétt hans. Þá gerir kærandi þá athugasemd við afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar á umsókn um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar í landi Fjarðar 1 að með ákvörðun nefndarinnar séu aðrir landeigendur, sem hvergi hafi komið nálægt veglagningunni, gerðir ábyrgir til jafns við framkvæmdaaðila fyrir því að fjarlægja veginn. Rétt hefði verið að krefja framkvæmdaaðila um að fjarlægja hann og afmá jarðrask vegna hans innan tiltekins frests. Afgreiðsla nefndarinnar hafi verið illa ígrunduð eða byggst á geðþótta nefndarmanna fremur en lögum og því sé rétt að fella hana úr gildi.
Íbúðarhúsið á umræddri jörð hafi verið skráð á landnúmer 158124 allt til ársins 2006 en þá hafi verið stofnuð 5.000 m2 lóð innan sameignarinnar með landnúmeri 209836, án vitundar og samþykkis kæranda. Afgreiðsla byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar á byggingarleyfisumsókninni hafi meðal annars byggst á hugmyndum um eignarrétt framkvæmdaaðila á lóð umhverfis íbúðarhúsið. Í minnisblaði byggingarfulltrúa til eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 8. apríl 2011, komi til að mynda fram að afmörkun lóðarinnar sjáist greinilega á loftmynd. Byggingarfulltrúi hafi virst líta svo á að framkvæmdir við geymsluhúsið og rafstöðvarhúsið væru kæranda óviðkomandi og að framkvæmdaaðili væri ekki bundinn af kröfu um samþykki meðeiganda vegna mannvirkjagerðar í landi sem kærandi væri þinglýstur eigandi að. Bent sé á að þegar framkvæmdaaðili hafi keypt íbúðarhúsið hafi ekkert fjárhús fylgt því heldur aðeins tóft af fjárhúsi. Í fasteignaskrá séu ekki önnur hús en íbúðarhúsið skráð á lóð nr. 209836.
Hvað veglagninguna varðar bendir kærandi á að ekki hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi fyrir veginum vegna þess að Skipulagsstofnun hafi áður hafnað því að gefa út meðmæli fyrir framkvæmdinni þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki allra landeigenda. Í kjölfarið hafi eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar tekið ákvörðun um að aðhafast ekkert í málinu og framkvæmdaaðila hafi ekki verið gefinn ákveðinn frestur til þess að fjarlægja veginn. Ljóst sé að sú afgreiðsla eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar sé ekki til þess fallin að knýja á um að framkvæmdaaðili afli samþykkis allra landeigenda fyrir veginum eða fjarlægi hann. Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd hafi með afgreiðslu sinni tekið ákvörðun um að það sé ekki sveitarfélagsins að hafa afskipti af veglagningunni og jafnframt að það sé kæranda að fjarlægja óleyfisframkvæmdina uni hann því ekki að framkvæmdin standi.
Málsrök Fjarðabyggðar: Í athugasemdum byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar vegna kæru á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi og rafstöðvarhúsi kemur fram að ástæða þess að kærandi hafi upphaflega borið upp erindi sitt við Fjarðabyggð hafi verið sú að ekki hafi náðst sátt milli landeigenda um landskipti hluta jarðarinnar Fjarðar 1, landnr. 158124. Kærandi hafi sent erindi til Fjarðabyggðar um að umræddar byggingar yrðu fjarlægðar en þá hafi þær þegar staðið í um tvö ár með vitneskju kæranda. Röksemdir kæranda fyrir kröfu um niðurrif bygginga hvíli á því að þær standi á sameignarlandi Fjarðar 1, landnr. 158124. Á hinn bóginn hafi framkvæmdaaðili vísað til þess að hann leiði rétt sinn af kaupsamningi, dags. 5. júní 1978, og afsali, dags. 29. desember 1979. Kaupsamningurinn frá 1978 feli í sér að húseignir á svæðinu fái tiltekin lóðarréttindi sem hafi óskilgreind mörk. Ljóst sé að eignaréttarlegur ágreiningur sé um þýðingu skjalsins út frá texta þess og meginreglum eignaréttar.
Erindi kæranda hafi komið til umfjöllunar eftir að umdeildar húseignir voru reistar. Þegar til umfjöllunar sé krafa um niðurrif húseigna komi meðal annars til skoðunar sjónarmið um eignarétt framkvæmdaaðila og meðalhóf. Kröfur kæranda hvíli á eignaréttarlegu ágreiningsatriði sem sveitarfélagið taki ekki afstöðu til en eðli máls samkvæmt verði þó að leggja til grundvallar einfalda skýringu á efnisinntaki þinglýstra skjala. Kaupsamningurinn frá 1978 vísi til sölu íbúðarhúss og útihúsa og ekki virðist óvarfærið að álykta á þá leið að 5.000 m2 lóðin liggi undir hinum seldu mannvirkjum, enda verði ekki annað ráðið en að ætlun aðila hafi verið að þau hefðu einhvers konar lóðarréttindi. Þær framkvæmdir sem kæran nái til séu í eða við tóftir útihúsa, sem kaupsamningurinn frá 1978 vísi til, og þar með á svæði sem lóðarréttindi nái til. Afgreiðsla Fjarðabyggðar hafi jafnframt hvílt á meðalhófssjónarmiðum, sjónarmiðum um stöðu stjórnvalda við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana og meginreglum um að forðast eyðileggingu verðmæta. Sveitarfélagið hafi lagt til grundvallar að umræddar húseignir væru innan 5.000 m2 svæðis sem væri í umráðum framkvæmdaaðila. Afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi fyrir umdeildum mannvirkjum hafi tekið mið af jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og framlagningu framkvæmdaaðila á umkröfðum gögnum.
Í athugasemdum frá fasteigna- og framkvæmdafulltrúa Fjarðabyggðar vegna kæru á afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar í landi Fjarðar 1 er áréttað að framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út fyrir veglagningunni. Í bókun sveitarfélagsins hafi komið fram að án samþykkis allra landeigenda væri ekki unnt að gefa út framkvæmdaleyfi og kæmi þá til þess að fjarlægja þyrfti framkvæmdina. Í upphaflegu erindi kæranda hafi því verið beint til Fjarðabyggðar að framkvæmdaaðila yrði gefinn kostur á að afla samþykkis sameigenda fyrir framkvæmdunum. Erindi kæranda hvíli í raun á því að fullreynt verði hvort sameigendur Fjarðar samþykki umdeilda veglagningu. Afgreiðsla eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar hafi tekið mið af þessum sjónarmiðum kæranda og sé í samræmi við meðalhófsreglur, sérstaklega þegar komi til skoðunar að beita íþyngjandi úrræðum eins og fylgi kröfu um að mannvirki verði fjarlægð. Í ljósi þessa hafi bókun sveitarfélagsins falið í sér að svigrúm væri fyrir aðila til að fullreyna að ná samkomulagi. Ljóst sé að bókun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar geri ráð fyrir að landeiganda og framkvæmdaaðila verði sett nákvæmari skilyrði síðar fyrir fjarlægingu vegarins, svo sem um tímafrest og hvaða kröfur verði gerðar til svæðisins eftir að vegurinn hafi verið fjarlægður. Vegurinn sé að nokkrum hluta byggður á uppmokstri úr árfarvegi til að verja land og því kunni það aðeins að fela í sér minni háttar framkvæmdir að fjarlægja hann. Af hálfu Fjarðabyggðar hafi ekki staðið til að leggja á kæranda ábyrgð á að fjarlægja veginn enda sé ljóst að bókun sveitarfélagsins verði ekki grundvöllur slíkra þvingunarúrræða.
Athugasemdir framkvæmdaaðila: Í athugasemdum framkvæmdaaðila kemur fram að geymsluhúsið sem fjallað sé um í málinu sé gamla fjárhúsið í Firði. Auk þess sé í málinu fjallað um bráðabirgðaskúr yfir rafstöð. Byggingarfulltrúi hafi synjað um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsinu sökum ófullnægjandi teikninga en unnið sé að því að útbúa teikningar og stefnt sé að því að leggja þær fram.
Geymsluhúsið sé séreign framkvæmdaaðila samkvæmt kaupsamningi frá 1995 en með honum, sem og kaupsamningnum frá 1978, hafi íbúðarhúsið verið selt „ásamt útihúsum“. Fasteignamat frá 25. nóvember 1978 varpi skýrara ljósi á það hvaða útihús átt sé við en þá hafi útihúsin í Firði verið fjós, fjárhús, hlaða og geymsla. Lýsingar á áðurnefndum útihúsum sé að finna í allsherjarfasteignamati frá 20. öld, þar sem finna megi ítarlegar lýsingar á jörðum á Íslandi og öllum eignum sem þeim fylgdu. Leggur framkvæmdaaðili meðal annars fram upplýsingar úr viðbótar- og endurmati frá 1955 og 1967, ásamt fasteignamatinu frá 1978. Engar ákvarðanir séu til um niðurrif mannvirkjanna sem tiltekin séu í fasteignamatinu frá 1978 og ljóst sé að fjósið og fjárhúsið standi enn. Vel megi vera að skráningu útihúsa í núverandi fasteignaskrá sé ábótavant en það sé ekki óeðlilegt í ljósi þess að á jörðinni fari ekki lengur fram búskapur.
Bygging bráðabirgðaskúrs yfir rafstöð hafi verið neyðarframkvæmd vegna slæms ásigkomulags fjóssins, þar sem rafstöðin hafi áður verið, en þak þess hafi fokið af í óveðri í janúar 2011. Megi hér vísa til 6. mgr. 61. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Fjarðabyggð hafi ekki borið skylda til að leita samþykkis kæranda vegna veitingar leyfis fyrir framkvæmd á gamla fjárhúsinu, en það sé ekki í eigu kæranda.
Framkvæmdaaðili eigi 5.000 m2 leigulóð sem fylgja eigi íbúðarhúsinu en mörk lóðarinnar séu óákveðin nema að því leyti að hún nái umhverfis íbúðarhúsið í Firði og útihúsin. Að lokum sé á það bent að framkvæmdin á geymsluhúsinu hafi fyrst og fremst verið viðhald og endurbygging gamla fjárhússins sem tilheyri séreign framkvæmdaaðila. Framkvæmdin hafi ekki átt að hafa neinar breytingar á útliti gamla fjárhússins í för með sér en henni hafi ekki verið lokið hvað varði framhlið hússins.
Sú staðhæfing kæranda sé beinlínis röng að eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar hafi tekið ákvörðun um að aðhafast ekkert vegna hinnar umdeildu veglagningar. Nefndin hafi þvert á móti synjað um framkvæmdaleyfi á þeirri forsendu að ekki lægi fyrir samþykki allra landeigenda. Þá geri nefndin aðra landeigendur ekki ábyrga fyrir því að fjarlægja veginn og hvergi í afgreiðslu nefndarinnar á umsókninni sé tilgreint að kærandi eigi að fjarlægja veginn. Óskað hafi verið eftir samþykki kæranda fyrir veginum en það hafi ekki fengist. Engin haldbær rök séu fyrir því að vegurinn verði fjarlægður þar sem hann varni bæði ágangi vatns og umferðar á tún Fjarðar 1.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar á umsókn um byggingarleyfi fyrir þegar reistu geymsluhúsi og rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 og afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins á umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir vegi sem þegar hefur verið lagður þar.
Með hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa var m.a. synjað um leyfi fyrir fyrrgreindu geymsluhúsi og fyrir liggur að eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd hafnaði umsókn framkvæmdaaðila um framkvæmdaleyfi fyrir umræddri veglagningu. Kærandi var ekki umsækjandi leyfanna og verður ekki séð að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að framangreindar ákvarðanir verði felldar úr gildi, enda höfðu þær ekki í för með sér breytingu á stöðu hans frá því sem áður var. Hvað varðar þessa þætti málsins er skilyrði kæruaðildar þágildandi 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 því ekki fyrir hendi og verður þessum hluta kærumálsins af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Vegna krafna kæranda fyrir nefndinni um að framkvæmdaaðila verði gert skylt að fjarlægja geymsluhús, rafstöðvarhús og veg og afmá jarðrask skal tekið fram að valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana eru bornar. Úrskurðarnefndin getur því ekki tekið ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða svo sem krafist er. Sambærilegar kröfur voru þó gerðar í erindi kæranda til byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 3. ágúst 2010, en þar var þess krafist að framkvæmdaaðila yrði veittur frestur til að afla tilskilinna leyfa ásamt samþykki meðeigenda vegna geymsluhúss, rafstöðvarhúss og veglagningar, en yrði ella gert að fjarlægja byggingarnar og veginn tafarlaust og afmá jarðrask vegna þeirra. Af gögnum málsins verður þó ekki séð að erindi kæranda hafi hlotið formlega afgreiðslu hjá sveitarfélaginu. Af framangreindum ástæðum verður því ekki fjallað frekar um þessar kröfur kæranda.
Eins og áður var rakið veitti byggingarfulltrúi Fjarðabyggðar byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 en sú fasteign er á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Heimildir til frávika frá þessari reglu er annars vegar að finna í 44. gr. laganna, sem fjallar um grenndarkynningu einstakra framkvæmda í þegar byggðum hverfum, og hins vegar í bráðabirgðaákvæði 1 með sömu lögum þar sem heimilað er að veita byggingarleyfi fyrir einstökum mannvirkjum, að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, án þess að fyrir liggi staðfest svæðis- eða aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag. Eins og málum er háttað getur 44. gr. laganna ekki átt við í umræddu tilviki og ekki liggur fyrir að leitað hafi verið meðmæla Skipulagsstofnunar fyrir veitingu hins kærða byggingarleyfis á grundvelli áðurnefnds bráðabirgðaákvæðis. Skorti af þessum sökum lagaskilyrði fyrir veitingu hins kærða byggingarleyfis.
Ekki liggur fyrir í gögnum málsins að gerður hafi verið sérstakur samningur um afmörkun 5.000 m2 leigulóðar leyfishafa, svo sem kaupsamningar um íbúðarhúsið í Firði 1 mæla fyrir um. Fyrir liggur að ágreiningur er með kæranda og framkvæmdaaðila um yfirráð þess lands sem rafstöðvarhúsið stendur á. Í ljósi þess réttarágreinings sem uppi er um heimildir framkvæmdaaðila var það því ekki á færi byggingarfulltrúa að veita umdeilt byggingarleyfi fyrr en úr þeim réttarágreiningi hefði verið skorið, eftir atvikum fyrir dómstólum.
Að því virtu verður að líta svo á að það land sem tilheyri Firði 1 sé í óskiptri sameign og að framkvæmdir þar séu háðar samþykki meðeiganda. Var byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar því óheimilt eins og á stóð að veita byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi án þess að fyrir lægi samþykki meðeiganda, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.
Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun um veitingu byggingarleyfis fyrir rafstöðvarhúsi sé haldin slíkum annmörkum að leiði til ógildingar hennar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kröfum kæranda, um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Fjarðabyggð frá 20. maí 2011 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi í landi Fjarðar 1 og um ógildingu ákvörðunar eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 12. maí 2011 um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar, er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Felld er úr gildi sú ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 20. maí 2011 að veita byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1.
____________________________________
Ómar Stefánsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson