Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2015 Grettisgata

Árið 2015, fimmtudaginn 10. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss að Grettisgötu 41 í Reykjavík og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. september 2015, er barst nefndinni 25. s.m., kæra 23 eigendur og íbúar að Grettisgötu 26, 28b, 29, 35, 35b, 36, 37, 39, 39b, 42, 43a og 45, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss að Grettisgötu 41 í Reykjavík og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu.

Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og er jafnframt gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Málavextir: Með byggingarleyfisumsókn, dags. 28. apríl 2015, sótti eigandi Grettisgötu 41 um leyfi til að hækka hús á lóðinni um 1,5 m, færa framhlið og gafl þess sem næst til upprunalegs horfs og reisa tveggja hæða staðsteypta viðbyggingu. Var umsóknin tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. maí s.á. en afgreiðslu frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Málið var enn á dagskrá fundar byggingarfulltrúa 26. s.m. en afgreiðslu þess var á ný frestað, með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og umsagnar Minjastofnunar Íslands, dags. 20. s.m. Erindið var síðan samþykkt á fundi byggingarfulltrúa 9. júní 2015 og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 11. s.m. Var byggingarleyfi síðan gefið út hinn 22. september 2015.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að hönnun á útliti heimilaðrar viðbyggingar sé í hróplegu ósamræmi við bárujárnsklædda timburhúsið sem fyrir sé að Grettisgötu 41, en það sé friðað samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Það hús tilheyri timburhúsareit sem njóti hverfisverndar í deiliskipulagi, en um sé að ræða heilstæðustu og upprunalegustu timburhúsabyggð sem varðveitt sé í Reykjavík frá upphafi 20. aldar. Þótt mörg hús við Grettisgötu hafi tekið breytingum frá upphaflegri gerð hafi flestir íbúar á svæðinu lagt sig fram við að viðhalda upphaflegu svipmóti byggðarinnar jafnframt því að stuðla að fegrun umhverfisins og verndun menningararfsins. Það sé áhyggjuefni að svo róttæk útlitsbreyting sem hér um ræði fái brautargengi athugasemdalaust og skapi fordæmi fyrir endurgerð annarra eldri húsa á reitnum. Íbúum hafi ekki verið kynnt tillaga að stækkun umrædds húss, þar sem í gildi sé deiliskipulag fyrir svæðið, og áttu af þeim sökum ekki kost á að gera athugasemdir eða kæra tillöguna fyrr en raun beri vitni.

Þá fari hið kærða byggingarleyfi í bága við gildandi deiliskipulag. Ekki verði annað ráðið en að skipulag geri ráð fyrir dýpkun byggingarreits á umræddri lóð um 6 m, en samkvæmt samþykktum byggingarnefndarteikningum sé búið að samþykkja 6,34 m dýpkun. Þá sé farið upp fyrir hámarks nýtingarhlutfall, sem sé 0,65, en samþykktir hafi verið 214,9 m2 brúttó á lóðinni, sem gefi nýtingarhlutfallið 0,74. Samkvæmt deiliskipulagi megi reisa á lóðinni viðbyggingu með kjallara, hæð og ris, en samþykktar teikningar sýni hins vegar þrjár hæðir. Kjallarinn verði jarðhæð vegna landhalla og efsta hæðin geti engan veginn talist undir súð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld gera kröfu um frávísun kærumálsins þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra skal. Kæra í máli þessu hafi borist hinn 25. september 2015, eða rúmlega þremur mánuðum eftir að kærufrestur hafi byrjað að líða. Kærendum hafi mátt vera ljós ákvörðun borgarráðs strax hinn 11. júní 2015 enda séu fundargerðir þess birtar opinberlega í samræmi við lög og venjur.

Andmæli byggingarleyfishafa: Farið er fram á að kærumáli þessu verði vísað frá, þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti, en ella að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað.

Í kjölfar hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúa hafi hún verið birt opinberlega á heimasíðu borgarinnar og hafi þá öllum mátt vera ljóst hvað til stæði. Kæra í máli þessu hafi borist 11 vikum eftir samþykkt og birtingu ákvörðunarinnar, eða eftir að lögmæltur eins mánaðar kærufrestur eftir opinbera birtingu ákvörðunar var liðinn. Þá hafi einn kærenda átt í samskiptum við byggingarleyfishafa allt frá því að flutt hafi verið inn í umrætt hús í byrjun árs 2015. Hafi honum verið kunnugt um áform eigenda um endurbyggingu hússins og viðbyggingu. Megi ætla að aðrir kærendur hafi vitað um áætlaða viðbyggingu löngu áður en kærufrestur hafi runnið út.

Hvað varði efnishlið málsins sé tekið fram að í nágrenni Grettisgötu 41 sé fyrst og fremst blönduð byggð. Af 32 húsum, sem standi við Grettisgötu milli Vitastígs og Frakkastígs, séu 11 steinsteypt eða múrhúðuð, þ. á m. fimm í næsta nágrenni við hús byggingarleyfishafa, og búi fimm kærenda í þeim húsum. Heimiluð viðbygging falli því vel að byggðamynstri næsta nágrennis. Við hönnun umdeildrar viðbyggingar hafi verið haft náið samráð við Minjastofnun og m.a. tekið tillit þess sjónarmiðs að skýr skil yrðu á milli hins friðaða húss og fyrirhugaðrar viðbyggingar. Viðbyggingin verði því ekki í beinu framhaldi af vestur- og austurvegg hússins heldur inndregin. Þá hafi sú ákvörðun verið tekin við hönnun viðbyggingarinnar að hafa hana úr steinsteypu til þess að skerpa skil milli þess gamla og þess nýja. Götuhlið hússins að Grettisgötu 41 raski ekki götumynd svæðisins. Form gamla hússins haldi sér og gluggar séu endurgerðir með hliðsjón af upphaflegri gerð. Þá sé heimiluð viðbygging lítt sjáanleg frá götu vegna staðsetningar og hönnunar.

Í gildandi deiliskipulagi sé byggingarreitur undir núverandi hús teiknaður 6,13 m á lengd frá suðri til norðurs og þar sé heimiluð dýpkun byggingarreits um 6 m undir viðbyggingu. Heildarlengd byggingarreits lóðarinnar frá suðri til norðurs sé því 12,13 m. Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verði heildarlengd hússins að Grettisgötu 41 12,01 m eða 12 cm innan heimilda deiliskipulags. Hafi húsið verið ranglega mælt við gerð deiliskipulagsuppdráttar ætti sú skekkja ekki að raska rétti leyfishafa til að nýta merktan byggingarreit á lóðinni undir byggingar. Fyrir mistök hafi verið stuðst við birt flatarmál í stað brúttóflatarmáls við útreikning nýtingarhlutfalls lóðarinnar en verði það til að raska gildi umrædds byggingarleyfis muni þau mistök verða leiðrétt.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra ákvörðun til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina nema á annan veg sé mælt í lögum. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Ákvörðun um samþykki byggingarleyfisumsóknar er stjórnvaldsákvörðun sem tilkynna skal umsækjanda í samræmi við 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sbr. og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er kveðið á um það í lögum að slíkar ákvarðanir skuli sæta opinberri birtingu. Þegar af þeirri ástæðu getur kærufrestur í máli þessu ekki farið eftir 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, þar sem kveðið er á um að upphaf kærufrests, vegna ákvarðana sem lög mæla fyrir um að birta skuli með opinberum hætti, teljist frá birtingu. Verður hér að miða við það að upphaf kærufrestsins sé við það tímamark þegar kærendum mátti vera ljóst að hin kærða ákvörðun hafði verið tekin og hvert efni hennar var.

Kærendur hafa tekið fram að þeim hafi verið ljóst að heimilt væri samkvæmt deiliskipulagi að reisa viðbyggingu til norðurs við húsið að Grettisgötu 41. Þeir hafi hins vegar ekki átt möguleika á að kæra fyrirhugaðar framkvæmdir fyrr en raun beri vitni þar sem byggingaráformin hefðu ekki verið kynnt fyrir þeim. Byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum var gefið út hinn 22. september 2015 og var þá heimilt að hefja framkvæmdir. Verður hér við það að miða að framkvæmdir við viðbygginguna hafi ekki byrjað fyrr en þá. Fyrr mátti kærendum ekki vera ljóst hvert byggingarefni viðbyggingarinnar yrði eða hönnun hennar að öðru leyti. Verður því að telja að kæran hafi borist innan kærufrests.

Það er skilyrði kæruaðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda viðkomandi ákvörðun nema að lög mæli sérstaklega á annan veg, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Er það í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklega lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í máli þessu bera kærendur fyrir sig málsástæður er lúta að verndun byggðamynsturs og götumyndar, sem telja verður almenna hagsmuni sem skipulagsyfirvöld í hverju sveitarfélagi gæta í skjóli skipulagsvalds. Geta kærendur ekki byggt aðild sína í máli þessu á slíkum hagsmunum. Kemur þá til álita hvort umdeild viðbygging geti snert grenndarhagsmuni kærenda, svo sem vegna skuggavarps. Með hliðsjón af staðháttum og staðsetningu viðbyggingarinnar og umfangs verður ekki séð að hún geti snert hagsmuni annarra kærenda en eigenda og íbúa að Grettisgötu 39, 39b, og 43a. Verður kröfum annarra kærenda í máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Í gildandi deiliskipulagi viðkomandi svæðis eru heimilaðar viðbyggingar við nokkur hús á skipulagsreitnum og eru byggingarreitir markaðir á skipulagsuppdrætti fyrir þær byggingar, m.a. á lóðinni Grettisgötu 41. Má ráða af merkingu á uppdrættinum að lengd heimilaðrar viðbyggingar til norðurs sé 6 m en breidd byggingarreitsins sé sú sama og breidd núverandi húss. Í deiliskipulaginu er heimilað nýtingarhlutfall nefndrar lóðar 0,65. Samkvæmt samþykktum byggingarteikningum verður brúttógólfflatarmál byggingar á lóðinni eftir heimilaða stækkun 230,4 m². Umrædd lóð er 292,3 m² og verður nýtingarhlutfall hennar því 0,78 ef byggt væri samkvæmt samþykktum teikningum. Er hið kærða byggingarleyfi því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem krafa er gerð um í 11. gr. og 1. tl. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Ber af þeim sökum að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda við Grettisgötu 26, 28b, 29, 35, 35b, 36, 37, 42 og 45 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss að Grettisgötu 41 í Reykjavík og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________        ______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson