Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

91/2015 Silfurgata

Árið 2015, miðvikudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 91/2015, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar frá 7. september 2015 um að samþykkja umsókn um breytingu á lóð nr. 15 við Silfurgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Marteinn Másson hrl., f.h. I, Keldulandi 1, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar frá 7. september 2015 að samþykkja umsókn um breytingu á lóð nr. 15 við Silfurgötu sem fólst í að helluleggja bílastæði og gangveg að risíbúð, lækka svæðið um u.þ.b. 0,5 m og loka sári með torfi eða öðrum gróðri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Stykkishólmsbæ 29. október, 19. nóvember og 3. desember 2015.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 1. júní 2015 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa að Silfurgötu 15 um leyfi til að helluleggja bílastæði og gangveg að risíbúð, lækka svæðið um u.þ.b. 0,5 m og loka sári með torfi eða öðrum gróðri þar sem bílastæði væri vel frá lóðarmörkum. Nefndin frestaði afgreiðslu málsins og óskaði eftir uppdrætti af framkvæmdinni. Á fundi nefndarinnar 6. júlí s.á. var ákveðið að grenndarkynna erindið skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir kæranda. Grenndarkynningin fór fram og kæranda gefinn frestur til koma á framfæri athugasemdum til 5. ágúst 2015. Kom kærandi athugasemdum sínum á framfæri með bréfi, dags. 4. s.m.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 17. ágúst 2015, því frestað og bókað að nefndin óskaði eftir að lóðahafar kæmust að niðurstöðu um frágang á lóðamörkum fyrir næsta fund sem yrði líklega 7. september s.á. Á fundi nefndarinnar þann dag var umsóknin samþykkt og fól nefndin skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum, sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt var bókað að framkvæmdin væri innan lóðarmarka lóðar nr. 15 við Silfurgötu og til þess gerð að fegra núverandi svæði. Loks var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að svara innsendri athugasemd kæranda. Sama dag áritaði byggingarfulltrúi uppdrátt að breytingunni um samþykkt nefndarinnar. Afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar var svo samþykkt á fundi bæjarráðs 17. s.m. og á fundi bæjarstjórnar 22. s.m. og var kæranda tilkynnt um niðurstöðu hennar með bréfi, dags. 23. september 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í núgildandi deiliskipulagi Þinghúshöfða séu auðkennd bílastæði vestan við Bókhlöðustíg 9 og séu þau jafnvel að hluta til á þeirri lóð. Samkvæmt skýringartexta deiliskipulagsins séu þau sameiginleg og öllum heimilt að nýta þau sem slík. Lóðarmörk lóðar kæranda við Bókhlöðustíg 9 séu enn óljós og óákveðin og samkvæmt deiliskipulaginu hafi lóðarmörk verið birt með fyrirvara. Samkvæmt uppdrætti sem fylgt hafi bréfum skipulagsfulltrúa til kæranda, dags. 30. desember 2013 og 31. janúar 2014, nái lóðin lengra til vesturs í norðvestur horni en tilgreint sé í deiliskipulagi. Því séu bílastæðin tvö að vestanverðu að nokkru leyti innan marka lóðar kæranda. Lóðarleigusamningar frá 1916 og uppdrættir frá 1942-1943 styðji þessi málsrök. Með vísan til þessa sé órökrétt að færa vesturmörk lóðar kæranda í austur í stað þess að lega þeirra sé vestar og í beinni línu við vesturmörk lóðanna Bókhlöðustígs 7 og 11.

Því sé hafnað af hálfu kæranda að hægt sé að staðsetja nákvæmlega mörk lóðar hans skv. þinglýstum heimildum, svo sem skipulags- og byggingarfulltrúi hafi haldið fram undanfarin ár. Hafi Stykkishólmsbær unnið markvisst að því að færa vesturmörk lóðarinnar til austurs til þess að skapa rými fyrir leyfishafa. Gengið hafi verið á hlut kæranda sem hafi aldrei samþykkt þessar ráðstafanir bæjarins.

Í greinargerð með nefndu deiliskipulagi komi fram að til þess að halda yfirbragði svæðisins þurfi að setja skilmála fyrir húsin á svæðinu, bæði almenna og sérskilmála fyrir hvert hús. Komi slíkt að mestu leyti í veg fyrir tilviljunarkenndar leyfisveitingar til breytinga og viðbygginga sem eigendur húsanna kunni að óska eftir. Þá sé einnig gert ráð fyrir því að ákvarðanir séu teknar að vel ígrunduðu máli og séu vel rökstuddar og grundvallaðar í deiliskipulagi. Þau rök eigi ekki síður við um mannvirki og aðliggjandi lóðir utan reitsins. Seilst hafi verið töluvert inn á lóð kæranda til þess að stækka lóð leyfishafa, með það að markmiði að búa til aðkomuleið að íbúð á efstu hæð hússins þar. Mótmælt sé að framangreind skerðing fari fram með þeim hætti sem gert sé, þ.e. með samþykki fyrirhugaðra breytinga á lóð á óskipulögðum reit.

Deiliskipulagið fyrir Þinghúshöfða útiloki staðsetningu bílastæða austanvert á lóð leyfishafa. Forsendum í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 15/2014 sé mótmælt harðlega hvað varði að „… nefnd aðkoma verði nýtt til þess að komast að bílastæðum á hinni stækkuðu lóð“. Sú forsenda sé röng að mati kæranda og í brýnni andstöðu við gildandi deiliskipulag. Hvorki ákvörðunin um stækkun lóðarinnar við Silfurgötu 15 sem þar var til umfjöllunar né sú ákvörðun sem hér sé kærð geti rutt burtu tveimur bílastæðum skv. deiliskipulagi. Til þess þurfi deiliskipulagsbreytingu skv. ákvæðum skipulagslaga. Grenndarkynning á svæði utan deiliskipulagsreits geti ekki flokkast sem óveruleg breyting á deiliskipulagi í skilningi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Með hinni kærðu ákvörðun skerðist útsýni kæranda til vesturs verulega og hljótist stórfellt ónæði, hávaði og óþrif af bílum á lóð leyfishafa. Kærandi hafi m.a. keypt fasteign sína með það í huga að geta notið útsýnis í vestur. Auk þess verði bílaumferð og bílgeymslusvæði á þrjá vegu um lóðina og sé lífsgæðum íbúa þar með verulega spillt.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að nýr lóðarleigusamningur fyrir Silfurgötu 15 hafi verið gerður 4. júlí 2015 að undangenginni kæru og úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Á lóðarblaði, sem sé fylgiskjal lóðarleigusamningsins, komi fram að tvö bílastæði séu innan lóðarinnar. Erindið hafi fengið lögformlegt ferli í bókunum og síðan grenndarkynnt. Auk þess hafi afgreiðslu erindisins verið frestað á fundi svo að nágrannar gætu komist sjálfir að niðurstöðu um frágang á lóðamörkum innan ákveðins tímafrests.

Lóðarmörk Silfurgötu 15 séu skýr. Aðgengi að risíbúð hafi verið á þessum stað allt frá 1954 eða síðan húsið var byggt. Þá sé framkvæmdin innan lóðar og hafi leyfið því verið veitt. Ekki sé verið að breyta hæð á lóðarmörkunum en skipulags- og byggingarnefnd hafi viljað grenndarkynna erindið til að uppfylla allar lagalegar skyldur og þar sem ekki væri til deiliskipulag af viðkomandi svæði.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi fer fram á að kröfum kæranda sé hafnað, enda sé nú þegar búið að fjárfesta í efni fyrir framkvæmd þá sem leyfið taki til.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar að samþykkja umsókn um breytingu á lóð nr. 15 við Silfurgötu. Lóðin er á ódeiliskipulögðu svæði. Einskorðast umfjöllun úrskurðarnefndarinnar við nefnda ákvörðun, en í kæru sinni gerir kærandi stækkun nefndrar lóðar að umtalsefni, sem og núverandi deiliskipulag Þinghúshöfða. Ágreiningur þar um hefur áður hlotið kærumeðferð hjá úrskurðarnefndinni. Eru úrskurðir í þeim málum, sem eru nr. 57/2011 og nr. 15/2014, fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og koma þeir ekki til endurskoðunar hér.

Almennt annast byggingarfulltrúi meðferð byggingarleyfisumsókna og veitir leyfi með samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis, sbr. 9., 11., og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Með stoð í 1. mgr. 7. gr. laganna hefur bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hins vegar sett sérstaka samþykkt nr. 610/2015 um afgreiðslur byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar. Samkvæmt 2. gr. hennar er það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt útgáfuna.

Hinu umdeildu framkvæmdir, svo sem þeim er lýst, fela í sér að helluleggja bílastæði sem fyrir eru á lóðinni samkvæmt lóðarblaði samþykktu 14. janúar 2014, sem og gangveg að risíbúð. Enn fremur er yfirborð lóðar að hluta til lækkað um u.þ.b. 0,5 m, en sú lækkun nær ekki að lóðarmörkum. Þá er heimilað að loka sári með torfi eða öðrum gróðri.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi. Í e-lið greinarinnar er meðal annars tiltekið að þar undir falli allt eðlilegt viðhald lóðar, bílastæða og innkeyrslu. Jafnframt er tekið fram að ekki sé heimilt að breyta hæð lóðar á lóðarmörkum án samþykkis leyfisveitanda og samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þá sé ekki heimilt að breyta hæð lóðar innan hennar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni þeirra, t.d. vegna útsýnis.

Þykir ljóst af framangreindu að hinar umdeildu framkvæmdir fela í sér eðlilegt viðhald í skilningi áðurgreinds ákvæðis. Þá verður ekki séð að lækkun lóðarinnar sé til þess fallin að hafa áhrif á hagsmuni kæranda. Voru framkvæmdirnar því ekki byggingarleyfisskyldar.

Eins og atvikum er hér háttað hefur það ekki þýðingu að taka afstöðu til lögmæti hinar kærðu ákvörðunar. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Þorsteinn Þorsteinsson