Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2014 Hverfisgata Reykjavík

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 8/2014, kæra á þeirri framkvæmd að fjarlægja skábraut að inngangi hússins að Hverfisgötu 52, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. febrúar 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir eigandi eignarhluta 01-0101 í húsinu að Hverfisgötu 52, Reykjavík, þá framkvæmd að fjarlægja skábraut að inngangi nefnds húss. Er þess krafist að skábrautin verði endurbyggð. Þá er kærð sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að skipuleggja gangstétt fyrir framan húsið þannig að ekki sé gert ráð fyrir nefndri skábraut.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 28. febrúar 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 4. desember 2007 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um samþykki á leyfi fyrir skábraut og tröppum við fjöleignarhúsið á lóð nr. 52 við Hverfisgötu. Árið 2011 keypti kærandi atvinnuhúsnæði í greindu fjöleignarhúsi og lá skábrautin að inngangi eignarhluta hans. Á árinu 2013 barst í tal eigenda fjöleignarhússins hvort fjarlægja ætti skábrautina. Húsfélagið sendi eigendum allra eignarhluta hússins tölvupóst 31. júlí 2013 þess efnis að ekki þyrfti samþykki allra eigenda til að fjarlægja umrædda skábraut. Í kjölfarið var skábrautin fjarlægð af einum eigenda fjölbýlishússins. Hinn 28. ágúst s.á. sendi Húseigendafélagið, fyrir hönd kæranda, bréf þar sem skorað var á greindan eiganda að koma húsinu aftur í fyrra horf en ekki var orðið við þeirri áskorun. Hafði kærandi samband við Reykjavíkurborg eftir að greind skábraut var fjarlægð og leitaði eftir svörum við því hvort heimilt væri að koma henni aftur fyrir. Hinn 8. janúar 2014 barst kæranda svar frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík þar sem hann upplýsti kæranda um að vafi væri um gildi byggingarleyfisins frá 2007 þar sem framkvæmdin hefði hugsanlega ekki uppfyllt nauðsynleg formatriði, þyrfti því að kanna gildi leyfisins betur.

Kærandi skírskotar til þess að skábrautin hafi verið samþykkt sem hluti af ytra byrði hússins af byggingarfulltrúanum í Reykjavík í desember 2007. Kærandi hafi fest kaup á atvinnuhúsnæði að Hverfisgötu 52 með það í huga að reka þar sálfræðistofu. Aðgengi fatlaðra hafi verið eitt þeirra atriða sem réði kaupunum. Sé aðgengið aðallega hagsmunamál fyrir kæranda þar sem umrædd aðkoma sé að sérinngangi eignarhluta hans. Í kjölfar niðurrifs skábrautarinnar geti kærandi ekki lengur boðið fötluðum þjónustu sína. Að auki virðist Reykjavíkurborg hafa teiknað og byggt götuna á þann hátt að bílastæði hafi verið bætt inn á upphaflegu teikningu sem geri það að verkum að ekki sé gert ráð fyrir að skábrautin verði endurbyggð. 

Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að ekki sé annað ráðið en að kærður sé skortur á byggingarleyfi. Kæru sé beint að tilteknum framkvæmdum við inngang að húsinu á lóð nr. 52 við Hverfisgötu. Hafi húsfélag hússins tekið þá ákvörðun að fjarlægja skábrautina. Um ágreining milli húseigenda sé að ræða enda hafi engin ákvörðun verið tekin um hana af hálfu Reykjavíkurborgar. Sé því ekki um kæranlega ákvörðun að ræða skv. 1. gr. laga nr. 130/2011, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beri að vísa málinu frá.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirra framkvæmdar að fjarlægja skábraut við inngang í hús nr. 52 að Hverfisgötu.

Samkvæmt 52. gr. skiplagslaga nr. 123/2010 og 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir verða jafnframt að binda endi á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum var umrædd skábraut fjarlægð af einum eiganda fjölbýlishússins að Hverfisgötu 52. Liggur fyrir að kærandi leitaði eftir svörum frá Reykjavíkurborg vegna hinna umdeildu framkvæmda í því skyni að fá skábrautina endurbyggða. Lauk þeim samskiptum með tölvupósti byggingarfulltrúans í Reykjavík þar sem hann gerði kæranda grein fyrir því að kanna þyrfti frekar lögmæti hins upprunalega byggingarleyfis fyrir hinni umræddu skábraut. Verður ekki séð að svar byggingarfulltrúa eða önnur svör starfsmanna Reykjavíkurborgar feli í sér stjórnvaldsákvörðun sem varði hina kærðu framkvæmd. Þá verður ekki séð að framkvæmdin hafi að öðru leyti komið til formlegrar málsmeðferðar og ákvörðunartöku hjá borginni á grundvelli skipulagslaga vegna gatnaframkvæmda þeirra sem kærandi vísar til.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir er ekki fyrir hendi nein sú ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar og bundið getur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaganna. Af þeim sökum verður málinu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist í máli þessu sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

5/2014 Björtusalir

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogsvæðis um synjun á veitingu leyfis fyrir hundinn X.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. janúar 2014, er barst nefndinni 21. s.m., kærir A, Kópavogi, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 25. Nóvember 2013 að synja um veitingu leyfis fyrir hundinn X. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 12. febrúar 2014.

Málavextir: Kærendur sóttu um skráningu á hundi sínum með umsókn til Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, dags. 25. október 2013. Kærendur sendu frekari gögn til stuðnings umsókn sinni með tölvupósti 29. s.m. og segir þar m.a: „Við munum skipta um hurð þar og hafa hana opnanlega með lykli utanfrá.“ Með tölvupósti 6. nóvember s.á. var farið fram á að kærendur legðu fram samþykki 2/3 hluta meðeigenda sinna fyrir hundahaldi í fjöleignarhúsi þeirra þar sem ekki væri sérinngangur að íbúð kærenda samkvæmt teikningum. Í svari sínu frá 8. s.m. kváðust kærendur vera með sérinngang í íbúð sína um dyr út úr stofu en íbúð þeirra er á jarðhæð. Fóru kærendur jafnframt fram á að heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis tæki rökstudda ákvörðun í máli þeirra og vísuðu m.a. í álit kærunefndar húsamála í máli nr. 19/2011 máli sínu til stuðnings.

Umsókn kærenda var lögð fram á fundi heilbrigðisnefndar 25. nóvember 2013 og var svohljóðandi bókað: „Sameiginlegur inngangur er í íbúðina með öðrum íbúðum og ber að afla samþykkis 2/3 eigenda í slíkum tilvikum. Flóttaleið úr íbúð um stofu breytir þar engu um. Skráning dýrsins er gerð með fyrirvara um að tilskilins samþykkis verði aflað.“ Kærendum var kynnt með bréfi, dags. 23. desember 2013, að með vísan til þessa væri hundurinn skráður til bráðabirgða til þriggja mánaða. Barst kæra í málinu úrskurðarnefndinni 20. janúar 2014, eins og áður sagði.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að brotið hafi verið á rétti þeirra skv. ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ásamt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, með því að synja um skráningu hunds þeirra á grundvelli þess að samþykki 2/3 íbúa hússins liggi ekki fyrir. Sú regla eigi ekki við í tilfelli kærenda þar sem sérinngangur sé inn í íbúðina. Gerð sé athugasemd við bókun heilbrigðisnefndarinnar þar sem segi „könnuð var staða íbúðarinnar með tilliti til inngangs hjá byggingarfulltrúa Kópavogs“ en enginn rökstuðningur liggi fyrir um það hvað í því mati hafi leitt til niðurstöðu nefndarinnar að um sérinngang væri ekki að ræða. Við svo íþyngjandi ákvörðun hafi verið ástæða til að skoða íbúðina sjálfa en ekki eingöngu gögn hjá byggingarfulltrúa. Virðist hafa verið byggt á því að ef um sameiginlegan inngang sé að ræða geti annar inngangur í íbúðina ekki talist sérinngangur. Því mótmæli kærendur, enda alþekkt að fasteignir hafi fleiri innganga en þann er teljist vera aðalinngangur. Þá hafi verið byggt á því að umræddur inngangur teljist ekki vera inngangur heldur „flóttaleið“ en því sé einnig mótmælt, enda sé inngangurinn í fullu samræmi við skilgreiningu á inngangi skv. Gr. 6.4.2. í byggingareglugerð nr. 112/2012. Frá því að kærendur hafi flutt inn í fasteignina hafi undantekningarlaust verið farið með hundinn inn og út í gegnum nefndan inngang, enda sé hægt að opna hann bæði innan og utan frá.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Heilbrigðisnefndin bendir á að samkvæmt 4. gr. samþykktar um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000 séu allir hundar á eftirlitssvæðinu skráningarskyldir. Eftir breytingu á lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 með lögum nr. 40/2011 hafi heilbrigðisnefndin tekið mið af þeirri breytingu varðandi kröfur um samþykki 2/3 hluta eigenda í fjöleignarhúsum. Við umsókn um skráningu hunds kærenda hafi ekki verið lögð fram gögn um samþykki meðeigenda þeirra og því haldið fram að íbúðin hefði séraðkomu. Fyrirvari hafi verið gerður um þetta atriði af hálfu heilbrigðiseftirlitsins og kærendum bent á að nauðsynlegt væri að útvega samþykki meðeigenda í fjöleignarhúsinu. Kærendur hefðu ekki talið sig þurfa samþykki og hafi starfsmaður heilbrigðiseftirlitsins kannað aðstæður. Grunnmynd 1. hæðar ásamt ljósmynd hafi stutt þá niðurstöðu hans að um væri að ræða hurð úr stofu út á lóð en ekki sérinngang. Kærendur hefðu nýtt heimild í 4. gr. hundasamþykktar til að óska eftir úrskurði heilbrigðisnefndar í málinu sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að fasteign kærenda væri ekki með sérinngang í skilningi 33. gr. b laga nr. 26/1994 og þyrfti því að leggja fram samþykki meðeigenda. Upplýsingar hafi legið fyrir frá byggingarfulltrúa um að það væri einn inngangur í íbúðina. Jafnframt hafi hann upplýst um þá kröfu byggingarreglugerðar varðandi flóttaleiðir að hver íbúð skuli hafa tvo óháða útganga. Heilbrigðisnefnd hafi talið sér rétt og skylt að virða rétt annarra eigenda í fjöleignarhúsum við skráningu hunda og viðurkenni ekki flóttaleiðir sem sérinngang.

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 29. apríl 2015.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á veitingu leyfis til hundahalds í íbúð kærenda á jarðhæð í fjöleignarhúsinu, en með ákvörðun heilbrigðisnefndar var einungis veitt tímabundið leyfi til þriggja mánaða.

Um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi gildir samþykkt nr. 154/2000, sem sett var með stoð í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Segir í 1. gr. samþykktarinnar að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæminu með skilyrðum samkvæmt samþykktinni. Í 4. gr. segir að allir hundar sem haldnir eru á eftirlitssvæðinu séu skráningarskyldir og eru í ákvæðinu talin upp þau gögn sem liggja þurfa fyrir til þess að hundur fáist skráður og er eitt þeirra „samþykki meðeigenda fjöleignarhúss, ef við á“. Þá er tekið fram í 5. gr. samþykktarinnar að um hundahald í fjöleignarhúsi gildi ákvæði laga nr. 26/1994 með síðari breytingum en þau lög fjalla um fjöleignarhús. Um samþykki meðeigenda fyrir hundahaldi fer skv. ákvæðum nefndra laga og er hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang, sbr. 33. gr. a. Hins vegar er kveðið á um í 1. mgr. 33. gr. b að samþykkis annarra eigenda sé ekki þörf þegar hvorki sé um sameiginlegan inngang né stigagang að ræða, sbr. 33. gr. a. Eigi það til dæmis við þegar sérinngangur sé í íbúð á jarðhæð eða frá sameiginlegum útitröppum. Gildi það þótt lóð sé sameiginleg og annað sameiginlegt rými sé í húsinu. Nefnd lagaákvæði tóku gildi með lögum nr. 40/2011 um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Í athugasemdum með frumvarpi breytingalaganna er fjallað um tilurð reglna um hunda- og kattahald í fjöleignarhúsum og því lýst að þar vegist á andstæð sjónarmið eða hagsmunir þeirra sem vilji halda hunda og ketti sem gæludýr og þeirra sem hafi ofnæmi fyrir slíkum dýrum. Þá er því lýst að regla 33. gr. b sé í samræmi við gildandi rétt og túlkun og framkvæmd laganna. Verður að telja af framangreindu að til þess að um sérinngang sé að ræða í skilningi laganna verði hann að vera þannig úr garði gerður að engin þörf sé á að fara með dýrið um sameign fjöleignarhússins og tilgangi nefndra lagaákvæða þannig náð.

Húsið er fjöleignarhús með sameiginlegum inngangi fyrir allar íbúðir hússins. Íbúð kærenda, sem er á jarðhæð, er einnig með dyr sem opnast út á afgirtan sérafnotaflöt með hliði. Heilbrigðisnefnd byggði synjun sína um leyfi til hundahalds þar á þeirri túlkun byggingarfulltrúa Kópavogs að samkvæmt teikningum væri í stofu gert ráð fyrir flóttaleið vegna brunavarna, þ.e. að greindar dyr væru eingöngu útgangur en ekki inngangur. Skoðun á vettvangi leiddi í ljós að dyrnar eru nú með lás og snerlum og er hægt að aflæsa þeim bæði utan og innan frá. Því er ljóst að kærendur eru með sérinngang í skilningi áðurnefnds ákvæðis 33. gr. b í fjöleignarhúsalögum að íbúð sinni frá sérafnotafleti þótt þeir geti einnig farið um sameiginlegan inngang.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum lýstu kærendur því yfir 29. október 2013 að skipt yrði um hurð og yrði hún opnanleg utanfrá. Vettvangskönnun úrskurðarnefndarinnar leiddi í ljós að nefndar dyr eru nú opnanlegar utan frá en gögn liggja ekki fyrir um hvenær sú breyting átti sér stað. Var heilbrigðisnefnd því rétt að byggja á fyrirliggjandi gögnum við ákvörðunartöku sína, enda lágu á þeim tíma ekki fyrir neinar þær upplýsingar sem leitt gátu til annarrar niðurstöðu. Verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogsvæðis um synjun á veitingu leyfis fyrir hundinn X,

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Þorsteinn Þorsteinsson

109/2017 Bjarmaland Sandgerði

Með

Árið 2017, föstudaginn 8 desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 109/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. september 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kæra Sigurgeir Jónsson og Elísabet Jensdóttir, Uppsalavegi 8, Sandgerði, staðsetningu fjarskiptamasturs að Bjarmalandi 16 Sandgerði. Er þess krafist að mastrið verði skráð lögum samkvæmt og það fari í grenndarkynningu. Til vara er þess krafist að mastrið verði fjarlægt.

Málsatvik og rök: Árið 1978 fékk Ríkisútvarpið heimild Miðneshrepps til þess að reisa mastur á lóð nr. 16 við Bjarmaland. Með bréfi dags. 2. apríl 2012 óskuðu kærendur eftir svörum yfirvalda Sandgerðis varðandi hið kærða fjarskiptamastur og bárust svör sveitarfélagsins við erindinu 29. ágúst s.á. Með bréfi dags. 5. nóvember 2012 óskaði annar kærenda eftir afriti af leyfi til uppsetningar útvarpssenda að Bjarmalandi 16 sem settir hefðu verið upp 6.-8. mars s.á. Þeirri beiðni var svarað af hálfu sveitarfélagsins með bréfi dags. 17. maí 2017 þar sem fram kom að það telji spurningum hans svarað með erindi skipulags- og byggingarfulltrúa dags. 29. ágúst 2012. Jafnframt var beðist velvirðingar á að ítrekunum á  erindi kærandans frá 5. nóvember 2012 í bréfum 1. og 27. apríl 2017 hafi ekki verið svarað. Með bréfi dags. 25. ágúst 2017 svaraði sviðstjóri umhverfis-, skipulags- og byggingarsviðs spurningum kærenda sem bárust embættinu 21. júní s.á. Þar var upplýst hver væri skráður eigandi lóðarinnar Bjarmalands 16 og hver landnotkun hennar væri samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Kærendur telja að skrá beri þennan búnað og atvinnustarfsemi lögum samkvæmt og að sú skráning fari í grenndarkynningu. Að öðrum kosti beri að fjarlæga umrædd mannvirki. Hvergi hafi komið fram að Miðneshreppur hafi komið að leyfisveitingu fjarskiptamasturs frá árinu 1978 enda lóðin ekki í eigu hreppsins heldur hafi verið um persónulegt leyfi sveitarstjóra að ræða, sem hann hafi ekki haft heimild til að veita.

Sveitarfélagið bendir á að almennt tíðkist ekki að sjónvarpssenda sé getið sérstaklega í aðal- eða deiliskipulagi.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðuni samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Þó verður kæra ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að hún var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Sú ákvörðun að heimila að reist yrði fjarskiptamastur að Bjarmalandi 16, mun hafa verið tekin árið 1978. Er kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar löngu liðinn. Þá liggja ekki fyrir aðrar ákvarðanir bæjaryfirvalda Sandgerðisbæjar vegna umdeilds fjarskiptabúnaðar sem bornar verða undir úrskurðarnefndina. Bent er á að úrskurðarnefndin hefur það hlutverk að endurskoða lögmæti ákvörðunar yfirvalda sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og skipulagslögum nr. 123/2010 en nefndin er ekki bær að lögum að taka stjórnvaldsákvarðanir svo sem um að mannvirki skuli fjarlægð. Taka slíkrar ákvörðunar er í verkahring byggingaryfirvalda í hverju sveitarfélagi, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki en þær ákvarðanir verða eftir atvikum bornar undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________________
Ómar Stefánsson

11/2011 Bakkavör

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 11/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 10. nóvember 2010 um að samþykkja deiliskipulag Bakkahverfis, Seltjarnarnesi.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. janúar 2011, er barst nefndinni 25. s.m., kærir H, Bakkavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 10. nóvember 2010 að samþykkja deiliskipulag Bakkahverfis á Seltjarnarnesi. Gerð er krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að fyrri útgefnir skilmálar, dags. 30 september 1986, vegna lóða nr. 2-44 við Bakkavör, Seltjarnarnesi, standi óbreyttir.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni 1. apríl 2011.

Málsatvik og rök: Árið 2009 var auglýst til kynningar deiliskipulag Bakkahverfis er tekur til húsa sunnan Hæðarbrautar, austan Valhúsabrautar, suðaustan Bakkavarar, austan Suðurstrandar og austan Lindarbrautar. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness hinn 4. júní 2010 voru samþykkt svör við framkomnum athugasemdum sem og tillaga að téðu deiliskipulagi. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 9. s.m. Í kjölfar þess var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar er gerði athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt þess. Tók skipulags- og mannvirkjanefnd málið fyrir að nýju hinn 28. október 2010. Var tillagan samþykkt með breytingum og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 10. nóvember s.á. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2010.

Kærandi tekur fram að staðhæft hafi verið að skipulag fyrir lóðirnar Bakkavör 2-44 frá 1986 hafi aldrei verið staðfest af sveitarstjórn. Standist það ekki og því sé vinna við gerð deiliskipulags Bakkahverfis byggð á röngum forsendum. Ekkert samráð hafi verið haft við eigendur lóðanna vegna þessara breytinga og vandséð hvað búi að baki breytingunum þar sem skipulag af þessum reit sé að öllu leyti í samræmi við skipulagslög.
 
Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Markmið nýs deiliskipulags Bakkahverfis sé að móta heilstætt skipulag sem byggi á þeirri sýn sem sett sé fram í Aðalskipulagi Seltjarnarness 2006-2024. Sé t.a.m. leitast við að staðfesta byggðamynstur hverfisins og feli það m.a. í sér að eldri skipulagsskilmálar séu felldir inn hið nýja skipulag eins og kostur sé. Eðlilegt hafi þótt að taka hús við Bakkavör inn í þá vinnu, sérstaklega þar sem allt skipulagssvæðið myndaði þannig eðlilega heild sem hverfi. Skapi deiliskipulagsáætlanir og skilmálar, sem hvorki voru auglýstir, hlutu staðfestingu ráðherra né samþykki skipulagsstjóra ríkisins, í mörgum tilfellum skipulagslega óvissu og standist ekki núgildandi lög.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru til ársloka 2010, gátu þeir einir gætu skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem áttu lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Af kæru verður ekki ráðið hvaða einstaklingsbundnu hagsmunum kærandi telji hina kærðu ákvörðun raska. Þá seldi kærandi fasteign sína að Bakkavör 6 hinn 13. júní 2013 samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Var afsal gefið út 4. nóvember s.á. og því þinglýst 7. s.m. Mun kærandi nú búsettur í Reykjavík og í töluverðri fjarlægð frá því svæði sem deiliskipulag Bakkahverfis tekur til. Verður því ekki séð að umrætt deiliskipulag snerti lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann teljist eiga kæruaðild varðandi hina umdeildu ákvörðun.

Með vísan til framangreinds verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

114/2013 Gámaþjónusta Austurlands

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 fyrir:
 
Mál nr. 114/2013, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands um breytingu á starfsleyfi til Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra Á Brekkugötu 4, Á, Brekkugerði 11, R, Stekkjarbrekku 5 og S, Eyrarstíg 1, allir á Reyðarfirði, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands frá 27. nóvember 2013 um viðbótarstarfsleyfi og framlengingu starfsleyfis fyrir Gámaþjónustu Austurlands – Sjónarás ehf. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands 14. janúar 2014.

Málavextir: Gámaþjónusta Austurlands – Sjónarás ehf. sótti um breytingu á starfsleyfi sínu til Heilbrigðiseftirlits Austurlands með umsókn, dags. 17. apríl 2013. Samkvæmt umsókninni fólst breytingin í því að nýtt yrði „um 2000 m² lóð innan girðingar sunnan húss til umhleðslu timburs og lestunar gáma til útflutnings“. Vegna breytinganna voru starfsleyfisdrög auglýst í Dagskránni, 42. tbl., og lágu drögin frammi á skrifstofu Fjarðarbyggðar í Molanum til kynningar. Rann umsagnarfrestur út 15. nóvember 2013. Andmæli bárust, m.a. frá kærendum. Starfsleyfi var gefið út 27. nóvember s.á. og sama dag var tveimur kærenda sent bréf þar sem sú ákvörðun var rökstudd. Bent var á kæruleið í málinu og var ákvörðunin kærð með bréfi, dags. 23. desember 2013, eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærendur halda því fram að umdeilt starfsleyfi feli í sér útvíkkun og framlengingu á gildandi starfsleyfi Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf. á geymslusvæði við Hafnargötu 6, sem sé í miðbæ Reyðarfjarðar. Undanfarin ár hafi náðst mikill og jákvæður árangur í uppbyggingu miðbæjarins á Reyðarfirði. Í innan við 500 metra fjarlægð frá því svæði sem umrædd starfsleyfisumsókn nái til hafi á undanförnum árum byggst upp stærsta matvöruverslun Fjarðarbyggðar, skrifstofur Fjarðarbyggðar, verslanir, gistihús og ýmis önnur þjónustustarfsemi. Þessi þróun hafi verið í samræmi við gildandi aðalskipulag, sem gildi frá árinu 2007 til 2027, þar sem svæðið sé skipulagt sem miðbæjarsvæði eða M1. Starfsemi Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf. uppfylli ekkert af þeim skilyrðum eða markmiðum sem séu sett fyrir miðbæjarsvæðið í aðalskipulagi, t.d. fylgi starfseminni miklir þungaflutningar. Deiliskipulag Reyðarfjarðar sé frá árinu 1999 og sé úrelt og ekki í samræmi við aðalskipulagið. Dragi kærendur gildi deiliskipulagsins í efa vegna þessa og telji að fara skuli eftir aðalskipulagi. Nægar lóðir séu innan bæjarfélagsins fyrir iðnaðarsvæði.

Kærendur hafi lögvarða hagsmuni af málinu sem íbúar svæðisins, útsvarsgreiðendur og virkir þátttakendur í mótun aðalskipulagsins. Einn kærenda búi auk þess í næsta nágrenni við skipulagt miðbæjarsvæði skv. aðalskipulagi, eða í um 150 m fjarlægð. Jafnframt hafi hann verið að gæta hagsmuna föður síns, sem hafi átt fasteign í nágrenni við Hafnargötu 6 en sú eign hafi nú verið seld.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Austurlands: Heilbrigðiseftirlitið bendir á að einungis sé um að ræða breytingu á starfsleyfi Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf. en ekki framlengingu, eins og komi fram í kærunni. Fyrra leyfi hafi verið frá 29. janúar 2009 og gilt til 29. janúar 2021. Hið kærða leyfi sé útgefið 27. nóvember 2013 og gildi til 29. janúar 2021. Breytingin á starfsleyfinu felist í því að til viðbótar við starfsemi í húsnæði fyrirtækisins að Hafnargötu 6, Reyðarfirði, sé heimilað að nýta útisvæði til geymslu á tilteknum flokkum efna með ákveðnum skilyrðum sem fram komi í starfsleyfi. Umrætt útisvæði hafi áður verið nýtt undir steypustöð, allt fram í desember 2011. Svæðið sé nú afgirt með steinsteyptum plötum og járni þannig að það myndi aflokað port.

Fullyrðingum um þungaflutninga af völdum starfsemi Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf. um miðbæ Reyðarfjarðar er vísað á bug. Fyrirtækið hafi aðkomu að austan og með því móti sé umferð vegna fyrirtækisins á meginumferðaræð þéttbýlisins þar sem þungaflutningum sé einmitt ætluð leið. Deiliskipulag frá 1999 skilgreini svæðið sem iðnaðar- og hafnarsvæði, en aðalskipulag 2007-2029 hafi ekki verið staðfest af ráðherra fyrr en 24. ágúst 2009, eða sjö mánuðum eftir að starfsleyfi fyrirtækisins hafi fyrst verið gefið út.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Kærendur rökstyðja lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að þeir séu íbúar svæðisins, útsvarsgreiðendur og virkir þátttakendur í mótun aðalskipulags. Ekki verður fallist á að sem slíkir eigi kærendur þeirra einstaklingsbundnu hagsmuna að gæta að það veiti þeim kæruaðild í málinu fremur en öðrum bæjarbúum almennt. Þá liggur fyrir að fasteign þess kæranda sem býr næst þeirri starfsemi sem um ræðir er ekki í þeirri nálægð við hana að umdeild starfsleyfisbreyting hafi þau áhrif á umhverfi hans að það skapi honum einstaklega, lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur búa fjær svæðinu.

Samkvæmt framansögðu eiga kærendur ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, og ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

54/2012 Skútuvogur

Með
Árið 2015, föstudaginn 24. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2012, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. maí 2012  um að hafna beiðni um afskipti stofnunarinnar af málsmeðferð skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar vegna umsóknar um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í atvinnuhúsnæði að Skútuvogi 12.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júní 2012, sem barst nefndinni 4. s.m., kærir Garðar Briem hrl., f.h. SP fasteignafélags ehf., þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. maí 2012 að hafna beiðni um afskipti stofnunarinnar af málsmeðferð skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar vegna umsóknar um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í atvinnuhúsnæði að Skútuvogi 12. Til vara er kærð sú ákvörðun skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar að halda ekki áfram upphaflegu umsóknarferli. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.
   
   
   
Gögn málsins bárust frá Mannvirkjastofnun 20. júní 2012 og frá Reykjavíkurborg 14. ágúst s.á.

Málavextir: Hinn 5. janúar 2012 felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í eignarhluta 03 0103 í húsi nr. 12 við Skútuvog. Hinn 20. s.m. lagði kærandi inn beiðni til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar um að upprunaleg umsókn hans frá 2009 yrði tekin aftur fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa. Var greindri beiðni kæranda hafnað með bréfi lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs, dags. 22. febrúar s.á., og þess krafist að sótt yrði um nýtt byggingarleyfi. 

Með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, beindi kærandi þeirri kröfu til Mannvirkjastofnunar að hún tæki til skoðunar synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á að taka umsókn kæranda aftur til meðferðar. Kallaði stofnunin eftir skýringum frá byggingarfulltrúanum 21. mars s.á., sem bárust 3. apríl s.á. Var greindri beiðni kæranda synjað með bréfi frá Mannvirkjastofnun, dags. 4. maí s.á., en þar segir m.a:  „ Að mati stofnunarinnar er það háð mati byggingarfulltrúa hvort hann óski eftir því að umsækjandi fylli út nýtt umsóknareyðublað og skili til byggingarfulltrúa ásamt nýjum uppdráttum, eftir atvikum samskonar og þeim sem fylgdu fyrri umsókn, eða hvort byggt sé á fyrri umsókn og þeim gögnum sem þeim fylgdu.“
Hinn 11. febrúar 2014 var upphafleg umsókn kæranda frá 2009 tekin fyrir á ný á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík. Var málinu frestað og kallað eftir frekari gögnum, s.s. samþykki nýrra meðeigenda.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að ferli hafi hafist þegar hann hafi lagt inn umsókn til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar og sé því ekki lokið. Hafi skipulags- og byggingarsvið synjað erindi kæranda en úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fellt þá afgreiðslu úr gildi. Úr því að synjun embættisins hafi ekki verið talin gild liggi beint við að hin upprunalega umsókn, sem móttekin hafi verið 2009, sé í fullu gildi og embættið þurfi að taka nýja ákvörðun í stað þeirrar ákvörðunar sem úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi.

Það sé misskilningur embættisins að hinu upprunalega umsóknarferli hafi lokið og að tilefni sé til þess að lögð verði inn ný umsókn. Hafi úrskurðarnefndin talið að hin kærða ákvörðun væri hvorki reist á málefnalegum grunni né studd haldbærum rökum. Af þeim sökum yrði að taka málið á ný til meðferðar og úrskurðar, annaðhvort með samþykki eða synjun. Ekki sé hægt að ætlast til að lögð verði inn ný umsókn um byggingarleyfi. Hafi lögformleg umsókn verið afhent á sínum tíma og eigi það ferli sem þá hafi hafist að ganga sinn veg á enda.

Að auki sé ekki hægt að sætta sig við þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar að það sé háð mati byggingarfulltrúa hvort hann óski eftir því að umsækjandi fylli út nýtt umsóknareyðublað. Virðist stofnunin misskilja ferli umsókna um byggingarleyfi þar sem hún hafi talið að unnt sé að sækja um nýtt byggingarleyfi þegar afstaða hafi ekki verið tekin til fyrri umsóknar um sama erindi og sú umsókn hafi ekki runnið sitt skeið á enda. Með því að taka við erindi kæranda og kalla eftir skýringum frá byggingarfulltrúa hafi málið farið í löglegt ferli innan stofnunarinnar. Ekki séu því haldbær rök til að halda því fram að stofnuninni beri ekki að sinna kærum frá almennum borgurum.

Málsrök Mannvirkjastofnunar: Vísað er til þess að 18. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 feli í sér heimild stofnunarinnar til íhlutunar sem eigi  aðeins að beita í undantekningartilvikum. Heimildinni sé ekki ætlað að vera kæruleið fyrir hinn almenna borgara. Um sé að ræða heimild eins stjórnvalds til afskipta af stjórnsýslu annars stjórnvalds, háð mati þess fyrrnefnda, og sé því eðli máls samkvæmt ekki ákvörðun sem beint sé að borgurunum. Ákvörðunin sé ekki ákvörðun um rétt eða skyldu aðila máls. Af þeim sökum sé ákvörðun um að beita ekki heimild 18. gr. mannvirkjalaga til íhlutunar í stjórnsýslu byggingarfulltrúa ekki stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á grundvelli 59. gr. laganna. Beri því að vísa kærunni frá.

Af hálfu stofnunarinnar hafi það verið talið háð mati byggingarfulltrúa hvort hann óskaði eftir því að umsækjandi fyllti út nýtt umsóknareyðublað og skilaði til byggingarfulltrúa ásamt nýjum uppdráttum, eftir atvikum samskonar og þeim sem fylgt hafi fyrri umsókn, eða hvort byggt yrði á fyrri umsókn og þeim gögnum sem henni hafi fylgt. Við meðferð umsóknar, eftir að mál hafi verið tekið fyrir að nýju, sé byggingarfulltrúa ávallt heimilt á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að óska nýrra afrita af uppdráttum eða frekari gagna, gerist slíks þörf, t.d. ef í ljós kæmi að uppdrættir hafi ekki uppfyllt ákvæði laga og reglugerða eða að afla þyrfti nýrra umsagna. Hafi ekki verið talið að afgreiðsla byggingarfulltrúa hvað þetta varðaði færi í bága við lög. Snúist ágreiningurinn einungis um það hvort umsækjanda sé skylt að fylla út umsóknareyðublað að nýju og sé hann ekki þess eðlis að tilefni sé til íhlutunar á grundvelli 18. gr. laga um mannvirki. Sé bent á að heimildin sé neyðarúrræði sem einungis skuli beitt undantekningartilvikum. Það sé háð mati stofnunarinnar hvort 18. gr. mannvirkjalaga sé beitt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að í þeim tilvikum þar sem úrskurðarnefnd hafi fellt úr gildi synjanir á byggingarleyfisumsóknum hafi það verið venja hjá embætti byggingarfulltrúa að óska eftir nýrri byggingarleyfisumsókn og nýjum uppdráttum stæði vilji til að fá mál tekin fyrir að nýju. Hafi verið litið svo á að með úrskurðum úrskurðarnefndarinnar sé bundinn endir á tiltekið mál og því þurfi að stofna nýtt mál sé óskað frekari meðferðar. Sé á það bent að úrskurðarnefndin hafi ekki lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka málið fyrir að nýju. Mál líkt og það sem hér um ræði sé því ekki tekið upp að frumkvæði embættisins heldur verði að koma fram ósk um það. Hafi embættið því litið svo á að eðlilegast væri að bera þá ósk fram í formi nýrrar umsóknar, sem fái þá nýja umfjöllun.

Sú krafa að umsækjandi leggi fram nýja uppdrætti sé bæði eðlileg og nauðsynleg. Sé í því sambandi vísað til þeirra skýringa sem áður hafi komið fram af hálfu embættisins að ekki þyki viðeigandi að notast við uppdrætti sem áður hafi verið stimplaðir með synjun. Slík notkun á gögnum embættisins geti verið til þess fallin að valda ruglingi eða misskilningi síðar meir, enda sé um opinber skjöl að ræða sem lýsi sjálfstætt tilteknum lyktum máls og geti haft þýðingu síðar, t.d. í dómsmálum. Megi af þeim sökum einnig halda því fram að það sé með öllu óheimilt að breyta slíkum gögnum með nýjum eða breyttum áritunum.

Verði ekki með nokkru móti séð að sú einfalda gagnaöflun, þ.e. að fylla út byggingarleyfisumsókn og útvega afrit uppdrátta, sé svo íþyngjandi, kostnaðarsöm, erfið eða ósanngjörn fyrir umsækjanda að ekki megi beina þeim tilmælum til hans að leggja þau fram, enda sé málið til orðið að hans frumkvæði. Sérstaklega sé vísað til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í þeim efnum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar Mannvirkjastofnunar um að hafna beiðni um afskipti stofnunarinnar af málsmeðferð skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar. Að auki er deilt um þá málsmeðferð borgarinnar vegna umsóknar kæranda um byggingarleyfi.

Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðunin verður þó að binda endi á mál til þess að hún sé kæranleg, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Á grundvelli 18. gr. mannvirkjalaga getur Mannvirkjastofnun tekið til athugunar hvort afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi farið í bága við lög. Stofnunin kallaði eftir gögnum frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík á grundvelli 1. mgr. nefndrar lagagreinar en niðurstaða stofnunarinnar var að ekki væri tilefni til íhlutunar. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. skal stjórnsýsla máls vera í höndum byggingarfulltrúa þegar meðferð Mannvirkjastofnunar er lokið og er málið nú til meðferðar hjá byggingarfulltrúa á grundvelli upphaflegrar umsóknar kæranda, eins og nánar er lýst í málavöxtum. Sætir meðferð málsins ekki lögmætisathugun nefndarinnar fyrr en endanleg niðurstaða liggur fyrir, sem eftir atvikum er þá kæranleg til nefndarinnar. Ljóst er af framangreindu að málinu er ólokið og liggur því ekki fyrir nein sú ákvörðun sem bundið getur endi á mál í skilningi áðurgreindrar 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

96/2013 Sveinbjarnargerði

Með
Árið 2015, föstudaginn 24. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2013 kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 11. september 2013 um að hafna kröfu Sveitahótelsins í Sveinbjarnargerði um að stöðva rekstur alifuglabús Græneggs ehf. í Sveinbjarnargerði, Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2013, sem barst nefndinni 10. s.m., kærir Ólafur Rúnar Ólafsson hrl., f.h. J og Sveitahótelsins í Sveinbjarnargerði, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 11. september 2013 að hafna því að stöðva rekstur alifuglabús Grænegg ehf. í Sveinbjarnargerði, Svalbarðsstrandarhreppi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra 17. desember 2013.

Málavextir: Alifuglarækt mun hafa verið stunduð í Sveinbjarnargerði um áratuga skeið en hinn 1. september 2012 tók Grænegg ehf. við rekstri alifuglabúsins. Á sömu bújörð hefur verið stundaður hótel- og veitingarekstur í rúman áratug. Hinn 22. ágúst 2013 sendu kærendur beiðni til heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra um stöðvun á starfsemi alifuglabúsins þar sem starfsleyfi væri ekki fyrir hendi og búið væri í of miklu nábýli við hótelið og íbúðarhúsnæði kærenda.

Á fundi heilbrigðisnefndar 11. september s.á. var beiðni kærenda synjað í ljósi þess að rekstraraðilar búsins hefðu þegar gert ýmsar úrbætur til að koma í veg fyrir og lágmarka líkur á að viðskiptavinir ferðaþjónustu á bújörðinni yrðu fyrir óþægindum. Var eftirfarandi fært til bókar: „… að teknu tilliti til þess að heilbrigðisnefnd nýtti sér á sínum tíma leiðbeiningu Hollustuverndar ríkisins þess efnis að ef vafi lægi á því hvort telja eigi alifuglabú með í hópi starfsleyfisskyldra fyrirtækja, þá mætti taka mið af því hvort viðkomandi starfsemi hefði í vinnu aðkeyptan starfskraft eða ekki; þá hafnar heilbrigðisnefnd kröfu Sveitahótelsins í Sveinbjarnargerði þess efnis að rekstur alifuglabúsins „Grænegg ehf.“ í Sveinbjarnargerði verði stöðvaður.“ Þá vísaði nefndin til eldri bókunar sinnar um mikilvægi deiliskipulags og ítrekaði nauðsyn þess að hagsmunaaðilar hefðu frumkvæði og samstarf um vinnslu deiliskipulags fyrir bújörðina í heild til samræmis við aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps. Loks var bókað: „Deiliskipulag er forsenda þess að heilbrigðisnefnd geti tekið afstöðu til umsókna um ný starfsleyfi og endurnýjun starfsleyfa í Sveinbjarnargerði og þannig er afar brýnt að ljúka skipulagsvinnu fyrir bújörðina.“

Á árinu 2014 tóku nýir aðilar við rekstri hótelsins en kærendur búa enn á bújörðinni.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ekki hafi verið gefið út starfsleyfi fyrir rekstri alifuglabúsins frá heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra. Hafi rekstur alifuglabúsins hafist 1. september 2012 og hýsi það um 9.000 hænur til framleiðslu eggja. Samrýmist starfsemi alifuglabúsins hvorki hagsmunum þeirra aðila sem búi í Sveinbjarnargerði né starfseminni sem þar sé rekin og sé í raun ekki heimilt að reka slíka starfsemi á svæðinu. Kærendur telji að rekstur alifuglabús, líkt og það sem sé rekið í Sveinbjarnargerði II, sé starfsleyfisskyldur skv. 7. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Komi fram í greininni að óheimilt sé að hefja starfsleyfisskyldan rekstur án þess að starfsleyfi hafi verið gefið út. Samkvæmt lið 6.2 í fylgiskjali 2 með reglugerðinni segi að alifuglarækt með 40.000 stæði eða færri sé háð starfsleyfi heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Að auki sé óheimilt að hafa alifuglabú í minni fjarlægð en 500 m frá öðrum mannabústöðum en búinu sjálfu, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Gerðar séu athugasemdir við skilning heilbrigðisnefndarinnar um að ekki þurfi starfsleyfi þar sem um hefðbundinn fjölskyldurekstur á lögbýli sé að ræða. Um sé að ræða nokkur þúsund fugla en ekki einungis nýtingu fjölskyldu á afurðunum og haldi einkahlutafélag utan um reksturinn. Að auki sé bent á að afurðir búsins séu seldar samkvæmt framleiðsluleyfi frá Matvælastofnun. Telji kærendur að ekki sé unnt að veita starfsleyfi til reksturs alifuglabús á þessum stað og því full ástæða til að stöðva rekstur þess enda ekki talið heimilt að reka slíka mengandi starfsemi á svæðinu. Þrátt fyrir að kærendur hafi ekki lengur rekstur sveitahótelsins með höndum búi þeir enn á jörðinni og sé ónæði af starfseminni fyrir íbúa.

Málsrök heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra: Af hálfu heilbrigðisnefndar er skírskotað til þess að alifuglaræktun hafi verið í Sveinbjarnargerði í um 50 ár en ferðaþjónusta hafi byggst upp á bújörðinni á árunum 1998-2002. Hafi sú þróun átt sér stað að húsakosti til landbúnaðarframleiðslu hafi verið breytt til að reka ferðaþjónustu jafnhliða landbúnaðartengdri starfsemi. Samkvæmt aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps sé Sveinbjarnargerði á landbúnaðarsvæði. Að auki sé Sveinbjarnargerði merkt með hringtákni í aðalskipulaginu, sem veiti heimild til verslunar- og þjónustustarfsemi umfram almennar heimildir skipulagsins. Merkingin takmarki hins vegar ekki heimildir til búrekstrar. Starfsemi eggjaframleiðslu og ferðaþjónustu í Sveinbjarnargerði sé í samræmi við aðalskipulag. Verði að skoða 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti í samræmi við aðalskipulag á svæðinu og þá heilbrigðisreglugerð sem hafi verið í gildi þegar alifuglarækt hafi verið á jörðinni. Samkvæmt aðalskipulagi sé heimilt að nýta og reisa byggingar fyrir atvinnustarfsemi sem falli vel að búrekstri, og samkvæmt ákvæði 137.3 í eldri heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990 hafi verið heimilt að reisa slík bú nær mannabústöðum, þar með töldum sumarbústöðum á aðliggjandi bújörðum, með samþykki hlutaðeigandi ábúenda og eigenda. Hafi sveitarstjórn heimilað að breyta Sveinbjarnargerði II b, c og d í sveitahótel á þeim tíma sem greint ákvæði hafi verið í gildi og á þeim grundvelli hafi heilbrigðisnefnd veitt starfsleyfi fyrir ferðaþjónustunni.

Á sínum tíma hafi verið skoðað hvort starfsleyfi þyrfti fyrir rekstri alifuglaræktunar í Sveinbjarnargerði og hafi leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins verið fylgt. Þar hafi verið kveðið á um að ef vafi léki á því hvort telja ætti alifuglabú með í hópi starfsleyfisskyldra fyrirtækja mætti taka mið af því hvort viðkomandi starfsemi hefði aðkeyptan starfskraft eða ekki. Hafi ákvæðið átt við á sínum tíma. Samkvæmt þeim upplýsingum sem heilbrigðiseftirlitið hafi um rekstur Græneggs ehf. sé um fjölskyldufyrirtæki að ræða og sé því ekki hægt að stöðva reksturinn. Að auki sé ein forsendan fyrir því að hægt sé að taka afstöðu til umsókna um ný starfsleyfi fyrir deiliskipulag af starfssvæði starfsleyfisskyldrar starfsemi liggi fyrir, sbr. gr. 10.1 og 10.2 í reglugerð nr. 785/1999. Ekkert deiliskipulag sé hins vegar til fyrir umrædda bújörð. Á það hafi verið bent og aðilar hvattir til að vinna að slíku skipulagi fyrir bújörðina í samræmi við aðalskipulag. Á undanförnum mánuðum hafi Grænegg ehf. gripið til ýmissa endurbóta og mótvægisaðgerða til að koma í veg fyrir og lágmarka líkur á að viðskiptavinir ferðaþjónustunnar verði fyrir óþægindum frá búrekstri á lögbýlinu. Sé áréttað að á meðan ekki liggi fyrir deiliskipulag fyrir bújörðina sé hvorki hægt að gefa út starfsleyfi né stöðva starfsemi Græneggs ehf., enda þurfi að liggja fyrir veigamikil rök svo að landbúnaðartengdri starfsemi á bújörð verði útrýmt. Hafi slík rök ekki verið lögð fram í málinu.

Athugasemdir Græneggs ehf: Grænegg ehf. bendir á að ekki sé um nýjan rekstur að ræða heldur hafi eggjabú verið rekið á lögbýlinu Sveinbjarnargerði samfleytt í rúm 50 ár. Félagið hafi hins vegar hafið rekstur 1. september 2012 og fengið endurnýjaða framleiðsluheimild á vistvænum eggjum. Að auki hafi það heimild Matvælastofnunar til sölu og dreifingar á eggjum, sem og sérstaka heimild til framleiðslu á eggjamassa. Það sé því rangt að eggjabúið hafi ekki tilskilin leyfi til eggjaframleiðslu. Að auki sé því mótmælt að eggjaframleiðslan hafi verið óveruleg síðastliðin ár. Við það að hverfa frá búreldi og fara í vistvæna eggjaframleiðslu hafi tímabundið orðið veruleg fækkun á varpfuglum, eða úr 10.000 í um 4.000, en vistvæn eggjaframleiðsla krefjist um þrefalt stærri gólfflatar en búreldi. Bent sé á að sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps hafi óskað meðmæla Skipulagsstofnunar vegna breyttrar notkunar á aflögðu alifuglahúsi, sem nú hýsi gistiálmu sveitahótelsins, og standi hvað næst varphænsnahúsi eggjabúsins. Skipulagsstofnun hafi engar athugasemdir gert við að sveitarstjórn afgreiddi umrætt erindi. Hvorki hafi verið leitað umsagna þáverandi rekstraraðila eggjabúsins vegna breytinganna á húsinu né verið sótt um sérstaka undanþágu frá 500 m reglunni um fjarlægð starfsemi frá mannabústöðum. Geti umrædd 500 m regla því ekki takmarkað rekstur eggjabúsins þar sem ferðaþjónustan hafi komið til síðar. Jörðin Sveinbjarnargerði sé á svæði sem í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 sé skilgreint sem landbúnaðarsvæði L1, en samkvæmt skilgreiningunni sé búvöruframleiðsla heimiluð þar. Samræmist rekstur eggjabúsins því aðalskipulaginu.

Eggjaframleiðsla og annar búskapur sé eftirlitsskyldur og hafi eggjabúið alltaf haft þau leyfi sem krafist hafi verið á hverjum tíma. Snúi eftirlit heilbrigðisnefnda fyrst og fremst að mengunarþætti. Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hafi túlkað tilmæli Hollustuverndar ríkisins frá árinu 2000 þannig að eggjabú eins og hér um ræðir væri ekki starfsleyfisskylt út frá mengunarsjónarmiðum og um væri að ræða fjölskyldubúrekstur á lögbýli. Skipti rekstrarform búsins því engu máli.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra á kröfu kærenda um stöðvun á rekstri alifuglabús Græneggs ehf. í Sveinbjarnargerði, en kærendur eru búsettir á sömu bújörð og ráku þar áður sveitahótel.

Hinni kærðu ákvörðun er lýst í málavöxtum og verður af bókun heilbrigðisnefndar ráðið að hún hafi einkum byggst á tvennu. Annars vegar á því að nefndin hafi ekki talið að um starfsleyfisskyldan rekstur væri að ræða, með vísan til nánar tilgreindra sjónarmiða, og því væri ekki rétt, að teknu tilliti til meðalhófs, að stöðva starfsemina. Hins vegar á því að deiliskipulag væri forsenda þess að afstaða yrði tekin til umsókna um ný starfsleyfi og endurnýjun starfsleyfa í Sveinbjarnargerði.

Um hollustuhætti og mengunarvarnir gilda lög nr. 7/1998 og er markmið þeirra að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Reglugerð þess efnis, nr. 785/1999 með síðari breytingum, hefur verið sett og í fylgiskjali 2 með henni er talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi, þ. á m. alifuglarækt með 40.000 stæði eða færri, sbr. lið 6.2. Í 7. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um starfsleyfisskyldu og samkvæmt 1. mgr. skal allur atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. m.a. áðurnefnt fylgiskjal 2. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að óheimilt sé að hefja starfsleyfisskyldan atvinnurekstur án þess að starfsleyfi hafi verið gefið út. Í reglugerðinni er jafnframt að finna ákvæði til bráðabirgða og segir þar í ákvæði II að atvinnurekstur, sem falli undir fylgiskjal 2 og sé starfandi við gildistöku reglugerðarinnar, hafi þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 7. gr. frest til 1. janúar 2001 til að afla sér starfsleyfis. Samkvæmt 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins skyldu heilbrigðisnefndir gera áætlun fyrir 1. mars 2000 um útgáfu starfsleyfis til handa atvinnurekstri sem starfandi var án starfsleyfis í umdæmi þeirra við gildistöku reglugerðarinnar.

Ágreiningslaust er að nokkur þúsund alifuglar eru haldnir til Sveinbjarnargerði vegna eggjaframleiðslu og fellur sú starfsemi því undir lið 6.2 í fylgiskjali 2 með reglugerðinni. Samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða bar að afla sér starfsleyfis fyrir slíkan atvinnurekstur fyrir 1. janúar 2001 og var með því gefinn ákveðinn aðlögunartími frá gildistöku reglugerðarinnar til að starfandi atvinnurekstur gæti aflað sér tilskilinna leyfa. Stóðu nefnd reglugerðarákvæði því í vegi að heilbrigðisnefnd gæti á því byggt, við töku hinnar kærðu ákvörðunar í september 2013, að nefndin hefði áður ekki talið um starfsleyfisskyldan rekstur að ræða.

Í gr. 10.2 í reglugerð nr. 785/1999 er talið upp hvaða gögn skuli fylgja umsóknum um starfsleyfi en jafnframt tekið fram að þau gögn skuli fylgja eins og við eigi hverju sinni. Afrit af staðfestu deiliskipulagi var tilgreint sem eitt slíkra gagna í þágildandi b-lið ákvæðisins, sem samkvæmt núverandi hljóðan ákvæðisins tilgreinir afrit af gildandi deiliskipulagi eða gildandi aðalskipulagi sé deiliskipulag ekki til staðar. Samkvæmt Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 er Sveinbjarnargerði á landbúnaðarsvæði sem merkt er L1. Segir um svæðið að um sé að ræða gott landbúnaðarland sem vel sé fallið til ræktunar og búvöruframleiðslu, sem skuli vera meginlandnotkun á svæðinu. Jafnframt verði heimilt að nýta og reisa byggingar fyrir atvinnustarfsemi sem falli vel að búrekstri og nýtingu viðkomandi jarðar og hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfi sitt. Fyrst og fremst sé átt við atvinnugreinar sem séu eðlileg viðbót við búreksturinn og stoðgreinar við landbúnað, sem áfram verði meginlandnotkun á svæðinu. Þetta eigi t.d. við um almenna ferðaþjónustu, s.s. „ferðaþjónustu bænda,“ gistiaðstöðu og greiðasölu í tengslum við hana. Meginregla verði sú að uppbygging verði samkvæmt deiliskipulagi. Þá segir í kafla 4.6 um verslunar- og þjónustusvæði að á sveitarfélagsuppdrætti megi merkja þjónustustarfsemi með hringtákni á viðkomandi lögbýli í stað ákveðinnar landfræðilegrar afmörkunar. Hefur slík merking verið gerð vegna hótelsins að Sveinbjarnargerði, sem merkt er með hring V3, og segir að uppbygging sé samkvæmt deiliskipulagi. Verður hvorki séð að tilvitnað reglugerðarákvæði né aðalskipulag standi því í vegi að leyfi sé veitt fyrir starfsemi eggjabúsins án þess að fyrir liggi deiliskipulag og gat heilbrigðisnefnd því ekki byggt hina kærðu ákvörðun á því.

Af öllu framangreindu er ljóst að hin kærða ákvörðun byggði á röngum forsendum og verður hún því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 11. september 2013 um að hafna því að stöðva rekstur alifuglabús Grænegg ehf. í Sveinbjarnargerði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

39/2011 Fjörður 1 – Mjóafjörður

Með
Árið 2015, föstudaginn 17. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 20. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði, Fjarðabyggð, og að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi á sama stað.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. júní 2011, er barst nefndinni 16. s.m., kærir, annar sameigenda jarðarinnar Fjarðar 1 í Mjóafirði, Fjarðabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Fjarðabyggð frá 20. maí 2011 að samþykkja byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði og að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi á sama stað. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun um afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar verði felld úr gildi og að leyfishafa verði gert að fjarlægja byggingarnar.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. júní 2011, er barst nefndinni 16. s.m., kærir sami kærandi ákvörðun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 12. maí 2011 um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegar í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að nefnd ákvörðun verði felld úr gildi og framkvæmdaaðila verði gert að fjarlægja veginn og afmá jarðrask vegna hans.

Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 42/2011, sameinað máli þessu.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Fjarðabyggð 11. júlí 2011 og viðbótargögn 26. febrúar 2015.

Málavextir: Jörðin Fjörður 1 var í óskiptri sameign kæranda og framkvæmdaaðila, en þau eignuðust hana með gjafaafsali frá móður sinni 9. janúar 1984. Íbúðarhús sem stendur á jörðinni var selt frá henni árið 1978 ásamt útihúsum og keypti framkvæmdaaðili það árið 1995. Í kaupsamningum um íbúðarhúsið, dags. 5. júní 1978 og 3. febrúar 1995, segir meðal annars: „Í kaupunum [felst] leiga á 5000 fermetra lóð umhverfis húsið. Um lóðamörk skal gera nánari samning síðar.“ Ekki verður af gögnum málsins ráðið að sú fyrirætlan hafi gengið eftir en þrátt fyrir það var lóðin skráð í fasteignaskrá á árinu 2006 án þess að staðsetning hennar væri afmörkuð. Með úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 5. mars 2013, var ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 10. nóvember 2006 um að breyta fasteignaskráningu fasteignarinnar Fjarðar 1, landnr. 158124, og stofna með því 5.000 m2 lóð með landnr. 209836 í fasteignaskrá, felld úr gildi og lagt fyrir Þjóðskrá Íslands að taka málið til nýrrar meðferðar.

Kærandi sendi byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar erindi hinn 3. ágúst 2010 vegna framkvæmda í landi Fjarðar 1, annars vegar við geymsluhús yfir tvo 20 feta gáma og hins vegar við rafstöðvarhús. Húsin höfðu þá þegar verið reist. Einnig var þar nefndur nýr 400 m langur vegur frá Mjóafjarðarvegi og að íbúðarhúsinu sem lægi um 50 m innar í dalnum en eldri vegur. Í bréfinu vísaði kærandi til þess að ekki hefði verið aflað leyfis fyrir framkvæmdunum og skort hefði samþykki sameigenda að landinu fyrir þeim. Farið var fram á að framkvæmdaaðila yrði gert að afla tilskilinna leyfa auk samþykkis sameigenda, ellegar yrði honum gert að fjarlægja byggingarnar og veginn.

Framkvæmdaaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri skýringum vegna áðurnefndra framkvæmda og gerði hann það með bréfi til byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 23. september 2010. Í því segir að reistur hafi verið bráðabirgðaskúr yfir rafstöð sökum lélegs ástands fjóss sem áður hýsti rafstöðina. Hann hafi talið skúrinn vera undir þeim stærðarmörkum sem sækja þyrfti um byggingarleyfi fyrir. Geymsluhúsið hafi verið endurbygging og viðhald á gömlu fjárhúsi og hafi engar breytingar haft í för með sér á útliti gamla hússins. Hann hafi því talið að ekki væri um leyfisskylda framkvæmd að ræða. Þá hafi vegurinn upp frá Mjóafjarðarvegi verið lagður meðfram læknum Beljanda. Lækurinn beri ávallt talsvert magn af framburði og meðfram austurbrún hans hafi hlaðist upp mikið af grjóti sem slétt hafi verið út í umræddan veg ásamt einhverju af aukaefni, en vegurinn hafi verið lagður í september 2007. Enginn vegur hafi áður legið upp að fasteigninni en ekið hafi verið upp eftir túni Fjarðar 1.

Byggingarfulltrúi svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 20. desember 2010, þar sem viðhorfum byggingaryfirvalda var lýst og tekið fram að eigendum umræddra bygginga yrði gert að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim og um framkvæmdaleyfi fyrir veginum. Í kjölfarið kærði kærandi afgreiðslu byggingarfulltrúa á erindinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem vísaði kærunni frá hinn 1. apríl 2011 með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki hafi legið fyrir lokaákvörðun í málinu sem borin yrði undir úrskurðarnefndina.

Framkvæmdaaðili sótti hinn 1. apríl 2011 um byggingarleyfi fyrir 42 m2 geymsluhúsi og 9,6 m2 rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1. Erindið var tekið fyrir á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 11. s.m. og samþykkti nefndin að byggingarfulltrúi gæfi út byggingarleyfi fyrir báðum húsunum. Byggingarfulltrúi tilkynnti framkvæmdaaðila um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 18. apríl 2011, og upplýsti jafnframt að málið hefði verið tekið fyrir á fundi nefndarinnar sem fyrirspurn og að á þeim grundvelli hefði verið veitt undanþága frá kröfum um hönnunargögn samkvæmt gr. 12.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Teikningum af húsunum tveimur hefði verið skilað inn og hefðu teikningar vegna rafstöðvarhússins verið metnar fullnægjandi með hliðsjón af stærð og eðli byggingarinnar. Byggingarfulltrúi kallaði hins vegar eftir frekari hönnunargögnum vegna geymsluhússins og var þess óskað að þeim yrði skilað eigi síðar en 13. maí 2011.

Með bréfi, dags. 20. maí 2011, tilkynnti byggingarfulltrúinn í Fjarðabyggð framkvæmdaaðila að umbeðnar teikningar af geymsluhúsinu hefðu ekki borist og yrði erindi um byggingarleyfi vegna þess því hafnað og eigendum gert að fjarlægja það. Leyfi væri hins vegar veitt fyrir rafstöðvarhúsi. Kæranda var tilkynnt um þessa niðurstöðu með bréfi byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 24. maí 2011.

Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 12. maí 2011 var tekið fyrir erindi framkvæmdaaðila þar sem sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir veglagningu í landi Fjarðar 1. Samkvæmt bókun í fundargerð þess fundar hafði Fjarðabyggð með óformlegum hætti leitað umsagnar Skipulagsstofnunar vegna vegagerðarinnar, sbr. bráðabirgðaákvæði 1 í skipulagslögum nr. 123/2010. Stofnunin var ekki tilbúin að mæla með veglagningunni, sem þegar hafði farið fram, auk þess sem samþykki allra landeigenda þyrfti að liggja fyrir áður en framkvæmdaleyfi yrði gefið út. Um óleyfisframkvæmd væri að ræða sem félli undir 53. gr. skipulagslaga, en í 3. mgr. þeirrar greinar segði að skipulagsfulltrúi gæti krafist þess að hin ólöglega framkvæmd yrði fjarlægð. Niðurstaða eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar var svohljóðandi: „Nefndin getur ekki gefið út framkvæmdaleyfi nema fyrir liggi samþykki allra landeigenda. Að öðrum kosti þurfa landeigendur að fjarlægja veginn.“ Framkvæmdaaðila var tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar með bréfi, dags. 18. maí 2011, og fékk kærandi afrit af því bréfi hinn 27. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að byggingarfulltrúinn í Fjarðabyggð hafi, við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi og geymsluhúsi í landi Fjarðar 1, litið fram hjá því skilyrði laga að samþykki meðeigenda þyrfti að liggja fyrir ef um sameign væri að ræða. Afgreiðsla byggingarleyfisumsóknarinnar hafi verið ólögmæt af þessum sökum. Telur kærandi sig ekki geta unað við þetta enda sé það verulegt hagsmunamál fyrir hann að skipulags- og byggingaryfirvöld virði friðhelgan eignarrétt hans. Þá gerir kærandi þá athugasemd við afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar á umsókn um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar í landi Fjarðar 1 að með ákvörðun nefndarinnar séu aðrir landeigendur, sem hvergi hafi komið nálægt veglagningunni, gerðir ábyrgir til jafns við framkvæmdaaðila fyrir því að fjarlægja veginn. Rétt hefði verið að krefja framkvæmdaaðila um að fjarlægja hann og afmá jarðrask vegna hans innan tiltekins frests. Afgreiðsla nefndarinnar hafi verið illa ígrunduð eða byggst á geðþótta nefndarmanna fremur en lögum og því sé rétt að fella hana úr gildi.

Íbúðarhúsið á umræddri jörð hafi verið skráð á landnúmer 158124 allt til ársins 2006 en þá hafi verið stofnuð 5.000 m2 lóð innan sameignarinnar með landnúmeri 209836, án vitundar og samþykkis kæranda. Afgreiðsla byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar á byggingarleyfisumsókninni hafi meðal annars byggst á hugmyndum um eignarrétt framkvæmdaaðila á lóð umhverfis íbúðarhúsið. Í minnisblaði byggingarfulltrúa til eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 8. apríl 2011, komi til að mynda fram að afmörkun lóðarinnar sjáist greinilega á loftmynd. Byggingarfulltrúi hafi virst líta svo á að framkvæmdir við geymsluhúsið og rafstöðvarhúsið væru kæranda óviðkomandi og að framkvæmdaaðili væri ekki bundinn af kröfu um samþykki meðeiganda vegna mannvirkjagerðar í landi sem kærandi væri þinglýstur eigandi að. Bent sé á að þegar framkvæmdaaðili hafi keypt íbúðarhúsið hafi ekkert fjárhús fylgt því heldur aðeins tóft af fjárhúsi. Í fasteignaskrá séu ekki önnur hús en íbúðarhúsið skráð á lóð nr. 209836.

Hvað veglagninguna varðar bendir kærandi á að ekki hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi fyrir veginum vegna þess að Skipulagsstofnun hafi áður hafnað því að gefa út meðmæli fyrir framkvæmdinni þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki allra landeigenda. Í kjölfarið hafi eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar tekið ákvörðun um að aðhafast ekkert í málinu og framkvæmdaaðila hafi ekki verið gefinn ákveðinn frestur til þess að fjarlægja veginn. Ljóst sé að sú afgreiðsla eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar sé ekki til þess fallin að knýja á um að framkvæmdaaðili afli samþykkis allra landeigenda fyrir veginum eða fjarlægi hann. Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd hafi með afgreiðslu sinni tekið ákvörðun um að það sé ekki sveitarfélagsins að hafa afskipti af veglagningunni og jafnframt að það sé kæranda að fjarlægja óleyfisframkvæmdina uni hann því ekki að framkvæmdin standi.

Málsrök Fjarðabyggðar:
Í athugasemdum byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar vegna kæru á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi og rafstöðvarhúsi kemur fram að ástæða þess að kærandi hafi upphaflega borið upp erindi sitt við Fjarðabyggð hafi verið sú að ekki hafi náðst sátt milli landeigenda um landskipti hluta jarðarinnar Fjarðar 1, landnr. 158124. Kærandi hafi sent erindi til Fjarðabyggðar um að umræddar byggingar yrðu fjarlægðar en þá hafi þær þegar staðið í um tvö ár með vitneskju kæranda. Röksemdir kæranda fyrir kröfu um niðurrif bygginga hvíli á því að þær standi á sameignarlandi Fjarðar 1, landnr. 158124. Á hinn bóginn hafi framkvæmdaaðili vísað til þess að hann leiði rétt sinn af kaupsamningi, dags. 5. júní 1978, og afsali, dags. 29. desember 1979. Kaupsamningurinn frá 1978 feli í sér að húseignir á svæðinu fái tiltekin lóðarréttindi sem hafi óskilgreind mörk. Ljóst sé að eignaréttarlegur ágreiningur sé um þýðingu skjalsins út frá texta þess og meginreglum eignaréttar.

Erindi kæranda hafi komið til umfjöllunar eftir að umdeildar húseignir voru reistar. Þegar til umfjöllunar sé krafa um niðurrif húseigna komi meðal annars til skoðunar sjónarmið um eignarétt framkvæmdaaðila og meðalhóf. Kröfur kæranda hvíli á eignaréttarlegu ágreiningsatriði sem sveitarfélagið taki ekki afstöðu til en eðli máls samkvæmt verði þó að leggja til grundvallar einfalda skýringu á efnisinntaki þinglýstra skjala. Kaupsamningurinn frá 1978 vísi til sölu íbúðarhúss og útihúsa og ekki virðist óvarfærið að álykta á þá leið að 5.000 m2 lóðin liggi undir hinum seldu mannvirkjum, enda verði ekki annað ráðið en að ætlun aðila hafi verið að þau hefðu einhvers konar lóðarréttindi. Þær framkvæmdir sem kæran nái til séu í eða við tóftir útihúsa, sem kaupsamningurinn frá 1978 vísi til, og þar með á svæði sem lóðarréttindi nái til. Afgreiðsla Fjarðabyggðar hafi jafnframt hvílt á meðalhófssjónarmiðum, sjónarmiðum um stöðu stjórnvalda við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana og meginreglum um að forðast eyðileggingu verðmæta. Sveitarfélagið hafi lagt til grundvallar að umræddar húseignir væru innan 5.000 m2 svæðis sem væri í umráðum framkvæmdaaðila. Afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi fyrir umdeildum mannvirkjum hafi tekið mið af jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og framlagningu framkvæmdaaðila á umkröfðum gögnum.

Í athugasemdum frá fasteigna- og framkvæmdafulltrúa Fjarðabyggðar vegna kæru á afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar í landi Fjarðar 1 er áréttað að framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út fyrir veglagningunni. Í bókun sveitarfélagsins hafi komið fram að án samþykkis allra landeigenda væri ekki unnt að gefa út framkvæmdaleyfi og kæmi þá til þess að fjarlægja þyrfti framkvæmdina. Í upphaflegu erindi kæranda hafi því verið beint til Fjarðabyggðar að framkvæmdaaðila yrði gefinn kostur á að afla samþykkis sameigenda fyrir framkvæmdunum. Erindi kæranda hvíli í raun á því að fullreynt verði hvort sameigendur Fjarðar samþykki umdeilda veglagningu. Afgreiðsla eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar hafi tekið mið af þessum sjónarmiðum kæranda og sé í samræmi við meðalhófsreglur, sérstaklega þegar komi til skoðunar að beita íþyngjandi úrræðum eins og fylgi kröfu um að mannvirki verði fjarlægð. Í ljósi þessa hafi bókun sveitarfélagsins falið í sér að svigrúm væri fyrir aðila til að fullreyna að ná samkomulagi. Ljóst sé að bókun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar geri ráð fyrir að landeiganda og framkvæmdaaðila verði sett nákvæmari skilyrði síðar fyrir fjarlægingu vegarins, svo sem um tímafrest og hvaða kröfur verði gerðar til svæðisins eftir að vegurinn hafi verið fjarlægður. Vegurinn sé að nokkrum hluta byggður á uppmokstri úr árfarvegi til að verja land og því kunni það aðeins að fela í sér minni háttar framkvæmdir að fjarlægja hann. Af hálfu Fjarðabyggðar hafi ekki staðið til að leggja á kæranda ábyrgð á að fjarlægja veginn enda sé ljóst að bókun sveitarfélagsins verði ekki grundvöllur slíkra þvingunarúrræða.

Athugasemdir framkvæmdaaðila: Í athugasemdum framkvæmdaaðila kemur fram að geymsluhúsið sem fjallað sé um í málinu sé gamla fjárhúsið í Firði. Auk þess sé í málinu fjallað um bráðabirgðaskúr yfir rafstöð. Byggingarfulltrúi hafi synjað um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsinu sökum ófullnægjandi teikninga en unnið sé að því að útbúa teikningar og stefnt sé að því að leggja þær fram.

Geymsluhúsið sé séreign framkvæmdaaðila samkvæmt kaupsamningi frá 1995 en með honum, sem og kaupsamningnum frá 1978, hafi íbúðarhúsið verið selt „ásamt útihúsum“. Fasteignamat frá 25. nóvember 1978 varpi skýrara ljósi á það hvaða útihús átt sé við en þá hafi útihúsin í Firði verið fjós, fjárhús, hlaða og geymsla. Lýsingar á áðurnefndum útihúsum sé að finna í allsherjarfasteignamati frá 20. öld, þar sem finna megi ítarlegar lýsingar á jörðum á Íslandi og öllum eignum sem þeim fylgdu. Leggur framkvæmdaaðili meðal annars fram upplýsingar úr viðbótar- og endurmati frá 1955 og 1967, ásamt fasteignamatinu frá 1978. Engar ákvarðanir séu til um niðurrif mannvirkjanna sem tiltekin séu í fasteignamatinu frá 1978 og ljóst sé að fjósið og fjárhúsið standi enn. Vel megi vera að skráningu útihúsa í núverandi fasteignaskrá sé ábótavant en það sé ekki óeðlilegt í ljósi þess að á jörðinni fari ekki lengur fram búskapur.

Bygging bráðabirgðaskúrs yfir rafstöð hafi verið neyðarframkvæmd vegna slæms ásigkomulags fjóssins, þar sem rafstöðin hafi áður verið, en þak þess hafi fokið af í óveðri í janúar 2011. Megi hér vísa til 6. mgr. 61. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Fjarðabyggð hafi ekki borið skylda til að leita samþykkis kæranda vegna veitingar leyfis fyrir framkvæmd á gamla fjárhúsinu, en það sé ekki í eigu kæranda.

Framkvæmdaaðili eigi 5.000 m2 leigulóð sem fylgja eigi íbúðarhúsinu en mörk lóðarinnar séu óákveðin nema að því leyti að hún nái umhverfis íbúðarhúsið í Firði og útihúsin. Að lokum sé á það bent að framkvæmdin á geymsluhúsinu hafi fyrst og fremst verið viðhald og endurbygging gamla fjárhússins sem tilheyri séreign framkvæmdaaðila. Framkvæmdin hafi ekki átt að hafa neinar breytingar á útliti gamla fjárhússins í för með sér en henni hafi ekki verið lokið hvað varði framhlið hússins.

Sú staðhæfing kæranda sé beinlínis röng að eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar hafi tekið ákvörðun um að aðhafast ekkert vegna hinnar umdeildu veglagningar. Nefndin hafi þvert á móti synjað um framkvæmdaleyfi á þeirri forsendu að ekki lægi fyrir samþykki allra landeigenda. Þá geri nefndin aðra landeigendur ekki ábyrga fyrir því að fjarlægja veginn og hvergi í afgreiðslu nefndarinnar á umsókninni sé tilgreint að kærandi eigi að fjarlægja veginn. Óskað hafi verið eftir samþykki kæranda fyrir veginum en það hafi ekki fengist. Engin haldbær rök séu fyrir því að vegurinn verði fjarlægður þar sem hann varni bæði ágangi vatns og umferðar á tún Fjarðar 1.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar á umsókn um byggingarleyfi fyrir þegar reistu geymsluhúsi og rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 og afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins á umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir vegi sem þegar hefur verið lagður þar.

Með hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa var m.a. synjað um leyfi fyrir fyrrgreindu geymsluhúsi og fyrir liggur að eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd hafnaði umsókn framkvæmdaaðila um framkvæmdaleyfi fyrir umræddri veglagningu. Kærandi var ekki umsækjandi leyfanna og verður ekki séð að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að framangreindar ákvarðanir verði felldar úr gildi, enda höfðu þær ekki í för með sér breytingu á stöðu hans frá því sem áður var. Hvað varðar þessa þætti málsins er skilyrði kæruaðildar þágildandi 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 því ekki fyrir hendi og verður þessum hluta kærumálsins af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Vegna krafna kæranda fyrir nefndinni um að framkvæmdaaðila verði gert skylt að fjarlægja geymsluhús, rafstöðvarhús og veg og afmá jarðrask skal tekið fram að valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana eru bornar. Úrskurðarnefndin getur því ekki tekið ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða svo sem krafist er. Sambærilegar kröfur voru þó gerðar í erindi kæranda til byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 3. ágúst 2010, en þar var þess krafist að framkvæmdaaðila yrði veittur frestur til að afla tilskilinna leyfa ásamt samþykki meðeigenda vegna geymsluhúss, rafstöðvarhúss og veglagningar, en yrði ella gert að fjarlægja byggingarnar og veginn tafarlaust og afmá jarðrask vegna þeirra. Af gögnum málsins verður þó ekki séð að erindi kæranda hafi hlotið formlega afgreiðslu hjá sveitarfélaginu. Af framangreindum ástæðum verður því ekki fjallað frekar um þessar kröfur kæranda.

Eins og áður var rakið veitti byggingarfulltrúi Fjarðabyggðar byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1 en sú fasteign er á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Heimildir til frávika frá þessari reglu er annars vegar að finna í 44. gr. laganna, sem fjallar um grenndarkynningu einstakra framkvæmda í þegar byggðum hverfum, og hins vegar í bráðabirgðaákvæði 1 með sömu lögum þar sem heimilað er að veita byggingarleyfi fyrir einstökum mannvirkjum, að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, án þess að fyrir liggi staðfest svæðis- eða aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag. Eins og málum er háttað getur 44. gr. laganna ekki átt við í umræddu tilviki og ekki liggur fyrir að leitað hafi verið meðmæla Skipulagsstofnunar fyrir veitingu hins kærða byggingarleyfis á grundvelli áðurnefnds bráðabirgðaákvæðis. Skorti af þessum sökum lagaskilyrði fyrir veitingu hins kærða byggingarleyfis.

Ekki liggur fyrir í gögnum málsins að gerður hafi verið sérstakur samningur um afmörkun 5.000 m2 leigulóðar leyfishafa, svo sem kaupsamningar um íbúðarhúsið í Firði 1 mæla fyrir um. Fyrir liggur að ágreiningur er með kæranda og framkvæmdaaðila um yfirráð þess lands sem rafstöðvarhúsið stendur á. Í ljósi þess réttarágreinings sem uppi er um heimildir framkvæmdaaðila var það því ekki á færi byggingarfulltrúa að veita umdeilt byggingarleyfi fyrr en úr þeim réttarágreiningi hefði verið skorið, eftir atvikum fyrir dómstólum.

Að því virtu verður að líta svo á að það land sem tilheyri Firði 1 sé í óskiptri sameign og að framkvæmdir þar séu háðar samþykki meðeiganda. Var byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar því óheimilt eins og á stóð að veita byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi án þess að fyrir lægi samþykki meðeiganda, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun um veitingu byggingarleyfis fyrir rafstöðvarhúsi sé haldin slíkum annmörkum að leiði til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Fjarðabyggð frá 20. maí 2011 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluhúsi í landi Fjarðar 1 og um ógildingu ákvörðunar eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 12. maí 2011 um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi vegna veglagningar, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi sú ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 20. maí 2011 að veita byggingarleyfi fyrir rafstöðvarhúsi í landi Fjarðar 1.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

71/2011 Hvannalundur

Með
Árið 2015, föstudaginn 17. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 71/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 um að samþykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni nr. 8 við Hvannalund í Miðfellslandi, Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. september 2011, er barst nefndinni 27. s.m., kæra eigendur Hvannalundar 10 í Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 að samþykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni að Hvannalundi 8 í Bláskógabyggð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og hið umdeilda hús fjarlægt.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu í febrúar og mars 2015.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Hinn 26. apríl 2011 var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps fyrirspurn lóðarhafa Hvannalundar 8 um hvort leyft yrði að stækka sumarhús á lóðinni úr 48 m² í 73 m². Var erindinu hafnað og tekið fram að hámarksbyggingarmagn á lóð skyldi vera 60 m². Byggingarfulltrúi tók fyrir samsvarandi erindi frá lóðarhafa hinn 9. júní s.á. Bókað var að fyrir lægi tillöguteikning að húsi í samræmi við fyrrgreinda bókun skipulags- og byggingarnefndar og ákveðið að grenndarkynna umsóknina í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefnd fundargerð byggingarfulltrúa var kynnt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 23. s.m. og staðfest. Í kjölfar þess var grenndarkynnt beiðni um stækkun umrædds sumarhúss. Komu kærendur að athugasemdum.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 28. júlí 2011. Fært var til bókar að skipulags- og byggingarnefnd teldi athugasemdir eigenda Hvannalundar 10 réttmætar hvað varðaði hæð fyrirhugaðrar viðbyggingar og lengd hennar að lóðarmörkum. Var þess farið á leit við umsækjanda að ekki yrði aukið við byggingarmagn meðfram mörkum lóða nr. 8 og 10, heldur yrði byggt inn á lóðina. Nefndin tók ekki undir aðrar athugasemdir og fól byggingarfulltrúa að svara þeim í samræmi við umræður á fundinum. Hinn 25. ágúst s.á. var málið til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar, er taldi að með teikningum sem þá lágu fyrir væri komið til móts við athugasemdir lóðarhafa Hvannalundar 10. Jafnframt væru teikningar í samræmi við áðurgreinda bókun nefndarinnar frá 23. júlí s.á. þar sem ekki væri aukið við byggingarmagn með lóðarmörkum frá því sem áður var og hæð hússins væri innan þeirra marka sem almennt teldist hófleg hæð á sumarhúsi, eða innan við 5 m. Samþykkti nefndin framlagða teikningu og fól byggingarfulltrúa að afgreiða málið. Umsókn um leyfi til að stækka sumarhús á nefndri lóð í 61 m² var tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa hinn 13. september 2011 og hlaut svofellda afgreiðslu: „Samþykkt í samræmi við bókun skipulags- og byggingarnefndar hinn 25. ágúst sl. Ekki er tekin afstaða til lóðamarka á afstöðumynd.“ Var fundargerðin kynnt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. s.m. og staðfest.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að mun hærri bygging en fyrir hafi verið rísi á mörkum lóðar þeirra og lóðarinnar Hvannalundur 8. Verið sé að reisa nýtt hús frá grunni þar sem svo lítið verði eftir af gömlu byggingunni að ekki geti verið um viðbyggingu að ræða, líkt og byggingarfulltrúi telji. Verði að meta málið út frá þeim forsendum. Snúi byggingin að suðurhlið sumarhúss og lóðar kærenda og að þeim hluta sem mest sé nýttur. Jafnframt sé útliti hússins gjörbreytt. Á þeirri hlið eldri byggingarinnar er snúið hafi að Hvannalundi 10 hafi verið einn lítill gluggi en nú verði tveir stórir gluggar á neðri hæð og miklu stærri gluggi á efri hluta sömu hliðar.

Við meðferð málsins hafi ekki verið höfð til hliðsjónar sjónarmið um brunavarnir. Sé fjarlægð milli bygginga langt innan lágmarksákvæða um fjarlægð milli húsa og ákvæða um brunamótsstöðu, sem kveðið sé um í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Jafnframt sé vísað til leiðbeiningaskjals 135.7 BR1 um val og frágang útveggjaklæðninga m.t.t. brunavarna. Með því að reisa nálægt tvöfalt hærra hús en áður aukist brunahætta mikið, en einnig geti smáhýsi sem sé á lóðinni haft áhrif á brunahættu. Verði að taka mið af því í þessu samhengi.

Gerðar hafi verið athugasemdir við að á aðstöðumynd sem fylgt hafi grenndarkynningu hafi húsið verið teiknað fjær lóðarmörkum en það sé í raun. Byggingarfulltrúi hafi hafnað því að taka afstöðu til lóðarmarka þar sem um einkalóð væri að ræða, þrátt fyrir ítrekaðar óskir kærenda þar um. Samræmist það álit sveitarfélagsins hvorki lögum né reglugerðum. Þá segi í 4. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um frístundabyggðir að byggingarreitir skuli ekki staðsettir nær lóðarmörkum en 10 m og hafi borið að virða nefnt ákvæði.

Í svarbréfi byggingarfulltrúa til kærenda hafi komið fram að ekki væri verið að auka byggingarmagn meðfram lóðarmörkum umfram það sem fyrir hafi verið á lóðinni. Standist þetta engan veginn, en verið sé að bæta hæð ofan á húsið. Þá hafi byggingarnefnd heimilað hækkun hússins eftir lok grenndarkynningar en samkvæmt nýjum teikningum að húsinu sé hæð þess 4,9 m. Telja verði það afar óeðlilega afgreiðslu, einkum með tilliti til staðsetningar hússins. Svo há bygging sé ekki dæmigerð fyrir skipulag hverfisins og ekki séu fyrir hendi fordæmi um slíkt. Sé byggingarnefnd ekki að meta nánasta umhverfi á faglegan hátt. Muni breytingin skerða gæði fasteignar kærenda þar sem aukið skuggavarp verði á lóð þeirra, meira ónæði og sjónmengun. Verðrýrnun verði á eign kærenda og notagildi hennar minnki.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar taka fram að hluti umrædds sumarhúss hafi verið reistur árið 1959, þegar aðrar áherslur hafi verið um glugga og brunavarnir. Þeir hafi orðið eigendur hússins árið 1991. Hluti af undirstöðum eldri hluta hússins hafi verið farinn að síga og því hafi verið ráðist í endurbætur. Hæsti punktur á hluta hússins sé 4,67 m og í samræmi við það sem byggingarfulltrúi hafi lagt upp með áður en leyfið hafi verið samþykkt. Farið hafi verið að lögum og reglugerðum um frístundahús en um sé að ræða frekar litlar lóðir. Hækkun hússins sé mest aftan við miðju þess og muni skuggavarp á lóð Hvannalundar 10 vegna hækkunarinnar verða aftan til á sumarhúsi kærenda.

Samkvæmt reglugerð um brunavarnir hafi borið nauðsyn til að hafa stærri glugga en áður með opnanlegu fagi. Jafnframt sé ekki hægt að fara fram á það að á meginhlið hússins sé einungis 20-30 cm stór gluggi. Hvað varði sjónmengun bendi leyfishafi að báðir bústaðirnir snúi að Þingvallavatni og þar skyggi hús leyfishafa ekkert á útsýni kærenda. Hafi kærendur mátt gera sér grein fyrir því þegar þeir festu kaup á bústað sínum að hann væri nálægt öðrum bústað í þéttri sumarhúsabyggð.

———-

Sveitarfélaginu var tilkynnt um framkomna kæru og því gefinn kostur á að tjá sig um kæruefnið en athugasemdir þeirra hafa ekki borist.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir stækkun frístundahúss að Hvannalundi 8 í Miðfellslandi, Þingvallasveit í Bláskógabyggð. Umrædd lóð er samkvæmt uppdrætti gildandi aðalskipulags á frístundasvæði sem jafnframt nýtur hverfisverndar H4, sem samkvæmt greinargerð stendur fyrir hverfisvernd á láglendissvæðum Þingvallasveitar. Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt.

Í greinargerð Aðalskipulags Bláskógabyggðar, Þingvallasveit, 2004-2016, er sett fram stefna um uppbyggingu sumarhúsasvæða almennt í Þingvallasveit. Tekur hún til „núverandi byggðar, varðandi endurbyggingar sumarhúsa, viðbyggingar og viðhald húsa og til nýbygginga innan núverandi svæða og á svæðum sem bætast við“. Skiptist stefnumörkunin í almenn markmið aðalskipulags, sem ná til allra láglendissvæða í Þingvallasveit, nema annað sé tekið sérstaklega fram, og sértækari stefnuatriði sem taka skal tillit til við gerð skilmála í deiliskipulagi allra svæða, innan vatnasviðsins auk sértækra ákvæða sem taka til mismunandi svæða eða aðstæðna innan áhrifasviðsins. Fram kemur í almennum markmiðum aðalskipulagsins að unnið verði lögformlegt deiliskipulag fyrir öll eldri sumarhúsasvæði í Þingvallasveit. Skuli sveitarstjórn hafa forgöngu um að landeigendur, lóðarhafar og sumarhúsafélög láti vinna deiliskipulag á viðkomandi svæði innan fjögurra ára frá gildistöku aðalskipulagsins. Jafnframt er tekið fram að ekki verði gefin út byggingarleyfi á þeim svæðum þar sem ekki liggi fyrir deiliskipulag að liðnum þessum fjórum árum. Fram að því verði mögulegt að gefa út byggingarleyfi í samræmi við ákvæði aðalskipulagsins.

Jafnframt segir svo í greinargerð aðalskipulagsins: „Framfylgd almennra og sérstækra markmiða aðalskipulagsins um deiliskipulag og uppbyggingu á svæðum fyrir frístundabyggð, miða öll að því að draga sem mest úr umhverfisáhrifum sumarhúsabyggðarinnar, einnig þeirrar byggðar sem fyrir er. Lögð er áhersla á að gert verði lögformlegt deiliskipulag fyrir eldri svæði til að tryggja framfylgd þessara ákvæða, en meðan það liggur ekki fyrir verður að taka mið af þessum reglum við veitingu einstakra byggingarleyfa. Til að undirstrika mikilvægi þessara markmiða og reglna og að þeim verði fylgt eftir í hvívetna, eru öll láglendissvæði Þingvallasveitar innan áhrifa- og vatnasviðsins, sett undir hverfisvernd (H3 og H4 auk hverfisverndar vatnsverndar), sem lýtur fyrst og fremst að reglum um uppbyggingu (sbr. almenn og sérstæk markmið hér að framan).“ Í greinargerð aðalskipulagsins er enn fremur að finna umfjöllun um hverfisvernd á láglendissvæðum Þingvallasveitar. Er þar tilgreint að á núverandi byggðum svæðum, einkum sumarhúsasvæðum, og þar sem fyrirhuguð er þétting og viðbætur við núverandi svæði, verði sérstökum ákvæðum um uppbyggingu, endurbyggingu og viðhald húsa fylgt í hvívetna og öðrum ákvæðum sem lúta að því að draga úr áhrifum byggðar á ásýnd og vistkerfi.

Í þágildandi gr. 4.22.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 var áskilið að öll svæði sem væru undir hverfisvernd samkvæmt aðalskipulagi skyldu deiliskipulögð væru framkvæmdir fyrirhugaðar. Áðurgreint aðalskipulag Bláskógabyggðar tók gildi með birtingu auglýsingar þar um 2. júní 2006 og hafði að geyma fyrrgreind fjögurra ára tímamörk fyrir veitingu byggingarleyfa á ódeiliskipulögðum svæðum. Samkvæmt því og með vísan til fyrrgreinds reglugerðarákvæðis var ekki heimilt að veita hið umdeilda byggingarleyfi án undangenginnar deiliskipulagsgerðar og verður þegar af þeirri ástæðu að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Úrskurðarnefndin getur því ekki tekið ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða, svo sem um að umdeild bygging verði fjarlægð. Verður því ekki tekin afstaða í máli þessu til kröfu kærenda þar að lútandi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 um að samþykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni að Hvannalundi 8 í Miðfellslandi, Bláskógabyggð.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

6/2013 Kirkjuteigur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2013, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ábyrgðarbréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. nóvember 2012, og bréfi, dags. 28. janúar 2013, sem barst nefndinni 1. febrúar s.á., kærir Leó E. Löve hrl., f.h. A, Hraunteigi 16, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2012 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig, Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 26. febrúar 2013.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 27. júní 2012 var tekin fyrir umsókn, dags. 19. s.m., um breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig. Í breytingunni fólst m.a. að verslunarhúsnæði yrði breytt í íbúðarhúsnæði með fjórum íbúðum, einni inndreginni hæð yrði bætt við bygginguna að hluta og heimiluð yrði tveggja hæða viðbygging í stað einnar hæðar. Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu og var afgreiðslan staðfest af borgarráði 5. júlí s.á. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 25. s.m. með athugasemdafresti til 5. september s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum, og var þeim svarað með umsögn skipulagsstjóra, dags. 3. október s.á. Hinn 17. s.m. samþykkti skipulagsráð framlagða tillögu sem síðan var staðfest af borgarráði 25. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember 2012.

Málsrök kærenda: Kærandi skírskotar til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting muni hafa veruleg áhrif á sólfar á lóð hans við Hraunteig 16, einkum þegar sól sé lágt á lofti. Sé nauðsynlegt að vekja athygli á því að túlkun umhverfis- og skipulagssviðs á skuggavarpi hafi aðeins náð til hálfs árs, þ.e. þess helmings sem sé bjartari, og sé því alröng. Að auki muni breytingin hafa í för með sér  lýti á götumyndinni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kæran sé of seint fram komin. Hafi hin kærða breyting verið auglýst endanlega í Stjórnartíðindum 19. desember 2012. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá birtingu ákvörðunar í Stjórnartíðindum. Hafi kærufrestur því runnið út 19. janúar 2013, en kæran sé hins vegar dagsett 28. s.m., eða níu dögum eftir að kærufrestur hafi runnið út.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að það liggi fyrir í málinu að ákvörðun hafi verið tekin og auglýst 19. desember 2012 þegar auglýsing um breytingu á deiliskipulagi við Kirkjuteig hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Hafi kærufrestur því verið liðinn er kæran barst. Bent sé á að sendandi erindisins sé lögfræðingur og vegna þess sé ekki afsakanlegt að erindið hafi borist úrskurðarnefndinni eftir að kærufrestur hafi verið liðinn. Eigi því ekki að taka erindið til efnislegrar meðferðar.

Leyfishafar hafi verið í góðri trú um að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi gengið í gegn. Gerðar hafi verið ráðstafanir vegna breytinganna, sem eðli máls samkvæmt hafi haft ákveðinn kostnað í för með sér og gæti því leitt til fjárhagslegt tjón verði kæran tekin til efnismeðferðar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar borgarráðs frá 25. október 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Teigahverfi vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig, sem öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember s.á. Kærandi skaut hinni kærðu ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með ábyrgðarbréfi, dags. 19. nóvember 2012. Var honum bent á að kærufrestur teldist frá birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og yrði kærunni því ekki sinnt fyrr en að þeim tíma liðnum. Var kæranda jafnframt bent á að láta úrskurðarnefndina vita þegar birting hefði átt sér stað, sem hann og gerði með tölvubréfi 27. janúar 2013. Ítrekuð kæra, dags. 28. s.m., barst svo nefndinni 1. febrúar sama ár.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eins og lýst hefur verið var ekki tekið við upphaflegri kæru með formlegum hætti en að sama skapi var henni ekki vísað frá nefndinni með úrskurði. Kæranda var leiðbeint um framhald málsins en í ljósi þeirra atvika sem lýst er verður að líta svo á að kæra hafi legið fyrir úrskurðarnefndinni þegar deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu auglýsingar þar um og þar með borist innan kærufrests. Verður kæran því tekin til efnislegrar meðferðar.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóðar á íbúðarsvæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er merkt ÍB21, Teigar. Er svæðinu lýst sem hverfi sem sé að mestu fullbyggt og fastmótað og yfirbragð þess sé fjölbreytt. Er þétting byggðar og blönduð landnotkun eitt af yfirlýstum markmiðum aðalskipulagsins. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Með deiliskipulagsbreytingunni er gert ráð fyrir hækkun núverandi húss, að hluta um eina inndregna hæð, og tveggja hæða viðbyggingu og mun nýtingarhlutfall lóðarinnar verða 0,99. Í gildandi deiliskipulagi er heimilað nýtingarhlutfall fyrir sambýlishúsalóðir 0,5-0,8. Að auki segir að nýtingarhlutfall margra lóða sé yfir uppgefnum viðmiðum og að almennt sé heimilt að víkja frá því viðmiði, s.s. vegna hækkunar húsa eða viðbygginga. Þá er til þess að líta að lóðin við Kirkjuteig 21 er ekki fullnýtt og er gert ráð fyrir einnar hæðar viðbyggingu auk kjallara í gildandi deiliskipulagi. Verður með hliðsjón af því sem að framan er rakið ekki talið að deiliskipulagsbreytingin sé slík, miðað við efnisheimildir í fyrra deiliskipulagi, að réttur kæranda sé fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Hin umdeilda breytingartillaga var auglýst til kynningar lögum samkvæmt, fram komnum athugasemdum var svarað, tillagan samþykkt og gildistaka breytingarinnar auglýst í kjölfarið. Var málsmeðferð því í samræmi við skipulagslög.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist verulega í máli þessu sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson