Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

57/2014 Garðastræti

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 3. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 14. maí 2014 um að breyta deiliskipulagi Grjótaþorps vegna sameiningar lóðanna nr. 17 og 17a við Garðastræti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Mjóstræti 6, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 14. maí 2014 að breyta deiliskipulagi Grjótaþorps vegna sameiningar lóðanna nr. 17 og 17a við Garðastræti. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Reykjavíkurborg sé óheimilt að gera frekari breytingar er lúta að Garðastræti 17a á grundvelli ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. september 2013.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. ágúst 2014.

Málavextir: Samkvæmt deiliskipulagi Grjótaþorps frá árinu 2002 var heimilt að sameina lóðirnar nr. 6 við Mjóstræti og nr. 17a við Garðastræti. Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur 7. júní 2006 var sameining fyrrgreindra lóða samþykkt að kröfu eigenda Mjóstrætis 6. Garðastræti 17a er baklóð lóðanna Mjóstrætis 6 og Garðastrætis 17.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 11. september 2013 var samþykkt, í samræmi við greinargerð byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 14. desember 2012, og umsögn borgarlögmanns frá 19. mars 2013, að lóðarmörk lóðarinnar að Garðastræti 17 yrðu færð í það horf sem lóðin hefði verið í við samþykkt byggingarleyfa fyrir bygginguna sem á lóðinni standi, en fyrsta leyfið var frá 27. júní 1931. Í fundargerð þess fundar kemur fram að austurmörk lóðarinnar Garðastrætis 17 fylgi landfræðilegum hæðarskilum við lóðarmörk Mjóstrætis 6, en samkvæmt þeirri afmörkun hafi lóðin verið nýtt og skráð alla tíð síðan og gjöld verið af henni greidd. Til samræmis við þetta var samþykkt að gildandi deiliskipulagi yrði breytt vegna lóðarinnar nr. 17 við Garðastræti ásamt því að lóðin nr. 17a yrði aflögð. Sú afgreiðsla var samþykkt á fundi borgarráðs 12. september 2013.

Hinn 31. janúar 2014 var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa lögð fram tillaga að breytingu deiliskipulags Grjótaþorps, sem fólst í því að sameina lóðirnar nr. 17 og 17a við Garðastræti í eina lóð í samræmi við fyrrgreinda samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. september 2013. Með því var fallið frá þeirri sameiningu sem gert hafði verið ráð fyrir árið 2002. Samþykkt var að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaraðilum að Garðastræti 15 og 17 og Mjóstræti 4 og 6. Tillagan var grenndarkynnt frá 7. febrúar til 7. mars 2014 og bárust athugasemdir frá eigendum fasteignarinnar að Mjóstræti 6.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. maí 2014 var breytingartillagan lögð fram ásamt umsögn um fram komnar athugasemdir. Tillagan var samþykkt með vísan til framangreindrar umsagnar þar sem fram kemur m.a. að með breytingunni sé verið að framfylgja ákvörðun borgarráðs frá 12. september 2013. Breytingin var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2014 og með bréfi, dags. 6. s.m., var tillagan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. október 2015 var lögð fram tilkynning úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um kæru í máli þessu. Var eftirfarandi bókað: „ Með vísan til úrskurða Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málunum nr. 1/2014, 37/2014 og 51/2014, þar sem kærum var vísað frá á grundvelli þess að viðaukar við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp Borgarstjórnar hafi ekki verið í gildi á þeim tíma þegar þau voru afgreidd í Umhverfis- og skipulagsráði og málin því ekki hlotið endanlega afgreiðslu sveitarstjórnar, er samþykkt Umhverfis- og skipulagsráðs á breytingu deiliskipulags vísað til staðfestingar borgarráðs.“ Var deiliskipulagsbreytingin samþykkt á fundi borgarráðs 29. október 2015.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að sú breyting sem gerð hafi verið með hinni kærðu ákvörðun sé til þess fallin að breiða yfir ítrekuð mistök Reykjavíkurborgar við veitingu byggingarleyfa til handa eigendum Garðastrætis 17 á kostnað eigenda Mjóstrætis 6. Árið 2009 hafi lögfræðingur Reykjavíkurborgar bent á að eigendur Mjóstrætis 6 hafi lagt fram eignarheimildir vegna lóðarinnar nr. 17a við Garðastræti sem eigendur Garðastrætis 17 hafi hins vegar ekki gert. Þá hafi lögfræðingar borgarinnar ásamt byggingarfulltrúa lagst gegn því að fyrrgreindar lóðir nr. 17 og 17a yrðu sameinaðar meðan einkaréttarlegur ágreiningur hafi ekki verið leystur fyrir dómstólum. Það sé ekki á valdi opinberra aðila að skerða eignarréttindi með færslu lóðamarka nema um það náist samningur eða með eignarnámi samkvæmt sérstakri lagaheimild. Hin kærða ákvörðun sé ekki byggð á traustum grunni og málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotnar, einkum rannsóknarreglan, jafnræðisreglan, meðalhófsreglan og reglur um rökstuðning, sbr. 10., 11., 12. og 21. gr. laganna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfu kæranda verði hafnað. Þegar tillaga að deiliskipulagi fyrir Grjótaþorp hafi verið kynnt árið 2002 hafi lóðamörk Garðastrætis 17 og Mjóstrætis 6 verið sýnd við hæðarskil lóðanna í samræmi við uppdrætti landmælingadeildar Reykjavíkur. Athugasemdir eigenda Mjóstrætis 6 hafi orðið til þess að lóðin nr. 17a hafi verið færð inn á skipulagsuppdrátt án þess að fyrir lægju upplýsingar um tilvist hennar í þinglýsingar- eða fasteignaskrá. Þá hafi ekki verið lokið við að formgera samþykkt frá árinu 2006 um sameiningu Mjóstrætis 6 og Garðastrætis 17a. Eftir að eigendur Garðastrætis 17 hafi andmælt þeirri sameiningu hafi byggingarfulltrúi talið að aðeins yrði heimilað að sameina lóðina Garðastræti 17a við Garðastræti 17 með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum. Borgarlögmaður hafi lýst sig sammála þeirri tillögu byggingarfulltrúa. Hafi málsmeðferð við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu verið í samræmi við ákvæði 2. mgr. 43. gr., sbr. 44. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé mótmælt að við málsmeðferð hafi verið brotið gegn skráðum meginreglum stjórnsýsluréttar.

Athugasemdir húsfélagsins Garðastræti 17: Bent er á að samkvæmt dagbók mælingamanns frá árinu 1922 hafi lóðin Garðastræti 17 orðið til við sameiningu tveggja lóða. Þær hafi legið samhliða og náð frá Garðastræti að bakmörkum Mjóstrætis 6. Þar komi jafnframt fram að austurmörk lóðar Garðastrætis 17 takmarkist af hlöðnum og steinlímdum palli eða mannhæðarháum kampi, sem greinilega sjáist enn. Hafi eigendur Garðastrætis 17 greitt afgjöld af þessari eignarlóð allar götur síðan. Reykjavíkurborg hafi talið þetta eðlileg lóðamörk milli Garðastrætis 17 og Mjóstrætis 6 ef undan sé skilin vanhugsaður tímabundinn tilbúningur á sérstakri lóð sem kölluð hafi verið Garðastræti 17a.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Grjótaþorps frá árinu 2002, en umdeild breyting tekur einungis til sameiningar lóðanna nr. 17 og 17a við Garðastræti.

Úrskurðarnefndin hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt því tekur úrskurðarnefndin til úrlausnar lögmæti ákvarðana stjórnvalda sem kæranlegar eru til nefndarinnar, en það er utan valdsviðs hennar að taka stjórnvaldsákvarðanir á viðkomandi lagasviðum. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að úrskurðað verði að Reykjavíkurborg sé óheimilt að gera frekari breytingar er lúta að Garðastræti 17a.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags og er heimild til framsals þess valds undantekning frá þeirri meginreglu. Heimild 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 til valdframsals innan sveitarfélaga er almenns eðlis, en í 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn veitt sérstök heimild til framsals valds síns samkvæmt þeim lögum. Er ljóst af orðalagi ákvæðanna að valdframsal þetta fer fram með sérstakri samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélaga, en kveðið er á um slíkar samþykktir í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga.

Sú ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. maí 2014 að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu byggði á 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var af borgarstjórn 18. desember 2012. Í henni er vísað til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Samþykkt þess efnis nr. 715/2013 var staðfest af innanríkisráðherra 8. júlí 2013 og öðlaðist hún gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m. Í VI. kafla samþykktarinnar er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en borgarráð. Í 58. gr. hennar er kveðið á um fullnaðarafgreiðslu og er orðalag greinarinnar áþekkt orðalagi 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Segir nánar í 1. mgr. 58. gr. að borgarstjórn geti ákveðið, með viðauka við samþykktina, að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Reykjavíkurborgar fullnaðarafgreiðslu mála með sömu skilyrðum og sé að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkur viðauki við samþykktina um valdframsal til umhverfis- og skipulagsráðs til töku skipulagsákvarðana hafði ekki verið samþykktur og birtur þegar hin kærða deiliskipulagsbreyting var afgreidd í ráðinu 14. maí 2014.

Samkvæmt framansögðu brast umhverfis- og skipulagsráð vald til að taka til lokaafgreiðslu umþrætta deiliskipulagsbreytingu og verður að líta svo á að í samþykkt hennar hafi falist tillaga til sveitarstjórnar til afgreiðslu málsins, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga.

Þegar auglýsing um gildistöku deiliskipulagstillögunnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2014 hafði sveitarstjórn ekki samþykkt fyrrgreinda tillögu í samræmi við 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Það var fyrst á fundi borgarráðs hinn 29. október 2015 að umrædd deiliskipulagsbreyting hlaut staðfestingu borgarráðs. Deiliskipulagsbreytingin var hvorki send Skipulagsstofnun til yfirferðar né birt í B-deild Stjórnartíðinda í kjölfar þeirrar afgreiðslu, svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Verður ekki talið viðhlítandi í þessu sambandi að styðjast við auglýsingu um gildistöku skipulagsbreytingarinnar, sem birt var 2. júní 2014, eða um 17 mánuðum áður en ákvörðunin lá fyrir. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Framangreind ákvörðun borgarráðs hefur ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda en slík auglýsing er skilyrði gildistöku hennar og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er lögboðinni meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

99/2015 Frakkastígur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 3. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. maí 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir stækkun kvista, glugga og bíslags til norðurs, sem og fyrir klæðningu, breytingu á innra skipulagi og því að innrétta veitingahús í flokki II í húsinu á lóð nr. 26A við Frakkastíg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. nóvember 2015, er barst nefndinni 6. s.m., kærir S, Frakkastíg 26, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. maí 2015 að veita byggingarleyfi fyrir stækkun kvista, glugga og bíslags til norðurs, sem og fyrir klæðningu, breytingu á innra skipulagi og því að innrétta veitingahús í flokki II í húsinu á lóð nr. 26A við Frakkastíg. Verður að skilja kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 10. nóvember 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. mars 2015 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að stækka kvisti, stækka bíslag til norðurs, stækka glugga, einangra og klæða að utan með borðaklæðningu, breyta innra skipulagi og innrétta veitingahús í flokki II fyrir 48 gesti á lóð nr. 26A við Frakkastíg. Afgreiðslu málsins var frestað og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. s.m. var bókað að ekki væri gerð athugsemd við erindið, en þó væri vísað til skilyrða og leiðbeininga sem fram kæmu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 4. s.m. Þar var ekki lagst gegn leyfisveitingu en á það bent að milli húss þess er umsóknin laut að og húss kæranda væru einungis 4 m. Því væri æskilegt að samþykki kæranda lægi fyrir, einnig þar sem kvöð væri um aðkomu að fasteign kæranda um garð umsækjanda. Þá var mælt með því að gengið yrði úr skugga um að húsið myndi eftir umsóttar breytingar uppfylla „þær kröfur sem gerðar eru til hljóðvistar veitingahúsa“.

Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. s.m. og því frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. maí 2015 var umsóknin enn tekin fyrir og fylgdi áðurnefnd umsögn skipulagsfulltrúa, sem og umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 25. febrúar s.á. Var umsóknin samþykkt og talin samræmast ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Byggingarleyfi var svo gefið út 10. júlí s.á.

Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 13. júlí 2015, mótmælti lögmaður kæranda fyrir hans hönd breyttri notkun fasteignarinnar Frakkastígs 26A. Hagsmunum hans yrði raskað vegna hávaða, matarlyktar, umgangs gesta á svæði þar sem hann hefði umferðarrétt að húsi sínu og vegna nálægðar gesta við húsið. Þá væri gert ráð fyrir eldhúsi í bakhúsi, sem sneri að húsi kæranda, og við það kæmu upp spurningar um hávaða vegna loftræsingar, sem og um lyktarmengun sem berast myndi inn um glugga á húsi kæranda. Grenndarkynning hefði ekki farið fram og krefðist kærandi þess að hún færi fram áður en byggingarframkvæmdir myndu hefjast. Óskaði hann þess að lokum að hann yrði upplýstur um feril málsins. Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 10. ágúst s.á., ítrekaði lögmaður kæranda fyrra erindi og tók fram að fjarlægð milli húsa væri minnst 3,94 m og mest 4,06 m, en að í samþykktri teikningu væri tilgreint að fjarlægðin væri 4,20 m. Sú tilgreining væri röng og ekki í samræmi við gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Fjarlægð milli húsanna myndi minnka enn frekar vegna einangrunar á útvegg og borðaklæðningar. Var farið fram á að bíslag yrði rifið svo að eðlileg fjarlægð yrði milli húsanna eða að byggingarleyfið yrði afturkallað.

Með tölvupóstum 4., 5., 10. og 21. september 2015 sendi kærandi fyrirspurnir til byggingarfulltrúa um byggingarleyfi það sem heimilaði breytingu á notkun umræddrar eignar úr íbúðarhúsi í veitingahús, sem og um skilgreiningu Frakkastígs sem aðalgötu. Honum var svarað með tölvupóstum 7., 9. og 22. s.m., þar sem fram komu upplýsingar um samþykkt byggingarleyfisumsóknar 12. maí s.á., sem og um forsendur þær sem fyrir lægju í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að byggingarleyfi vegna breyttrar notkunar á íbúðarhúsinu Frakkastíg 26A í veitingahús í flokki II hafi ekki verið grenndarkynnt. Ákvörðunin hafi farið leynt og því ekki gefist kostur á að koma mótmælum á framfæri til úrskurðarnefndarinnar innan tilskilins frests.

Því sé mótmælt að veitingahúsi sé komið fyrir svo nærri húsi og lóðarmörkum kæranda auk þess sem hann eigi umferðarrétt framhjá fyrirhuguðu veitingahúsi. Álitaefni séu uppi um brunavarnir og aðkomu slökkviliðs og sé bent á gr. 9.8.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar um. Ekki hafi verið leitað umsagnar slökkviliðs við afgreiðslu byggingarleyfisins. Þá hafi gaflar, hliðar hússins og þak verið hækkuð, auk þess sem kvistur á bakhlið hússins sé breiðari en samþykktar teikningar segi til um. Kvistir á húsinu séu ekki í samræmi við samþykkar teikningar heldur staðsettir alveg að þakbrún. Viðbygging við bíslag fyrirhugaðs veitingahúss sé alveg á lóðamörkum og þykk einangrun og múrhúð stytti enn frekar bilið milli þeirra húsa er um ræði. Viðbyggingin sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag frá 2008 þar sem tilgreint sé að lóðin sé fullbyggð.

Skuggavarp hafi ekki verið unnið og mælingar á milli húsa ekki farið fram. Fjarlægð á milli húss kæranda og fyrirhugaðs veitingahúss sé röng á samþykktri teikningu frá 12. maí 2015, enda hafi mælingar verið gerðar af leyfishafa. Við framkvæmdirnar hafi verktaki á vegum leyfishafa farið með vinnuvélar í leyfisleysi inn á lóð kæranda, unnið á henni skemmdir og fjarlægt grindverk á lóðamörkum og tré að honum forspurðum. Lóð leyfishafa hafi verið dýpkuð án þess að samþykki leyfisveitanda og kæranda lægi fyrir, svo sem áskilið sé í byggingarreglugerð. Steypt hafi verið plan sem fari inn á lóð kæranda og eigi sama við um brunn sem settur hafi verið niður. Jafnframt hafi verið reistur hlaðinn múrveggur á lóðamörkum án þess að samþykki kæranda lægi fyrir og sé veggurinn það langur að hann hindri aðkomu kæranda að lóð sinni. Umferðarréttur hans nái til 2 m breiðrar ræmu en veggurinn takmarki hana við 1,2 m. Kærandi hafi hafnað tillögu leyfishafa að samkomulagi og sé þetta önnur framkvæmd en hið kærða leyfi heimili. Reykjavíkurborg hafi ekki haft eftirlit með þessum framkvæmdum. Loks sé um hljóðvist vísað til gr. 11.1.1. og 11.1.3. í áðurnefndri reglugerð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg bendir á að kæra í málinu sé of seint fram komin og beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. Kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra eigi, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umsókn um byggingarleyfi hafi verið samþykkt 12. maí 2015 og byggingarleyfi verið gefið út 10. júlí s.á. Fjölmargar úttektir hafi farið fram, sú fyrsta 7. ágúst s.á., vegna botns, undirstöðu og sökkla. Hafi kæranda því mátt vera ljóst að framkvæmdir væru hafnar og hafi hann þá getað kynnt sér hvaða leyfi lægju þar að baki. Þrátt fyrir að ekki yrði séð að bréfum lögmanns kæranda hafi verið svarað hefði kæranda engu að síður verið ljóst, a.m.k. í byrjun ágúst, að framkvæmdir væru hafnar og hljóti kærufrestur að miðast við það. Í öllu falli hafi kærandi upplýst í tölvupósti sínum 10. september s.á. að honum væri kunnugt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum. Kæranda hafi svo verið svarað með tölvupósti 22. s.m. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.

Byggingarleyfið sé í samræmi við deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Þar sem um aðalgötu sé að ræða sé heimilt að vera með veitingastað í flokki I og II með opnunartíma til kl. 23:00. Auk þess hafi umsóknin uppfyllt allar kröfur byggingarreglugerðar, m.a. vegna brunavarna. Þá sé ekki farið fram á hljóðvistarskýrslur vegna veitingastaða í flokki I og II, enda sé gert ráð fyrir því í reglugerð nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald að þeir séu umfangslitlir og starfsemin ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að leyfisumsókn hafi verið unnin af fagmönnum og í samráði við Reykjavíkurborg. Frakkastígur sé borgargata, sem gefi aukið svigrúm til að hýsa starfsemi á borð við veitingastaði, verslanir eða kaffihús á fyrstu hæð húsa sem snúi að götunni. Áður en til umsóknar hafi komið hafi leyfishafi sent fyrirspurnir um möguleika á rekstri auk þess sem arkitektar hafi af hans hálfu sent fyrirspurn vegna fyrirhugaðrar stækkunar á bíslagi í horni garðsins, sem vegna staðsetningar hafi ekki áhrif á skuggavarp eða útsýni nærliggjandi húsa. Um hafi verið að ræða horn sem engum nýttist, enginn aðgangur hafi verið að þessu svæði og sólin ekki skinið þar á.

Brunavarnir hafi verið unnar í samráði við brunahönnuð og sé allt gler sem snúi að húsi kæranda eldþolið, auk þess sem klæðningar séu vottaðar. Þá sé verið að bæta við úðakerfi í húsið en við það muni brunahætta minnka verulega. Leyfishafi hafi fundað með kæranda og lögmanni hans þegar byggingarleyfi hafi legið fyrir til að framkvæmdirnar yrðu unnar í sátt við kæranda og myndu valda sem minnstu raski. Þar hafi m.a. komið fram að umferðarréttur hans yrði virtur að fullu, enda hafi aldrei annað staðið til.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis sem heimilar breytta notkun á Frakkastíg 26A úr íbúðarhúsnæði í veitingastað í flokki II, auk breytinga á húsinu að innan sem utan. Byggingarfulltrúi samþykkti byggingaráform vegna breytinganna 12. maí 2015 en kæra barst úrskurðarnefndinni 6. nóvember s.á. Kærufrestur til úrskurðarnefndar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Af gögnum málsins er ljóst að kæranda var kunnugt um hinar umdeildu framkvæmdir og samþykkt byggingaráforma í júlí 2015. Var kærufrestur því liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Hins vegar sendi lögmaður kæranda án tafar, og síðar kærandi sjálfur, ítrekaðar fyrirspurnir um framkvæmdirnar og byggingarleyfið. Svör Reykjavíkurborgar bárust ekki fyrr en með tölvupóstum í september s.á. og er þar hvorki að finna leiðbeiningar um kæruheimild né kærufrest. Verður af þeim sökum að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Kærandi hefur gert ýmsar athugasemdir við hinar umdeildu framkvæmdir. Í því sambandi er rétt að benda á að lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar einskorðast við leyfi fyrir framkvæmdunum en að almennt eftirlit með þeim er á hendi byggingarfulltrúa skv. lögum nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er hin umdeilda lóð á íbúðarsvæði, ÍB11, og er Frakkastígur skilgreindur sem aðalgata. Um íbúðarsvæði segir í aðalskipulaginu að þar sé almennt gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu og geti veitingastaðir í flokki I, og eftir atvikum í flokki II, fallið undir þá skilgreiningu. Innan skilgreindra íbúðarsvæða sé mögulegt að gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi, enda sé um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki valdi ónæði. Meðfram aðalgötum sé heimil fjölbreyttari landnotkun. Verslun og þjónusta á jarðhæðum geti verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II. Opnunartími allra veitingastaða skuli takmarkast við kl. 23:00. Að teknu tilliti til framangreinds var ekki þörf á grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda fór breytt notkun ekki í bága við gildandi skipulagsáætlanir.

Samkvæmt 10. gr. mannvirkjalaga skal umsókn um byggingarleyfi ásamt hönnunargögnum send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa, sem fer yfir umsóknina, gengur úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna, og reglugerða settra samkvæmt þeim, og tilkynnir umsækjanda eftir atvikum um samþykkt byggingaráforma hans, sbr. 11. gr. nefndra laga. Gögn vegna samþykktar byggingaráforma eru m.a. aðaluppdrættir ásamt byggingarlýsingu og getur leyfisveitandi krafist þess að greinargerð fylgi umsókn, sbr. gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, einkum a-lið 2. mgr.

Í II. flokk veitingastaða falla umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemi er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og afgreiðslutími er ekki lengri en til kl. 23, sbr. skilgreiningu 3. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Samkvæmt gr. 11.1.3. í byggingarreglugerð skal hönnuður staðfesta að hljóðvist uppfylli kröfur reglugerðarinnar og þeirra staðla sem hún vísar til og á það m.a. við um þegar notkun mannvirkis er breytt, sbr. a-lið 1. mgr. ákvæðisins. Skal þá staðfesta að hljóðvist mannvirkisins fullnægi öllum þeim kröfum sem gerðar eru til hljóðvistar vegna hinnar nýju starfsemi. Þó skal einungis vinna greinargerð um hönnunarþætti, s.s. hljóðvist, eftir því sem við á og í samræmi við umfang og eðli verkefnis, sbr. gr. 4.5.3. í byggingarreglugerð. Með hliðsjón af áðurgreindri skilgreiningu á þeirri starfsemi sem leyfð var verður ekki talið að umfang hennar hafi gefið byggingarfulltrúa tilefni til að óska eftir sérstakri greinargerð um hljóðvist þar, svo sem honum hefði verið heimilt með stoð í fyrrnefndri gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð. Hins vegar tiltekur gr. 4.3.9. reglugerðarinnar í stafliðum hvaða þáttum, er varða uppbyggingu mannvirkis, skuli a.m.k. gera grein fyrir í byggingarlýsingu. Skal þar skv. m-lið gera grein fyrir hljóðvistarkröfum og hvernig þær séu uppfylltar. Byggingarlýsing á samþykktum uppdráttum tilgreinir ekki þessi atriði, en vegna mikillar nálægðar húss kæranda við hús það er hið kærða leyfi tekur til var ástæða fyrir byggingarfulltrúa að ganga eftir því að svo væri.

Ekki liggur annað fyrir í málinu en að hönnun byggingarinnar Frakkastígs 26A hafi uppfyllt kröfur laga og reglugerða um hljóðvist auk þess sem tekið er fram í byggingarlýsingu að eingöngu sé heimilt að nota byggingarvörur sem hlotið hafi staðfestingu tilnefnds aðila eða séu merktar CE í samræmi við lög þar um, en erfitt er að staðreyna hljóðvist fyrr en á reynir. Í því sambandi er rétt að benda á athugasemd skipulagsfulltrúa í umsögn, dags. 4. mars 2015, þess efnis að gengið yrði úr skugga um að húsið myndi, eftir umsóttar breytingar, uppfylla kröfur um hljóðvist veitingahúsa. Þá er vert að árétta að komi síðar í ljós að hávaði vegna breyttrar notkunar húss þess sem um er deilt, eða þeirrar starfsemi sem þar fer fram, sé óásættanlegur gagnvart kæranda eða öðrum nágrönnum ber eigandi eftir atvikum ábyrgð á að úr verði bætt svo hljóðstig sé innan lögboðinna marka.

Að teknu tilliti til framangreinds verður sá annmarki á byggingarlýsingu, að gera ekki grein fyrir hljóðvistarkröfum og hvernig þær yrðu uppfylltar, ekki látinn valda ógildi hins kærða byggingarleyfis.

Frakkastígur 26A er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulagið Kárastígsreitur austur, staðgreinireitur 1.182.3. Svæðið markast af Skólavörðustíg að suðvestan, Kárastíg að norðvestan og Frakkastíg að austan. Deiliskipulagið öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 2. desember 2008. Þar segir um nefnda lóð að hún sé fullbyggð og að þar sé kvöð um umferð að Frakkastíg 26. Í almennum skilmálum deiliskipulagsins er fjallað um byggingarmöguleika allra lóða þar sem aðstæður leyfi. Kemur þar fram að kvisti megi byggja á risþök í samræmi við byggingarreglugerð og byggingarstíl húsa og skuli fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1,0 m. Heimilt sé að byggja litlar viðbyggingar utan byggingarreita, allt að 12 m², og einnig litlar geymslur á baklóðum, allt að 6 m², og ef fjarlægð viðbygginga og geymsla frá lóðarmörkum sé minni en 3,0 m þurfi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða. Einnig er tekið fram að girðing á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa. Með hinu kærða byggingarleyfi var heimiluð stækkun bíslags til norðurs, en bíslag þetta liggur fast upp að mörkum lóðar kæranda. Þá segir í byggingarlýsingu hins kærða leyfis að sorpgeymslum verði komið fyrir vestan megin á lóðinni og settir upp skjólveggir og núverandi grindverk á lóðarmörkum endurnýjað. Er þar um að ræða skjólveggi og grindverk á lóðamörkum kæranda og leyfishafa. Leyfi fyrir stækkun bíslagsins, auk nefndra skjólveggja og grindverks, er þannig í andstöðu við þá skilmála deiliskipulagsins er áskilja samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða og veldur sá annmarki ógildingu.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er innan við 4 m fjarlægð milli húss kæranda og húss þess er hið kærða leyfi tekur til. Röng eða ónákvæm tilgreining í byggingarlýsingu á samþykktum teikningum um að fjarlægðin sé 4,2 m er ekki slík að hún geti haft áhrif á gildi hins kærða leyfis. Í gildandi deiliskipulagi er hæð hússins ekki tilgreind að öðru leyti en því að húsið sé hæð og ris. Af gögnum málsins er ljóst að húsið hefur verið mælt upp og samkvæmt skráningartöflu samþykktri 18. maí 2015 er heildarhæð rishæðar 336 cm, þar af torf á þaki 16 cm. Í byggingarlýsingu kemur og fram að hæðarmál hafi verið mælt á teikningu og hafi komið út úr því 3,36 m. Verður þannig ekki séð að leyfið heimili neina þá hæðarbreytingu að raski hagsmunum kæranda eða sem sé í andstöðu við gildandi deiliskipulag. Loks verður ekki séð að brunavörnum sé áfátt miðað við byggingarlýsingu hins kærða byggingarleyfis.

Með hliðsjón af öllu framangreindu, og að teknu tilliti til  meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður hið kærða byggingarleyfi eingöngu fellt úr gildi að hluta, þ.e. að því er varðar stækkun bíslags, skjólveggi og grindverk.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. maí 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum Frakkastígs 26A, að því er varðar stækkun bíslags til norðurs, skjólveggi og grindverk, allt á lóðamörkum nefndrar lóðar og Frakkastígs 26.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
  Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

20/2013 Bakkafjörður urðunarsvæði

Með
Árið 2016, föstudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2013, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. janúar 2013 um að urðunarsvæði við Bakkafjörð, Langanesbyggð, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. febrúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir K, Bæjarási 9, Bakkafirði, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. janúar 2013 að urðunarsvæði við Bakkafjörð, Langanesbyggð, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2013, er barst nefndinni 4. s.m., kæra eftirtaldir stjórnarmenn Íbúasamtaka Bakkafjarðar persónulega og í þágu samtakana: Brynhildur Óladóttir, Skeggjastöðum, Björn Guðmundur Björnsson, Bæjarási 11 og Klara Sigurðardóttir, Hafnargötu 19, og einnig eftirtaldir aðilar: Áki Guðmundsson, Bæjarási 1, Halldór fiskvinnsla ehf., Hafnargötu 8, Þollur ehf., Vík og Bergþór Ólafsson, Kötlunesvegi 1, öll á Bakkafirði, sömu ákvörðun. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin úrskurði að urðunarsvæðið skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Þess er jafnframt krafist að frestað verði réttaráhrifum ákvörðunarinnar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Þar sem sama ákvörðun er kærð í báðum málum og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 27/2013, sameinað máli þessu. Með hliðsjón af því að um urðunarsvæði er að ræða sem hefur verið í notkun í fjölda ára þykir ekki ástæða til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu hluta kærenda og er málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 20. mars 2013.

Málavextir: Sorpurðunarsvæði hefur verið við Bakkafjörð í um 20 ár. Starfsleyfi var fyrst gefið út fyrir urðunarsvæðið til 10 ára hinn 5. september 2002. Það starfsleyfi gilti fyrir meðhöndlun á „allt að 200 tonnum á ári á neyslu- og rekstrarúrgangi á urðunarstað Skeggjastaðahrepps við Bakkafjörð“. Gilti leyfið eingöngu fyrir meðhöndlun á úrgangi frá Skeggjastaðahreppi og nánasta umhverfi. Þórshafnarhreppur og Skeggjastaðahreppur sameinuðust árið 2006 í sveitarfélagið Langanesbyggð og eftir það var urðunarsvæðið nýtt fyrir það sveitarfélag í heild sinni. Starfsleyfi vegna urðunarsvæðisins rann út 5. september 2012 og með bréfi, dags. 19. desember s.á., tilkynnti Langanesbyggð til Skipulagsstofnunar um framkvæmd fyrir urðunarsvæði við Bakkafjörð þar sem sótt hefði verið um áframhaldandi starfsleyfi fyrir urðunarsvæðið til 16 ára. Kemur fram í tilkynningu að magn þess úrgangs sem sótt sé um leyfi fyrir urðun á sé óbreytt frá fyrra starfsleyfi eða 200 tonn á ári.

Skipulagsstofnun leitaði eftir umsögnum Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Umhverfisstofnunar og Langanesbyggðar og lágu þær umsagnir fyrir í lok janúar 2013. Komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu 30. janúar 2013 að urðunarsvæði við Bakkafjörð, Langanesbyggð, væri ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að upphaflega hafi verið veitt starfsleyfi fyrir „urðunarsvæði Skeggjastaðahrepps við Bakkafjörð“ án nánari tilgreiningar á urðunarstað. Urðun á hinu umdeilda svæði hafi hafist um 10 árum áður en starfsleyfið var gefið út og hafi verið haldið áfram á sama stað. Hafi leyfið gilt „eingöngu fyrir meðhöndlun á úrgangi frá Skeggjastaðahreppi og nánasta umhverfi“. Við útgáfu leyfisins hafi íbúar hreppsins verið um 130 en eftir sameiningu hreppsins við Þórshafnarhrepp árið 2006 hafi urðunarsvæðið verið nýtt fyrir allan hinn nýja hrepp, sem nú hafi talið um 530 íbúa. Íbúar á Bakkafirði, sem séu um 80 með fasta búsetu en fleiri á sumrin, búi við þá óvissu ef ekki fari fram umhverfismat að mengun geti stafað af áframhaldandi nýtingu urðunarsvæðisins, sem einungis sé í 550 metra fjarlægð frá byggðinni. Sorpmagn verði umtalsvert meira en gert hafi verið ráð fyrir í starfsleyfinu frá 2002, enda um að ræða sorp frá margfalt fleiri íbúum. Þótt ekki sé gert ráð fyrir breytingum á hámarksmagni urðaðs úrgangs frá eldra starfsleyfi sé fyrirséð að raunveruleg urðun muni fimmfaldast. Nokkur tilvik hafi komið upp varðandi brot á starfsleyfisskilyrðum og/eða kvartanir vegna umgengni á svæðinu. Hafi m.a. verið urðaður úrgangur á svæðinu umfram heimildir og fok og lyktarmengun verið á svæðinu, auk aukningar umferðar og óþæginda vegna meiri aksturs gegnum Bakkafjörð.

Sveitarstjórn Langanesbyggðar sé kunnugt um áhyggjur íbúa og fasteignaeigenda á Bakkafirði af áframhaldandi rekstri urðunarsvæðisins og sæti furðu að sveitarstjórnin, sem gæta eigi hagsmuna alls sveitarfélagsins, haldi máli þessu til streitu, en fram að þessu hafi því verið lýst yfir af hálfu sveitarstjórnar að notkun á urðunarsvæðinu væri til bráðabirgða og stefnt væri að því að urðunarsvæði við þéttbýli yrðu lögð niður. M.a. sé gert ráð fyrir í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs í Langanesbyggð 2005-2020 að urðunarstaðnum á Bakkafirði verði lokað. Um sé að ræða bindandi áætlun sveitarfélags um þessi atriði samkvæmt lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Mótmæli íbúa Bakkafjarðar hafi að engu verið höfð í málinu og ljóst sé að þrátt fyrir yfirlýsingar um breytingar hafi ekki verið unnið að því að skoða aðra valkosti í urðunarmálum. Áður en tilkynning hafi verið send til Skipulagsstofnunar hafi ekkert komið fram um það í bókunum sveitarstjórnar. Framkvæmdaraðili sé sveitarfélag þar sem bindandi ákvarðanir skuli teknar á fundum sveitarstjórnar samkvæmt lögformlegum leiðum.

Starfsleyfi urðunarsvæðisins sé runnið út og því umdeilanlegt að hægt sé að líta á fyrirætlanir um urðunarstaðinn sem breytingar eða viðbætur við eldri framkvæmdir í skilningi 13. tl. 2. viðauka við lög nr. 106/2000. Þegar rætt sé um umhverfisáhrif nærri þéttbýli sé ljóst að líta verði til áhrifa á samfélagið í heild. Verulegu máli skipti fyrir lífsgæði íbúa Bakkafjarðar og ímynd svæðisins hvort þeim verði gert að búa við hlið urðunarstaðar. Einnig sé það mikilvægt fyrir samfélagið að íbúar njóti öryggis, t.a.m. varðandi heilbrigði. Urðunarstaður skapi óvissu um mengun af ýmsu tagi, sem haft geti áhrif á heilsu fólks. Ljóst sé að verulega skorti á að Skipulagsstofnun og umsagnaraðilar hafi hugað að ofangreindri sérstöðu urðunarstaðarins vegna nálægðar hans við þéttbýli.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar sé haldin verulegum annmörkum. Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 sé kveðið á um að við ákvörðun um matsskyldu skuli Skipulagsstofnun fara eftir viðmiðum í 3. viðauka laganna. Áður skuli stofnunin leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Þessi skilyrði laganna hafi ekki verið uppfyllt við ákvörðun Skipulagsstofnunar. Stofnunin hafi leitað álits Langanesbyggðar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og Umhverfisstofnunar en henni hefði einnig borið að leita álits íbúa og fasteignaeigenda á Bakkafirði sem eigi verulegra hagsmuna að gæta í málinu. Sveitarstjórn, sem stefni að áframhaldandi sorpurðun við Bakkafjörð, geti ekki verið málssvari þeirra sjónarmiða íbúa Bakkafjarðar að hættulegri mengun kunni að stafa af áframhaldandi sorpurðun þar.

Í ákvörðun sinni taki Skipulagsstofnun „undir með umsagnaraðilum um að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verði óveruleg“. Síðar segi: „Í samræmi við 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b. hefur Skipulagsstofnun farið yfir þau gögn sem lögð voru fram af hálfu Langanesbyggðar við tilkynningu, umsagnir og viðbrögð framkvæmdaraðila vegna þeirra.“ Stofnunin taki síðan ákvörðun á grundvelli nefndra gagna. Kærendur geri athugasemdir við þau gögn sem byggt hafi verið á við ákvörðunina. Tilkynning um framkvæmdina hafi einungis fjallað að takmörkuðu leyti um atriði sem talin séu upp í 3. viðauka og því hafi forsendur ákvörðunarinnar verið ófullnægjandi.

Varðandi mat á eðli framkvæmdarinnar hefði verið nauðsynlegt að meta stærð framkvæmdarinnar í ljósi raunstækkunar á umfangi, þ.e. margföldun íbúafjölda sem urðunarsvæðið eigi að þjóna. Sammögnunaráhrif verði vegna opinnar efnisnámu á svæðinu og staðsetning framkvæmdarinnar skipti meginmáli. Hugsanlegar minjar um byggðasögu svæðisins geti verið í nágrenninu en Skipulagsstofnun hafi ekki haft samband við Fornleifavernd Íslands. Staðsetning urðunarstaðar leiði til þess að eftir lokun staðarins sé ekki hægt að nýta land í áratugi þar á eftir og afturkræfni áhrifa sé því lítil.

Álit Langanesbyggðar verði seint talið byggjast á hlutlausum forsendum vegna þess að því sé ætlað að þjóna áætlunum sveitarfélagsins um urðunarstaðinn. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra byggi í sínu áliti á gögnum frá Langanesbyggð en geri enga sjálfstæða athugun á því hvort og þá að hvaða leyti hin fjölmörgu viðmiðunaratriði sem upp séu talin í 3. viðauka eigi við um urðunarstaðinn í Bakkafirði. Engu að síður vísi heilbrigðiseftirlitið til nefnds 3. viðauka í þeirri niðurstöðu sinni að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Umsögn þessi hljóti af þessum sökum að vera marklaus. Í umsögn Umhverfisstofnunar segi m.a.: „Talið er að áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar verði lítil á gróður og dýralíf þar sem framkvæmdasvæðið er ýmist raskað eða lítt gróið. Helstu áhrifin eru talin geta verið vegna hugsanlegrar mengunar sigvatns.“ Umhverfisstofnun hafi enga faglega úttekt gert á urðunarstaðnum við Bakkafjörð með hliðsjón af viðmiðum 3. viðauka. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 sé Skipulagsstofnun skylt að fara eftir viðmiðum 3. viðauka laganna við ákvörðun um matsskyldu og eigi stofnunin sjálf að gera rannsókn á því hvort fullnægt sé öllum þeim viðmiðum. Vettvangsskoðun hljóti því að vera óhjákvæmileg. Lagaákvæðið heimili ekki stofnuninni að byggja ákvörðun sína eingöngu á umsögnum annarra, þótt um nothæfar umsagnir væri að ræða, sem hafi ekki verið raunin í þessu máli. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli ónógra upplýsinga um mikilvæga þætti framkvæmdarinnar. Í ljósi varúðarreglu umhverfisréttar og markmiða laga nr. 106/2000 sé ljóst að vafa beri að túlka í hag umhverfis og með það að leiðarljósi að réttur almennings til að koma að sjónarmiðum nýtist.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun vísar til þess að samkvæmt framlögðum gögnum framkvæmdaraðila muni nýtt starfsleyfi ekki fela í sér breytingu á árlegri urðun frá eldra starfsleyfi, þ.e. 200 tonn á ári. Árleg urðun megi því ekki verða meiri en leyfi hafi verið fyrir fram að þessu. Starfsemi urðunarsvæðisins muni fara fram á svæði sem sé 1,18 ha og þar af sé fyrirhugað að 1 ha svæðisins geti tekið við því sorpi sem taka eigi við næstu ár. Sveitarfélaginu virðist hins vegar vera ljóst að til framtíðar sé æskilegra að finna framtíðarurðunarstað byggðarlagsins annan stað, sem taki þá væntanlega mið af þeim möguleika að íbúafjöldi sveitarfélagsins eigi eftir að margfaldast miðað við stefnu í aðalskipulagi.

Viðmið 3. viðauka í lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, skiptist í þrjá kafla sem liggi alltaf til grundvallar ákvarðanatöku Skipulagsstofnunar. Við ákvarðanatöku séu þessir þættir skoðaðir í samhengi. Í 1. kaflanum í 3. viðauka sé fjallað um eðli framkvæmdarinnar þar sem fram komi að skoða þurfi stærð og umfang, sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum, nýtingu náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar og ónæðis og slysahættu. Viðmið um umfang áframahaldandi urðunar sé þó nokkuð undir viðmiðum tl. 12 í 1. viðauka laga nr. 106/2000, sem feli í sér að urðun yfir 500 tonnum á ári verði að fara í mat á umhverfisáhrifum. Telji Umhverfisstofnun í umsögn sinni, dags. 22. janúar 2013, að um sé að ræða „tiltölulega lítið magn úrgangs sem urðað verður á svæði sem nýtt hefur verið sl. 20 ár til urðunar.“

Ekki sé önnur starfsemi í nágrenni urðunarsvæðisins sem gæti haft í för með sér að umhverfisáhrif starfseminnar magnist upp og ekki feli framkvæmdin í sér nýtingu eða bein áhrif á náttúruauðlindir. Hún muni fela í sér einhverja úrgangsmyndun, sem skili sér í jarðveg, vatn og andrúmsloft en hins vegar bendi tilhögun framkvæmdarinnar og starfsemi ekki til þess að miklar líkur séu á að mengun verði frá afrennsli svæðisins, lykt eða foki úrgangs. Þá komi fram í gögnum málsins að svæðið hafi verið afgirt og því ætti ekki að vera slysahætta af því.

Ákvörðunin sem tekin hafi verið snúi að áframhaldandi urðun allt að 200 tonna á ári á urðunarsvæðinu við Bakkafjörð. Í starfsleyfisumsókn sé gert ráð fyrir að leyfið sé til ársins 2028 og gæti því heildarmagn þess úrgangs sem urðaður yrði á svæðinu orðið allt að 3.200 tonn. Kæmi til þess að svæðið dygði ekki til að taka við úrgangi frá auknum fjölda íbúa svæðisins þyrfti sveitarfélagið að leita annarra leiða.

Viðmið 2. kafla í 3. viðauka snúi að staðsetningu framkvæmdar en í því felist athugun á því hversu viðkvæmt það svæði sé sem líklegt sé að verði fyrir áhrifum af framkvæmdinni, einkum með tilliti til landnotkunar sem fyrir sé eða fyrirhuguð, skv. skipulagsáætlun, verndarsvæða af ýmsum toga og álagsþols náttúrunnar. Á umræddu svæði sé ekki að finna verndarsvæði af neinu tagi, eða aðra þá þætti sem snerti 2. kafla 3. viðaukans. Þá sé urðunarsvæðið utan þeirra fjarlægðarmarka sem kveðið sé á um í 24. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Þar segi að óheimilt sé að hafa íbúðarhús nær en 500 metra frá mengandi atvinnustarfsemi, svo sem urðun.

Í 3. kafla í 3. viðauka sé talað um þætti sem snúi að eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdar. Skoða skuli áhrif framkvæmdar í ljósi viðmiðana í 1. og 2. kafla, svo sem með tilliti til umfangs umhverfisáhrifa, þ.e. þess svæðis og fjölda fólks sem ætla má að verði fyrir áhrifum, stærð og fjölbreytileika áhrifa, líkunum á áhrifum, tíðni og afturkræfni áhrifa og sammögnun ólíkra umhverfisáhrifa.

Nokkur fjarlægð sé frá urðunarsvæðinu að íbúðabyggð og möguleg lyktarmengun ætti að vera lágmörkuð þar sem úrgangur verði fergður jafnóðum. Samkvæmt gögnum frá framkvæmdaraðila hafi ekki borið á lyktarmengun frá svæðinu. Þá sé gert ráð fyrir að þess verði gætt að rusl liggi ekki á yfirborði svæðisins eða fjúki um svæðið. Starfsemin muni þurfa nýtt starfsleyfi, skv. 6. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, og rekstraraðila beri að fylgja áætlun um vöktun og eftirlit urðunarstaðarins. Þar sé gert ráð fyrir að vakta mengandi efni í sigvatni og taki framkvæmdaraðili það fram að fari mengunarvaldandi efni yfir viðmiðunarmörk verði fyrirkomulag urðunar yfirfarið. Varðandi rök um sammögnunaráhrif urðunarsvæðis með efnisnámu á svæðinu sé það álit Skipulagsstofnunar að umfang efnistökusvæðisins sé ekki mikið, en samkvæmt Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 sé það 1,3 ha og gert sé ráð fyrir 16.000 m³ efnistöku, sem sé undir viðmiðum 2. viðauka laga nr. 106/2000. Í umsögn Umhverfisstofnunar, sem eigi að framfylgja vöktun á svæðinu, komi ekkert fram um að merki séu um að hættuleg mengun sé yfirvofandi þrátt fyrir áframhaldandi starfsemi urðunarsvæðisins.

Út frá viðmiðum 3. viðauka laga nr. 106/2000 telji Skipulagsstofnun að fyrirhuguð starfsemi muni ekki fela í sér umtalsverð umhverfisáhrif en þau séu skýrð þannig í o-lið 1. mgr. 3. gr. laganna að það séu „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 beri Skipulagsstofnun að leita álits leyfisveitenda og annarra eftir eðli máls. Stofnunin leiti alla jafna ekki eftir umsögnum íbúa eða eigenda húsnæðis í nágrenni framkvæmda, enda sé megintilgangur umsagna á þessu stigi að fá fagaðila til þess að bregðast við gögnum framkvæmdaraðila og veita Skipulagsstofnun álit á því hvort líklegt sé að framkvæmdin kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt viðmiðum 3. viðauka laga nr. 106/2000. Aðkoma almennings að áætlunum um framkvæmdir og umhverfisáhrif þeirra sé hins vegar tryggð í kynningu skipulagsáætlana og umhverfismats þeirra skv. skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 og einnig við auglýsingu starfsleyfis. Við kynningu á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 og umhverfismati þess hafi borist athugasemdir frá almenningi við urðunarsvæðið. Í umhverfisskýrslu aðalskipulagsins komi fram að áhrif urðunarsvæðisins yrðu ekki neikvæð á þá umhverfisþætti sem lagt hafi verið mat á, þ. á m. samfélag. Þá sé í farvatninu kynning á deiliskipulagi urðunarsvæðisins og muni íbúar geta komið athugasemdum sínum á framfæri við sveitarfélagið þegar skipulagið og umhverfisskýrsla þess verði kynnt. Almenningi sé því tryggð aðkoma að málinu þrátt fyrir að hafa ekki fengið að veita umsagnir til Skipulagsstofnunar vegna þeirrar ákvörðunar um matsskyldu sem kæran snúist um. Þá muni tillaga að starfsleyfi hljóta opinbera kynningu, þar sem íbúar Bakkafjarðar muni geta komið athugasemdum sínum á framfæri skv. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

Vegna þeirrar fullyrðingar kærenda að sveitarstjórn Langanesbyggðar geti ekki verið málsvari sjónarmiða íbúa Bakkafjarðar sé bent á að Skipulagsstofnun beri lögum samkvæmt að óska umsagna leyfisveitenda, þ.m.t. sveitarfélaga sem veiti framkvæmdaleyfi, og því hafi verið óskað eftir umsögn Langanesbyggðar í málinu. Það sé hlutverk sveitarstjórna að gæta að hagsmunum íbúa sveitarfélagsins skv. 24. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Í kæru séu athugasemdir gerðar við umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vegna þess að þar sé vísað til tilkynningar Langanesbyggðar vegna deiliskipulags urðunarsvæðisins. Í gögnum þeim sem Heilbrigðiseftirlitið hafi fengið vegna málsins hafi verið greint frá staðháttum, framkvæmd og mögulegum áhrifum og í ljósi þeirra og þeirrar þekkingar sem Skipulagsstofnun ætli að fulltrúar heilbrigðiseftirlita hafi á sínu umdæmi, dragi stofnunin ekki í efa það sem fram hafi komið í nefndri umsögn. Það sama megi segja um umsögn Umhverfisstofnunar, sem sé leyfisveitandi starfsleyfis og eftirlitsaðili svæðisins. Skipulagsstofnun telji því umsagnir þessara fagaðila hafa verið fullgildar sem rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar. Hvorki ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 né ákvæði 11. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005 kveði á um skyldu stofnunarinnar til að gera sjálfstæða rannsókn á því hvort öllum viðmiðum 3. viðauka sé fullnægt, svo sem kærandi haldi fram. Heimili umrædd ákvæði stofnuninni að byggja ákvörðun sína eingöngu á umsögnum annarra, auk framlagðra gagna framkvæmdaraðila.

Loks hafi ekki verið ástæða til að leita eftir áliti Fornleifaverndar ríkisins, nú Minjastofnun Íslands, í ljósi þess að urðunarsvæðið sé malarnáma sem hafi verið í rekstri í um 20 ár. Hefði verið talið að fornminjar væru á svæðinu væru þær komnar fram.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu Langanesbyggðar er á það bent að urðunarstaðurinn hafi verið starfræktur á þessum stað um langt skeið og því ekki um eiginlega nýja framkvæmd að ræða. Þágildandi starfsleyfi fyrir urðunarstaðinn hafi runnið út í byrjun september 2012 og reynt hafi verið að sækja um undanþágu frá starfsleyfi á meðan aðrar leiðir í úrgangslosun væru kannaðar. Ljóst hefði orðið að slík undanþága yrði ekki veitt en Langanesbyggð gert að sækja um fullgilt starfsleyfi, enda engin önnur lausn við urðun úrgangs í sveitarfélaginu. Til að hægt sé að sækja um starfsleyfi þurfi að vinna deiliskipulag af svæðinu og senda inn tilkynningu vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Hafi það verið gert eins og lög kveði á um.

Urðunarstaðurinn sé í hvarfi frá þéttbýlinu og ætti ekki að hafa truflandi áhrif á daglegt líf íbúa. Engar formlegar kvartanir hafi borist sveitarfélaginu á undanförnum árum, hvorki vegna sjón-, lyktar-, ryk- eða annarrar mengunar sem tengist svæðinu. Í febrúar 2012 hafi sveitarstjóri, skipulagsfulltrúi og fulltrúi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, ásamt fulltrúum Íslenska gámafélagsins, farið á svæðið og hitt þar umsjónarmann þess. Þar hafi umgengnin undanfarið verið mjög góð en innan svæðisins sé einnig rekið geymslusvæði fyrir stærri tæki í eigu íbúa og malarnáma aðgengileg íbúum til notkunar í a.m.k. 20 ár. Kærur vegna málsins virðist ekki vera í samhengi við raunverulegt ástand svæðisins. Ekki sé heldur auðvelt að sjá hvernig lokun urðunarsvæðisins myndi hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf eða aðra uppbyggingu á Bakkafirði þar sem aukinn kostnaður myndi hljótast af því að keyra úrgang um langar leiðir í önnur sveitarfélög til urðunar. Á síðustu árum hafi verið sett fram framtíðarstefna varðandi lausn urðunarmála sveitarfélagsins sem byggi á því að sorpurðun við Bakkafjörð verði lögð niður um leið og önnur raunhæf lausn bjóðist. Þangað til það gerist muni reglur um umgengni og eftirlit á urðunarsvæðinu verða hertar, sbr. skipulags- og matslýsingu fyrir svæðið.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá  30. janúar 2013 að urðunarsvæði á Bakkafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000, svo sem henni var breytt með 25. gr. laga nr. 131/2011, sæta ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sem falla undir 2. viðauka við lögin, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að umrædd fyrirhuguð framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Í nefndri 14. gr. laga nr. 106/2000 segir að um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kæruna fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þau eru nr. 130/2011. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. þeirra laga geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Í tilvitnuðu lagaákvæði er þó gerð sú undantekning að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geti kært nánar tilgreindar ákvarðanir, s.s. ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Frekari skilyrði eru í lagaákvæðinu fyrir kæruaðild umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka en þau skilyrði eiga ekki við um hagsmunasamtök. Íbúasamtök Bakkafjarðar voru stofnuð á árinu 2012 og í lögum samtakanna segir að tilgangur þeirra og markmið sé m.a. að vinna að framfara- og hagsmunamálum í hverfinu. Félagsmenn munu vera um 40 talsins. Lítur úrskurðarnefndin svo á að um hagsmunasamtök sé að ræða í skilningi framangreinds lagaákvæðis og að kæra í máli þessu samrýmist tilgangi þeirra.

Aðrir kærendur lýsa aðild sinni svo í kærum málsins að þeir séu íbúar á Bakkafirði, eigendur fasteigna á svæðinu, foreldrar barna í grunnskóla Bakkafjarðar og þátttakendur í samfélaginu á Bakkafirði sem liggi í 1-2 km fjarlægð frá hinu umdeilda urðunarsvæði. Einn kærenda sé starfsmaður í leik- og grunnskólanum en urðunarsvæðið sé í um 500 m fjarlægð frá honum og þar sé einnig gert ráð fyrir leik- og íþróttasvæði. Sá kærenda sem búi næst urðunarstaðnum verði fyrir verulegum óþægindum af urðunarstað á svæðinu, s.s. vegna lyktar, ryks af urðunarstaðnum og ryks vegna umferðar stórra tækja á ómalbikuðum vegum á svæðinu. Annar kærenda sé innan áhrifasvæðis urðunarsvæðisins. Þá eigi nánar tilgreindir kærendur fiskhjalla sem liggi nærri urðunarsvæðinu og starfræki einn þeirra útgerð. Framkvæmdaraðili hefur bent á að úrgangur sé fergður jafn óðum og að formlegar kvartanir um lyktarmengun hafi ekki borist um langa hríð. Það verður þó ekki fram hjá því litið að eðli málsins samkvæmt er urðun úrgangs til þess fallin að hafa í för með sér lyktarmengun og að slík mengun getur borist um langan veg ef veðurfarsskilyrði eru með ákveðnum hætti. Er því ekki hægt að útiloka að umrædd starfsemi geti snert lögvarða hagsmuni kærenda, sem eru ýmist eigendur fasteigna eða íbúar í innan við kílómeters fjarlægð frá urðunarstaðnum, starfa þar eða eiga börn sem þar stunda skóla.

Í þágildandi 2. viðauka við lög nr. 106/2000 eru taldar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Eru þar á meðal taldar breytingar og viðbætur við framkvæmdir skv. 1. og 2. viðauka laganna sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. tl. 13. a. Tilkynnti framkvæmdaraðili áform sín til Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 með vísan til nefnds tölu- og stafliðar og segir í niðurstöðu stofnunarinnar að framkvæmdin sé tilkynningarskyld samkvæmt honum. Kærendur hafa dregið í efa að um breytingar eða viðbætur við eldri framkvæmdir sé að ræða þar sem starfsleyfi hins umdeilda urðunarsvæðis hafi runnið út áður en meðferð málsins hófst. Að mati úrskurðarnefndarinnar á tl. 11. b. í 2. viðauka við um framkvæmdina, enda er um förgunarstöð að ræða þar sem úrgangur er urðaður og er magn hans minna á ári en miðað er við í 12. tl. í 1. viðauka laganna. Það raskar þó ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda er sama málsmeðferð viðhöfð óháð því hvaða lið 2. viðauka heimfært er til.

Í lögum nr. 106/2000 er gert ráð fyrir ákveðnu samráði, þannig skal stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmda sem falla undir ákvæði laganna, sbr. c-lið 1. gr., og er það jafnframt markmið laganna að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda sem falla undir ákvæði þeirra, sem og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Lögin gera hins vegar almennt ráð fyrir þessari aðkomu á síðari stigum, þ.e. þegar mat á umhverfisáhrifum fer fram, en ekki þegar ákvörðun er tekin um matsskyldu framkvæmdar skv. 2. mgr. 6. gr. og bar Skipulagsstofnun því ekki að leita sérstaklega eftir áliti íbúa áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Kærendur halda því fram að hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar sé byggð á ófullnægjandi gögnum og hafi stofnunin þar með brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Stofnunin byggi ákvörðun sína einvörðungu á gögnum frá þriðju aðilum en hefði átt að framkvæma sjálfstæða rannsókn á málinu til þess að uppfylla rannsóknarskyldu sína.

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 er fjallað um málsmeðferð Skipulagsstofnunar við töku ákvörðunar um matsskyldu framkvæmda sem taldar eru í 2. viðauka við lögin. Þegar svo háttar ber framkvæmdaraðila að tilkynna Skipulagsstofnun um framkvæmd og skulu tilkynningunni fylgja gögn þau sem tíunduð eru í 1. mgr. 10. gr. þágildandi reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005. Við ákvörðun um matsskyldu skal Skipulagsstofnun fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lög nr. 106/2000 en áður skal stofnunin leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni.

Gögn þau er fyrrnefnd 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 kveður á um að skuli fylgja tilkynningu um framkvæmd eru talin upp í sex stafliðum. Er þar m.a. um að ræða lýsingu á fyrirhugaðri framkvæmd, umfangi hennar og helstu framkvæmda- og rekstrarþáttum, uppdrátt af fyrirhugaðri framkvæmd og afstöðu hennar í landi og upplýsingar um hvernig fyrirhuguð framkvæmd falli að gildandi skipulagsáætlunum. Enn fremur lýsing á staðháttum, landslagi, gróðurfari og landnotkun og hvort fyrirhugað framkvæmdasvæði sé á eða nærri verndarsvæðum sem og hvaða þættir framkvæmdar og/eða rekstrar valdi helst áhrifum á umhverfið. Og að síðustu upplýsingar um fyrirliggjandi álit umsagnaraðila og annarra eftir eðli máls sem framkvæmdaraðili kann að hafa leitað eftir.

Tilkynningu framkvæmdaraðila í máli þessu fylgdi skýrsla um fyrirhugaða framkvæmd. Í henni eru kaflar um matsskyldu, skipulagslega stöðu svæðisins, lýsing á framkvæmdarsvæði, framkvæmdalýsing – fyrirkomulag sorphirðu og urðunar, fyrirkomulag urðunar, áhrifasvæði, hugsanleg áhrif framkvæmdar, þ.á m. möguleg umhverfisáhrif á sigvatn og jarðveg, gróður og dýralíf, lykt, fok og ásókn meindýra, efnahag og atvinnulíf og ásýnd lands. Einnig er fjallað um áætlaðar mótvægisaðgerðir vegna nefndra mögulegra umhverfisáhrifa. Í lokakafla er síðan fjallað um vöktunaráætlun, þar sem fram kemur að sigvatn verði sá umhverfisþáttur er krefjast muni vöktunar. Var með nefndri skýrslu uppfyllt skilyrði 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um gögn þau er fylgja skulu tilkynningu um framkvæmdir.

Í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 kallaði Skipulagsstofnun eftir áliti framkvæmdaraðila, sem er Langanesbyggð, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Var það samhljóða álit þeirra að framkvæmdin myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi 1. mgr. 6. gr. laganna og því ekki skylda til að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram sá fyrirvari að nauðsynlegt sé að vakta hugsanlega mengun sigvatns á svæðinu. 

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Er tekið fram í athugasemdum frumvarps þess sem varð að lögunum að í reglunni felist m.a. sú skylda stjórnvalds að sjá til þess að eigin frumkvæði að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í reglunni felist hins vegar ekki að stjórnvald þurfi sjálft að afla allra upplýsinga. Skipulagsstofnun byggði ákvörðun sína á framangreindum gögnum frá framkvæmdaraðila og umsögnum eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, hins vegar er ljóst af lestri ákvörðunar Skipulagsstofnunar að niðurstaða hennar byggir einnig á sjálfstæðu mati stofnunarinnar á því hvort framkvæmdin skuli vera háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærendur halda því einnig fram að í ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi ekki verið tekið nægjanlegt tillit til ákveðinna atriða sem skuli vera þáttur í mati samkvæmt 3. viðauka við lög nr. 106/2000.

Samkvæmt o. lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar sem tilgreind er í 2. viðauka ber Skipulagsstofnun að fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin, en þar eru taldir þeir þættir sem líta ber til, eins og áður hefur komið fram. Er þar fyrst tiltekið að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, nýtingar náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar, ónæðis og slysahættu. Þá ber og að líta til staðsetningar framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar.

Í ákvörðun sinni rekur Skipulagsstofnun sérstaklega ýmis atriði úr þeim gögnum sem áður er lýst, t.a.m. lýsingu á stærð og umfangi fyrirhugaðrar framkvæmdar, fyrri notkun urðunarsvæðisins og starfsleyfi vegna þess, áhrif á núverandi landnotkun, fjarlægð urðunarsvæðisins frá þéttbýlinu á Bakkafirði, það sé afgirt með eins meters hárri girðingu og læstu hliði. Úrgangur sé hulinn strax að lokinni urðun og urðunarsvæðið sé ekki sjáanlegt frá íbúðarbyggð. Þá tiltekur Skipulagsstofnun að um möguleg áhrif á gróður og fugla vísi framkvæmdaraðili til þess að stór hluti framkvæmdasvæðisins sé nú þegar raskaður eða lítt gróinn og bendi Umhverfisstofnun á slíkt hið sama í sínu áliti. Að sama skapi greinir Skipulagsstofnun frá umfjöllun framkvæmdaraðila um áhrif á sigvatn og álit Umhverfisstofnunar þar um. Sú stofnun bendi á að um sé að ræða tiltölulega lítið magn úrgangs sem urðað verði á svæði sem nýtt hafi verið síðastliðin 20 ár til urðunar, samkvæmt lögum beri viðkomandi rekstraraðila að fylgja áætlun um eftirlit og vöktun urðunarstaðarins, gert sé ráð fyrir að magn mengandi efna í sigvatni sé sá þáttur sem þurfi að vakta og sé það ætlun framkvæmdaraðilans. Þá er rakið það álit Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra að þar sem Umhverfisstofnun veiti starfsleyfi fyrir urðunarstaðinn sé eðlilegt að stofnunin annist einnig vöktun.

Í niðurstöðu sinni tekur Skipulagsstofnun undir það með umsagnaraðilum að umhverfisáhrif af fyrirhugaðri framkvæmd verði óveruleg. Sérstaklega er tiltekin sú staðreynd að um sé að ræða svæði þar sem urðun hafi farið fram undanfarin 20 ár og hafi verið sótt um endurnýjun starfsleyfis til 16 ára fyrir sama magn og heimilað hafi verið í starfsleyfi undanfarin 10 ár. Jafnframt sé urðunarsvæðið raskað eða lítt gróið. Ekki er vikið að sammögnunaráhrifum í hinni kærðu ákvörðun en Skipulagsstofnun hefur í greinargerð sinni til úrskurðarnefndarinnar í því sambandi vísað til þess að umfang efnistökusvæðis þess sem bent hafi verið á sé ekki mikið. Eðli málsins samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hvaða atriði úr 3. viðauka vega þyngra en önnur við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð.

Eins og áður er lýst var fjarlægðin á milli íbúðarbyggðarinnar og urðunarsvæðisins tiltekin í ákvörðun Skipulagsstofnunar og lá fyrir stofnuninni lýsing á staðháttum, eins og áður greinir. Liggur urðunarsvæðið utan þeirra fjarlægðarmarka sem tiltekin voru sem lágmarksfjarlægð mannabústaða og mengandi atvinnustarfsemi í þágildandi 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Þá verður að ætla að samfélagsleg áhrif framkvæmdarinnar hafi almennt verið þekkt, enda um að ræða framhald af starfsemi sem starfrækt hafði verið í 20 ár. Var því ekki tilefni fyrir Skipulagsstofnun að fjalla nánar um framangreind atriði, þ.e. áhrif framkvæmdar á samfélagið s.s. vegna nálægðar við íbúðabyggð. Af öllu framangreindu verður ekki annað séð en að Skipulagsstofnun hafi við ákvörðunartöku sína farið eftir þeim viðmiðum í 3. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sem máli skiptu og að niðurstaða stofnunarinnar, þess efnis að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð slíku mati, hafi verið réttmæt.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er enga þá annmarka að finna á hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er raskað geta gildi hennar og er því kröfu kærenda um ógildingu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. janúar 2013 að urðunarsvæði við Bakkafjörð, Langanesbyggð, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

107/2013 Kópavogsbakki

Með
Árið 2016, föstudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir, forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. september 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kópavogstúns vegna lóðanna nr. 2 og 4 við Kópavogsbakka.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. nóvember 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Kópavogsbakka 3, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. september 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kópavogstúns vegna lóðanna nr. 2 og 4 við Kópavogsbakka. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 19. september 2014.

Málsatvik og rök: Mál þetta á sér nokkra forsögu en deiliskipulag fyrir Kópavogstún er frá árinu 2005. Samkvæmt því var heimilt að reisa einnar hæðar einbýlishús á lóðum með jöfn númer 2-10 neðan götu við Kópavogsbakka. Máttu húsin vera allt að 230 m² að grunnflatarmáli en hús ofan götu, nr. 1-15, stök númer, allt að 175 m². Tekið var fram í greinargerð með skipulaginu að ekki væri heimilt að hafa kjallara. Breyting var gerð á deiliskipulaginu árið 2006 sem fólst í því að gatan var færð um 2 m til suðurs og lóðir ofan götu stækkaðar sem því nam. Þá var byggingarreitur þeirra stækkaður í 187 m². Lóðir neðan götu hliðruðust um 2 m og lengdust um 4 m til suðurs auk þess sem þær voru breikkaðar.  Byggingarreitir húsa neðan götu stækkuðu. Hámarksgrunnflötur húss nr. 2 varð 307 m² og hámarksgrunnflötur húsa nr. 4-10 varð 271 m². Landhalli er nokkur á svæðinu og eru húsin nr. 2 og 4 við Kópavogsbakka byggð á sökklum, en þar er hæðarmunur innan lóðar mestur neðan götu. Önnur hús neðan götunnar eru byggð á jarðvegspúða. Árið 2007 fékk fyrrum eigandi Kópavogsbakka 2 leyfi til að hafa „óuppfyllt ónotað“ rými í sökkli hússins og árið 2008 fengu eigendur Kópavogsbakka 4 leyfi til að nýta gluggalaust rými undir húsi sínu. Ágreiningur varð um frágang á lóðamörkum Kópavogsbakka 4 og 6, en samkomulag varð þar um með lóðarhöfum framangreindra lóða árið 2011.

Árið 2011 sótti eigandi Kópavogsbakka 2 um leyfi til að nýta áðurnefnt rými í sökkli hússins, en við þá breytingu yrði heildarflatarmál þess 465 m². Í kjölfarið var gerð tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna Kópavogsbakka 2 og 4 þar sem gert var ráð fyrir að húsin yrðu með kjallara. Var nefndri tillögu hafnað á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 24. maí 2011. Eigandi Kópavogsbakka 2 kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi synjunina úr gildi með úrskurði uppkveðnum 6. maí 2013.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 27. maí 2013 var lagður fram fyrrgreindur úrskurður úrskurðarnefndarinnar ásamt tillögu að deiliskipulagsbreytingu vegna Kópavogsbakka 2 og 4. Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 11. júní 2013. Samkvæmt tillögunni var heimilt að nýta sökkulrými undir einbýlishúsum á umræddum lóðum fyrir geymslur og íveruherbergi og að heildarflatarmál hússins nr. 2 yrði 465 m² og hússins nr. 4 yrði 445 m². Athugasemdir bárust, m.a. frá kærendum, á auglýsingatíma tillögunnar. Hinn 27. ágúst 2013 var tillagan lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar sem samþykkti hana ásamt fyrirliggjandi greinargerð skipulags- og byggingardeildar, dags. 23. s.m., þar sem m.a. var tekin afstaða til athugasemda kærenda. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar 10. september 2013 og var deiliskipulagsbreytingin síðan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar sem gerði ekki athugasemd við birtingu hennar. Öðlaðist breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. október s.á.

Kærendur benda á að skipulags- og byggingaryfirvöld hafi ítrekað misfarið með vald sitt til hagsbóta fyrir tvo húseigendur við Kópavogsbakka, sem ítrekað hafi farið freklega gegn gildandi skipulagi. Ómaklega og með íþyngjandi hætti hafi verið brotið gegn umtalsverðum hagsmunum annarra húseigenda við fyrrnefnda götu.
 
Góð sátt hafi náðst um það skipulag sem til hafi orðið við færslu götunnar og stækkunar lóða á árinu 2006. Þá hafi lóðin að Kópavogsbakka 2 verið stækkuð úr 626 m² í 724 m² án athugasemda nágranna. Jafnframt hafi allar þær smávægilegu breytingar sem einstakir lóðarhafar hafi fengið í gegn verið gerðar í góðri sátt við nágranna sem fengin hafi verið áður en farið hafi verið í framkvæmdir hverju sinni. Lóðahafar í nýjum hverfum, sem hafi keypt lóðir á verulega háu verði, hljóti að ætlast til þess að skipulagsyfirvöld hlutist til um að gera breytingar á samþykktu skipulagi í a.m.k. einhverri sátt við meginþorra lóðarhafa. Í þessu máli hafi skipulags- og byggingaryfirvöld hins vegar haft í fyrirrúmi hagsmuni þeirra sem ekki hafi farið að leikreglum skipulagsmála á kostnað þeirra sem fari að þeim reglum í hvívetna.

Mál þetta eigi sér langa forsögu og varði kæra þessi alla málsmeðferð skipulagsyfirvalda í Kópavogi frá upphafi til enda. Vegna ónákvæmrar meðferðar á grenndarkynningum málsins á fyrri stigum hafi ítarlegar athugasemdir annarra íbúa götunnar ekki komist fyllilega til skila í þeim kærumálum sem úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi haft til meðferðar á árunum 2011, 2012 og 2013. Heimild til að nýta kjallara undir norður hluta hússins að Kópavogsbakka nr. 15 undir eitt herbergi, þvottahús og snyrtingu geti ekki talist sambærileg eða verið fordæmi fyrir fyrirætlunum húseigenda að Kópavogsbakka 2. Aldrei verði hægt að breyta rýminu að Kópavogsbakka 15 í sjálfstæða íbúð eða nýta með verulega breyttum hætti. Þriggja metra hæðarmunur á plötu og lóð að Kópavogsbakka 2, sem haldið sé fram að sé við suðurhlið Kópavogsbakka 2, sé litlu meiri en gert hafi verið ráð fyrir í upphaflegu skipulagi götunnar, en þá skyldu hús vera á einni hæð með jarðvegspúða. Lítið sem ekkert hafi breyst í þessu efni við færslu götunnar.

Verðmat húsnæðis miðist við meðal fermetraverð við fyrri sölur í nágrenni þess. Stóru húsin að Kópavogsbakka 2 og 4 muni lækka meðalfermetraverðið í götunni og þar með verðmæti annarra húsa þar. Eftir ærinn tilkostnað hljóti fólk að hafa þær væntingar til samþykkts skipulags að því verði ekki breytt verulega með íþyngjandi hætti, m.a. til að klóra yfir margendurtekin mistök skipulagsyfirvalda.

Vandræði við frágang lóðarinnar nr. 6 við Kópavogsbakka hafi eingöngu komið til vegna framkvæmda við Kópavogsbakka nr. 4 sem hafi verið í andstöðu við samþykkt skipulag. Þá beri nokkuð á því að bílum sé lagt í götuna við áðurnefnt hús nr. 2 svo nálægt gatnamótum að beygja inn í götuna verði það þröng að hætta sé á óhappi, sér í lagi í hálku. Þannig hafi áhrif frá umferð verið veruleg við mikla fjölgun íbúa í nefndu húsi.

Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi eigandi Kópavogsbakka 2 sótt um byggingarleyfi með umsókn, dags. 11. október 2013, sem hafi verið samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 22. s.m. Það sé mat Kópavogsbæjar að hin kærða breyting á deiliskipulagi og afgreiðsla byggingarleyfis hafi verið lögmæt.

——-

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi fyrir Kópavogstún sem felur í sér að í stað einnar hæðar einbýlishúsa af gerðinni E2 að Kópavogsbakka nr. 2 og 4 megi á lóðunum standa húsagerð E3, sem er einbýlishús á einni hæð með kjallara. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti stækkar lóðin nr. 2 við nefnda götu til vesturs úr 724 m² í 777 m² sem veldur því að legu sameiginlegra bílastæða við Urðarbraut er breytt, en fjöldi þeirra er hins vegar óbreyttur. Stendur einbýlishús kærenda handan götu við Kópavogsbakka gegnt fyrrgreindum lóðum.

Byggingarreitum lóðanna að Kópavogsbakka 2 og 4 er ekki breytt með umdeildri skipulagsbreytingu og ekki er hróflað við notkun, fjölda íbúða eða ytra byrði húsa. Verður því ekki um að ræða aukin grenndaráhrif vegna skuggavarps eða skerðingar á útsýni. Í máli þessu er eingöngu til skoðunar lögmæti hinnar kærðu breytingar á deiliskipulagi, en ekki tekin afstaða til eldri ákvarðana um skipulag umrædds svæðis.

Þegar litið er til þess sem að framan er rakið verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting raski einstaklingsbundnum lögvörðum hagsmunum kærenda þótt með henni sé heimiluð nýting rýmis í sökkli áðurnefndra húsa, sem hefur verið til staðar frá byggingu þeirra. Skortir því á að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gerir að skilyrði fyrir kæruaðild og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að álitaefni um bótarétt vegna skipulagsákvarðana á ekki undir úrskurðarnefndina, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, heldur eftir atvikum undir dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir   

95/2015 Kísilverksmiðja í Helguvík

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2015, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 11. september 2015 um að veita starfsleyfi fyrir rekstri kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður:

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Austurgötu 29b, Hafnarfirði, og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 11. september 2015 að veita Thorsil ehf. starfsleyfi fyrir rekstri kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á grundvelli hins kærða leyfis eða frestun réttaráhrifa þess. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 3. nóvember 2015.

Málsatvik og rök: Hinn 11. september 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Thorsil ehf. fyrir rekstri kísilverksmiðju á lóð við Berghólabraut 8 á iðnaðarsvæði í Helguvík. Með leyfinu er rekstraraðila gefin heimild til að framleiða í fjórum ljósbogaofnum allt að 110.000 tonn á ári af hrákísli (>98% Si) og allt að 55.000 tonn af kísildufti og 9.000 tonn af kísilgjalli, auk þess að starfrækja verkstæði og aðra þjónustu sem heyri beint undir starfsemina. Birtist auglýsing um starfsleyfið í B-deild Stjórnartíðinda 29. september 2015.

Af hálfu Umhverfisstofnunar er á það bent að í 5. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 komi fram sú meginregla að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. og meginreglu 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar. Í undantekningartilfellum, sem skýra beri þröngt þar sem aðstæður mæli með því, sé úrskurðarnefnd heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra sé til efnislegrar meðferðar hjá nefndinni. Í kærunni komi ekki fram sérstakur rökstuðningur fyrir því af hverju nauðsynlegt sé að fresta réttaráhrifum ákvörðunar um veitingu starfsleyfis. Að mati stofnunarinnar þurfi að rökstyðja slíka kröfu.

Bent sé á að starfsemi rekstraraðila samkvæmt starfsleyfinu sé ekki hafin og muni ekki hefjast í bráð. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar sé ekki byrjað að reisa þau mannvirki á rekstrarsvæðinu sem nauðsynleg séu til þess að starfsemi þar geti hafist. Áætlað sé að uppbygging á svæðinu geti hafist vorið 2016 og geti tekið allt að tvö ár að standsetja verksmiðjuna svo hægt sé að hefja framleiðslu samkvæmt starfsleyfinu. Áætluð raforkuafhending sé vorið 2018, en þá áætli rekstraraðili að geta hafið framleiðslu. Þrátt fyrir starfsleyfið geti rekstraraðili ekki hafið framleiðslu strax. Auk þess að byggja upp aðstöðu þurfi að leggja fram vöktunaráætlun til samþykktar a.m.k. einu ári fyrir gangsetningu verksmiðjunnar, sbr. gr. 4.2. í starfsleyfinu.

Hagsmunir til frestunar réttaráhrifa hafi ekki verið tilgreindir en hagsmunir rekstraraðila af því að starfsleyfið sé í gildi geti hins vegar verið miklir.  

Af hálfu leyfishafa er á það bent að ekki séu til staðar lögmætir hagsmunir fyrir því að fresta réttaráhrifum leyfisins. Nægur tími sé til þess að ná efnislegri niðurstöðu áður en framkvæmdir sem valdi umhverfisraski hefjist. Frestun réttaráhrifa væri hins vegar til þess fallin að valda leyfishafa gríðarlegu tjóni, með því að setja ferli um fjármögnun verkefnisins, sem sé á lokastigum, í fullkomið uppnám. Verkefnið hafi þegar tafist verulega vegna þess að Umhverfisstofnun hafi verið mun lengur að afgreiða starfsleyfið en vænta hafi mátt og hafi verið farið út fyrir lögmælta fresti við afgreiðslu þess. Fyrir vikið sé þegar farið að reyna verulega á tímafresti sem leyfishafi hafi gagnvart ýmsum viðsemjendum sínum.  Frekari frestun gæti orðið til þess að ekkert yrði af verkefninu. Þessu til frekari stuðnings vísist til þess að ákvæði 5. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Ákvæðið beri því að skýra þröngt samkvæmt almennum reglum. 

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan kæra sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt.  Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Í máli þessu er deilt um gildi starfsleyfis vegna reksturs kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Kærendur hafa ekki rökstutt kröfu sína um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa. Með hliðsjón af rannsóknarskyldu úrskurðarnefndarinnar og andmælareglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 10. og 13. gr. laganna, hefur úrskurðarnefndin aflað þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að taka afstöðu til greindrar kröfu. Af þeim upplýsingum verður ráðið að rekstur samkvæmt hinu kærða starfsleyfi hefur ekki hafist og er fyrirsjáanlegt að hann mun ekki hefjast fyrr en efnisleg niðurstaða í máli þessu liggur fyrir. Er skilyrðum 5. gr. laga nr. 130/2011 um frestun réttaráhrifa þegar af þeirri ástæðu ekki fullnægt. Verður kröfum kærenda þar um því hafnað. Þá kemur ekki til álita að stöðva framkvæmdir enda felur starfsleyfi ekki í sér heimild til framkvæmda heldur til reksturs.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon

15/2015 Grettisgata

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 um að veita byggingarleyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu á lóð nr. 62 við Grettisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. febrúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir E, Grettisgötu 60, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu við Grettisgötu 62. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar svalir hússins.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 1. apríl 2015 og í janúar 2016.

Málavextir: Fasteignin að Grettisgötu 62 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur 1.190.1. Um er að ræða hús á horni Grettisgötu og Barónsstígs.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. maí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til þess m.a. að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í umræddu húsi. Var afgreiðslu málsins frestað og erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í júlí s.á. var auglýst tillaga að breytingu á fyrrnefndu deiliskipulagi vegna lóða nr. 62 við Grettisgötu og Barónsstígs 20a og öðlaðist greind breyting gildi 12. nóvember s.á. Fól breytingin m.a. í sér að umræddar lóðir yrðu sameinaðar og heimilt yrði að byggja að lóðarmörkum innan byggingarreits. Hús á lóðinni yrði þrjár hæðir, ásamt þakhæð með kvistum, og fjöldi íbúða átta, en heimild hafði verið fyrir því að byggja eina hæð ofan á húsið samkvæmt áður gildandi skilmálum. Þá væru svalir á 2. og 3. hæð heimilaðar út fyrir byggingarreit. Jafnframt var tekið fram að eldri skilmálar giltu að öðru leyti.

Umsókn um leyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu að Grettisgötu 62 var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. nóvember 2014. Var afgreiðslu málsins frestað, sem og á afgreiðslufundum embættisins 2. og 9. desember s.á. Erindið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi 22. desember s.á., það samþykkt og talið samræmast ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010. Var byggingarleyfi gefið út 6. mars 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi fest kaup á íbúð á þriðju hæð Grettisgötu 60 í desember 2014. Séu svalir á Grettisgötu 62, til vesturs út frá eldhúsi, allt of nálægt svefnherbergisgluggum á annarri og þriðju hæð Grettisgötu 60. Ekki sé ljóst af teikningum frá 2010 að um svalir sé að ræða. Á seinni teikningum sé óljóst að svalir séu frá eldhúsi og ekki komi þar heldur fram að svalir séu rétt við svefnherbergisglugga íbúðar kæranda. Þá hafi kærandi reynt að afla sér upplýsinga hjá sveitarfélaginu um framkvæmdir á umræddri lóð í desember 2014, en engin svör fengið. Það hafi fyrst verið á fundi með umhverfis- og skipulagsráði 21. janúar 2015 sem kærandi hafi séð samþykktar teikningar að Grettisgötu 62.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að kæru sé vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Að öðru leyti sé öllum kröfum kæranda hafnað. Hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits. Hafi auglýsing um gildistöku breytingarinnar verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember 2014. Byggingarleyfi hafi verið samþykkt og gefið út 22. desember s.á. og staðfest í borgarráði 8. janúar 2015. Úrskurðarnefndinni hafi borist kæra í málinu 19. febrúar 2015 og hafi kærufrestur þá verið liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að árið 2010 hafi verið lögð inn fyrirspurn til byggingarnefndar um stækkun hússins. Á teikningu er fylgt hafi fyrirspurn séu sýndar skáskornar svalir. Í byrjun árs 2014 hafi verið sótt um að breyta deiliskipulagi lóðanna Grettisgötu 62 og Barónsstígs 20a. Í umsókninni hafi verið sýndar svalir, líkt og í fyrirspurn. Á samþykktum byggingarnefndarteikningum séu svalir óbreyttar frá fyrirspurn og samþykktu deiliskipulagi. Ekkert komi fram í byggingarreglugerð sem komi í veg fyrir þessa útfærslu á svölum. Hafi þær verið skáskornar af tilliti til íbúa Grettisgötu 60, en á þann hátt verði ekki innsýn frá svölum í þær íbúðir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis er heimilar m.a. stækkun hússins að Grettisgötu 62 og lýtur kröfugerð kæranda að svölum á annarri og þriðju hæð. Hefur Reykjavíkurborg gert kröfu um frávísun málsins með vísan til þess að kæra hafi ekki borist úrskurðarnefndinni innan lögboðins kærufrests. 

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, nema á annan veg sé mælt fyrir um í lögum. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr, eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki liggur annað fyrir en að kæranda hafi fyrst á fundi með umhverfis- og skipulagsráði 21. janúar 2015 orðið kunnugt um samþykkt byggingarleyfis vegna Grettisgötu 62. Ekki verður fullyrt að kæranda hafi mátt vera efni þess ljóst fyrr en þá. Kæra barst í málinu 19. febrúar 2015 og því innan áskilins kærufrests. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Húsið að Grettisgötu 62 er reist árið 1923 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en húsakönnun Árbæjarsafns tilgreinir byggingarár sem 1924. Í VII. kafla laga um menningarminjar nr. 80/2012 er fjallað um verndun og varðveislu húsa og mannvirkja. Er kveðið á um það í 30. gr. laganna að eigendum húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar, en byggð voru 1925 eða fyrr, sé skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa. Ber byggingarfulltrúum að fylgjast með því að leitað sé eftir nefndu áliti áður en leyfi er veitt til framkvæmda. Skal álit Minjastofnunar liggja fyrir áður en byggingarleyfi er veitt til framkvæmda og skal þar taka tillit til skilyrða sem Minjastofnun leggur til í áliti sínu. Er óheimilt að gefa út byggingarleyfi
fyrir mannvirki sem fellur undir IV., VI. og VII. kafla laga um menningarminjar fyrr en álit Minjastofnunar liggur fyrir skv. 4. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Svo sem fyrr greinir er húsið að Grettisgötu 62 reist fyrir árið 1925. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg liggur ekki fyrir álit Minjastofnunar í málinu. Með vísan til þess sem að ofan greinir er þó ljóst að eiganda hússins hefði borið að leita álits Minjastofnunar áður en sótt var um leyfi byggingaryfirvalda fyrir breytingum á því og var byggingarfulltrúa að sama skapi óheimilt að veita umrætt byggingarleyfi áður en álits þessa væri leitað. Leiðir ágalli þessi á málsmeðferð óhjákvæmilega til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar í heild sinni.

Eins og fyrr greinir er í gildi deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur 1.190.1, á umræddu svæði. Þar kemur m.a. fram að við hönnun viðbygginga og breytinga skuli vanda mjög til hönnunar og hafa t.a.m. til hliðsjónar að þær hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið og gæði nálægra bygginga. Jafnframt segir svo í almennum skilmálum: „Við Grettisgötu og Barónsstíg skulu svalir snúa inn að reit. Dýpt þeirra leggst við húsdýpt. Mesta dýpt svala frá bakhlið húss er 1,6 m.“ Líkt og áður er rakið tók gildi breyting á skilmálum greinds deiliskipulags vegna lóðanna Grettisgötu 62 og Barónsstígs 20a í nóvember 2014, en tekið var þar fram að eldri skilmálar giltu að öðru leyti. Þær breytingar einar voru gerðar hvað varðar svalir að gert er ráð fyrir því að svalir á 2. og 3. hæð séu heimilaðar út fyrir byggingarreit. Ekki er í neinu vikið að stærð svala og verður því ekki annað ráðið en að áðurgreindir almennir skilmálar um stærð þeirra séu enn í gildi. Af framlögðum byggingarnefndarteikningum fyrir aðra og þriðju hæð hússins að Grettisgötu 62 verður ekki betur séð en að dýpt þeirra svala sem eru í kverk hússins sé meiri en áskilið er í deiliskipulagi. Er hið kærða byggingarleyfi hvað þetta varðar því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem krafa er gerð um í 11. gr. og 1. tl. 13. gr. mannvirkjalaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 um að veita byggingarleyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu á lóð nr. 62 við Grettisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

64/2013 Hverfisgata

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2013, kæra á synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 11. júní 2013 á umsókn um leyfi til að rífa anddyri og skúr, byggja nýtt anddyri og viðbyggingu og hækka portveggi og ris á húsinu að Hverfisgötu 23 í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2013, er móttekið var sama dag, kæra eigendur, Hverfisgötu 23, Hafnarfirði, þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar frá 11. júní 2013 að synja umsókn um leyfi til að rífa anddyri og skúr aftan við húsið að Hverfisgötu 23, reisa anddyri og viðbyggingu, sem og að hækka portveggi og ris umrædds húss. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að veitt verði leyfi til framkvæmda í samræmi við erindi kærenda.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 8. ágúst 2013 og á árinu 2015.

Málavextir: Árið 2001 festu kærendur kaup á fasteigninni að Hverfisgötu 23 í Hafnarfirði. Um er að ræða bárujárnsklætt timburhús sem er hæð og portbyggt ris, byggt ofan á steinsteyptan kjallara. Húsið var reist árið 1920 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Það er 119,7 m² að stærð, en þar af mun rishæð vera 13,4 m² og skúr/geymsla á baklóð 12,1 m². Hinn 24. apríl 2013 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn kærenda um leyfi til að rífa anddyri og skúr aftan við húsið, reisa nýtt anddyri og viðbyggingu og hækka portveggi og ris. Var erindinu vísað til skipulags- og byggingarráðs, er tók það fyrir á fundi 30. s.m. og frestaði afgreiðslu þess. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi ráðsins 14. maí s.á. og eftirfarandi fært til bókar: „Á hluta Hverfisgötu er skilgreind hverfisvernd í deiliskipulagi og telur ráðið að fara þurfi varlega í breytingar á húsum sem liggja að götu einnig á þeim svæðum sem ekki eru þegar hluti af deiliskipulögðu svæði. Af þeim sökum er óskað eftir frekari kynningu á tillögunni á næsta fundi. Jafnframt er starfsmönnum Skipulags- og byggingarsviðs falið að taka saman upplýsingar um stækkun nærliggjandi húsa miðað við upphaflega stærð.“ Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 28. maí 2013 kynnti arkitekt kærenda nefnt erindi en afgreiðslu málsins var frestað til næsta fundar.

Hinn 11. júní 2013 var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Meirihluti skipulags- og byggingarráðs, fulltrúar Samfylkingar og Vinstri Grænna, hafna erindinu eins og það liggur fyrir þar sem stækkun er vel umfram þau almennu viðmið og markmið sem sett eru um stækkun og breytingar á húsum í eldri byggð í Hafnarfirði og er þá m.a. vísað í stefnumótun um húsvernd frá 2002 og deiliskipulagsskilmála fyrir Suðurbæinn, Miðbær-Hraun (2011 skilmálar fyrir eldri byggð), Hverfisgata-Austurgata milli Mjósunds og Gunnarssunds (2011) Suðurgata-Hamarsbraut (2011) ofl. Þá felur tillagan í sér talsverða útlitsbreytingu sem hefur áhrif á götumynd, sem felst m.a. í hækkun húss um 90 cm og gerð kvists við götu. Hins vegar má útfæra stækkun húss baka til í lóðina í samræmi við það sem gert hefur verið víða í húsum sem standa við Hverfisgötu, sé þess gætt að hlutföll og götumynd breytist ekki nema að óverulegu leyti og að hlutfall stækkunar sé í samræmi við meginmarkmið þau sem fram koma í stefnumótun um húsverndun frá 2002, en Hverfisgata 23 [er] á því svæði sem í skýrslunni er tekið fram að njóta skyldi mestrar verndar í skipulagi bæjarins.“ Færði minnihluti ráðsins til bókar að fyrirhugaðar breytingar væru í góðu samræmi við nærliggjandi byggð og féllu vel inn í götumynd. Hefðu þær fengið jákvæða umsögn frá fagaðilum og væru til þess fallnar að auka lífsgæði íbúa. Þá var talið að synjun væri byggð á huglægu mati og að ekki væri farið eftir ráðum sérfróðra aðila.

Kærendum var tilkynnt um greinda afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. júní 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur telja málsmeðferð skipulags- og byggingarráðs ólögmæta. Hún brjóti gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og sé í ósamræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti.

Ekki sé í gildi deiliskipulag á því svæði sem fasteignin standi á. Í þeim tilvikum verði að haga breytingum til samræmis við eignir í nágrenninu. Til að tryggja að svo yrði hefði verið leitað til arkitekts sem teiknað hafi breytingar á fjölda fasteigna í nágrenninu, m.a. sambærilega breytingu að Smyrlahrauni 5. Hafi kærendur lagt fram gögn til að sýna fram á að umræddar breytingar væru í góðu samræmi við umhverfið. Þar komi m.a. fram að meðalstærð fasteigna á umræddu svæði sé 207,3 m² og meðalhæð mænis 8,7 m. Eftir breytingar yrði hús kærenda 201,4 m² og hæð mænis 8,8 m. Hafi öllum eignum, sem eigi lóðarmörk að eða standi handan götu á móts við fasteign kærenda, verið breytt. Jafnframt séu öll húsin, utan eins, með portbyggða veggi og hækkuð þök. Kærendur hafi mátt vænta þess að erindi þeirra yrði afgreitt með sambærilegum hætti. Sé hin kærða ákvörðun í ósamræmi við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sjónarmið meirihluta skipulags- og byggingarráðs verði að telja ómálefnaleg. Lítið sem ekkert mið hafi verið tekið af umsögnum þeirra sérfræðinga sem mætt hafi fyrir ráðið. Ef ráðið hefði byggt á fyrirliggjandi mati, ráðleggingum fagaðila og 11. gr. stjórnsýslulaga og heimilað breytingar í takt við umhverfi hefði það verið til þess fallið að ná fram markmiði því sem skipulagslög og aðrar réttarheimildir á því sviði stefni að. Virðist sem geðþótti og tilviljun hafi ráðið niðurstöðu ráðsins, en á sama tíma hafi verið samþykkt að kynna drög að breytingu á deiliskipulagi vegna nýbyggingar Austurgötu 22 í 75 m fjarlægð frá fasteign kærenda. Verði af framangreindum sökum að telja ákvörðunina ólögmæta.

Nefnd ákvörðun sé íþyngjandi fyrir kærendur og komi í veg fyrir að þau geti nýtt eign sína eins og þörf sé á og að óbreyttu verði ákvörðunin til þess að þau verði að selja eignina og flytja. Ákvarðanatakan sé ekki byggð á tilhlýðilegum stoðum og réttarheimildum heldur sé vísað til stefnumótunar frá árinu 2002, sem hvorki hafi lagastoð né hafi verið farið eftir þegar komi að nokkrum fjölda mála vegna eigna í næsta nágrenni við kærendur. Enn fremur fái ekki staðist að byggja á skilmálum annarra deiliskipulaga innan sveitarfélagsins. Um mánuði eftir að umsókn kærenda hafi verið lögð fram hafi verið samþykkt að skipuleggja svæði það sem fasteign kærenda standi. Undirstriki þetta skort á lagaheimild fyrir ákvarðanatökunni og sé tilraun til að veita hana með afturvirkum hætti. Í það minnsta sé þetta tilraun til að fyrirbyggja að kærendur geti fengið aðrar breytingartillögur eða nýjar málamiðlanir samþykktar. Hafi borið að gæta meðalhófs við ákvarðanatökuna og velja það úrræði sem vægast sé, en nefnd ákvörðun gangi eins langt og hugsast geti og nái engan veginn því markmiði sem stefnt sé að.

Hófsemi og samræmi við umhverfið hafi verið leiðarljós í öllum tillögum kærenda. Fyrir liggi afstaða Minjastofnunar Íslands er telji að með breytingunum sé tekið tillit til stærðarhlutfalla. Auk þess fari þær að óverulegu leyti út fyrir útveggi núverandi byggingar. Anddyri sé breikkað um 1,20 m og gólfflötur geymslunnar á bak við eignina sé sömuleiðis breikkaður með sama hætti. Breytingin felist að öðru leyti að stærstum hluta í því að við hækkun þaks reiknist fleiri fermetrar á gólffleti efstu hæðar, auk þess sem efri hæð viðbyggingar verði ný. Feli tillögurnar ekki í sér að núverandi eign verði kollvarpað.

Kærendur byggja jafnframt á því að brotið hafi verið gegn andmælarétti aðila. Annar kærenda hafi óskað þess að fá að vera viðstaddur kynningu á málinu á fundi skipulags- og byggingarráðs en því hafi verið synjað. Hafi honum, sem aðila málsins, borið að fá að vera viðstaddur fundinn en um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða er varði nýtingu á fasteign sem lúti eignarrétti kærenda, sem og bæði fjárhagslega og persónulega hagsmuni þeirra. Þá hafi kærendum aldrei verið afhent afrit af samantekt um stækkun nærliggjandi húsa er starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs hafi verið falið að safna. Sé um verulega annmarka að ræða er leiða beri til ógildingar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Sveitarfélagið tekur fram að flestar breytingar á húsum í nánasta umhverfi við fasteign kærenda hafi verið samþykktar áður en „Stefnumörkun um húsverndun í Hafnarfirði“ hafi verið gerð, nema á Smyrlahrauni 1. Byggingarleyfi vegna þeirrar breytingar hafi verið veitt samkvæmt skilmálum sem samþykktir hafi verið í skipulagsnefnd árið 1993 og hafi breytingin jafnframt verið grenndarkynnt. Hverfisgata 16 hafi verið portbyggð árið 1930. Húsin við Austurgötu 22 og Strandgötu 19 séu á miðbæjarsvæði þar sem nýtingarhlutfall sé almennt hærra en á aðliggjandi svæðum. Ekkert hús sé nú á lóð nr. 23 við Austurgötu.

Í 48. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar komi fram að fundi ráðs/nefndar skuli að jafnaði halda fyrir luktum dyrum. Ráð eða nefnd geti kvatt á sinn fund einstaka starfsmenn bæjarins. Enn fremur geti ráð/nefnd boðið aðila að koma á sinn fund til viðræðna um tiltekin mál. Þá sé bent á að ákvörðun um að vinna deiliskipulag fyrir þetta svæði hafi verið tekin í maí 2013, en vinna við undirbúning þess hafi hafist haustið 2012. Hafi skipulags- og byggingarráð fengið útreikninga á nýtingarhlutfalli á umræddu svæði. Ekki hafi verið reiknað út hve mikil stækkun nærliggjandi húsa væri í prósentum þar sem upprunalegar teikningar væru ekki aðgengilegar. Sum húsanna hafi verið stækkuð oftar en einu sinni.

——

Aðilar hafa fært fram frekari sjónarmið varðandi efni máls þessa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs frá 11. júní 2013 að hafna erindi kærenda um breytingu á húsinu að Hverfisgötu 23 í Hafnarfirði, en á þeim tíma var ekki í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.

Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða leyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Varði breyting á mannvirki útlit þess og form skal leita samþykkis skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi er veitt nema að breyting sé óveruleg, sbr. 5. mgr. 9. gr. Sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. laganna.

Í þágildandi 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sagði enn fremur að þegar sótt væri um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag lægi ekki fyrir eða um væri að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skyldi skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Felur tilvitnað ákvæði í sér að skipulagsnefnd tekur ákvörðun um hvort veita megi byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulags. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum mannvirkjalaga sem áður eru rakin.

Sveitarstjórn er þó heimilt með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Hafnarfjarðarbær mun ekki hafa sett sér slíka samþykkt, en skv. 6. mgr. 7. gr. skal samþykkt sem sett er samkvæmt lagagreininni lögð fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar.

Hafnarfjarðarbær hefur hins vegar sett sér samþykkt um stjórn og fundarsköp bæjarstjórnar. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var í gildi samþykkt þess efnis nr. 637/2002, með síðari breytingum. Í 82. gr., eins og henni var breytt með 17. gr. samþykktar nr. 854/2011, var tiltekið að skipulags- og byggingarráð færi með mál sem heyrðu undir skipulagslög, lög um mannvirki, lög um mat á umhverfisáhrifum og lög sem sneru að umferðarmálum. Skyldi ráðið gera tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fengi til meðferðar. Þá gæti bæjarstjórn falið skipulags- og byggingarráði fullnaðarafgreiðslu mála nema lög mæltu á annan veg. Einnig sagði m.a. eftirfarandi: „Í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð er byggingarfulltrúa falin veiting byggingarleyfa í samræmi við 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Telji byggingarfulltrúi að erindi sé bersýnilega í ósamræmi við skipulagsáætlanir, skipulagsskilmála og/eða byggingarreglugerð eða óvissu ríkja um hvort uppfyllt séu ákvæði laga, reglugerða eða samþykkta, skal hann vísa málinu til afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs sem þá fjallar um byggingaráformin í samræmi við 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.“ Samþykkt nr. 637/2002, með síðari breytingum, er sett með stoð í sveitarstjórnarlögum og var hún staðfest af félagsmálaráðherra, en breytingasamþykkt nr. 854/2011 var staðfest af innanríkisráðherra. Er ljóst að samþykktin telst ekki vera sett með stoð í 7. gr. mannvirkjalaga, enda hefur hún ekki verið sett með þeim hætti sem þar er mælt fyrir um. Getur hún því ekki vikið frá ákvæðum þeirra laga þess efnis að samþykkt byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis sé á forræði byggingarfulltrúa. Synjun skipulags- og byggingarráðs á erindi kærenda batt því ekki enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður að telja að hún hafi falið í sér ákvörðun samkvæmt 44. gr. skipulagslaga um að án deiliskipulags mætti ekki veita umbeðið byggingarleyfi. Var ákvörðunin þannig hluti af lögboðinni málsmeðferð við afgreiðslu byggingarleyfisumsóknarinnar. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði stjórnsýslulaga verður sú ákvörðun ekki borin undir úrskurðarnefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt, en þá fyrst sætir öll meðferð málsins lögmætisathugun hennar.

Kemur þá til skoðunar hvort lokaákvörðun byggingarfulltrúa samkvæmt mannvirkjalögum liggi fyrir í málinu. Eins og fram hefur komið var umsókn kærenda um leyfi til breytinga á umræddri fasteign tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa 24. apríl 2013 og henni vísað til skipulags- og byggingarráðs, sem á fundi sínum 11. júní s.á. hafnaði erindi kærenda. Hinn 12. s.m. var á ný tekið fyrir erindi frá kærendum, um breytingar á fasteign þeirra, á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa undir B-lið, skipulagserindi, og eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Frestað á síðasta fundi. Meirihluti skipulags- og byggingarráðs synjaði erindinu 11.06.13 eins og það liggur fyrir. Hönnuður óskar eftir leiðbeiningum um hvað leyft er í þessu tilviki. Málinu er vísað til skipulags- og byggingarráðs.“ Fundargerð skipulags- og byggingarfulltrúa frá 12. júní 2013 var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 27. s.m. og tekið fram að A-liður hefði verið afgreiddur af byggingarfulltrúa samkvæmt mannvirkjalögum. Þá var afgreiðsla skipulags- og byggingarráðs frá 11. s.m. lögð fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar 19. s.m. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. júní 2013, var kærendum tilkynnt um afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs frá 11. s.m. Efni bréfsins einskorðaðist við tilvísun til bókunar ráðsins, en afstöðu eða afgreiðslu byggingarfulltrúa á umsókn kærenda var hins vegar í engu getið. Verður ekki með neinu móti séð af bréfinu, framangreindum bókunum eða öðrum gögnum málsins, að byggingarfulltrúi hafi, í samræmi við fortakslaus ákvæði mannvirkjalaga sem áður eru rakin, tekið afstöðu til erindis kærenda, svo sem honum bar að gera ef ætlunin var að ljúka málinu á þeim tíma. Þá verður ekki annað ráðið af bókun byggingarfulltrúa frá 12. júní 2013 en að málið sé enn til meðferðar og að því hafi verið vísað að nýju til skipulags- og byggingarráðs. Í greinargerð sveitarfélagins til úrskurðarnefndarinnar er þó ekki að því vikið.

Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir lokaákvörðun í málinu sem kærð verði til nefndarinnar og verður því ekki hjá því komist að vísa því frá nefndinni með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

40/2013 Menntaskólinn í Reykjavík

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2013, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. mars 2013 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir áður gerðri klæðningu á austur- og vesturhlið Þingholtsstrætis 18.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. apríl 2013, er barst nefndinni 22. s.m., kæra eigendur, Þingholtsstræti 15, Reykjavík, Þingholtsstræti 15a, Reykjavík, og Þingholtsstræti 17, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 að samþykkja byggingarleyfi fyrir áður gerðri klæðningu á austur- og vesturhlið Þingholtsstrætis 18. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. júní 2013.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 17. apríl 2012 var tekin fyrir umsókn Fasteigna ríkisins frá 22. nóvember 2011 um leyfi til að endurbyggja úr gleri austur- og vesturhlið húss Menntaskólans í Reykjavík við Þingholtsstræti 18. Var afgreiðslu málsins frestað. Síðar var umsóknin tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 29. maí 2012 og hún samþykkt. Var þeirri ákvörðun skotið til úrskurðarnefndarinnar, sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 10. september 2012. Var sú niðurstaða studd þeim rökum að á hefði skort að byggingarleyfisumsóknin hefði verið grenndarkynnt í samræmi við ákvæði í gildandi deiliskipulagi og að hönnunargögn byggingarleyfisins hefðu verið óskýr. Voru umræddar framkvæmdir þá yfirstaðnar.

Ný umsókn um endurgerð austur- og vesturhliðar Þingholtsstrætis 18, dags. 11. nóvember 2012, var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. desember s.á. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu. Skipulagsfulltrúi ákvað á fundi sínum 7. desember s.á. að grenndarkynna áður gerða framkvæmd fyrir íbúum að Þingholtsstræti 15, 15a, 16, 17, 21 og 22 og að Bókhlöðustíg 10. Erindið var grenndarkynnt frá 14. desember 2012 til og með 15. janúar 2013 og bárust athugasemdir frá kærendum með bréfi, dags. 14. janúar 2013. Málið var á dagskrá fundar umhverfis- og skipulagsráðs 27. febrúar 2013 þar sem fyrir lágu andmæli kærenda, bréf rektors Menntaskólans í Reykjavík, dags. 4. október 2012, greinargerð hönnuða, dags. 8. nóvember s.á., bréf íbúa Þingholtsstrætis 13 og 17, dags. 13. september 2012, auk umsagnar skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa, dags. 20. febrúar 2013. Gerði ráðið ekki athugasemdir við erindið með vísan til fyrrgreindrar umsagnar, dags. 20. febrúar 2013, og vísaði málinu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Sú afgreiðsla ráðsins var samþykkt í borgarráði 28. s.m. Byggingarfulltrúi samþykkti hina grenndarkynntu byggingarleyfisumsókn á afgreiðslufundi hinn 19. mars 2013 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 21. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kærenda eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð hins kærða byggingarleyfis og þá sérstaklega þær röksemdir sem skipulagsstjóri byggir niðurstöðu sína á. Athugasemdir rektors Menntaskólans í Reykjavík séu meginþátturinn í niðurstöðu skipulagsstjóra, en rektor hafi lýst yfir ánægju með heimilaða klæðningu hússins að Þingholtsstræti 18 og þá sérstaklega vegna sólarálags, en ástand innandyra hafi verið erfitt vegna sólar og hitamollu í kennslustofum.

Þannig hátti til að veggur sá sem snúi að fasteignum kærenda snúi í austsuðaustur, eða í 110° miðað við norður. Á vorjafndægri, um klukkan átta að morgni, sé sólin að færast yfir sjónbaug í 95°, en vegna þrengsla í Þingholtsstræti þurfi sólin að ná u.þ.b. 15° hæð til að ná að skína á efri hluta suðurhliðar Þingholtsstrætis 18. Sólin fari hæst í 26° í suðurátt en eftir það skíni hún ekki á suðurvegg hússins. Líta verði til þess að allt frá haustjafndægri og að vorjafndægri sé sólin enn skemur á lofti og fari þá meðalfjöldi sólskinstunda á þessu tímabili ekki yfir fjórar stundir á dag. Niðurstaðan sé sú að sólin valdi ekki þeim vandamálum innandyra sem tengist hitamollu og loftleysi, öllu heldur sé um að kenna lélegri loftræsingu hússins. Rekja megi þessa lélegu loftræsingu til þess að húsið sé ekki hannað sem kennsluhúsnæði. Endurgerð umrædds veggjar hafi því lítið með það að gera að bæta skilyrði innan veggja skólans, eins og segi í umsögn skipulagsstjóra. Umhugsunarvert sé að skipulagsstjóri hafi ekki rannsakað þau rök að hitamolla og loftleysi innandyra sé sólinni um að kenna.

Speglunin gagnvart fasteignum kærenda verði mun meiri en áður og valdi þeim miklum óþægindum. Ekki sé hægt að vera sammála mati hönnuða þess efnis að speglunin sé lítil og hafi verið til staðar og ekki sé unnt að taka undir mat skipulagsstjóra um að speglunin veki athygli fyrir fegurð. Þá sé ákvörðun byggingarfulltrúa um veitingu byggingarleyfisins án rökstuðnings og sé því erfitt að gera sér grein fyrir ákvörðuninni og tjá sig um hana.
   
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda í máli þessu verði hafnað.

Í umsögn skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa frá 20. febrúar 2013 komi fram að endurgerð umrædds veggjar, sem þarfnaðist viðhalds, miði að því að bæta skilyrði í skólahúsnæðinu að Þingholtsstræti 18, sérstaklega með tilliti til sólarálags. Vakin sé athygli á því í þessu sambandi að umrædd glerklæðning sé úr viðurkenndu og löglegu byggingarefni og sé notuð víða, auk þess sem speglunin veki athygli fyrir fegurð. Engin rök standi til þess að kærendur eigi heimtingu á því að þessi efnisgerð sé ekki notuð. Geri gildandi skipulagskilmálar fyrir umrætt svæði engan sérstakan áskilnað um klæðningu á nefndu húsi. Einhver speglun fylgi glerklæðningu en eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar í nánasta umhverfi sem geti haft í för með sér einhverja skerðingu á hagsmunum, s.s. útsýni, skuggavarp o.s.frv. Fullyrðingu kærenda, um að framkvæmdinni fylgi veruleg óþægindi í þeirra garð, sé mótmælt sem órökstuddri, en búsetu í þéttri byggð fylgi einhver innsýn um glugga nágranna beint eða óbeint.

Það sé m.a. lögbundið hlutverk skipulags- og byggingaryfirvalda að leggja mat á fagurfræði bygginga. Segi t.a.m. í gr. 6.1.1. í byggingarreglugerð að mannvirki skulu þannig hönnuð og byggð að þau henti vel til fyrirhugaðra nota. Við ákvörðun á útliti þeirra, efnisvali, litavali og gerð skuli gæði byggingarlistar höfð að leiðarljósi. Ekki hafi verið sýnt fram á að einhver önnur sjónarmið hafi ráðið för við samþykkt byggingarfulltrúa í málinu eða að framkvæmdin sé þess eðlis að hún brjóti svo verulega gegn hagsmunum kærenda að það leiði til ógildingar samþykktarinnar. Því sé einnig mótmælt að reglur um málsmeðferð hafi verið brotnar á kærendum. Þvert á móti hafi málsmeðferðin verið í samræmi við ákvæði laga og reglna. Ekki hafi verið bent á nein atriði varðandi málsmeðferðina sem valdi ógildingu samþykktar byggingarfulltrúa í málinu.
 
Athugasemdir leyfishafa: Skírskotað er til þess að í september 2011 hafi Fasteignir ríkissjóðs tekið við umsjón með húsakosti Menntaskólans í Reykjavík. Endurnýjun á austurhlið hússins að Þingholtsstræti 18 hafi þá verið orðin aðkallandi. Gluggapóstar fúnir, móða milli glerja og raki í veggjum vegna leka. Við val á gleri hafi verið tekið mið af því sem þegar hafi verið búið að endurnýja á suðaustur horni byggingarinnar sem snúi að Þingholtsstræti. Öll hliðin hafi því sömu ásýnd í dag. Byggingarleyfisumsókn hafi verið lögð fram í tvígang vegna sömu viðhaldsframkvæmda að Þingholtsstræti 18 og sé það mat leyfishafa að embætti byggingarfulltrúa hafi staðið rétt að öllum undirbúningi og hafi verkið verið framkvæmt af fagmennsku í samræmi við tilskilin leyfi.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var heimiluð þegar gerð klæðning úr gleri og áli á austur- og vesturhlið hússins að Þingholtsstræti 18. Bera kærendur, sem búa gegnt greindri hlið hússins, fyrir sig að veruleg speglun stafi af klæðningunni er valdi þeim miklum óþægindum sem og að rökstuðningi fyrir ákvörðuninni sé áfátt.

Fyrir umrætt svæði er í gildi deiliskipulag staðgreinireits 1.180.0, Menntaskólareits. Í því er ekki að finna sérstök ákvæði um klæðningar ytra byrðis bygginga, en í skilmálum þess er hins vegar tekið fram að nánari skilmálar, markmið og forsendur skipulagsins komi fram í heftinu „Miðborgarsvæði Reykjavíkur. Greinargerð og deiliskipulagsskilmálar fyrir staðgreinireit 1.180.0.“ Þar kemur m.a. fram í grein 4.2, þar sem fjallað er um minni háttar breytingar, að þær skuli ávallt miðast við aðstæður og geti þarfnast grenndarkynningar. Grenndarkynning hins kærða byggingarleyfis fól ekki í sér tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi heldur var hún framkvæmd í samræmi við fyrrgreint ákvæði í skilmálum, með hliðsjón af grenndaráhrifum umdeildrar klæðningar.

Að lokinni grenndarkynningu var tekin afstaða til framkominna athugasemda og gerð tillaga að afgreiðslu málsins í umsögn skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa frá 20. febrúar 2013, sem umhverfis- og skipulagsráð vísaði til við afgreiðslu þess. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu og veitti byggingarfulltrúi síðan byggingarleyfi í samræmi við afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs og borgarráðs á hinni grenndarkynntu byggingarleyfisumsókn. Var málsmeðferðin í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og einnig 4. mgr. 9. gr. og 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Hin kærða ákvörðun fer ekki í bága við gildandi deiliskipulag og dæmi eru um að sambærileg klæðning og hér um ræðir sé notuð á ytra byrði húsa. Verður klæðningin ekki talin svo óhefðbundin eða áhrif hennar slík að hún þurfi að eiga beina stoð í gildandi skipulagi, þótt fallist sé á að henni fylgi nokkur endurspeglun húsa handan götu, sem geti haft í för með sér nokkra innsýn í íbúðir í þeim húsum umfram það sem áður var. Hvað sem líður fagurfræðilegum sjónarmiðum lágu efnisrök að baki hinu kærða byggingarleyfi, þar sem um var að ræða nauðsynlegt viðhald hússins að Þingholtstræti 18. Þá var klæðningin og valin með tilliti til útlits tengibyggingar við Bókhlöðustíg og áður gerðrar útbyggingar á horni Þingholtsstrætis 18.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu um ógildingu hennar af þeim sökum hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir áður gerðri klæðningu á austur- og vesturhlið Þingholtsstrætis 18.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

16/2014 Miðfell Bláskógabyggð

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2014, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. maí 2013 um að hafna sameiningu frístundalóðanna nr. 16 og 18 við V-götu í landi Miðfells, Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. mars 2014, er barst nefndinni 5. s.m., kæra eigandi lóðar nr. 16 við V-götu,, eigandi lóðar nr. 18 við V-götu, báðar í landi Miðfells, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. maí 2013 að hafna sameiningu umræddra frístundalóða. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu 11. apríl 2014 og 5. janúar 2016.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 21. mars 2013 var tekin fyrir beiðni kærenda um að sameina lóðir nr. 16 og 18 við V-götu í landi Miðfells. Var erindinu hafnað þar sem ekki væri að mati nefndarinnar æskilegt að breyta fjölda frístundalóða innan þegar samþykktra hverfa og var sú afgreiðsla staðfest í sveitarstjórn 11. apríl s.á. Í kjölfar þess óskuðu kærendur eftir því að nefnd afgreiðsla yrði endurskoðuð og á fundi skipulags- og byggingarnefndar 23. s.m. var málið tekið fyrir að nýju og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Eigendur lóðarinnar hafa nú sent inn nánari rökstuðning fyrir beiðni sinni sbr. bréf dags. 2. apríl 2013. Þá liggur fyrir samþykki aðliggjandi eigenda á sameiningu lóðanna. Erindinu er hafnað á ný á sömu forsendum og fyrri afgreiðsla nefndar frá 21. mars. Ekki er fallist á að lögun lóðanna komi í veg fyrir að á þeim verði reist frístundahús.“ Á fundi sveitarstjórnar 2. maí 2013 var fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og að beiðni um sameiningu lóðanna væri hafnað.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fyrir liggi að sveitarfélagið hafi samþykkt sameiningu annarra lóða á svæðinu. Samkvæmt jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar skuli sambærileg mál afgreidd á sambærilegan hátt. Hagsmunir kærenda séu sambærilegir hagsmunum þeirra er fengið hafi samþykkta sameiningu lóða. Hafi kærendur þar með haft réttmætar væntingar um að það ástand myndi haldast.

Engin málefnaleg sjónarmið hafi verið lögð fram af hálfu sveitarfélagsins fyrir nefndri ákvörðun, utan þess að „…ekki sé æskilegt að breyta fjölda frístundahúsalóða innan þegar samþykktra hverfa“. Hafi kærendur lagt fram haldbær rök fyrir breytingunni og nágrannar ekki gert athugasemdir.
Í máli þessu og sambærilegum málum hafi verið teknar matskenndar stjórnvaldsákvarðanir. Verði í því sambandi að horfa til jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, sem leggi bönd á stjórnvald. Sé það réttlætiskrafa að farið sé á sama máta með sambærileg tilvik. Þannig skuli allir njóta jafns réttar og beri opinberir aðilar jákvæðar skyldur til að tryggja þennan rétt. Öll mismunun á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða sé óheimil. Þá skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Þá sé bent á að sveitarfélagið hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu, sbr. 20. gr. laga nr. 37/1993, og eigi því almennur kærufrestur ekki við.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að synjun þess hafi byggst á sama grunni og fyrri ákvarðanir skipulags- og byggingarnefndar, og þeirra sveitarstjórna sem eigi fulltrúa í sameiginlegri skipulagsnefnd, um sambærileg mál undanfarin ár. Megi þar vísa í mál úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 15/2010 og mál úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 57/2012.

Undanfarin ár hafi nokkuð verið óskað eftir sameiningu sumarhúsalóða. Í sumum tilvikum hafi það verið heimilað en ekki í öðrum og hafi þær ákvarðanir byggst á mismunandi aðstæðum hverju sinni og stundum niðurstöðu grenndarkynningar. Hafi beiðnum um sameiningu lóða fjölgað nokkuð og því hafi verið ákveðið að skoða almennt hvort sameining lóða væri æskileg. Niðurstaðan hafi orðið sú að almennt væri ekki æskilegt að heimila sameiningu lóða innan sumarhúsahverfa, þar sem það breytti forsendum uppbyggingar hverfisins m.t.t. vegagerðar, lagningar veita o.s.frv. Þá sé einnig nauðsynlegt að ákveðinn stöðugleiki ríki í skipulagsmálum. Jafnframt miðist byggingarmagn í flestum sumarhúsahverfum við ákveðið nýtingarhlutfall og myndi sameining lóða gera það að verkum að heimilt yrði að byggja mun stærra hús á sameinaðri lóð en á öðrum lóðum í kring.

—–

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, nema á annan veg sé mælt fyrir um í lögum. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr, eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi skipulagsfulltrúa til kærenda, dags. 23. apríl 2013, var tilkynnt um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á erindi þeirra og gerður sá fyrirvari að téð afgreiðsla væri háð staðfestingu sveitarstjórnar. Staðfesti sveitarstjórn afgreiðslu nefndarinnar 2. maí s.á. og hafnaði erindi kærenda. Mun kærendum ekki hafa verið tilkynnt um þá afgreiðslu.

Úrskurðarnefndin móttók kæru í máli þessu 5. mars 2014 og var því kærufrestur liðinn er kæra barst nefndinni, sbr. ofangreint ákvæði 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hins vegar skorti á við afgreiðslu málsins hjá sveitarfélaginu að kærendum væri leiðbeint um kæruheimild eða kærufrest, svo sem áskilið er í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. sömu laga, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.

Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags en í því eru teknar ákvarðanir um skipulagsforsendur innan sveitarfélagsins, m.a. um stærðir lóða og fjölda þeirra. Þá er óheimilt að skipta jörðum, löndum, lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til, sbr. 48. gr. laganna. Eiga kærendur því ekki lögvarinn rétt til þess að lóðir þeirra séu sameinaðar.

Ekki er í gildi deiliskipulag á svæði því sem hér um ræðir. Sveitarfélagið hefur hins vegar markað sér stefnu um frístundabyggð í Aðalskipulagi Bláskógabyggðar fyrir Þingvallasveit 2004-2016. Er það svæði sem hér um ræðir, úr landi Miðfells, tilgreint í aðalskipulagi sem sumarhúsasvæði og kemur fram í skipulaginu að „…brúttóþéttleiki svæðisins verði um 1 hús á 0,75 ha lands að meðaltali“. 

Dæmi eru um að sameining lóða hafi áður verið heimiluð á svæðinu. Stefnubreyting hefur þó orðið þar á hjá sveitarfélaginu og er ekki annað að sjá en að sú stefnubreyting sé í samræmi við áðurnefnda stefnu í aðalskipulagi. Þó að sameining lóða hafi verið heimiluð á svæði Miðfells í einu tilviki á árinu 2013 virðist þar hafa verið um undantekningu að ræða, en sú sameining átti sér stað á svæði þar sem fyrir hendi er deiliskipulag. Þegar af þeirri ástæðu er ekki um sambærilegt tilvik að ræða og verður það því ekki talið hafa skapað fordæmi. Eins og greint er frá í málavaxtalýsingu var sameiningu greindra lóða synjað með þeim rökum að ekki væri æskilegt að breyta fjölda lóða innan samþykktra hverfa. Verður ekki annað séð en að málefnaleg sjónarmið hafi búið þar að baki. 

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. maí 2013 um að hafna sameiningu frístundalóðanna nr. 16 og 18 við V-götu í landi Miðfells, Bláskógabyggð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

79/2013 Vatnsendahlíð

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. maí 2013 um að samþykkja breytt deiliskipulag Vatnsendahlíðar – Þings, reita 2, 3 og 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. ágúst 2013, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Þ, Vatnsenda í Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. maí 2013 að samþykkja breytt deiliskipulag Vatnsendahlíðar – Þings, reita 2, 3 og 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað. Þar sem í skipulagi felst ekki heimild til framkvæmda og fyrir lá að ekki varð af uppbyggingu nýs hverfis á hinu deiliskipulagða svæði þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa og verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 16. september 2013.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi var eignarnámsþoli samkvæmt eignarnámsheimild sem umhverfisráðuneytið veitti Kópavogsbæ með bréfi, dags. 10. janúar 2007. Náði heimildin yfir 863,7 ha land úr jörðinni Vatnsenda, m.a. yfir svonefndan reit B sem er 162,7 ha að stærð. Samkvæmt sáttargerð milli Kópavogsbæjar og kæranda, dags. 30. s.m., um bætur fyrir hið eignarnumda land fólst endurgjald m.a. í því að kærandi fékk 11% af öllum byggingarrétti fyrir íbúðarhús og atvinnuhúsnæði úr hverjum skipulagsáfanga fyrir sig. Á árinu 2007 lá fyrir tillaga að deiliskipulagi Vatnsendahlíðar – Þings, sem var fyrsti skipulagsáfangi hins eignarnumda lands og hluti fyrrnefnds reits B. Deiliskipulagstillagan náði yfir 92,5 ha lands, að meðtöldum Guðmundarlundi, og afmarkaðist af Gulaþingi og Boðaþingi til norðurs, markalínu grannsvæðis vatnsverndar til austurs og suðurs og bæjarmörkum Garðabæjar og væntanlegu hesthúsahverfi á Kjóavöllum til vesturs. Í september sama ár dró kærandi út lóðir á því svæði sem greind tillaga tók til í samræmi við nefnda sáttargerð. Í endurriti úr gerðarbók Sýslumannsins í Kópavogi var af því tilefni bókað: „Aðilar óska eftir því að bókað verði að útdráttur þessi er framkvæmdur með fyrirvara um staðfestingu á deiliskipulagi og endanlegan íbúðafjölda skv. því.“ Árið 2009 tók gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ hafa ekki verið gefnir út lóðarleigusamningar til kæranda og fyrrgreindar lóðir hafa ekki verið stofnaðar í fasteignaskrá. Þá hefur nær öllum úthlutuðum lóðum til almennra kaupenda á svæðinu verið skilað þannig að engar framkvæmdir hófust á svæðinu, eins og að framan greinir. 

Vegna meintra vanefnda Kópavogsbæjar á nefndri sáttargerð fékk kærandi dómkvadda tvo matsmenn í janúar 2010 til að verðmeta hið eignarnumda land og skiluðu þeir matsgerð í október s.á. Í kjölfarið höfðaði kærandi mál á hendur Kópavogsbæ, en með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 17. janúar 2014 var kröfu kæranda um greiðslu efndabóta vegna vanefnda á fyrrgreindri eignarnámssátt vísað frá dómi vegna vanreifunar.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 5. febrúar 2013 var samþykkt að kynna tillögu um breytingu á fyrrnefndu skipulagi samkvæmt 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var sú afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar 12. s.m. Samkvæmt tillögunni var markmið hennar að þétta byggð við Vallaþing, sem liggur næst skóla og þjónustu Kórahverfis, en draga úr þéttleika byggðar á kolli skipulagsvæðisins og í fjölbýlishúsabyggð við Stapaþing. Breytingin tekur til þriggja reita skipulagssvæðisins og er samanlagt breytingarsvæði um 18 ha að flatarmáli. Við Vallaþing fjölgar íbúðum um 126 og er þar m.a. bætt við einni fjölbýlishúsalóð. Íbúðum fækkar um sama fjölda við aðrar götur þannig að heildarfjöldi íbúða á deiliskipulagssvæðinu helst óbreyttur.

Tillagan var auglýst til kynningar með athugasemdafresti til 12. apríl 2013. Þá var tillagan til sýnis á skrifstofu skipulags- og byggingardeildar og jafnframt birt á heimasíðu bæjarins. Athugasemdir bárust einungis frá kæranda á kynningartíma. Á fundi skipulagsnefndar 7. maí 2013 var tillagan samþykkt ásamt umsögn um fram komnar athugasemdir. Bæjarstjórn tók málið til umfjöllunar 14. s.m. en frestaði afgreiðslu þess þar sem á sama fundi hafði afgreiðslu tillögu að Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 verið frestað. Í bókun fundarins um aðalskipulagstillöguna kom fram að með henni væri verið að fella úr gildi deiliskipulag í áðurnefndu Stapaþingi. Deiliskipulagsbreytingin var svo samþykkt í bæjarstjórn 28. maí 2013. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. júlí 2013.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að Kópavogsbær hafi vanefnt greiðslu eignarnámsbóta með þeim hætti að ráðstöfunarréttur hans yfir eignarnámslandinu sé ekki fyrir hendi, sbr. meginreglu 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Eignarrétturinn sé verndaður af 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944 þar sem segi að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji og lög heimili og skuli þá koma fullt verð fyrir. Þá byggi 39. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 á því að landsvæði í einkaeign verði ekki deiliskipulagt nema með samþykki þess sem fari með umráð hins skipulagða lands. Sveitarfélag sem vilji beita skipulagsvaldi sínu gegn vilja eiganda eigi þess kost að nýta sér eignarnámsheimildir skv. IX. kafla skipulagslaga, en þá verði bætur að vera greiddar eða réttur eignarnámsþola tryggður með öðrum hætti.

Kærandi hafi dregið út 78 lóðir samkvæmt eldra deiliskipulagi en með hinni kærðu breytingu sé réttindum hans breytt og með því brotið gegn rétti hans. Ekki sé heimild til að víkja frá fortakslausu ákvæði 4. mgr. gr. 5.3.2.20. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um að í deiliskipulagi skuli gerð grein fyrir því hvort framfylgd deiliskipulagins sé háð samningum eða leyfum annarra aðila en sveitarfélagsins. Í deiliskipulagstillögunni hafi ekki verið vikið að rétti kæranda til útdreginna lóða eða rétti hans samkvæmt sáttargerð vegna eignarnámsbóta.

Almenn auglýsing í blöðum dugi ekki til að uppfylla skilyrði 1. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð um virkt samráð, heldur verði að leita beint til þekktra hagsmunaðila. Á engan hátt hafi verið leitast við að hafa samband við kæranda, sem hafi ríkra hagsmuna að gæta. Í rökstuðningi fyrir höfnun athugasemda kæranda sé byggt á því að ekki þurfi að hafa samráð við hann þar sem skipulagsvaldið sé hjá Kópavogsbæ. Þetta sé í andstöðu við skýr fyrirmæli skipulagslaga, fyrrnefndrar reglugerðar um skyldu til samráðs og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að stjórnvald kynni sér mál fyrir ákvörðunartöku. Þá fari þetta í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga þar sem stjórnvald geti ekki handvalið aðila til umsagnar og samráðs en vísvitandi sleppt kæranda. Þá sé afgreiðsla skipulagsnefndar og áðurnefndur rökstuðningur á skjön við skyldu skipulagsyfirvalda til að gæta meðalhófs, sbr. 12. gr. sömu laga. Loks leiði 14. gr. laganna til þess að Kópavogsbæ hafi borið að senda tilkynningu til kæranda þar sem hann hafi augljóslega átt andmælarétt skv. 13. gr. þeirra.

Það sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir samþykki deiliskipulags í 3. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð að samráð skuli haft við landeiganda, lóðarhafa eða aðliggjandi sveitarfélag þegar tillaga taki til svæðis sem liggi að lóðamörkum, landamörkum eða sveitarfélagamörkum. Deiliskipulagssvæðið liggi það nærri landamerkjum Vatnsenda og sé það stórt að jafna verði aðstöðunni við það sem lýst sé í tilvitnuðu ákvæði.

Þá liggi fyrir tillaga að Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024, sem muni breyta forsendum fyrir hinu kærða deiliskipulagi, og því sé ekki með réttu hægt að halda því fram að deiliskipulagstillagan sé í samræmi við stefnu aðalskipulags.

Við vinnslu matsgerðar á árinu 2010 hafi Kópavogsbær ítrekað bent á að á hinu eignarnumda landi væru hættulegar jarðsprungur. Í matsgerðinni komi fram sú staðhæfing Kópavogsbæjar að sprungur og misgengi setji landinu skorður og að rannsóknir þurfi að fara fram áður en landið verði skipulagt. Engar rannsóknir hafi farið fram síðan fyrrgreind matsgerð hafi verið unnin og hafi Kópavogsbær ekki lagt eldri rannsóknir fram við vinnslu hennar. Í nefndri matsgerð sé jafnframt tekið fram að Kópavogsbær mótmæli fullyrðingu kæranda um að merktar sprungur og misgengi hafi ekki áhrif á svæðið sem byggingarland. Þá segi loks í matsgerðinni um sjónarmið Kópavogsbæjar varðandi jarðsprungur: „Ekki séu viðlíka sprungur og misgengi að finna annarstaðar í Vatnsendalandi og Norðlingaholti og eru á hinu metna svæði og vitnar til framlagðs vatnafarskorts.“ Niðurstaða matsmanna hafi verið sú að töluverðar sprungur liggi SA til NA um svæðið, sem rýri gæði landsins með tilliti til skipulags fyrir byggð. Þá reikni þeir með 42 ha svæði vegna sprungna og sé þá reiknað með 25 m til hvorrar hliðar við sprungu og 50 m við enda. Þetta sé ekki reifað í greinargerð eða skipulagsskilmálum og hið breytta skipulag sýni byggð yfir þessum jarðsprungum og innan fyrrgreinds 50 m hættusvæðis. Samkvæmt lýsingu Kópavogsbæjar við vinnslu greindrar matsgerðar sé ljóst að stórfelld almannahætta blasi við verði lóðum úthlutað samkvæmt tillögunni. Kópavogsbær hafi þagað um áhyggjur sínar vegna jarðsprungna í gegnum skipulagsferlið og ekki gert grein fyrir þeim í málsmeðferð gagnvart Skipulagsstofnun eða kynningu almennt. Afgreiðsla skipulagsnefndar hafi því farið í bága við 10. gr. stjórnsýslulaga, enda ófullnægjandi að afgreiða deiliskipulag án þess að ítarlegar rannsóknir, sem Kópavogsbær hafi talið nauðsynlegar, fari fram.

Í 4. mgr. gr. 5.3.2.18. í skipulagsreglugerð segi m.a. að óheimilt sé að byggja á þekktum jarðsprungum. Þar komi og fram að á svæðum, þar sem grunur leiki á að sprungur séu án þess að hægt sé að kanna það við gerð deiliskipulags, skuli setja fyrirvara í deiliskipulagið um að komi sprungur í ljós við framkvæmdir geti þurft að gera breytingar á skipulaginu. Það blasi við að endurskipuleggja þurfi allt svæðið og taka tillit til jarðsprungna, en ekki sé fyrirvari í samræmi við nefnt ákvæði í hinu breytta skipulagi. Tilvísun í annað eða eldra deiliskipulag uppfylli ekki kröfur fyrrgreinds ákvæðis. Þá sé á engan hátt lýst í deiliskipulaginu þeirri vá sem Kópavogsbær hafi lýst fyrir matsmönnum og hafi verið lögð til grundvallar í fyrrgreindri matsgerð. Loks sé á því byggt að breytingartillagan taki til svo mikils hluta eldra deiliskipulags að fara verði með hana eftir 2. mgr. gr. 5.8.1. í skipulagsreglugerð.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er skírskotað til þess að sveitarstjórn hafi víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 439/2012. Af 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 leiði að skipulagsvald varðandi gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana sé hjá sveitarfélögum og á þeirra ábyrgð, sbr. 1. mgr. 28. gr. um aðalskipulagsáætlanir. Svigrúm sveitarfélaga til mats um það hvort, hvenær, og með hvaða hætti deiliskipulagstillaga sé sett fram og samþykkt á vettvangi sveitarstjórnar sé mjög mikið. Gildi það algerlega óháð eignarhaldi að því landi sem skipulag taki til.

Kópavogsbær sé eigandi þess lands sem hin kærða skipulagsbreyting taki til og því séu tilvísanir kæranda til 72. gr. stjórnarskrárinnar án þýðingar. Eignarnámssátt, dags. 30. janúar 2007, hafi að geyma afdráttarlaust ákvæði um yfirtöku sveitarfélagsins á landinu og hafi henni verið þinglýst 29. mars 2008. Kærandi hafi hvorki gert kröfu um ógildingu eignarnámsins né lýst yfir riftun á fyrrgreindri eignarnámssátt. Þá eigi Kópavogsbær allt land umhverfis það land sem hið breytta deiliskipulag taki til.

Framfylgd umrædds deiliskipulags sé ekki háð samningum og leyfum í skilningi 4. mgr. gr. 5.3.2.20. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Greind eignarnámssátt mæli ekki fyrir um að hið eignarnumda land skuli skipulagt með ákveðnum hætti, t.a.m. með ákvæðum um þéttleika byggðar eða íbúðafjölda. Aldrei hafi staðið til að allt hið eignarnumda land yrði tekið undir íbúðarbyggð. Bænum hafi verið eftirlátið svigrúm til mats á því hvernig svæðið skyldi skipulagt, þ.m.t. hvaða hlutar þess yrðu teknir undir opin svæði. Ekki séu til staðar neinir samningar sem takmarki skipulagsvald Kópavogsbæjar á því landi sem hið breytta deiliskipulag taki til. Réttur eigenda Vatnsenda til 11% byggingarréttar miðist við gildandi skipulag á hverjum tíma.

Breytingartillagan hafi farið í lögbundið kynningarferli og því óskiljanlegt að hægt sé að halda því fram að ekki hafi verið leitað eftir sjónarmiðum íbúa og umsagnaraðila, sbr. 1. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð. Tillagan hafi ekki farið framhjá kæranda, sem hafi komið með athugasemdir. Þá eigi 3. mgr. sömu greinar ekki við þar sem kærandi sé hvorki eigandi þess lands sem deiliskipulagið taki yfir né aðliggjandi lands. Ákvæði skipulagslaga og skipulagsreglugerðar mæli fyrir um það með nákvæmum hætti hvernig staðið skuli að kynningum skipulagstillagna. Um sé að ræða mun strangari ákvæði en leiði af lágmarksskilyrðum stjórnsýslulaga. Staðhæfingum um brot á andmælarétti og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sé þannig mótmælt.

Í deiliskipulagi Vatnsendahlíðar – Þings, sem hafi tekið gildi 27. febrúar 2009, sé sérstök umfjöllun um jarðsprungur á skipulagssvæðinu. Þar komi fram að samkvæmt jarðkönnun á deiliskipulagssvæðinu, sem fjallað sé um í skýrslu Línuhönnunar frá 6. nóvember 2007, hafi þar fundist tvær brotalínur. Önnur þeirra sé talin óvirk en hin virk og mælt sé með því að byggingarreitir húsa standi ekki yfir þeirri sprungu nema að sérstakar ráðstafanir komi þar til. Mögulegar jarðsprungur séu merktar á deiliskipulagsuppdrátt sem hafi fylgt umræddu skipulagi en einnig á þann deiliskipulagsuppdrátt sem hafi fylgt tillögunni með hinni kærðu skipulagsbreytingu. Megi sjá að hinar þekktu sprungur liggi utan við það svæði sem deiliskipulagsbreytingin taki til og ekki sé sérstakur grunur um sprungur þar. Fullyrðingar kæranda um yfirvofandi náttúruvá á svæðinu séu því fráleitar enda ekki studdar neinum gögnum. Svæðið hafi verið rannsakað og mögulegar sprungur færðar inn á skipulagsuppdrátt og því hafi ekki verið þörf á að setja fyrirvara sem mælt sé um í 4. mgr. gr. 5.3.2.18. í skipulagsreglugerð. Þá sé í deiliskipulagsskilmálum almennur fyrirvari um að lóðastærðir á deiliskipulagsuppdrætti séu leiðbeinandi og ákvarðist nánar við gerð mæliblaða.

Í matsgerð frá árinu 2010 sé sjónarmiðum kæranda lýst á þann hátt að hann telji að ekki sé tilefni til að verðfella landið vegna jarðsprungna og að svæðið sé sambærilegt við Þingahverfið, en þar hafi sprungur ekki tálmað byggð. Jafnframt telji kærandi að auðvelt sé að sneiða hjá sprungum eða haga skipulagi með þeim hætti að opin svæði séu höfð þar sem sprungur séu og auk þess sé til staðar þekking á umræddum sprungum vegna rannsókna á grunnvatnsstreymi. Hingað til hafi mótmæli kæranda vegna deiliskipulagsbreytingarinnar lotið að því að bænum væri óheimilt að draga úr þéttleika byggðar á svæðinu. Væri kæranda alvara með staðhæfingum um yfirvofandi náttúruvá þá væri hann ekki á sama tíma að gera athugasemdir við að þéttleiki byggðar væri ekki nægur.

Farið hafi verið með hina kærðu skipulagsbreytingu eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. gr. 5.8.1. í skipulagsreglugerð. Ekki sé um að ræða heildarendurskoðun á deiliskipulagi í skilningi 2. mgr. framangreinds ákvæðis, en breytingin taki einungis til lítils hluta deiliskipulagssvæðisins. Þrátt fyrir það hafi með nákvæmum hætti verið gerð grein fyrir þeim breytingum sem hafi falist í tillögunni og að því leyti uppfylli deiliskipulagsbreytingin framangreint ákvæði 2. mgr. 

Því sé mótmælt að sú aðalskipulagstillaga sem sé til kynningar í Kópavogi muni breyta forsendum fyrir því deiliskipulagi sem hér sé til umfjöllunar. Staðhæfingar kæranda um annmarka á deiliskipulaginu lúti að atriðum sem ekki geti talist veruleg. Í stjórnsýslurétti gildi sú meginregla að til þess að hægt sé að ógilda ákvörðun verði annmarkar á henni að vera verulegir.

Andmæli kæranda við greinargerð Kópavogsbæjar: Kærandi bendir á að eignarréttur að landi því sem deiliskipulagið taki til sé ekki hjá Kópavogsbæ. Eignarnámsheimild veiti ekki eignarráð nema greiddar hafi verið eignarnámsbætur, en Kópavogsbær hafi einungis greitt lítinn hluta þeirra. Sáttargerð, dags. 30. janúar 2007, feli ekki í sér yfirfærslu eignarréttar. Þinglýsing þess skjals veiti Kópavogsbæ engan rétt, enda fjalli það ekki um annað en skyldur Kópavogsbæjar til greiðslu eignarnámsbóta. Þá komi afdráttarlaust fram í greinargerð með 32. gr. laga nr. 39/1978 um þinglýsingar að ekki sé heimilt að þinglýsa eignarnámsgerð á hið eignarnumda nema eignarnámsbætur hafi verið að fullu greiddar. Kærandi sé enn rétthafi lóða á því skipulagssvæði sem hin kærða deiliskipulagstillaga taki til. Réttur til hluta útdreginna lóða falli niður samkvæmt hinni nýju tillögu og byggingarmagn eykst á einni fjölbýlishúsalóð. Fari tillagan því gegn skyldum Kópavogsbæjar samkvæmt greindum útdrætti og fyrrnefndri sáttargerð. Þess vegna hafi Kópavogsbæ borið að hafa samráð við kæranda vegna brýnna hagsmuna hans, sbr. 4. mgr. gr. 5.3.2.20. og 1. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Ef ekki sé skylt að hafa raunverulegt samráð við kæranda eins og hér standi á séu fyrirmæli laga um samráð við gerð deiliskipulags markleysa. Við vinnslu matsgerðar á árinu 2010 hafi Kópavogsbær ekki lagt fram skýrslu Línuhönnunar um rannsóknir á sprungum á skipulagssvæðinu, en hafi hins vegar lýst þar stórfelldri náttúruvá. Megi skilja málatilbúnað bæjarins nú á þann veg að þessu hafi einungis verið haldið fram í því skyni að verðfella landið en í raun og veru stafi engin vá af nefndum sprungum.

——

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á gildandi deiliskipulagi Vatnsendahlíðar – Þings frá árinu 2009 á þremur svæðum sem afmörkuð eru á skipulagsuppdrætti. Byggð var aukin á einu svæði, en dregið úr þéttleika byggðar á tveimur svæðanna. Var farið með skipulagsbreytinguna skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kveður á um að um breytingu á deiliskipulagi fari eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulagsáætlana í sínu umdæmi. Hvergi í lögum er það áskilið að sveitarstjórn afli samþykkis landeiganda vegna skipulagsákvarðana er taka til lands í einkaeigu, enda verður beinum eða óbeinum eignarréttindum ekki ráðstafað með skipulagsáætlunum. Í kærumáli þessu takmarkast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við hina kærðu skipulagsbreytingu, en það er ekki á færi nefndarinnar að taka afstöðu til álitaefna um bein eða óbein eignarréttindi kæranda innan skipulagssvæðisins.

Samkvæmt þágildandi 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga, sbr. nú 3. mgr. ákvæðisins, skal tillaga kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt áður en sveitarstjórn tekur hana til afgreiðslu. Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að heimilt sé að falla frá slíkri kynningu ef allar meginforsendur liggja fyrir í aðalskipulagi. Telja verður að svo hafi verið hvað varðar umdeilda skipulagsbreytingu.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var lóðamörkum við Vallaþing breytt og bætt við nýrri fjölbýlishúsalóð. Af skipulagsuppdrætti má ráða að þær lóðir séu stækkaðar og nái inn á svæði sem skilgreint var sem óbyggt svæði og skógræktarsvæði samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012. Var því áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana, ekki fullnægt hvað varðaði landnotkun að þessu leyti.

Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti, samþykktum 13. janúar 2009, er tók gildi 27. febrúar s.á., liggur jarðsprunga þvert á hið deiliskipulagða svæði frá suðvestri um Trönuþing og Traðarþing til norðausturs um Lundaþing, Kambaþing, Leiðaþing og Jötnaþing. Sprungusvæðið er utan þeirra svæða sem hin kærða ákvörðun tekur til. Umrædd jarðsprunga er einnig merkt inn á áritaðan uppdrátt hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Þar er sýndur hluti gildandi deiliskipulags fyrir breytingu, sem samræmist ekki fyrrgreindum árituðum deiliskipulagsuppdrætti, dags. 13. janúar 2009. Á breytingaruppdrætti hefur lega sprungunnar verið færð til norðvesturs við Trönuþing, þannig að hún liggur nú innan byggingarreits lóðarinnar nr. 5 við Trönuþing. Þá ber uppdráttur hinnar kærðu skipulagsbreytingar með sér að breytingar hafi verið gerðar á honum frá kynntum uppdrætti, dags. 5. febrúar 2013, með því að sett er kvöð um bílastæði við leikskóla við Oddaþing og sýnd innkeyrsla að bílastæðunum. Er það svæði utan skilgreindra breytingarsvæða sem mörkuð eru á uppdráttinn. Er framsetningu skipulagsbreytingarinnar af greindum ástæðum áfátt og samræmist hún ekki gr. 5.8.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að hin kærða ákvörðun sé haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. maí 2013 um að samþykkja breytt deiliskipulag Vatnsendahlíðar – Þings, reita 2, 3 og 4.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson