Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

79/2013 Vatnsendahlíð

Árið 2016, fimmtudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. maí 2013 um að samþykkja breytt deiliskipulag Vatnsendahlíðar – Þings, reita 2, 3 og 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. ágúst 2013, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Þ, Vatnsenda í Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. maí 2013 að samþykkja breytt deiliskipulag Vatnsendahlíðar – Þings, reita 2, 3 og 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað. Þar sem í skipulagi felst ekki heimild til framkvæmda og fyrir lá að ekki varð af uppbyggingu nýs hverfis á hinu deiliskipulagða svæði þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa og verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 16. september 2013.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi var eignarnámsþoli samkvæmt eignarnámsheimild sem umhverfisráðuneytið veitti Kópavogsbæ með bréfi, dags. 10. janúar 2007. Náði heimildin yfir 863,7 ha land úr jörðinni Vatnsenda, m.a. yfir svonefndan reit B sem er 162,7 ha að stærð. Samkvæmt sáttargerð milli Kópavogsbæjar og kæranda, dags. 30. s.m., um bætur fyrir hið eignarnumda land fólst endurgjald m.a. í því að kærandi fékk 11% af öllum byggingarrétti fyrir íbúðarhús og atvinnuhúsnæði úr hverjum skipulagsáfanga fyrir sig. Á árinu 2007 lá fyrir tillaga að deiliskipulagi Vatnsendahlíðar – Þings, sem var fyrsti skipulagsáfangi hins eignarnumda lands og hluti fyrrnefnds reits B. Deiliskipulagstillagan náði yfir 92,5 ha lands, að meðtöldum Guðmundarlundi, og afmarkaðist af Gulaþingi og Boðaþingi til norðurs, markalínu grannsvæðis vatnsverndar til austurs og suðurs og bæjarmörkum Garðabæjar og væntanlegu hesthúsahverfi á Kjóavöllum til vesturs. Í september sama ár dró kærandi út lóðir á því svæði sem greind tillaga tók til í samræmi við nefnda sáttargerð. Í endurriti úr gerðarbók Sýslumannsins í Kópavogi var af því tilefni bókað: „Aðilar óska eftir því að bókað verði að útdráttur þessi er framkvæmdur með fyrirvara um staðfestingu á deiliskipulagi og endanlegan íbúðafjölda skv. því.“ Árið 2009 tók gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ hafa ekki verið gefnir út lóðarleigusamningar til kæranda og fyrrgreindar lóðir hafa ekki verið stofnaðar í fasteignaskrá. Þá hefur nær öllum úthlutuðum lóðum til almennra kaupenda á svæðinu verið skilað þannig að engar framkvæmdir hófust á svæðinu, eins og að framan greinir. 

Vegna meintra vanefnda Kópavogsbæjar á nefndri sáttargerð fékk kærandi dómkvadda tvo matsmenn í janúar 2010 til að verðmeta hið eignarnumda land og skiluðu þeir matsgerð í október s.á. Í kjölfarið höfðaði kærandi mál á hendur Kópavogsbæ, en með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 17. janúar 2014 var kröfu kæranda um greiðslu efndabóta vegna vanefnda á fyrrgreindri eignarnámssátt vísað frá dómi vegna vanreifunar.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 5. febrúar 2013 var samþykkt að kynna tillögu um breytingu á fyrrnefndu skipulagi samkvæmt 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var sú afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar 12. s.m. Samkvæmt tillögunni var markmið hennar að þétta byggð við Vallaþing, sem liggur næst skóla og þjónustu Kórahverfis, en draga úr þéttleika byggðar á kolli skipulagsvæðisins og í fjölbýlishúsabyggð við Stapaþing. Breytingin tekur til þriggja reita skipulagssvæðisins og er samanlagt breytingarsvæði um 18 ha að flatarmáli. Við Vallaþing fjölgar íbúðum um 126 og er þar m.a. bætt við einni fjölbýlishúsalóð. Íbúðum fækkar um sama fjölda við aðrar götur þannig að heildarfjöldi íbúða á deiliskipulagssvæðinu helst óbreyttur.

Tillagan var auglýst til kynningar með athugasemdafresti til 12. apríl 2013. Þá var tillagan til sýnis á skrifstofu skipulags- og byggingardeildar og jafnframt birt á heimasíðu bæjarins. Athugasemdir bárust einungis frá kæranda á kynningartíma. Á fundi skipulagsnefndar 7. maí 2013 var tillagan samþykkt ásamt umsögn um fram komnar athugasemdir. Bæjarstjórn tók málið til umfjöllunar 14. s.m. en frestaði afgreiðslu þess þar sem á sama fundi hafði afgreiðslu tillögu að Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 verið frestað. Í bókun fundarins um aðalskipulagstillöguna kom fram að með henni væri verið að fella úr gildi deiliskipulag í áðurnefndu Stapaþingi. Deiliskipulagsbreytingin var svo samþykkt í bæjarstjórn 28. maí 2013. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. júlí 2013.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að Kópavogsbær hafi vanefnt greiðslu eignarnámsbóta með þeim hætti að ráðstöfunarréttur hans yfir eignarnámslandinu sé ekki fyrir hendi, sbr. meginreglu 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Eignarrétturinn sé verndaður af 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944 þar sem segi að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji og lög heimili og skuli þá koma fullt verð fyrir. Þá byggi 39. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 á því að landsvæði í einkaeign verði ekki deiliskipulagt nema með samþykki þess sem fari með umráð hins skipulagða lands. Sveitarfélag sem vilji beita skipulagsvaldi sínu gegn vilja eiganda eigi þess kost að nýta sér eignarnámsheimildir skv. IX. kafla skipulagslaga, en þá verði bætur að vera greiddar eða réttur eignarnámsþola tryggður með öðrum hætti.

Kærandi hafi dregið út 78 lóðir samkvæmt eldra deiliskipulagi en með hinni kærðu breytingu sé réttindum hans breytt og með því brotið gegn rétti hans. Ekki sé heimild til að víkja frá fortakslausu ákvæði 4. mgr. gr. 5.3.2.20. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um að í deiliskipulagi skuli gerð grein fyrir því hvort framfylgd deiliskipulagins sé háð samningum eða leyfum annarra aðila en sveitarfélagsins. Í deiliskipulagstillögunni hafi ekki verið vikið að rétti kæranda til útdreginna lóða eða rétti hans samkvæmt sáttargerð vegna eignarnámsbóta.

Almenn auglýsing í blöðum dugi ekki til að uppfylla skilyrði 1. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð um virkt samráð, heldur verði að leita beint til þekktra hagsmunaðila. Á engan hátt hafi verið leitast við að hafa samband við kæranda, sem hafi ríkra hagsmuna að gæta. Í rökstuðningi fyrir höfnun athugasemda kæranda sé byggt á því að ekki þurfi að hafa samráð við hann þar sem skipulagsvaldið sé hjá Kópavogsbæ. Þetta sé í andstöðu við skýr fyrirmæli skipulagslaga, fyrrnefndrar reglugerðar um skyldu til samráðs og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að stjórnvald kynni sér mál fyrir ákvörðunartöku. Þá fari þetta í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga þar sem stjórnvald geti ekki handvalið aðila til umsagnar og samráðs en vísvitandi sleppt kæranda. Þá sé afgreiðsla skipulagsnefndar og áðurnefndur rökstuðningur á skjön við skyldu skipulagsyfirvalda til að gæta meðalhófs, sbr. 12. gr. sömu laga. Loks leiði 14. gr. laganna til þess að Kópavogsbæ hafi borið að senda tilkynningu til kæranda þar sem hann hafi augljóslega átt andmælarétt skv. 13. gr. þeirra.

Það sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir samþykki deiliskipulags í 3. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð að samráð skuli haft við landeiganda, lóðarhafa eða aðliggjandi sveitarfélag þegar tillaga taki til svæðis sem liggi að lóðamörkum, landamörkum eða sveitarfélagamörkum. Deiliskipulagssvæðið liggi það nærri landamerkjum Vatnsenda og sé það stórt að jafna verði aðstöðunni við það sem lýst sé í tilvitnuðu ákvæði.

Þá liggi fyrir tillaga að Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024, sem muni breyta forsendum fyrir hinu kærða deiliskipulagi, og því sé ekki með réttu hægt að halda því fram að deiliskipulagstillagan sé í samræmi við stefnu aðalskipulags.

Við vinnslu matsgerðar á árinu 2010 hafi Kópavogsbær ítrekað bent á að á hinu eignarnumda landi væru hættulegar jarðsprungur. Í matsgerðinni komi fram sú staðhæfing Kópavogsbæjar að sprungur og misgengi setji landinu skorður og að rannsóknir þurfi að fara fram áður en landið verði skipulagt. Engar rannsóknir hafi farið fram síðan fyrrgreind matsgerð hafi verið unnin og hafi Kópavogsbær ekki lagt eldri rannsóknir fram við vinnslu hennar. Í nefndri matsgerð sé jafnframt tekið fram að Kópavogsbær mótmæli fullyrðingu kæranda um að merktar sprungur og misgengi hafi ekki áhrif á svæðið sem byggingarland. Þá segi loks í matsgerðinni um sjónarmið Kópavogsbæjar varðandi jarðsprungur: „Ekki séu viðlíka sprungur og misgengi að finna annarstaðar í Vatnsendalandi og Norðlingaholti og eru á hinu metna svæði og vitnar til framlagðs vatnafarskorts.“ Niðurstaða matsmanna hafi verið sú að töluverðar sprungur liggi SA til NA um svæðið, sem rýri gæði landsins með tilliti til skipulags fyrir byggð. Þá reikni þeir með 42 ha svæði vegna sprungna og sé þá reiknað með 25 m til hvorrar hliðar við sprungu og 50 m við enda. Þetta sé ekki reifað í greinargerð eða skipulagsskilmálum og hið breytta skipulag sýni byggð yfir þessum jarðsprungum og innan fyrrgreinds 50 m hættusvæðis. Samkvæmt lýsingu Kópavogsbæjar við vinnslu greindrar matsgerðar sé ljóst að stórfelld almannahætta blasi við verði lóðum úthlutað samkvæmt tillögunni. Kópavogsbær hafi þagað um áhyggjur sínar vegna jarðsprungna í gegnum skipulagsferlið og ekki gert grein fyrir þeim í málsmeðferð gagnvart Skipulagsstofnun eða kynningu almennt. Afgreiðsla skipulagsnefndar hafi því farið í bága við 10. gr. stjórnsýslulaga, enda ófullnægjandi að afgreiða deiliskipulag án þess að ítarlegar rannsóknir, sem Kópavogsbær hafi talið nauðsynlegar, fari fram.

Í 4. mgr. gr. 5.3.2.18. í skipulagsreglugerð segi m.a. að óheimilt sé að byggja á þekktum jarðsprungum. Þar komi og fram að á svæðum, þar sem grunur leiki á að sprungur séu án þess að hægt sé að kanna það við gerð deiliskipulags, skuli setja fyrirvara í deiliskipulagið um að komi sprungur í ljós við framkvæmdir geti þurft að gera breytingar á skipulaginu. Það blasi við að endurskipuleggja þurfi allt svæðið og taka tillit til jarðsprungna, en ekki sé fyrirvari í samræmi við nefnt ákvæði í hinu breytta skipulagi. Tilvísun í annað eða eldra deiliskipulag uppfylli ekki kröfur fyrrgreinds ákvæðis. Þá sé á engan hátt lýst í deiliskipulaginu þeirri vá sem Kópavogsbær hafi lýst fyrir matsmönnum og hafi verið lögð til grundvallar í fyrrgreindri matsgerð. Loks sé á því byggt að breytingartillagan taki til svo mikils hluta eldra deiliskipulags að fara verði með hana eftir 2. mgr. gr. 5.8.1. í skipulagsreglugerð.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er skírskotað til þess að sveitarstjórn hafi víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 439/2012. Af 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 leiði að skipulagsvald varðandi gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana sé hjá sveitarfélögum og á þeirra ábyrgð, sbr. 1. mgr. 28. gr. um aðalskipulagsáætlanir. Svigrúm sveitarfélaga til mats um það hvort, hvenær, og með hvaða hætti deiliskipulagstillaga sé sett fram og samþykkt á vettvangi sveitarstjórnar sé mjög mikið. Gildi það algerlega óháð eignarhaldi að því landi sem skipulag taki til.

Kópavogsbær sé eigandi þess lands sem hin kærða skipulagsbreyting taki til og því séu tilvísanir kæranda til 72. gr. stjórnarskrárinnar án þýðingar. Eignarnámssátt, dags. 30. janúar 2007, hafi að geyma afdráttarlaust ákvæði um yfirtöku sveitarfélagsins á landinu og hafi henni verið þinglýst 29. mars 2008. Kærandi hafi hvorki gert kröfu um ógildingu eignarnámsins né lýst yfir riftun á fyrrgreindri eignarnámssátt. Þá eigi Kópavogsbær allt land umhverfis það land sem hið breytta deiliskipulag taki til.

Framfylgd umrædds deiliskipulags sé ekki háð samningum og leyfum í skilningi 4. mgr. gr. 5.3.2.20. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Greind eignarnámssátt mæli ekki fyrir um að hið eignarnumda land skuli skipulagt með ákveðnum hætti, t.a.m. með ákvæðum um þéttleika byggðar eða íbúðafjölda. Aldrei hafi staðið til að allt hið eignarnumda land yrði tekið undir íbúðarbyggð. Bænum hafi verið eftirlátið svigrúm til mats á því hvernig svæðið skyldi skipulagt, þ.m.t. hvaða hlutar þess yrðu teknir undir opin svæði. Ekki séu til staðar neinir samningar sem takmarki skipulagsvald Kópavogsbæjar á því landi sem hið breytta deiliskipulag taki til. Réttur eigenda Vatnsenda til 11% byggingarréttar miðist við gildandi skipulag á hverjum tíma.

Breytingartillagan hafi farið í lögbundið kynningarferli og því óskiljanlegt að hægt sé að halda því fram að ekki hafi verið leitað eftir sjónarmiðum íbúa og umsagnaraðila, sbr. 1. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð. Tillagan hafi ekki farið framhjá kæranda, sem hafi komið með athugasemdir. Þá eigi 3. mgr. sömu greinar ekki við þar sem kærandi sé hvorki eigandi þess lands sem deiliskipulagið taki yfir né aðliggjandi lands. Ákvæði skipulagslaga og skipulagsreglugerðar mæli fyrir um það með nákvæmum hætti hvernig staðið skuli að kynningum skipulagstillagna. Um sé að ræða mun strangari ákvæði en leiði af lágmarksskilyrðum stjórnsýslulaga. Staðhæfingum um brot á andmælarétti og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sé þannig mótmælt.

Í deiliskipulagi Vatnsendahlíðar – Þings, sem hafi tekið gildi 27. febrúar 2009, sé sérstök umfjöllun um jarðsprungur á skipulagssvæðinu. Þar komi fram að samkvæmt jarðkönnun á deiliskipulagssvæðinu, sem fjallað sé um í skýrslu Línuhönnunar frá 6. nóvember 2007, hafi þar fundist tvær brotalínur. Önnur þeirra sé talin óvirk en hin virk og mælt sé með því að byggingarreitir húsa standi ekki yfir þeirri sprungu nema að sérstakar ráðstafanir komi þar til. Mögulegar jarðsprungur séu merktar á deiliskipulagsuppdrátt sem hafi fylgt umræddu skipulagi en einnig á þann deiliskipulagsuppdrátt sem hafi fylgt tillögunni með hinni kærðu skipulagsbreytingu. Megi sjá að hinar þekktu sprungur liggi utan við það svæði sem deiliskipulagsbreytingin taki til og ekki sé sérstakur grunur um sprungur þar. Fullyrðingar kæranda um yfirvofandi náttúruvá á svæðinu séu því fráleitar enda ekki studdar neinum gögnum. Svæðið hafi verið rannsakað og mögulegar sprungur færðar inn á skipulagsuppdrátt og því hafi ekki verið þörf á að setja fyrirvara sem mælt sé um í 4. mgr. gr. 5.3.2.18. í skipulagsreglugerð. Þá sé í deiliskipulagsskilmálum almennur fyrirvari um að lóðastærðir á deiliskipulagsuppdrætti séu leiðbeinandi og ákvarðist nánar við gerð mæliblaða.

Í matsgerð frá árinu 2010 sé sjónarmiðum kæranda lýst á þann hátt að hann telji að ekki sé tilefni til að verðfella landið vegna jarðsprungna og að svæðið sé sambærilegt við Þingahverfið, en þar hafi sprungur ekki tálmað byggð. Jafnframt telji kærandi að auðvelt sé að sneiða hjá sprungum eða haga skipulagi með þeim hætti að opin svæði séu höfð þar sem sprungur séu og auk þess sé til staðar þekking á umræddum sprungum vegna rannsókna á grunnvatnsstreymi. Hingað til hafi mótmæli kæranda vegna deiliskipulagsbreytingarinnar lotið að því að bænum væri óheimilt að draga úr þéttleika byggðar á svæðinu. Væri kæranda alvara með staðhæfingum um yfirvofandi náttúruvá þá væri hann ekki á sama tíma að gera athugasemdir við að þéttleiki byggðar væri ekki nægur.

Farið hafi verið með hina kærðu skipulagsbreytingu eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. gr. 5.8.1. í skipulagsreglugerð. Ekki sé um að ræða heildarendurskoðun á deiliskipulagi í skilningi 2. mgr. framangreinds ákvæðis, en breytingin taki einungis til lítils hluta deiliskipulagssvæðisins. Þrátt fyrir það hafi með nákvæmum hætti verið gerð grein fyrir þeim breytingum sem hafi falist í tillögunni og að því leyti uppfylli deiliskipulagsbreytingin framangreint ákvæði 2. mgr. 

Því sé mótmælt að sú aðalskipulagstillaga sem sé til kynningar í Kópavogi muni breyta forsendum fyrir því deiliskipulagi sem hér sé til umfjöllunar. Staðhæfingar kæranda um annmarka á deiliskipulaginu lúti að atriðum sem ekki geti talist veruleg. Í stjórnsýslurétti gildi sú meginregla að til þess að hægt sé að ógilda ákvörðun verði annmarkar á henni að vera verulegir.

Andmæli kæranda við greinargerð Kópavogsbæjar: Kærandi bendir á að eignarréttur að landi því sem deiliskipulagið taki til sé ekki hjá Kópavogsbæ. Eignarnámsheimild veiti ekki eignarráð nema greiddar hafi verið eignarnámsbætur, en Kópavogsbær hafi einungis greitt lítinn hluta þeirra. Sáttargerð, dags. 30. janúar 2007, feli ekki í sér yfirfærslu eignarréttar. Þinglýsing þess skjals veiti Kópavogsbæ engan rétt, enda fjalli það ekki um annað en skyldur Kópavogsbæjar til greiðslu eignarnámsbóta. Þá komi afdráttarlaust fram í greinargerð með 32. gr. laga nr. 39/1978 um þinglýsingar að ekki sé heimilt að þinglýsa eignarnámsgerð á hið eignarnumda nema eignarnámsbætur hafi verið að fullu greiddar. Kærandi sé enn rétthafi lóða á því skipulagssvæði sem hin kærða deiliskipulagstillaga taki til. Réttur til hluta útdreginna lóða falli niður samkvæmt hinni nýju tillögu og byggingarmagn eykst á einni fjölbýlishúsalóð. Fari tillagan því gegn skyldum Kópavogsbæjar samkvæmt greindum útdrætti og fyrrnefndri sáttargerð. Þess vegna hafi Kópavogsbæ borið að hafa samráð við kæranda vegna brýnna hagsmuna hans, sbr. 4. mgr. gr. 5.3.2.20. og 1. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Ef ekki sé skylt að hafa raunverulegt samráð við kæranda eins og hér standi á séu fyrirmæli laga um samráð við gerð deiliskipulags markleysa. Við vinnslu matsgerðar á árinu 2010 hafi Kópavogsbær ekki lagt fram skýrslu Línuhönnunar um rannsóknir á sprungum á skipulagssvæðinu, en hafi hins vegar lýst þar stórfelldri náttúruvá. Megi skilja málatilbúnað bæjarins nú á þann veg að þessu hafi einungis verið haldið fram í því skyni að verðfella landið en í raun og veru stafi engin vá af nefndum sprungum.

——

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á gildandi deiliskipulagi Vatnsendahlíðar – Þings frá árinu 2009 á þremur svæðum sem afmörkuð eru á skipulagsuppdrætti. Byggð var aukin á einu svæði, en dregið úr þéttleika byggðar á tveimur svæðanna. Var farið með skipulagsbreytinguna skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kveður á um að um breytingu á deiliskipulagi fari eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulagsáætlana í sínu umdæmi. Hvergi í lögum er það áskilið að sveitarstjórn afli samþykkis landeiganda vegna skipulagsákvarðana er taka til lands í einkaeigu, enda verður beinum eða óbeinum eignarréttindum ekki ráðstafað með skipulagsáætlunum. Í kærumáli þessu takmarkast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við hina kærðu skipulagsbreytingu, en það er ekki á færi nefndarinnar að taka afstöðu til álitaefna um bein eða óbein eignarréttindi kæranda innan skipulagssvæðisins.

Samkvæmt þágildandi 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga, sbr. nú 3. mgr. ákvæðisins, skal tillaga kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt áður en sveitarstjórn tekur hana til afgreiðslu. Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að heimilt sé að falla frá slíkri kynningu ef allar meginforsendur liggja fyrir í aðalskipulagi. Telja verður að svo hafi verið hvað varðar umdeilda skipulagsbreytingu.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var lóðamörkum við Vallaþing breytt og bætt við nýrri fjölbýlishúsalóð. Af skipulagsuppdrætti má ráða að þær lóðir séu stækkaðar og nái inn á svæði sem skilgreint var sem óbyggt svæði og skógræktarsvæði samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012. Var því áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana, ekki fullnægt hvað varðaði landnotkun að þessu leyti.

Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti, samþykktum 13. janúar 2009, er tók gildi 27. febrúar s.á., liggur jarðsprunga þvert á hið deiliskipulagða svæði frá suðvestri um Trönuþing og Traðarþing til norðausturs um Lundaþing, Kambaþing, Leiðaþing og Jötnaþing. Sprungusvæðið er utan þeirra svæða sem hin kærða ákvörðun tekur til. Umrædd jarðsprunga er einnig merkt inn á áritaðan uppdrátt hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Þar er sýndur hluti gildandi deiliskipulags fyrir breytingu, sem samræmist ekki fyrrgreindum árituðum deiliskipulagsuppdrætti, dags. 13. janúar 2009. Á breytingaruppdrætti hefur lega sprungunnar verið færð til norðvesturs við Trönuþing, þannig að hún liggur nú innan byggingarreits lóðarinnar nr. 5 við Trönuþing. Þá ber uppdráttur hinnar kærðu skipulagsbreytingar með sér að breytingar hafi verið gerðar á honum frá kynntum uppdrætti, dags. 5. febrúar 2013, með því að sett er kvöð um bílastæði við leikskóla við Oddaþing og sýnd innkeyrsla að bílastæðunum. Er það svæði utan skilgreindra breytingarsvæða sem mörkuð eru á uppdráttinn. Er framsetningu skipulagsbreytingarinnar af greindum ástæðum áfátt og samræmist hún ekki gr. 5.8.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að hin kærða ákvörðun sé haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. maí 2013 um að samþykkja breytt deiliskipulag Vatnsendahlíðar – Þings, reita 2, 3 og 4.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson