Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

107/2013 Kópavogsbakki

Árið 2016, föstudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir, forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. september 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kópavogstúns vegna lóðanna nr. 2 og 4 við Kópavogsbakka.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. nóvember 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Kópavogsbakka 3, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. september 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kópavogstúns vegna lóðanna nr. 2 og 4 við Kópavogsbakka. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 19. september 2014.

Málsatvik og rök: Mál þetta á sér nokkra forsögu en deiliskipulag fyrir Kópavogstún er frá árinu 2005. Samkvæmt því var heimilt að reisa einnar hæðar einbýlishús á lóðum með jöfn númer 2-10 neðan götu við Kópavogsbakka. Máttu húsin vera allt að 230 m² að grunnflatarmáli en hús ofan götu, nr. 1-15, stök númer, allt að 175 m². Tekið var fram í greinargerð með skipulaginu að ekki væri heimilt að hafa kjallara. Breyting var gerð á deiliskipulaginu árið 2006 sem fólst í því að gatan var færð um 2 m til suðurs og lóðir ofan götu stækkaðar sem því nam. Þá var byggingarreitur þeirra stækkaður í 187 m². Lóðir neðan götu hliðruðust um 2 m og lengdust um 4 m til suðurs auk þess sem þær voru breikkaðar.  Byggingarreitir húsa neðan götu stækkuðu. Hámarksgrunnflötur húss nr. 2 varð 307 m² og hámarksgrunnflötur húsa nr. 4-10 varð 271 m². Landhalli er nokkur á svæðinu og eru húsin nr. 2 og 4 við Kópavogsbakka byggð á sökklum, en þar er hæðarmunur innan lóðar mestur neðan götu. Önnur hús neðan götunnar eru byggð á jarðvegspúða. Árið 2007 fékk fyrrum eigandi Kópavogsbakka 2 leyfi til að hafa „óuppfyllt ónotað“ rými í sökkli hússins og árið 2008 fengu eigendur Kópavogsbakka 4 leyfi til að nýta gluggalaust rými undir húsi sínu. Ágreiningur varð um frágang á lóðamörkum Kópavogsbakka 4 og 6, en samkomulag varð þar um með lóðarhöfum framangreindra lóða árið 2011.

Árið 2011 sótti eigandi Kópavogsbakka 2 um leyfi til að nýta áðurnefnt rými í sökkli hússins, en við þá breytingu yrði heildarflatarmál þess 465 m². Í kjölfarið var gerð tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna Kópavogsbakka 2 og 4 þar sem gert var ráð fyrir að húsin yrðu með kjallara. Var nefndri tillögu hafnað á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 24. maí 2011. Eigandi Kópavogsbakka 2 kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi synjunina úr gildi með úrskurði uppkveðnum 6. maí 2013.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 27. maí 2013 var lagður fram fyrrgreindur úrskurður úrskurðarnefndarinnar ásamt tillögu að deiliskipulagsbreytingu vegna Kópavogsbakka 2 og 4. Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 11. júní 2013. Samkvæmt tillögunni var heimilt að nýta sökkulrými undir einbýlishúsum á umræddum lóðum fyrir geymslur og íveruherbergi og að heildarflatarmál hússins nr. 2 yrði 465 m² og hússins nr. 4 yrði 445 m². Athugasemdir bárust, m.a. frá kærendum, á auglýsingatíma tillögunnar. Hinn 27. ágúst 2013 var tillagan lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar sem samþykkti hana ásamt fyrirliggjandi greinargerð skipulags- og byggingardeildar, dags. 23. s.m., þar sem m.a. var tekin afstaða til athugasemda kærenda. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar 10. september 2013 og var deiliskipulagsbreytingin síðan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar sem gerði ekki athugasemd við birtingu hennar. Öðlaðist breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. október s.á.

Kærendur benda á að skipulags- og byggingaryfirvöld hafi ítrekað misfarið með vald sitt til hagsbóta fyrir tvo húseigendur við Kópavogsbakka, sem ítrekað hafi farið freklega gegn gildandi skipulagi. Ómaklega og með íþyngjandi hætti hafi verið brotið gegn umtalsverðum hagsmunum annarra húseigenda við fyrrnefnda götu.
 
Góð sátt hafi náðst um það skipulag sem til hafi orðið við færslu götunnar og stækkunar lóða á árinu 2006. Þá hafi lóðin að Kópavogsbakka 2 verið stækkuð úr 626 m² í 724 m² án athugasemda nágranna. Jafnframt hafi allar þær smávægilegu breytingar sem einstakir lóðarhafar hafi fengið í gegn verið gerðar í góðri sátt við nágranna sem fengin hafi verið áður en farið hafi verið í framkvæmdir hverju sinni. Lóðahafar í nýjum hverfum, sem hafi keypt lóðir á verulega háu verði, hljóti að ætlast til þess að skipulagsyfirvöld hlutist til um að gera breytingar á samþykktu skipulagi í a.m.k. einhverri sátt við meginþorra lóðarhafa. Í þessu máli hafi skipulags- og byggingaryfirvöld hins vegar haft í fyrirrúmi hagsmuni þeirra sem ekki hafi farið að leikreglum skipulagsmála á kostnað þeirra sem fari að þeim reglum í hvívetna.

Mál þetta eigi sér langa forsögu og varði kæra þessi alla málsmeðferð skipulagsyfirvalda í Kópavogi frá upphafi til enda. Vegna ónákvæmrar meðferðar á grenndarkynningum málsins á fyrri stigum hafi ítarlegar athugasemdir annarra íbúa götunnar ekki komist fyllilega til skila í þeim kærumálum sem úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi haft til meðferðar á árunum 2011, 2012 og 2013. Heimild til að nýta kjallara undir norður hluta hússins að Kópavogsbakka nr. 15 undir eitt herbergi, þvottahús og snyrtingu geti ekki talist sambærileg eða verið fordæmi fyrir fyrirætlunum húseigenda að Kópavogsbakka 2. Aldrei verði hægt að breyta rýminu að Kópavogsbakka 15 í sjálfstæða íbúð eða nýta með verulega breyttum hætti. Þriggja metra hæðarmunur á plötu og lóð að Kópavogsbakka 2, sem haldið sé fram að sé við suðurhlið Kópavogsbakka 2, sé litlu meiri en gert hafi verið ráð fyrir í upphaflegu skipulagi götunnar, en þá skyldu hús vera á einni hæð með jarðvegspúða. Lítið sem ekkert hafi breyst í þessu efni við færslu götunnar.

Verðmat húsnæðis miðist við meðal fermetraverð við fyrri sölur í nágrenni þess. Stóru húsin að Kópavogsbakka 2 og 4 muni lækka meðalfermetraverðið í götunni og þar með verðmæti annarra húsa þar. Eftir ærinn tilkostnað hljóti fólk að hafa þær væntingar til samþykkts skipulags að því verði ekki breytt verulega með íþyngjandi hætti, m.a. til að klóra yfir margendurtekin mistök skipulagsyfirvalda.

Vandræði við frágang lóðarinnar nr. 6 við Kópavogsbakka hafi eingöngu komið til vegna framkvæmda við Kópavogsbakka nr. 4 sem hafi verið í andstöðu við samþykkt skipulag. Þá beri nokkuð á því að bílum sé lagt í götuna við áðurnefnt hús nr. 2 svo nálægt gatnamótum að beygja inn í götuna verði það þröng að hætta sé á óhappi, sér í lagi í hálku. Þannig hafi áhrif frá umferð verið veruleg við mikla fjölgun íbúa í nefndu húsi.

Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi eigandi Kópavogsbakka 2 sótt um byggingarleyfi með umsókn, dags. 11. október 2013, sem hafi verið samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 22. s.m. Það sé mat Kópavogsbæjar að hin kærða breyting á deiliskipulagi og afgreiðsla byggingarleyfis hafi verið lögmæt.

——-

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi fyrir Kópavogstún sem felur í sér að í stað einnar hæðar einbýlishúsa af gerðinni E2 að Kópavogsbakka nr. 2 og 4 megi á lóðunum standa húsagerð E3, sem er einbýlishús á einni hæð með kjallara. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti stækkar lóðin nr. 2 við nefnda götu til vesturs úr 724 m² í 777 m² sem veldur því að legu sameiginlegra bílastæða við Urðarbraut er breytt, en fjöldi þeirra er hins vegar óbreyttur. Stendur einbýlishús kærenda handan götu við Kópavogsbakka gegnt fyrrgreindum lóðum.

Byggingarreitum lóðanna að Kópavogsbakka 2 og 4 er ekki breytt með umdeildri skipulagsbreytingu og ekki er hróflað við notkun, fjölda íbúða eða ytra byrði húsa. Verður því ekki um að ræða aukin grenndaráhrif vegna skuggavarps eða skerðingar á útsýni. Í máli þessu er eingöngu til skoðunar lögmæti hinnar kærðu breytingar á deiliskipulagi, en ekki tekin afstaða til eldri ákvarðana um skipulag umrædds svæðis.

Þegar litið er til þess sem að framan er rakið verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting raski einstaklingsbundnum lögvörðum hagsmunum kærenda þótt með henni sé heimiluð nýting rýmis í sökkli áðurnefndra húsa, sem hefur verið til staðar frá byggingu þeirra. Skortir því á að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gerir að skilyrði fyrir kæruaðild og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að álitaefni um bótarétt vegna skipulagsákvarðana á ekki undir úrskurðarnefndina, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, heldur eftir atvikum undir dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir