Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2012 Laxeldi Arnarfjörður

Árið 2015, fimmtudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2012, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar um endurupptöku á ákvörðun um eldra starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð Arnarlax ehf. í Arnarfirði og útgáfu nýs starfsleyfis 30. apríl 2012.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júní 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnór Halldórsson hdl., f.h. Fjarðalax ehf., Grandagarði 14, Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að endurupptaka ákvörðun um eldra starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð Arnarlax ehf. í Arnarfirði og gefa út nýtt starfsleyfi 30. apríl 2012. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 16. júlí og 23. og 27. október 2015.

Málavextir: Tillaga að starfsleyfi vegna fyrirhugaðs fiskeldis Arnarlax hf. var auglýst af Umhverfisstofnun 9. desember 2011 með fresti til athugasemda til 3. febrúar 2012, auk þess sem hún var send til umsagnar nánar tilgreindra aðila. Starfsleyfi var gefið út 29. febrúar 2012, sem kvað á um allt að 3.000 tonna ársframleiðslu af laxi í sjókvíum í Arnarfirði á þremur nánar tilgreindum stöðum, sem allir voru markaðir með miðjupunkti og 370 m „hringlaga geira“ um hann. Í greinargerð með leyfinu gerði Umhverfisstofnun grein fyrir athugasemdum sem bárust á athugasemdatíma og viðbrögðum stofnunarinnar við þeim. Var þar um að ræða athugasemdir frá kæranda, Andraútgerðinni ehf., bæjarráði Vesturbyggðar, Landssambandi veiðifélaga og Skipulagsstofnun. Í greinargerðinni var ekki gerð grein fyrir umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 6. janúar 2012, þar sem gerð var athugasemd við allar þrjár fyrirhugaðar staðsetningar eldisins.

Með bréfi, dags. 12. mars 2012, óskaði leyfishafi eftir endurupptöku á nefndu starfsleyfi og var þess óskað að í leyfinu yrði breytt staðsetningu eldissvæðanna í firðinum. Kom fram í bréfinu að staðsetningar í starfsleyfinu gætu verið of nærri togslóð fyrir rækju, auk þess sem Umhverfisstofnun hefði hvorki brugðist við ákveðnum ábendingum leyfishafa né athugasemdum Hafrannsóknastofnunar. Var þess óskað að eldisstöð tilgreind í starfsleyfi á hnitum 65°41,200´N-23°33,150´V yrði færð á staðsetningu 65°40,900´N-23°34,000V, eldisstöð tilgreind á hnitum 65°45,630´N-23°36,630´V yrði færð á hnit 65°45,200´N-23°33,200´V og að lokum að eldisstöð tilgreind á hnitum 65°38,526´N-23°31,427´V yrði færð á hnit 65°40,800´N-23°28,800´V. Með bréfi, dags. 20. mars 2012, varð Umhverfisstofnun við endurupptökubeiðni leyfishafa á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kom nánar fram í bréfi stofnunarinnar að henni hefði láðst að taka tillit til umsagnar Hafrannsóknastofnunar við afgreiðslu starfsleyfisins og hefði ákvörðunin byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum að því er varðaði staðsetningu tveggja kvía í starfsleyfinu. Þriðja svæðið kæmi ekki til skoðunar þar sem ekkert nýtt hefði komið fram um það svæði sem hefði áhrif á ákvörðun stofnunarinnar. Loks var tekið fram í bréfinu að stofnunin myndi leita álits hagsmunaaðila og stofnana áður en ákvörðun yrði tekin um færslu á staðsetningu kvía og nýtt starfsleyfi gefið út.

Tillaga að starfsleyfi, þar sem tilgreiningu á staðsetningu tveggja kvíasvæða var breytt, var send til umsagnar Hafrannsóknastofnunar, heilbrigðisnefndar Vestfjarða, Ísafjarðarbæjar, Íslenska kalkþörungafélagsins ehf., Landssambands íslenskra útvegsmanna, Landssambands smábátaeigenda, Siglingastofnunar Íslands, Skipulagsstofnunar og Vesturbyggðar. Starfsleyfi var gefið út að nýju 30. apríl 2012 og var það samhljóða eldra leyfi að öðru leyti en því að breyt var tilgreiningu tveggja eldissvæða. Breyttar staðsetningar fyrir fiskeldið urðu því annars vegar við Tjaldaneseyrar, á svæði mörkuðu af hnitunum: 65°45.420´N-23°33,620´V, 65°44.950´N-23°34,080´V, 65°44.600´N-23°32,090´V og 65°45.160´N-23°31,750´V, og hins vegar við Haganes, á svæði mörkuðu af hnitunum: 65°40.210´N-23°32,730´V, 65°41.240´N-23°33,440´V. 65°41.030´N-23°33,810´V, 65°40.720´N-23°33,770´V, 65°40.320´N-23°33,400´V og 65°40.180´N-23°33,060´V.

Hefur framangreint verið kært til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður hefur komið fram.

Við málsmeðferð og ákvarðanatöku Umhverfisstofnunar lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. apríl 2011 þess efnis að eldi það sem heimilað var með hinu kærða starfsleyfi skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Umhverfisráðherra kvað upp úrskurð 4. júlí 2012 vegna þeirrar ákvörðunar, felldi hana úr gildi og kvað á um að eldið skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Með úrskurði uppkveðnum 30. nóvember sama ár féllst umhverfisráðherra á að endurupptaka úrskurðinn, felldi hann úr gildi og staðfesti jafnframt ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. apríl 2011 um að eldið skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að rekstrarleyfi til fiskeldis í Arnarfirði, á hnitunum 65°46,397´N-23°41,492´V, hafi verið gefið út 6. maí 2010 til tíu ára. Þá hafi starfsleyfi fyrir 1.500 tonna ársframleiðslu af laxi í sjókvíum, innan tiltekinna hnita í Fossfirði, verið gefið út til handa kæranda 29. febrúar 2012 og hafi kærandi jafnframt rekstrarleyfi vegna þessa.

Þau eldissvæði sem leyfishafi hafi fengið úthlutað með umdeildu starfsleyfi séu nálægt eldissvæðum kæranda. Nálægð á milli eldissvæða skipti miklu varðandi smit og sjúkdóma sem herja kunni á fiskinn og hafi fram komin breyting á staðsetningu eldis leyfishafa áhrif á starfsemi og hagsmuni kæranda. Sérhverja færslu þurfi að meta. Við að eldi leyfishafa sé fært nær eldi kæranda aukist áhætta fyrir hagsmuni þess síðarnefnda.

Sá fiskur sem kærandi framleiði sé sérstaklega vottaður til sölu hjá verslunarkeðjunni Whole Foods Market sem lífrænt ræktaður. Þess vegna sé verðmæti hans mun meira en annars fisks sem ekki hafi slíka vottun. Viðskiptahugmynd, fjárfestingar og fjárhagsáætlun kæranda geri ráð fyrir því að sá fiskur sem félagið framleiði sé allur vottaður sem lífrænn fiskur. Ef meðhöndla þurfi eldisfisk á svæðinu, þ.e. í Arnarfirði, með utanaðkomandi efnum, s.s. með efnaböðum, verði vottunin ekki framlengd. Það hafi þær afleiðingar að það verð sem fáist fyrir fiskinn lækki mjög, sem aftur hafi þær afleiðingar að grundvelli verði kippt undan starfsemi og rekstri kæranda. Af þeim sökum hafi kærandi einstaklega, verulega og lögvarða hagsmuni af þeirri ákvörðun sem hér sé kærð.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Þær undantekningar sem heimilaðar séu frá andmælareglunni séu matskenndar og víki frá einni af grundvallarreglum stjórnsýsluréttar. Undantekningarnar beri að túlka þröngt í samræmi við þau markmið og lagarök sem búi að baki andmælareglunni. Samkvæmt greinagerð Umhverfisstofnunar með endurupptöku starfsleyfis leyfishafa hafi stofnunin leitað umsagnar nokkurra tilgreindra aðila um tillögu að breyttu starfsleyfi. Stofnunin hafi þó kosið að leita ekki umsagnar kæranda þrátt fyrir að hagsmunir hans væru einstakir, verulegir og lögvarðir og ákvörðun um endurupptöku íþyngjandi. Þegar ekki sé veittur andmælaréttur, og þannig brotið í bága við 13. gr. stjórnsýslulaga, teljist það vera verulegur annmarki, sem leiði til þess að íþyngjandi ákvörðun teljist að öllu jöfnu ógildanleg. Beri því að ógilda þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að endurútgefa starfsleyfi leyfishafa.

Skilyrði stjórnsýslulaga til endurupptöku hafi ekki verið fyrir hendi. Ákvörðun Umhverfisstofnunar um endurupptöku hafi byggst á 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem stofnunin hafi talið fyrri ákvörðun sína byggjast á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum að því er varðar staðsetningu tveggja kvíastæða í starfsleyfinu“. Þessu mótmæli kærandi sem röngu. Í greinargerð Umhverfisstofnunar með endurupptöku á starfsleyfinu segi að við úrvinnslu málsins hafi orðið þau mistök að láðst hafi að taka tillit til þeirra staðsetningar sem Hafrannsóknastofnun hafi gert tillögu um í umsögn sinni, en í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga segi að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þá segi í greingerð með lagafrumvarpi því sem síðar varð að stjórnsýslulögum að almennt virðist gengið út frá því í stjórnsýslurétti að stjórnvald hafi á sumum sviðum nokkuð víðtæka heimild til þess að endurupptaka mál komi fram beiðni um slíkt frá öllum aðilum þess. Beiðni um endurupptöku virðist hins vegar einungis hafa komið frá leyfishafa, en ekki öðrum sem hagsmuna eigi að gæta, s.s. kæranda. Ekki verði því annað séð en að Umhverfisstofnun hafi litið framhjá lögskýringargögnum með 24. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

Hvorki hafi legið fyrir ófullnægjandi né rangar upplýsingar þegar hið upphaflega starfsleyfi hafi verið gefið út. Afstaða Hafrannsóknastofnunar hafi legið fyrir við útgáfu leyfisins en Umhverfisstofnun hafi ekki tekið tillit til fram kominna sjónarmiða við málsmeðferð sína. Eftir að Umhverfisstofnun hafi gefið út leyfið hafi stofnunin ákveðið að gera á því breytingar er vörðuðu eitt höfuðatriði þess, þ.e. staðsetningu eldiskvía. Við hina nýju leyfisveitingu hafi verið byggt á sömu gögnum frá Hafrannsóknastofnun og fyrr. Þau skilyrði endurupptöku sem greini í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið fyrir hendi og Umhverfisstofnun ekki haft lagaheimild til að endurupptaka ákvörðun sína. Því sé einsýnt að ógilda beri ákvörðun stofnunarinnar um endurupptöku hins eldra leyfis og fella jafnframt hið breytta starfsleyfi úr gildi.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að staðsetning eldiskvía hafi verið tilgreind í hinu upprunalegu starfsleyfi í samræmi við umsókn rekstraraðila. Hafi úrskurður umhverfisráðuneytisins frá 16. júlí 2007, vegna kæru Haliotis á Íslandi ehf. vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis AGVA-Norðurland ehf., verið hafður til hliðsjónar. Þar komi fram að engar heimildir séu í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir til að gera kröfu um aðra staðsetningu en sótt sé um, t.d. vegna annarrar starfsemi sem fyrir sé á svæðinu, enda uppfylli umsækjandi öll skilyrði laga og reglna sem um starfsemina gildi. Ráðuneytið hafi hins vegar einnig bent á að skv. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 238/2003 um eldi nytjastofna sjávar geti Fiskistofa ákveðið að lengra eða skemmra skuli vera milli eldisstöðva og eldiseininga en kveðið sé á um í 1. mgr. sömu greinar telji stofnunin aðstæður krefjast þess. Eldi sé, auk starfsleyfis Umhverfisstofnunar, háð rekstrarleyfi Fiskistofu, sbr. 3. gr. laga nr. 33/2002 um eldi nytjastofna sjávar og reglugerðar nr. 238/2003.

Í greinargerð með upprunalegu starfsleyfi frá 29. febrúar 2012 hafi Umhverfisstofnun  fjallað um fjarlægðarreglu þá sem kveði á um tveggja km fjarlægð milli eldissvæða. Þar hafi komið fram álit stofnunarinnar um að henni væri ekki heimilt að hafna umsóttri hnitsetningu. Starfsleyfi til mengandi starfsemi séu útgefin á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og  reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Ákvæði starfsleyfa gefinna út á þeim grundvelli fjalli um mengunarvarnir. Framangreindar sértækar fjarlægðarreglur séu settar á öðrum lagagrunni, þ.e. vegna hættu á fisksjúkdómum. Þá sé rétt að benda á að ekki sé til staðar löggjöf um skipulag hafsvæða. Athafnasvæði utan netlaga sé ekki skipulagsskylt og því séu ekki til staðar skipulagsáætlanir þar sem skýr grundvöllur liggi fyrir varðandi staðsetningu athafnasvæðis, umfang starfsemi og mörk gagnvart annarri starfsemi, sem leyfisveitendur geti byggt á.

Orðið hafi verið við ósk leyfishafa um endurupptöku ákvörðunar Umhverfisstofnunar um veitingu starfsleyfis frá 29. febrúar 2012. Stofnunin hafi fallist á þau sjónarmið að ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum að því er varðaði staðsetningu tveggja kvíasvæða í starfsleyfinu. Við úrvinnslu málsins hafi láðst að taka nægilegt tillit til umsagna Hafrannsóknastofnunarinnar. Að skoðuðu máli, og með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, hafi Umhverfisstofnun talið að taka bæri tillit til þeirra ábendinga sem Hafrannsóknastofnunin hefði komið að í umsögn sinni, sem og þeirrar útfærslu á svæðum sem leyfishafi hefði óskað eftir í framhaldi af því. Í athugasemdum Hafrannsóknastofnunar frá 6. janúar 2012 hafi stofnunin gert athugasemdir við allar þrjár fyrirhugaðar staðsetningar kvía leyfishafa í Arnarfirði. Hafrannsóknastofnun hafi gert tillögur að nýjum staðsetningum, sem stofnunin hefði talið að ættu betur við út frá umhverfislegu sjónarmiði, þá með því að dreifa eldinu yfir stærra svæði og með aukinni fjarlægð milli eldisstöðva ætti sjúkdómshættan að minnka. Í athugasemdum stofnunarinnar hafi einnig komið fram að staðsetning eldissvæðis austan við Bíldudalsvog næði inn á staðlað rækjutog nr. 15 og að nyrsta staðsetningin væri full nærri stöðluðu rækjutogi nr. 4.

Talið hafi verið eðlilegt að færa tilgreiningu tveggja svæða til, með tilliti til hafrannsóknarhagsmuna, annarra athugasemda Hafrannsóknastofnunar og beiðna leyfishafa. Rétt sé að taka fram að Fiskistofa hafi gefið út rekstrarleyfi 21. júní 2012 byggt á umræddu starfsleyfi sem ekki gefi eldisréttindi nærri Fossfirði. Eftir standi hin tvö eldissvæðin. Það eldissvæði leyfishafa sem samkvæmt rekstarleyfi Fiskistofu sé næst svæði kæranda í Fossfirði sé í meira en 3,5 km fjarlægð, en fjarlægðarreglan kveði á um meira en 2 km fjarlægð. Ekki verði séð hvaða hagsmuni kærandi hafi af slíkri minniháttar breytingu þegar fjarlægðin sé eftir sem áður umtalsvert meiri en heilbrigðisreglur kveði á um. Ekki komi t.d. fram í kæru málsástæður um að kröfur sem vottun afurða byggist á séu strangari en gildandi íslenskar reglugerðir.   

Í stjórnsýslulögum sé skýr heimild til endurupptöku mála, t.d. þegar ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sérstaklega ef þær hafi verulega þýðingu við ákvörðun í málinu. Um tímafresti sé fjallað í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaganna. Segi þar að ef meira en 3 mánuðir séu liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun og hún hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, sbr. 1. tl. 1. mgr., verði beiðni um endurupptöku almennt ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Í þessu tilviki hafi beiðni um endurupptöku komið 13 dögum eftir að starfsleyfi hafi verið gefið út. Hafi verið fallist á endurupptökuna og nýtt starfsleyfi gefið út um tveimur mánuðum eftir fyrri útgáfu. Stjórnvöld séu talin hafa almennt víðtæka heimild til að meta hvort mál skuli endurupptekin vegna þeirra atriða sem talin séu upp í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þó aðilar máls eigi ekki jafn víðtækan rétt til að fá mál sín endurupptekin. Þá megi vísa til óskráðra meginreglna um heimild stjórnvalda til endurupptöku mála.

Ekki hafi verið sýnt fram á að ný ákvörðun í málinu hafi orðið kæranda til tjóns á einhvern hátt. Í kærunni sé sagt að framleiðsla kæranda sé lífræn og vottuð til sölu hjá verslunarkeðjunni Whole Foods Market í Bandaríkjunum. Ef sú vottun verði ekki framlengd geti grundvelli verið kippt undan rekstri fyrirtækisins. Ekki hafi komið fram hvort kærandi hafi misst vottun á sinni framleiðslu og þá út af hverju. Slíkt hafi ekki verið tilkynnt til Umhverfisstofnunar, sem hafi 29. febrúar 2012 gefið út nýtt starfsleyfi til handa kæranda, sem síðan hafi verið breytt með ákvörðun stofnunarinnar 11. febrúar 2015. Við vinnslu og yfirferð vegna breytingar starfsleyfisins hafi ekki komið fram upplýsingar um að  kærandi hafi misst vottun og að rekstrargrundvelli væri ógnað.
——-

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. júní 2012, var leyfishafa gefinn kostur á að tjá sig um málið en athugasemdir hafa ekki borist af hans hálfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að endurupptaka ákvörðun sína um starfsleyfi til framleiðslu á laxi í sjókvíum í Arnarfirði, sem og um útgáfu nýs starfsleyfis vegna eldisins, sem tilgreindi breytta á staðsetningu tveggja af þremur eldissvæðum leyfishafa í firðinum.

Kærandi krefst ógildingar á ákvörðun Umhverfisstofnunar, m.a. á grundvelli þess að skilyrði stjórnsýslulaga til endurupptöku hafi ekki verið fyrir hendi, auk þess sem beiðni um endurupptöku hafi einungis komið frá leyfishafa en ekki öllum hlutaðeigandi aðilum. Umsækjandi um leyfi og handhafi þess, að því útgefnu, er eðli málsins samkvæmt aðili máls um þá ákvörðun og getur farið fram á endurupptöku þess. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, og er almenningi tryggður víðtækur réttur til að koma að athugasemdum sínum af því tilefni, sbr. 3. mgr. 6. gr. nefndra laga. Þeir sem það gera teljast þó ekki sjálfkrafa aðilar að því máli en geta eftir atvikum átt þeirra einstaklegu, verulegu og beinu hagsmuna að gæta við útgáfu slíks leyfis að skapi þeim kæruaðild. Verður að líta svo á að hér hátti svo til. Samkvæmt framangreindu telst kærandi eiga þeirra hagsmuna að gæta að hann eigi kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni, en engin efni voru til aðkomu hans að beiðni um endurupptöku, enda var hann ekki aðili málsins á því stigi. Að kæru fram kominni sætir hins vegar hvort tveggja lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar, þ.e. hvort skilyrði hafi verið til endurupptöku, sem og endanleg ákvörðun Umhverfisstofnunar um starfsleyfi.

Ákvörðun sína um endurupptöku byggði Umhverfisstofnun á því að ákvörðun hennar um útgáfu starfsleyfis hefði „byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum að því er varðar staðsetningu tveggja kvía í starfsleyfinu“, en heimild er í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til endurupptöku ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Ljóst er að umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 6. janúar 2012, lá fyrir við ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfisins. Var því ekki um það að ræða að ákvörðunin byggði á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum heldur því að við ákvörðunartökuna var ekki tekið tillit til þeirra upplýsinga sem fyrir lágu. Gat Umhverfisstofnun því ekki byggt endurupptöku á framangreindu lagaákvæði. Hins vegar hafa stjórnvöld einnig heimildir til endurupptöku máls á grundvelli almennra reglna stjórnsýsluréttar, t.a.m. hafi niðurstaða þess af einhverjum orsökum orðið óheppileg eða beinlínis röng að efni til, en þá mæla hagkvæmnisrök með því að endurupptaka sé tæk. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar komu fram athugasemdir við allar umsóttar staðsetningar til fiskeldis leyfishafa. Verður að telja að Umhverfisstofnun hafi verið heimilt að teknu tilliti til þessa að endurupptaka málið að þeim hluta er laut að fyrirhugaðri staðsetningu eldisins, enda bar stofnuninni að sjá til þess að málið væri nægilega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi telur umþrætta breytingu á staðsetningu eldissvæða í Arnarfirði hafa áhrif á starfsemi sína og að á grundvelli þeirra hagsmuna hefði átt að gefa honum kost á að tjá sig um hana. Við útgáfu hins upprunalega starfsleyfis var miðað við þrjú eldissvæði, eins og nánar greinir í málavöxtum. Eitt norðanmegin við Arnarfjörð undir Baulhúsaskriðum, annað sunnanmegin við Arnarfjörð við Haganes og hið þriðja við mynni Arnarfjarðar og Fossfjarðar, norðan við eldissvæði kæranda. Í hinu endurskoðaða starfsleyfi var staðsetning eldissvæðisins undir Baulhúsaskriðum, sem markaðist áður af miðpunkti með einu hniti, tilgreint austar inn fjörðinn, að Tjaldaneseyri, og svæðið markað af fjórum hnitum. Þá var tilgreiningu eldissvæðis við Haganes breytt þannig að í stað þess að markast af miðpunkti með einu hniti var svæðið markað með sex hnitum. Við það var eldissvæðið stækkað, það markað nær landi og lengra í átt að Fossfirði. Staðsetning þriðja eldissvæðisins við minni Fossfjarðar var óbreytt og það markað áfram af miðpunkti. Er það svæði næst eldissvæði kæranda í Fossfirði.

Í athugasemdum kæranda til Umhverfisstofnunar, við auglýsingu upprunalegrar tillögu að starfsleyfi því sem gefið var út 29. febrúar 2012, var tekið fram að tvær af þeim staðsetningum sem tillagan miðaði við, við Haganes og við mynni Fossfjarðar, væru í beinni straumstefnu við eldiskvíar kæranda í Fossfirði. Fjarlægðin frá fyrirhuguðu eldissvæði við Haganes að kvíum kæranda væri 6 km og einungis væri um 1 km frá fyrirhuguðu eldissvæði við mynni Fossfjarðar að kvíunum. Staðsetningar í því leyfi sem hér er til úrlausnar breyttust að því er varðaði svæðið við Haganes og var stærð þess aukin, m.a. í átt að eldi kæranda, og varð fjarlægð milli nefndra eldissvæða 4,2 km þar sem hún er minnst. Mengun getur borist um langa vegu með hafstraumum og gat breytingin þannig verið til þess fallin að hafa áhrif á hagsmuni kæranda. Blasir við að undir þeim kringumstæðum var rétt að gefa kæranda kost á að tjá sig um breytinguna áður en ákvörðun um hana var tekin og er hún haldin annmörkum að því er þetta varðar. Í þessu sambandi er rétt að árétta að víðtækur réttur er til staðar til að koma að athugasemdum við gerð starfsleyfis skv. lögum nr. 7/1998. Hins vegar lá fyrir Umhverfisstofnun matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar, sem ekki hafði þá verið fjallað um á kærustigi, þar sem fjallað var um burðarþol Arnarfjarðar, vatnsskipti og strauma. Umsagnar Skipulagsstofnunar var einnig leitað vegna tillögu að enduruppteknu starfsleyfi og kom fram í umsögninni að stofnunin hefði byggt matsskylduákvörðun sína m.a. á niðurstöðum straummælinga, sem gerðar hefðu verið árin 2001 og 2011 í nálægð við eldissvæðin sem þá hafi verið fyrirhuguð. Taldi Skipulagsstofnun að endurupptaka starfsleyfisins breytti ekki þeim forsendum sem matsskylduákvörðun stofnunarinnar hefði byggt á. Þrátt fyrir framangreindan annmarka við töku hinnar kærðu ákvörðunar að veita kæranda ekki andmælarétt er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að annmarkinn sé þó ekki svo verulegur, eins og hér háttar, að ógildingu varði. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna tafa við gagnaöflun og sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Umhverfisstofnunar um endurupptöku á ákvörðun um eldra starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð Arnarlax ehf. í Arnarfirði og um útgáfu nýs starfsleyfis 30. apríl 2012.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Geir Oddsson