Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2013 Ytri – Skógar

Árið 2015, miðvikudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 10. janúar 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Ytri-Skóga.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar 2013, er barst nefndinni 12. s.m., kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. I og S, Ytri-Skógum 2 og 3, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 10. janúar 2013 að samþykkja deiliskipulag fyrir Ytri-Skóga, Rangárþingi eystra. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Hinn 23. febrúar 2012 var á fundi skipulagsnefndar Rangárþings bs. lögð fram lýsing af skipulagsverkefni fyrir byggingar, aðkomu og samgöngur að Skógum. Tók lýsingin til alls mannvirkjasvæðis Ytri-Skóga, norðan þjóðvegar nr. 1. Var lýsingin samþykkt en settur fyrirvari um samþykki landeigenda. Einnig var mælst til þess að leitað yrði umsagna um lýsinguna og hún kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Lá samþykki landeigenda, þ.e. héraðsnefndar Rangæinga og héraðsnefndar Vestur-Skaftafellssýslu, fyrir 27. og 29. febrúar s.á. Sveitarstjórn Rangárþings eystra tók málið fyrir 8. mars 2012 og staðfesti greinda afgreiðslu. Í kjölfar þess var lýsingin kynnt almenningi og hagsmunaðilum.

Tillaga að deiliskipulagi Ytri-Skóga var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 21. maí 2012. Gerði hún m.a. ráð fyrir nýjum íbúðarhúsum, að upphaf vegslóða inn á Fimmvörðuháls yrði fært austar og að tjaldsvæði yrðu færð. Var tillagan samþykkt og mælst til þess að hún yrði auglýst til kynningar. Haldinn var íbúafundur 24. s.m. þar sem tillagan var kynnt og einnig munu hafa verið haldnir fundir með hagsmunaaðilum og Skipulagsstofnun. Hinn 14. júní 2012 var tillagan lögð fyrir sveitarstjórn sem samþykkti auglýsingu hennar. Í kjölfar þess var tillagan auglýst og gefinn frestur til að koma að athugasemdum til 1. ágúst s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum máls þessa.

Skipulagsnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi 13. september 2012. Kynntar voru tillögur að svörum við fram komnum athugasemdum og tekið undir þær. Lagðar voru til breytingar á tillögunni er lutu að því að tekin yrði út gönguleið um hlað á Ytri-Skógum, gert yrði ráð fyrir bílastæðum fyrir rútur norðan gamla barnaskólans og breytingar gerðar á tveimur frístundalóðum austan við Fjósagil. Sveitarstjórn tók málið fyrir sama dag og vísaði afgreiðslu þess til frekari umfjöllunar í skipulagsnefnd og til síðari umræðu í sveitarstjórn. Tillagan var til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar Rangárþings eystra 30. október 2012 og var fært til bókar að hún væri samþykkt með nokkrum minni háttar breytingum. Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 8. nóvember s.á. og eftirfarandi bókað: „Lögð er fram greinargerð skipulags- og byggingarnefndar þar sem er yfirlit yfir athugasemdir sem gerðar voru við tillögu að deiliskipulagi fyrir Ytri-Skóga og svör við þeim. Sveitarstjórn samþykkir greinargerðina og að allir sem gerðu athugasemdir fái senda greinargerðina í heild. Sveitarstjórn samþykkir tillögu að deiliskipulagi fyrir Ytri-Skóga dags. 25. september 2012 með áorðnum breytingum.“

Í kjölfar þessa var Skipulagsstofnun sent deiliskipulagið til lögboðinnar athugunar. Með bréfi, dags. 6. desember 2012, gerði stofnunin athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins og tiltók ýmis atriði sem hún taldi að leiðrétta þyrfti eða þörfnuðust nánari skýringa. Var málið lagt fyrir að nýju hjá skipulags- og byggingarnefnd 20. desember s.á. Samþykkt var að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar og var bókað að gerðar hefðu verið minni háttar breytingar á skipulagsgögnum til samræmis. Var skipulagsfulltrúa falið að svara öðrum athugasemdum Skipulagsstofnunar og tillagan, með áorðnum breytingum, dags. 20. desember 2012, samþykkt. Tók sveitarstjórn málið fyrir að nýju 10. janúar 2013 og samþykkti þá afgreiðslu. Hún var síðan send Skipulagsstofnun sem gerði nú ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 6. febrúar 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir séu ábúendur jarðarinnar Ytri-Skóga. Hafi þeir stundað búskap á jörðinni í áraraðir og sinnt ferðaþjónustu á svæðinu. Muni deiliskipulagið hafa talsverðar breytingar í för með sér varðandi skipulag svæðisins og mikil áhrif fyrir kærendur. Sé það haldið verulegum form- og efnislegum annmörkum.

Deiliskipulagstillagan hafi ekki verið kynnt með formlega réttum hætti. Auglýst tillaga hafi tekið miklum breytingum frá kynntri tillögu og hafi hún þar af leiðandi ekki fengið þá meðferð sem kveðið sé á um í 40. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillögunni hafi enn verið breytt eftir að fresti til athugasemda hafi verið lokið, t.d. varðandi framtíðarbyggingarsvæði við Fosstún. Ákveðin festa sé nauðsynleg þegar komi að kynningu á deiliskipulagi. Sæti tillaga sífelldum breytingum, meðan á kynningu hennar standi, eigi þeir sem hagsmuna eigi að gæta þess ekki kost að gera athugasemdir, enda erfitt að sjá hvað verið sé að leggja til. Að auki hafi Skipulagsstofnun gert verulegar athugasemdir við tillöguna. Hafi henni verið breytt í kjölfar þess og samþykkt þannig en ekki virðist hafa verið farið að nefndum athugasemdum að öllu leyti. Einnig sé enn misræmi á milli deiliskipulagsuppdráttar og greinargerðar. Auki þetta enn á óvissuna um hvað verið sé að leggja til og skerði möguleika á að gera athugasemdir. Þá fullnægi rökstuðningur sveitarstjórnar í svörum við fram komnum athugasemdum ekki skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verulegar athugasemdir séu gerðar við vegslóða þann er nú liggi upp með heimreið og gegnum hlöð kærenda. Geri deiliskipulagið ráð fyrir að vegstæði hans verði fært til austurs og að vegurinn muni sameinast núverandi vegslóða nokkru ofar. Muni vegstæðið verða í gróinni brekku og beitilöndum kærenda með tilheyrandi röskun á hagsmunum þeirra og starfsaðstöðu. Standist ákvörðun þessi ekki lög. Ekki sé gert ráð fyrir neins konar vegaframkvæmdum upp á Fimmvörðuháls í Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2003-2015, hvorki fjallvegum, vegslóðum né öðrum vegum. Breyti hér engu þótt einungis sé verið að færa hluta vegslóðans en ekki hann allan. Jafnframt sé skírskotað til ákvæða 5. gr. og 1. mgr. 7. gr. jarðalaga nr. 81/2004, en þar komi m.a. fram að ef fyrirhugað sé í skipulagi að breyta landnotkun svæða sem nýtt hafi verið til landbúnaðar, skuli leyfi ráðherra til að leysa landið úr landbúnaðarafnotum liggja fyrir áður en viðkomandi skipulagsáætlun hljóti endanlega afgreiðslu. Slíks samþykkis hafi ekki verið aflað. Þá verði legu vegslóðans ekki breytt nema í samræmi við ákvæði byggingarbréfs og þau ákvæði ábúðalaga sem um það gildi. Samkvæmt byggingarbréfi sé landeigendum einungis heimilt að taka land undan ábúð ef það skerði ekki aðstöðu til búrekstrar að mati héraðsráðunauts. Umræddar breytingar muni gera það, samkvæmt greinargerð héraðsráðunauts og hafa veruleg áhrif á aðgang með sauðfé að afréttarlöndum á heiðinni fyrir ofan svæðið. Hafi kærendur aðeins yfir að ráða um 40-50 ha af ræktuðu landi.

Nefndur vegslóði flokkist undir einkaveg í skilningi 11. gr. laga nr. 80/2007. Af því leiði að hann lúti forræði kærenda sem lífstíðarábúenda jarðarinnar. Bresti sveitarfélaginu heimildir til að gera í deiliskipulagi ráð fyrir vegslóða í andstöðu við þá sem hafi forræði á því landi sem vegslóðinn eigi að liggja um. Loks liggi ekkert kostnaðarmat eða kostnaðaráætlun til grundvallar því að umrædd leið sé ódýrasti kosturinn af þeim leiðum sem skoðaðar hafi verið og sú sem minnstu raski valdi. Byggi ákvörðun sveitarstjórnar á getgátum og þar með ómálefnalegum sjónarmiðum. Hafi sveitarstjórn vanrækt rannsóknarskyldu sína, sbr. hér 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gangi skipulagning slóðans jafnframt að öðru leyti gegn öllum meðalhófssjónarmiðum, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur hafi lagt til aðra staðsetningu fyrir vegslóðann. Muni sú leið í engu raska Völvuleiði eða rústum beitarhúsa, svo sem ýjað sé að í svörum sveitarstjórnar. Geti sveitarstjórn því ekki lagt fram slík sjónarmið til grundvallar staðsetningu vegslóðans.

Raðhúsabyggð, sem gert sé ráð fyrir nokkru vestan við skólabygginguna, sé óþörf og verulega illa staðsett, en nefndum vegslóða yrði þar best fyrir komið. Mætti finna raðhúsabyggðinni annan stað og beri að fella ákvörðunina úr gildi hvað þetta varði að teknu tilliti til meðalhófssjónarmiða. Deiliskipulagið sé einnig í trássi við gildandi aðalskipulag, svo sem um framtíðarbyggingarsvæði að Fosstúni og skógrækt sunnan Kvernu. Þá verði enn frekar gengið á ræktað land kærenda verði byggingum komið fyrir norðan við Fosstún.

Gert sé ráð fyrir bílastæðum fyrir rútur norðan við gamla barnaskólann, þ.e. inn á ræktuðu landi og túni kærenda. Ekki verði annað ráðið en að bílastæðin séu að miklu leyti inn á friðlýstu svæði með Skógaá en í engu sé að því vikið í greinargerð deiliskipulagsins hvort gætt hafi verið ákvæða laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Þá virðist þau liggja út fyrir skipulagt svæði samkvæmt aðalskipulagi. Gangi fyrirhuguð staðsetning þeirra gegn áðurnefndu byggingarbréfi og ákvæðum ábúðar- og jarðalaga. Jafnframt sé gerð athugasemd við framtíðaraðkomuleið að bílastæði við Skógafoss.

Hagsmunir annarra aðila á svæðinu hafi verið settir í forgang á kostnað kærenda. Gangi deiliskipulagið gegn öllum jafnræðissjónarmiðum, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga sbr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Sömuleiðis gangi það gegn venjuhelguðum grenndar- og nábýlisreglum íslensk réttar og að öðru leyti gegn friðhelgu einka- og fjölskyldulífi kærenda.

Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið mótmælir því að ákvæðum skipulagslaga hafi ekki verið fylgt við meðferð málsins. Kynningar á lýsingu skipulagstillagna og tillagna að skipulagi séu hugsaðar sem samráðsvettvangur við íbúa og hagsmunaðila til að fá fram þeirra sjónarmið áður en tillaga að skipulagi sé auglýst. Eðlilegt sé að tillaga taki breytingum í þessu samráðsferli. Geri skipulagslögin ekki ráð fyrir að nefndar kynningar séu endurteknar þótt gerðar séu breytingar á tillögu áður en hún sé auglýst formlega til kynningar. Ekki hafi verið um grundvallarbreytingar að ræða. Engar verulegar breytingar hafi verið gerðar á tillögunni eftir auglýsingu hennar. Þá hafi ekki verið gerðar neinar breytingar sem gengið hafi á hagsmuni kærenda, þvert á móti. Því sé andmælt að Skipulagsstofnun hafi gert verulegar athugasemdir við tillöguna að lokinni auglýsingu. Ekki sé ljóst hvaða misræmi eigi að vera milli greinargerðar og uppdráttar deiliskipulagsins.

Vegslóði á Fimmvörðuháls sé ekki í andstöðu við aðalskipulag. Með færslu upphafs slóðans sé ekki verið að gera nýjan veg/vegslóða. Gerð sé lítil háttar breyting á upphafi slóðans sem verði til þess að uppakstursleiðin færist úr bæjarhlaðinu á Ytri-Skógum og valdi ábúendum minna ónæði en nú sé. Vegslóðinn sé einungis sýndur til skýringar í gildandi aðalskipulagi og kalli tilfærsla hans ekki á breytingu á aðalskipulagi. Kærendur líti svo á að umræddur slóði sé einkavegur en ekki sé gert ráð fyrir að slíkir vegir séu sýndir í aðalskipulagi.

Deiliskipulagið geri hvorki ráð fyrir að taka land úr landbúnaðarnotum né undan ábúð. Lítið meira land, ef nokkuð, fari undir nýja hluta slóðans en farið hafi undir þann eldri. Ekki komi fram í greinargerð héraðsráðunauts að stæðið fyrir slóðann sem slíkan muni skerða land til landbúnaðarnota. Sveitarfélagið og landeigendur hafi alla tíð lagt áherslu á að bæta ábúendum land sem tapist vegna framkvæmdanna, m.a. verði eldri hluti vegslóðans græddur. Ekki sé gert ráð fyrir að vegurinn verði opinn almenningi. Beitarland tapist því ekki vegna hans. Heimilt sé að girða slóðann til að hægt sé að nýta landið til búrekstrar. Fallið hafi verið frá gerð bílastæða neðan við hann til að koma til móts við sjónarmið kærenda. Leiði það ekki til ógildingar á deiliskipulagi þótt rétthafar eða landeigendur kunni að eiga rétt á bótum eða ef í ljós komi að slóðinn verði ekki færður nema með samkomulagi við ábúendur.

Sveitarfélög fari með skipulagsvald á öllu landi innan staðarmarka viðkomandi sveitarfélags og skipti eignarhald lands og mannvirkja ekki máli. Sveitarfélagið hafi því heimild að lögum til að vinna skipulag að svæðinu og ákveða hvar upphaf umrædds slóðar skuli liggja til framtíðar. Nefndur slóði sé nauðsynleg aðkoma upp á afréttinn/fjalllendið fyrir ofan Skóga, m.a. vegna öryggis þeirra sem fari um svæðið. Lega slóðans varði einnig aðra hagsmunaaðila sem á svæðinu séu og almenning. Hafi framtíðarlega slóðans áhrif á skipulagið í heild. Heimilt sé að kveða á um legu einkavega í deiliskipulagi.

Því sé mótmælt að sveitarfélagið hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína við mat á því hvaða leiðir væru heppilegar. Farið hafi verið nokkuð ítarlega yfir mögulegar leiðir, áhrif þeirra og kostnað. Aðrar leiðir séu mun lengri og valdi miklu meira raski á náttúru svæðisins. Leið sú sem valin hafi verið sé ódýrust samkvæmt grófu kostnaðarmati. Ekki hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu við ákvörðunina og búi lögmæt og málefnaleg sjónarmið að baki henni.

Mikilvægt sé talið að styrkja Skógasvæðið með framboði á nýjum íbúðarlóðum og taki staðsetning raðhúsabyggðarinnar m.a. mið af því að nýta núverandi vegi, veitukerfi og styrkja byggðarmynstur svæðisins. Þá sé framtíðar íbúðarbyggð við Kvernu, skógrækt og framtíðar aðkomuleið að bílastæðum við Skógafoss til skýringa og þurfi því ekki að breyta aðalskipulagi. Bílastæði norðan við gamla barnaskólann séu staðsett á eðlilegum stað miðað við nýtingu hans og annarra mannvirkja á svæðinu sem tengist ferðaþjónustu. Séu stæðin utan friðlýsts svæðis. Staðsetning bílastæða á landbúnaðarlandi kalli ekki á breytingu á aðalskipulagi. Að mati sveitarstjórnar sé um óverulega skerðingu á ræktunarlandi að ræða.

Ákvarðanir deiliskipulagsins séu vel skýrðar í greinargerð þess. Athugasemdum sé svarað ítarlega í greinargerð sveitarstjórnar með svörum til þeirra er sendu inn athugasemdir. Sérstaklega sé andmælt fullyrðingum um útúrsnúninga eða að ekki hafi verið færð efnisleg rök fyrir deiliskipulaginu. Því sé mótmælt að hagsmunir kærenda hafi verið látnir mæta afgangi, en m.a. hafi verið fallið frá gönguleið um hlaðið hjá þeim. Hafi ekki verið gengið á hagsmuni kærenda, nema að óverulegu leyti, þó ekki hafi verið gengið svo langt að láta skipulagsvald á svæðinu í þeirra hendur. Óútskýrðum fullyrðingum um brot á jafnræðissjónarmiðum eða grenndar og nábýlisréttareglum sé mótmælt.

                        ——

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags Ytri-Skóga. Telja kærendur m.a. að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn ákvæðum 40. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum kemur fram að þar sé að finna ýmis nýmæli og breytingar frá gildandi skipulags- og byggingarlögum. Skýrari fyrirmæli séu lögð til um samráð og kynningu við gerð skipulagsáætlana og þannig sé lögð áhersla á að auka aðkomu almennings við gerð skipulags og að samráðsaðilar komi að skipulagsferlinu eins snemma og unnt sé. Með því sé ætlunin að vanda gerð skipulags og tryggja að hagsmunaaðilar hafi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarfélögin þannig að þau geti tekið upplýsta ákvörðun við afgreiðslu skipulagsáætlunar.

Meðal nýmæla laganna er ákvæði 40. gr. sem kveður á um að þegar vinna við gerð deiliskipulagstillögu hefjist skuli sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu. Skuli leita umsagnar Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila um lýsinguna og kynna hana fyrir almenningi. Samkvæmt athugasemdum í frumvarpi til skipulagslaga byggist nefnt ákvæði á þeirri meginreglu að því fyrr sem athugasemdir komi við gerð deiliskipulags því betra. Jafnframt lýsingu skal kynna tillögu að deiliskipulagi, forsendur hennar og umhverfismat fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt, áður en hún er tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn.

Í máli því sem hér er til úrlausnar sætti tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis breytingum eftir kynningu hennar. Var skipulagstillagan síðan auglýst til kynningar svo breytt og veittur frestur til að koma að athugasemdum. Eðlilegt verður að telja að tillaga geti tekið breytingum sökum athugasemda og ábendinga er fram koma við kynningu á byrjunarstigi, ella þjónaði kynningin vart tilgangi sínum. Gera skipulagslög ekki kröfu um að þegar svo hátti til þurfi að kynna tillögu að nýju áður en sveitarstjórn samþykkir að auglýsa tillöguna til kynningar. Ákveði sveitarstjórn hins vegar að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skal hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik skv. 1. mgr., sbr. 4. mgr. 41.gr. laganna.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að allnokkrar breytingar hafi verið gerðar á tillögunni eftir auglýsingu hennar. Þannig var í samþykktri greinargerð, dags. 20. desember 2012, gert ráð fyrir byggingarheimildum fyrir hreinlætisaðstöðu og þjónustuhús á tjaldsvæði, en svo var ekki í greinargerð með auglýstri tillögu, dags. 13. júní s.á. Jafnframt var í samþykktri greinargerð heimild fyrir stækkun eða endurbyggingu þriggja frístundahúsa á skipulagssvæðinu en heimild til slíks var ekki í auglýstri tillögu. Fleiri breytingar voru samþykktar á tillögunni eftir auglýsingu hennar, m.a. vegna athugasemda Skipulagsstofnunar þar um.

Hvað varðar síðar til komna tilgreiningu á byggingarheimildum á tjaldsvæði skal á það bent að á uppdrætti hinnar auglýstu tillögu voru þar sýnd hús og verður að telja eðlilegt að gera ráð fyrir þjónustuhúsum á tjaldsvæðinu. Þá virðist með heimilaðri stækkun þriggja frístundahúsa sem verið sé að samræma stærð þeirra, en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru tvö þeirra þegar að þeirri stærð sem heimild er nú veitt fyrir, en hið þriðja nokkuð minna. Á uppdrætti auglýstrar tillögu var jafnframt sýnt framtíðar byggingarsvæði við Kvernu sem og framtíðar aðkoma að bílastæðum við Skógafoss, án nánari skýringa í greinargerð tillögunnar og var kynningu hennar að þessu leyti áfátt. Á samþykktum uppdrætti eru nefnd byggingarsvæði ekki sýnd, en þau eru hins vegar sýnd á skýringarmynd í greinargerð og þess getið að þar sem ekki sé gert ráð fyrir þessum byggingarsvæðum í aðalskipulagi sé einungis verið að sýna hvaða möguleikar séu til framtíðar. Þá er ekki sýnd framtíðar aðkoma að bílastæðum við Skógafoss á hinum samþykkta uppdrætti, enda tekið fram í greinargerð skipulagsins að sú aðkoma samræmist ekki aðalskipulagi. Svo sem að framan er rakið voru gerðar allnokkrar breytingar á deiliskipulagstillögunni eftir að hún var auglýst þar til hún var samþykkt og ber málsmeðferðin með sér að betur hefði mátt standa að gerð tillögunnar. Á það ber hins vegar að líta að breytingarnar voru til komnar vegna athugasemda Skipulagsstofnunar sem og athugasemda sem bárust á kynningartíma. Eins og fram hefur komið er beinlínis gert ráð fyrir því í skipulagslögum að breytingar geti átt sér stað að gefnu tilefni. Sá varnagli er jafnframt sleginn að sé auglýstri tillögu breytt í grundvallaratriðum skuli hún auglýst að nýju. Að mati úrskurðarnefndarinnar var hvorki eðli breytinganna né umfang slíkt að þær gætu talist grundvallarbreytingar í skilningi 4. mgr. 41. gr. laganna og þurfti því ekki að auglýsa tillöguna að nýju. Þá verður ekki heldur ráðið að aðrir þeir annmarkar hafi verið á meðferð málsins að ógildingu varði.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar og annast hún og ber ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Við beitingu þess ber m.a. að fylgja markmiðssetningu nefndra laga sem tíunduð er í 1. gr. þeirra. Þar er t.a.m. kveðið á um að stuðla skuli að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða. Jafnframt að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Við töku skipulagsákvarðana eru sveitarstjórnir ennfremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvarðanatöku sé stefnt að lögmætum markmiðum. Jafnframt gerir meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá kröfu til stjórnvalda að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt sé til þess að ná settum markmiðum er búi að baki stjórnvaldsákvörðun. Einnig verður að hafa í huga það sjónarmið að almenningur eigi að geta vænst þess að ekki sé ráðist í breytingar í mótaðri eða skipulagðri byggð nema að nauðsyn beri til þess, enda geta slíkar breytingar raskað stöðu fasteignareigenda á svæðinu og haft margvísleg grenndaráhrif. Verða sveitarstjórnir að virða greind lagaákvæði og sjónarmið við töku skipulagsákvarðana. Þá skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga og er stefna aðalskipulags bindandi við gerð deiliskipulags, sbr. 32. gr. þeirra laga.

Kærendur telja staðsetningu vegslóða, er færa á austar við heimreið þeirra, ekki í samræmi við ákvæði þágildandi Aðalskipulags Rangárþings eystra 2003-2015. Í nefndu aðalskipulagi segir svo: „Ekki er gert ráð fyrir nýjum vegslóðum í Þórsmörk, á Fimmvörðuhálsi og að Fjallabaki.“ Í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi kemur fram í kafla 1.1 að í því sé mörkuð stefna fyrir nýjan veg á Fimmvörðuháls. Nánari umfjöllun um veginn má finna í kafla 3.8.4 þar sem þess er getið að einn fjallvegur sé innan svæðisins, leiðin upp á Fimmvörðuháls. Um veginn er svo enn fjallað í kafla 4, um áhrif deiliskipulagsins á umhverfið, og er þar gerð grein fyrir mismunandi möguleikum á legu upphafs hans. Á skýringarmynd í greinargerð, er sýnir bújarðir og veg á Fimmvörðuháls, er vegurinn merktur sem nýr vegur, en svo er hins vegar ekki á aðaluppdrætti deiliskipulagsins. Að fyrirliggjandi gögnum virtum verður ekki talið að hin umdeilda staðsetning téðs vegslóða feli í áætlun um nýjan vegslóða á Fimmvörðuhálsi. Um er að ræða vegstúf sem mun vera um 100 m langur og liggur hann sem slíkur ekki á Fimmvörðuhálsi. Þá segir svo í 2. mgr. gr. 4.16.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að í aðalskipulagi skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum samgöngumannvirkjum, s.s. þjóðvegum og höfnum, svo og helstu umferðaræðum, stofnbrautum og tengibrautum. Fer hin kærða skipulagsákvörðun að þessu leyti því ekki í bága við þágildandi aðalskipulag.

Kærendur átelja jafnframt staðsetningu hins umþrætta vegslóða þar sem landbúnaðarland þeirra hafi ekki verið tekið úr landbúnaðarnotum svo sem áskilið sé í jarðalögum nr. 81/2004. Þá telja kærendur að ákvörðun sveitarstjórnar byggi á ómálefnalegum sjónarmiðum og að hvorki hafi verið gætt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga né athugasemdum kærenda svarað með rökstuddum hætti og brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu laganna.

Eins og rakið hefur verið komu kærendur á framfæri athugasemdum við téðan vegslóða á kynningartíma tillögunnar. Gerðu þeir tillögu um að nýju vegstæði yrði fundinn staður upp af aðalheimreið Skógasvæðisins, upp fyrir heitavatnsholuna og inn með gilinu og þaðan beint inn á fyrirliggjandi vegslóða. Í svörum sveitarfélagsins við fram komnum athugasemdum er gerð grein fyrir því hvers vegna valin hafi verið sú staðsetning sem gert er ráð fyrir í nefndu deiliskipulagi. Jafnframt var tekið fram að sú leið er lögð hefði verið til af hálfu kærenda væri óhentug m.a. vegna umferðar, rasks og kostnaðar. Þá var við skipulagsgerðina horft til mismunandi leiða við staðsetningu hins umdeilda vegslóða og gerður samanburður á þeim kostum sem til greina þóttu koma. Fallast má á með kærendum að tilfærsla umrædds hluta vegslóðans í gegnum ræktarland þeirra sé til þess fallin að raska hagsmunum þeirra komi til framkvæmdar deiliskipulagsins að þessu leyti. Er raunar vikið að því í kafla 4. í greinargerð þess þar sem samanburður er gerður á milli mismunandi leiða og tekið fram að sú leið er valin var þveri bithaga í Kvennabrekku, en land sem þar skerðist sé hægt að bæta. Því verður ekki annað séð en að skipulagsyfirvöld hafi við beitingu skipulagsvalds síns skoðað mismunandi staðsetningu fyrir vegslóðann, lagt mat á þá hagsmuni sem í húfi væru og valið þá leið er talin væri fela í sér minni röskun. Rétt er að árétta að skipulagslög gera ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttindum, en aðilar geta þá eftir atvikum leitað bótaréttar úr hendi sveitarfélagsins í samræmi við 51. gr. skipulagslaga sé sýnt fram á að gildistaka skipulags valdi tjóni, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Loks verður ekki talið að umrædd tilfærsla vegslóðans feli í sér að verið sé að skipuleggja landsvæðið fyrir aðra starfsemi en landbúnað og var því ekki nauðsyn á að leita samþykkis ráðherra samkvæmt jarðalögum. Af þeim sökum kemur byggingarsamningur sá er kærandi vísar til því ekki til álita við úrlausn málsins.

Samkvæmt öllu framangreindu verður gildi hins kærða deiliskipulags ekki raskað er varðar umdeildan vegslóða, enda verður eins og áður greinir hvorki séð að á því séu form- eða efnisannmarkar er það varðar. Þá var málsmeðferð hins kærða deiliskipulags að lögum, svo sem áður greinir.

Hins vegar er ákveðið ósamræmi á milli þágildandi aðalskipulags og hins umdeilda deiliskipulags hvað varðar landnotkun innan skipulagsreitsins og þar með í andstöðu við 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga sem kveður á um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Þannig eru tvö frístundahús, auðkennd F3 og F4 í hinu umdeilda deiliskipulagi, staðsett á svæði sem samkvæmt uppdrætti þágildandi aðalskipulags er skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota. Samkvæmt þágildandi skipulagsreglugerð eru það svæði með útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar er stunduð, s.s. trjárækt. Í greinargerð aðalskipulagsins er m.a. sagt um Skóga að þar séu tveir eldri sumarbústaðir. Jafnframt segir að ekki sé gert ráð fyrir aukningu frístundabyggðar í Skógum. Þá kemur fram í aðalskipulaginu að svæði með þremur frístundahúsum eða færri séu ekki sýnd á skipulagsuppdrætti. Í gr. 4.11.1 í þágildandi skipulagsreglugerð segir m.a. um frístundabyggð að á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum svæðum fyrir frístundabyggð utan þéttbýlisstaða. Í hinu umdeilda deiliskipulagi er sagt um frístundabyggð að frá gamalli tíð séu alls fjögur frístundahús innan skipulagssvæðisins og veitir deiliskipulagið heimild til að endurbyggja/stækka húsin þannig að þau verði allt að 70 m² að stærð. Svo sem áður segir eru húsin F3 og F4 staðsett á opnu svæði til sérstakra nota, án þess að vera auðkennd frekar sem frístundahús á uppdrætti þágildandi aðalskipulags. Úr því hefur verið bætt í núgildandi aðalskipulagi og eru húsin nú merkt með hringtáknum sem stök frístundahús. Það verður þó ekki hjá því komist að fella deiliskipulagið úr gildi hvað varðar heimildir til stækkunar þeirra, enda var á þeim tíma ekki fært að heimila frekari uppbyggingu frístundahúsanna í andstöðu við landnotkun samkvæmt þágildandi aðalskipulagi, sbr. og þágildandi skipulagsreglugerð.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að þeir annmarkar séu á hinu kærða deiliskipulagi að varði ógildingu þess í heild sinni. Eins og áður er rakið gætti þó þess misræmis á milli þágildandi aðalskipulags og hins kærða deiliskipulags að ógildingu varði, en með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þykir þó rétt að ógilda hina kærðu deiliskipulagsákvörðun einungis að því marki sem fór í bága við gildandi aðalskipulag.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður aðeins fallist á kröfu kæranda um ógildingu með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 10. janúar 2013 að samþykkja deiliskipulag fyrir Ytri-Skóga hvað varðar frístundahús auðkennd F3 og F4. Að öðru leyti stendur deiliskipulagið óhaggað.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Hildigunnur Haraldsdóttir                                   Þorsteinn Þorsteinsson