Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

12/2015 Jöldugróf

Árið 2015, mánudaginn 21. desember, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 12/2015, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. janúar 2015 um að synja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámum á lóð nr. 6 við Jöldugróf í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Sýrfell ehf., lóðarhafi lóðarinnar nr. 6 við Jöldugróf, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. janúar 2015 að synja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámum á nefndri lóð. Krefst kærandi þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og stöðuleyfi veitt. Til vara er gerð krafa um að ákvörðunin verði ógild og að málið verði tekið fyrir að nýju af óhlutdrægum aðila og til þrautavara er krafist ógildingar ákvörðunarinnar og að málið verði tekið fyrir að nýju og afgreitt á málefnalegan hátt. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 29. apríl og 15. og 18. desember 2015.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. janúar 2015 var tekin fyrir umsókn kæranda um stöðuleyfi fyrir tveimur gámum á lóð nr. 6 við Jöldugróf. Var afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Erindið var lagt fram á ný á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. s.m., því synjað og fært til bókar að það teldist ekki samræmast deiliskipulagi.

Kærandi gerir athugasemdir við þær leiðbeiningar sem hann hafi fengið hjá Reykjavíkurborg vegna umsóknar hans um umrætt stöðuleyfi. Þá hafi umsókn hans verið afgreitt án þess að kærandi hafi fengið að svara athugasemdum sveitarfélagsins við umsóknina eða koma að andmælum. Öllum skilyrðum um stöðuleyfi í kafla 2.6 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafi verið fullnægt. Það sé rökleysa að hafna umsókninni á þeirri forsendu að hún samræmist ekki deiliskipulagi. Virðist sem tekin hafi verið afstaða til málsins líkt og um umsókn um byggingarleyfi væri að ræða og hafi það leitt málið á villigötur. Lóðin að Jöldugróf 6 sé óbyggð en í grónu hverfi. Megi reisa þar allt að 240 m² íbúðarhús og ekki verði séð að tveir gámar, samtals um 60 m² geti verið til ama. Hljóti það að vera réttur lóðarhafa að nýta sér eign sína innan eðlilegra marka.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 31. mars 2015 hafi verið lagt fram minnisblað frá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar þar sem lagt hefði verið til að hin kærða synjun yrði afturkölluð. Hafi svo verið gert og eigi kærandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn hennar. Kæranda hafi verið tilkynnt afgreiðslan.

Í frekari athugasemdum sínum bendir kærandi á að hann hafi ekki fengið neina tilkynningu um lyktir málsins. Hafi málið ekki verið afgreitt af hálfu byggingarfulltrúa, hvorki til samþykktar né synjunar. Sé málið því ekki í eðlilegum farvegi.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Með bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, f.h. byggingarfulltrúa, dags. 27. apríl 2015, var úrskurðarnefndinni tilkynnt að á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 31. mars 2015 hafi verið lagt fram minnisblað skrifstofu sviðsstýru þar sem mælst hafi verið til þess að [hin kærða] synjun byggingarfulltrúa frá 13. janúar s.á. yrði afturkölluð með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málið hafi verið afgreitt með eftirfarandi bókun: „afgreitt“. Var jafnframt tekið fram í téðu bréfi að af hálfu embættis byggingarfulltrúans hafi fyrrnefnd afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 13. janúar s.á. verið afturkölluð. Hefur hin kærða ákvörðun af þeim ástæðum því ekki lengur réttarverkan að lögum og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Í nefndu minnisblaði kemur fram að jafnframt sé mælst til þess að umsækjanda verði tilkynnt um afturköllunina og hann upplýstur um rétt sinn til að senda inn nýja umsókn um stöðuleyfi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Reykjavíkurborg mun hafa misfarist að senda slíka tilkynningu til kæranda og bendir úrskurðarnefndin á að umsókn hans um stöðuleyfi bíður þar með enn afgreiðslu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Nanna Magnadóttir