Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2013 Menntaskólinn í Reykjavík

Árið 2016, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2013, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. mars 2013 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir áður gerðri klæðningu á austur- og vesturhlið Þingholtsstrætis 18.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. apríl 2013, er barst nefndinni 22. s.m., kæra eigendur, Þingholtsstræti 15, Reykjavík, Þingholtsstræti 15a, Reykjavík, og Þingholtsstræti 17, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 að samþykkja byggingarleyfi fyrir áður gerðri klæðningu á austur- og vesturhlið Þingholtsstrætis 18. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. júní 2013.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 17. apríl 2012 var tekin fyrir umsókn Fasteigna ríkisins frá 22. nóvember 2011 um leyfi til að endurbyggja úr gleri austur- og vesturhlið húss Menntaskólans í Reykjavík við Þingholtsstræti 18. Var afgreiðslu málsins frestað. Síðar var umsóknin tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 29. maí 2012 og hún samþykkt. Var þeirri ákvörðun skotið til úrskurðarnefndarinnar, sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 10. september 2012. Var sú niðurstaða studd þeim rökum að á hefði skort að byggingarleyfisumsóknin hefði verið grenndarkynnt í samræmi við ákvæði í gildandi deiliskipulagi og að hönnunargögn byggingarleyfisins hefðu verið óskýr. Voru umræddar framkvæmdir þá yfirstaðnar.

Ný umsókn um endurgerð austur- og vesturhliðar Þingholtsstrætis 18, dags. 11. nóvember 2012, var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. desember s.á. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu. Skipulagsfulltrúi ákvað á fundi sínum 7. desember s.á. að grenndarkynna áður gerða framkvæmd fyrir íbúum að Þingholtsstræti 15, 15a, 16, 17, 21 og 22 og að Bókhlöðustíg 10. Erindið var grenndarkynnt frá 14. desember 2012 til og með 15. janúar 2013 og bárust athugasemdir frá kærendum með bréfi, dags. 14. janúar 2013. Málið var á dagskrá fundar umhverfis- og skipulagsráðs 27. febrúar 2013 þar sem fyrir lágu andmæli kærenda, bréf rektors Menntaskólans í Reykjavík, dags. 4. október 2012, greinargerð hönnuða, dags. 8. nóvember s.á., bréf íbúa Þingholtsstrætis 13 og 17, dags. 13. september 2012, auk umsagnar skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa, dags. 20. febrúar 2013. Gerði ráðið ekki athugasemdir við erindið með vísan til fyrrgreindrar umsagnar, dags. 20. febrúar 2013, og vísaði málinu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Sú afgreiðsla ráðsins var samþykkt í borgarráði 28. s.m. Byggingarfulltrúi samþykkti hina grenndarkynntu byggingarleyfisumsókn á afgreiðslufundi hinn 19. mars 2013 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 21. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kærenda eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð hins kærða byggingarleyfis og þá sérstaklega þær röksemdir sem skipulagsstjóri byggir niðurstöðu sína á. Athugasemdir rektors Menntaskólans í Reykjavík séu meginþátturinn í niðurstöðu skipulagsstjóra, en rektor hafi lýst yfir ánægju með heimilaða klæðningu hússins að Þingholtsstræti 18 og þá sérstaklega vegna sólarálags, en ástand innandyra hafi verið erfitt vegna sólar og hitamollu í kennslustofum.

Þannig hátti til að veggur sá sem snúi að fasteignum kærenda snúi í austsuðaustur, eða í 110° miðað við norður. Á vorjafndægri, um klukkan átta að morgni, sé sólin að færast yfir sjónbaug í 95°, en vegna þrengsla í Þingholtsstræti þurfi sólin að ná u.þ.b. 15° hæð til að ná að skína á efri hluta suðurhliðar Þingholtsstrætis 18. Sólin fari hæst í 26° í suðurátt en eftir það skíni hún ekki á suðurvegg hússins. Líta verði til þess að allt frá haustjafndægri og að vorjafndægri sé sólin enn skemur á lofti og fari þá meðalfjöldi sólskinstunda á þessu tímabili ekki yfir fjórar stundir á dag. Niðurstaðan sé sú að sólin valdi ekki þeim vandamálum innandyra sem tengist hitamollu og loftleysi, öllu heldur sé um að kenna lélegri loftræsingu hússins. Rekja megi þessa lélegu loftræsingu til þess að húsið sé ekki hannað sem kennsluhúsnæði. Endurgerð umrædds veggjar hafi því lítið með það að gera að bæta skilyrði innan veggja skólans, eins og segi í umsögn skipulagsstjóra. Umhugsunarvert sé að skipulagsstjóri hafi ekki rannsakað þau rök að hitamolla og loftleysi innandyra sé sólinni um að kenna.

Speglunin gagnvart fasteignum kærenda verði mun meiri en áður og valdi þeim miklum óþægindum. Ekki sé hægt að vera sammála mati hönnuða þess efnis að speglunin sé lítil og hafi verið til staðar og ekki sé unnt að taka undir mat skipulagsstjóra um að speglunin veki athygli fyrir fegurð. Þá sé ákvörðun byggingarfulltrúa um veitingu byggingarleyfisins án rökstuðnings og sé því erfitt að gera sér grein fyrir ákvörðuninni og tjá sig um hana.
   
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda í máli þessu verði hafnað.

Í umsögn skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa frá 20. febrúar 2013 komi fram að endurgerð umrædds veggjar, sem þarfnaðist viðhalds, miði að því að bæta skilyrði í skólahúsnæðinu að Þingholtsstræti 18, sérstaklega með tilliti til sólarálags. Vakin sé athygli á því í þessu sambandi að umrædd glerklæðning sé úr viðurkenndu og löglegu byggingarefni og sé notuð víða, auk þess sem speglunin veki athygli fyrir fegurð. Engin rök standi til þess að kærendur eigi heimtingu á því að þessi efnisgerð sé ekki notuð. Geri gildandi skipulagskilmálar fyrir umrætt svæði engan sérstakan áskilnað um klæðningu á nefndu húsi. Einhver speglun fylgi glerklæðningu en eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar í nánasta umhverfi sem geti haft í för með sér einhverja skerðingu á hagsmunum, s.s. útsýni, skuggavarp o.s.frv. Fullyrðingu kærenda, um að framkvæmdinni fylgi veruleg óþægindi í þeirra garð, sé mótmælt sem órökstuddri, en búsetu í þéttri byggð fylgi einhver innsýn um glugga nágranna beint eða óbeint.

Það sé m.a. lögbundið hlutverk skipulags- og byggingaryfirvalda að leggja mat á fagurfræði bygginga. Segi t.a.m. í gr. 6.1.1. í byggingarreglugerð að mannvirki skulu þannig hönnuð og byggð að þau henti vel til fyrirhugaðra nota. Við ákvörðun á útliti þeirra, efnisvali, litavali og gerð skuli gæði byggingarlistar höfð að leiðarljósi. Ekki hafi verið sýnt fram á að einhver önnur sjónarmið hafi ráðið för við samþykkt byggingarfulltrúa í málinu eða að framkvæmdin sé þess eðlis að hún brjóti svo verulega gegn hagsmunum kærenda að það leiði til ógildingar samþykktarinnar. Því sé einnig mótmælt að reglur um málsmeðferð hafi verið brotnar á kærendum. Þvert á móti hafi málsmeðferðin verið í samræmi við ákvæði laga og reglna. Ekki hafi verið bent á nein atriði varðandi málsmeðferðina sem valdi ógildingu samþykktar byggingarfulltrúa í málinu.
 
Athugasemdir leyfishafa: Skírskotað er til þess að í september 2011 hafi Fasteignir ríkissjóðs tekið við umsjón með húsakosti Menntaskólans í Reykjavík. Endurnýjun á austurhlið hússins að Þingholtsstræti 18 hafi þá verið orðin aðkallandi. Gluggapóstar fúnir, móða milli glerja og raki í veggjum vegna leka. Við val á gleri hafi verið tekið mið af því sem þegar hafi verið búið að endurnýja á suðaustur horni byggingarinnar sem snúi að Þingholtsstræti. Öll hliðin hafi því sömu ásýnd í dag. Byggingarleyfisumsókn hafi verið lögð fram í tvígang vegna sömu viðhaldsframkvæmda að Þingholtsstræti 18 og sé það mat leyfishafa að embætti byggingarfulltrúa hafi staðið rétt að öllum undirbúningi og hafi verkið verið framkvæmt af fagmennsku í samræmi við tilskilin leyfi.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var heimiluð þegar gerð klæðning úr gleri og áli á austur- og vesturhlið hússins að Þingholtsstræti 18. Bera kærendur, sem búa gegnt greindri hlið hússins, fyrir sig að veruleg speglun stafi af klæðningunni er valdi þeim miklum óþægindum sem og að rökstuðningi fyrir ákvörðuninni sé áfátt.

Fyrir umrætt svæði er í gildi deiliskipulag staðgreinireits 1.180.0, Menntaskólareits. Í því er ekki að finna sérstök ákvæði um klæðningar ytra byrðis bygginga, en í skilmálum þess er hins vegar tekið fram að nánari skilmálar, markmið og forsendur skipulagsins komi fram í heftinu „Miðborgarsvæði Reykjavíkur. Greinargerð og deiliskipulagsskilmálar fyrir staðgreinireit 1.180.0.“ Þar kemur m.a. fram í grein 4.2, þar sem fjallað er um minni háttar breytingar, að þær skuli ávallt miðast við aðstæður og geti þarfnast grenndarkynningar. Grenndarkynning hins kærða byggingarleyfis fól ekki í sér tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi heldur var hún framkvæmd í samræmi við fyrrgreint ákvæði í skilmálum, með hliðsjón af grenndaráhrifum umdeildrar klæðningar.

Að lokinni grenndarkynningu var tekin afstaða til framkominna athugasemda og gerð tillaga að afgreiðslu málsins í umsögn skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa frá 20. febrúar 2013, sem umhverfis- og skipulagsráð vísaði til við afgreiðslu þess. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu og veitti byggingarfulltrúi síðan byggingarleyfi í samræmi við afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs og borgarráðs á hinni grenndarkynntu byggingarleyfisumsókn. Var málsmeðferðin í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og einnig 4. mgr. 9. gr. og 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Hin kærða ákvörðun fer ekki í bága við gildandi deiliskipulag og dæmi eru um að sambærileg klæðning og hér um ræðir sé notuð á ytra byrði húsa. Verður klæðningin ekki talin svo óhefðbundin eða áhrif hennar slík að hún þurfi að eiga beina stoð í gildandi skipulagi, þótt fallist sé á að henni fylgi nokkur endurspeglun húsa handan götu, sem geti haft í för með sér nokkra innsýn í íbúðir í þeim húsum umfram það sem áður var. Hvað sem líður fagurfræðilegum sjónarmiðum lágu efnisrök að baki hinu kærða byggingarleyfi, þar sem um var að ræða nauðsynlegt viðhald hússins að Þingholtstræti 18. Þá var klæðningin og valin með tilliti til útlits tengibyggingar við Bókhlöðustíg og áður gerðrar útbyggingar á horni Þingholtsstrætis 18.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu um ógildingu hennar af þeim sökum hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. mars 2013 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir áður gerðri klæðningu á austur- og vesturhlið Þingholtsstrætis 18.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson