Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2014 Miðfell Bláskógabyggð

Árið 2016, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2014, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. maí 2013 um að hafna sameiningu frístundalóðanna nr. 16 og 18 við V-götu í landi Miðfells, Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. mars 2014, er barst nefndinni 5. s.m., kæra eigandi lóðar nr. 16 við V-götu,, eigandi lóðar nr. 18 við V-götu, báðar í landi Miðfells, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. maí 2013 að hafna sameiningu umræddra frístundalóða. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu 11. apríl 2014 og 5. janúar 2016.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 21. mars 2013 var tekin fyrir beiðni kærenda um að sameina lóðir nr. 16 og 18 við V-götu í landi Miðfells. Var erindinu hafnað þar sem ekki væri að mati nefndarinnar æskilegt að breyta fjölda frístundalóða innan þegar samþykktra hverfa og var sú afgreiðsla staðfest í sveitarstjórn 11. apríl s.á. Í kjölfar þess óskuðu kærendur eftir því að nefnd afgreiðsla yrði endurskoðuð og á fundi skipulags- og byggingarnefndar 23. s.m. var málið tekið fyrir að nýju og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Eigendur lóðarinnar hafa nú sent inn nánari rökstuðning fyrir beiðni sinni sbr. bréf dags. 2. apríl 2013. Þá liggur fyrir samþykki aðliggjandi eigenda á sameiningu lóðanna. Erindinu er hafnað á ný á sömu forsendum og fyrri afgreiðsla nefndar frá 21. mars. Ekki er fallist á að lögun lóðanna komi í veg fyrir að á þeim verði reist frístundahús.“ Á fundi sveitarstjórnar 2. maí 2013 var fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og að beiðni um sameiningu lóðanna væri hafnað.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fyrir liggi að sveitarfélagið hafi samþykkt sameiningu annarra lóða á svæðinu. Samkvæmt jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar skuli sambærileg mál afgreidd á sambærilegan hátt. Hagsmunir kærenda séu sambærilegir hagsmunum þeirra er fengið hafi samþykkta sameiningu lóða. Hafi kærendur þar með haft réttmætar væntingar um að það ástand myndi haldast.

Engin málefnaleg sjónarmið hafi verið lögð fram af hálfu sveitarfélagsins fyrir nefndri ákvörðun, utan þess að „…ekki sé æskilegt að breyta fjölda frístundahúsalóða innan þegar samþykktra hverfa“. Hafi kærendur lagt fram haldbær rök fyrir breytingunni og nágrannar ekki gert athugasemdir.
Í máli þessu og sambærilegum málum hafi verið teknar matskenndar stjórnvaldsákvarðanir. Verði í því sambandi að horfa til jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, sem leggi bönd á stjórnvald. Sé það réttlætiskrafa að farið sé á sama máta með sambærileg tilvik. Þannig skuli allir njóta jafns réttar og beri opinberir aðilar jákvæðar skyldur til að tryggja þennan rétt. Öll mismunun á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða sé óheimil. Þá skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Þá sé bent á að sveitarfélagið hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu, sbr. 20. gr. laga nr. 37/1993, og eigi því almennur kærufrestur ekki við.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að synjun þess hafi byggst á sama grunni og fyrri ákvarðanir skipulags- og byggingarnefndar, og þeirra sveitarstjórna sem eigi fulltrúa í sameiginlegri skipulagsnefnd, um sambærileg mál undanfarin ár. Megi þar vísa í mál úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 15/2010 og mál úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 57/2012.

Undanfarin ár hafi nokkuð verið óskað eftir sameiningu sumarhúsalóða. Í sumum tilvikum hafi það verið heimilað en ekki í öðrum og hafi þær ákvarðanir byggst á mismunandi aðstæðum hverju sinni og stundum niðurstöðu grenndarkynningar. Hafi beiðnum um sameiningu lóða fjölgað nokkuð og því hafi verið ákveðið að skoða almennt hvort sameining lóða væri æskileg. Niðurstaðan hafi orðið sú að almennt væri ekki æskilegt að heimila sameiningu lóða innan sumarhúsahverfa, þar sem það breytti forsendum uppbyggingar hverfisins m.t.t. vegagerðar, lagningar veita o.s.frv. Þá sé einnig nauðsynlegt að ákveðinn stöðugleiki ríki í skipulagsmálum. Jafnframt miðist byggingarmagn í flestum sumarhúsahverfum við ákveðið nýtingarhlutfall og myndi sameining lóða gera það að verkum að heimilt yrði að byggja mun stærra hús á sameinaðri lóð en á öðrum lóðum í kring.

—–

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, nema á annan veg sé mælt fyrir um í lögum. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr, eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi skipulagsfulltrúa til kærenda, dags. 23. apríl 2013, var tilkynnt um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á erindi þeirra og gerður sá fyrirvari að téð afgreiðsla væri háð staðfestingu sveitarstjórnar. Staðfesti sveitarstjórn afgreiðslu nefndarinnar 2. maí s.á. og hafnaði erindi kærenda. Mun kærendum ekki hafa verið tilkynnt um þá afgreiðslu.

Úrskurðarnefndin móttók kæru í máli þessu 5. mars 2014 og var því kærufrestur liðinn er kæra barst nefndinni, sbr. ofangreint ákvæði 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hins vegar skorti á við afgreiðslu málsins hjá sveitarfélaginu að kærendum væri leiðbeint um kæruheimild eða kærufrest, svo sem áskilið er í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. sömu laga, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.

Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags en í því eru teknar ákvarðanir um skipulagsforsendur innan sveitarfélagsins, m.a. um stærðir lóða og fjölda þeirra. Þá er óheimilt að skipta jörðum, löndum, lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til, sbr. 48. gr. laganna. Eiga kærendur því ekki lögvarinn rétt til þess að lóðir þeirra séu sameinaðar.

Ekki er í gildi deiliskipulag á svæði því sem hér um ræðir. Sveitarfélagið hefur hins vegar markað sér stefnu um frístundabyggð í Aðalskipulagi Bláskógabyggðar fyrir Þingvallasveit 2004-2016. Er það svæði sem hér um ræðir, úr landi Miðfells, tilgreint í aðalskipulagi sem sumarhúsasvæði og kemur fram í skipulaginu að „…brúttóþéttleiki svæðisins verði um 1 hús á 0,75 ha lands að meðaltali“. 

Dæmi eru um að sameining lóða hafi áður verið heimiluð á svæðinu. Stefnubreyting hefur þó orðið þar á hjá sveitarfélaginu og er ekki annað að sjá en að sú stefnubreyting sé í samræmi við áðurnefnda stefnu í aðalskipulagi. Þó að sameining lóða hafi verið heimiluð á svæði Miðfells í einu tilviki á árinu 2013 virðist þar hafa verið um undantekningu að ræða, en sú sameining átti sér stað á svæði þar sem fyrir hendi er deiliskipulag. Þegar af þeirri ástæðu er ekki um sambærilegt tilvik að ræða og verður það því ekki talið hafa skapað fordæmi. Eins og greint er frá í málavaxtalýsingu var sameiningu greindra lóða synjað með þeim rökum að ekki væri æskilegt að breyta fjölda lóða innan samþykktra hverfa. Verður ekki annað séð en að málefnaleg sjónarmið hafi búið þar að baki. 

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. maí 2013 um að hafna sameiningu frístundalóðanna nr. 16 og 18 við V-götu í landi Miðfells, Bláskógabyggð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson