Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2014 Reynifellskrókur

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 61/2014, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangársþings ytra frá 13. maí 2013 að samþykkja að veita leyfi til að byggja frístundahús á lóð nr. 2b í landi Reynifells. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2014, sem barst 4. s.m., kærir eigandi lóðar nr. 6 í Reynifellskrók í landi Reynifells, Rangárþingi Ytra, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra frá 13. maí 2013 að samþykkja að veita leyfi til að byggja frístundahús á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. júní 2015, gerir sami aðili þá kröfu um að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 13. maí 2013 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra að veita leyfi fyrir byggingu frístundahúss á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Var byggingarleyfið gefið út 21. s.m.

Kærandi skírskotar til þess að húsið samræmist ekki byggingarskilmálum svæðisins. Húsið sé of lítið, húslagið ekki í samræmi við önnur hús og efnið sem notað sé á húsið sé ekki í samræmi við húsin á svæðinu. Hið umrædda hús stingi mjög í stúf við landslagið og önnur hús og rýri útlit svæðisins. Sjónmengun sé mikil vegna hússins. Auk þess geti hin kærða ákvörðun gefið fordæmi fyrir því að fleiri hús af þessu tagi rísi á svæðinu.

Af hálfu Rangárþings ytra er skírskotað til þess að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin um að leyfa tiltekna stærð á sumarhúsi þrátt fyrir ákvæði um lágmarksstærð í byggingarskilmálum svæðisins. Sé það mjög eðlilegt að leyfa byggjendum að byrja smátt með möguleika á stækkun eða viðbyggingu síðar. Í byggingarskilmálum segi að hús skulu byggð úr timbri. Tiltekið hús sé alfarið úr timbri en veðurkápa sé þó úr stáli. Nokkuð sé um að sumarhús á svæðinu hafi ómálað stál á þökum og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við umrætt efni á útvegg þar sem auðvelt sé að mála það í þeim lit sem hæfir. Hafi verið rétt staðið að veitingu umrædds byggingarleyfis samkvæmt lögum og reglum og almennum hefðum í landinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþing ytra að veita leyfi til að byggja frístundahús í landi Reynifells þar sem kærandi á einnig frístundahús, en hann telur að húsið samræmist ekki skilmálum svæðisins.  

Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ljóst að framkvæmdum við byggingu hins umdeilda frístundahús var að mestu lokið þegar stöðvunarkrafa kæranda kom fram. Þykir af þeim sökum ekki hafa þýðingu að stöðva framkvæmdir á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir

58/2015 Njálsgata

Með
Árið 2015, föstudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júlí 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Stefán Geir Þórisson hrl., f.h. E, Njálsgötu 76, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 12. ágúst 2015.

Málavextir: Á árinu 2013 bárust byggingarfulltrúanum í Reykjavík tvær fyrirspurnir sem teknar voru fyrir á afgreiðslufundum hans 9. apríl og 21. maí s.á. Annars vegar var spurst fyrir um byggingu kvista á hús nr. 78 við Njálsgötu og hins vegar um hækkun þess um eina hæð. Umsagnir skipulagsfulltrúa um nefndar framkvæmdir voru jákvæðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og lagðist hann ekki gegn þeim.

Hinn 6. maí 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn þar sem sótt var um leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu. Var erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn hans, dags. 15. s.m., var lagt til að uppdrættir yrðu lagfærðir, m.a. að svalir yrðu minnkaðar, gömlum gluggum yrði ekki breytt og að húsið yrði ekki hærra en Njálsgötu 80. Hinn 6. júní s.á. var á fundi skipulagsfulltrúa samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Njálsgötu 76, 77, 79, 80, 81 og Bergþórugötu 53 og 55 þegar búið væri að lagfæra uppdrætti. Var umsóknin grenndarkynnt frá 9. október til og með 7. nóvember 2014. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Var þeim svarað með umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember s.á. Hinn 26. s.m. var greind umsögn skipulagsfulltrúa samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs og erindinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.

Hinn 21. apríl 2015 var umsóknin samþykkt af byggingarfulltrúanum í Reykjavík og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
 
Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að um óhjákvæmilega notkun á sinni fasteign sé að ræða og að framkvæmdaraðili muni nýta austurgafl fasteignar kæranda við hækkunina. Húsin tvö, þ.e. Njálsgata 76 og 78, séu aðliggjandi en austurgafl fasteignar kæranda sé séreign hans og hafi hann því einn ráðstöfunarrétt yfir veggnum. Ef talið verði að austurgaflinn sé sameign sé á því byggt að óheimilt sé að nýta vegginn án samþykkis kæranda. Samkvæmt meginreglum eignarréttar geti sameigandi aðeins nýtt eða ráðstafað sameign ef nýting eða ráðstöfun sé öðrum sameigendum að bagalausu. Ráðstöfun eða nýting sameigenda á sameign megi ekki ganga inn á rétt annarra sameigenda. Þá verði sameigandi að sýna öðrum sameigendum tillitssemi við nýtingu eignar eða ráðstöfun.

Fyrirhugaðar framkvæmdir muni valda kæranda verulegu óhagræði og jafnvel umtalsverðu tjóni. Húsin að Njálsgötu séu byggð á árunum 1927-1930, séu því hátt í 90 ára gömul og þoli því illa framkvæmdir líkt og þær sem séu fyrirhugaðar. Fyrir u.þ.b. 30 árum hafi þáverandi eigandi húss nr. 74 við Njálsgötu byggt tvær hæðir á hús sitt, en húsið hafi áður verið ein hæð og ris. Við þessar framkvæmdir hafi myndast miklar sprungur á veggjum og lofti í húsi kæranda. Þótt margsinnis hafi verið gert við sprungurnar myndist þær alltaf aftur. Byggingarfróðir menn hafi sagt að um sé að kenna hinum mikla þunga sem bættist á sameiginlegan vegg húsanna við hækkun á nr. 74. Í kjölfar viðbyggingar við Njálsgötu 74 hafi þótt sýnt að burðarþol veggjanna hafi ekki þolað álagið og hafi eigendum að Njálsgötu 76 verið greiddar bætur vegna málsins. Megi ganga út frá því að burðarþol sameiginlegra veggja húsanna, þ.e. Njálsgötu 76 og Njálsgötu 78, hafi miðast við tvær hæðir. Ljóst sé að ef byggt verði ofan á Njálsgötu 78 megi búast við enn frekari skemmdum á eign kæranda.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember 2014, komi fram að krafa sé gerð um að ekki verði byggt ofan á vegg nágrannans að Njálsgötu 76 heldur verði byggðir nýir sjálfstæðir veggir. Ekki séu nein fyrirmæli í byggingarreglugerð sem kveði á um samþykki aðliggjandi lóðarhafa fyrir framkvæmdum á lóðarmörkum öðrum en girðingum.

Röksemdum kæranda um umtalsverð óþægindi og tjón sé vísað á bug sem ósönnum og ósönnuðum. Almennt verði borgarar að sætta sig við einhver tímabundin óþægindi eða rask á meðan á byggingarframkvæmdum standi í nágrenninu. Geti íbúar ekki vænst þess að byggingar taki engum breytingum í tímans rás og megi því alltaf búast við að einhver óþægindi skapist, ekki síst þar sem þröngt sé byggt í borginni. Auk þess beri byggingarleyfishafa að haga framkvæmd þannig að sem minnst rask verði og beri hann enn fremur ábyrgð á mögulegu tjóni sem hann kunni að valda gagnvart kæranda eftir almennum reglum skaðabótaréttar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til að byggja hæð og ris á fjöleignarhúsið að Njálsgötu 78. Telur kærandi að ekki sé heimilt að hækka húsið án hans samþykkis auk þess sem hækkunin muni valda honum tjóni.

Fjallað er um hús í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og er þar átt við byggingu sem varanlega er skeytt við land og stendur sjálfstæð og aðgreind frá öðrum húsum eða skilur sig þannig frá þeim þótt sambyggð eða samtengd séu að eðlilegt og haganlegt sé að fara með hana sem sjálfstætt hús. Húsin að Njálsgötu 76 og 78 standa á aðskildum lóðum. Byggingarnar voru reistar á mismunandi tímum og það sama á við um þær breytingar sem gerðar hafa verið á þeim. Þá er útlit þeirra mismunandi er varðar litaval og útfærslu á kvistum og gluggum. Þegar litið er til byggingarsögu og útlits húsaraðar þeirrar, þar sem umrædd hús standa, verður ekki annað séð en að líta beri á hvert hús sem sjálfstæða einingu. Með vísan til framangreinds verður hvorki talið að 30. gr. fjöleignarhúsalaga, sem áskilur samþykki meðeiganda, né 2. mgr. 3. gr. laganna þess efnis að lögin geti átt við um málefni sem sameiginleg séu á milli tveggja eða fleiri sjálfstæðra húsa, eigi við um hið kærða byggingarleyfi. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verða reistir nýir sjálfstæðir gaflveggir í framhaldi af steyptum einingum 3. hæðar og slitnir frá gaflveggjum aðliggjandi húsa. Ekki er að finna nein þau ákvæði í gildandi lögum eða reglum þar sem áskilið er samþykki aðliggjandi lóðarhafa í slíkum tilvikum. Þurfti því ekki til samþykki kæranda af þeim sökum við veitingu hins umdeilda byggingarleyfis. Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að tjón verði af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru telur úrskurðarnefndin að með hinni kærðu ákvörðun sé leitast við að koma í veg fyrir slíkt tjón en bendir jafnframt á að rísi ágreiningur þess efnis á undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. 

Eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis er að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði en til þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að deiliskipulag liggi fyrir skal fyrirhuguð framkvæmd vera í samræmi við landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarsvæði, ÍB Grettisgata. Um það svæði segir að það hafi byggst upp að stórum hluta fyrir 1920. Fjölbreytni í húsagerð og byggingarstíl einkenni svæðið en gatnakerfið sé að mestu reglubundið. Þá er það eitt af markmiðum aðalskipulagsins að skapa heildstæðari og þéttari borgarbyggð og kanna frekari þéttingarmöguleika. Verður ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags.

Loks liggur fyrir að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar var í samræmi við mannvirkja- og skipulagslög. Ítarleg gögn lágu til grundvallar ákvörðuninni, þ.á m. fjórar umsagnir frá skipulagsfulltrúa þar sem hann gerði athugasemdir við uppdrætti, setti skilyrði um að þeim yrði breytt til að samræma hækkun hússins við byggingarmynstur á reitnum og að ekki yrði byggt ofan á vegg húss kæranda heldur nýir sjálfstæðir veggir byggðir upp. Eftir að uppdrættir höfðu verið lagfærðir var umsóknin grenndarkynnt og athugasemdum svarað. Umsóknin var samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði, sbr. gr. 2.3.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, og síðar samþykkt af byggingarfulltrúa eftir að nefnd skilyrði skipulagsfulltrúa höfðu verið uppfyllt.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé haldin neinum þeim annmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar og er kröfu kæranda þar um hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja steinsteypta hæð og ris með kvistum á götuhlið, byggja svalir á garðhlið og innrétta tvær nýjar íbúðir í fjölbýlishúsi á lóð nr. 78 við Njálsgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

14/2011 Nönnustígur

Með
Árið 2015, föstudaginn 14. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 14/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. febrúar 2011, sem barst nefndinni sama dag, kærir Sverrir Pálsson hdl., f.h. Á, Reykjavíkurvegi 27, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 8. desember 2010 að veita að nýtt byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum á lóð nr. 2 við Nönnustíg í Hafnarfirði. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök: Að undangenginni grenndarkynningu samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar hinn 13. maí 2009 umsókn um gerð tveggja bílastæða á lóðinni Nönnustíg 2.  Kærendur sendu bæjaryfirvöldum erindi, dags. 22. október 2010, þar sem mælst var til þess að nefnt byggingarleyfi yrði fellt úr gildi þar sem meira en tólf mánuðir væru liðnir frá samþykki leyfisins án þess að ráðist hefði verið í framkvæmdir.  Málið var á dagskrá skipulags- og byggingarráðs 16. nóvember 2010 þar sem ákveðið var að beina því til eigenda Nönnustígs 2 að sækja skriflega um endurnýjun byggingarleyfisins. Umsókn um endurnýjun leyfis varðandi lóðarfrágang sem veitt var 13. maí 2009 var síðan samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 8. desember 2010 og staðfest í bæjarstjórn 17. s.m.  Kærendur fóru fram á rökstuðning bæjaryfirvalda fyrir þeirri ákvörðun að veita leyfishafa tækifæri til að endurnýja umrætt byggingarleyfi í stað þess að afturkalla það. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. janúar 2011, kemur fram að skipulags- og byggingarráð taki undir og geri að sínu svar skipulags- og byggingarsviðs við erindi kærenda. Tekið er fram að umdeild framkvæmd hafi verið grenndarkynnt á sínum tíma og þá hafi borist athugasemd frá kærendum. Byggingarleyfið hafi verið samþykkt með vísan til fyrri afgreiðslu og þess að ekkert nýtt hafi komið fram sem breyti þeirri niðurstöðu. Framkvæmdin sé jafnframt í samræmi við gr. 64.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Kærendur byggja kröfu sína á því að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ólögmæt og hún sé því ógildanleg. Enga heimild sé að finna í lögum til að endurnýja byggingarleyfi líkt og gert hafi verið í máli þessu en verði svo talið sé um nýja stjórnvaldsákvörðun að ræða sem sæta þurfi meðferð samkvæmt form- og efnisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í kæru var boðaður frekari rökstuðningur kærenda en hann hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Bæjaryfirvöld benda á að eðlilegt hafi þótt að gefa byggingarleyfishafa kost á að gefa skýringu á því hvers vegna framkvæmdir sem heimilaðar voru á árinu 2009 hafi tafist og honum hafi verið leiðbeint um framhald málsins. Fullnægjandi skýringar á töfunum hafi borist bæjaryfirvöldum. Þótt hafi til bóta að tvö bílastæði væru gerð innan lóðar í stað eins sem var í landi bæjarins. Engin breyting hefði orðið á afstöðu bæjaryfirvalda í þessu efni þótt erindið hefði verið grenndarkynnt að nýju þar sem nágrannar hafi verið þeir sömu og við fyrri afgreiðslu byggingarleyfisins.

Niðurstaða: Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997  gátu þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem áttu lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Kærendur byggja málskot sitt vegna hins umdeilda byggingarleyfis á atvikum er tengjast réttarstöðu þeirra sem eigenda fasteignarinnar að Reykjavíkurvegi 27 í Hafnarfirði, sem liggur að lóð þeirri er leyfið tekur til. Fyrir liggur kaupsamningur dags. 1. apríl 2014 þar sem kærendur selja fasteignina að Reykjavíkurvegi 27 og samkvæmt samningnum var eignin afhent hinn 1. júlí s.á. Afsal fyrir fasteigninni var gefið út hinn 23. mars 2015 og þinglýst. Frá þeim tíma hafa kærendur ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar sem heimilaði gerð tveggja bílastæða á nágrannalóð.

Vegna þessara ástæðna eiga kærendur nú ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreiningsefni máls þessa og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ómar Stefánsson

 

35/2014 Brautarholt

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 19. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 35/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs frá 20. febrúar 2014 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Brautarholt 7. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Hulda Árnadóttir hdl., f.h. Hvíta hússins ehf., S. Waage ehf. og XO eignarhaldsfélags ehf., eigenda og rekstraraðila Brautarholts 6 og 8, þá ákvörðun borgarráðsfrá 20. febrúar 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir Brautarholt 7. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 23. júlí 2015, gera sömu aðilar þá kröfu að fyrirhugaðar framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Á árinu 1987 var samþykkt deiliskipulag fyrir reit sem markast af Laugavegi, Mjölnisholti, Brautarholti og Ásholti. Þar var skipulagssvæðinu skipt upp í tvo hluta, þ.e. nyrðri hluta sem tekur til lóðarinnar Ásholts 2-42 og syðri hluta sem er lóðin Brautarholt 7. Gert var ráð fyrir bæði íbúðum og atvinnustarfsemi á hvoru svæði fyrir sig. Uppbygging á nyrðri hluta svæðisins gekk eftir en ekki hefur átt sér stað uppbygging á syðri hlutanum. Hinn 20. febrúar 2014 samþykkti borgarráð nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Brautarholt 7 sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þar um 1. apríl s.á. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir að á lóðinni megi reisa 100 íbúðir fyrir nemendur með þjónustustarfsemi á hluta jarðhæðar. Hinn 22. júlí 2015 birtist frétt í fjölmiðlum þess efnis að framkvæmdir myndu hefjast á svæðinu 23. s.m.

Kærendur skírskota til þess rík og veigamikil rök hnígi að því að stöðva beri yfirvofandi framkvæmdir til bráðabirgða. Hið umþrætta deiliskipulag sé í andstöðu við lög og að ekkert sé fram komið hjá Reykjavíkurborg sem breyti þeirri staðreynd. Hafi kærendur þungar áhyggjur af því að veruleg fækkun bílastæða, frá því sem áður hafi verið gert ráð fyrir, muni koma til með að hafa neikvæð áhrif á  umferð á svæðinu og auki á bílastæðavanda einstaklinga og atvinnufyrirtækja sem sé þar staðsett. Verði yfirvofandi framkvæmdir ekki stöðvaðar verði réttur kærenda til að bera mál sitt undir úrskurðarnefndina að engu hafður. Því sé afar brýnt að óafturkræfar framkvæmdir verði stöðvaðar þegar í stað áður en hagsmunum þeim sem kærunni sé ætlað að verja verði fórnað.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að deiliskipulagið sé í fullu samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkurborgar 2010-2030. Sé hvorki í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 né byggingarreglugerð nr. 112/2012 gerð lágmarkskrafa um fjölda bílastæða á hverja íbúð. Við skipulagsgerðina hafi verið litið til samþykktar umhverfis- og skipulagsráðs varðandi bílastæðamál á svæðinu. Málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við skipulagslög, reglugerðir og stjórnsýslulög, þ.á.m. meðalhófs- og jafnræðisreglu þeirra laga. Við ákvörðun um fjölda bílastæða hafi verið tekið mið af stefnu gildandi aðalskipulags í þeim efnum og því að svæðið sé í nágrenni við samgöngumiðstöð. Hafi það verið ein af ástæðum þess að ákveðið hafi verið að staðsetja stúdentaíbúðir á greindum stað.  

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt.  Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekinnar lóðar. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, er slík auglýsing skilyrði fyrir gildistöku deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur þó ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir

37/2014 Hólmsheiði

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 37/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. mars 2014 um breytingu á deiliskipulagi Hólmsheiðar, svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. apríl 2014, er barst nefndinni 30. s.m., kæra eigendur landspildna nr. 113435, 113410, 113426 og 113422 á Reynisvatnsheiði, auk Landeigendafélagsins Græðis, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 19. mars 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hólmsheiðar, svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða en með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 1. september 2014 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. maí 2014.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 19. mars 2014 var lögð fram umsókn Fisfélags Reykjavíkur, dags. 13. s.m., varðandi breytingu á deiliskipulagi svæðis félagsins á Hólmsheiði. Samkvæmt deiliskipulaginu var svæðinu skipt í þrennt, í A-, B- og C-svæði. Breytingin felur í sér að skilgreindar eru tvær lóðir á svæði A, annars vegar 200 m2 lóð undir hús fyrir félagsaðstöðu og hins vegar 4.150 m2 lóð undir vélageymslur. Byggja má frjálst innan lóðamarka. Byggingarreitur á svæði C er felldur út, en þar var áður gert ráð fyrir húsi undir félagsaðstöðu. Þá er felld niður skilgreining á „svæði 1“ innan svæðis A.

Umsóknin var samþykkt með vísan til 2. mgr. 12. gr. samþykktar um umhverfis- og skipulagsráð. Jafnframt var samþykkt að falla frá grenndarkynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðaði ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. apríl 2014.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að deiliskipulag svæðis Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 28. febrúar 2011. Athugasemdir kærenda í því máli skoðist sem athugasemdir við þá deiliskipulagsbreytingu sem hér sé kærð, auk þess sem vísað sé til annarra kæra og erinda, sem úrskurðarnefndinni hafi borist á umliðnum árum vegna skipulagsákvarðana Reykjavíkurborgar á Reynisvatns- og Hólmsheiði, og þess sem fram komi í niðurstöðum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 6/2011, 68/2011 og 26/2010 er varðað hafi jarðvegslosunarsvæði á Hólmsheiði.

Gerð er athugasemd við að fallið hafi verið frá grenndarkynningu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar með vísan til þess að hún hafi ekki varðað hagsmuni annarra en umsækjanda. Í þessu felist alvarlegt brot á réttaröryggisreglum skipulagslaga, skipulagsreglugerðar og stjórnsýslulaga. Er vísað til þess að Reykjavíkurborg hafi borist u.þ.b. 10 athugasemdir við tillögu að deiliskipulagi svæðisins, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 9. desember 2010. Reykjavíkurborg sé fullkunnugt um baráttu landeigenda frístundalóða í Reynisvatnslandi gegn öllum áformum um að skipuleggja flugvöll í landi jarðarinnar og lögbýlisins Reynisvatns, en flugvöllur og aðstaða Fisfélagsins skerði rétt allra þeirra sem eigi lönd og lóðir á þessu svæði. Því beri að fella nú þegar úr gildi deiliskipulagið frá 9. desember 2010.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda í málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða deiliskipulagsbreyting varði ekki hagsmuni annarra en Fisfélags Reykjavíkur. Því hafi Reykjavíkurborg verið heimilt að samþykkja umsóknina með þeim hætti sem gert hafi verið. Í gildi sé deiliskipulag fyrir svæðið sem samþykkt hafi verið í borgarráði 9. desember 2010. Frávísunarkrafan byggist á því að hin umþrætta breyting hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni kærenda, hvorki í sjónrænu tilliti né öðru. Kærendur eigi því enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þeir einir geti kært ákvörðun sem eigi lögvarða hagsmuni henni tengda. Því beri að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:
Hin kærða ákvörðun felur í sér  breytingu á deiliskipulagi fyrir svæði Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði. Með úrskurði í máli nr. 18/2011, uppkveðnum 30. júlí 2015, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um ógildingu þess deiliskipulags. Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá þar sem kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun.

Sú ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu byggðist á 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar sem samþykkt var af borgarstjórn 18. desember 2012. Þar er kveðið á um að umhverfis- og skipulagsráð afgreiði, án staðfestingar borgarráðs, nánar tilgreind verkefni skv. skipulagslögum samkvæmt heimild í 42. gr. sveitarstjórnarlaga og viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir m.a. gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana. Er vísað til sveitarstjórnarlaga um þetta atriði, sem nú eru lög nr. 138/2011. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum segir um 2. mgr. 6. gr. að þar séu lagðar til breytingar til samræmis við ákvæði sveitarstjórnarlaga sem heimili að fela nefndum sveitarfélags fullnaðarafgreiðslu mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins. Lagt sé til að sveitarstjórn sé heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að vísa afgreiðslum til skipulagsnefnda. Er tekið fram í athugasemdunum að í slíkum samþykktum „… yrði að kveða á með skýrum hætti um hvað fælist í fullnaðarafgreiðslu mála hjá skipulagsnefnd, svo sem kynningu gagnvart sveitarstjórn, og hvort afstaða sveitarstjórnar þurfi að liggja fyrir á einhverju stigi mála“.

Í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga segir að sveitarstjórnir skuli gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annist. Skuli slík samþykkt send ráðuneytinu til staðfestingar. Ákveður sveitarstjórn valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. laganna. Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar, sbr. 2. mgr. 40. gr. Kveðið er á um framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála í 42. gr. laganna. Segir í 1. mgr. að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Þá segir í 4. mgr. að þegar sveitarstjórn nýti sér heimild skv. 1. mgr. skuli jafnframt kveða á um það í samþykkt sveitarfélagsins hver skuli taka fullnaðarákvörðun í máli skv. 3. mgr. og hvernig skuli fara með endurupptöku mála sem hljóti afgreiðslu samkvæmt þessum ákvæðum.

Um V. kafla sveitarstjórnarlaga um nefndir, ráð og stjórnir segir í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna að í ljósi þess að sveitarstjórn fari með æðsta vald í málefnum sveitarfélagsins, og taki ákvarðanir um stjórn þess og stjórnskipulag innan ramma laga, sé í frumvarpinu lagt til grundvallar að stærstu ákvarðanir um málefni sveitarfélagsins geti aðeins sveitarstjórnin sjálf tekið. Sveitarfélög fari með mikla hagsmuni og ákvarðanir um málefni þeirra geti haft mikil áhrif á íbúa sveitarfélaganna og jafnvel á þjóðfélagið í heild sinni. Enn fremur segir að það sé í samræmi við þann lýðræðislega grundvöll sem kjör sveitarstjórnar byggist á að eiginlegt ákvörðunarvald um mikilvæg málefni sé í hennar höndum, en ekki undirnefnda hennar eða einstakra starfsmanna.

Samþykkt fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar var samþykkt af borgarstjórn 18. desember 2012. Í henni er vísað til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Samþykkt nr. 715/2013 þess efnis var staðfest fyrir hönd innanríkisráðherra 8. júlí 2013 og öðlaðist gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m. Frá sama tíma féll eldri samþykkt um sama efni, ásamt viðaukum, úr gildi. Í VI. kafla gildandi samþykktar er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en borgarráð. Í 58. gr. samþykktarinnar er kveðið á um fullnaðarafgreiðslu og er orðalag greinarinnar áþekkt orðalagi 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Segir nánar í 1. mgr. 58. gr. að borgarstjórn geti ákveðið með viðauka við samþykktina að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Reykjavíkurborgar fullnaðarafgreiðslu mála og eru sett við því sömu skilyrði og er að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkir viðaukar við samþykktina höfðu ekki verið samþykktir þegar hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 19. mars 2014.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið samkvæmt skipulagslögum og er framsal þess valds undantekning frá greindri meginreglu. Heimild 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga til valdframsals innan sveitarfélaga er almenns eðlis en í 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn veitt sérstök heimild til framsals valds síns samkvæmt þeim lögum. Er ljóst af orðalagi ákvæðanna að valdframsal þetta fer fram í sérstakri samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélaga, en kveðið er á um slíkar samþykktir í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Fer lögmætt valdframsal ekki fram með öðrum hætti á þessum lagagrundvelli. Með hliðsjón af athugasemdum með frumvörpum til nefndra laga sem að framan eru raktar þykir einnig ljóst að í slíkri samþykkt þurfi að koma fram efnislegt valdframsal. Nægir í því sambandi ekki að endurtaka í samþykkt orðalag lagaheimildar til valdframsals heldur verður að koma skýrt fram í samþykktinni sjálfri hvert það vald er sem framselt er og hverjum. Valdframsal borgarstjórnar til umhverfis- og skipulagsráðs í samþykkt um umhverfis- og skipulagsráð frá 18. desember 2012 var því ekki í samræmi við lög.

Samkvæmt framansögðu brast umhverfis- og skipulagsráð vald til að samþykkja umþrætta deiliskipulagsbreytingu og verður að líta svo á að í samþykkt hennar hafi falist tillaga til sveitarstjórnar um afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar sem sveitarstjórn hefur ekki komið að málinu er ekki fyrir hendi lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

37/2015 Urðarhvarf

Með
Árið 2015, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 12. maí 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendahvarf – athafnasvæði vegna lóðar nr. 4 við Urðarhvarf.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. maí 2015, er barst nefndinni 20. s.m., kærir Hjörleifur B. Kvaran hrl., f.h. Húsa & lóða ehf., eiganda Urðarhvarfs 2, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. maí 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendahvarf – athafnasvæði vegna lóðar nr. 4 við Urðarhvarf. Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin fresti réttaráhrifum hennar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni. Var kröfu um frestun réttaráhrifa hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 22. júní 2015.

Með bréfi, dags. 3. júlí 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 3. júlí 2015 um að veita leyfi fyrir hækkun hússins á lóð nr. 4 við Urðarhvarf um eina hæð. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 50/2015, sameinað máli þessu. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 28. maí og 13. júlí 2015.

Málavextir: Hinn 19. janúar 2015 var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar umsókn, dags. 15. s.m., um breytt deiliskipulag vegna Urðarhvarfs 4, en þar er í gildi deiliskipulagið Vatnsendahvarf – athafnasvæði. Í breytingunni fólst að hús á lóðinni yrði hækkað um tvær hæðir með inndregna efstu hæð og að það yrði sjö hæðir auk kjallara. Heildarbyggingarmagn myndi aukast um 530 m2 og nýtingarhlutfall fara úr 0,8 í 0,93. Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu og var sú afgreiðsla staðfest af bæjarráði 22. janúar 2015 og bæjarstjórn 27. s.m. Tillagan var auglýst í fjölmiðlum 3. febrúar 2015 með athugasemdafresti til 23. mars s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Að lokinni kynningu var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 23. mars s.á. og málinu vísað til frekari meðferðar hjá skipulags- og byggingardeild Kópavogsbæjar. Á fundi skipulagsnefndar hinn 4. maí 2015 var hinni kynntu skipulagstillögu hafnað en fallist á hækkun umrædds húss um eina hæð í stað tveggja í samræmi við umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. sama dag. Heildarbyggingarmagn myndi þá aukast um 350 m2 og nýtingarhlutfall yrði 0,89. Var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest af bæjarráði 7. s.m. og í bæjarstjórn 12. s.m. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2015. Byggingarfulltrúi samþykkti hinn 3. júlí 2015 umsókn um leyfi til að hækka húsið á lóð nr. 4 við Urðarhvarf um eina hæð.

Hefur kærandi skotið fyrrgreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hækkun hússins að Urðarhvarfi 4 muni leiða til þess að það verði hærra en fasteign hans að Urðarhvarfi 2 og brjóti í bága við skipulags- og útlitshönnun hverfisins í heild. Engin frambærileg rök hafi verið færð fyrir hækkuninni en hún muni jafnframt hafa í för með sér þrengra umhverfi en áður hafi verið með aukinni umferð. Kærandi leigi út fasteign sína fyrir líkamsræktarstöð og gistiheimili. Eitt aðalsmerki gistiheimilisins sé víðfeðmt útsýni frá efstu hæðum hússins. Það útsýni muni skerðast verulega með heimilaðri hækkun hússins að Urðarhvarfi 4. Verði að gera þá kröfu til skipulagsyfirvalda sveitarfélaga og bæjarstjórna að deiliskipulagstillaga sé vönduð og að henni fylgi rökstuðningur. Gengið sé á grenndarhagsmuni kæranda og leiði breytingin til þess að fasteign hans muni lækka í verði.

Að auki sé á það bent að deiliskipulagstillagan standist ekki ákvæði 38. gr. sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem kveðið sé á um að sveitarstjórn/framkvæmdaraðili taki saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram komi hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhuguð skipulagsferli, s.s. um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaðilum. Hafi Kópavogsbær virt þessi lagaákvæði að vettugi og beri því að fella hina ólögmætu stjórnvaldsákvörðun úr gildi.

Séu gerðar verulegar athugasemdir við þau gögn sem fylgdu afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarstjórnar Kópavogsbæjar við afgreiðslu deiliskipulagsins. Hafi skýringarmyndir verið villandi og þá hafi kærandi ekki fengið vitneskju um sumar myndirnar fyrr en eftir að deiliskipulagið hafi verið samþykkt af bæjarstjórn. Lóðin nr. 4 við Urðarhvarf hafi verið fullbyggð samkvæmt breyttu deiliskipulagi sem hafi verið samþykkt 2007. Loks sé á það bent að afgreiðsla bæjarstjórnar stríði gegn ákvæðum skipulagslaga. Í 4. mgr. 41. gr. laganna sé kveðið á um að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagins er skírskotað til þess að umrætt svæði sé skipulagt sem atvinnuhúsnæði og verði að telja að aðrar kröfur séu gerðar til útsýnis á atvinnuhúsalóðum en á íbúðarhúsalóðum. Umsótt skipulagsbreyting hafi falið í sér hækkun um tvær hæðir, efsta hæðin yrði inndregin og byggingarmagn myndi aukast um 530 m2. Við meðferð málsins hafi verið talið rétt að koma til móts við athugasemdir kæranda að hluta og heimila hækkun um eina hæð í stað tveggja og aukið byggingarmagn um 350 m2. Hafi hin samþykkta tillaga því gengið skemur en hin kynnta tillaga og hafi því ekki verið þörf á að auglýsa tillöguna að nýju.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulagsbreytingar og veitingu byggingarleyfis sem heimilar hækkun húss að Urðarhvarfi 4 um eina hæð. Umrætt hús stendur á svæði sem hefur blandaða landnotkun verslunar og þjónustu og athafnasvæðis í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald í lögsagnarumdæmi sveitarfélags nema á annan veg sé mælt í lögum og annast gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við töku skipulagsákvarðana ber að líta til markmiða sem tíunduð eru í a-c lið 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en þar er tekið fram að ekki þurfi að gera lýsingu vegna breytinga á deiliskipulagi. Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar, fram komnum athugasemdum svarað, breytingin samþykkt og gildistaka hennar auglýst í samræmi við ákvæði 41. og 42. gr. skipulagslaga. Sú breyting sem gerð var á skipulagstillögunni eftir kynningu fól í sér að heimiluð var hækkun húss um eina hæð í stað tveggja og þar með dregið úr byggingarmagni og nýtingarhlutfall lækkað. Var því ekki þörf á að kynna tillöguna að nýju samkvæmt 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Heimilað nýtingarhlutfall lóða á þeim hluta skipulagsreits sem hér um ræðir er á bilinu 0,74-1,26 og hús 5-8 hæða. Með umþrættri skipulagsbreytingu verður nýtingarhlutfall lóðarinnar Urðarhvarfs 4 0,89 og hús á lóðinni hækkar um eina hæð og verður sex hæðir. Nýting umræddrar lóðar og umfang húss á henni telst því ekki óhófleg í samanburði við aðrar lóðir á skipulagssvæðinu. Vegna landhalla stendur Urðarhvarf 4 lægra en hús kæranda að Urðarhvarfi 2. Eftir heimilaða hækkun húss að Urðarhvarfi 4 yrði þakkóti þess 120,3 en þakkóti húss kæranda er 122,7 og rís húsið að Urðarhvarfi 4 því 2,4 m lægra en hús kæranda.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum að raskað geti gildi hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi á sér stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess og þar sem ekki verður talið að annmarkar hafi verið á undirbúningi og töku ákvörðunar um veitingu byggingarleyfisins, verður kröfu kæranda um ógildingu þess hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 12. maí 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsendahvarf – athafnarsvæði vegna lóðar nr. 4 við Urðarhvarf.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 3. júlí 2015 um að veita leyfi fyrir hækkun hússins á lóð nr. 4 við Urðarhvarf um eina hæð.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Hólmfríður Grímsdóttir                                            Þorsteinn Þorsteinsson

43/2015 Hamraborg

Með
Árið 2015, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 4. júní 2015 um að veita leyfi til að breyta 2. og 3. hæð hússins að Hamraborg 11 í gistiheimili.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júní 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Lárentsínus Kristjánsson hrl., f.h. Þvottabjarnarins ehf. og Catalinu ehf., rekstraraðila og eigenda þriggja eignarhluta í fasteigninni Hamraborg 11, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 26. maí 2015 að samþykkja að breyta 2. og 3. hæð hússins að Hamraborg 11 í gistiheimili. Verður að skilja málskot kærenda svo að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 4. júní s.á. að samþykkja greind byggingaráform. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 18. júní 2015.

Málavextir: Með úrskurði, uppkveðnum 30. janúar 2015, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi byggingarleyfi er heimilaði að breyta notkun hluta 2. og 3. hæðar hússins að Hamraborg 11 í Kópavogi í gistiheimili Var sú niðurstaða reist á því að byggingarleyfisumsóknin sem samþykkt var hafði ekki verið grenndarkynnt í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en deiliskipulag var ekki í gildi fyrir umrætt svæði.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Kópavogi 12. febrúar 2015 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að innrétta gistiheimili í vesturhluta 2. og 3. hæðar í húsinu að Hamraborg 11, en þar munu áður hafa verið skrifstofur. Var erindinu vísað til skipulagsnefndar í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hinn 16. s.m. var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar. Var samþykkt að grenndarkynna fram lagða tillögu fyrir lóðarhöfum Hamraborgar 9, 22 og 24 og Álfhólsvegar 2, 2A, 4, 4A og 15A. Var kynningartími frá 18. mars til 27. apríl s.á. og bárust athugasemdir m.a. frá kærendum. Var þeim svarað með umsögn skipulagsstjóra, dags. 18. maí s.á. Sama dag var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar og það samþykkt. Var sú afgreiðsla staðfest af bæjarráði 21. s.m. og af bæjarstjórn 26. maí 2015. Á afgreiðslufundi hinn 4. júní 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn í
Kópavogi fyrrgreinda byggingarleyfisumsókn og skaut kærandi veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
 
Málsrök kæranda: Kærendur skírskota til þess að fyrra kærumálið hafi byggt á því að ekki hafi verið leitað eftir samþykki frá eigendum annarra eigna í húsinu sem sameigenda. Hafi kærendur átt von á því, eftir að byggingarleyfið hafi verið fellt úr gildi á þeim grundvelli að ekki hafi farið fram grenndarkynning, að þeim yrði gefinn kostur á andmælum. Augljóst sé að verið sé að breyta hagnýtingu séreignar í húsinu frá því sem áður hafi verið og þurfi sameigendur að samþykkja slíkt líkt og komi fram í ákvæði 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Byggingarfulltrúanum í Kópavogi hafi hvorki verið fengið úrskurðarvald né dómsvald og sé það ekki í hans verkahring að ákveða hvenær þau gögn sem lög áskilji skuli fylgja umsókn um byggingarleyfi, en hann hafi ákveðið að ekki hafi þurft að uppfylla fortakslaust ákvæði 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Þurfi afstaða annarra eigenda ætíð að liggja fyrir og fylgja byggingarleyfisumsókn.

Brotið hafi verið gegn skýru ákvæði laga um að leita afstöðu annarra eigenda séreignarhluta í húsinu sem sameigenda hússins þar sem umrædd starfsemi muni hafa mikil áhrif á starfsemi þá sem fyrir sé í húsinu. Að auki sé brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar, s.s. lögmætisreglunni, réttmætisreglunni og rannsóknarreglunni en einnig hafi andmælaréttur ekki verið virtur.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að samkvæmt 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 meðal þeirra gagna sem fylgja skuli umsókn um byggingarleyfi. Þegar veitt sé byggingarleyfi fyrir breytingu á séreignarhluta í fjöleignarhúsi, hvort sem um sé að ræða breytingu á húsnæðinu eða notkun þess, gildi ákvæði laga um fjöleignarhús um það hvort og hvenær og þá hvers kyns samþykki þurfi að liggja fyrir frá sameigendum. Sé samþykkis þörf skuli það fylgja umsókn um byggingarleyfi. Ekki tíðkist að viðhafa grenndarkynningu gagnvart sameigendum í fjöleignarhúsum enda hafi það enga þýðingu. Réttur sameigenda gangi lengra því veiting leyfis sé háð samþykkis þeirra í ákveðnum tilvikum sem nánar sé kveðið á um í 27. gr. laga um fjöleignarhús. Samkvæmt því ákvæði sé samþykki meðeigenda einungis áskilið þegar um sé að ræða breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem hafi verið gert ráð fyrir í upphafi. Í umræddu tilviki sé um að ræða fjöleignarhús þar sem gert hafi verið ráð fyrir atvinnuhúsnæði frá upphafi. Á upphaflegum samþykktum uppdráttum hafi verið getið um verslun, skrifstofur, vinnusali, lager og vörumóttöku en síðar hafi m.a. verið samþykkt að þar væri veitingarstaður og skemmtistaður. Húsið sé á miðsvæði þar sem heimiluð sé fjölbreytileg atvinnustarfsemi. Með því að heimila þar rekstur gistiheimilis sé ekki verið að breyta hagnýtingu viðkomandi séreignahluta frá því sem áður hafi verið gert ráð fyrir í upphafi. Því sé ekki talin þörf á samþykki meðeigenda. Þá hafi verið talið að breytingin hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum annarra eigenda, sbr. 2. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga. Hafi verið sérstaklega haft í huga að inngangur gistiheimilisins sé í vesturenda hússins en bæði veitingastaður og skemmtistaður í húsinu hafi sér inngang að sínu húsrými.

Að auki sé bent á að eigendur starfsemi sem fyrir sé í húsi sem skipulagt sé sem atvinnuhúsnæði geti ekki borið fyrir sig að gistiheimili feli í sér bindingu fyrir þá vegna kröfu íbúa um næturfrið enda verði eigendur og rekstaraðilar fyrirhugaðs gistiheimilis að sætta sig við aðra atvinnustarfsemi sem fram fari í húsinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytta notkun rýmis á 2. og 3. hæð í fjöleignarhúsi að Hamraborg 11. Telja kærendur að hin breytta nýting muni hafa í för með sér fyrirsjáanlega röskun og óhagræði fyrir starfsemi þeirra sem fyrir er í húsinu og sé af þeim sökum háð samþykki allra húseigenda. Einnig er því haldið fram að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið lögum samkvæmt þar sem hún hafi ekki verið kynnt kærendum með grenndarkynningu.  

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal fara fram grenndarkynning á byggingarleyfisumsókn þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag í þegar byggðu hverfi. Felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum, sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta, leyfisumsókn og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Kærendur eru sameigendur leyfishafa í greindu fjöleignarhúsi og eiga því ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 við um réttarstöðu þeirra og teljast þeir ekki nágrannar í þessu tilfelli í skilningi 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 27. gr. fjöleignarhúsalaga eru breytingar á hagnýtingu séreignar í fjöleignarhúsi frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum eru háðar samþykki allra eigenda hússins. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er Hamraborg 11 á svokölluðu miðsvæði þar sem gert er ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi s.s. verslunum, hótelum og veitinga- og gistihúsum. Er sú skilgreining í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, sbr. b-lið 2. mgr. gr. 6.2. Samkvæmt framangreindu er hin kærða ákvörðun í samræmi við gildandi skipulag svæðisins hvað landnotkun varðar, sem ákvarðar réttindi fasteignareigenda á svæðinu til nýtingar eigna sinna.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að umþrættur rekstur gistiheimilis í séreignarhluta leyfishafa sé háður samþykki annarra eigenda umrædds atvinnuhúsnæðis skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga enda vandséð að sá rekstur geti valdið rekstri skemmtistaðar í eignarhluta kærenda í húsinu verulegu óhagræði.

Að öllu framangreindu virtu og þar sem ekki liggja fyrir þeir annmarkar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði, verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 4. júní 2015 um að veita leyfi til að breyta 2. og 3. hæð hússins að Hamraborg 11 í gistiheimili.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Hólmfríður Grímsdóttir                                            Þorsteinn Þorsteinsson

22/2014 Fiskeldi Ísafjarðardjúp

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómsstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2014, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 6. mars 2014 um að aukið eldi regnbogasilungs í 4.000 tonna ársframleiðslu við Snæfjallaströnd (Sandeyri) í Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. mars 2014, er barst nefndinni 30. s.m., kærir Veiðifélag Langadalsárdeildar, Móholti 6, Ísafirði, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 6. mars 2014 að aukið eldi Dýrfisks hf. í 4.000 tonna ársframleiðslu regnbogasilungs við Snæfjallaströnd (Sandeyri) í Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Með bréfi, dags. 5. apríl 2014, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Veiðifélag Laugardalsár sömu ákvörðun og með bréfi, dags. 11. apríl 2014, er barst nefndinni samdægurs, kæra útgerðirnar A.Ó.A. útgerð hf., Mýrarholt ehf. og Valþjófur ehf. einnig sömu ákvörðun. Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verða seinni kærumálin, sem eru nr. 27/2014 og 29/2014, sameinuð kærumáli þessu.

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að mat á umhverfisáhrifum fari fram. Auk þess fer Veiðifélag Laugardalsár fram á til vara að starfsleyfi vegna eldisins verði ekki veitt fyrr en að loknu tilteknu matsferli varðandi sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Þá fara útgerðirnar A.Ó.A. útgerð hf., Mýrarholt ehf. og Valþjófur ehf. fram á að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess hvort að fyrirhugað sjóeldi muni skerða lögvarin réttindi rækjusjómanna í Ísafjarðardjúpi.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 14. maí 2014.

Málavextir: Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 20. desember 2013, tilkynnti Dýrfiskur hf. um þau áform sín að auka framleiðslu á regnbogasilungi við Snæfjallaströnd (Sandeyri) í Ísafjarðardjúpi í 4.000 tonn á ári. Kom fram í tilkynningunni að fyrirtækið hefði þegar leyfi til framleiðslu á 2.000 tonnum af regnbogasilungi á ári í Dýrafirði og hyggðist auka framleiðslu þar í 4.000 tonn á ári. Lykilforsenda þess að tryggja umhverfisvænan og sjálfbæran rekstur væri að hvíla eldissvæðin og væri liður í því að hvíla Dýrafjörð á þriggja ára fresti. Væri því tilkynnt um fyrirhugaða stækkun á sjókvíaeldi á regnbogasilungi á greindum stað í Ísafjarðardjúpi. Þar hefði fyrirtækið fyrir starfs- og rekstrarleyfi fyrir 200 tonna eldisframleiðslu en fyrirhugað væri að koma fyrir 10 eldiskvíum á 360 ha svæði og slátra allt að 7.000 tonnum af regnbogasilungi á þriggja ára fresti. Hámarksframleiðsla á ársgrundvelli yrði 4.000 tonn.

Skipulagsstofnun leitaði álits Ísafjarðarbæjar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar með bréfum, dags. 27. desember 2013. Umsagnir bárust frá nefndum stjórnvöldum í janúar og febrúar 2014. Frekari upplýsingar bárust frá framkvæmdaraðila með bréfi, dags. 12. febrúar s.á., og í tölvupósti 5. mars s.á. Var það álit Ísafjarðarbæjar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar og Minjastofnunar Íslands að ekki væri þörf á því að framkvæmdin sætti mati á umhverfisáhrifum. Samgöngustofa tók ekki afstöðu til þess hvort framkvæmdin skyldi háð slíku mati, en Umhverfisstofnun taldi ekki líklegt að umrædd framleiðsluaukning myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Hinn 6. mars 2014 tók Skipulagsstofnun þá ákvörðun, með vísan til gagna málsins, að fyrirhugað aukið eldi regnbogasilungs væri ekki líklegt til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að Skipulagsstofnun hafi ákveðið að tilgreint fyrirhugað eldi á allt að 6.800 tonna af regnbogasilungi og 200 tonna af þorski í Ísafjarðardjúpi skuli háð mat á umhverfisáhrifum. Verði ekki séð að það eldi sem í þessu máli ræði hafi einhver minni umhverfisáhrif og ætti það því einnig að vera háð mati á umhverfisáhrifum. Regnbogasilungur, sem sleppi úr sjóeldiskvíum og gangi upp í ferskvatnsár, þar sem fyrir séu stofnar laxfiska, geti valdið slíkum stofnum verulegum skaða. Í náttúrulegu umhverfi næri regnbogasilungur sig m.a. á seiðum annarra fiska og jafnvel hrognum þeirra. Eigi seiði laxfiska oft erfitt uppdráttar vegna náttúrulegra aðstæðna í Ísafjarðardjúpi og geti flökkufiskar því valdið óafturkræfum skaða. Eyðileggi það einnig orðspor laxveiðiáa ef þar veiðist eldisfiskur.

Staðsetning fyrirhugaðra eldiskvía fram af Sandeyri við Snæfellsströnd og ríkjandi straumar í Ísafjarðardjúpi séu slíkir að göngufiskur þurfi að fara um þetta kvíeldissvæði sem mengað sé af úrgangi, e.t.v. af smitsjúkdómum, s.s. blóðsótt, laxalús og af hugsanlegri notkun lyfja og eiturefna. Séu laxaseiði í meiri hættu en fullvaxta fiskar. Þá sé um sjónmengun að ræða sem muni koma niður á ferðaþjónustu á svæðinu. Bent sé að að veðurfarslegar aðstæður séu slíkar í Ísafjarðardjúpi að þar geti orðið ofsaveður, einkum þó að vetri til. Í slíku veðri geti ísing hlaðist svo á eldiskvíar, að þeim verði ekki bjargað og hætt við að eldisfiskur sem í þeim sé sleppi út eða drepist. Svo sé komið fyrir laxveiðiám á Vestfjörðum að aðeins árnar sem renni í Ísafjarðardjúp eigi raunverulegan möguleika á að vera með ómengaðan náttúrulegan stofn. Því sé þörf á að leyfa náttúrunni að njóta vafans og heimila ekki sjókvíeldi laxfiska í Ísafjarðardjúpi eða Jökulfjörðum.

Aukinn lífmassi í Ísfjarðardjúpi muni auka líkur á að sjúkdómar valdi tjóni á svæðinu. Fyrirhugað fiskeldi muni hafa neikvæð áhrif á botngerð og lífríki á botni sem geti hamlað eða eyðilagt með öllu vöxt og viðgang rækju í Ísafjarðadjúpi. Mörgum spurningum sé ósvarað um áhrif sjókvíaeldis á rækjustofn þar. Nauðsynlegt sé að þeim sé svarað áður en umfangsmikið sjókvíaeldi hefjist. Slíkar rannsóknir hafi ekki farið fram og því sé varhugavert að hefja framkvæmd án þess að auka og efla þekkingargrunn með rannsóknum. Togsvæði rækjuveiðimanna muni skerðast með tilkomu kvíanna, en slíkt sé skerðing á atvinnuréttindum rækjusjómanna við Ísafjarðadjúp, sem falli undir eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að þeir einir eigi kærurétt sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Undantekning sé þó gerð í sambandi við umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga, sbr. 2. máls. 3. mgr. sömu greinar. Óljóst sé af gögnum málsins hvort einn kærenda uppfylli skilyrði kæruaðildar m.t.t. fjölda félagsmanna.

Fyrirhugað sjóeldiskvíeldi á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski í Ísafjarðardjúpi, sem stofnunin hafi talið háð mati á umhverfisáhrifum, sé ekki sambærilegt kærumáli kæranda. Hið fyrrnefnda hafi snúist um blandað eldi þorsks, lax og regnbogasilungs þar sem neikvæðustu umhverfisáhrifin miðuðu við lax en síðarnefnda málið snúist eingöngu um eldi regnbogasilungs. Þá séu staðsetningar allt aðrar. Vegna ólíkrar framleiðslu og staðsetningar séu málin ekki samanburðarhæf. Hafi málsmeðferð stofnunarinnar því ekki falið í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þegar nýjar tegundir berist inn í vistkerfi þar sem þær hafi ekki verið áður, t.d. í ferskvatnsár, geti slíkt haft í för með sér neikvæð áhrif. Hins vegar þurfi að horfa til þess hve líklegt sé að mögulegur sleppifiskur úr kvíum fyrirhugaðs eldis endi í þeim ám sem vísað sé til. Eldissvæðið sé í ríflega 15 km fjarlægð frá Laugardalsá og rúmlega 30 km frá Langadalsá. Sé því uppfyllt það ákvæði reglugerðar nr. 105/2000 sem kveði á um að við leyfisveitingar skuli miða við að sjókvíastöðvar séu ekki nær en 5 km þeim laxveiðiám sem séu með yfir 100 laxa meðalveiði á tíu ára tímabili og miða skuli við 15 km fjarlægð ef um sé að ræða ár með yfir 500 laxa meðalveiði. Í þremur stærstu laxveiðiám í Ísafjarðadjúpi hafi meðalveiði á laxi á tíu ára tímabili 2001-2010 verið 360 laxar í Laugardalsá, 181 í Langadalsá og 114 í Hvannadalsá. Minni veiði sé í öðrum ám á svæðinu. Næsta á við eldissvæðið sé Dalsá í Unaðsdal í tæplega 11 km fjarlægð, en þar sé einungis lítilsháttar bleikjuveiði.

Í einni kæru komi fram að ríkjandi straumur í Ísafjarðardjúpi sé innstraumur að vestanverðu en útstraumur að austanverðu. Mótmælt sé staðhæfingu í sömu kæru þess efnis að þar sem algengt sé að lax veiðist í silungsnet inn með Snæfjallaströnd megi ætla að göngufiskur í ár innst í Ísafjarðardjúpi komi inn með Snæfjallaströnd á móti ríkjandi strandstraumi. Skipulagsstofnun vísi til norskrar rannsóknar sem sýni að regnbogasilungur haldi sig að stórum hluta í nágrenni sleppistaðar og þá í yfirborðinu. Þrátt fyrir að ekki hafi farið fram sérstakar rannsóknir á göngu laxfiska um Ísafjarðardjúp liggi beinast við að mögulegur strokufiskur úr fyrirhuguðum kvíum í austanverðu djúpinu haldi sig annað hvort að mestu í nágrenni við eldisstæðið, og því auðvelt að endurheimta hann í net, eða fylgi útstraum og syndi á haf út. Erfðablanda regnbogasilungs við villta stofna sé jafnframt hverfandi eins og m.a. komi fram í umsögn Fiskistofu. Skipulagsstofnun ítreki það sem fram komi í ákvörðun sinni að meginstraumur liggi út fjörðinn frá eldissvæðinu, sem skipti miklu máli varðandi líkur á því að mögulegir sjúkdómar sem upp kæmu í eldinu bærust í ár innar í Ísafjarðardjúpi. Með vísan til þess sem áður greini, sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að göngufiskur syndi á móti straumi og fari þannig um fyrirhugað eldissvæði á leið sinni inn fjörðinn. Þá hyggist framkvæmdaraðili grípa til aðgerða til að draga úr hættu á að sjúkdómar valdi áföllum eða berist út í umhverfið.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila til stofnunarinnar sé vísað til greiningar á öldufari í Ísafjarðardjúpi, m.t.t. fiskeldis frá 2013. Þar komi fram að eldissvæðið við Sandeyri sé varið fyrir 2 m öldu í öllum vindáttum. Þá komi fram í tilkynningunni að það sé afar sjaldgæft að hafís berist inn í Ísafjarðardjúp. Vitað sé um tvö tilfelli og sé gerð grein fyrir þeim í tilkynningunni. Stofnunin viti að aldrei sé hægt að koma í veg fyrir að fiskur sleppi úr kvíum, t.d. í kjölfar ofsaveðurs. Hins vegar beri að taka mið af því sem að framan segi um fjarlægð fyrirhugaðs eldissvæðis frá ósum nærliggjandi áa, hegðun og fari sleppifiska og að ekki sé talið að regnbogasilungur geti tímgast í íslenskum ám. Ákvörðun um að framkvæmd sé matsskyld sé íþyngjandi í garð framkvæmdaraðila. Af því leiði að stofnunin geti ekki tekið slíka ákvörðun nema fyrir liggi traustar upplýsingar um möguleika á því að regnbogasilungur geti valdið laxfiskastofnum í ferskvatnsám verulegum og óafturkræfum skaða.

Gögn málsins gefi ekki til kynna að aukinn lífmassi muni auka líkur á að sjúkdómar valdi tjóni á svæðinu. Í því sambandi sé bent á umsögn Fiskistofu í málinu. Þar komi fram að þar sem ætlunin sé að hámarksframleiðsla lífmassa verði 4.000 tonn á ári á einni staðsetningu muni áhætta á smitsjúkdómum og sníkjudýratengdum vandmálum verða nokkur en að Fiskistofa taki þó fram að með réttu og fyrirbyggjandi verklagi megi draga verulega úr slíkri áhættu. Þá hafi Matvælastofnun í umsögn sinni ekki talið þörf á mati á umhverfisáhrifum um þá þætti sem snúi að sjúkdómum. Skipulagsstofnun bendi jafnframt á að fjarlægð eldissvæðisins frá næstu veiðiám uppfylli skilyrði reglugerðar nr. 105/2000 og að meginstraumur liggi út fjörðinn frá eldissvæðinu.

Vegna athugasemda um neikvæð áhrif fyrirhugaðs fiskeldi á botngerð og lífríki á botni, sem hamlað geti vexti og viðgangi rækju í Ísafjarðardjúpi, sé bent á umsögn Fiskistofu. Þar komi eftirfarandi fram: „Einungis er um eina staðsetningu að ræða sem er töluvert utarlega, norðanmegin í djúpinu, og ekki er staðsett á rækjuveiðislóð samkvæmt [tilkynningu], …“ Fullyrðingum um annað sé hafnað af Skipulagsstofnun sem og þeim fullyrðingum að fyrirhugað fiskeldi muni skerða togsvæði rækjuveiða og skerða þar með atvinnuréttindi rækjusjómanna við Ísafjarðardjúp. 

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að miklar framfarir hafi orðið í búnaði og vinnuaðferðum í sjókvíaeldi, sem hafi gert það að verkum að verulega hafi dregið úr því að eldisfiskur sleppi. Sé unnið eftir norskum staðli (NS 9415) sem skilgreini lágmarkskröfur á búnað miðað við þær aðstæður sem séu á sjókvíaeldisstað. Staðallinn tilgreini einnig verklag, viðhald og eftirlit. Opinber gögn frá Noregi sýni að á síðustu 6 árum (2008-2013) sé fjöldi strokulaxa að meðaltali 0,21 stk. fyrir hvert framleitt tonn af eldislaxi, sem sé um fimmfalt minna en meðaltal sex ára þar á undan (2002-2007). Unnið sé að því að bæta þennan árangur enn frekar og stefnt sé fullum fetum að „núllsleppingu“  laxfiska í sjókvíaeldi. Framkvæmdaraðili muni fylgja þessari þróun eftir og haga sínum fjárfestingum í búnaði og þróun eldisaðferða í samræmi við hana. Rannsóknir á atferli regnbogasilungs sem hafi verið sleppt úr sjókvíeldi sýni allar að silungurinn haldi sig í grennd við sjókvíaeldið. Þetta hegðunarmynstur geri það að verkum að endurheimtur með netveiði sé hátt, sem dragi enn frekar úr neikvæðum áhrifum eldissilungs.

Áhrif silungseldis á náttúrulega stofna séu ekki mælanleg. Vísað sé til umsagnar Veiðimálastofnunar frá árinu 2009 varðandi áhyggjur kærenda um mögulega erfðablöndun milli regnbogasilungs og villtra fiskistofna. Þar komi fram að regnbogasilungur sé ekki náttúrulegur á Íslandi. Hann hafi verið í eldi hér sem og víða um lönd í áratugi en sé uppruninn frá vesturströnd N-Ameríku og hrygni að vori. Regnbogasilungur hafi ekki náð að fjölga sér á Íslandi. Regnbogasilungur valdi því ekki erfðablönduhættu, né hafi varanleg áhrif á íslenskar ár og vötn.

Hvað varði mengun og laxalús sé vert að benda á að eldissvæðið sem sótt sé um sé 0,9% af flatamáli Ísafjarðardjúps og sjókvíarnar sjálfar séu á svæði sem sé aðeins 0,019% af flatarmálinu. Áhrifasvæði m.t.t. mengunar sé á botninum, beint undir kvíunum og dreifist mjög lítið. Vegna þess hve áhrifasvæðið sé lítið og lífræn mengun staðbundin megi draga þá ályktun að starfsemin hafi hverfandi áhrif á fiskgengd í Ísafjarðardjúpi. Þrátt fyrir nálægð villts fisks og eldisfisks séu engar beinar sannanir fyrir því að villtur fiskur beri smitsjúkdóma eldisfisks á milli. Engar óyggjandi sannanir séu fyrir því að fiskeldi hafi neikvæð áhrif á villta fiskistofna. Hitastig í Ísafjarðardjúpi og á væntanlegu eldissvæði fari á vetramánuðum undir 2°C sem dragi verulega úr sjúkdómsáhættu. Laxalús finnist í náttúrulegu umhverfi á Íslandi en enn sem komið sé hafi hún ekki valdið vandamálum í fiskeldi. Framkvæmdaraðili sé í fararbroddi með því að byggja upp eldi byggt á kynslóðaskiptum. Svæðin verði hvíld milli kynslóða í langan tíma sem nægi til að slíta í sundur lífsferil laxalúsarinnar. Framkvæmdaraðili stundi umhverfisvænt eldi sem sé vottað af þriðja aðila. Í því felist að þéttleiki í eldiskvíunum sé lítill, sem dragi verulega úr sjúkdómshættu. Auk þess séu ekki notuð lyf í eldinu. Í tilkynningu sinni til Skipulagsstofnunar hafi framkvæmdaraðili fjallað um veðurfarslegar aðstæður á svæðinu og greini þar frá niðurstöðum öldufarsrannsókna. Sá búnaður sem sé framleiddur í dag til sjóeldis standist slíkar aðstæður en framkvæmdaraðili byggi einnig á fimm ára reynslu sinni í sjókvíaeldi á Íslandi.

Ekki sé hægt að bera saman það sjókvíaeldi sem farið hafi í mat á umhverfisáhrifum við fyrirhugað sjókvíaeldi framkvæmdaraðila hér. Í fyrra tilvikinu hafi verið bæði um að ræða eldi lax og regnbogasilungs og hafi athugasemdir í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála verið tengdar laxeldinu. Auk þess hafi hið fyrra verið mun meira að umfangi hvað varði eldismagn og eldissvæði. Eldi framkvæmdaraðila sé aðeins á einu svæði og þar að auki aðeins með einn árgang í einu. Umhverfisáhrif þess séu því mun minni.

Ekki sé um að ræða neikvæð áhrif sjókvíeldisins á vöxt og viðgang rækju í Ísafjarðardjúpi.  Kaldsjávarrækja haldi sig við sjávarbotninn að degi til og sé alæta og nærist á burstaormum, skeldýrum, skrápdýrum og lífrænum niðurbrotsefnum. Á nóttunni færi rækjan sig nær yfirborðinu og nærist á ljósátu, krabbaflóm og þara. Það sé þekkt að mikið sé af rækju þar sem botnset sé ríkt af lífrænum efnum og rannsóknir hafi sýnt að rækja nærist á fóðurleifum og úrgangi frá fiskeldi sem teljist ákjósanleg næring fyrir rækju. Það megi því draga þá ályktun að það séu jákvæð samlegðaráhrif fiskeldis og rækju þannig að fiskeldi stuðli að auknum vexti og viðgangi rækjunnar og rækjan hjálpi til við niðurbrot næringarefna sem falli frá eldinu. Erlend gögn styðji þessa tilgátu. Hvað varði skert atvinnuréttindi rækjusjómanna vegna fyrirhugaðs sjókvíeldi framkvæmdaraðila þá skuli á það bent að eldissvæðið sé afar lítið í samanburði við stærð Ísafjarðardjúps, eins og lýst hafi verið. Þar að auki sé svæðið ekki á rækjutogslóðum og engin rækjuveiði hafi verið þar frá árinu 1999. 

———-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, svo sem henni var breytt með 25. gr. laga nr. 131/2011, sæta ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda sem falla undir 2. viðauka við lögin, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.   Í samræmi við þetta einskorðast athugun úrskurðarnefndarinnar við lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Tekur úrskurðarnefndin því aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að umrætt fyrirhugað fiskeldi skuli háð mati á umhverfisáhrifum verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt. Af sömu sökum tekur úrskurðarnefndin ekki afstöðu til fram kominna varakrafna.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Þó geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga kært nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangur samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að. Varðandi aðild Veiðifélags Langadalsárdeildar hefur Skipulagsstofnun bent á að vafi leiki á um hvort uppfyllt séu skilyrði kæruaðildar að teknu tilliti til fjölda félagsmanna. Um veiðifélög gilda ákvæði VI. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og er mönnum skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi í því skyni að markmiðum laganna skv. 1. gr. verði náð, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna, en þau markmið eru m.a. að kveða á um skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. eru félagsmenn veiðifélags allir þeir sem skráðir eru veiðiréttarhafar á félagssvæðinu. Langadalsá rennur í Ísafjarðardjúp og verður samkvæmt framangreindu við það að miða að félagið og félagsmenn eigi beina lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og kemur þá fjöldi félagsmanna ekki til skoðunar varðandi kæruaðild.
 
Framkvæmdaraðili tilkynnti Skipulagsstofnun um áform sín um 4.000 tonna sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd (Sandeyri) í Ísafjarðardjúpi í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Varð það niðurstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en því er haldið fram af hálfu kærenda að ekki megi láta hjá líða að gera slíkt mat. Er einkum deilt um áhrif fyrirhugaðs fiskeldis á lífríki sjávar og veiðiáa á svæðinu, og þá einkum á laxveiði og rækjuveiði.

Í 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir markmiðum laganna og eiga þau m.a. að tryggja að áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Í 2. viðauka við lögin eru taldar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum.  Er þar á meðal talið þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar, sbr. lið 1 g., og á það við hér. Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar sem tilgreind er í 2. viðauka ber Skipulagsstofnun að fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin, en þar eru taldir þeir þættir sem líta ber til við matið. Er þar fyrst tiltekið að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, nýtingar náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar, ónæðis og slysahættu. Þá ber og að líta til staðsetningar framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar.

Hvorki heildstæð nýtingaráætlun né skipting fiskeldissvæða samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er til fyrir Ísafjarðardjúp eða innri hluta þess þar sem fyrirhuguðum eldiskvíum er ætlaður staður. Hins vegar vegar bera gögn málsins með sér að LENKA viðtaksmat geri ráð fyrir að burðarþol Ísafjarðardjúps með innfjörðum sé allt að 43.000 tonn, en áætluð nýting muni verða 11.600 tonn séu allar fyrirhugaðar framkvæmdir taldar með. Ljóst er að auknum lífmassa fylgja auknar líkur á sjúkdómum en í umsögn Fiskistofu er þó áréttað að með réttu og fyrirbyggjandi verklagi megi draga verulega úr slíkri hættu. Þá skal á það bent að fjarlægðin á milli fyrirhugaðs eldissvæðis og næstu laxveiðiár uppfyllir skilyrði gr. 4.2 í reglugerð nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og löndun laxastofna. Þá er einnig ljóst að ekki er hægt að útiloka að regnbogasilungur sleppi frá eldissvæðinu. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að umhverfisáhrif þess yrðu ekki mikil, enda á regnbogasilungur ekki náttúruleg heimkynni hér á landi og er talið að vegna lágs árhitastigs hér á landi og tímasetningar hrygningar geti hann ekki tímgast í náttúrunni nema í undantekningartilfellum. Loks skal tekið fram að fyrirhugað eldissvæði yrði staðsett á einu svæði utarlega í Ísafjarðardjúpi og samkvæmt gögnum málsins ekki á rækjuveiðislóð. Verður ekki annað séð af öllu framangreindu en að við ákvörðunartöku Skipulagsstofnunar hafi verið farið eftir viðmiðum í 3. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum og að niðurstaða hennar, þess efnis að fyrirhugað aukið fiskeldi sé ekki líklegt til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð slíku mati, hafi verið réttmæt, en við töku hinnar kærðu ákvörðunar lágu m.a. fyrir stofnuninni umsagnir sérfróðra aðila, eins og nánar er í lýst í málavöxtum.

Kærendur byggja og á því að ekki hafi verið gætt jafnræðis við ákvörðunartöku Skipulagsstofnunar þegar litið sé til fordæmis stofnunarinnar frá 27. desember 2013 varðandi annað sjókvíaeldi  í Ísafjarðardjúpi sem talið hafi verið háð mati á umhverfisáhrifum. Þar var um að ræða blandað eldi þorsks, lax og/eða regnbogasilungs, alls 7.000 tonn á ári, og telur úrskurðarnefndin að þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að atvik séu ekki með þeim hætti að þau teljist sambærileg. Fól ákvörðunin því ekki í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 6. mars 2014 um að aukið eldi regnbogasilungs í 4.000 tonna ársframleiðslu við Snæfjallaströnd (Sandeyri) í Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Geir Oddsson
 

18/2011 Fisfélag Reykjavíkur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 30. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2011, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. desember 2010 um að samþykkja deiliskipulag Hólmsheiðar, svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. febrúar 2011, er barst nefndinni 3. mars s.á., kæra eigendur landspildna nr. 113435, 113443, 113410, 113426 og 113422 á Reynisvatnsheiði, auk Landeigendafélagsins Græðis, ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. desember 2010 um að samþykkja deiliskipulag Hólmsheiðar, svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur. Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 9. desember 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2011.

Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Hið kærða deiliskipulag felur ekki í sér heimild til framkvæmda og var því ekki tilefni til að úrskurða sérstaklega um kröfu um stöðvun framkvæmda í kærumáli þessu.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júní 2011, er barst nefndinni 15. s.m., kæra eigendur landspildna nr. 113435, 113410 og 113426 á Reynisvatnsheiði, auk Landeigendafélagsins Græðis, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2011 um að veita byggingarleyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús sem hýsa eigi vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg, en lóðin er nú skráð undir heitinu Hólmsheiðarvegur 141. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi en með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 27. apríl 2012, var þeirri kröfu hafnað. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og fjórir kærenda fyrra málsins standa að baki síðari kærunni verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 40/2011, sameinað máli þessu.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 26. apríl 2012 og 3. júní 2013.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 30. janúar 2008 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi athafnasvæðis Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði, þar sem gert var ráð fyrir tímabundinni starfsemi Fisfélagsins. Samþykkti borgarráð nefnda afgreiðslu hinn 7. febrúar s.á. Tillagan var auglýst á tímabilinu 13. febrúar til 28. mars 2008. Hinn 16. apríl s.á. var hún samþykkt á fundi skipulagsráðs með vísan til umsagnar skipulags- og byggingarsviðs um fram komnar athugasemdir og samþykkti borgarráð þá afgreiðslu hinn 25. s.m. Í framhaldi af því var deiliskipulagið sent til lögboðinnar afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Taldi stofnunin að deiliskipulagið markaði stefnu um flugbraut sem væri tilkynningarskyld, sbr. b-lið 10. töluliðar 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og þar með félli deiliskipulagstillagan undir lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, sbr. 3. gr. þeirra. Stofnunin lagðist því gegn auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins þar sem form þess og efni uppfylltu ekki ákvæði laga um umhverfismat áætlana. Auk þess þyrfti að skýra nokkur atriði í skipulagsgögnum.

Skipulagsstofnun óskaði jafnframt umsagnar Flugmálastjórnar Íslands um ákveðin atriði, en í umsögninni kom meðal annars fram að fyrirhugaður flugvöllur Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði væri skráningarskyldur í samræmi við 5. gr. reglugerðar nr. 464/2007 um flugvelli og myndi flokkast undir skráðan lendingarstað samkvæmt reglugerðinni. Í bréfi til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 6. ágúst 2008, var umsögn Flugmálastjórnar kynnt og jafnframt upplýst að það væri mat Skipulagsstofnunar að uppbygging athafnasvæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur á Hólmsheiði væri í ósamræmi við gildandi Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 og Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024, þar sem ekki væri í framangreindum áætlunum gert ráð fyrir flugvelli á svæðinu né útivistarstarfsemi tengdri flugi. Ítrekaði Skipulagsstofnun því afstöðu sína til auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 11. mars 2009 og samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi athafnasvæðis Fisfélagsins á Hólmsheiði. Fært var til bókar að þeim aðilum sem áður hefðu gert athugasemdir yrði tilkynnt um nýja málsmeðferð og auglýsingu, en eldri athugasemdir féllu úr gildi við auglýsingu tillögunnar nú. Samþykkti borgarráð þessa afgreiðslu 19. s.m. Tillagan var auglýst á tímabilinu 8. maí til 22. júní 2009 og var frestur til að gera athugasemdir síðar framlengdur til 6. júlí s.á. Nokkrar athugasemdir bárust. Hinn 19. ágúst 2009 var tillagan tekin fyrir á fundi skipulagsráðs og samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra. Borgarráð samþykkti þá afgreiðslu hinn 27. ágúst s.á.

Á fundi skipulagsráðs hinn 5. maí 2010 var áður samþykkt deiliskipulagstillaga lögð fram að nýju og afgreidd með svohljóðandi bókun: „Framlögð tillaga endursamþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra. Vísað til borgarráðs. Tillagan var áður samþykkt á fundi skipulagsráðs þann 19. ágúst sl. og var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs þann 27. ágúst sl. samhliða auglýstri breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna málsins. Með vísan til þess að auglýsing um gildistöku aðalskipulagsbreytingarinnar birtist ekki í B-deild Stjórnartíðinda fyrr en 16. apríl sl. telur skipulagsráð hyggilegt að endursamþykkja tillöguna og vísar afgreiðslunni til borgarráðs að nýju til endanlegrar staðfestingar. Skipulagsráð leggur sérstaka áherslu á að samkvæmt fyrirliggjandi tillögu hefur ætíð verið gert ráð fyrir því að nýting svæðisins fyrir aðstöðu Fisfélags Reykjavíkur sé tímabundin. Í ljósi þess er því beint til Framkvæmda- og eignasviðs að huga að slíkum fyrirvörum við gerð afnotasamnings um svæðið auk þess sem ítreka skal skilmála í deiliskipulagi um útlit og frágang bráðabirgðamannvirkja á svæðinu.“ Afgreiðsla skipulagsráðs var samþykkt á fundi borgarráðs 20. maí s.á. og málið sent Skipulagsstofnun til lögbundinnar yfirferðar. Gerði stofnunin athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku skipulagsins þar sem málsmeðferð og kynning umhverfismats deiliskipulagsins hefði ekki uppfyllt ákvæði laga um umhverfismat áætlana. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. september 2010 var samþykkt að framlengja frest til að gera athugasemdir við tillöguna og endurbirta auglýsingu vegna málsins. Tillagan var auglýst frá 10. september 2010 og frestur til að gera athugasemdir var til 22. október s.á. Fram komnar athugasemdir voru kynntar á fundi skipulagsráðs hinn 24. nóvember s.á. en afgreiðslu málsins frestað. Á fundi ráðsins 1. desember 2010 var deiliskipulagstillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 19. nóvember s.á. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 9. desember 2010. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins, að ákveðnum atriðum í greinargerð leiðréttum. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2011.

Deiliskipulagið nær til svæðis sem staðsett er um 350 m sunnan við Langavatn og er ætlað tímabundið fyrir starfsemi Fisfélags Reykjavíkur. Um er að ræða þrískipt svæði, alls ríflega 16 ha, þar sem gert er ráð fyrir tveimur til þremur tyrfðum flugbrautum með mismunandi stefnum fyrir vélknúin fis, æfingaaðstöðu, bílastæðum og allt að þremur flugskýlum að hámarksstærð 1.800 m² hvert, auk útivistarsvæðis og félagsheimilis að hámarksstærð 250 m².

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 3. maí 2011 var tekin fyrir byggingarleyfisumsókn þar sem sótt var um leyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús sem hýsa átti vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg. Byggingarfulltrúi frestaði málinu og vísaði því til umsagnar skipulagsstjóra. Hinn 17. maí 2011 samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina á afgreiðslufundi og var þá einnig lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 6. s.m.. Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði hinn 19. maí 2011 og byggingarleyfið var gefið út 31. október s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að hið kærða deiliskipulag nái til svæðis í landi Reynisvatns, sem sé jörð og lögbýli og lúti skipulagsskilmálum og öðrum ákvæðum jarðalaga nr. 81/2004. Í 7. gr. þeirra segi að þar sem í skipulagi sé fyrirhugað að breyta landnotkun svæða sem nýtt hafi verið til landbúnaðar skuli leyfi landbúnaðarráðherra til að leysa landið úr landbúnaðarnotum liggja fyrir áður en viðkomandi skipulagsáætlun hljóti endanlega afgreiðslu. Einnig sé vísað til 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis og 13. gr. laganna. Þá komi fram í ákvæðum greindra laga til bráðabirgða að allar jarðir sem skráðar hafi verið í jarðaskrá landbúnaðarráðuneytisins 1. desember 2003 teljist lögbýli eftir gildistöku laganna, án tillits til þess hvort þær uppfylli skilyrði 2. gr. um skilgreiningu á hugtakinu lögbýli. Sé enn fremur kveðið á um það í 3. gr. laganna að ákvæði þeirra gildi um öll lögbýli í þéttbýli án tillits til þess hvaða skipulag gildi um landsvæði þeirra.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sé svæðið skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota og sé það innan græna trefilsins, en markmið hans sé að koma á samfelldu skógræktar- og útivistarsvæði sem nái frá Esjuhlíðum til Hafnarfjarðar. Umrætt deiliskipulag taki hins vegar til starfsemi sem falla eigi undir landnotkunarflokkinn samgöngur í kafla 4.16 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Samkvæmt 9. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli vera innbyrðis samræmi milli skipulagsstiga en svo hátti ekki til hér. Gerð hafi verið breyting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 vegna aðstöðu fyrir fisflug á Hólmsheiði en ekki á Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 samhliða þeirri breytingu. Þá sé ekki samræmi milli þess sem fram komi annars vegar í deiliskipulagi og hins vegar í aðalskipulagi um afnotatíma Fisfélagsins af svæðinu.

Framsetningu deiliskipulagstillögunnar sé ábótavant. Ekkert landnúmer, staðgreinir eða götuheiti sé gefið upp. Ekki sé getið þeirra frístundalóða sem liggi að svæðinu og marki að hluta útlínur þess. Upplýsingar um aðrar frístundalóðir á svæðinu liggi ekki fyrir né upplýsingar um þau áhrif sem starfsemin komi til með að hafa á nýtingu þeirra og aðliggjandi svæða, sbr. reglur um grenndarrétt og nábýlisrétt. Ekki sé gefið upp hámarksnýtingarhlutfall, engin snið og engar teikningar liggi fyrir og því sé óljóst hvort eða hvernig eigi að byggja á svæðinu. Ekki sé vikið að ákvæðum laga um brunavarnir og fráveitu eða vísað til atriða sem fram eigi að koma í deiliskipulagi skv. ákvæðum laga um loftferðir nr. 60/1998 og reglugerðar nr. 464/2007 um flugvelli, s.s. um lengd og breidd flugbrauta, öryggissvæði og fleira.

Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998 skuli setja fram í deiliskipulagi bindandi ákvæði, m.a. um útfærslu skipulagsmarkmiða. Í skipulaginu segi að heimilt sé, en ekki skylt, að reisa flugskýli, leggja bílastæði og fleira, og sé slíkt í algerri mótsögn við ákvæði skipulagsreglugerðar. Sama gildi þar sem segi að gert sé ráð fyrir flugbrautasvæði, en erfitt sé að gera sér grein fyrir því hvort og þá hvað eða hvernig byggja eigi á svæðinu, enda séu takmarkaðri upplýsingar á skipulagsuppdrætti en almennt sé við gerð deiliskipulags og kveðið sé á um í lögum. Þá hafi tengivegur inn á svæðið sem sýndur sé á uppdrætti verið úrskurðaður óleyfisframkvæmd og svæðið sé því ótengt.

Deiliskipulagið gangi gegn markmiðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og reglum um friðhelgi eignarréttar. Við kaup kærenda á frístundalóðum sínum hafi umhverfi svæðisins skipt verulegu máli. Mannvirki þau sem gert sé ráð fyrir að rísi muni sjást víða að og verði mikil lýti á umhverfinu en engin kynning hafi farið fram á sjónrænum áhrifum þeirra. Þá verði mikill hávaði af fisflugvélunum á góðvirðisdögum. Gæta verði að því við skipulagsgerð að sérstökum kröfum í öðrum lögum og reglugerðum, svo sem kröfum um hljóðvist fyrir mismunandi landnotkun og starfsemi, sé unnt að framfylgja.

Í kafla 3.1.4 í skipulagsreglugerð segi að deiliskipulag skuli jafnan ná til svæða sem myndi heildstæða einingu. Um 200 m frá umræddu svæði hafi verið gert deiliskipulag vegna jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði, en bæði svæðin séu skilgreind sem opin svæði til sérstakra nota og ætluð til útivistar, frístundaiðju og skógræktar samkvæmt aðalskipulagi. Brjóti það í bága við fyrrnefnt reglugerðarákvæði að hið kærða deiliskipulag taki ekki til alls þess svæðis sem myndi heildstæða einingu.

Samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 sé beinlínis ætlast til þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram. Þá skuli koma fram staða áætlunar í stigskiptri áætlanagerð sem þýði að ekki verði hjá því komist að fjalla um svæðisskipulag og breytingar á því. Sé umhverfisskýrslan of seint fram komin þar sem Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 geri ekki ráð fyrir flugvelli af neinu tagi eða aðstöðu fyrir flug á þessum stað. Í umhverfisskýrslu þurfi að gera grein fyrir og bera saman raunhæfa valkosti við að ná markmiðum tillögunnar. Allt bendi til þess að niðurstöður hafi verið gefnar fyrir fram. Umhverfisskýrsla sú er liggi fyrir í málinu sé verulega ónákvæm og misvísandi, þar sem ekki hafi verið farið að tilteknum lagareglum við gerð hennar. Vísað sé til 2. mgr. 6. gr. laga um umhverfismat áætlana, þar sem greint sé frá því í stafliðum a-j sem koma skuli fram í umhverfisskýrslu, en þessar upplýsingar sé aðeins að litlu leyti að finna í skýrslunni. Ekkert samráð hafi verið haft við landeigendur í Reynisvatnslandi og ekki leitað leiða til að leysa ágreining eða hugað að mótvægisaðgerðum. Þá hafi skort á að nægjanlegar upplýsingar hafi legið fyrir við gerð skýrslunnar, svo sem um væntanlegan fjölda fisflugvéla og iðkenda, hugsanlega hávaðamengun frá flugumferð og hvernig meðferð eldneytis verði háttað, m.a. með tilliti til mengunarslysa og mengunar grunnvatns. Sé lífríki Langavatns sett í hættu.

Skipulagsbreytingar á austurheiðum Reykjavíkur á umliðnum árum hafi gert það að verkum að skipulagslega séð sé svæðið orðið einn hrærigrautur. Enginn viti með vissu við hverju megi búast og það sé óásættanlegt.

Hvað hið kærða byggingarleyfi varðar vísa kærendur til þess að lagaskilyrði hafi skort til að veita leyfið þar sem deiliskipulagið sem leyfið styðjist við sé ekki í samræmi við aðalskipulag og sé haldið ógildingarannmörkum. Þá eigi Fisfélag Reykjavíkur ekki lögvarinn rétt til að fá útgefið byggingarleyfi á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg þar sem lóðin sé hvorki til í Reynisvatnslandi né á Hólmsheiði. Aðal- og deiliskipulagstillögurnar sem hér um ræði hafi tekið til jarðarinnar Reynisvatns með landnúmerið 113408, sem skráð sé 484 ha í Landskrá fasteigna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kæru vegna samþykktar deiliskipulags svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur á Hólmsheiði verði vísað frá úrskurðarnefndinni ellegar að kröfu kærenda verði hafnað.

Kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi hið kærða deiliskipulag þar sem staðsetning fisflugvallarins hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni þeirra, hvorki í sjónrænu tilliti né öðru, en landspildur fjögurra kærenda séu í meira en eins kílómetra fjarlægð frá aðstöðu Fisfélagsins. Hagmunir þeir sem kærendur beri fyrir sig séu almenns eðlis en þeir varði umferð í lofti og á landi og sjónræn áhrif. Kærendur eigi ekki lögvarða kröfu til þess að engin flugumferð sé yfir höfðum þeirra. Þá verði ekki séð hvaða ófriður sé af starfseminni eða flugi fisa umfram það sem almennt megi búast við á opnu svæði sem ætlað sé til sérstakra nota, þ.m.t. frístundaiðkunar, sem fisflug sé. Starfsemin sé auk þess tímabundin og varla stöðug alla daga vikunnar, enda um tómstundaflug að ræða. Ekki verði heldur ráðið af kæru eða öðrum gögnum málsins hvaða hagsmuni Landeigendafélagið Græðir eigi á svæðinu með tilliti til umferðar fisa eða flugvallaraðstöðunnar.

Verði ekki fallist á kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun sé tekið fram að hið umdeilda deiliskipulag eigi sér fullnægjandi stoð í svæðisskipulagi og aðalskipulagi Reykjavíkur. Deiliskipulagið hafi fengið lögboðna málsmeðferð og fullnægt öllum kröfum þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Ljóst sé að um skýrt afmarkað svæði sé að ræða samkvæmt uppdráttum og sé öllum vangaveltum um annað í kæru hafnað.

Enginn landbúnaður hafi verið stundaður innan skipulagsreitsins og jarðalög nr. 81/2004 eigi ekki við um ákvörðunina, sem sé í samræmi við landnotkun svæðisins. Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé umræddur landnotkunarflokkur mjög opinn og heimili m.a. rallýbrautir og skotvelli. Þótt fisflug kunni að falla undir reglugerð um loftferðir og vera háð eftirliti flugmálayfirvalda sé hæpið að skilgreina flugvöllinn sem samgöngumannvirki í aðal- eða svæðisskipulagi. Benda megi á að flugbrautir á Sandskeiði og Tungubökkum í Mosfellsbæ séu einnig á svæðum sem skilgreind séu sem opin svæði til sérstakra nota í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, enda sé þar einkum um einkaflug að ræða en ekki atvinnuflugstarfsemi. Fisflug og svifflug sé ekki flugáætlanaskylt og því sé ekki þörf á frekari takmörkunum á flugi fisa frá starfssvæði Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði umfram það sem komi fram í flugreglum. Hið umdeilda deiliskipulag samræmist svæðisskipulagi þar sem um skipulagða útivistar- og frístundaiðju sé að ræða, sbr. breytingu á Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 sem staðfest var af ráðherra 23. febrúar 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. mars s.á. Breyting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 vegna aðstöðu fyrir Fisfélagið hafi verið staðfest af ráðherra 25. mars 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. apríl s.á. Í hinni samþykktu deiliskipulagstillögu segi ekkert um leigutíma Fisfélagsins en aðalskipulagið heimili tímabundin afnot í 10 ár og séu afnot Fisfélagsins við það miðuð.

Aðkoma frá svæðinu sé einkum frá Suðurlandsvegi um Hafravatnsveg og aðkomu að jarðvegstipp vestan við athafnasvæði Fisfélagsins. Deiliskipulagið fjalli ekki um gerð Reynisvatnsvegar austan Biskupsgötu og gerð bráðabirgðavegar að athafnasvæði Fisfélagsins. Framlenging á Reynivatnsvegi hafi verið lögleg og rétt hafi verið staðið að málsmeðferð varðandi skipulag og umhverfismat vegarins. Framlenging vegarins byggist á gildandi aðalskipulagi og nái inn að Langavatni þar sem bráðabirgðavegur að jarðvegsfyllingunni taki við. Endanleg lega og útfærsla tengibrautar frá Suðurlandsvegi að Reynisvatnsvegi samkvæmt gildandi aðalskipulagi liggi ekki fyrir. Ákvörðun um endanlega legu þeirrar tengibrautar skv. skipulagi sé háð lögum um mat á umhverfisáhrifum áætlana.

Vísað sé til svara skipulagsstjóra við athugasemdum er lotið hafi að áhrifum starfseminnar. Þar hafi komið fram að ónæði af fyrirhugaðri starfsemi ætti að vera takmarkað en fisflugvélar væru útbúnar hljóðkútum og hávaði frá þeim væri mun dempaðri en frá öðrum flugvélum. Jafnframt væru um 4-500 m frá áætluðu athafnasvæði félagsins að næstu sumarhúsum við Langavatn. Flug yfir sumarhúsabyggð yrði takmarkað verulega og óheimilt væri að fljúga yfir hesthúsahverfið. Landrask vegna aðstöðu fisflugsins yrði einnig mjög takmarkað og eingöngu á svæðum sem ekki hefðu verndargildi. Samkvæmt umhverfismati áætlana sem fylgt hafi deiliskipulaginu væru áhrif breytingarinnar í meginatriðum talin óveruleg en einkum gætu áhrif á aðra útivistariðju orðið neikvæð. Ekki sé hægt að taka undir þá fullyrðingu að skipulagið brjóti í bága við reglur um grenndarkynningu eða mat á umhverfisáhrifum áætlana.

Skipulagsskilmálar feli í sér heimildir til tiltekinna framkvæmda en ekki skyldu til að framkvæma. Heimilt byggingarmagn komi fram í skilmálunum og teljist ekki óeðlilegt á nokkurn hátt með hliðsjón af fyrirhugaðri starfsemi. Engin skylda hvíli á skipulagsyfirvöldum til að leggja fram þrívíddarmyndir eða hafa skoðun á flugstefnu fisa, enda sé slíkt deiliskipulaginu óviðkomandi. Ráðist þetta frekar af því hvernig vindar blási og hvert menn vilji fara. Athugasemdir kærenda um að ekki sé getið landnúmera, staðgreinis eða götuheitis valdi ekki ógildingu en slíkt komi yfirleitt ekki til fyrr en við skráningu eigna í fasteignamati. Öðrum málsástæðum, t.a.m. um heilsufarsvandamál, vatnsleysi og að svæðið myndi ekki heildstæða einingu, sé vísað á bug sem órökstuddum, ósönnum og ósönnuðum. Þá sé öllum hugleiðingum kærenda um að skipulagsyfirvöld séu vísvitandi að brjóta lög eða beita valdníðslu mótmælt sem ósönnum og ósönnuðum. Skipulagsyfirvöld hafi þvert á móti lagt sig fram við að skipuleggja svæðið þannig að sem minnst rask verði og með tilliti til ólíkra hagsmuna og sjónarmiða.

Umhverfisskýrslan sé hluti deiliskipulagsins en niðurstaða hennar hafi verið sú að áhrif breytinganna væru í meginatriðum óveruleg. Kærendur eigi heldur engan rétt á því að umhverfi þeirra verði um aldur og ævi óbreytt enda megi ávallt vænta þess að breytingar verði gerðar með deiliskipulagi sem haft geti í för með sér breytingar á högum hagsmunaaðila. Menn verði almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. Jafnframt sé bent á ákvæði 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Vegna kæru á ákvörðun byggingarfulltrúa, um að veita byggingarleyfi fyrir færanlegu stálgrindarhúsi á athafnasvæði Fisfélagsins, fer Reykjavíkurborg fram á frávísun hvað varðar eigendur landspildna nr. 113435 og 113426 og Landeigendafélagið Græði. Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni öllum kröfum allra kærenda í málinu, en hafni kröfu eiganda landspildu 113410 að öðrum kosti. 

Kærendur, að undanskildum einum, eigi enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ef skoðaðar séu afstöðumyndir af lóðum þessara kærenda m.t.t. aðstöðu Fisfélagsins komi í ljós að u.þ.b. 1,05 km séu milli lóðar eins kæranda og flugvallar Fisfélagsins og sé þar landfylling á milli. Spilda annars kæranda sé enn lengra í burtu, eða u.þ.b. 1,2 km. Sé því ljóst að þessir aðilar eigi enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið, þar sem staðsetning umdeildrar byggingar hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni þeirra, hvorki í sjónrænu tilliti né öðru. Ekki verði heldur ráðið af kæru eða öðrum gögnum málsins hvaða hagsmuni Landeigendafélagið Græðir eigi á svæðinu en engar upplýsingar hafi komið fram um það um hvaða hagsmuni þess félags sé að tefla í málinu og hvaða réttarstöðu það hafi á umræddu svæði.

Í gildi sé deiliskipulag sem taki til umráðasvæðis Fisfélags Reykjavíkur. Sé brúttóflatarmál umrædds stálgrindarhúss 608,4 m2, sem sé innan skilmála deiliskipulagsins. Á skipulagssvæðinu sé heimilt að reisa þrjú skýli, 1.600-1.800 m2 hvert, eða samtals 5.400 m2. Ljóst sé því að byggingin samræmist deiliskipulaginu.

                ———————————————                   
Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um deiliskipulag svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur á Hólmsheiði og byggingarleyfi fyrir vélageymslu á athafnasvæði félagsins. Af málatilbúnaði kærenda verður ráðið að þeir telji ónæði af heimilaðri starfsemi á svæðinu fela í sér ólögmæta röskun á hagsmunum þeirra sem eigenda frístundalóða á svæðinu. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru umræddar frístundalóðir í um eða yfir eins kílómetra fjarlægð frá hinu deiliskipulagða svæði, að undanskilinni landspildu nr. 113410, sem liggur að athafnasvæði Fisfélags Reykjavíkur.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Þá segir í þágildandi 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum eigi umhverfisverndar- og hagsmunasamtök sem varnarþing eigi á Íslandi jafnframt sama rétt, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.

Ekki verður séð með hvaða hætti hinar kærðu ákvarðanir snerta lögvarða hagsmuni Landeigendafélagsins Græðis sem lögpersónu en félagið mun vera hagsmunafélag eigenda frístundalóða við Reynisvatn. Ekki liggur fyrir að það eigi bein eða óbein eignarréttindi sem hinar kærðu ákvarðanir gætu snert. Þá getur félagið ekki talist uppfylla kröfur 5. mgr. 52. gr. um samtök sem veitt er kæruaðild vegna ákvarðana um framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Á félagið af þeim sökum ekki kæruaðild að máli þessu og verður öllum kröfum þess því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Lóðir tveggja kærenda af þremur sem kært hafa umdeilt byggingarleyfi, þ.e. lóðir með landnúmer 113426 og 113435, eru í um eða yfir eins kílómetra fjarlægð frá heimiluðu geymsluhúsi og er land milli fasteignanna hæðótt, m.a. vegna landfyllingar. Miðað við aðstæður á svæðinu og þá fjarlægð sem er milli nefndra fasteigna kærenda og umdeildrar byggingar verður ekki séð að byggingin geti raskað grenndarhagsmunum eða öðrum lögvörðum hagsmunum þeirra sem fasteignaeigenda. Verða þeir því ekki taldir eiga kæruaðild varðandi hið kærða byggingarleyfi samkvæmt fyrrgreindri 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga og verður kröfum þeirra að því marki einnig vísað frá úrskurðarnefndinni. Hins vegar verður fallist á að starfsemi sú sem hið umdeilda deiliskipulag heimilar geti snert hagsmuni kærenda sem eigenda frístundalóða á svæðinu með þeim hætti að játa verði þeim kæruaðild vegna samþykktar þess.

Ekki er með hinni kærðu skipulagsákvörðun verið að ráðstafa landi sem nýtt hefur verið til landbúnaðarnota og stóðu ákvæði jarðalaga nr. 81/2004 því ekki í vegi fyrir þeirri ráðstöfun sem í skipulaginu fólst. Er landnotkun umrædds svæðis ákvörðuð í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, þar sem fram kemur að um sé að ræða opið svæði til sérstakra nota, en svæðið er innan hins svonefnda græna trefils, sem ætlaður er til útivistar og skógræktar.

Samkvæmt Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, eins og því var breytt 23. febrúar 2010, er heimilt að reisa byggingar og mannvirki sem tengjast skipulagðri útivistar- og frístundaiðju innan græna trefilsins, sbr. nánari ákvæði aðalskipulags viðkomandi sveitarfélags. Skilgreina skuli slík svæði sem opin svæði til sérstakra nota, sbr. skipulagsreglugerð nr. 400/1998, í aðalskipulagi og tilgreina skuli sérstaklega hverskonar nýting sé fyrirhuguð á svæðinu. Í greinargerð með Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sbr. breytingu sem gerð var á henni 25. mars 2010, er á afmörkuðum svæðum á Hólmsheiði gert ráð fyrir frístundaiðju, sbr. ákvæði um opin svæði til sérstakra nota. Meðal annars er gert ráð fyrir tímabundinni aðstöðu fyrir fisflug, túni til lendingar og annarri aðstöðu á melum sunnan Langavatns. Landnotkunarflokkurinn „opin svæði til sérstakra nota“ var í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998, gr. 4.12, skilgreindur svo: „Opin svæði til sérstakra nota eru svæði með útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar er stunduð, s.s. tjald- og hjólhýsasvæði, skrúðgarðar, kirkjugarðar, leiksvæði, íþróttasvæði, golfvellir, sleða- og skíðasvæði, skautasvæði, siglingaaðstaða, hesthús og reiðvellir, rallýbrautir og skotvellir. Einnig garðlönd og trjáræktarsvæði.“ Af þessu verður sú ályktun dregin að hið kærða deiliskipulag hafi verði í samræmi við gildandi svæðis- og aðalskipulag hvað landnotkun varðar og fari ekki gegn tilvitnuðu ákvæði skipulagsreglugerðar.

Eins og lýst hefur verið var unnin umhverfisskýrsla þar sem lagt var mat á áhrif hins kærða deiliskipulags. Var skýrsla þessi kynnt ásamt uppdrætti og greinargerð deiliskipulagsins haustið 2010 og ekki liggur annað fyrir en að formleg málsmeðferð umrædds deiliskipulags hafi verið lögum samkvæmt að öðru leyti. Þá verður ráðið af framsetningu skipulagsins hvert efnisinnihald þess er en með því var einungis verið að skipuleggja svæði fyrir fisflug með lendingarbrautum og tilteknum byggingum vegna þeirrar starfsemi.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki talin haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði og verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hennar þótt fallast megi á að umrædd starfsemi geti haft í för með sér ónæði vegna flugs fisvélanna.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi á sér stoð í gildu deiliskipulagi. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku, verður hafnað kröfu eiganda landspildu nr. 113410 um ógildingu leyfisins.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum Landeigendafélagsins Græðis í máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kröfu eigenda landspildna nr. 113435 og 113426 á Reynisvatnsheiði, um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2011 um að veita byggingarleyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús sem hýsa eigi vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu eigenda landspildna nr. 113435, 113442, 113410, 113426 og 113422 á Reynisvatnsheiði um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. desember 2010 um að samþykkja deiliskipulag Hólmsheiðar, svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur.

Hafnað er kröfu eiganda landspildu nr. 113410 á Reynisvatnsheiði um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2011 um að veita byggingarleyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús sem hýsa eigi vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________         _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

100/2013 Ingólfsfjall

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 25. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagins Ölfuss frá 26. september 2013 um að staðfesta synjun skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar frá 17. s.m. um framkvæmdaleyfi fyrir borun rannsóknarhola á núverandi vatnstökusvæði Vatnsveitu Árborgar, Árbæ IV, Ölfusi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. október 2013, er barst nefndinni 17. s.m., kærir Sveitarfélagið Árborg þá ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 26. september 2013 að staðfesta synjun skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar frá 17. s.m. um framkvæmdaleyfi fyrir borun rannsóknarhola á núverandi vatnstökusvæði Vatnsveitu Árborgar, Árbæ IV, Ölfusi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 21. nóvember 2013.

Málavextir: Við rætur Ingólfsfjalls, í landi Árbæjar IV, er að finna núverandi vatnstökusvæði kæranda fyrir kalt vatn við Árbæjarlindir. Spildan er í eigu kæranda og staðsett innan Sveitarfélagsins Ölfuss.

Með ódagsettri umsókn til skipulags- og byggingarfulltrúa Ölfuss óskaði kærandi eftir framkvæmdaleyfi til að bora rannsóknarholur á fyrrgreindu vatnstökusvæði í þeim tilgangi að kanna jarðlög og jarðskjálftasprungur. Í umsókn kæranda kom fram að gert væri ráð fyrir tveimur rannsóknarholum, þ.e. VSS-21, hnit 399860.0; 385391.0, og VSS-22, hnit 399973.7; 385406.4. Samkvæmt fylgigögnum umsóknarinnar stóð til að bora 75 mm holur með 45° halla og átti að fóðra holurnar með 50-100 m löngum stálrörum niður að klöpp. Markmið borana var að skera jarðskjálftasprungur í klöpp á 30-50 m dýpi til að hægt yrði að staðsetja lóðrétta vinnsluholu sem nýtti vatn úr jarðskjálftasprungu.

Umsókn kæranda var tekin fyrir á 42. fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar Ölfuss 17. september 2013. Í tilkynningu nefndarinnar til kæranda varðandi afgreiðslu erindisins, dags. 18. s.m., var tekið fram að eldri umsókn kæranda til Orkustofnunar um nýtingarleyfi á grunnvatni við Ingólfsfjall í Ölfusi hafi verið byggð á tillögu ISOR um að bora þar tvær vinnsluholur, sbr. umsókn þess efnis, dags. 28. desember 2010. Eftir að Orkustofnun hafi veitt nýtingarleyfi á grundvelli umsóknarinnar hinn 20. apríl 2011 hafi kærandi farið fram á heimild til að taka eignarnámi land á svæðinu. Hafi aðrir landeigendur og Sveitarfélagið Ölfus lagst gegn eignarnáminu, en eignarnámsbeiðni kæranda sé nú enn til meðferðar hjá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Við afgreiðslu umsóknar kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir borun rannsóknarhola tók nefndin fram að: „… [þ]ær borholur sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir koma til viðbótar við þær borholur sem tilgreindar voru í umsókn Árborgar um nýtingarleyfi hinn 28. desember 2010. Meðan málið er í þessum ferli leggst Sveitarfélagið Ölfus gegn frekari tilraunaborunum á því svæði sem nýtingarleyfið frá 20. apríl 2011 tekur til.“

Á 202. fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss 26. september 2013 var fyrrgreind ákvörðun skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar staðfest, en í bókun þess fundar kom m.a. fram að: „… á meðan málið er í vinnsluferli á milli eigenda Árbæjarlanda og Árborgar um vatnstöku leggist Sveitarfélagið Ölfus gegn frekari tilraunaborunum á því svæði sem nýtingarleyfið frá 20. apríl 2011 tekur til“.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er tekið fram að rétt sé að beiðni um eignarnám á tilteknu landsvæði við rætur Ingólfsfjalls, sem sé í óskiptri sameign margra aðila, sé til meðferðar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Hins vegar þurfi að greina á milli þess máls og kærumáls þessa. Umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir borun rannsóknarhola á sínu eigin landi sé með öllu óskyld eignarnámsbeiðninni. Við málsmeðferð á umsókn kæranda hafi Sveitarfélagið Ölfus blandað málunum saman og byggt ákvörðun sína um synjun framkvæmdaleyfis á stöðu annars máls sem sveitarfélagið sé ekki aðili að og sé þar að auki til meðferðar á öðru sviði stjórnsýslunnar. Sveitarfélaginu hafi verið skylt við meðferð málsins að fara að fyrirmælum í viðeigandi réttarheimildum, svo sem lögmætisreglunni, sem sé undirstöðuregla íslenskrar stjórnskipunar.

Í skipulagslögum nr. 123/2010 og reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, sem sett hafi verið á grundvelli þeirra, sé fjallað um þau atriði sem stjórnvald megi byggja ákvörðun sína á. Óumdeilt sé að umrædd framkvæmd sé framkvæmdaleyfisskyld skv. 5. gr. reglugerðarinnar, að umsókn kæranda hafi verið skrifleg, eins og áskilið sé í 6. gr. og að gögn hafi fylgt umsókninni, sbr. 7. gr. nefndrar reglugerðar. Kærandi hafi sérstaklega beðið Sveitarfélagið Ölfus um að upplýsa hann um það ef einhver gögn vantaði. Í 10. gr. reglugerðarinnar, sem fjalli um meðferð umsókna um framkvæmdaleyfi, komi fram að framkvæmdaleyfi skuli ekki gefa nema framlögð gögn séu fullnægjandi og að allar nauðsynlegar umsagnir um framkvæmdina liggi fyrir. Þar komi einnig fram að rökstyðja skuli höfnun umsóknar og að tilgreina skuli kæruheimild og kærufresti. Engar athugasemdir hafi borist frá sveitarfélaginu um að framlögð gögn væru ekki fullnægjandi. Hvorki hafi verið leiðbeint um kæruheimildir né kærufrest í bréfi frá sveitarfélaginu þar sem tilkynnt hafi verið um höfnun umræddrar umsóknar og að mati kæranda hafi ekki komið fram fullnægjandi rökstuðningur fyrir höfnuninni í skilningi 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rökstuðningur eigi að innihalda tilvísun til þeirra réttarreglna sem ákvörðun sé byggð á, en engin slík tilvísun sé í bréfi sveitarfélagsins frá 18. september 2013. Þá skuli greina frá þeim meginsjónarmiðum sem hafi verið ráðandi hafi ákvörðun byggst á mati. Fallast megi á að í fyrirliggjandi réttarheimildum sé ekki að öllu leyti kveðið á um skilyrði sem þurfi að vera fyrir hendi svo framkvæmdaleyfi verði veitt og sé leyfisveitandanum því eftirlátið mat, en þó hafi stjórnvöld ekki frjálsar hendur um við hvaða sjónarmið þau styðjist við matið. Slík sjónarmið verði að rúmast innan ramma réttarheimilda og grundvallareglna stjórnsýsluréttar, s.s. jafnræðisreglu og meðalhófsreglu, til þess að ákvörðun geti talist málefnaleg. Skoða verði hvaða sjónarmið teljist málefnaleg í þessu sambandi, m.a. með hliðsjón af markmiðum 2. gr. áðurnefndrar reglugerðar, en ekki verði séð að ástæður sveitarfélagsins fyrir hinni kærðu ákvörðun geti talist sjónarmið sem rúmist innan þeirra markmiða, en þau varði allt annað mál sem sé í vinnsluferli innan stjórnsýslunnar.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að afstaða bæjarstjórnar skýrist af gögnum málsins, s.s. umsögn sveitarfélagsins til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis vegna eignarnámsbeiðni Sveitarfélagsins Árborgar og afgreiðslu sveitarfélagsins á umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi. Engar forsendur séu taldar til vatnsöflunarframkvæmda í viðkomandi landi, s.s. með rannsóknarborunum, á meðan ekkert samkomulag sé milli landeigenda á svæðinu.

——–

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun umsóknar kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir borun á tveimur rannsóknarholum í eignarlandi hans við núverandi vatnstökusvæði Vatnsveitu Árborgar. Hafði kærandi nýtingarleyfi á grunnvatni við Ingólfsfjall, sem útgefið var af Orkustofnun hinn 20. apríl 2011, og tók m.a. til þess svæðis þar sem gert var ráð fyrir að nefndar borholur yrðu staðsettar. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Ölfuss er umrætt svæði merkt sem vatnsverndarsvæði.

Afla skal framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en um framkvæmdaleyfi gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Er meðferð umsókna um slík leyfi lýst í 10. gr. hennar. Þar kemur m.a. fram að við höfnun umsóknar beri leyfisveitanda að rökstyðja ákvörðun sína. Þá leiðir af lögmætisreglu íslensks stjórnsýsluréttar að ákvörðun stjórnvalds verður að stefna að lögmætum markmiðum og af meðalhófsreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ekki verður gengið lengra en nauðsynlegt er í því efni.

Synjun á umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi var studd þeim rökum að í kjölfar áðurgreinds nýtingarleyfis hefði kærandi lagt fram eignarnámsbeiðni sem enn biði afgreiðslu ráðuneytisins. Aðrir landeigendur á svæðinu hefðu lagst gegn eignarnáminu og það hefði sveitarfélagið Ölfus og gert. Væri því lagst gegn frekari tilraunaborunum á því svæði sem nýtingarleyfið tæki til.

Fyrrgreind framkvæmdaleyfisumsókn kæranda laut að borun tveggja rannsóknarhola á landi í hans eigu eftir að kærandi fékk útgefið nýtingarleyfi fyrir töku grunnvatns, m.a. á umræddu svæði, til notkunar fyrir Vatnsveitu Árborgar. Eignarrétti að landi fylgir m.a. réttur til nýtingar auðlinda í jörðu, s.s. grunnvatns, í samræmi við. 3. gr. laga nr. 57/1998. Framkvæmdaleyfi fyrir rannsóknarborholum til könnunar grunnvatns felur ekki í sér heimild til nýtingar þeirrar auðlindar heldur þarf til þess sérstakt leyfi Orkustofnunar samkvæmt IV. kafla fyrrgreindra laga. Umrædd framkvæmd hefði því ekki getað raskað hagsmunum hugsanlegra sameigenda að grunnvatnsauðlind svæðisins. Þykir af þeim sökum á skorta að hin kærða ákvörðun sé studd efnisrökum á grundvelli almannahagsmuna eða lagamarkmiða, en ákvörðunin fól í sér hömlur á lögvarin rétt kæranda sem landeiganda.

Með vísan til þess er að framan er rakið verður að telja að rökstuðningi að baki hinni kærðu ákvörðun sé svo áfátt að ógildingu varði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 26. september 2013 um að staðfesta synjun skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar frá 17. s.m. um framkvæmdaleyfi fyrir borun á rannsóknarholum við núverandi vatnstökusvæði Vatnsveitu Árborgar á spildu kæranda í landi Árbæjar IV, Ölfusi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson