Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

86/2015 Brekka í Bláskógabyggð

Árið 2015, þriðjudaginn 3. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 86/2015, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi orlofssvæðis BHM í Brekkuskógi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. október 2015, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Björn Jóhannesson hrl., f.h. ábúendur og eigendur Brekku í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi orlofssvæðis BHM. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er farið fram á að fyrirhuguð framkvæmd, þ.e. bygging vélageymslu á orlofssvæðinu, verði stöðvuð til bráðabirgða. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Deiliskipulag fyrir orlofssvæði BHM í Brekkuskógi tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. ágúst 2006. Á fundi sveitarstjórnar Bláskógarbyggðar 5. desember 2013 var lögð fram tillaga að breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi þar sem markaður er byggingarreitur fyrir allt að 250 m² áhaldahúsi andspænis núverandi þjónustumiðstöð. Taldi sveitarstjórnin að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða skv. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010 og var tillagan grenndarkynnt í kjölfarið. Athugasemdir bárust, m.a. frá kærendum, og á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 30. apríl 2014 var byggingarfulltrúa falið að ræða við umsækjanda tillögunnar um aðra staðsetningu hússins. Samþykkt var á fundi sveitarstjórnar 5. mars 2015 að grenndarkynna endurskoðaða tillögu þar sem gert væri ráð fyrir að hámarksstærð hússins yrði 120 m² og hámarkshæð 3,8 m en húsið yrði á sama stað og áður. Með bréfi, dags. 12. mars 2015, var tillagan grenndarkynnt með athugasemdafresti til 10. apríl s.á. Athugasemdir bárust á ný frá kærendum og voru þær lagðar fram á fundi skipulagsnefndar 22. apríl 2015 ásamt tillögunni. Mælti nefndin með því að sveitarstjórn samþykkti breytingatillöguna skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og fæli skipulagsfulltrúa að svara nefndum athugasemdum. Á fundi sveitarstjórnar 7. maí 2015 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest. Var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. september 2015.

Kærendur vísa til þess að með því að heimila vélageymslu af þeirri stærðargráðu sem hér um ræði sé vikið frá ákvæðum skipulagsgreglugerðar nr. 90/2013 um frístundabyggð sem geri ráð fyrir smærri mannvirkjum sem tilheyri viðkomandi frístundahúsi, svo sem geymslum, gestahúsum og bátaskýlum. Ekki sé um óverulega deiliskipulagsbreytingu að ræða en fyrrgreind bygging eigi frekar heima á skipulagðri iðnaðarlóð. Muni nefnd bygging, sem staðsett sé nálægt vatnsbóli, hafa í för með sér eldhættu og olíumengun. Þá muni hún hafa neikvæð áhrif á verðgildi og nýtingu nærliggjandi frístundalóða í eigu kærenda.

Sveitarfélagið bendir á að ekki hafi verið óskað eftir byggingarleyfi fyrir þeim framkvæmdum sem deiliskipulagsbreytingin heimili og sé því ekki þörf á að stöðva framkvæmdir að svo stöddu.

Af hálfu Orlofssjóðs BHM er bent á að engar verklegar framkvæmdir séu hafnar og að þeirra sé ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi á komandi vori. Hvorki hafi verið fengið byggingarleyfi fyrir húsinu né liggi fyrir lokateikningar af því og þar af leiði að ómögulegt sé að verða við kröfu um stöðvun framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekins svæðis. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar að uppfylltum skilyrðum 4. gr. laga nr. 130/2011, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna nefndra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. nefndri 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði að ekki er tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

____________________________________
Nanna Magnadóttir