Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2011 Bakkahverfi

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 10. nóvember 2010 um að samþykkja deiliskipulag Bakkahverfis á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. janúar 2011, er barst nefndinni 14. s.m., kærir H, Valhúsabraut 17, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar frá 10. nóvember 2010 að samþykkja deiliskipulag Bakkahverfis. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember s.á. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða skipulagsákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Í nóvember 2008 var íbúum „Suðvesturhverfis“ send tilkynning um að til stæði að deiliskipuleggja hverfið og þeim gefið færi á að koma að ábendingum. Skipulagsforsögn að deiliskipulagi svonefnds Bakkahverfis, dags. 30. desember s.á., var síðar kynnt íbúum og munu þeir hafa verið hvattir til að setja fram óskir og ábendingar um skipulagið. Íbúafundur til kynningar á fram komnum hugmyndum að deiliskipulagi hverfisins var haldinn í febrúar 2009 og jafnframt munu hugmyndirnar hafa verið kynntar sérstaklega fyrir einstökum íbúum á svæðinu.

Hinn 25. ágúst 2009 var á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Bakkahverfis með því skilyrði að innkeyrsla í bílskúra á lóðunum að Melabraut 20 og Valhúsabraut 19 yrði frá þeim götum. Bæjarstjórn tók málið fyrir 16. september s.á. og samþykkti að vísa málinu aftur til skipulags- og mannvirkjanefndar „… til að útfæra tilteknar minniháttar breytingar á tillögunni“. Málið var á ný tekið fyrir hjá bæjarstjórn hinn 23. s.m. og samþykkt að auglýsa fram lagða tillögu að deiliskipulagi umrædds svæðis. Bárust 26 athugasemdabréf við tillöguna á kynningartíma, þ. á m. tvö athugasemdabréf, undirrituð af samtals um 80 einstaklingum. Skipulags- og mannvirkjanefnd tók málið fyrir að nýju hinn 4. júní 2010. Var fært til bókar að gerð væri grein fyrir nýjustu breytingum á uppdrætti og drögum að svörum við athugasemdum. Voru svörin sem og deiliskipulagstillagan samþykkt og skipulagsráðgjafa falið að ganga frá lokabreytingum á uppdrætti og svörum í samræmi við umræður og niðurstöður nefndarinnar. Samþykkti bæjarstjórn fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Bakkahverfis hinn 9. s.m. ásamt tillögu að svörum við athugasemdum. Í framhaldi af því var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögbundinnar yfirferðar. Gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við að birt yrði auglýsing í Stjórnartíðindum um samþykkt deiliskipulagsins. Í kjölfar þess voru gerðar breytingar á tillögunni og hún samþykkt á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 28. október 2010. Bæjarstjórn tók tillöguna fyrir hinn 10. nóvember s.á. og afgreiddi með svohljóðandi bókun: „Á grundvelli skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, með síðari breytingum og samþykktar Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 28. október sl., samþykkir bæjarstjórn Seltjarnarness fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Bakkahverfis ásamt svörum við athugasemdum Skipulagsstofnunar og vísar tillögunni til afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Breytingar voru gerðar á deiliskipulagstillögu Bakkahverfis frá júní 2010 þar sem komið var til móts við athugasemdir hagsmunaaðila eftir auglýsingatíma. Einnig voru gerðar orðalagsbreytingar í greinargerð og skilmálum í október 2010 til að verða við athugasemdum og ábendingum Skipulagsstofnunar. Þá hefur verið gerð minniháttar breyting á byggingarreitum Unnarbrautar 1 og 19 í tilefni af framkomnum athugasemdum.“ 

Skipulagssvæðið nær til húsa sunnan Hæðarbrautar, austan Valhúsabrautar, suðaustan Bakkavarar, austan Suðurstrandar og austan Lindarbrautar. Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins er því ætlað að staðfesta á formlegan hátt byggðamynstur hverfisins en einnig er meðal markmiða þess að gefa lóðarhöfum möguleika á eðlilegri endurnýjun og endurbótum á byggingum í samræmi við heilsteypt yfirbragð hverfisins. Við gildistöku þess féllu úr gildi eldri skipulagsáætlanir og skilmálar sem gilt höfðu um einstaka hluta hverfisins.

Málsrök kærenda: Athugasemdir kærenda lúta að heimildum deiliskipulagsins vegna lóðanna Melabrautar 20 og Valhúsabrautar 19. Gert sé ráð fyrir að nýtingarhlutfall nefndra lóða verði 0,55 og 0,60 og byggingarflötur verði afar stór. Almennt nýtingarhlutfall í Bakkahverfi sé 0,4 og einnig sé byggingarflötur almennt takmarkaður enda stórar lóðir eitt af einkennum hverfisins. Muni þetta leiða til þess að byggingar á nefndum lóðum verði yfirþyrmandi fyrir næstu nágranna og ekki í samræmi við aðrar lóðir hverfisins og hafi því jafnræðissjónarmiða ekki verið gætt. Jafnframt sé fyrirhuguð stækkun ekki í samræmi við skipulagsforsögn Bakkahverfis þar sem segi að tilgangur skipulagsins sé að samræma heildarútlit hverfisins. Ekki beri að líta til þess hvernig nýtingarhlutfalli sé háttað á lóðum í næsta hverfi, svonefndu Hæðarhverfi, en þar sé almennt nýtingarhlutfall 0,5 og heyri til undantekninga að nýtingarhlutfall sé hærra. Verði ekki séð hvernig deiliskipulagið muni þjóna hagsmunum íbúa Bakkahverfis, þvert á móti virðist vera um þjónkun við þrönga sérhagsmuni eiganda fyrrnefndra lóða að ræða.

Sveitarfélagið haldi því fram að komið hafi verið til móts við kærendur með því að stalla fyrirhugaðar byggingar til að auka útsýni nágranna. Bendi kærendur á að athugasemdir þeirra hafi í engu lotið að fyrirhuguðu byggingarlagi eða útsýni en vandséð sé hvernig slík stöllun hafi þau áhrif sem haldið sé fram. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Leitast hafi verið við að fá fram óskir íbúa um skipulagsskyldar viðbætur, stækkanir og breytingar húsa og lóða á öllum stigum deiliskipulagsvinnunnar. Reynt hafi verið að gæta jafnræðis og ná fram skipulagslegum gæðum án þess að vinna gegn fjölbreytileika hverfisins og byggðamynstri.
Í skipulagsforsögn komi fram að nýtingarhlutfall lóða í upphafi deiliskipulagsgerðar hafi verið 0,2-0,8. Nýtingarhlutfall lóðarinnar Melabraut 20 sé 0,27 og Valhúsabrautar 19 sé 0,24 og fylgi húsin línu húsa meðfram allri Hæðarbrautinni. Nýtingarhlutfall þeirra húsa sé frá 0,35-0,73, talið frá austri til vesturs, og haldist það óbreytt. Fullyrðingar kærenda um að nýtingarhlutfall hinna umdeildu lóða eigi sér enga hliðstæðu í hverfinu eigi því ekki við rök að styðjast. Það sé einnig rangt að nýtingarhlutfall hverfisins miðist almennt við 0,4 þótt þess séu vissulega dæmi. Þá gefi byggingarflötur ekki upplýsingar um byggingarmagn heldur sé honum einkum ætlað að ákvarða byggingarlínur og fjarlægðir frá t.d. lóðarmörkum.

Hvergi sé vísað til Hæðarhverfis í svari bæjarins við athugasemdum kærenda en vitnað sé til nýtingar lóða við Hæðarbraut. Í Vesturhverfi, norðan Hæðarbrautar, séu öll hús sem næst séu Bakkahverfi með heimilað nýtingarhlutfall a.m.k. 0,5. Lóðin Valhúsabraut 21, sem sé löngu byggð lóð á horni Hæðarbrautar og Valhúsabrautar og við hlið Valhúsabrautar 19, hafi nýtingarhlutfallið 0,59. Því sé andmælt að færðar hafi verið fram rangar staðreyndir í málinu.

Þeirri ósk eiganda lóðanna Valhúsabrautar 19 og Melabrautar 20 að heimilað yrði að sameina lóðirnar og auka byggingarmagn á þeim til muna hafi verið hafnað. Við ákvörðun um nýtingarhlutfall lóðanna hafi verið stuðst við yfirbragð nyrsta hluta hverfisins þótt einnig hafi verið horft til bygginga handan Hæðarbrautar sem tilheyri deiliskipulagi Vesturhverfis. Einkenni þess hverfis sé m.a. aukin þétting byggðar í átt að Hæðarbraut. Eigi það m.a. við um Valhúsabraut 21. Skipulagsleg rök búi að baki ákvörðuninni. Vegna mótmæla á kynningartíma um skerðingu útsýnis hafi verið settir skilmálar um að hæð og form húsa skyldu vera brotin upp með stöllun til aðlögunar að byggðamynstri og til að auka útsýni nágranna. Jafnframt hafi þess verið gætt að heimila ekki byggingar nær lóðarmörkum en þrjá metra en húsið sem nú sé að Melabraut 20 sé byggt við lóðarmörkin.

Lögð hafi verið megináhersla á jafnræðissjónarmið í öllu skipulagsferlinu. Rík áhersla hafi verið lögð á greiningu og samanburð í öllu hverfinu við gerð skipulagsins. Jafnframt sé mikilvægt að lóðareigendur geti nýtt lögvarinn eignarrétt sinn, þó á þann hátt að það bitni ekki á öðrum. Í jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 felist að almennt sé óheimilt að mismuna aðilum sem eins sé ástatt um nema slíkt byggi á frambærilegum eða málefnalegum sjónarmiðum. Ávallt geti falist mismunun af einhverju tagi í skipulagsáætlunum. Slík mismunum geti verið réttlætanleg á grundvelli ýmissa sjónarmiða. Reynt hafi verið að taka tillit til ólíkra sjónarmiða hagsmunaaðila og þeirrar blönduðu og fjölbreyttu byggðar sem skipulagið taki til. Að mati sveitarfélagsins hafi tekist að uppfylla öll meginmarkmið sem sett hafi verið fram í forsögn deiliskipulagsgerðar, með jafnræðissjónarmið að leiðarljósi.

——–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags Bakkahverfis sem felldi úr gildi eldri skipulagsáætlanir er tóku til umrædds skipulagsreits. Er ágreiningur einkum um byggingarheimildir á lóðunum nr. 19 við Valhúsabraut og Melabraut 20, en þær eru norðan- og norðvestanvert við fasteign kærenda að Valhúsabraut 17.

Á skipulagsreitnum er fyrir gróin íbúðarbyggð. Fram kemur í greinargerð Aðalskipulags Seltjarnarness 2006-2024 að ekki sé gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á yfirbragði eldri hverfa. Þétting byggðar sé talin jákvæð þar sem henta þyki og mögulegt sé. Skuli uppbygging á þéttingarsvæðum taka mið af þeirri byggð sem fyrir sé og bygging nýrra húsa í núverandi íbúðarhúsahverfum raski ekki yfirbragði hverfanna.

Á lóðinni Valhúsabraut 19 stendur einnar hæðar hús með risi og bílskúr. Felur hin kærða ákvörðun m.a. í sér að heimilt er að rífa það og reisa þar í staðinn tveggja hæða einbýlishús eða parhús með samtals tveimur íbúðum. Nýtingarhlutfall lóðarinnar er 0,24 en samkvæmt deiliskipulaginu má það fara í 0,55. Við hlið þessarar lóðar er lóðin Melabraut 20 en á henni stendur tveggja hæða hús með kjallara og bílskúr. Í stað þessara mannvirkja er nú heimilað að reisa þar tveggja hæða einbýlis, parhús eða raðhús með allt að þremur íbúðum. Nýtingarhlutfall lóðarinnar fer úr 0,27 í allt að 0,60 samkvæmt deiliskipulaginu. Jafnframt skal vera bílgeymsla á nefndum lóðum fyrir a.m.k. helming íbúða í hverju húsi, ásamt bílastæðum framan við bílageymslur með aðkomu frá götu.

Ljóst er að með hinni kærðu ákvörðun hækkar nýtingarhlutfall fyrrgreindra lóða talsvert og geta fyrirhugaðar byggingar á þeim haft í för með sér aukin grenndaráhrif frá því sem áður var vegna stærðar sinnar. Mun heimiluð bygging á lóðinni að Valhúsabraut 19 að auki liggja nær lóð kærenda en áður. Til þess ber þó að líta að um nokkuð stórar hornlóðir er að ræða og að fordæmi eru fyrir sambærilegu nýtingarhlutfalli lóða á skipulagsreitnum. Fram kemur í greinargerð deiliskipulagsins að á skipulagsreitnum sé einbýlishúsabyggð, auk parhúsa, einstakra raðhúsa og „lítilla“ fjölbýlishúsa með mest sex íbúðum. Séu mörg húsanna 2-3 hæðir, með sér íbúð á hverri hæð.

Verður ekki annað ráðið en að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags um þéttingu byggðar í eldri hverfum bæjarins og að innbyrðis samræmi sé milli hins umdeilda deiliskipulags og aðalskipulags, svo sem áskilið er í 7. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að öllu framangreindu virtu, og þar sem ekki liggur annað fyrir en að málsmeðferð við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið lögum samkvæmt, verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 10. nóvember 2010 um að samþykkja deiliskipulag Bakkahverfis á Seltjarnarnesi.

___________________________
Ómar Stefánsson

___________________________        ___________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

78/2011 Tunguheiði

Með

Árið 2015, fimmtudaginn 28. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 8. nóvember 2011 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir þakhýsi á hluta húseignarinnar að Tunguheiði 8.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. október 2011, er barst nefndinni 26. s.m., kæra S, Tunguheiði 8, Kópavogi, ákvörðun bæjaryfirvalda í Kópavogi varðandi byggingu þakhýsis á hluta húseignarinnar að Tunguheiði 8. Eins og atvikum er háttað verður að skilja málskot kærenda svo að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 8. nóvember 2011 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir nefndu þakhýsi með kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 17. janúar 2013, 27. apríl 2015 og 8. maí 2015.

Málavextir: Kærendur hafa frá árinu 2001 óskað eftir heimild skipulags- og byggingaryfirvalda í Kópavogi til byggingar þakhýsis á hluta fjöleignarhússins við Tunguheiði 8, án árangurs, en í húsinu eru fjórar íbúðir á tveimur hæðum og stendur það á ódeiliskipulögðu svæði. Með bréfi til bæjarskipulags Kópavogsbæjar, dags. 11. nóvember 2010, óskuðu kærendur á ný eftir leyfi til byggingar þakhýsisins með breyttum uppdráttum þar sem tekið var tillit til athugasemda sem áður höfðu borist við grenndarkynningu. Á fundi hinn 16. nóvember 2010 vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu og var það tekið fyrir á fundi í skipulagsnefnd sama dag en málinu frestað. Á fundi nefndarinnar 13. desember s.á. var samþykkt að senda erindið í grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Athugasemdir bárust frá eigendum fasteigna við Skálaheiði 5 og 7 og Tunguheiði 12 og voru þær kynntar á fundi skipulagsnefndar 15. mars 2011. Athugasemdirnar lutu einkum að skuggavarpi af þakhýsinu, að það myndi spilla útsýni frá 3. hæð Skálaheiðar 7 og væri ekki í samræmi við götumynd. Skipulagsnefnd tók málið fyrir að nýju hinn 19. apríl s.á. og var þá lögð fram umsögn umhverfissviðs Kópavogsbæjar um þær athugasemdir sem borist höfðu. Helstu niðurstöður umsagnarinnar voru þær að fyrirhugað þakhýsi myndi ekki valda verulegri skuggaaukningu í nærliggjandi görðum og hefði ekki verulega neikvæð útsýnisáhrif á 3. hæð Skálaheiðar 7 eða á skuggavarp í garð og á sólpall að Skálaheiði 5. Skuggi af þakhýsi félli þó á húshlið á efri hæðum þegar sól væri lágt á lofti. Þá væri tekið undir að þakhýsið væri ekki í samræmi við götumynd. Var skipulagsstjóra falið að ræða við þá sem sendu inn athugasemdir.

Málið var aftur á dagskrá skipulagsnefndar 20. september 2011 þar sem lögð var fram útfærsla og málsetningar teiknistofu af fyrirhuguðu þakhýsi, dags. 17. ágúst 2011, ásamt umsögn byggingarfulltrúa, dags. sama dag, varðandi lofthæð og þakhalla fyrirhugaðs þakhýsis þar sem vísað var í gr. 78.1 og 136.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Skipulagsnefnd samþykkti niðurstöðu umhverfissviðs en í niðurstöðu nefndarinnar, sem skráð er á umsögnina, segir meðal annars að reikna megi með að skuggavarp geti haft áhrif á notkun sólpalls frá október til loka febrúar á tímanum frá hádegi til að verða kl. 16. Með tilvísan í framlögð gögn og fram komnar athugasemdir hafnaði skipulagsnefnd því að veita leyfi fyrir þakhýsi á hluta húseignarinnar að Tunguheiði 8. Bæjarráð samþykkti hins vegar erindið á fundi sínum 23. september 2011. Hinn 27. s.m. staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar og hafnaði erindinu.

Málið var að endingu tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. nóvember 2011 og afgreitt með svofelldri bókun: „Hafnað, með tilvísun í umsögn byggingarfulltrúa 17. ágúst 2011, þar sem fram kemur að byggingin uppfyllir ekki ákvæði byggingarreglugerðar nr. 44/1998 og umögn skipulagsnefndar dags. 12. apríl 2011.“

Málsrök kæranda: Kærendur vísa til áðurnefndrar umsagnar umhverfissviðs Kópavogsbæjar um að fyrirhugað þakhýsi valdi ekki verulegri skuggaaukningu í nærliggjandi görðum og á sólpöllum og hafi ekki verulega neikvæð útsýnisáhrif á efstu hæð Skálaheiðar 7. Hvað götumynd og yfirbragð hverfisins varði sé bent á að götumyndinni hafi þegar verið breytt þegar hallandi þak hafi verið sett í stað flats þaks á Tunguheiði 14 og þakið um leið hækkað nokkuð frá því sem áður hafi verið. Þá séu hús handan götunnar, sem tilheyri Melaheiði og Lyngheiði, sem hafi allt annað yfirbragð en þau fjögur hús við Tunguheiði sem séu með flötu þaki. Því hafi áður verið haldið fram í bréfi formanns skipulagsnefndar, dags. 2. desember 2008, að bygging þakhæðar væri ekki í samræmi við yfirbragð hverfisins og í því sambandi vísi kærendur í greinargerð, dags. 20. júlí 2005, sem fylgt hafi tillögu að deiliskipulagi fyrir Heiðarvallasvæðið. Þar segi meðal annars að engin ein þakgerð sé ráðandi í hverfinu, breytingar og viðbyggingar hafi verið gerðar á flestum húsanna og byggðin sé sundurleit og án sérkenna. Þá bendi kærendur á að trjágróður á svæðinu virðist undanskilinn þegar götumynd, skugga- og útsýnisáhrif séu metin, en hann sé nú orðinn nokkuð mikill. Grenitré við Tunguheiði 8 hafi til að mynda vaxið um 3 m upp fyrir þakhæð hússins.

Fordæmi séu fyrir því að lítil þakhýsi hafi fengist samþykkt í hverfinu. Þakhýsi hafi verið byggt ofan á hluta húss við Lyngheiði 1, leyfi hafi verið veitt fyrir slíkri byggingu að Lyngheiði 18 og byggingu þakhýsis á Melaheiði 1 sé lokið. Athygli sé vakin á því að bygging þakhýsis á síðastnefndu húseigninni hafi talsvert meiri útsýnisáhrif en þakhýsi á Tunguheiði 8 geti haft, en það beri í Kistufellið á Esjunni þegar staðið sé við útsýnisskífu á friðlýstu svæði á Víghóli. Það sé ekki síst þegar kærendur skoði upplýsingar í fundargerðum skipulagsnefndar, bæjarráðs og bæjarstjórnar um meðferð umsóknar um leyfi fyrir þakhýsi á Melaheiði 1, sem þeim finnist Kópavogsbær hafa virt jafnræðis- og sanngirnissjónarmið að vettugi.

Kærendur hafi alltaf haft það sjónarmið að leiðarljósi að þakhýsi á Tunguheiði 8 yrði af hóflegri stærð og félli sem best inn í götumynd efst í götunni að austanverðu. Gert sé ráð fyrir flötu þaki sem sé í samræmi við byggingarstíl hússins og þakhýsið verði dregið vel inn á þakið. Þá séu fjölmörg dæmi um það í fundargerðum byggingarnefndar að mál hafi hlotið brautargengi eftir að komið hafi verið til móts við innsendar athugasemdir.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað og að staðfest verði ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs um að hafna útgáfu byggingarleyfis fyrir þakhýsi að Tunguheiði 8.

Við mat á því hvort veita skuli byggingarleyfi skuli fyrst og fremst litið til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Það sé eðli borga og bæja að þeir geti tekið breytingum og séu í stöðugri þróun. Eigendur húsa verði því að gera ráð fyrir að skipulag í hverfum geti tekið óverulegum breytingum að því er varði einstakar fasteignir, uppbyggingu hverfa og þéttingu byggðar. Þó skuli leitast við að tryggja hagsmuni heildarinnar og að grenndarhagsmunir séu ekki skertir.

Almennt sé viðurkennt að grenndarsjónarmið vegi þungt við útgáfu byggingarleyfa í hverfum sem ekki hafi verið deiliskipulögð. Þá verði að telja sjónarmið um almannahagsmuni og náttúruvernd vega enn þyngra, en Tunguheiði 8 sé við austurenda Víghóls, sem sé friðlýst náttúruvætti á grundvelli 22. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971, sbr. auglýsingu nr. 778 í B-deild Stjórnartíðinda, dags. 23. nóvember 1983. Um svæðið gildi ákveðnar reglur samkvæmt auglýsingunni, þar á meðal sú regla að varðveita skuli jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd. Hvers konar mannvirkjagerð eða jarðrask, sem breytt geti útliti eða eðli svæðisins, sé óheimilt nema til komi sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar.

Víghólar séu jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum. Friðlýsta svæðið sé um einn hektari en útivistarsvæðið í heild sé rúmir þrír hektarar. Svæðið sé hæsti hluti Digraneshæðar og þaðan sé víðsýnt, m.a. í austurátt þar sem Tunguheiði 8 sé. Á Víghóli hafi verið komið fyrir útsýnisskífu og útsýni frá hæstu punktum svæðisins sé umtalsvert til allra átta, meðal annars fögur fjallasýn til norðurs og austurs. Ein af grundvallarforsendum fyrir verndun svæðisins sé að útsýni af Víghóli verði ekki skert. Þá hafi svæðið verið nýtt til stjörnuskoðunar og til að skoða norðurljós. Þá hafi ekki verið komið fyrir ljósastaurum þar svo að náttúruskoðunar verði sem best notið til allra átta. Mat Kópavogsbæjar sé að þakhýsi á Tunguheiði 8 myndi breyta eðli svæðisins sem útsýnissvæðis og því sé bygging þakhýsa við Tunguheiði óheimil. Telja verði að með mannvirkjagerð sé ekki einungis átt við mannvirkjagerð innan hins friðlýsta svæðis, heldur taki friðlýsingin til hvers konar mannvirkjagerðar á og við Víghól.

Andmæli hafi borist frá nágrönnum kærenda við grenndarkynningu þakhýsisins. Í umsögn umhverfissviðs Kópavogsbæjar, dags. 19. apríl 2011, komi fram að bygging þess muni ekki hafa veruleg grenndaráhrif en þó einhver. Þá sé bygging þakhýsisins ekki í samræmi við götumynd. Kærendur vísi til þess að götumynd hafi verið breytt með breytingu á þaki Tunguheiðar 14 og að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir þakhýsum á Lyngheiði 1 og 18 og Melaheiði 1. Með því að þeim hafi verið synjað um leyfi fyrir þakhýsi hafi jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið brotin. Í því samhengi sé vakin athygli á að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir þakhýsi á Lyngheiði 1, en líklega eigi kærendur þar við Lyngheiði 2, og byggingarleyfi fyrir þakhýsi á Lyngheiði 18 sé fallið úr gildi þar sem það hafi ekki verið nýtt innan tilskilinna tímamarka. Kærendur hafi ekki fært viðhlítandi rök fyrir því með hvaða hætti Kópavogsbær hafi brotið jafnræðisreglu með því að synja um byggingarleyfið. Um afar ólík mál sé að ræða, bæði að því er varði stærð, útlit, áhrif á götumynd og grenndaráhrif, og því eigi sjónarmið um jafnræði ekki við í þessu tilviki. Í jafnræðisreglunni felist að mál sem séu sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta samskonar úrlausn. Ekki sé unnt að fallast á að endurnýjun þaks á Tunguheiði 14 sé sambærileg við byggingu þakhýsis að Tunguheiði 8. Þakið á Tunguheiði 14 standi umtalsvert lægra en þakhýsið á Tunguheiði 8 myndi gera. Í því ljósi og samanborið við nýtingarmöguleika sé ljóst að ekki sé um sambærileg mál að ræða. Húsin við Lyngheiði 2 og 18 og Melaheiði 1 séu einbýlishús á einni hæð frá götu séð og þakhæð þeirra sé eðli máls samkvæmt umtalsvert minni en þakhæð hússins að Tunguheiði 8. Því sé ekki hægt að fallast á að um sambærileg mál sé að ræða.

Kópavogsbær hafi árið 2005 staðið fyrir óformlegri kynningu á deiliskipulagstillögu fyrir Heiðarvallasvæðið, sem afmarkist af Skálaheiði 1-9 til austurs, Digranesheiði 23-45 til suðurs, opnu svæði Víghóls til vesturs og Álfhólsvegi 74-96 til norðurs. Í tillögunni hafi verið sýnd hækkun húsa á umræddu svæði. Ástæða kynningarinnar hafi verið sú að borist hafi nokkur erindi frá íbúum á svæðinu þar sem farið hafi verið fram á leyfi fyrir hækkun húsa. Kópavogsbæ hafi borist fjöldi athugasemda frá íbúum svæðisins þar sem lýst hafi verið andstöðu við deiliskipulagstillöguna. Ljóst sé að töluverð andstaða ríki meðal nágranna og sem fyrr greini hafi grenndarhagsmunir verið taldir vega þungt í málum sem þessu.

Kópavogsbær telji afgreiðslu bæjarins á umsókn um byggingarleyfi fyrir þakhýsi að Tunguheiði 8 bæði formlega og efnislega rétta. Ákvörðun sveitarstjórnar sé á rökum reist og byggist á málefnalegum sjónarmiðum, fari í engu í bága við jafnræðisreglur stjórnsýsluréttarins og sé eðlileg með tilliti til byggðarinnar í heild, hagsmuna nágranna og sjónarmiða um náttúruvernd og friðlýsingu Víghólssvæðisins.

Niðurstaða: Samkvæmt fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa hinn 8. nóvember 2011 var byggingarleyfisumsókn kærenda hafnað, annars vegar með tilvísun í umsögn byggingarfulltrúa frá 17. ágúst 2011, þar sem fram hafi komið að byggingin uppfyllti ekki ákvæði gr. 78.1 og gr. 136.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, um lofthæð íbúðarrýma og þakhalla, og hins vegar með vísan í umsögn, sem ætla verður að sé umsögn umhverfissviðs vegna málsins frá 19. apríl 2011 að lokinni grenndarkynningu. Þar kom fram að þakhýsi það sem kærendur sóttu um leyfi fyrir myndi ekki hafa veruleg grenndaráhrif með tilliti til skuggavarps en hins vegar væri það í ósamræmi við götumynd. Skipulagsnefnd hafnaði erindi kærenda hinn 20. september 2011, þar sem tekið var undir nefnda umsögn, en benti auk þess á að reikna mætti með að skuggavarp gæti haft áhrif á notkun sólpalls að Tunguheiði 12 frá október til loka febrúar frá hádegi til um kl. 16.

Ekki verður af fyrirliggjandi gögnum málsins ráðið með vissu að hönnun umrædds þakhýsis fari gegn fyrrgreindum ákvæðum byggingarreglugerðar um lofthæð og þakhalla og þá með hvaða hætti. Er rökstuðningi umræddrar ákvörðunar að þessu leyti áfátt.

Í 5. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga segir að varði breyting á mannvirki útlit þess og form skuli leita samþykkis skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi er veitt nema breyting sé óveruleg. Bygging þakhýsis að Tunguheiði 8 telst ekki óveruleg framkvæmd í þessum skilningi að mati úrskurðarnefndarinnar og var byggingarfulltrúa því rétt að leita samþykkis skipulagsnefndar í samræmi við áðurgreint lagaákvæði.

Kærendur halda því fram að Kópavogsbær hafi virt jafnræðis- og sanngirnissjónarmið að vettugi við afgreiðslu umsóknar þeirra. Kemur því til skoðunar hvort skipulagsnefnd hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í reglunni felst að almennt sé óheimilt að mismuna aðilum sem eins sé ástatt um. Sambærileg mál beri að afgreiða á sambærilegan hátt. Reglan á að hindra að ákvarðanir verði tilviljunarkenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum viðhorfum. Þrátt fyrir jafnræðisregluna getur þó verið réttlætanlegt að afgreiða sambærileg tilvik með ólíkum hætti ef slík niðurstaða byggist á frambærilegum og málefnalegum sjónarmiðum.

Þakhýsi á Tunguheiði 8 er að mati úrskurðarnefndarinnar ekki sambærilegt við þakhýsi á húsunum við Lyngheiði 2 og 18 og Melaheiði 1, sem eru einbýlishús á einni hæð við götu, en hús kærenda er tvílyft fjölbýlishús. Telja verður að áhrif þakhýsisins á götumynd verði önnur og meiri en áhrif heimilaðrar breytingar á þaki Tunguheiðar 14. Afstaða skipulagsnefndar til umsóknar kærenda var því studd efnisrökum og verður ekki fallist á að nefndin hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu málsins.

Að öllu virtu verður því talið að byggingarfulltrúa hafi verið rétt að synja um byggingarleyfið með vísan til 5. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga og þrátt fyrir fyrrgreindan annmarka á rökstuðningi verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 8. nóvember 2011 að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir þakhýsi á hluta húseignarinnar við Tunguheiði 8.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

79/2014 Tryggvagata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 28. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að synja umsókn um uppsetningu auglýsingaskiltis á húsið nr. 10 við Tryggvagötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Ottó Magnússon f.h. M 14. ehf., rekstraraðila veitingastaðarins Reykjavík Fish, Tryggvagötu 8, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi til þess að setja upp auglýsingaskilti á hús nr. 10 við Tryggvagötu vegna veitingastaðarins. Verður að skilja málskot kæranda sem svo að krafist sé að synjunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 5. september 2014.

Málavextir: Hinn 24. júní 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík tekin fyrir umsókn kæranda, dags. 12. s.m., um leyfi til að setja upp 2,7×1,3 m auglýsingaskilti utan á húsið nr. 10 við Tryggvagötu vegna rekstrar kæranda. Var umsókninni synjað með vísan til þess að það samræmdist ekki samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkurborgar.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að í núgildandi skipulagslögum segi að kveða skuli á um skilti í deiliskipulagi. Í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði sé ekkert að finna um fyrirkomulag auglýsingaskilta. Byggingarfulltrúa hafi því verið óheimilt að synja umsókn kæranda um uppsetningu auglýsingaskiltis.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í 8. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að í skipulagsreglugerð skuli m.a. kveða á um auglýsingaskilti. Í gr. 5.3.2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segi að í skilmálum deiliskipulags skuli sérstaklega kveðið á um upplýsinga- og auglýsingaskilti. Í 1. mgr. gr. 2.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé kveðið á um að stærð og staðsetning skilta skuli vera í samræmi við ákvæði gildandi skipulags. Segi jafnframt í 2. mgr. sömu greinar að skilti yfir 1,5 m2 séu byggingarleyfisskyld, þó með ákveðnum undanþágum.

Í gildandi deiliskipulagi sé ekkert fjallað um skilti enda hafi ekki verið gert ráð fyrir slíkri umfjöllun í deiliskipulagi á þeim tíma sem það hafi verið samþykkt. Í gildi sé samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur og gildi hún um hvers konar skilti og auglýsingar sem sótt sé um leyfi fyrir hjá embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík. Samkvæmt gr. 6.6.4 í samþykktinni sé hvorki heimilt að setja upp veggspjöld utanhúss né líma upp aðrar auglýsingar nema á þar til gerðum skiltastöndum í eigu Reykjavíkurborgar. Verði ekki annað séð en að kærandi sé að sækja um leyfi til að setja upp veggspjald utanhúss. Slíkt sé bannað samkvæmt ofangreindu ákvæði. Byggingarfulltrúanum í Reykjavík hafi því ekki verið heimilt að samþykkja umsókn kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingarleyfi fyrir uppsetningu auglýsingaskiltis utan á húsið nr. 10 við Tryggvagötu.

Við afgreiðslu málsins vísaði byggingarfulltrúi til þess að skiltið samræmdist ekki samþykkt um skilti í Reykjavík. Nefnd samþykkt var sett 6. ágúst 1997 í gildistíð byggingarlaga nr. 54/1978. Samkvæmt 5. gr. þeirra laga var sveitarstjórnum heimilt að setja í sérstaka byggingarsamþykkt fyllri ákvæði, m.a. um stjórn og meðferð byggingarmála. Skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 tóku við af byggingarlögum og gat sveitarstjórn með stoð í 6. mgr. 37. gr. þeirra laga sett staðbundna samþykkt með viðbótarreglum við þær reglur sem byggingareglugerð hafði að geyma, þ. á m. um uppsetningu auglýsingaskilta. Í 6. tl. ákvæðis til bráðabirgða í gildandi skipulagslögum nr. 123/2010 segir að byggingarsamþykktir sem settar hafi verið á grundvelli 37. gr. laga nr. 37/1997 og varði skipulagsákvarðanir haldi gildi sínu að svo miklu leyti sem þær samrýmist ákvæðum laga þessara. Þá segir í gildistökuákvæði gr. 17.1.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að við gildistöku hennar falli úr gildi eldri byggingarreglugerð sem og samþykktir sveitarfélaga sem settar hafi verið á grundvelli fyrri skipulags- og byggingarlaga og brjóti í bága við reglugerð nr. 112/2012.

Fjallað er um viðfangsefni og efnistök deiliskipulags í gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir að setja skuli skipulagsskilmála um þau viðfangsefni sem tilgreind eru í greininni, eftir því sem við eigi, miðað við aðstæður á skipulagssvæðinu, markmið og áherslur aðalskipulags og aðrar forsendur fyrir skipulagsvinnunni. Í gr. 5.3.2.3., sbr. 8. mgr. 45. gr. skipulagslaga, er kveðið á um að í deiliskipulagi skuli vera skilmálar um upplýsinga- og auglýsingaskilti. Þá segir í gr. 5.3.2.4. að í deiliskipulag skuli setja ákvæði um upplýsinga- og auglýsingaskilti þar sem gera megi ráð fyrir slíku. Í kafla 2.5 í gildandi byggingarreglugerð er fjallað um skilti og segir í gr. 2.5.1. að skilti skuli vera í samræmi við gildandi skipulag og þau sem séu stærri en 1,5 m2 að flatarmáli séu byggingarleyfisskyld. Í kafla 6.6. í samþykktinni er fjallað um skilti sem bönnuð eru í miðborg Reykjavíkur. Samkvæmt gr. 6.6.2. skulu þjónustuskilti ekki vera stærri en 1,5 m2 og skulu önnur einstök skilti ekki vera stærri en 2,5 m2. Þá segir í gr. 6.6.4. að ekki sé heimilt að setja upp veggspjöld utanhúss og ekki sé heimilt að líma upp aðrar auglýsingar nema á þar til gerðum skiltastöndum í eigu Reykjavíkurborgar. Verður ekki séð að nefnd ákvæði samþykktarinnar brjóti í bága við þau laga- og reglugerðarákvæði sem áður eru rakin. Umrætt skilti er 2,7×1,3 m að stærð eða 3,91 m2, og var byggingarfulltrúa því rétt að synja umsókn kæranda með vísan til áðurnefndrar samþykktar, enda er Tryggvagata 10 á miðborgarsvæði. Þá átti uppsetning hins umdeilda auglýsingaskiltis sér ekki heldur stoð í gildandi deiliskipulagi Naustreits 1.132.1, sem samþykkt var 7. október 2003. Verður kröfu kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að synjun byggingarfulltrúans um uppsetningu auglýsingaskiltis á húsið nr. 10 við Tryggvagötu verði felld úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

20/2015 Mosgerði

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 28. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. mars 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Guðmundína Ragnarsdóttir hdl., f.h. S, Mosgerði 7, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. febrúar 2015 að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 20. apríl 2015.

Málavextir: Haustið 2013 sendu kærendur kvörtun til byggingarfulltrúans í Reykjavík vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði og fjöleignarhúsi sem þar stendur. Í framkvæmdinni fólst að grafið var frá sökklum hússins og lagnir lagðar upp að því, auk þess sem steyptar tröppur á lóðinni voru brotnar niður og lóð lækkuð. Í kjölfar vettvangsskoðunar af hálfu embættis byggingarfulltrúa voru framkvæmdirnar stöðvaðar 3. október 2013 þar sem byggingarleyfi lá ekki fyrir. Bárust athugasemdir frá framkvæmdaraðila 7. nóvember s.á. þar sem því var lýst að um væri að ræða viðhald á fasteigninni en ekki byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Dróst afgreiðsla málsins og 11. september 2014 beindu kærendur þeirri kröfu til byggingarfulltrúans að beita þvingunarúrræðum vegna framkvæmdanna. Var sú beiðni ítrekuð reglulega af hálfu kærenda allt fram til 30. janúar 2015 þegar dráttur á afgreiðslu málsins var kærður til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði uppkveðnum í dag vísaði úrskurðarnefndin því máli frá.

Byggingarfulltrúi tilkynnti framkvæmdaraðila með bréfi, dags. 4. febrúar 2015, að fallist væri á sjónarmið hans um að um viðhald væri að ræða fremur en byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Væri málinu lokið af hálfu embættisins. Tilkynnti framkvæmdaraðili kærendum málalok á húsfundi 19. s.m. og barst þeim umrætt bréf með tölvupósti 25. s.m. Hafa kærendur kært þær lyktir mála til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að annmarkar séu á málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar. Málsmeðferðin hafi dregist verulega og hafi engar skýringar verið gefnar á ástæðum tafanna.

Byggingarfulltrúi hafi tekið ákvörðun í málinu án þess að rannsaka það nægilega og sé ákvörðunin ekki byggð á réttum upplýsingum um málsatvik. Byggingarfulltrúi hafi því ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að fella málið niður sé einungis studd þeim rökum að í kjölfar skýringa leyfishafa hafi embættið tekið málið til ítarlegri skoðunar sem hafi leitt í ljós að hægt væri að fallast á að um viðhald á fasteign væri að ræða en ekki byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Hafi byggingarfulltrúa borið að koma á verkstað og ganga úr skugga um að skýringar leyfishafa væru marktækar. Mat byggingarfulltrúa hafi verið byggt á vettvangsskoðun eftirlitsfulltrúa sem hafi talið að um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir væri að ræða. Þetta mat hafi leitt til þess að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar. Enginn rökstuðningur hafi fylgt hinni kærðu ákvörðun sem skýri af hverju og með hvaða hætti byggingarfulltrúi hafi komist að annarri niðurstöðu 16 mánuðum eftir stöðvun framkvæmdanna.

Hinar umdeildu framkvæmdir séu byggingarleyfisskyldar og hafi ekki verið gert ráð fyrir þeim í upphafi eða á samþykktum teikningum. Hafi því þurft samþykki allra eigenda hússins, sbr. 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Hafi aldrei verið fjallað um framkvæmdirnar á húsfundum.

Augljóst sé að málsmeðferðin hafi verið haldinn verulegum annmörkum og ekki verið í samræmi við lög. Sé hin ólögmæta ákvörðun byggingarfulltrúa til þess fallin að valda kærendum tjóni, sem m.a. birtist í því að eigandi kjallaraíbúðar hafi haldið áfram með framkvæmdir óáreittur og að kærendur hafi þurft að leita aðstoðar lögmanns í samskiptum við embættið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða en að öðrum kosti að kröfum kærenda verði hafnað.

Ekki hafi verið tekin nein stjórnvaldsákvörðun í málinu. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2015, hafi framkvæmdaraðila einungis verið kynnt niðurstaða í málinu vegna kvörtunar meðeigenda en ekki hafi verið tekin formleg stjórnvaldsákvörðun. Ljóst sé að ágreiningsefni málsins varði m.a. deilu um hvort hinar umdeildu framkvæmdir hafi flokkast undir viðhald á húseigninni eða ekki. Byggingarfulltrúi hafi farið í vettvangsskoðun og fengið skýringar hjá framkvæmdaraðila og komist að þeirri niðurstöðu að um viðhald væri að ræða en ekki framkvæmdir sem flokkist undir byggingarleyfisskyldar framkvæmdir, sbr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Málsrök framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að málatilbúnaður kærenda sé á röngum forsendum reistur. Eigi ágreiningurinn hvorki undir úrskurðarnefndina né byggingarfulltrúa. Sé ætlan kærenda að reyna að koma í veg fyrir að hægt sé að sinna nauðsynlegu viðhaldi til að forða séreign framkvæmdaraðila, sem og sameign allra, frá tjóni. 

Allar framkvæmdir á lóðinni hafi verið miðaðar við að forða frekara tjóni. Engar breytingar hafi verið unnar á eigninni, útliti hennar, formi eða notkun. Þá sé lagnakerfi eignarinnar og burðarvirki hennar óbreytt. Fullyrðingum um annað sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Framkvæmdir sem miði að því að stöðva tjón á eignum geti ekki talist til leyfisskyldra athafna.

Þurfi framkvæmdaraðili ekki að búa við að eign hans rýrni og skemmist vegna vanrækslu annarra eigenda. Ákvæði 38. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 áskilji eiganda rétt til að bregðast við og framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra liggi sameignin eða séreignarhlutar undir skemmdum. Kærendur hafi ekki komið með aðrar tillögur um hvernig hægt sé að forða frekara eignartjóni. Hafi framkvæmdirnar verið nauðsynlegar og ekki verið hægt að ráðast í aðrar og umfangsminni framkvæmdir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði. Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eins og nánar er lýst í málavöxtum fengu kærendur bréf byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2015, ekki í hendurnar fyrr en 25. s.m. og gátu því ekki kynnt sér efni þess fyrr en á þeim tímapunkti. Þá blasir við að með nefndu bréfi var tekin ákvörðun í málinu sem batt á það enda og varð þvingunarúrræðum ekki beitt að því óbreyttu. Er sú ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Verður kæran því tekin til efnislegrar meðferðar.

Kærendur gera þá kröfu að þvingunarúrræðum samkvæmt 56. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 verði beitt vegna þeirra framkvæmda sem hafa átt sér stað á lóðinni Mosgerði 7. Þá er þess krafist að framkvæmdaraðila verði gert að koma lóðinni í fyrra horf enda liggi ekki fyrir samþykki kærenda fyrir framkvæmdunum. Lóðin er í sameign kærenda og framkvæmdaraðila. Það er í höndum byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, að meta hvort tilefni sé til beitingar þvingunarúrræða samkvæmt nefndum ákvæðum. Til að slíkt mat teljist málefnalegt verður það að byggja á almannahagsmunum þeim er búa að baki laga- og reglugerðarsetningu á þessu sviði, t.a.m. skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Verður ekki talið að greindu ákvæði laganna sé ætlað að tryggja lögvarinn rétt einstaklings til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða enda eiga önnur réttarúrræði að tryggja slíka vernd á einstaklingsbundnum hagsmunum. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík lauk málinu með rökstuðningi þess efnis að við ítarlegri skoðun hans á hinum umdeildu framkvæmdum hafi verið hægt að fallast á að um viðhald á fasteign væri að ræða en ekki byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Verður ekki annað séð en að sú ákvörðun, sem fól í sér að fallið var frá stöðvun framkvæmda á grundvelli 55. gr. mannvirkjalaga og að þvingunarúrræðum 56. gr. laganna yrði ekki beitt, hafi verið málefnaleg og studd nægilegum rökum. Þá verður ekki séð að rannsókn málsins hafi verið ábótavant, þrátt fyrir að vettvangsskoðun hafi áður leitt til stöðvunar framkvæmda, heldur verður að líta svo á að fyrir byggingarfulltrúa hafi legið gögn um þá vettvangsskoðun og aðrar þær upplýsingar sem máli skiptu við ákvörðunartökuna.

Með vísan til alls framangreinds verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

52/2011 Sólheimar

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 28. maí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. júní 2011 um að endurnýja áður samþykkt byggingarleyfi vegna endurnýjunar á handriðum á svölum og þaki og til að koma fyrir svalalokunum á 2.-10. hæð í fjölbýlishúsi á lóð nr. 27 við Sólheima.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. júlí 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl., f.h. P, H og Á, Sólheimum 27, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. júní 2011 um að endurnýja áður samþykkt byggingarleyfi vegna endurnýjunar á handriðum á svölum og þaki og til að koma fyrir svalalokunum á 2.-10. hæð í fjölbýlishúsi á lóð nr. 27 við Sólheima. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar 23. september 2011 og 9. febrúar 2015.

Málavextir: Sólheimar 27 er fjöleignarhús sem í eru 42 íbúðir. Húsfélagið Sólheimum 27 sótti hinn 2. október 2009 um byggingarleyfi fyrir endurnýjun handriða á svölum og þaki og til að koma fyrir svalalokunum og var umsóknin tekin fyrir og henni frestað á fjórum afgreiðslufundum byggingarfulltrúa á tímabilinu 13. október 2009 til 11. maí 2010. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. maí 2010 var tekin fyrir breytt umsókn um byggingarleyfi fyrir endurnýjun handriða á svölum og þaki og til að koma fyrir svalalokun á 2.-10. hæð hússins, en breytingin fólst í því að fallið var frá fyrirætlunum um svalalokanir á efstu hæðinni. Með umsókninni fylgdi listi með undirskriftum þeirra eigenda sem veitt höfðu samþykki sitt fyrir því að gerðar yrðu svalalokanir við húsið samkvæmt fyrirliggjandi byggingarnefndaruppdráttum, dagsettum 10. maí 2009. Umsóknin var samþykkt með svohljóðandi bókun: „Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997. Með vísan til samþykktar borgarráðs frá 1. september 1998 skal utanhúss- og lóðarfrágangi vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis að viðlögðum dagsektarákvæðum 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“ Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest á fundi borgarráðs 27. maí 2010.

Hinn 30. maí 2011 sótti húsfélagið um endurnýjun áður samþykkts leyfis og var umsóknin samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. júní 2011. Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa var lögð fram í skipulagsráði 8. s.m. og staðfest í borgarráði 9. s.m.

Málsrök kæranda: Kærendur byggja mál sitt á því að byggingarfulltrúi hafi, við afgreiðslu umsóknar húsfélags Sólheima 27 um byggingarleyfi, ekki gætt að 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og að málsmeðferð hjá byggingarfulltrúa hafi verið verulega ábótavant. Í umræddu lagaákvæði sé kveðið á um að með umsókn um byggingarleyfi þurfi að fylgja samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Samþykki allra meðeigenda sé nauðsynlegt fyrir þeim framkvæmdum sem húsfélagið hafi þegar ráðist í á svalahandriðum og fyrir þeim svalalokunum sem fyrirhugaðar séu, sbr. 6. tölul. A-liðar 41. gr. laga um fjöleignarhús, enda feli þær í sér verulegar breytingar á sameign sem ekki hafi verið gert ráð fyrir á upphaflegum teikningum hússins. Slíkt samþykki hafi ekki verið til staðar. Með umsókn um byggingarleyfi, dags. 2. október 2009, hafi vantað samþykki þriggja íbúðareigenda. Hafi það verið mat byggingarfulltrúa að miðað við teikningar sem lagðar hafi verið fram með umsókninni hafi samþykki allra íbúðareigenda verið nauðsynlegt. Samkvæmt umsögn byggingarfulltrúa hafi málið verið tekið fyrir fjórum sinnum án þess að hægt væri að samþykkja útgáfu leyfisins þar sem samþykki nokkurra eigenda hafi vantað. Þar sem ekki hafi verið hægt að fá samþykki allra fyrir áðurnefndum framkvæmdum hafi teikningum verið breytt þannig að ekki væri gert ráð fyrir svalalokunum á efstu hæð hússins. Byggingarfulltrúi hafi gefið út byggingarleyfi í kjölfarið, þrátt fyrir að þessar breyttu teikningar hafi í raun aldrei verið lagðar fyrir húsfund. Þannig hafi byggingarfulltrúi gefið út byggingarleyfi sitt á grundvelli samþykkis eigenda fyrir allt annarri teikningu. Telja verði að umrædd vinnubrögð byggingarfulltrúa séu verulega ámælisverð og að honum hafi vel mátt vera ljóst að samþykki íbúðareigenda sem fylgdi umsókninni hafi verið eldra en breyttar teikningar sem sýndu húsið án svalalokana á efstu hæð. Þar af leiðandi hafi skilyrðum laga um fjöleignarhús ekki verið framfylgt og þá ekki heldur skilyrði áðurnefndrar 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki.

Kærendur vísa að auki til rökstuðnings í kæru sem send var kærunefnd húsamála 8. júlí 2011, m.a. fyrir hönd kærenda í máli þessu. Í henni er einkum fjallað um þá annmarka sem kærendur telja hafa verið á ákvarðanatöku húsfélagsins um endurnýjun svalahandriða og svalalokanir. Ítarlegri rök eru færð fyrir því að samþykki allra eigenda hafi verið áskilið fyrir framkvæmdunum. Til vara var því haldið fram að samþykki 2/3 hluta eigenda, sbr. 3. tölul. B-liðar 41. gr. laga um fjöleignarhús, hafi í það minnsta verið nauðsynlegt, en það hafi þó ekki legið fyrir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kærenda í málinu verði hafnað. Byggingarfulltrúa hafi verið fullkomlega heimilt að samþykkja umdeilda byggingarleyfisumsókn og málsmeðferð öll hafi verið í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi. Um hafi verið að ræða endurnýjun á áður samþykktu leyfi sem samþykkt hafi verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 25. maí 2010. Byggingarleyfisumsóknin hafi stafað frá húsfélaginu Sólheimum 27 og þegar svo sé megi reikna með því að húsfélagið hafi tekið löglega ákvörðun um málefnið. Með byggingarleyfisumsókninni hafi fylgt samþykki allra sömu eigenda og vegna fyrri umsóknar. Telja verði afar strangt að gera þá kröfu, þegar svo hátti til, að nýtt samþykki allra eigenda fylgi umsókn um endurnýjun á leyfi í óbreyttri mynd enda hafi eignarhlutar ekki skipt um eigendur í millitíðinni. Starfsmenn byggingarfulltrúa hafi gengið úr skugga um að ekki væru nýir eigendur að eignarhlutum í húsinu. Engin rök hafi því staðið til þess að kalla eftir nýju samþykki eigenda við endurnýjun leyfisins, þegar um sömu eigendur hafi verið að ræða. Í öllu falli sé fráleitt að gera þá kröfu þegar svo standi á að ekki hafi liðið langur tími frá fyrri samþykkt máls, en í máli þessu hafi umsókn um endurnýjun leyfis borist innan fimm daga frá því að fyrri samþykkt féll úr gildi.

Það sé einnig mat Reykjavíkurborgar að fyrri samþykkt hafi verið í samræmi við lög og reglur, þ.m.t. ákvæði laga um fjöleignarhús. Ljóst sé að til endurnýjunar svalahandriða þurfi ekki samþykki allra eigenda heldur megi ætla að samþykki einfalds meirihluta sé nægjanlegt, enda taki handriðin mið af upprunalegum handriðum en séu einungis hækkuð í 123 cm. Svalalokanirnar felist í glerbrautakerfi sem sé úr áli með öryggisgleri og hafi óverulegar breytingar í för með sér. Lokun svala með þeim hætti sem hin kærða ákvörðun heimili hafi í för með sér breytingu á sameign enda teljist allt ytra byrði húss til sameignar, þar með talið ytra byrði svala, stoð- og burðarvirki þeirra svo og svalahandrið, sbr. 1. og 4. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús. Breytingin sé þó fyrst og fremst á ytra útliti hússins og geti ekki talist veruleg í skilningi 30. gr. sömu laga. Áhrif á notkun sameignar og viðhaldskostnað verði að telja lítil sem engin. Því hafi samþykki 2/3 hluta eigenda nægt til að unnt væri að veita byggingarleyfi fyrir breytingunum.

Athugasemdir leyfishafa: Húsfélagið Sólheimum 27 hefur upplýst að framkvæmdum við húsið sé lokið. Jafnframt lagði húsfélagið fram gögn sem tengjast málinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um endurnýjun byggingarleyfis fyrir breytingu á handriðum og uppsetningu á svalalokunum á 2.-10. hæð fjöleignarhússins að Sólheimum 27. Samkvæmt 1. og 4. tl. 8. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 telst allt ytra byrði húss til sameignar, þar með talið ytra byrði svala, stoð- og burðarvirki þeirra svo og svalahandrið.

Í 30. gr. laga um fjöleignarhús er fjallað um breytingar á sameign. Kemur þar fram í 1. mgr. að samþykki allra eigenda þurfi fyrir verulegum breytingum á sameign húss, þar á meðal á útliti þess. Sé um að ræða framkvæmdir sem hafa í för með sér breytingu á sameign, utan húss eða innan, sem þó geta ekki talist verulegar, nægir skv. 2. mgr. 30. gr. að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir. Sé um smávægilegar breytingar að ræða nægir þó alltaf samþykki einfalds meirihluta miðað við eignarhluta samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins.

Eins og áður var rakið voru ný svalahandrið hærri en þau sem fjarlægð voru og felst í því útlitsbreyting. Hins vegar er til þess að líta að gömlu handriðin uppfylltu ekki kröfur gr. 202.15 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998, en þar kemur fram að handrið á veggsvölum megi aldrei vera lægri en 1,20 m á 3. hæð húss og ofar. Var hækkun handriðanna því óhjákvæmileg. Þá þykja aðrar breytingar á svalahandriðum vera smávægilegar. Að mati úrskurðarnefndarinnar fellur umdeild breyting á handriði svalanna því undir 3. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús og nægði þá samþykki einfalds meirihluta eigenda miðað við eignarhluta fyrir henni.

Lokun svala með þeim hætti sem hin kærða ákvörðun heimilar hefur fyrst og fremst í för með sér breytingu á ytra útliti hússins, sem getur þó ekki talist veruleg í skilningi 30. gr. nefndra laga. Áhrif á notkun sameignar og viðhaldskostnað verða að teljast lítil sem engin. Samþykki 2/3 hluta eigenda, sbr. 2. mgr. 30. gr. laganna, verður því talið hafa nægt til að unnt væri að veita byggingarleyfi fyrir svalalokunum.

Af gögnum málsins að dæma voru svalalokanir samkvæmt teikningum, dags. 10. maí 2009, samþykktar á húsfundi 26. s.m. Eigendur 26 íbúða skrifuðu undir undirskriftalista á fundinum til staðfestingar samþykki sínu fyrir svalalokunum samkvæmt fyrirliggjandi teikningum, auk þess sem þáverandi formaður húsfélagsins skrifaði undir fyrir þess hönd, en húsfélagið á eina íbúð í húsinu. Af undirskriftalistanum að dæma uppfyllti fundarsókn skilyrði 2. mgr. 42. gr. laga um fjöleignarhús og voru svalalokanir samkvæmt því samþykktar með tilskildum meirihluta á fundinum. Ekki verður þó ráðið af fundargögnum með afgerandi hætti að samþykkis hafi verið aflað fyrir breytingum á svalahandriðum á sama fundi. Hins vegar verður litið til þess að tilboð verktaka, m.a. í breytingar á svalahandriðum, var samþykkt án mótatkvæða á húsfundi 5. ágúst 2010. Þá var það samþykkt með meirihluta atkvæða á húsfundi 12. janúar 2011, eftir að hætt var við að semja við fyrrnefnda verktakann, að ganga að tilboði annars verktaka í sama verk. Verður að telja að þessar samþykktir feli í sér samþykki fyrir endurnýjun og breytingu á svalahandriðunum.

Kærandi vísar til þess að byggingarfulltrúi hafi samþykkt að veita umdeilt byggingarleyfi þrátt fyrir að teikningum hafi verið breytt og að hinar breyttu teikningar hafi aldrei verið samþykktar innan húsfélagsins. Byggt hafi verið á eldra samþykki eigenda frá því í maí 2009. Í ljósi þess að heimilaðar framkvæmdir með hinni kærðu ákvörðun rúmast innan samþykktar húsfundarins sem haldinn var 26. maí 2009 verður að líta svo á að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að veita byggingarleyfi fyrir þeim, þótt teikningum hafi verið breytt þannig að ekki væri lengur gert ráð fyrir svalalokunum á 11. hæð hússins. Byggingarleyfið felur þannig í sér minni útlitsbreytingu en samþykkt hafði verið á húsfundi. Samþykki húsfundarins 26. maí 2009 stóð óhaggað við samþykki byggingarleyfisins vorið 2011, enda liggur ekki fyrir að ný ákvörðun hafi verið tekin á húsfundi sem breytti fyrri ákvörðun um svalalokanir. Einnig er til þess að líta að kaupendur eigna í fjöleignarhúsum eru almennt bundnir af löglegum samþykktum húsfunda sem gerðar hafa verið fyrir eigendaskipti, auk þess sem réttur þeirra til að fá upplýsingar um þær framkvæmdir sem ákveðnar hafa verið í húsinu er lögfestur í 25. gr. laga um fjöleignarhús, sbr. einnig h-lið 2. mgr. 11. gr. laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa nr. 99/2004.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður á því byggt að fullnægjandi samþykki meðeigenda samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki hafi legið fyrir þegar hin kærða ákvörðun var tekin og verður því ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. júní 2011 um að endurnýja áður samþykkt byggingarleyfi vegna endurnýjunar á handriðum á svölum og þaki og til að koma fyrir svalalokunum á 2.-10. hæð í fjölbýlishúsi á lóð nr. 27 við Sólheima.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

8/2013 Langabrekka

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 21. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 5. febrúar 2013 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr á lóð Löngubrekku 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. febrúar 2013, er barst nefndinni 5. s.m., kærir K, Löngubrekku 5, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 18. desember 2012 að hafna að endurupptaka mál er varðaði heimild til að byggja við bílskúr á lóð Löngubrekku 5. Eins og atvikum er háttað verður að skilja málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 5. febrúar 2013 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr á lóð Löngubrekku 5, sem felur í sér lyktir málsins. Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 12. mars 2013 og 10. mars 2015.

Málavextir: Kærandi sótti um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr á lóð sinni við Löngubrekku 5 með umsókn, dags. 23. mars 2012, en umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt. Var gert ráð fyrir að í viðbyggingunni yrði geymsla. Umsóknin var tekin fyrir hjá byggingarfulltrúa, sem vísaði henni til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsnefnd samþykkti á fundi sínum 26. apríl 2012 að grenndarkynna umsóknina og bárust athugasemdir frá lóðarhöfum Álfhólsvegar 61.

Á fundi skipulagsnefndar 18. desember 2012 var erindið tekið fyrir að nýju og var það afgreitt með svohljóðandi bókun: „Með tilvísan til 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga hafnar skipulagsnefnd að endurupptaka mál er varðar heimild til að byggja við bílskúr þar sem ekki liggur fyrir samþykki þeirra er málið varðar.“ Bæjarstjórn Kópavogsbæjar afgreiddi málið á sama veg á fundi sínum hinn 8. janúar 2013. Hinn 5. febrúar 2013 sendi byggingarfulltrúi kæranda bréf þar sem tilkynnt var að umsókninni hefði verið synjað „… með tilvísun í afgreiðslu skipulagsnefndar 15. janúar 2013“.

Fyrir liggur að kærandi hefur áður sótt um byggingarleyfi fyrir stækkun umrædds bílskúrs til suðurs og var þeim umsóknum synjað. Tvívegis hefur úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fengið til meðferðar kærur vegna synjunar um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúrinn, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 97/2006 og 34/2007.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi áður sótt um byggingarleyfi fyrir stækkun á umræddum bílskúr. Umsókn hans hafi verið synjað í júní 2006 á þeim grundvelli að þinglýst samþykki lóðarhafa Álfhólsvegar 61 skorti, en slíkt samþykki hafi þá verið áskilið samkvæmt gr. 75.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Synjunin hafi verið kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Nefndu ákvæði byggingarreglugerðar hafi verið breytt í desember 2006 og hafi kærandi sótt aftur um byggingarleyfi á árinu 2007. Skipulagsnefnd hafi hafnað því að veita leyfið þrátt fyrir jákvæða umsögn bæjarskipulags Kópavogsbæjar.

Með umsókn sinni, dags. í mars 2012, hafi kærandi sótt um að stækka bílskúrinn samkvæmt nýrri og breyttri teikningu þótt deila megi um hvort teikningin hafi verið mikið eða lítið breytt frá teikningunum sem lagðar hafi verið fram með umsóknunum 2006 og 2007. Með nýrri umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrsins hafi ekki verið farið fram á endurupptöku máls heldur hafi verið um að ræða nýja umsókn og nýja teikningu sem ekki hafi verið lögð fyrir skipulagsnefnd áður. Eigi 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 því ekki við í málinu. Þá hafi skipulagsnefnd látið fara fram grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga og skuli að henni lokinni ljúka við afgreiðslu málsins og taka það til efnislegrar umfjöllunar en ekki vísa því frá eins og gert hafi verið.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að um endurupptöku stjórnvaldsákvarðana fari eftir 24. gr. stjórnsýslulaga. Þar sé mælt fyrir um að eftir að stjórnvald hafi tekið stjórnvaldsákvörðun og hún hafi verið tilkynnt aðila máls eigi hann rétt á að fá mál endurupptekið, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Fyrst megi nefna það skilyrði að ákvörðun stjórnvalds hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik eða atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Eigandi Löngubrekku 5 hafi ítrekað frá árinu 2005 sótt um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs og verið hafnað í öll skiptin. Erindi hans hafi verið hafnað í júní 2006, aftur í apríl 2007, beiðni um endurupptöku hafi verið hafnað í maí 2007, nýrri umsókn hafi verið hafnað í janúar 2009 og að síðustu hafi því verið hafnað á fundi skipulagsnefndar 18. desember 2012 að taka erindið upp að nýju. Málið hafi margsinnis áður fengið efnismeðferð hjá skipulagsyfirvöldum og verið hafnað m.a. á grundvelli grenndaráhrifa. Ekkert nýtt hafi komið fram eða atvik breyst verulega.

Auk þessa sé vakin athygli á því að ef þrír mánuðir séu liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun verði beiðni um endurupptöku ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Við meðferð málsins hafi ítrekað komið fram andmæli frá íbúum að Álfhólsvegi 61, en sú lóð liggi að lóðarmörkum Löngubrekku 5. Til að unnt sé að taka málið upp að nýju sé fortakslaust skilyrði skv. 24. gr. stjórnsýslulaga að samþykki allra aðila máls liggi fyrir. Aðilar máls í skilningi ólögfestra meginreglna stjórnsýsluréttarins séu þeir sem eigi lögmætra hagsmuna að gæta varðandi stjórnvaldsákvörðun. Ljóst sé að allir þeir sem sent hafi inn andmæli í kjölfar grenndarkynningar verði taldir „aðilar“ málsins og að málið verði ekki endurupptekið án þess að samþykki þeirra liggi fyrir. Í þessu sambandi breyti engu þótt hin nýja beiðni sé lögð fram í búningi nýs máls. Ljóst sé af efnislegum atvikum þessa máls að verið sé að óska eftir því að skipulagsnefnd endurupptaki mál, sem áður hafi margsinnis verið til meðferðar hjá skipulagsyfirvöldum í Kópavogi, án þess að fyrrgreind skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt, og því beri að hafna. Er þess krafist að ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs um synjun á endurupptöku málsins verði staðfest.

Niðurstaða: Fyrir liggur að kærandi lagði inn byggingarleyfisumsókn hjá byggingarfulltrúa um stækkun bílskúrs á lóð Löngubrekku 5 til suðurs að lóðarmörkum Álfhólsvegar 61. Samkvæmt tilkynningu til kæranda, dags. 5. febrúar 2013, hafnaði byggingarfulltrúi umsókninni „… með tilvísun í afgreiðslu skipulagsnefndar 15. janúar 2013“. Ekki verður þó séð af fundargerð skipulagsnefndar frá 15. janúar 2013 að nefndin hafi fjallað um þá umsókn kæranda sem deilt er um í málinu en á fundinum var hins vegar fjallað um aðra umsókn kæranda um byggingarleyfi vegna breytinga á íbúðarhúsi hans. Skipulagsnefnd afgreiddi hins vegar umsókn kæranda um viðbyggingu við bílskúr á fundi sínum 18. desember 2012 að undangenginni grenndarkynningu og var þá farið með umsóknina sem umsókn um endurupptöku, svo sem áður greinir.

Í málinu er um það deilt hvort heimilt hafi verið að fara með umsókn kæranda um byggingarleyfi sem beiðni um endurupptöku eldra máls. Fyrir liggur að kærandi lagði inn umsókn um byggingarleyfi ásamt nýjum uppdráttum og fékk hún lögboðna meðferð umsóknar í ljósi þess að um ódeiliskipulagt svæði var að ræða. Var umsóknin grenndarkynnt eins og áður greinir í samræmi við 44. gr. skipulagslaga. Þá hefur sveitarfélagið ekki vísað til tiltekins máls sem umsóknin hafi falið í sér beiðni um endurupptöku á, heldur skírskotað til þriggja eldri umsókna kæranda. Af gögnum málsins verður þó ekki ráðið að þær séu að öllu leyti sambærilegar við þá umsókn sem hér er til umfjöllunar.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar og rökstuðning haldinn slíkum annmörkum að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 5. febrúar 2013 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr á lóð Löngubrekku 5.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

9/2015 Mosgerði

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 28. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 9/2015, kæra á drátt á afgreiðslu máls hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. janúar 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Guðmundína Ragnarsdóttir hdl., f.h. S, Mosgerði 7, Reykjavík, drátt á afgreiðslu máls er varðar framkvæmdir á lóð nr. 7 við Mosgerði. Er þess krafist að byggingarfulltrúinn taki málið til efnislegrar meðferðar.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 3. febrúar 2015.

Málsatvik og rök: Haustið 2013 sendu kærendur kvörtun til byggingarfulltrúans í Reykjavík vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði og á fjöleignarhúsi sem þar stendur. Í framkvæmdinni fólst að grafið var frá sökklum hússins og lagnir lagðar upp að húsinu auk þess sem steyptar tröppur á lóðinni voru brotnar niður og lóð lækkuð. Í kjölfar vettvangsskoðunar af hálfu embættis byggingarfulltrúa voru framkvæmdirnar stöðvaðar 3. október 2013, þar sem byggingarleyfi lá ekki fyrir. Bárust mótbárur frá framkvæmdaraðila 7. nóvember s.á. þar sem því var lýst að um væri að ræða viðhald á fasteigninni en ekki byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Dróst afgreiðsla málsins og 11. september 2014 beindu kærendur þeirri kröfu til byggingarfulltrúans að beita þvingunarúrræðum vegna framkvæmdanna. Var sú beiðni ítrekuð af hálfu kærenda allt fram til 30. janúar 2015 þegar dráttur á afgreiðslu málsins var kærður til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 4. febrúar 2015 tók byggingarfulltrúinn ákvörðun í málinu. Féllst hann á að um viðhald á fasteign væri að ræða og taldi málinu lokið af hálfu embættisins.

Kærendur skírskota til þess að málið hafi verið til meðferðar hjá embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík í 15 mánuði. Séu málsatvik og rök aðila löngu orðin ljós og því sé ekkert því til fyrirstöðu að málið sé afgreitt efnislega. Starfsmenn embættisins hafi ekki gefið neinar skýringar á töfum málsins. Kærendur hafi lögvarða hagsmuni á því að málið sé tekið til efnislegrar afgreiðslu en einnig hafi kærendur brýna hagsmuni af því að málið hljóti hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum. Sé málsmeðferð ekki í samræmi við lög. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, beri stjórnvaldi skylda til að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt sé og hafi afgreiðsla hins umdeilda máls dregist óhæfilega.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að samkvæmt 1. mgr. og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæti stjórnvaldsákvörðun stjórnsýslu sveitafélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar enda hafi hún bundið enda á meðferð máls, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í málinu sé ekki að finna slíka ákvörðun og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um drátt á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík á máli er varðar framkvæmdir á lóð og fjölbýlishúsi nr. 7 við Mosgerði.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er meginreglan sú að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Á því er þó að finna tilteknar undantekningar og er í  4. mgr. 9. gr. laganna að finna slíka undantekningu. Samkvæmt nefndri grein er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til æðra stjórnvalds og ber að beina henni til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til. Í 59. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er kveðið svo á um að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðar-nefndarinnar.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúinn tók ákvörðun í greindu máli 4. febrúar 2015. Þar sem málinu er því lokið af hálfu embættisins er ekki lengur tilefni til að taka kæru um drátt á afgreiðslu þess til efnislegrar meðferðar. Af þeim sökum verður kröfu kærenda vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um að byggingarfulltrúinn í Reykjavík taki mál til efnislegrar meðferðar er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

45/2010 Langabrekka

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 21. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2010, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 25. maí 2010 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingu á innra skipulagi bílskúrs að Löngubrekku 5 og stoðvegg sunnan við hann.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júní 2010, er barst nefndinni 6. júlí s.á., kæra J, Álfhólsvegi 61, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 25. maí 2010 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingu á innra skipulagi bílskúrs að Löngubrekku 5 og stoðvegg sunnan við hann. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að bæjaryfirvöldum verði gert að láta fjarlægja undirstöður og botnplötu sem byggð hafi verið í óleyfi. Bæjarstjórn samþykkti hina kærðu ákvörðun hinn 8. júní 2010.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 21. mars 2013, 13. febrúar 2014, og 10. og 31. mars 2015.

Málavextir: Hinn 27. ágúst 2008 kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð í máli nr. 12/2006, þar sem ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs um að veita leyfi fyrir þegar gerðum stoðvegg á lóð Löngubrekku 5 var felld úr gildi sökum galla á málsmeðferð. Í kjölfarið vísaði byggingarnefnd Kópavogsbæjar umsókn um leyfi fyrir stoðveggnum til skipulagsnefndar til afgreiðslu að nýju. Ákvað skipulagsnefnd hinn 17. febrúar 2009 að grenndarkynna erindið fyrir lóðarhöfum Löngubrekku 1, 3 og 7 og Álfhólsvegar 59, 61 og 63 skv. þágildandi 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en svæðið er ódeiliskipulagt.

Grenndarkynning fór fram frá 19. mars til 20. apríl 2009 og sendu kærendur inn athugasemdir. Á fundi skipulagsnefndar 21. apríl s.á. var ákveðið að fela bæjarskipulagi Kópavogs að taka saman umsögn um innsendar athugasemdir. Á fundi skipulagsnefndar 10. júní 2009 var umsögn skipulags- og umhverfissviðs, dagsett sama dag, lögð fram. Niðurstaða hennar var á þá leið að með hliðsjón af andmælum eigenda Álfhólsvegar 61 væri ljóst að samþykki þeirra fengist ekki fyrir framkvæmdinni, sem væri á mörkum lóðanna, en fyrir lægi að eigandi Löngubrekku 5 hefði hafið framkvæmdir án þess að byggingarleyfis hefði verið aflað. Eðlilegt væri að leyfi eigenda aðliggjandi lóðar lægi fyrir vegna framkvæmda á lóðamörkum. Þá var minnt á 56. gr. skipulags- og byggingarlaga varðandi framkvæmdir sem brytu í bága við skipulag eða væru án leyfis. Skipulagsnefnd hafnaði erindinu á fundinum og vísaði því til afgreiðslu bæjarráðs og byggingarnefndar. Bæjarráð hafnaði svo erindinu á fundi sínum 11. júní 2009.

Í bréfi leyfishafa til byggingarnefndar Kópavogs, dags. 7. júlí 2009, rituðu í tilefni af áðurnefndri umsögn skipulags- og umhverfissviðs frá 10. júní 2009, vakti hann athygli á eldri umsögn um stoðvegginn frá því í desember 2005, þar sem mælt hefði verið með því að veggurinn yrði samþykktur. Skipulagsnefnd hefði samþykkt að veita leyfi fyrir stoðveggnum 19. desember 2005 og bæjarráð hefði tekið sömu afstöðu á fundi 19. janúar 2006. Þá kemur fram í bréfinu að leyfishafi telji ekki eðlilegt að lóðarhafar aðlægrar lóðar geti haft úrslitaáhrif á það hvort byggingarleyfi verði veitt fyrir stoðveggnum án rökstuðnings eða útskýringa.

Á fundi í byggingarnefnd 21. júlí 2009 var gerð svofelld bókun: „[Leyfishafi], Löngubrekku 5, Kópavogi, sækir um leyfi til að byggja við bílskúr að Löngubrekku 5. […] Málið hefur verið grenndarkynnt og athugasemdir bárust. Byggingarnefnd óskar eftir umsögn lögmanns skipulags- og umhverfissviðs.“ Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. apríl 2010, kemur fram að misritað hafi verið í fundargerð þess fundar að sótt hafi verið um að byggja við bílskúr. Þar hafi átt að standa að sótt hafi verið um að breyta innra skipulagi og fá að láta þegar byggðan stoðvegg standa. Sú umsögn sem bókun fundarins vísar til liggur ekki fyrir í málinu þrátt fyrir eftirgrennslan af hálfu úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 28. júlí 2009 skilaði leyfishafi inn nýrri umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingu á innra skipulagi bílskúrs á lóð Löngubrekku 5 og stoðvegg sunnan hans. Á fundi byggingarnefndar Kópavogs 25. maí 2010 var umsóknin tekin fyrir og afgreidd með svofelldri bókun: „Samþykkt, þar sem teikningar eru í samræmi við byggingar- og skipulagslög nr. 73/1997, með síðari breytingum. Nefndin leggur til að bæjarstjórn samþykki afgreiðslu byggingarnefndar.“ Bæjarstjórn samþykkti fundargerð nefndarinnar eins og að framan greinir og skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Samkvæmt afstöðumynd, dags. í júlí 2009, sem samþykkt var með hinni kærðu ákvörðun, er hluti nefnds stoðveggjar byggður þvert á suðurhlið viðbyggingar við bílskúr, samsíða lóðarmörkum Löngubrekku 3, og er þessi hluti 2,5 m langur. Á veggnum er 90° horn og liggur hinn hluti hans, sem er 7 m að lengd, meðfram lóðarmörkum Álfhólsvegar 61 í 0,5 m fjarlægð frá þeim. Hæð veggjarins er sýnd 130 cm og er hann samkvæmt afstöðumyndinni í sömu hæð og jarðvegur á lóðamörkum Löngubrekku 5 og Álfhólsvegar 61. Þá er merkt inn á afstöðumyndina stétt á fleti sem afmarkast af suðurhlið viðbyggingarinnar og stoðveggnum.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að byggingarnefnd hafi, samkvæmt fundargerð, byggt ákvörðun sína eingöngu á því að teikningar væru í samræmi við skipulags- og byggingarlög með síðari breytingum. Ákvörðunin standist ekki vegna þess að skipulagsnefnd og bæjarstjórn hafi áður hafnað því að veita leyfi fyrir framkvæmdinni. Skipti því engu hvernig teikningar séu úr garði gerðar. Þá hafi samþykkt byggingarnefndar verið gegn betri vitund nefndarinnar og byggingarfulltrúa um að það mannvirki sem sótt hafi verið um leyfi fyrir væri undirstöður og botnplata fyrirhugaðrar viðbyggingar við bílskúr leyfishafa en ekki stoðveggur. Vísa kærendur um þetta til bréfs byggingarfulltrúa, dags. 20. júlí 2005, og staðfestingar byggingarnefndar frá 3. ágúst s.á., en byggingarnefndin staðfesti á fundi sínum þann dag stöðvun framkvæmda við stækkun bílskúrs á lóð Löngubrekku 5 og tók undir kröfur byggingarfulltrúa um að fjarlægja þá þegar „… þær undirstöður og þá botnplötu að viðbyggingu bílskúrs sem steyptar hafa verið í óleyfi“. Leyfishafi hafi ítrekað sótt um leyfi til að byggja ofan á undirstöðurnar og botnplötuna, sem stundum hafi verið nefnd stétt, og þessi niðurstaða byggingarfulltrúa hafi þannig verið staðfest og viðurkennd af leyfishafa og arkitekt á hans vegum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er bent á að mál varðandi Löngubrekku 5 hafi verið til umfjöllunar með hléum a.m.k. frá árinu 2005. Af málavöxtum sem raktir séu í greinargerð Kópavogsbæjar megi leiða fullgildar skýringar á samþykki byggingarnefndar 25. maí 2010 fyrir stoðveggnum. Þá sé vísað til málsgagna í máli nr. 8/2013 sem einnig sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að ferli umsóknar um byggingarleyfi fyrir umræddum stoðvegg megi rekja aftur til ársins 2005. Þá hafi stoðveggurinn verið samþykktur af skipulagsnefnd Kópavogs en úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi fellt ákvörðunina úr gildi. Í maí 2010 hafi aftur verið samþykkt að veita leyfi fyrir stoðveggnum og sú ákvörðun hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar af sömu aðilum og í fyrra málinu. Áður en byggingarnefnd hafi tekið málið fyrir í maí 2010 hafi hann sent nefndinni bréf og vakið athygli á því að umsagnaraðili skipulagsnefndar Kópavogs hafi mælt með því að veitt yrði leyfi fyrir stoðveggnum árið 2005 en sami umsagnaraðili hafi mælt gegn því árið 2009 án þess að útskýra hvað lægi til grundvallar stefnubreytingunni.

Í kærunni sé ekki minnst á hvaða grein byggingarreglugerðar hafi verið brotin eða útskýrt á hvern hátt stoðveggurinn sé íþyngjandi fyrir kærendur eða valdi þeim ama eða óþægindum. Rökin séu einvörðungu þau að stoðveggurinn sé rangnefndur, hann sé sökkull en ekki stoðveggur. Í þessu tilfelli hafi verið sótt um leyfi fyrir stoðvegg og stoðveggur verið samþykktur af byggingarnefnd, hvað svo sem síðar kunni að verða. Vandséð sé hvaða hvatir ráði för hjá kærendum eða hvaða hagsmuni þeir hafi að verja með því að fá viðurkennt að um sé að ræða sökkul en ekki stoðvegg. Kærendum hafi verið gert ljóst þegar árið 2005 að til stæði að byggja stoðvegg á umræddum stað og þeir hafi þá ekki gert athugasemdir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogsbæjar um að veita byggingarleyfi fyrir þegar byggðum stoðvegg sunnan við bílskúr á lóð Löngubrekku 5. Stoðveggurinn liggur samsíða lóðarmörkum kærenda í um 0,5 m fjarlægð á um 7 m kafla og verður að telja að tilvist hans geti snert lögvarða hagsmuni kærenda. Eiga kærendur því aðild að kærumáli þessu skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem hér eiga við.

Byggingarnefndir fara með byggingarmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, sbr. 1. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í 7. mgr. 43. gr. laganna kemur fram að þegar sótt er um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir skuli skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar. Að grenndarkynningu lokinni og þegar niðurstaða skipulagsnefndar liggur fyrir skuli byggingarnefnd taka málið til afgreiðslu. Ekki verður ráðið af lögunum að byggingarnefnd sé bundin af niðurstöðu skipulagsnefndar.

Fyrir liggur að grenndarkynning fór fram á grundvelli eldri umsóknar leyfishafa um byggingarleyfi og að umsókn leyfishafa, dags. 28. júlí 2009, kom ekki til umfjöllunar í skipulagsnefnd og var ekki grenndarkynnt, eins og áðurnefnd 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga gerir ráð fyrir. Samanburður á skýringaruppdrætti, dags. 19. mars 2009, sem sendur var í grenndarkynningu samkvæmt ákvörðun skipulagsnefndar 17. febrúar 2009 annars vegar og uppdrætti (afstöðumynd) sem fylgdi umsókn leyfishafa, dags. 28. júlí 2009, hins vegar leiðir þó í ljós að umsóknirnar tvær eru sambærilegar hvað stoðvegginn varðar en hæð hans og staðsetning er hin sama. Eins og hér stendur á þykir því ekki tilefni til að ógilda ákvörðun byggingarnefndar af þessum sökum.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu tók bæjarráð afstöðu til erindisins áður en byggingarnefnd tók það til afgreiðslu og verður það að teljast aðfinnsluvert. Þá má fallast á það með kæranda að nokkuð hafi skort á rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun byggingarnefndar. Hins vegar verður að líta til þess að með ákvörðuninni var nefndin að samþykkja umsókn um byggingarleyfi. Verður að meta kröfur um rökstuðning skv. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 með hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttarins um rökstuðning, sbr. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verða því ekki gerðar ríkar kröfur um rökstuðning fyrir jákvæðum afgreiðslum byggingarleyfisumsókna.

Eins og hér stendur á er málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar ekki haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði og hefur umdeildur stoðveggur ekki raskað grenndarhagsmunum kærenda að marki þegar litið er til staðsetningar hans og hæðar miðað við jarðvegshæð á lóðamörkum Löngubrekku 5 og Álfhólsvegar 61.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Ákvarðanir, svo sem um að mannvirki skuli fjarlægð á grundvelli ákvæða skipulags- og byggingarlaga, falla utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til kröfu kærenda þar að lútandi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 25. maí 2010, sem staðfest var í bæjarstjórn 8. júní s.á., um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingu á innra skipulagi bílskúrs að Löngubrekku 5 og stoðvegg sunnan við hann.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

72/2010 Bakkavegur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 21. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2010, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Borgarfjarðarhrepps frá 1. nóvember 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi við Bakkaveg 10, Borgarfirði eystri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. nóvember 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir S þá ákvörðun hreppsnefndar Borgarfjarðarhrepps frá 1. nóvember 2010 að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi við Bakkaveg 10 í Bakkagerði, Borgarfirði eystri. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá er kærð afgreiðsla og svör Borgarfjarðarhrepps við athugasemdum kæranda við grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknarinnar.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Borgarfjarðarhreppi 25. janúar 2011 og 8. maí 2015.

Málavextir: Kærandi er eigandi hússins Strompleysu sem stendur við Bakkaveg en lóð Strompleysu liggur að lóð Bakkavegar 10. Bakkavegur liggur meðfram sjávarsíðunni og standa húsin Strompleysa og Bakkavegur 10 bæði neðan vegar. Strompleysa stendur milli vegarins og lóðar Bakkavegar 10 og Bakkavegur 10 stendur við sjávarbakkann. Bæði húsin standa á reit sem skilgreindur er sem frístundabyggð í Aðalskipulagi Borgarfjarðarhrepps 2004-2016 en svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt. Á reitnum er gert ráð fyrir átta lóðum undir frístundahús og eru þær almennt minni en aðrar lóðir við Bakkaveg sem tilheyra íbúðarsvæði samkvæmt aðalskipulaginu.

Strompleysa var byggð árið 1977 en frístundahúsið á lóð Bakkavegar 10 var flutt þangað tilbúið haustið 2009, upphaflega á grundvelli stöðuleyfis. Sótt var um byggingarleyfi fyrir húsinu með umsókn, dags. 27. ágúst 2010, og á fundi skipulags- og byggingarnefndar Borgarfjarðarhrepps 6. september s.á. var samþykkt að grenndarkynna umsóknina. Athugasemdir bárust frá kæranda og tók skipulags- og byggingarnefnd afstöðu til þeirra á fundi hinn 26. október s.á. Taldi nefndin athugasemdir kæranda ekki þess eðlis að þær hefðu áhrif á byggingarleyfið og var samþykkt að veita leyfið. Afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps hinn 1. nóvember 2010.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að við skipulagningu frístundabyggðarinnar þurfi að taka mið af eldri byggð og einstökum húsum en götumyndin einkennist af dreifðri byggð frá ólíkum tíma. Þá hafi Strompleysa allnokkurt minjagildi en húsið hafi verið reist sem sumarviðverustaður trillusjómanns 1977 og eigi sinn sess í þorpssögunni.

Lóðir á frístundabyggðarreitnum séu bagalega smáar, sérstaklega lóðirnar fjórar neðan götu sem séu aðeins 350-400 m2. Lóðirnar ofan götu hafi hins vegar verið stækkaðar í 509-661 m2, en í þeirri aðgerð felist viðurkenning á því að þær hafi verið of smáar áður. Þéttleiki byggðar á frístundareitnum neðan götu sé mjög mikill og íþyngjandi fyrir eigendur húsa sem fyrir séu og skipulagslegt svigrúm sé hverfandi. Þótt hvergi sé kveðið á um lágmarksstærðir lóða þá liggi það lágmark einhvers staðar út frá faglegum forsendum skipulags og meðalhófi í stjórnsýslu. Með aðalskipulagi skapist ekki skylda til nýtingar lóða þegar engin krefjandi nauðsyn sé til hennar, flest fagleg rök mæli gegn nýtingunni og lóðin sé svo alvarlega gölluð að nýting hennar skaði stórlega hagsmuni annarra. Þá þurfi að huga að þörfum, eðli og möguleikum byggðarinnar og umhverfis en frístundabyggðin liggi mitt í íbúðarbyggð smáþorps. Með neðri helming frístundareitsins fullbyggðan sé útilokað annað en að gæði frístunda á þessum örlóðum skerðist þar sem öruggt næði og hvíld verði ekki lengur í boði.

Lóðin Bakkavegur 10 standi óeðlilega tæpt á ókönnuðum sjávarbakka en landið næst bakkanum hafi lækkað og sigið á 9. og 10. áratug síðustu aldar í kjölfar dýpkunar framræsluskurðar. Þá hafi lóð nr. 10 verið hækkuð með fyllingu undir húsið en lóð Strompleysu sé hins vegar lægri og í samræmi við hæð óraskaðs lands á Bökkum eins og það hafi verið áður. Landið hafi þá haft vægan en jafnan og nauðsynlegan halla til austurs niður á sjávarbakkann. Hæð lóðar Bakkavegar 10 sé 9,75 m, eða 1 cm yfir gólfhæð Strompleysu, en brýning á lóðamörkum sé veruleg og myndi 40-60 cm stall. Lóð Strompleysu sé nú lægri en umhverfið á alla kanta og húsið í gryfjustöðu. Gólfhæð Strompleysu sé 9,74 m en gólfhæð Bakkavegar 10 sé 10,1 m. Lóð Strompleysu þurfi eðlilegan vatnshalla til austurs en leysingavatn og krapauppistöður séu áhyggjuefni með hliðsjón af gólfhæðinni.

Útsýnisskerðing frá Strompleysu sé óviðunandi en ekkert hafi verið gert til að draga úr lokun sjónlína. Húshliðum hafi ekki verið víxlað og ekki hafi verið gripið til þess að færa húsið við Bakkaveg 10 til innan byggingarreitsins til þess að auka fjarlægð á milli húsanna tveggja, en viðbygging við Bakkaveg 10 útiloki raunar þann möguleika. Mænishæð Bakkavegar 10 sé 3,58 m yfir gólfhæð Strompleysu og útsýnisskerðingin magnist vegna hæðarmunar lóðanna og húsanna. Útsýni yfir sjó og fjöll austan fjarðar og opin sýn til austurs hafi, ásamt næði í hinni dreifðu byggð við Bakkaveg, verið þau gæði sem vegið hafi þyngst í huga eigenda Strompleysu undanfarin 30 ár, en þau gæði séu nú horfin. Ljóst sé að verðmæti Strompleysu minnki verulega vegna byggingar Bakkavegar 10 og reikna megi með að hún verði óseljanleg.

Án faglegrar skipulagsvinnu með heildarsýn fyrir alla byggðina við Bakkaveg stefni í óþarft slys en skipulagsvinna eftir aðalskipulagi geti ekki leyst menn undan skyldunni til að vanda vinnubrögð og sýna fagmennsku. Við afgreiðslur og leyfisveitingar vegna Bakkavegar 10 hafi aldrei verið hirt um þá skipulagságalla sem þarna sé við að eiga og þann skaða sem bygging á lóð Bakkavegar 10 valdi á nálægum eignum.

Málsrök Borgarfjarðarhrepps: Borgarfjarðarhreppur telur að hið umdeilda byggingarleyfi sé í fullu samræmi við gildandi skipulagsáætlun fyrir sveitarfélagið. Gögn málsins liggi í stórum dráttum fyrir í kæru og skýringum með henni og litlu sé við þau að bæta. Þó sé rétt að fram komi að við framkvæmdir á lóð Bakkavegar 10 árið 2007 hafi verið grafinn skurður á mörkum lóða Strompleysu og Bakkavegar 10, sem halli til norðurs, og hafi hann verið fylltur af drengrjóti til að koma í veg fyrir uppistöðu vatns á lóð Strompleysu. Starfsmenn hreppsins telji hann enn vel virkan en komi í ljós að hann dugi ekki til að varna vatnssöfnun á lóðinni verði það lagfært. Að lokum sé vísað til fundargerða skipulags- og byggingarnefndar og hreppsnefndar Borgarfjarðarhrepps um málið auk mynda af svæðinu.

Í tilkynningu byggingarfulltrúa til leyfishafa og kæranda um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar er niðurstaða nefndarinnar skýrð nánar og kemur þar fram að nefndin telji húsið við Bakkaveg 10 falla að þeirri byggð sem fyrir sé og þar með sé tekið fullt tillit til þeirra húsa sem fyrir séu á svæðinu. Stefna sveitarfélagsins varðandi svæðið hafi verið ljós við samþykkt Aðalskipulags Borgarfjarðarhrepps 2004-2016, en í greinargerð þess komi fram að þegar séu risin tvö hús á reitnum og að gert sé ráð fyrir sex húsum til viðbótar. Lóðastærðir innan frístundabyggðarinnar séu í fullu samræmi við skipulagsáætlun en ljóst hafi verið að byggð yrði þétt á þessu svæði. Bygging á lóð Bakkavegar 10 sé í samræmi við aðalskipulag.

Hæðarsetning Strompleysu sé of lág og hæðarsetning þeirra húsa sem á eftir komi geti ekki tekið mið af henni. Eftir sem áður verði að tryggja að ekki myndist uppistöðuvatn á lóð Strompleysu með því að tryggja að yfirborðsvatn eigi örugga afrennslisleið þaðan. Skipulags- og byggingarnefnd geti ekki tekið undir þau sjónarmið kæranda að staðsetning Bakkavegar 10 og fjarlægð frá sjávarbakka sé óeðlileg. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að bygging húss að Bakkavegi 10 hafi haft áhrif á verðmæti Strompleysu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hann hafi sótt um byggingarleyfi fyrir húsi sem hafi verið í fullu samræmi við gildandi skipulag. Málatilbúnaður í kæru sé með ólíkindum og margt eigi ekkert erindi við leyfishafa. Kærandi hafi farið offari í skrifum sínum og öllum ásökunum hans um að ekki hafi verið farið að lögum við umsóknina sé hafnað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis fyrir frístundahúsi við Bakkaveg 10, Borgarfirði eystri. Húsið stendur á reit sem skilgreindur er sem frístundabyggð í Aðalskipulagi Borgarfjarðarhrepps 2004-2016. Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið.

Í 3. mgr. gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, er gilti á þeim tíma er hið kærða leyfi var veitt, er m.a. kveðið á um að í deiliskipulagi svæða fyrir frístundabyggð skuli byggingarreitir ekki staðsettir nær lóðarmörkum en 10 m. Lóðin Bakkavegur 10 er 20 m löng og 17,5 m breið, alls 350 m2, og fjarlægð hússins frá lóðarmörkum Strompleysu er 5,7 m.

Tilgangur umrædds ákvæðis skipulagsreglugerðar er að tryggja lágmarksfjarlægð milli frístundahúsa og dreifingu frístundabyggðar og skapa með því þá friðsæld sem sóst er eftir í slíkri byggð. Í þágildandi 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kom sú meginregla fram að gera skuli deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar  og verður ekki talið að vikið verði frá fjarlægðarreglu 3. mgr. gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð fyrir frístundabyggð þótt ekki liggi fyrir deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Verður því að telja að hreppsnefnd hafi borið að taka mið af ákvæðinu við afgreiðslu hins kærða leyfis.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar. Með stjórnvaldsákvörðun er átt við einhliða ákvörðun stjórnvalds um rétt eða skyldu manna sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds. Afgreiðsla og svör Borgarfjarðarhrepps við athugasemdum kæranda við grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknarinnar fela ekki í sér slíka ákvörðun. Verður kröfu kæranda þar að lútandi því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi sú ákvörðun hreppsnefndar Borgarfjarðarhrepps frá 1. nóvember 2010 að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi við Bakkaveg 10 í Bakkagerði, Borgarfirði eystri.

Kæru á afgreiðslu og svörum Borgarfjarðarhrepps við athugasemdum kæranda við grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknarinnar er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

70/2015 Gjaldskrá

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 16. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2015, kæra á breytingu á gjaldskrá nr. 893/2014 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, samkvæmt auglýsingu nr. 696/2015 er birtist í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 21. júlí 2015, samkvæmt auglýsingu nr. 696/2015 er birtist í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015, um breytingu á gjaldskrá nr. 893/2014 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi eða gjaldskránni breytt þannig að tímagjald og gjald fyrir rannsókn á sýnum verði stórlega lækkað.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 5. október 2015.

Málavextir: Auglýsing nr. 696/2015, um breytingu á gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, var birt í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015. Um breytingu á gjaldskrá nr. 893/2014 er að ræða og felst hún í því að tímagjald er hækkað úr 10.529 krónum í 17.340 krónur og gjald fyrir rannsókn á hverju sýni samkvæmt eftirlitsáætlun er hækkað úr 12.390 krónum í 20.200 krónur. Kærandi starfar á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja samkvæmt starfsleyfi útgefnu af eftirlitinu og skv. 1. gr. gjaldskrárinnar er heimilt að innheimta af honum gjöld í samræmi við hana.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa lögvarða hagsmuni í málinu þar sem hann starfi á svæðinu samkvæmt starfsleyfi útgefnu af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og greiði gjöld samkvæmt gjaldskrá eftirlitsins. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja hafi hækkað tímagjald og gjald fyrir sýni fjórum sinnum frá árinu 2012. Upphæð eftirlitsgjalda samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á. Megi gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Með öðrum orðum sé um að ræða þjónustugjöld, sem verði aðeins nýtt til þess að standa undir þeim kostnaði sem hljótist af þeirri þjónustu sem gjaldið standi í tengslum við. Á tæpu þriggja ára tímabili hafi tímagjald hækkað um 175% og gjald fyrir sýni um 115%. Þessi hækkun sé langt umfram vísitölu- og verðlagshækkanir í landinu á sama tímabili og verði því ekki skýrð með vísan til þess. Með vísan til lagasjónarmiða um þjónustugjöld fari kærandi fram á að hækkun sú sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015 verði felld úr gildi eða breytt þannig að hún nemi verðlagshækkun þeirra kostnaðarliða sem séu grundvöllur þjónustugjaldsins.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið fer fram á að málinu verði vísað frá á grundvelli þess að ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða og að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Gjaldskrá sú er málið snúist um hljóti að teljast vera almenn stjórnvaldsfyrirmæli sem beinist að ótilteknum hópi aðila en feli ekki í sér ákvörðun sem beinist að kæranda. Kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu þar sem kröfur hans miði að því að fá gjaldskrá fellda úr gildi en ekki álagningu gjalda á hann sjálfan. Eftirlitsgjöldin hafi verið reiknuð út vegna þeirra þátta sem heilbrigðiseftirlitinu beri að hafa eftirlit með lögum samkvæmt, en álagning hafi enn ekki farið fram. Kærandi geti ekki átt lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um almennar gjaldskrárbreytingar án þess að það sé tengt við einstaklingsbundna og afmarkaða hagsmuni hans sjálfs.

Sveitarfélögin sem standi að Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja leggi áherslu á að eftirliti sé sinnt af kostgæfni en jafnframt sé eftirlitinu ætlað að standa undir eigin rekstri hvað eftirlitsskylda starfsemi varði, enda sé það í fullu samræmi við gjaldtökuheimild 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998. Fjárhagsleg endurskipulagning heilbrigðiseftirlitsins hafi staðið yfir um nokkra hríð og ljóst hafi verið að taka yrði gjaldskrá eftirlitsins til gagngerrar endurskoðunar svo að reksturinn stæði undir sér. Breytingar á gjaldskrá undanfarinna ára endurspegli þetta en ljóst sé að of stutt hafi verið gengið í hvert sinn og þess ekki gætt að gjaldskráin endurspeglaði raunkostnað. Tímagjald samkvæmt hinni kærðu gjaldskrá sé byggt á fjárhagsáætlun heilbrigðiseftirlitsins, m.a. með hliðsjón af rekstrarafkomu undanfarinna ára. Sá hluti rekstrarfjár eftirlitsins sem snúi að almennri þjónustu við borgarana, sem ekki falli undir eftirlitsskylda starfsemi, sé lagður til af sveitarfélögunum.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Kærandi mótmælir frávísunarkröfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segi að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda sé heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Enn fremur segi í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að nefndin skuli hafa það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir í lögum á því sviði. Samkvæmt þessu sé ljóst að allar ákvarðanir stjórnvalda með stoð í lögum nr. 7/1998, og ágreiningur er þær varði, verði bornar undir nefndina, þ.m.t. ákvörðun heilbrigðisnefndar um hækkun tímagjalds og sýnatökugjalds sem hér um ræði. Sú ákvörðun sé að mati kæranda stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þessu samhengi skipti þó ekki máli hvort um stjórnvaldsákvörðun eða stjórnvaldsfyrirmæli sé að ræða vegna valdheimilda úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum. Þær taki til þess að endurskoða bæði undirbúning og efni þeirra ákvarðana og stjórnvaldsfyrirmæla sem bornar séu undir hana.

Skýrt sé að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa. Kærandi reki starfsemi á Keflavíkurflugvelli, sem sé starfsleyfisskyld samkvæmt lögum nr. 7/1998. Á grundvelli starfsleyfis fari Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja með eftirlit með starfsemi kæranda á flugvallarsvæðinu og innheimti fyrir það árleg eftirlitsgjöld. Samkvæmt áætlun sem kærandi hafi fengið séu eftirlitsgjöldin byggð á tímagjaldi og gjaldi fyrir sýnatöku og upphæð þeirra gjalda hafi því bein áhrif á kæranda, þ.e. hvaða fjárhæð hann þurfi að greiða fyrir eftirlit, og varði hann verulega.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er sveitarfélögum heimilt að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Upphæð gjaldsins skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og má gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Hvert eftirlitssvæði skal hafa sameiginlega gjaldskrá og skal hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd láta birta hana í B-deild Stjórnartíðinda.

Í máli þessu er deilt um lögmæti gjaldskrár nr. 893/2014 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði, eins og henni var breytt með auglýsingu nr. 696/2015, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015. Eftir að kæra var lögð fram í málinu hefur verið sett ný gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði. Gjaldskráin er nr. 927/2015 og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. október 2015. Við gildistöku hennar féll jafnframt úr gildi áðurnefnd gjaldskrá nr. 893/2014 og fór álagning ekki fram samkvæmt henni eftir að henni var breytt. Þar sem hin kærða gjaldskrá hefur ekki lengur réttarverkan að lögum verður ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr um lögmæti hennar. Með vísan til þessa er kröfu kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon