Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

15/2015 Grettisgata

Árið 2016, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 um að veita byggingarleyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu á lóð nr. 62 við Grettisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. febrúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir E, Grettisgötu 60, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu við Grettisgötu 62. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar svalir hússins.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 1. apríl 2015 og í janúar 2016.

Málavextir: Fasteignin að Grettisgötu 62 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur 1.190.1. Um er að ræða hús á horni Grettisgötu og Barónsstígs.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. maí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til þess m.a. að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í umræddu húsi. Var afgreiðslu málsins frestað og erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í júlí s.á. var auglýst tillaga að breytingu á fyrrnefndu deiliskipulagi vegna lóða nr. 62 við Grettisgötu og Barónsstígs 20a og öðlaðist greind breyting gildi 12. nóvember s.á. Fól breytingin m.a. í sér að umræddar lóðir yrðu sameinaðar og heimilt yrði að byggja að lóðarmörkum innan byggingarreits. Hús á lóðinni yrði þrjár hæðir, ásamt þakhæð með kvistum, og fjöldi íbúða átta, en heimild hafði verið fyrir því að byggja eina hæð ofan á húsið samkvæmt áður gildandi skilmálum. Þá væru svalir á 2. og 3. hæð heimilaðar út fyrir byggingarreit. Jafnframt var tekið fram að eldri skilmálar giltu að öðru leyti.

Umsókn um leyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu að Grettisgötu 62 var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. nóvember 2014. Var afgreiðslu málsins frestað, sem og á afgreiðslufundum embættisins 2. og 9. desember s.á. Erindið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi 22. desember s.á., það samþykkt og talið samræmast ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010. Var byggingarleyfi gefið út 6. mars 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi fest kaup á íbúð á þriðju hæð Grettisgötu 60 í desember 2014. Séu svalir á Grettisgötu 62, til vesturs út frá eldhúsi, allt of nálægt svefnherbergisgluggum á annarri og þriðju hæð Grettisgötu 60. Ekki sé ljóst af teikningum frá 2010 að um svalir sé að ræða. Á seinni teikningum sé óljóst að svalir séu frá eldhúsi og ekki komi þar heldur fram að svalir séu rétt við svefnherbergisglugga íbúðar kæranda. Þá hafi kærandi reynt að afla sér upplýsinga hjá sveitarfélaginu um framkvæmdir á umræddri lóð í desember 2014, en engin svör fengið. Það hafi fyrst verið á fundi með umhverfis- og skipulagsráði 21. janúar 2015 sem kærandi hafi séð samþykktar teikningar að Grettisgötu 62.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að kæru sé vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Að öðru leyti sé öllum kröfum kæranda hafnað. Hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits. Hafi auglýsing um gildistöku breytingarinnar verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember 2014. Byggingarleyfi hafi verið samþykkt og gefið út 22. desember s.á. og staðfest í borgarráði 8. janúar 2015. Úrskurðarnefndinni hafi borist kæra í málinu 19. febrúar 2015 og hafi kærufrestur þá verið liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að árið 2010 hafi verið lögð inn fyrirspurn til byggingarnefndar um stækkun hússins. Á teikningu er fylgt hafi fyrirspurn séu sýndar skáskornar svalir. Í byrjun árs 2014 hafi verið sótt um að breyta deiliskipulagi lóðanna Grettisgötu 62 og Barónsstígs 20a. Í umsókninni hafi verið sýndar svalir, líkt og í fyrirspurn. Á samþykktum byggingarnefndarteikningum séu svalir óbreyttar frá fyrirspurn og samþykktu deiliskipulagi. Ekkert komi fram í byggingarreglugerð sem komi í veg fyrir þessa útfærslu á svölum. Hafi þær verið skáskornar af tilliti til íbúa Grettisgötu 60, en á þann hátt verði ekki innsýn frá svölum í þær íbúðir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis er heimilar m.a. stækkun hússins að Grettisgötu 62 og lýtur kröfugerð kæranda að svölum á annarri og þriðju hæð. Hefur Reykjavíkurborg gert kröfu um frávísun málsins með vísan til þess að kæra hafi ekki borist úrskurðarnefndinni innan lögboðins kærufrests. 

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, nema á annan veg sé mælt fyrir um í lögum. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr, eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki liggur annað fyrir en að kæranda hafi fyrst á fundi með umhverfis- og skipulagsráði 21. janúar 2015 orðið kunnugt um samþykkt byggingarleyfis vegna Grettisgötu 62. Ekki verður fullyrt að kæranda hafi mátt vera efni þess ljóst fyrr en þá. Kæra barst í málinu 19. febrúar 2015 og því innan áskilins kærufrests. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Húsið að Grettisgötu 62 er reist árið 1923 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en húsakönnun Árbæjarsafns tilgreinir byggingarár sem 1924. Í VII. kafla laga um menningarminjar nr. 80/2012 er fjallað um verndun og varðveislu húsa og mannvirkja. Er kveðið á um það í 30. gr. laganna að eigendum húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar, en byggð voru 1925 eða fyrr, sé skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa. Ber byggingarfulltrúum að fylgjast með því að leitað sé eftir nefndu áliti áður en leyfi er veitt til framkvæmda. Skal álit Minjastofnunar liggja fyrir áður en byggingarleyfi er veitt til framkvæmda og skal þar taka tillit til skilyrða sem Minjastofnun leggur til í áliti sínu. Er óheimilt að gefa út byggingarleyfi
fyrir mannvirki sem fellur undir IV., VI. og VII. kafla laga um menningarminjar fyrr en álit Minjastofnunar liggur fyrir skv. 4. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Svo sem fyrr greinir er húsið að Grettisgötu 62 reist fyrir árið 1925. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg liggur ekki fyrir álit Minjastofnunar í málinu. Með vísan til þess sem að ofan greinir er þó ljóst að eiganda hússins hefði borið að leita álits Minjastofnunar áður en sótt var um leyfi byggingaryfirvalda fyrir breytingum á því og var byggingarfulltrúa að sama skapi óheimilt að veita umrætt byggingarleyfi áður en álits þessa væri leitað. Leiðir ágalli þessi á málsmeðferð óhjákvæmilega til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar í heild sinni.

Eins og fyrr greinir er í gildi deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur 1.190.1, á umræddu svæði. Þar kemur m.a. fram að við hönnun viðbygginga og breytinga skuli vanda mjög til hönnunar og hafa t.a.m. til hliðsjónar að þær hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið og gæði nálægra bygginga. Jafnframt segir svo í almennum skilmálum: „Við Grettisgötu og Barónsstíg skulu svalir snúa inn að reit. Dýpt þeirra leggst við húsdýpt. Mesta dýpt svala frá bakhlið húss er 1,6 m.“ Líkt og áður er rakið tók gildi breyting á skilmálum greinds deiliskipulags vegna lóðanna Grettisgötu 62 og Barónsstígs 20a í nóvember 2014, en tekið var þar fram að eldri skilmálar giltu að öðru leyti. Þær breytingar einar voru gerðar hvað varðar svalir að gert er ráð fyrir því að svalir á 2. og 3. hæð séu heimilaðar út fyrir byggingarreit. Ekki er í neinu vikið að stærð svala og verður því ekki annað ráðið en að áðurgreindir almennir skilmálar um stærð þeirra séu enn í gildi. Af framlögðum byggingarnefndarteikningum fyrir aðra og þriðju hæð hússins að Grettisgötu 62 verður ekki betur séð en að dýpt þeirra svala sem eru í kverk hússins sé meiri en áskilið er í deiliskipulagi. Er hið kærða byggingarleyfi hvað þetta varðar því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem krafa er gerð um í 11. gr. og 1. tl. 13. gr. mannvirkjalaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 um að veita byggingarleyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu á lóð nr. 62 við Grettisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson