Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2014 Starfsleyfi byggingarstjóra

Árið 2016, fimmtudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2014, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 28. mars 2014 um að synja umsókn um starfsleyfi byggingarstjóra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 23. apríl 2014, sem framsent var úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og barst nefndinni 25. s.m., kærir S, þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 28. mars 2014 að synja umsókn hans um starfsleyfi byggingarstjóra. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Mannvirkjastofnun 8. maí 2014 og 16. desember 2015.

Málavextir: Kærandi er menntaður byggingarfræðingur og húsasmíðameistari. Hinn 18. febrúar 2014 sótti kærandi um starfsleyfi byggingarstjóra samkvæmt 28. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Samkvæmt umsókn starfaði kærandi ekki sem byggingarstjóri í gildistíð eldri laga. Með bréfi Mannvirkjastofnunar til kæranda, dags. 27. s.m., var bent á að ekki hefðu fylgt staðfest gögn með umsókn er bæru með sér að kærandi hefði tveggja ára starfsreynslu sem löggiltur húsasmíðameistari eða fimm ára starfsreynslu sem byggingarfræðingur. Virtist því sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði til að fá útgefið starfsleyfi byggingarstjóra á grundvelli 28. gr. laga um mannvirki. Var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum og frekari gögnum áður en ákvörðun yrði tekin og í kjölfar þess bárust stofnuninni frekari gögn. Ákvörðun Mannvirkjastofnunar lá fyrir 28. mars 2014. Var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að ekki yrði séð af gögnum málsins að uppfyllt væru skilyrði um starfsreynslu í 2. og 3. mgr. 28. gr. laga um mannvirki.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi útskrifast sem húsasmíðameistari árið 1970 og lokið prófi í byggingarfræði árið 1976. Hafi hann hlotið löggildingu til að starfa sem húsasmíðameistari í Reykjavík árið 1977 og um allt land árið 2005. Kærandi hafi verið húsasmíðameistari á byggingum í Árbæjarhverfinu í Reykjavík árin 1987 og 1988. Þá hafi hann starfað sem sérfræðingur um öryggismál á byggingarstöðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ekki sé hægt að taka af kæranda áunnin réttindi.

Málsrök Mannvirkjastofnunar: Mannvirkjastofnun tekur fram að gögn er fylgt hafi umsókn kæranda hafi ekki sýnt fram á að uppfyllt væri skilyrði um starfsreynslu í 2. og 3. mgr. 28. gr. mannvirkjalaga. Til að uppfylla þau skilyrði þurfi kærandi að hafa annað hvort tveggja ára starfsreynslu sem húsasmíðameistari, eftir að staðbundin viðurkenning hans hafi verið gefin út, eða fimm ára starfsreynslu sem byggingarfræðingur, eftir að hann hafi lokið því námi.

Niðurstaða: Skilyrði fyrir starfsleyfi byggingarstjóra er að umsækjandi uppfylli viðeigandi hæfniskröfur 2.- 4. mgr. 28. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, hafi sótt sérstakt námskeið sem Mannvirkjastofnun stendur fyrir og hafi gæðastjórnunarkerfi samkvæmt nánari fyrirmælum í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Auk grunnmenntunar og löggildingar skulu byggingarstjórar hafa reynslu af störfum við byggingarframkvæmdir. Er gerð krafa um að húsasmíðameistarar hafi a.m.k. tveggja ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir eða byggingareftirlit, sem viðurkennd sé af Mannvirkjastofnun, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna. Þá kemur fram í 3. mgr. tilvitnaðs ákvæðis að byggingarfræðingar skuli hafa a.m.k. fimm ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir, hönnun bygginga, byggingareftirlit eða verkstjórn við byggingarframkvæmdir.

Synjun Mannvirkjastofnunar á umsókn kæranda um starfsleyfi byggingarstjóra var á því byggð að hvorki yrði af gögnum ráðið að kærandi næði fimm ára starfsreynslu sem byggingarfræðingur né að hann hefði tilskilda starfsreynslu sem húsasmíðameistari, eftir að hafa öðlast staðbundin réttindi í Reykjavík. Eins og rakið hefur verið ritaði Mannvirkjastofnun kæranda bréf eftir að umsókn hans um starfsleyfi byggingarstjóra barst stofnuninni. Var þar tekið fram að með umsókn hefðu ekki fylgt staðfest gögn um starfsreynslu, sem bæru með sér að uppfyllt væru skilyrði 28. gr. laga um mannvirki, og var kæranda gefinn kostur á að skila inn athugasemdum og frekari gögnum. Í hinni kærðu ákvörðun Mannvirkjastofnunar var tilgreind starfsreynsla sem samkvæmt gögnum málsins gæti annars vegar flokkast undir starfssvið húsasmíðameistara og hins vegar undir starfssvið byggingarfræðings. Að teknu tilliti til þess var það mat Mannvirkjastofnunar að kærandi hefði starfað sem húsasmíðameistari í samtals 18 mánuði og sem byggingarfræðingur í samtals 42 mánuði. Þá var tekið fram að kærandi hefði verið skráður húsasmíðameistari að tveimur byggingum í Reykjavík en ekki kæmi fram á hvaða tímabili það hefði verið. Önnur starfsreynsla sem tilgreind væri í gögnum málsins félli ekki undir starfssvið húsasmíðameistara eða byggingarfræðings.

Almennt verður að ætlast til þess af umsækjendum að þeir leggi til þau gögn sem til grundvallar umsókn þeirra liggja. Að sama skapi ber stjórnvaldi að leiðbeina um það hver þau gögn geti verið eða eftir atvikum hvernig hægt sé að nálgast þau, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hvílir sú skylda á stjórnvöldum samkvæmt 10. gr. sömu laga að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Fram hefur komið að Mannvirkjastofnun veitti kæranda frest til að koma að frekari upplýsingum í máli þessu. Af gögnum málsins er hins vegar ljóst að ekki var óskað frekari skýringa á því á hvaða tímabili kærandi var skráður húsasmíðameistari að tveimur byggingum í Reykjavík, en það hafði úrslitaþýðingu við mat á því hvort skilyrði um starfsreynslu í 28. gr. laga um mannvirki væru uppfyllt. Þá liggur ekki fyrir að leitað hafi verið með öðrum hætti upplýsinga um þetta atriði áður en ákvörðunin var tekin, en samkvæmt þeim gögnum sem úrskurðarnefndin hefur aflað munu slíkar upplýsingar liggja fyrir hjá viðkomandi sveitarfélagi. Verður að telja að Mannvirkjastofnun hafi annað hvort borið að afla þeirra upplýsinga eða leiðbeina kæranda um hvernig hann gæti aflað þeirra. Að teknu tilliti til framangreinds þykir á það skorta við töku hinnar kærðu ákvörðunar að gætt hafi verið að leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum. Með hliðsjón af greindum annmörkum á hinni kærðu ákvörðun, sem var íþyngjandi gagnvart kæranda og snerti atvinnuréttindi hans, verður ekki hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 28. mars 2014 um að synja umsókn um starfsleyfi byggingarstjóra.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson