Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

114/2015 Golfvöllur Blikastaðanesi

Árið 2016, þriðjudaginn 19. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 114/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. nóvember 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna golfvallarins Blikastaðanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Óðinn Elísson hrl., f.h. J, Þrastarhöfða 53 í Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. nóvember 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna golfvallarins Blikastaðanesi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdum verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 17. desember 2015 og 19. janúar 2016.

Málsatvik og rök: Tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna golfvallar Blikastaðanesi var auglýst til kynningar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan fól í sér breytingu á deiliskipulagi fyrir Blikastaðanes frá árinu 2004 með síðari breytingu. Athugasemdafrestur var til 30. október 2015 og bárust athugasemdir kæranda á kynningartíma. Á fundi sínum 18. nóvember s.á. samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar auglýsta breytingu með leiðréttingu á gólfkóta golfskála. Í deiliskipulagsbreytingunni felst í meginatriðum að afmörkuð lóð stækkar og færist ásamt byggingarreit fyrir golfskála frá íbúðarbyggð. Þá er fyrirkomulag bílastæða sýnt og skipulagssvæðið stækkað svo þau lendi innan þess. Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu er gerði athugasemd með bréfi, dags. 14. janúar 2016, við að birt yrði auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt breytingarinnar.

Kærandi telur að staðsetning bílastæða og breytt starfsemi húsnæðis golfklúbbsins hafi í för með sér veruleg grenndaráhrif fyrir sig. Umferð bíla og umfangsmikil starfsemi muni valda skerðingu á lífsgæðum og óhagræði.

Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða skipulagsbreyting hafi ekki tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Hin kærða ákvörðun hefur ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda en slík auglýsing er skilyrði gildistöku hennar og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Þar sem lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skilyrði þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar er ekki uppfyllt verður því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir