Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2014 Starfsleyfi byggingarstjóra

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2014, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 28. mars 2014 um að synja umsókn um starfsleyfi byggingarstjóra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 23. apríl 2014, sem framsent var úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og barst nefndinni 25. s.m., kærir S, þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 28. mars 2014 að synja umsókn hans um starfsleyfi byggingarstjóra. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Mannvirkjastofnun 8. maí 2014 og 16. desember 2015.

Málavextir: Kærandi er menntaður byggingarfræðingur og húsasmíðameistari. Hinn 18. febrúar 2014 sótti kærandi um starfsleyfi byggingarstjóra samkvæmt 28. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Samkvæmt umsókn starfaði kærandi ekki sem byggingarstjóri í gildistíð eldri laga. Með bréfi Mannvirkjastofnunar til kæranda, dags. 27. s.m., var bent á að ekki hefðu fylgt staðfest gögn með umsókn er bæru með sér að kærandi hefði tveggja ára starfsreynslu sem löggiltur húsasmíðameistari eða fimm ára starfsreynslu sem byggingarfræðingur. Virtist því sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði til að fá útgefið starfsleyfi byggingarstjóra á grundvelli 28. gr. laga um mannvirki. Var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum og frekari gögnum áður en ákvörðun yrði tekin og í kjölfar þess bárust stofnuninni frekari gögn. Ákvörðun Mannvirkjastofnunar lá fyrir 28. mars 2014. Var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að ekki yrði séð af gögnum málsins að uppfyllt væru skilyrði um starfsreynslu í 2. og 3. mgr. 28. gr. laga um mannvirki.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi útskrifast sem húsasmíðameistari árið 1970 og lokið prófi í byggingarfræði árið 1976. Hafi hann hlotið löggildingu til að starfa sem húsasmíðameistari í Reykjavík árið 1977 og um allt land árið 2005. Kærandi hafi verið húsasmíðameistari á byggingum í Árbæjarhverfinu í Reykjavík árin 1987 og 1988. Þá hafi hann starfað sem sérfræðingur um öryggismál á byggingarstöðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ekki sé hægt að taka af kæranda áunnin réttindi.

Málsrök Mannvirkjastofnunar: Mannvirkjastofnun tekur fram að gögn er fylgt hafi umsókn kæranda hafi ekki sýnt fram á að uppfyllt væri skilyrði um starfsreynslu í 2. og 3. mgr. 28. gr. mannvirkjalaga. Til að uppfylla þau skilyrði þurfi kærandi að hafa annað hvort tveggja ára starfsreynslu sem húsasmíðameistari, eftir að staðbundin viðurkenning hans hafi verið gefin út, eða fimm ára starfsreynslu sem byggingarfræðingur, eftir að hann hafi lokið því námi.

Niðurstaða: Skilyrði fyrir starfsleyfi byggingarstjóra er að umsækjandi uppfylli viðeigandi hæfniskröfur 2.- 4. mgr. 28. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, hafi sótt sérstakt námskeið sem Mannvirkjastofnun stendur fyrir og hafi gæðastjórnunarkerfi samkvæmt nánari fyrirmælum í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Auk grunnmenntunar og löggildingar skulu byggingarstjórar hafa reynslu af störfum við byggingarframkvæmdir. Er gerð krafa um að húsasmíðameistarar hafi a.m.k. tveggja ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir eða byggingareftirlit, sem viðurkennd sé af Mannvirkjastofnun, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna. Þá kemur fram í 3. mgr. tilvitnaðs ákvæðis að byggingarfræðingar skuli hafa a.m.k. fimm ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir, hönnun bygginga, byggingareftirlit eða verkstjórn við byggingarframkvæmdir.

Synjun Mannvirkjastofnunar á umsókn kæranda um starfsleyfi byggingarstjóra var á því byggð að hvorki yrði af gögnum ráðið að kærandi næði fimm ára starfsreynslu sem byggingarfræðingur né að hann hefði tilskilda starfsreynslu sem húsasmíðameistari, eftir að hafa öðlast staðbundin réttindi í Reykjavík. Eins og rakið hefur verið ritaði Mannvirkjastofnun kæranda bréf eftir að umsókn hans um starfsleyfi byggingarstjóra barst stofnuninni. Var þar tekið fram að með umsókn hefðu ekki fylgt staðfest gögn um starfsreynslu, sem bæru með sér að uppfyllt væru skilyrði 28. gr. laga um mannvirki, og var kæranda gefinn kostur á að skila inn athugasemdum og frekari gögnum. Í hinni kærðu ákvörðun Mannvirkjastofnunar var tilgreind starfsreynsla sem samkvæmt gögnum málsins gæti annars vegar flokkast undir starfssvið húsasmíðameistara og hins vegar undir starfssvið byggingarfræðings. Að teknu tilliti til þess var það mat Mannvirkjastofnunar að kærandi hefði starfað sem húsasmíðameistari í samtals 18 mánuði og sem byggingarfræðingur í samtals 42 mánuði. Þá var tekið fram að kærandi hefði verið skráður húsasmíðameistari að tveimur byggingum í Reykjavík en ekki kæmi fram á hvaða tímabili það hefði verið. Önnur starfsreynsla sem tilgreind væri í gögnum málsins félli ekki undir starfssvið húsasmíðameistara eða byggingarfræðings.

Almennt verður að ætlast til þess af umsækjendum að þeir leggi til þau gögn sem til grundvallar umsókn þeirra liggja. Að sama skapi ber stjórnvaldi að leiðbeina um það hver þau gögn geti verið eða eftir atvikum hvernig hægt sé að nálgast þau, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hvílir sú skylda á stjórnvöldum samkvæmt 10. gr. sömu laga að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Fram hefur komið að Mannvirkjastofnun veitti kæranda frest til að koma að frekari upplýsingum í máli þessu. Af gögnum málsins er hins vegar ljóst að ekki var óskað frekari skýringa á því á hvaða tímabili kærandi var skráður húsasmíðameistari að tveimur byggingum í Reykjavík, en það hafði úrslitaþýðingu við mat á því hvort skilyrði um starfsreynslu í 28. gr. laga um mannvirki væru uppfyllt. Þá liggur ekki fyrir að leitað hafi verið með öðrum hætti upplýsinga um þetta atriði áður en ákvörðunin var tekin, en samkvæmt þeim gögnum sem úrskurðarnefndin hefur aflað munu slíkar upplýsingar liggja fyrir hjá viðkomandi sveitarfélagi. Verður að telja að Mannvirkjastofnun hafi annað hvort borið að afla þeirra upplýsinga eða leiðbeina kæranda um hvernig hann gæti aflað þeirra. Að teknu tilliti til framangreinds þykir á það skorta við töku hinnar kærðu ákvörðunar að gætt hafi verið að leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum. Með hliðsjón af greindum annmörkum á hinni kærðu ákvörðun, sem var íþyngjandi gagnvart kæranda og snerti atvinnuréttindi hans, verður ekki hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 28. mars 2014 um að synja umsókn um starfsleyfi byggingarstjóra.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

114/2015 Golfvöllur Blikastaðanesi

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 19. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 114/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. nóvember 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna golfvallarins Blikastaðanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Óðinn Elísson hrl., f.h. J, Þrastarhöfða 53 í Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. nóvember 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna golfvallarins Blikastaðanesi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdum verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 17. desember 2015 og 19. janúar 2016.

Málsatvik og rök: Tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna golfvallar Blikastaðanesi var auglýst til kynningar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan fól í sér breytingu á deiliskipulagi fyrir Blikastaðanes frá árinu 2004 með síðari breytingu. Athugasemdafrestur var til 30. október 2015 og bárust athugasemdir kæranda á kynningartíma. Á fundi sínum 18. nóvember s.á. samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar auglýsta breytingu með leiðréttingu á gólfkóta golfskála. Í deiliskipulagsbreytingunni felst í meginatriðum að afmörkuð lóð stækkar og færist ásamt byggingarreit fyrir golfskála frá íbúðarbyggð. Þá er fyrirkomulag bílastæða sýnt og skipulagssvæðið stækkað svo þau lendi innan þess. Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu er gerði athugasemd með bréfi, dags. 14. janúar 2016, við að birt yrði auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt breytingarinnar.

Kærandi telur að staðsetning bílastæða og breytt starfsemi húsnæðis golfklúbbsins hafi í för með sér veruleg grenndaráhrif fyrir sig. Umferð bíla og umfangsmikil starfsemi muni valda skerðingu á lífsgæðum og óhagræði.

Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða skipulagsbreyting hafi ekki tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Hin kærða ákvörðun hefur ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda en slík auglýsing er skilyrði gildistöku hennar og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Þar sem lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skilyrði þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar er ekki uppfyllt verður því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

91/2015 Silfurgata

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 91/2015, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar frá 7. september 2015 um að samþykkja umsókn um breytingu á lóð nr. 15 við Silfurgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Marteinn Másson hrl., f.h. I, Keldulandi 1, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar frá 7. september 2015 að samþykkja umsókn um breytingu á lóð nr. 15 við Silfurgötu sem fólst í að helluleggja bílastæði og gangveg að risíbúð, lækka svæðið um u.þ.b. 0,5 m og loka sári með torfi eða öðrum gróðri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Stykkishólmsbæ 29. október, 19. nóvember og 3. desember 2015.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 1. júní 2015 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa að Silfurgötu 15 um leyfi til að helluleggja bílastæði og gangveg að risíbúð, lækka svæðið um u.þ.b. 0,5 m og loka sári með torfi eða öðrum gróðri þar sem bílastæði væri vel frá lóðarmörkum. Nefndin frestaði afgreiðslu málsins og óskaði eftir uppdrætti af framkvæmdinni. Á fundi nefndarinnar 6. júlí s.á. var ákveðið að grenndarkynna erindið skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir kæranda. Grenndarkynningin fór fram og kæranda gefinn frestur til koma á framfæri athugasemdum til 5. ágúst 2015. Kom kærandi athugasemdum sínum á framfæri með bréfi, dags. 4. s.m.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 17. ágúst 2015, því frestað og bókað að nefndin óskaði eftir að lóðahafar kæmust að niðurstöðu um frágang á lóðamörkum fyrir næsta fund sem yrði líklega 7. september s.á. Á fundi nefndarinnar þann dag var umsóknin samþykkt og fól nefndin skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum, sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt var bókað að framkvæmdin væri innan lóðarmarka lóðar nr. 15 við Silfurgötu og til þess gerð að fegra núverandi svæði. Loks var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að svara innsendri athugasemd kæranda. Sama dag áritaði byggingarfulltrúi uppdrátt að breytingunni um samþykkt nefndarinnar. Afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar var svo samþykkt á fundi bæjarráðs 17. s.m. og á fundi bæjarstjórnar 22. s.m. og var kæranda tilkynnt um niðurstöðu hennar með bréfi, dags. 23. september 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í núgildandi deiliskipulagi Þinghúshöfða séu auðkennd bílastæði vestan við Bókhlöðustíg 9 og séu þau jafnvel að hluta til á þeirri lóð. Samkvæmt skýringartexta deiliskipulagsins séu þau sameiginleg og öllum heimilt að nýta þau sem slík. Lóðarmörk lóðar kæranda við Bókhlöðustíg 9 séu enn óljós og óákveðin og samkvæmt deiliskipulaginu hafi lóðarmörk verið birt með fyrirvara. Samkvæmt uppdrætti sem fylgt hafi bréfum skipulagsfulltrúa til kæranda, dags. 30. desember 2013 og 31. janúar 2014, nái lóðin lengra til vesturs í norðvestur horni en tilgreint sé í deiliskipulagi. Því séu bílastæðin tvö að vestanverðu að nokkru leyti innan marka lóðar kæranda. Lóðarleigusamningar frá 1916 og uppdrættir frá 1942-1943 styðji þessi málsrök. Með vísan til þessa sé órökrétt að færa vesturmörk lóðar kæranda í austur í stað þess að lega þeirra sé vestar og í beinni línu við vesturmörk lóðanna Bókhlöðustígs 7 og 11.

Því sé hafnað af hálfu kæranda að hægt sé að staðsetja nákvæmlega mörk lóðar hans skv. þinglýstum heimildum, svo sem skipulags- og byggingarfulltrúi hafi haldið fram undanfarin ár. Hafi Stykkishólmsbær unnið markvisst að því að færa vesturmörk lóðarinnar til austurs til þess að skapa rými fyrir leyfishafa. Gengið hafi verið á hlut kæranda sem hafi aldrei samþykkt þessar ráðstafanir bæjarins.

Í greinargerð með nefndu deiliskipulagi komi fram að til þess að halda yfirbragði svæðisins þurfi að setja skilmála fyrir húsin á svæðinu, bæði almenna og sérskilmála fyrir hvert hús. Komi slíkt að mestu leyti í veg fyrir tilviljunarkenndar leyfisveitingar til breytinga og viðbygginga sem eigendur húsanna kunni að óska eftir. Þá sé einnig gert ráð fyrir því að ákvarðanir séu teknar að vel ígrunduðu máli og séu vel rökstuddar og grundvallaðar í deiliskipulagi. Þau rök eigi ekki síður við um mannvirki og aðliggjandi lóðir utan reitsins. Seilst hafi verið töluvert inn á lóð kæranda til þess að stækka lóð leyfishafa, með það að markmiði að búa til aðkomuleið að íbúð á efstu hæð hússins þar. Mótmælt sé að framangreind skerðing fari fram með þeim hætti sem gert sé, þ.e. með samþykki fyrirhugaðra breytinga á lóð á óskipulögðum reit.

Deiliskipulagið fyrir Þinghúshöfða útiloki staðsetningu bílastæða austanvert á lóð leyfishafa. Forsendum í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 15/2014 sé mótmælt harðlega hvað varði að „… nefnd aðkoma verði nýtt til þess að komast að bílastæðum á hinni stækkuðu lóð“. Sú forsenda sé röng að mati kæranda og í brýnni andstöðu við gildandi deiliskipulag. Hvorki ákvörðunin um stækkun lóðarinnar við Silfurgötu 15 sem þar var til umfjöllunar né sú ákvörðun sem hér sé kærð geti rutt burtu tveimur bílastæðum skv. deiliskipulagi. Til þess þurfi deiliskipulagsbreytingu skv. ákvæðum skipulagslaga. Grenndarkynning á svæði utan deiliskipulagsreits geti ekki flokkast sem óveruleg breyting á deiliskipulagi í skilningi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Með hinni kærðu ákvörðun skerðist útsýni kæranda til vesturs verulega og hljótist stórfellt ónæði, hávaði og óþrif af bílum á lóð leyfishafa. Kærandi hafi m.a. keypt fasteign sína með það í huga að geta notið útsýnis í vestur. Auk þess verði bílaumferð og bílgeymslusvæði á þrjá vegu um lóðina og sé lífsgæðum íbúa þar með verulega spillt.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að nýr lóðarleigusamningur fyrir Silfurgötu 15 hafi verið gerður 4. júlí 2015 að undangenginni kæru og úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Á lóðarblaði, sem sé fylgiskjal lóðarleigusamningsins, komi fram að tvö bílastæði séu innan lóðarinnar. Erindið hafi fengið lögformlegt ferli í bókunum og síðan grenndarkynnt. Auk þess hafi afgreiðslu erindisins verið frestað á fundi svo að nágrannar gætu komist sjálfir að niðurstöðu um frágang á lóðamörkum innan ákveðins tímafrests.

Lóðarmörk Silfurgötu 15 séu skýr. Aðgengi að risíbúð hafi verið á þessum stað allt frá 1954 eða síðan húsið var byggt. Þá sé framkvæmdin innan lóðar og hafi leyfið því verið veitt. Ekki sé verið að breyta hæð á lóðarmörkunum en skipulags- og byggingarnefnd hafi viljað grenndarkynna erindið til að uppfylla allar lagalegar skyldur og þar sem ekki væri til deiliskipulag af viðkomandi svæði.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi fer fram á að kröfum kæranda sé hafnað, enda sé nú þegar búið að fjárfesta í efni fyrir framkvæmd þá sem leyfið taki til.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar að samþykkja umsókn um breytingu á lóð nr. 15 við Silfurgötu. Lóðin er á ódeiliskipulögðu svæði. Einskorðast umfjöllun úrskurðarnefndarinnar við nefnda ákvörðun, en í kæru sinni gerir kærandi stækkun nefndrar lóðar að umtalsefni, sem og núverandi deiliskipulag Þinghúshöfða. Ágreiningur þar um hefur áður hlotið kærumeðferð hjá úrskurðarnefndinni. Eru úrskurðir í þeim málum, sem eru nr. 57/2011 og nr. 15/2014, fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og koma þeir ekki til endurskoðunar hér.

Almennt annast byggingarfulltrúi meðferð byggingarleyfisumsókna og veitir leyfi með samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis, sbr. 9., 11., og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Með stoð í 1. mgr. 7. gr. laganna hefur bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hins vegar sett sérstaka samþykkt nr. 610/2015 um afgreiðslur byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar. Samkvæmt 2. gr. hennar er það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt útgáfuna.

Hinu umdeildu framkvæmdir, svo sem þeim er lýst, fela í sér að helluleggja bílastæði sem fyrir eru á lóðinni samkvæmt lóðarblaði samþykktu 14. janúar 2014, sem og gangveg að risíbúð. Enn fremur er yfirborð lóðar að hluta til lækkað um u.þ.b. 0,5 m, en sú lækkun nær ekki að lóðarmörkum. Þá er heimilað að loka sári með torfi eða öðrum gróðri.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi. Í e-lið greinarinnar er meðal annars tiltekið að þar undir falli allt eðlilegt viðhald lóðar, bílastæða og innkeyrslu. Jafnframt er tekið fram að ekki sé heimilt að breyta hæð lóðar á lóðarmörkum án samþykkis leyfisveitanda og samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þá sé ekki heimilt að breyta hæð lóðar innan hennar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni þeirra, t.d. vegna útsýnis.

Þykir ljóst af framangreindu að hinar umdeildu framkvæmdir fela í sér eðlilegt viðhald í skilningi áðurgreinds ákvæðis. Þá verður ekki séð að lækkun lóðarinnar sé til þess fallin að hafa áhrif á hagsmuni kæranda. Voru framkvæmdirnar því ekki byggingarleyfisskyldar.

Eins og atvikum er hér háttað hefur það ekki þýðingu að taka afstöðu til lögmæti hinar kærðu ákvörðunar. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Þorsteinn Þorsteinsson

103/2013 Lífrænn úrgangur

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um að synja um undanþágu til að safna lífrænum eldhúsúrgangi frá heimilum í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. október 2013, er barst nefndinni 25. s.m., kærir Gámaþjónustan hf., Hringhellu 6, Hafnarfirði, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 17. september 2013 að synja kæranda um starfsleyfi til að safna lífrænum eldhúsúrgangi frá heimilum í Reykjavík. Verður að skilja kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, en kærandi gerir einnig þá kröfu að heilbrigðisnefnd verði gert að gefa út sérstakt starfsleyfi framangreinds efnis honum til handa. Einnig er kærð sú niðurstaða heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 9. apríl 2013, að ekki rúmist innan starfsleyfis kæranda að safna lífrænum  og blönduðum heimilisúrgangi í sérstaka tunnu. Loks er kærð sú tilhögun að sama stjórnvald, þ.e. heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, gefi út starfsleyfi til frjálsra óopinberra aðila á markaði, hafi eftirlit með þeim og úrskurði um gildissvið leyfa þeirra á sama tíma og stjórnvaldið gefi út starfsleyfi fyrir eigin starfsemi sem sé í samkeppni við aðila á frjálsum markaði.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur 10. desember 2013 og í ágúst og september 2015.

Málavextir: Kærandi er fyrirtæki er veitir m.a. þá þjónustu að safna nánar tilteknu flokkuðu sorpi frá heimilum í Reykjavík samkvæmt sértækum skilyrðum starfsleyfis, útgefnu af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.

Með bréfi til heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, dags. 28. desember 2012, óskaði kærandi eftir því að nefndin staðfesti þann skilning hans að innan starfsleyfis hans til söfnunar flokkaðs heimilisúrgangs í Reykjavík rúmaðist heimild til að hefja söfnun á lífrænum og blönduðum eldhúsúrgangi í sérstaka tunnu. Teldi nefndin að slík söfnun úrgangs rúmaðist ekki innan gildandi starfsleyfis óskaði kærandi eftir því að upplýst yrði hvaða skilyrði hann þyrfti að uppfylla til að hefja þá þjónustu í Reykjavík.

Erindi kæranda var svarað með bréfi, dags. 20. febrúar 2013, þar sem fram kom sú afstaða heilbrigðisnefndar að söfnun óflokkaðs heimilisúrgangs rúmaðist ekki innan gildandi starfsleyfis hans, sem gefið væri út með almennum og sértækum skilyrðum. Auk þess væri það stefna Reykjavíkurborgar að söfnun blandaðs heimilisúrgangs væri á vegum borgarinnar. Í bréfi kæranda 11. mars s.á. var farið fram á að heilbrigðisnefnd staðfesti að söfnun á flokkuðum lífrænum úrgangi til jarðgerðar í jarðgerðarstöð hans í Hafnarfirði rúmaðist innan starfsleyfa sem gefin hefðu verið út af nefndinni honum til handa. Í svarbréfi heilbrigðisnefndarinnar, dags. 9. apríl s.á., var ítrekuð sú afstaða nefndarinnar að söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi og blönduðum heimilisúrgangi í sérstaka tunnu rúmaðist ekki innan starfsleyfis kæranda. Leyfið værigefið út annars vegar með almennum skilyrðum fyrir mengandi starfsemi, flutning á úrgangi, öðrum en spilliefnum, og flutning á spilliefnum og hins vegar sérstökum skilyrðum fyrir söfnun á flokkuðum heimilisúrgangi og kröfum um skil á upplýsingum árlega um magn úrgangs o.fl. Bent var á í bréfinu að í 1. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg væri kveðið á um að Reykjavíkurborg sæi um söfnun á heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í borginni.

Kærandi sendi loks bréf til heilbrigðisnefndarinnar, dags. 17. apríl 2013, þar sem hann fór þess á leit að nefndin tæki afstöðu til þess hvort starfsleyfi kæranda heimilaði að safnað væri lífrænum heimilisúrgangi til jarðgerðar í sérstakt ílát sem losað væri sérstaklega, þar sem hann hefði ekki enn fengið skýr svör um það í fyrri bréfum nefndarinnar. Tók kærandi jafnframt fram að ef nefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að nefnd söfnun á úrgangi rúmaðist ekki innan starfsleyfis hans þá sækti hann um nýtt starfsleyfi og/eða undanþágu þar sem heimiluð yrði áðurnefnd söfnun á lífrænum heimilisúrgangi til jarðgerðar frá heimilum í borginni.

Umsókn kæranda um nefnda undanþágu til að safna lífrænum heimilisúrgangi var lögð fyrir heilbrigðisnefnd Reykjavíkur á fundi nefndarinnar 25. júní 2013 og var ákveðið að vísa henni til meðferðar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem og til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs og hverfaráða. Á fundi heilbrigðisnefndarinnar 17. september 2013 var lögð fram bókun og umsögn umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 28. ágúst s.á., og umsagnir hverfisráða Miðborgar, Hlíða og Kjalarness.

Samkvæmt bókun umhverfis- og skipulagsráðs samþykkti meirihluti ráðsins þá umsögn um erindið að ráðið teldi að ekki ætti að veita rekstraraðilum undanþágu til söfnunar á lífrænum eldhúsúrgangi frá íbúðarhúsum. Ástæðurnar væru þær helstar að eðli lífræns úrgangs væri annað en þurra endurvinnsluefna sem rekstraraðilar hefðu heimildir til að safna. Úrgangurinn gæti valdið lyktarmengun, skordýr og meindýr sæktu í hann og hann gæti borið með sér sóttkveikjur, líkt og blandaður heimilisúrgangur. Því væri mjög mikilvægt að regluleg hirða væri tryggð og að rétt væri staðið að söfnun úrgangsins. Lífrænan eldhúsúrgang þurfi að hirða á minnst 14 daga fresti en þurr endurvinnsluefni væru hirt á 28 daga fresti. Afleiðing þessa yrði sú að umferð sorpbíla um íbúðargötur myndi aukast verulega, bæði vegna aukinnar hirðutíðni og söfnunar fleiri úrgangsflokka.

Niðurstaða heilbrigðisnefndar á nefndum fundi 17. september 2013 var að synja kæranda um undanþágu til söfnunar á lífrænum heimilisúrgangi og var kæranda tilkynnt sú ákvörðun með bréfi, dags. 24. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann sé með gilt starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fyrir starfsemi sinni í borginni. Einnig sé hann með sérstaka undanþágu, sérstakt starfsleyfi, fyrir söfnun flokkaðs úrgangs í Reykjavík. Hann hafi um áratugaskeið þjónað fjölmörgum fyrirtækjum í Reykjavík á sviði úrgangs og endurvinnslu og annist m.a. söfnun, móttöku og endurvinnslu (jarðgerð) á lífrænum úrgangi frá fjölda fyrirtækja. Þar sé m.a. um að ræða grænmetis- og ávaxtaúrgang frá verslunum og heildsölum, auk eldaðra matarafganga frá mötuneytum. Skólar Reykjavíkurborgar hafi verið þar á meðal. Hafi heilbrigðisnefnd ekki gert við þetta neinar athugasemdir en eftirlitsaðilar á hennar vegum þekki vel til þessarar söfnunar þar sem þeir hafi eftirlit með mörgum fyrirtækjum sem kærandi þjónusti.

Mikil fáfræði og ranghugmyndir séu áberandi innan heilbrigðisnefndar og hjá aðilum innan stjórnkerfis borgarinnar sem henni tengist. Megi t.d. benda á óundirritaða tillögu að umsögn umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur þar sem segi m.a.: „Eðli lífræns úrgangs er annað en þurra endurvinnsluefna sem rekstraraðilar safna í dag. Úrgangurinn getur valdið lyktarmengun, skordýr og meindýr sækja í hann og getur hann borið í sér sóttkveikjur líkt og blandaður heimilisúrgangur. Því er mikilvægt að regluleg hirða sé tryggð og rétt sé staðið að söfnun úrgangsins.“ Þessi málsgrein hafi ásamt lengra máli verið samþykkt sem umsögn meirihluta umhverfis- og skipulagsráðs í málinu. Í þessu sambandi megi spyrja hvers vegna söfnun, flutningur og endurvinnsla þessa úrgangs sé talin góð og gild frá fyrirtækjum en varhugaverð frá heimilum. Hér sé um túlkun að ræða sem hvorki styðjist við lög né reglugerðir, enda engin tilraun gerð til að vísa til slíkra heimilda í synjun heilbrigðisnefndar. Kærandi ítreki að hann hafi gilt starfsleyfi til að annast söfnun á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík. Skilgreiningu á hugtakinu „flokkaður heimilisúrgangur“ sé hvorki að finna í lögum né reglugerðum en þar sé hins vegar að finna skilgreiningu á hugtökunum „heimilisúrgangur“ og „flokkun“.

Kærandi hafi í sjö ár safnað flokkuðum, þurrum endurvinnsluefnum, sem teljist vera hluti af heimilisúrgangi samkvæmt lagaskilgreiningu. Þar sé um að ræða pappír, plast og málma frá heimilum, alls sjö efnisflokka, sem safnað sé í sérstaka endurvinnslutunnu. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi um árabil leyft þessa starfsemi kæranda með sérstakri undanþágu. Ýmis heimili hafi farið þess á leit að kærandi bjóði einnig upp á sérstaka söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi, þ.e. matarleifum. Þegar sá úrgangur sé flokkaður frá öðrum hljóti hann að teljast vera „flokkaður heimilisúrgangur“ í skilningi laga og reglugerða og hafi kærandi talið sig hafa leyfi til að annast þá söfnun á sama grundvelli og söfnun endurvinnsluefna í endurvinnslutunnu. Í ljósi góðra samskipta við heilbrigðisnefnd árum saman hafi þó verið talið rétt að leita eftir sjónarmiðum nefndarinnar og fá staðfestingu á þeim skilningi. Hafi það verið gert með bréfi til heilbrigðisnefndar, dags. 28. desember 2012, sem hafi verið ítrekað með bréfi, dags. 18. febrúar 2013. Í þessum bréfum sé farið fram á að lífræn söfnun kæranda verði samhæfð söfnun á blönduðum heimilisúrgangi því tæknilegar aðferðir kæranda geri það kleift að safna tveimur mismunandi flokkum efnis í sömu tvískiptu tunnuna. Tækni þessari sé lýst nánar í bréfinu. Jafnframt hafi verið óskað eftir leiðbeiningum stjórnvalds, á grundvelli 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um hvaða skilyrði kærandi yrði að uppfylla til að afla slíks starfsleyfis eða fá breytingar á núverandi starfsleyfum. Svar hafi borist frá heilbrigðisnefndinni með bréfi, dags. 20. febrúar 2013, þar sem engin skýr svör séu gefin. Kærandi hafi sent annað bréf, dags. 11. mars s.á., þar sem enn sé spurt um túlkun starfsleyfa og sérstaklega spurt um söfnun á lífrænum úrgangi frá heimilum án þess að söfnun á blönduðum úrgangi sé þar nefnd. Í svari heilbrigðisnefndarinnar, dags. 9. apríl s.á., víki nefndin sér undan að svara fyrirspurninni. Enn hafi nefndinni verið sent bréf, dags. 17. s.m., þar sem sú spurning sé ítrekuð hvort kæranda sé heimilt að safna lífrænum heimilisúrgangi til jarðgerðar í sérstakt ílát sem losað sé sérstaklega. Ekkert svar hafi borist frá heilbrigðisnefndinni fyrr en í september s.á. Túlkun heilbrigðisnefndarinnar á sértækum starfsleyfisskilyrðum kæranda sé allt önnur en túlkun kæranda og afar neikvæð.

Afstaða og viðbrögð heilbrigðisnefndarinnar sé hvorki í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 né lög um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003. Kærandi hafi ávallt starfað innan marka laga og reglugerða en telji að nú sé brugðið fyrir hann fæti af heilbrigðisnefndinni á óverðskuldaðan hátt. Ýmis ákvæði samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg nr. 228/2013, sem heilbrigðisnefndin vitni til, fari langt út fyrir þann lagaramma sem málaflokknum sé settur. Með framkomu sinni brjóti Reykjavíkurborg gegn eigin stefnu í sorpmálum þar sem minnkun á myndun úrgangs og aukin endurvinnsla sé í fyrirrúmi.

Sami aðili, þ.e. Reykjavíkurborg og undirstofnanir hennar, annist bæði útgáfu starfsleyfa og eftirlit með aðilum sem starfi á sviði umhverfismála en gefi á sama tíma út starfsleyfi fyrir eigin starfsemi og annist sjálfur eftirlit með slíkri starfsemi. Þetta eigi bæði við um sorphirðu Reykjavíkur og rekstur svokallaðra endurvinnslustöðva Sorpu, en borgin sé stærsti eignaraðilinn að því fyrirtæki.

Málsrök heilbrigðisnefndar Reykjavíkur: Af hálfu heilbrigðisnefndar er áréttað að skipulag söfnunar og flutningur heimilissorps sé lögbundið hlutverk sveitarfélaga og eitt meginverkefnið í grunnþjónustu íbúunum til handa. Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 sé sveitarstjórnum ætlað að sinna staðbundinni stjórn úrgangsmála. Skuli sveitarstjórn ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í viðkomandi sveitarfélagi. Skilgreiningu á heimilissorpi sé að finna í 1. mgr. 3. gr. laganna en þar segi að heimilissorp sé „úrgangur frá heimilum, t.d. matarleifar, pappír, pappi, plast, garðúrgangur, gler, timbur, málmar og sams konar leifar frá rekstraraðilum o.þ.h.“. Löggjafinn hafi ákveðið að ábyrgðin af því að úrgangsmál séu í samræmi við lög og reglugerðir skuli vera á höndum sveitarfélaga. Sveitarstjórn sé, skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003, ábyrg fyrir flutningi heimilisúrgangs og skuli sjá til þess að móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang séu til staðar í sveitarfélaginu. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um meðferð úrgangs nr. 737/2003 segi að sveitarstjórn skuli ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn beri jafnframt ábyrgð á því að regluleg tæming sorpíláta sé framkvæmd og að heimilisúrgangur sé fluttur frá öllum heimilum á viðkomandi svæði sveitarstjórnar. Af framangreindu megi glögglega sjá að sveitarstjórn hafi ákvörðunarvald um það hvernig standa skuli að söfnun úrgangs frá heimilum í sveitarfélaginu. Þar að auki hafi sveitarstjórn fullt ákvörðunarvald um með hvaða hætti úrgangi sé safnað frá rekstraraðilum innan sveitarfélags.

Heilbrigðisnefndin bendir á að í viðleitni til þess að veita sveitarstjórnum aukið frelsi til að ákveða með ítarlegum hætti hvernig standa skuli að söfnun úrgangs og aðlaga þá söfnun að staðbundnum tilfellum hafi löggjafinn veitt sveitarstjórn heimild til þess að setja sérstaka samþykkt um meðhöndlun úrgangs, þar sem taka megi upp ítarlegri reglur en komi fram í lögum nr. 55/2003 og reglugerðum settum með heimild í þeim. Um setningu og gerð slíkra samþykkta fari eftir 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Nefnt lagaákvæði veiti sveitarstjórnum mjög rúma heimild til að taka upp ákvæði sem sveitarstjórn telji þörf fyrir í samþykkt og nauðsynleg séu til þess að þjónusta íbúa með sem bestum hætti.

Í 2. mgr. 1. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg nr. 228/2013 segi að Reykjavíkurborg sjái um söfnun á heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík. Jafnframt segi að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur sé heimilt að veita öðrum aðilum undanþágu til söfnunar á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík. Skilyrði fyrir slíkri undanþágu af hálfu heilbrigðisnefndar sé að sá sem sæki um undanþágu sé að veita meiri þjónustu en Reykjavíkurborg veiti. Hafi sveitarstjórn rúmar heimildir til að ákveða hvort sveitarfélagið annist sjálft þjónustuna eða hvort það úthýsi henni til annarra aðila. Þar að auki sé það skylda sveitarstjórnar að sjá til þess að heimilissorp sé flokkað. Reykjavíkurborg hafi ákveðið að annast sjálf söfnun heimilisúrgangs í samræmi við heimildir í lögum og hafi ekki í hyggju að úthýsa þjónustunni, enda sé það fyrirkomulag talið heppilegast svo tryggja megi að þjónustan sé veitt í samræmi við gildandi lög og reglur. Áðurnefnd samþykkt veiti borginni heimild til að heimila öðrum aðilum að sinna þjónustunni en þá aðeins að takmörkuðu leyti. Ákvörðunarvald um það hvort heimila eigi öðrum aðilum að sinna söfnun flokkaðs heimilisúrgangs liggi að öllu leyti hjá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, sem hafi eftirlit með því að ákvæði samþykktarinnar séu virt. Mat nefndarinnar byggist fyrst og fremst á faglegum forsendum. Nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu við stjórnsýslulega meðferð umsóknar kæranda að það þjóni ekki hagsmunum borgarinnar að veita heimild til söfnunar á flokkuðum, lífrænum heimilisúrgangi.

Því sé alfarið hafnað að fáfræði og ranghugmyndir hafi stjórnað þeirri ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar að synja kæranda um undanþágu til að safna lífrænum heimilisúrgangi. Nefndin hafi aflað umsagna fjölmargra aðila við undirbúning töku ákvörðunarinnar. Meðal annars hafi verið aflað umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sem sé sérfrótt fjölskipað stjórnvald innan stjórnkerfis borgarinnar og hafi í sínum verkahring umhverfismál, þ. á m. sorphirðu og úrgangsmál. Í umsögn ráðsins sé bent á ýmis atriði sem þurfi að hafa í huga við undirbúning ákvörðunar í málinu.

Varðandi þann hluta kærunnar er snúi að útgáfu heilbrigðisnefndar á starfsleyfum bendi nefndin á að í 11. gr. laga nr. 7/1998 segi að landið skiptist í eftirlitssvæði og skuli sveitarstjórn eftir hverjar kosningar kjósa heilbrigðisnefnd sem starfi á hverju svæði. Samkvæmt 13. gr. laganna skuli heilbrigðisnefnd sjá til þess að lögunum sé framfylgt, sem og reglugerðum settum með stoð í þeim, samþykktum sveitarfélagsins og ákvæðum annarra laga og reglugerða sem nefndinni sé falið að annast framkvæmd á. Heilbrigðisnefndir hafi sjálfstæðan fjárhag og séu ákvarðanir þeirra kæranlegar til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1998. Af þessu megi glögglega ráða að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur sé sjálfstætt stjórnvald sem lúti ekki boðvaldi annarra stjórnvalda. Ákvarðanir nefndarinnar byggi á hlutlægu mati. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 7/1998 skuli allur atvinnurekstur sem hafi í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi. Í 2. mgr. 6. gr. laganna komi fram að heilbrigðisnefndir gefi út starfsleyfi fyrir slíkan atvinnurekstur, sem ekki sé talinn upp í fylgiskjali með lögunum. Samkvæmt þessu sé það heilbrigðisnefndar að gefa út starfsleyfi til þeirra er sinni sorphirðu af einhverju tagi, óháð því hver eigi í hlut. Framangreint fyrirkomulag hafi verið ákveðið af löggjafanum og sé heilbrigðisnefndum óheimilt að haga starfsemi sinni á einhvern annan hátt.

Athugasemdir kæranda við málsrök heilbrigðisnefndar Reykjavíkur: Kærandi mótmælir því að athugasemdir hans við umsögn umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur séu órökstuddar. Kærandi hafi um árabil veitt ýmsum rekstraraðilum í Reykjavík þjónustu varðandi úrgang og endurvinnsluefni og meðal annars safnað lífrænum úrgangi frá stórmörkuðum og verslunum. Við þessa þjónustu hafi aldrei borist kvörtun um ásókn meindýra né skordýra, hvað þá að sóttkveikjur hafi fylgt þjónustunni. Þar sem lífrænum úrgangi sé safnað sé það gert tvisvar í viku og fyllsta hreinlætis gætt. Reykjavíkurborg standi sjálf að söfnun á blönduðum úrgangi frá heimilum í borginni á allt að 20 daga fresti. Ef fullyrðingar um meindýr og sóttkveikjur eigi við rök að styðjast eigi það eins við um þá starfsemi.

Í greinargerð heilbrigðisnefndarinnar sé því haldið fram að í kærunni felist krafa af hálfu kæranda um að úrskurðarnefndin leggi fyrir heilbrigðisnefnd að gefa út starfsleyfi eða að túlka starfsleyfi með tilteknum hætti. Engin slík krafa sé gerð í kærunni en eingöngu kært að sama stjórnvald geti gefið sjálfu sér, sem sjálfstæðum lögaðila, starfsleyfi jafnhliða umfjöllun um starfsleyfisumsóknir annarra aðila, auk þess að hafa eftirlit með öllum rekstraraðilum. Þetta stríði gegn anda stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en einnig gegn ákvæðum laga nr. 7/1998, um hlutverk heilbrigðisnefnda og valdsvið þeirra.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Mál þetta snýst um heimildir til söfnunar á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík.

Kærandi hefur m.a. kært það fyrirkomulag að sama stjórnvald, þ.e. heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, gefi út starfsleyfi til frjálsra óopinberra aðila á markaði, hafi eftirlit með þeim og úrskurði um gildissvið starfsleyfa þeirra á sama tíma og stjórnvaldið gefi út starfsleyfi fyrir eigin starfsemi sem sé í samkeppni við aðila á frjálsum markaði. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum þeirra laga og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. a í lögunum skal allur atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. gefa heilbrigðisnefndir út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og ekki er talinn upp í fylgiskjali, sbr. 1. mgr., eftir því sem mælt er fyrir um í reglugerð, og hefur reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun verið sett. Samkvæmt grein 7.1 í reglugerðinni skal allur atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. fylgiskjal 1, fylgiskjal 2 og I. viðauka með reglugerðinni. Í fylgiskjali 2 eru listar yfir atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi fyrir og kveðið er á um nauðsyn starfsleyfis fyrir sorpflutninga og sorphirðu í tölul. 7.14 í 7. kafla fylgiskjalsins. Samkvæmt framangreindu er ljóst að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur verið veitt það hlutverk samkvæmt lögum að gefa út starfsleyfi til aðila sem sjá um nefnda starfsemi í borginni, þ. á m. sorphirðu Reykjavíkurborgar og kæranda. Fellur það utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að úrskurða um það fyrirkomulag að heilbrigðisnefnd sé falið að veita starfsleyfi vegna sorpflutninga og sorphirðu, sem að framan er rakið, enda hefur löggjafinn tekið til þessa skýra afstöðu.

Meginágreiningur máls þessa er sú ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar frá 17. september 2013 að synja kæranda um undanþágu til að safna lífrænum úrgangi frá heimilum í Reykjavík, en kærandi kærir einnig þá „[niðurstöðu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur] sem tilkynnt var kæranda í bréfi sem dagsett er 9. apríl 2013…“ að ekki rúmist innan starfsleyfis kærða að safna lífrænum og blönduðum heimilisúrgangi í sérstaka tunnu þar sem það geti ekki talist vera söfnun á flokkuðum úrgangi.

Úrskurðarnefndin hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þannig eru aðeins kæranlegar þær ákvarðanir og þau úrlausnaratriði sem afmörkuð eru í lögum og að teknu tilliti til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða aðeins þær ákvarðanir er binda enda á mál bornar undir úrskurðarnefndina.

Svo sem nánar er rakið í málavöxtum snerust bréfleg samskipti kæranda og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um túlkun á sértækum skilyrðum í starfsleyfi kæranda, þar sem honum er veitt heimild til að annast söfnun á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík, en kærandi beindi erindi þess efnis til nefndarinnar fyrst 28. desember 2012. Af svörum heilbrigðisnefndar til kæranda má glögglega ráða að söfnun á lífrænum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum væri ekki talin falla undir nefnd skilyrði og í bréfi nefndarinnar, dags. 9. apríl 2013, er sú túlkun nefndarinnar á starfsleyfinu áréttuð. Verður að líta svo á að með því hafi kæranda verið leiðbeint um réttarstöðu sína. Þau samskipti fólu hins vegar ekki í sér neina þá endanlegu ákvörðun sem kæranleg er til nefndarinnar. Skal og á það bent að í kjölfarið lýsti kærandi því yfir í bréfi sínu til heilbrigðisnefndar 17. s.m. að teldi nefndin títtnefnda söfnun á lífrænum úrgangi ekki falla undir gildandi starfsleyfi hans sækti hann um nýtt „starfsleyfi og/eða undanþágu“ til söfnunar „í sérstakt ílát lífrænum heimilisúrgangi frá heimilum í borginni, til jarðgerðar“. Var málinu þar með markaður ákveðinn farvegur sem lauk með synjun heilbrigðisnefndar á þeirri umsókn á fundi nefndarinnar 17. september 2013. Kærandi hefur kært þá ákvörðun og krafist ógildingar, svo sem áður greinir, og mun lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar einskorðast við þá ákvörðun. Aðrar kröfur kæranda, s.s. um að fá útgefið starfsleyfi ákveðins efnis sér til handa, koma ekki til frekari úrlausnar, enda brestur úrskurðarnefndina vald til þess að mæla svo fyrir um.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta sem sveitarfélögum ber samkvæmt lögum að annast. Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli sama ákvæðis var sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind væru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998. Hefur Reykjavíkurborg sett sér slíka samþykkt, en sú samþykkt sem í gildi var þegar hin kærða ákvörðun var tekin er nr. 228/2013 og var birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. mars 2013.
 
Í 2. mgr. 1. gr. samþykktarinnar kemur fram sú meginregla að Reykjavíkurborg sjái um söfnun á heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík og hafi umsjón með rekstri grenndarstöðva fyrir flokkaðan heimilisúrgang. Heilbrigðisnefnd er heimilt að veita öðrum aðilum undanþágu til söfnunar á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík. Skilyrði undanþágu er að þjónusta sem veitt er sé meiri en þjónusta sem Reykjavíkurborg veiti, þ.e. nái til söfnunar á fleiri úrgangsflokkum. Í undanþágu skal kveðið á um nánari skilyrði hennar, m.a. varðandi skýrslugjöf til Reykjavíkurborgar og heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar um magn úrgangs og flokkun hans, tíðni losunar og meðferð úrgangsins, auk almennra hollustu- og mengunarvarnaákvæða. Undanþágu skal aðeins veita þeim sem hefur starfsleyfi til endurvinnslu og flutnings úrgangs í Reykjavík. Í 2. mgr. 2. gr. samþykktarinnar segir að sérhverjum húsráðanda íbúðarhúsnæðis sé skylt að nota þau ílát og þær aðferðir sem heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar ákveði.

Kærandi hefur starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til að „… starfrækja bifreiða- og vélaverkstæði, handvirka bónstöð, flutning úrgangs og spilliefna að Súðarvogi 2“. Jafnframt hefur kærandi fengið undanþágu samkvæmt tilvitnuðu ákvæði 2. mgr. 1. gr. samþykktar nr. 228/2013. Í sértækum skilyrðum í starfsleyfi kæranda kemur fram í 1. lið að honum sé: „… heimilt að annast söfnun á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík“. Í 2. lið koma síðan fram skilyrði um skýrslugjöf kæranda samkvæmt framangreindum ákvæðum samþykktarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi, í samræmi við nefnd sértæk skilyrði starfsleyfis hans, annast söfnun á ákveðnum tegundum flokkaðs heimilisúrgangs. Hann hefur hins vegar ekki safnað svokölluðum lífrænum heimilisúrgangi frá heimilum, en þar mun fyrst og fremst vera átt við matarleifar. Umsókn kærða frá 17. apríl 2013 snerist um að honum yrði veitt frekari undanþága frá reglu 2. mgr. 1. gr. samþykktar nr. 228/2013 en gildandi starfsleyfisskilyrði hans kveða á um. Ekki er deilt um að sú þjónusta sem kærandi hugðist veita samkvæmt umsókn sinni er meiri en sú þjónusta sem Reykjavíkurborg veitir, en ekki er safnað sérstaklega flokkuðum lífrænum heimilisúrgangi á vegum borgarinnar. Er því ljóst að kærandi uppfyllti þau skilyrði sem sett eru fyrir undanþágu í 2. mgr. 1. gr. Það verður þó ekki hjá því litið að ákvæðið kveður einungis á um heimild til veitingar undanþágu en ekki skyldu. Má og ráða af gögnum málsins að áður en ákvörðun var tekin um umsókn kæranda fór fram mat af hálfu heilbrigðisnefndar á því hvaða hagsmunum það þjónaði að veita kæranda hina títtnefndu undanþágu. Verður jafnan að játa stjórnvöldum ákveðið svigrúm til slíks mats svo framarlega sem það er í samræmi við markmið þeirra laga sem stjórnvöld byggja ákvörðun sína á.

Í máli þessu aflaði nefndin sér gagna um afstöðu umhverfis- og skipulagsráðs til málsins, auk umsagna hverfisráða, svo sem áður hefur verið rakið. Kom fram í umsögn umhverfis- og skipulagsráðs að ráðið legðist gegn því að umsótt undanþága yrði veitt, m.a. á þeim forsendum að lífrænn heimilisúrgangur væri í eðli sínu mun vandmeðfarnari en þurr, endurvinnanlegur úrgangur og hann þurfi að hirða a.m.k. helmingi oftar en annan flokkaðan úrgang. Afleiðing þessa yrði mjög aukin umferð sorpbíla um íbúðarhverfi borgarinnar. Að fengnum framangreindum umsögnum tók heilbrigðisnefnd ákvörðun um að hafna umsókn kæranda um undanþágu og var niðurstaðan kynnt honum með bréfi, dags. 24. september 2013. Verður ekki annað séð en að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum í samræmi við þau markmið laga nr. 7/1998 og nr. 55/2003 að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sem og að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og draga úr þeirri hættu sem förgun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra. Þá hefur málið verið rannsakað og bendir ekkert til annars en að málsmeðferð hafi að öðru leyti verið í samræmi við lög.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem áhrif geta haft á gildi hennar og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um að synja honum um undanþágu til að safna lífrænum eldhúsúrgangi frá heimilum í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon

14/2013 Ytri – Skógar

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 10. janúar 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Ytri-Skóga.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar 2013, er barst nefndinni 12. s.m., kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. I og S, Ytri-Skógum 2 og 3, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 10. janúar 2013 að samþykkja deiliskipulag fyrir Ytri-Skóga, Rangárþingi eystra. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Hinn 23. febrúar 2012 var á fundi skipulagsnefndar Rangárþings bs. lögð fram lýsing af skipulagsverkefni fyrir byggingar, aðkomu og samgöngur að Skógum. Tók lýsingin til alls mannvirkjasvæðis Ytri-Skóga, norðan þjóðvegar nr. 1. Var lýsingin samþykkt en settur fyrirvari um samþykki landeigenda. Einnig var mælst til þess að leitað yrði umsagna um lýsinguna og hún kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Lá samþykki landeigenda, þ.e. héraðsnefndar Rangæinga og héraðsnefndar Vestur-Skaftafellssýslu, fyrir 27. og 29. febrúar s.á. Sveitarstjórn Rangárþings eystra tók málið fyrir 8. mars 2012 og staðfesti greinda afgreiðslu. Í kjölfar þess var lýsingin kynnt almenningi og hagsmunaðilum.

Tillaga að deiliskipulagi Ytri-Skóga var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 21. maí 2012. Gerði hún m.a. ráð fyrir nýjum íbúðarhúsum, að upphaf vegslóða inn á Fimmvörðuháls yrði fært austar og að tjaldsvæði yrðu færð. Var tillagan samþykkt og mælst til þess að hún yrði auglýst til kynningar. Haldinn var íbúafundur 24. s.m. þar sem tillagan var kynnt og einnig munu hafa verið haldnir fundir með hagsmunaaðilum og Skipulagsstofnun. Hinn 14. júní 2012 var tillagan lögð fyrir sveitarstjórn sem samþykkti auglýsingu hennar. Í kjölfar þess var tillagan auglýst og gefinn frestur til að koma að athugasemdum til 1. ágúst s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum máls þessa.

Skipulagsnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi 13. september 2012. Kynntar voru tillögur að svörum við fram komnum athugasemdum og tekið undir þær. Lagðar voru til breytingar á tillögunni er lutu að því að tekin yrði út gönguleið um hlað á Ytri-Skógum, gert yrði ráð fyrir bílastæðum fyrir rútur norðan gamla barnaskólans og breytingar gerðar á tveimur frístundalóðum austan við Fjósagil. Sveitarstjórn tók málið fyrir sama dag og vísaði afgreiðslu þess til frekari umfjöllunar í skipulagsnefnd og til síðari umræðu í sveitarstjórn. Tillagan var til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar Rangárþings eystra 30. október 2012 og var fært til bókar að hún væri samþykkt með nokkrum minni háttar breytingum. Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 8. nóvember s.á. og eftirfarandi bókað: „Lögð er fram greinargerð skipulags- og byggingarnefndar þar sem er yfirlit yfir athugasemdir sem gerðar voru við tillögu að deiliskipulagi fyrir Ytri-Skóga og svör við þeim. Sveitarstjórn samþykkir greinargerðina og að allir sem gerðu athugasemdir fái senda greinargerðina í heild. Sveitarstjórn samþykkir tillögu að deiliskipulagi fyrir Ytri-Skóga dags. 25. september 2012 með áorðnum breytingum.“

Í kjölfar þessa var Skipulagsstofnun sent deiliskipulagið til lögboðinnar athugunar. Með bréfi, dags. 6. desember 2012, gerði stofnunin athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins og tiltók ýmis atriði sem hún taldi að leiðrétta þyrfti eða þörfnuðust nánari skýringa. Var málið lagt fyrir að nýju hjá skipulags- og byggingarnefnd 20. desember s.á. Samþykkt var að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar og var bókað að gerðar hefðu verið minni háttar breytingar á skipulagsgögnum til samræmis. Var skipulagsfulltrúa falið að svara öðrum athugasemdum Skipulagsstofnunar og tillagan, með áorðnum breytingum, dags. 20. desember 2012, samþykkt. Tók sveitarstjórn málið fyrir að nýju 10. janúar 2013 og samþykkti þá afgreiðslu. Hún var síðan send Skipulagsstofnun sem gerði nú ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 6. febrúar 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir séu ábúendur jarðarinnar Ytri-Skóga. Hafi þeir stundað búskap á jörðinni í áraraðir og sinnt ferðaþjónustu á svæðinu. Muni deiliskipulagið hafa talsverðar breytingar í för með sér varðandi skipulag svæðisins og mikil áhrif fyrir kærendur. Sé það haldið verulegum form- og efnislegum annmörkum.

Deiliskipulagstillagan hafi ekki verið kynnt með formlega réttum hætti. Auglýst tillaga hafi tekið miklum breytingum frá kynntri tillögu og hafi hún þar af leiðandi ekki fengið þá meðferð sem kveðið sé á um í 40. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillögunni hafi enn verið breytt eftir að fresti til athugasemda hafi verið lokið, t.d. varðandi framtíðarbyggingarsvæði við Fosstún. Ákveðin festa sé nauðsynleg þegar komi að kynningu á deiliskipulagi. Sæti tillaga sífelldum breytingum, meðan á kynningu hennar standi, eigi þeir sem hagsmuna eigi að gæta þess ekki kost að gera athugasemdir, enda erfitt að sjá hvað verið sé að leggja til. Að auki hafi Skipulagsstofnun gert verulegar athugasemdir við tillöguna. Hafi henni verið breytt í kjölfar þess og samþykkt þannig en ekki virðist hafa verið farið að nefndum athugasemdum að öllu leyti. Einnig sé enn misræmi á milli deiliskipulagsuppdráttar og greinargerðar. Auki þetta enn á óvissuna um hvað verið sé að leggja til og skerði möguleika á að gera athugasemdir. Þá fullnægi rökstuðningur sveitarstjórnar í svörum við fram komnum athugasemdum ekki skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verulegar athugasemdir séu gerðar við vegslóða þann er nú liggi upp með heimreið og gegnum hlöð kærenda. Geri deiliskipulagið ráð fyrir að vegstæði hans verði fært til austurs og að vegurinn muni sameinast núverandi vegslóða nokkru ofar. Muni vegstæðið verða í gróinni brekku og beitilöndum kærenda með tilheyrandi röskun á hagsmunum þeirra og starfsaðstöðu. Standist ákvörðun þessi ekki lög. Ekki sé gert ráð fyrir neins konar vegaframkvæmdum upp á Fimmvörðuháls í Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2003-2015, hvorki fjallvegum, vegslóðum né öðrum vegum. Breyti hér engu þótt einungis sé verið að færa hluta vegslóðans en ekki hann allan. Jafnframt sé skírskotað til ákvæða 5. gr. og 1. mgr. 7. gr. jarðalaga nr. 81/2004, en þar komi m.a. fram að ef fyrirhugað sé í skipulagi að breyta landnotkun svæða sem nýtt hafi verið til landbúnaðar, skuli leyfi ráðherra til að leysa landið úr landbúnaðarafnotum liggja fyrir áður en viðkomandi skipulagsáætlun hljóti endanlega afgreiðslu. Slíks samþykkis hafi ekki verið aflað. Þá verði legu vegslóðans ekki breytt nema í samræmi við ákvæði byggingarbréfs og þau ákvæði ábúðalaga sem um það gildi. Samkvæmt byggingarbréfi sé landeigendum einungis heimilt að taka land undan ábúð ef það skerði ekki aðstöðu til búrekstrar að mati héraðsráðunauts. Umræddar breytingar muni gera það, samkvæmt greinargerð héraðsráðunauts og hafa veruleg áhrif á aðgang með sauðfé að afréttarlöndum á heiðinni fyrir ofan svæðið. Hafi kærendur aðeins yfir að ráða um 40-50 ha af ræktuðu landi.

Nefndur vegslóði flokkist undir einkaveg í skilningi 11. gr. laga nr. 80/2007. Af því leiði að hann lúti forræði kærenda sem lífstíðarábúenda jarðarinnar. Bresti sveitarfélaginu heimildir til að gera í deiliskipulagi ráð fyrir vegslóða í andstöðu við þá sem hafi forræði á því landi sem vegslóðinn eigi að liggja um. Loks liggi ekkert kostnaðarmat eða kostnaðaráætlun til grundvallar því að umrædd leið sé ódýrasti kosturinn af þeim leiðum sem skoðaðar hafi verið og sú sem minnstu raski valdi. Byggi ákvörðun sveitarstjórnar á getgátum og þar með ómálefnalegum sjónarmiðum. Hafi sveitarstjórn vanrækt rannsóknarskyldu sína, sbr. hér 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gangi skipulagning slóðans jafnframt að öðru leyti gegn öllum meðalhófssjónarmiðum, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur hafi lagt til aðra staðsetningu fyrir vegslóðann. Muni sú leið í engu raska Völvuleiði eða rústum beitarhúsa, svo sem ýjað sé að í svörum sveitarstjórnar. Geti sveitarstjórn því ekki lagt fram slík sjónarmið til grundvallar staðsetningu vegslóðans.

Raðhúsabyggð, sem gert sé ráð fyrir nokkru vestan við skólabygginguna, sé óþörf og verulega illa staðsett, en nefndum vegslóða yrði þar best fyrir komið. Mætti finna raðhúsabyggðinni annan stað og beri að fella ákvörðunina úr gildi hvað þetta varði að teknu tilliti til meðalhófssjónarmiða. Deiliskipulagið sé einnig í trássi við gildandi aðalskipulag, svo sem um framtíðarbyggingarsvæði að Fosstúni og skógrækt sunnan Kvernu. Þá verði enn frekar gengið á ræktað land kærenda verði byggingum komið fyrir norðan við Fosstún.

Gert sé ráð fyrir bílastæðum fyrir rútur norðan við gamla barnaskólann, þ.e. inn á ræktuðu landi og túni kærenda. Ekki verði annað ráðið en að bílastæðin séu að miklu leyti inn á friðlýstu svæði með Skógaá en í engu sé að því vikið í greinargerð deiliskipulagsins hvort gætt hafi verið ákvæða laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Þá virðist þau liggja út fyrir skipulagt svæði samkvæmt aðalskipulagi. Gangi fyrirhuguð staðsetning þeirra gegn áðurnefndu byggingarbréfi og ákvæðum ábúðar- og jarðalaga. Jafnframt sé gerð athugasemd við framtíðaraðkomuleið að bílastæði við Skógafoss.

Hagsmunir annarra aðila á svæðinu hafi verið settir í forgang á kostnað kærenda. Gangi deiliskipulagið gegn öllum jafnræðissjónarmiðum, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga sbr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Sömuleiðis gangi það gegn venjuhelguðum grenndar- og nábýlisreglum íslensk réttar og að öðru leyti gegn friðhelgu einka- og fjölskyldulífi kærenda.

Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið mótmælir því að ákvæðum skipulagslaga hafi ekki verið fylgt við meðferð málsins. Kynningar á lýsingu skipulagstillagna og tillagna að skipulagi séu hugsaðar sem samráðsvettvangur við íbúa og hagsmunaðila til að fá fram þeirra sjónarmið áður en tillaga að skipulagi sé auglýst. Eðlilegt sé að tillaga taki breytingum í þessu samráðsferli. Geri skipulagslögin ekki ráð fyrir að nefndar kynningar séu endurteknar þótt gerðar séu breytingar á tillögu áður en hún sé auglýst formlega til kynningar. Ekki hafi verið um grundvallarbreytingar að ræða. Engar verulegar breytingar hafi verið gerðar á tillögunni eftir auglýsingu hennar. Þá hafi ekki verið gerðar neinar breytingar sem gengið hafi á hagsmuni kærenda, þvert á móti. Því sé andmælt að Skipulagsstofnun hafi gert verulegar athugasemdir við tillöguna að lokinni auglýsingu. Ekki sé ljóst hvaða misræmi eigi að vera milli greinargerðar og uppdráttar deiliskipulagsins.

Vegslóði á Fimmvörðuháls sé ekki í andstöðu við aðalskipulag. Með færslu upphafs slóðans sé ekki verið að gera nýjan veg/vegslóða. Gerð sé lítil háttar breyting á upphafi slóðans sem verði til þess að uppakstursleiðin færist úr bæjarhlaðinu á Ytri-Skógum og valdi ábúendum minna ónæði en nú sé. Vegslóðinn sé einungis sýndur til skýringar í gildandi aðalskipulagi og kalli tilfærsla hans ekki á breytingu á aðalskipulagi. Kærendur líti svo á að umræddur slóði sé einkavegur en ekki sé gert ráð fyrir að slíkir vegir séu sýndir í aðalskipulagi.

Deiliskipulagið geri hvorki ráð fyrir að taka land úr landbúnaðarnotum né undan ábúð. Lítið meira land, ef nokkuð, fari undir nýja hluta slóðans en farið hafi undir þann eldri. Ekki komi fram í greinargerð héraðsráðunauts að stæðið fyrir slóðann sem slíkan muni skerða land til landbúnaðarnota. Sveitarfélagið og landeigendur hafi alla tíð lagt áherslu á að bæta ábúendum land sem tapist vegna framkvæmdanna, m.a. verði eldri hluti vegslóðans græddur. Ekki sé gert ráð fyrir að vegurinn verði opinn almenningi. Beitarland tapist því ekki vegna hans. Heimilt sé að girða slóðann til að hægt sé að nýta landið til búrekstrar. Fallið hafi verið frá gerð bílastæða neðan við hann til að koma til móts við sjónarmið kærenda. Leiði það ekki til ógildingar á deiliskipulagi þótt rétthafar eða landeigendur kunni að eiga rétt á bótum eða ef í ljós komi að slóðinn verði ekki færður nema með samkomulagi við ábúendur.

Sveitarfélög fari með skipulagsvald á öllu landi innan staðarmarka viðkomandi sveitarfélags og skipti eignarhald lands og mannvirkja ekki máli. Sveitarfélagið hafi því heimild að lögum til að vinna skipulag að svæðinu og ákveða hvar upphaf umrædds slóðar skuli liggja til framtíðar. Nefndur slóði sé nauðsynleg aðkoma upp á afréttinn/fjalllendið fyrir ofan Skóga, m.a. vegna öryggis þeirra sem fari um svæðið. Lega slóðans varði einnig aðra hagsmunaaðila sem á svæðinu séu og almenning. Hafi framtíðarlega slóðans áhrif á skipulagið í heild. Heimilt sé að kveða á um legu einkavega í deiliskipulagi.

Því sé mótmælt að sveitarfélagið hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína við mat á því hvaða leiðir væru heppilegar. Farið hafi verið nokkuð ítarlega yfir mögulegar leiðir, áhrif þeirra og kostnað. Aðrar leiðir séu mun lengri og valdi miklu meira raski á náttúru svæðisins. Leið sú sem valin hafi verið sé ódýrust samkvæmt grófu kostnaðarmati. Ekki hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu við ákvörðunina og búi lögmæt og málefnaleg sjónarmið að baki henni.

Mikilvægt sé talið að styrkja Skógasvæðið með framboði á nýjum íbúðarlóðum og taki staðsetning raðhúsabyggðarinnar m.a. mið af því að nýta núverandi vegi, veitukerfi og styrkja byggðarmynstur svæðisins. Þá sé framtíðar íbúðarbyggð við Kvernu, skógrækt og framtíðar aðkomuleið að bílastæðum við Skógafoss til skýringa og þurfi því ekki að breyta aðalskipulagi. Bílastæði norðan við gamla barnaskólann séu staðsett á eðlilegum stað miðað við nýtingu hans og annarra mannvirkja á svæðinu sem tengist ferðaþjónustu. Séu stæðin utan friðlýsts svæðis. Staðsetning bílastæða á landbúnaðarlandi kalli ekki á breytingu á aðalskipulagi. Að mati sveitarstjórnar sé um óverulega skerðingu á ræktunarlandi að ræða.

Ákvarðanir deiliskipulagsins séu vel skýrðar í greinargerð þess. Athugasemdum sé svarað ítarlega í greinargerð sveitarstjórnar með svörum til þeirra er sendu inn athugasemdir. Sérstaklega sé andmælt fullyrðingum um útúrsnúninga eða að ekki hafi verið færð efnisleg rök fyrir deiliskipulaginu. Því sé mótmælt að hagsmunir kærenda hafi verið látnir mæta afgangi, en m.a. hafi verið fallið frá gönguleið um hlaðið hjá þeim. Hafi ekki verið gengið á hagsmuni kærenda, nema að óverulegu leyti, þó ekki hafi verið gengið svo langt að láta skipulagsvald á svæðinu í þeirra hendur. Óútskýrðum fullyrðingum um brot á jafnræðissjónarmiðum eða grenndar og nábýlisréttareglum sé mótmælt.

                        ——

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags Ytri-Skóga. Telja kærendur m.a. að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn ákvæðum 40. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum kemur fram að þar sé að finna ýmis nýmæli og breytingar frá gildandi skipulags- og byggingarlögum. Skýrari fyrirmæli séu lögð til um samráð og kynningu við gerð skipulagsáætlana og þannig sé lögð áhersla á að auka aðkomu almennings við gerð skipulags og að samráðsaðilar komi að skipulagsferlinu eins snemma og unnt sé. Með því sé ætlunin að vanda gerð skipulags og tryggja að hagsmunaaðilar hafi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarfélögin þannig að þau geti tekið upplýsta ákvörðun við afgreiðslu skipulagsáætlunar.

Meðal nýmæla laganna er ákvæði 40. gr. sem kveður á um að þegar vinna við gerð deiliskipulagstillögu hefjist skuli sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu. Skuli leita umsagnar Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila um lýsinguna og kynna hana fyrir almenningi. Samkvæmt athugasemdum í frumvarpi til skipulagslaga byggist nefnt ákvæði á þeirri meginreglu að því fyrr sem athugasemdir komi við gerð deiliskipulags því betra. Jafnframt lýsingu skal kynna tillögu að deiliskipulagi, forsendur hennar og umhverfismat fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt, áður en hún er tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn.

Í máli því sem hér er til úrlausnar sætti tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis breytingum eftir kynningu hennar. Var skipulagstillagan síðan auglýst til kynningar svo breytt og veittur frestur til að koma að athugasemdum. Eðlilegt verður að telja að tillaga geti tekið breytingum sökum athugasemda og ábendinga er fram koma við kynningu á byrjunarstigi, ella þjónaði kynningin vart tilgangi sínum. Gera skipulagslög ekki kröfu um að þegar svo hátti til þurfi að kynna tillögu að nýju áður en sveitarstjórn samþykkir að auglýsa tillöguna til kynningar. Ákveði sveitarstjórn hins vegar að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skal hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik skv. 1. mgr., sbr. 4. mgr. 41.gr. laganna.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að allnokkrar breytingar hafi verið gerðar á tillögunni eftir auglýsingu hennar. Þannig var í samþykktri greinargerð, dags. 20. desember 2012, gert ráð fyrir byggingarheimildum fyrir hreinlætisaðstöðu og þjónustuhús á tjaldsvæði, en svo var ekki í greinargerð með auglýstri tillögu, dags. 13. júní s.á. Jafnframt var í samþykktri greinargerð heimild fyrir stækkun eða endurbyggingu þriggja frístundahúsa á skipulagssvæðinu en heimild til slíks var ekki í auglýstri tillögu. Fleiri breytingar voru samþykktar á tillögunni eftir auglýsingu hennar, m.a. vegna athugasemda Skipulagsstofnunar þar um.

Hvað varðar síðar til komna tilgreiningu á byggingarheimildum á tjaldsvæði skal á það bent að á uppdrætti hinnar auglýstu tillögu voru þar sýnd hús og verður að telja eðlilegt að gera ráð fyrir þjónustuhúsum á tjaldsvæðinu. Þá virðist með heimilaðri stækkun þriggja frístundahúsa sem verið sé að samræma stærð þeirra, en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru tvö þeirra þegar að þeirri stærð sem heimild er nú veitt fyrir, en hið þriðja nokkuð minna. Á uppdrætti auglýstrar tillögu var jafnframt sýnt framtíðar byggingarsvæði við Kvernu sem og framtíðar aðkoma að bílastæðum við Skógafoss, án nánari skýringa í greinargerð tillögunnar og var kynningu hennar að þessu leyti áfátt. Á samþykktum uppdrætti eru nefnd byggingarsvæði ekki sýnd, en þau eru hins vegar sýnd á skýringarmynd í greinargerð og þess getið að þar sem ekki sé gert ráð fyrir þessum byggingarsvæðum í aðalskipulagi sé einungis verið að sýna hvaða möguleikar séu til framtíðar. Þá er ekki sýnd framtíðar aðkoma að bílastæðum við Skógafoss á hinum samþykkta uppdrætti, enda tekið fram í greinargerð skipulagsins að sú aðkoma samræmist ekki aðalskipulagi. Svo sem að framan er rakið voru gerðar allnokkrar breytingar á deiliskipulagstillögunni eftir að hún var auglýst þar til hún var samþykkt og ber málsmeðferðin með sér að betur hefði mátt standa að gerð tillögunnar. Á það ber hins vegar að líta að breytingarnar voru til komnar vegna athugasemda Skipulagsstofnunar sem og athugasemda sem bárust á kynningartíma. Eins og fram hefur komið er beinlínis gert ráð fyrir því í skipulagslögum að breytingar geti átt sér stað að gefnu tilefni. Sá varnagli er jafnframt sleginn að sé auglýstri tillögu breytt í grundvallaratriðum skuli hún auglýst að nýju. Að mati úrskurðarnefndarinnar var hvorki eðli breytinganna né umfang slíkt að þær gætu talist grundvallarbreytingar í skilningi 4. mgr. 41. gr. laganna og þurfti því ekki að auglýsa tillöguna að nýju. Þá verður ekki heldur ráðið að aðrir þeir annmarkar hafi verið á meðferð málsins að ógildingu varði.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar og annast hún og ber ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Við beitingu þess ber m.a. að fylgja markmiðssetningu nefndra laga sem tíunduð er í 1. gr. þeirra. Þar er t.a.m. kveðið á um að stuðla skuli að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða. Jafnframt að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Við töku skipulagsákvarðana eru sveitarstjórnir ennfremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvarðanatöku sé stefnt að lögmætum markmiðum. Jafnframt gerir meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá kröfu til stjórnvalda að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt sé til þess að ná settum markmiðum er búi að baki stjórnvaldsákvörðun. Einnig verður að hafa í huga það sjónarmið að almenningur eigi að geta vænst þess að ekki sé ráðist í breytingar í mótaðri eða skipulagðri byggð nema að nauðsyn beri til þess, enda geta slíkar breytingar raskað stöðu fasteignareigenda á svæðinu og haft margvísleg grenndaráhrif. Verða sveitarstjórnir að virða greind lagaákvæði og sjónarmið við töku skipulagsákvarðana. Þá skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga og er stefna aðalskipulags bindandi við gerð deiliskipulags, sbr. 32. gr. þeirra laga.

Kærendur telja staðsetningu vegslóða, er færa á austar við heimreið þeirra, ekki í samræmi við ákvæði þágildandi Aðalskipulags Rangárþings eystra 2003-2015. Í nefndu aðalskipulagi segir svo: „Ekki er gert ráð fyrir nýjum vegslóðum í Þórsmörk, á Fimmvörðuhálsi og að Fjallabaki.“ Í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi kemur fram í kafla 1.1 að í því sé mörkuð stefna fyrir nýjan veg á Fimmvörðuháls. Nánari umfjöllun um veginn má finna í kafla 3.8.4 þar sem þess er getið að einn fjallvegur sé innan svæðisins, leiðin upp á Fimmvörðuháls. Um veginn er svo enn fjallað í kafla 4, um áhrif deiliskipulagsins á umhverfið, og er þar gerð grein fyrir mismunandi möguleikum á legu upphafs hans. Á skýringarmynd í greinargerð, er sýnir bújarðir og veg á Fimmvörðuháls, er vegurinn merktur sem nýr vegur, en svo er hins vegar ekki á aðaluppdrætti deiliskipulagsins. Að fyrirliggjandi gögnum virtum verður ekki talið að hin umdeilda staðsetning téðs vegslóða feli í áætlun um nýjan vegslóða á Fimmvörðuhálsi. Um er að ræða vegstúf sem mun vera um 100 m langur og liggur hann sem slíkur ekki á Fimmvörðuhálsi. Þá segir svo í 2. mgr. gr. 4.16.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að í aðalskipulagi skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum samgöngumannvirkjum, s.s. þjóðvegum og höfnum, svo og helstu umferðaræðum, stofnbrautum og tengibrautum. Fer hin kærða skipulagsákvörðun að þessu leyti því ekki í bága við þágildandi aðalskipulag.

Kærendur átelja jafnframt staðsetningu hins umþrætta vegslóða þar sem landbúnaðarland þeirra hafi ekki verið tekið úr landbúnaðarnotum svo sem áskilið sé í jarðalögum nr. 81/2004. Þá telja kærendur að ákvörðun sveitarstjórnar byggi á ómálefnalegum sjónarmiðum og að hvorki hafi verið gætt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga né athugasemdum kærenda svarað með rökstuddum hætti og brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu laganna.

Eins og rakið hefur verið komu kærendur á framfæri athugasemdum við téðan vegslóða á kynningartíma tillögunnar. Gerðu þeir tillögu um að nýju vegstæði yrði fundinn staður upp af aðalheimreið Skógasvæðisins, upp fyrir heitavatnsholuna og inn með gilinu og þaðan beint inn á fyrirliggjandi vegslóða. Í svörum sveitarfélagsins við fram komnum athugasemdum er gerð grein fyrir því hvers vegna valin hafi verið sú staðsetning sem gert er ráð fyrir í nefndu deiliskipulagi. Jafnframt var tekið fram að sú leið er lögð hefði verið til af hálfu kærenda væri óhentug m.a. vegna umferðar, rasks og kostnaðar. Þá var við skipulagsgerðina horft til mismunandi leiða við staðsetningu hins umdeilda vegslóða og gerður samanburður á þeim kostum sem til greina þóttu koma. Fallast má á með kærendum að tilfærsla umrædds hluta vegslóðans í gegnum ræktarland þeirra sé til þess fallin að raska hagsmunum þeirra komi til framkvæmdar deiliskipulagsins að þessu leyti. Er raunar vikið að því í kafla 4. í greinargerð þess þar sem samanburður er gerður á milli mismunandi leiða og tekið fram að sú leið er valin var þveri bithaga í Kvennabrekku, en land sem þar skerðist sé hægt að bæta. Því verður ekki annað séð en að skipulagsyfirvöld hafi við beitingu skipulagsvalds síns skoðað mismunandi staðsetningu fyrir vegslóðann, lagt mat á þá hagsmuni sem í húfi væru og valið þá leið er talin væri fela í sér minni röskun. Rétt er að árétta að skipulagslög gera ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttindum, en aðilar geta þá eftir atvikum leitað bótaréttar úr hendi sveitarfélagsins í samræmi við 51. gr. skipulagslaga sé sýnt fram á að gildistaka skipulags valdi tjóni, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Loks verður ekki talið að umrædd tilfærsla vegslóðans feli í sér að verið sé að skipuleggja landsvæðið fyrir aðra starfsemi en landbúnað og var því ekki nauðsyn á að leita samþykkis ráðherra samkvæmt jarðalögum. Af þeim sökum kemur byggingarsamningur sá er kærandi vísar til því ekki til álita við úrlausn málsins.

Samkvæmt öllu framangreindu verður gildi hins kærða deiliskipulags ekki raskað er varðar umdeildan vegslóða, enda verður eins og áður greinir hvorki séð að á því séu form- eða efnisannmarkar er það varðar. Þá var málsmeðferð hins kærða deiliskipulags að lögum, svo sem áður greinir.

Hins vegar er ákveðið ósamræmi á milli þágildandi aðalskipulags og hins umdeilda deiliskipulags hvað varðar landnotkun innan skipulagsreitsins og þar með í andstöðu við 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga sem kveður á um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Þannig eru tvö frístundahús, auðkennd F3 og F4 í hinu umdeilda deiliskipulagi, staðsett á svæði sem samkvæmt uppdrætti þágildandi aðalskipulags er skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota. Samkvæmt þágildandi skipulagsreglugerð eru það svæði með útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar er stunduð, s.s. trjárækt. Í greinargerð aðalskipulagsins er m.a. sagt um Skóga að þar séu tveir eldri sumarbústaðir. Jafnframt segir að ekki sé gert ráð fyrir aukningu frístundabyggðar í Skógum. Þá kemur fram í aðalskipulaginu að svæði með þremur frístundahúsum eða færri séu ekki sýnd á skipulagsuppdrætti. Í gr. 4.11.1 í þágildandi skipulagsreglugerð segir m.a. um frístundabyggð að á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum svæðum fyrir frístundabyggð utan þéttbýlisstaða. Í hinu umdeilda deiliskipulagi er sagt um frístundabyggð að frá gamalli tíð séu alls fjögur frístundahús innan skipulagssvæðisins og veitir deiliskipulagið heimild til að endurbyggja/stækka húsin þannig að þau verði allt að 70 m² að stærð. Svo sem áður segir eru húsin F3 og F4 staðsett á opnu svæði til sérstakra nota, án þess að vera auðkennd frekar sem frístundahús á uppdrætti þágildandi aðalskipulags. Úr því hefur verið bætt í núgildandi aðalskipulagi og eru húsin nú merkt með hringtáknum sem stök frístundahús. Það verður þó ekki hjá því komist að fella deiliskipulagið úr gildi hvað varðar heimildir til stækkunar þeirra, enda var á þeim tíma ekki fært að heimila frekari uppbyggingu frístundahúsanna í andstöðu við landnotkun samkvæmt þágildandi aðalskipulagi, sbr. og þágildandi skipulagsreglugerð.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að þeir annmarkar séu á hinu kærða deiliskipulagi að varði ógildingu þess í heild sinni. Eins og áður er rakið gætti þó þess misræmis á milli þágildandi aðalskipulags og hins kærða deiliskipulags að ógildingu varði, en með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þykir þó rétt að ógilda hina kærðu deiliskipulagsákvörðun einungis að því marki sem fór í bága við gildandi aðalskipulag.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður aðeins fallist á kröfu kæranda um ógildingu með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 10. janúar 2013 að samþykkja deiliskipulag fyrir Ytri-Skóga hvað varðar frístundahús auðkennd F3 og F4. Að öðru leyti stendur deiliskipulagið óhaggað.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Hildigunnur Haraldsdóttir                                   Þorsteinn Þorsteinsson

15/2013 Laugarvatn

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 8. nóvember 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir þéttbýlið Laugarvatn í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 11. febrúar 2013, kærir Þórir Þórisson, f.h. E, Reykjabraut 5, Laugarvatni, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 8. nóvember 2012 að samþykkja deiliskipulag fyrir þéttbýlið við Laugarvatn í Bláskógabyggð. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að því er varði reit 5, Íbúðarbyggð við Laugar-, Bjarkar-, Lindar-, Dal-, og Reykjarbraut.

Greinargerð sveitarfélagsins og gögn í málinu bárust úrskurðarnefndinni 13. mars 2013 og á árunum 2014 og 2015.

Málavextir: Lýsing á skipulagsverkefni fyrir þéttbýlið Laugarvatn var kynnt á íbúafundi á Laugarvatni í september 2011. Tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis var kynnt á almennum fundi í mars 2012 og íbúar og hagsmunaaðilar hvattir til að koma að athugasemdum og ábendingum til skipulagsfulltrúa. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 25. júlí s.á. var lögð fram endurskoðuð tillaga að deiliskipulagi Laugarvatns. Gerði nefndin ekki athugasemd við hana og vísaði henni til afgreiðslu hjá sveitarstjórn. Hinn 26. s.m. samþykkti byggðarráð Bláskógabyggðar að auglýsa fyrrgreinda tillögu til kynningar. Var hún m.a. auglýst í Dagskránni, Fréttablaðinu og Lögbirtingarblaðinu og bárust nokkrar athugasemdir á kynningartíma. Samhliða var auglýst tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 innan þéttbýlisins Laugarvatns.

Að loknum kynningartíma deiliskipulagstillögunnar var hún til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar 25. október 2012 og var eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Níu athugasemdabréf bárust á kynningartíma auk þess sem fyrir liggja umsagnir frá Vegagerð ríkisins og Fornleifavernd ríkisins. Að auki liggur fyrir tillaga Skógræktar ríkisins að nýrri staðsetningu áfangastaðar inn í skógi ofan þjóðvegar. Þá liggur fyrir tillaga skipulagsráðgjafa að umsögn um innkomnar athugasemdir og þær ábendingar sem fram koma í umsögnum Vegagerðar og Fornleifaverndar. Nefndin samþykkir fyrirliggjandi umsögn um athugasemdir og mælir með að sveitarstjórn samþykki fyrirliggjandi deiliskipulag óbreytt í helstu meginþáttum. Gerðar eru minniháttar breytingar sem felast í breytingu á orðalagi varðandi akstursheimild upp göngustíg að grafreit, bætt er við áningarstað í skógi ofan við þjóðveg og bætt er við bílastæðum á lóðinni Dalbraut 4.“ Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 8. nóvember 2012, og samþykkti hún nefnda afgreiðslu, sem og umsögn um fram komnar athugasemdir. Deiliskipulagið var í kjölfar þess sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 10. desember 2012, kom fram að hún teldi að nánari skýringa væri þörf áður en stofnunin tæki afstöðu til erindisins. Að skýringum fengnum tók Skipulagsstofnun erindið fyrir að nýju og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 11. janúar 2013. Tók fyrrgreind breyting á aðalskipulagi Laugardalshrepps gildi 10. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er gerð athugasemd við staðsetningu byggingarreits fyrir bílskúr að Dalbraut 4, með aðkomu frá Reykjabraut. Muni staðsetningin hindra aðkomu og aðgengi að húsi kæranda og sé til þess fallin að skapa hættu. Töluverð þrengsli séu við enda götunnar og muni stækkun veitingahúss við Dalbraut 6 auka á þann vanda. Götumyndin muni einnig breytast, en byggingarreitur hússins sé ekki í línu við aðra byggingarreiti. Líta þurfi til þess hvort téðar breytingar séu í samræmi við lög og reglugerðir um íbúðahverfi og athuga fjölda bílastæða fyrir umrædda starfsemi. Göngustígur, sem áætlaður sé á milli Reykjabrautar 3 og 5, skerði lóð kæranda. Loks sé gerð athugasemd við kynningu málsins sem hafi verið villandi og ófullnægjandi.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarfélagið bendir á að ekki hafi verið bílastæði innan lóðarinnar að Dalbraut 4 og að borist hafi beiðni um byggingu bílskúrs á téðri lóð. Hafi skipulagsyfirvöld metið það svo að ekki væri hægt að gera ráð fyrir aðkomu að honum frá Dalbraut, m.a. vegna götumyndar, heldur frekar frá Reykjabraut. Bílskúrsreiturinn sé 2,5 m frá lóðarmörkum og kanti gangstígs við götu. Hann sé nokkuð inn á lóðinni með rúmu plássi fyrir bíl milli bílskúrs og lóðarmarka. Hvorki sé verið að þrengja að núverandi aðkomu þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir séu allar innan lóðarmarka né skerða möguleikann á því að leggja bifreið meðfram gangstétt fyrir framan íbúðarhús kæranda. Haldist gatan og snúningssvæði hennar óbreytt. Þá sé ekki verið að þrengja að Reykjabrautinni eða snúningsási götunnar með mögulegri stækkun veitingahúss á lóðinni að Dalbraut 6. Eingöngu sé gert fyrir aðgengi að húsinu frá Dalbraut, en ekki frá Reykjabraut. Sé því ekki talin hætta á að mikil ásókn verði í að leggja bílum við síðarnefnda götuna. Þá sé byggingarlína núverandi húsa mismunandi.

Vegna athugasemda um göngustíg sé tekið fram að töluverð óvissa hafi verið um nákvæm lóðarmörk margra eldri lóða innan Laugarvatns. Samkvæmt grunni sem deiliskipulagið hafi verið unnið eftir sé bil á milli lóða nr. 3 og 5 við Reykjabraut. Ef í ljós komi að grunnurinn sé ekki réttur og ekki sé vilji til að hafa göngustíg á þessum stað verði það skoðað sérstaklega. Jafnframt sé bent á að málsmeðferð deiliskipulagsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Hafi frá upphafi máls þessa verið lögð áhersla á mikið og gott samráð við hagsmunaðila innan Laugarvatns, bæði íbúa, rekstraraðila, umsagnaraðila og eigendur fasteigna.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags fyrir þéttbýlið Laugarvatn. Er hið skipulagða svæði um 147 ha að stærð, skipt í nokkra skipulagsreiti og eru sérskilmálar fyrir hvern þeirra. Í greinargerð hins umdeilda deiliskipulags er m.a. tekið fram að því sé aðallega ætlað að ná utan um skipulagsmál byggðarinnar og tryggja samræmi í lóðarskilmálum um leið og veitt sé svigrúm fyrir eðlilega stækkun og þróun þéttbýlis. Við gildistöku deiliskipulagsins féllu úr gildi fimm deiliskipulagsáætlanir fyrir svæðið en hluti svæðisins var þó ekki deiliskipulagður. Fram kemur í téðri greinargerð að ekki sé um neinar eðlisbreytingar á stefnumiðum að ræða. 
Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar og annast hún og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Við beitingu þess ber m.a. að fylgja markmiðssetningu nefndra laga sem tíunduð er í 1. gr. þeirra. Þar er t.a.m. kveðið á um að stuðla skuli að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða. Jafnframt skal tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Ljóst er að sveitarstjórnum er að lögum ætlað víðtækt vald til ákvarðana um skipulag. Þá gera skipulagslög ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttindum og kveða lögin m.a. á um rétt til bóta að vissum skilyrðum uppfylltum.

Gera þarf grein fyrir fyrirkomulagi göngustíga í deiliskipulagi eftir því sem þurfa þykir samkvæmt 6. mgr. gr. 4.16.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Á uppdrætti hins umdeilda deiliskipulags er sýndur göngustígur á milli lóða nr. 3 og 5 við Reykjabraut, sem kærandi telur að fari inn á lóð hans. Þar sem kærandi á hagsmuna að gæta um nýtingu umræddrar lóðar hefði verið rétt að leita samráðs við hann við gerð hins umdeilda deiliskipulags ef nefndur stígur fæli í sér skerðingu á lóð hans. Áhöld eru hins vegar um hvort téður göngustígur fari inn á nefnda lóð. Af efni lóðarleigusamnings, sem þinglýst var á árinu 1970, má ráða að lóðin Reykjabraut 5 liggi á milli tveggja lóða. Samningurinn sker þó ekki með óyggjandi hætti úr um lóðamörk og ekki liggja fyrir úrskurðarnefndinni nein önnur þau gögn, svo sem lóðarblað, er renna stoðum undir fullyrðingar kæranda. Verður því ekki fullyrt að tilefni hafi verið til samráðs við kæranda umfram það sem mælt er fyrir um almennt. Þá skal á það bent að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum nema að undangengnum samningi, eða eftir atvikum eignarnámi, verði talin til skilyrði þess.

Fram kemur í almennum skilmálum skipulagsins að gert sé ráð fyrir bílgeymslu við hvert íbúðarhús, ýmist sambyggðri eða stakri, og skal hún ávallt rúmast innan byggingarreits. Samkvæmt upplýsingum úr skrám fasteignamats Þjóðskrár Íslands er lóðin nr. 4 við Dalbraut um 900 m² og er á henni 218 m² einbýlishús. Á uppdrætti deiliskipulagsins er markaður byggingarreitur sunnan við húsið og er aðkoma að honum frá Reykjabraut. Var svo jafnframt á uppdrætti auglýstrar tillögu, sem kærandi gerði ekki athugasemdir við. Einnig er gert ráð fyrir nokkrum bílastæðum norðan við húsið og er aðkoma að þeim frá Dalbraut, en sú heimild var samþykkt eftir kynningartíma tillögunnar og voru því bílastæðin ekki sýnd á uppdrætti er hún var auglýst. Ekki mun hafa verið bílskúr á lóðinni áður og ljóst er að heimiluð staðsetning hans innan þess byggingarreits sem er með aðkomu frá Reykjabraut getur haft áhrif á grenndarhagsmuni lóðarhafa aðlægra lóða, t.d. vegna aukinnar umferðar. Það verður þó ekki séð að þau áhrif séu umfram það sem almennt má búast við og þola þarf í þéttbýli. Þá verður að líta til þess að framangreindir skipulagsskilmálar eru í samræmi við það markmið skipulagsins að tryggja samræmi í lóðarskilmálum, enda hafa lóðarhafar þá jafnan rétt til bílgeymslu við íbúðarhús sín.

Lóðin að Dalvegi 6, þar sem starfræktur mun vera veitingastaður, er á skilgreindu miðsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2002-2012. Þar skal skv. gr. 4.4.1 í þágildandi skipulagsreglugerð fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði. Er því starfsemi í húsinu í samræmi við þá starfsemi sem almennt er starfrækt á miðsvæðum. Umrædd lóð er á reit 5 í hinu umdeilda deiliskipulagi. Ekki er í skilmálum fyrir reitinn tekið fram hver skuli vera fjöldi bílastæða á lóðinni, en kvöð er um akstur á milli lóða nr. 6 og 8 annars vegar og lóða nr. 10 og 12 hins vegar. Í almennum skilmálum deiliskipulagsins er tilgreint að sameiginleg bílastæði verði við nýja götu milli Laugarbrautar og Hverabrautar og skuli þau þjóna öllu miðsvæðinu. Einnig segir að gerð sé grein fyrir núverandi bílastæðum við opinberar stofnanir, verslun og þjónustu á uppdrætti. Þá skuli bílastæði á nýjum lóðum almennt vera í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar þar um og fjöldi sérmerktra stæða fyrir hreyfihamlaða samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í umsögn sveitarfélagsins við fram komnum athugasemdum var lagt til að fyrirkomulag bílastæða á lóðum nr. 4 og 6 yrði endurskoðað. Jafnframt var tekið fram að fjöldi bílastæða ætti að vera 19, en að þau væru 13 og væri það vegna samnýtingar við lóð nr. 8. Hið umdeilda deiliskipulag tók gildi í gildistíð skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Þar var í gr. 3.1.4 kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða en jafnframt tekið fram að unnt væri að víkja frá þeim í deiliskipulagi ef sýnt væri fram á að bílastæðaþörf væri minni eða unnt væri að uppfylla hana með öðrum hætti. Eins og áður greinir er í deiliskipulaginu fjallað um sameiginleg bílastæði fyrir miðsvæðið og verður ekki annað af því ráðið en að þar með hafi bílastæðaþörf verið uppfyllt í samræmi við framangreint ákvæði. Skal og á það bent að ekki er gerð krafa um fjölda bílastæða í núverandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sem tók gildi skömmu eftir gildistöku deiliskipulagsins, og að við frekari framkvæmdir á skipulagsreitnum ber að taka tillit til ákvæða í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða.

Loks var málsmeðferð í samræmi við skipulagslög. Lýsing á skipulagsverkefninu og tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis voru kynntar á íbúafundum áður en tillagan var auglýst til kynningar. Tekin var afstaða til fram kominna athugasemda við tillöguna og þeim svarað. Þá verður ekki talið, eins og hér stendur á, að tillögunni hafi verið breytt í grundvallaratriðum eftir auglýsingu hennar. Tillagan var samþykkt af sveitarstjórn og að lokinni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar var gildistaka deiliskipulagsins auglýst.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að neinir þeir annmarkar séu fyrir hendi á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 8. nóvember 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir þéttbýlið Laugarvatn í Bláskógabyggð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_______________________________              ______________________________
Hildigunnur Haraldsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson

12/2015 Jöldugróf

Með
Árið 2015, mánudaginn 21. desember, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 12/2015, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. janúar 2015 um að synja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámum á lóð nr. 6 við Jöldugróf í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Sýrfell ehf., lóðarhafi lóðarinnar nr. 6 við Jöldugróf, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. janúar 2015 að synja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámum á nefndri lóð. Krefst kærandi þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og stöðuleyfi veitt. Til vara er gerð krafa um að ákvörðunin verði ógild og að málið verði tekið fyrir að nýju af óhlutdrægum aðila og til þrautavara er krafist ógildingar ákvörðunarinnar og að málið verði tekið fyrir að nýju og afgreitt á málefnalegan hátt. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 29. apríl og 15. og 18. desember 2015.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. janúar 2015 var tekin fyrir umsókn kæranda um stöðuleyfi fyrir tveimur gámum á lóð nr. 6 við Jöldugróf. Var afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Erindið var lagt fram á ný á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. s.m., því synjað og fært til bókar að það teldist ekki samræmast deiliskipulagi.

Kærandi gerir athugasemdir við þær leiðbeiningar sem hann hafi fengið hjá Reykjavíkurborg vegna umsóknar hans um umrætt stöðuleyfi. Þá hafi umsókn hans verið afgreitt án þess að kærandi hafi fengið að svara athugasemdum sveitarfélagsins við umsóknina eða koma að andmælum. Öllum skilyrðum um stöðuleyfi í kafla 2.6 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafi verið fullnægt. Það sé rökleysa að hafna umsókninni á þeirri forsendu að hún samræmist ekki deiliskipulagi. Virðist sem tekin hafi verið afstaða til málsins líkt og um umsókn um byggingarleyfi væri að ræða og hafi það leitt málið á villigötur. Lóðin að Jöldugróf 6 sé óbyggð en í grónu hverfi. Megi reisa þar allt að 240 m² íbúðarhús og ekki verði séð að tveir gámar, samtals um 60 m² geti verið til ama. Hljóti það að vera réttur lóðarhafa að nýta sér eign sína innan eðlilegra marka.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 31. mars 2015 hafi verið lagt fram minnisblað frá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar þar sem lagt hefði verið til að hin kærða synjun yrði afturkölluð. Hafi svo verið gert og eigi kærandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn hennar. Kæranda hafi verið tilkynnt afgreiðslan.

Í frekari athugasemdum sínum bendir kærandi á að hann hafi ekki fengið neina tilkynningu um lyktir málsins. Hafi málið ekki verið afgreitt af hálfu byggingarfulltrúa, hvorki til samþykktar né synjunar. Sé málið því ekki í eðlilegum farvegi.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Með bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, f.h. byggingarfulltrúa, dags. 27. apríl 2015, var úrskurðarnefndinni tilkynnt að á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 31. mars 2015 hafi verið lagt fram minnisblað skrifstofu sviðsstýru þar sem mælst hafi verið til þess að [hin kærða] synjun byggingarfulltrúa frá 13. janúar s.á. yrði afturkölluð með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málið hafi verið afgreitt með eftirfarandi bókun: „afgreitt“. Var jafnframt tekið fram í téðu bréfi að af hálfu embættis byggingarfulltrúans hafi fyrrnefnd afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 13. janúar s.á. verið afturkölluð. Hefur hin kærða ákvörðun af þeim ástæðum því ekki lengur réttarverkan að lögum og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Í nefndu minnisblaði kemur fram að jafnframt sé mælst til þess að umsækjanda verði tilkynnt um afturköllunina og hann upplýstur um rétt sinn til að senda inn nýja umsókn um stöðuleyfi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Reykjavíkurborg mun hafa misfarist að senda slíka tilkynningu til kæranda og bendir úrskurðarnefndin á að umsókn hans um stöðuleyfi bíður þar með enn afgreiðslu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Nanna Magnadóttir

56/2014 Hnoðravellir

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 16. apríl 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Velli 6. áfanga – Hnoðravelli 52-54-56-58.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júní 2014, sem barst nefndinni 30. s.m., kæra eigendur og íbúar að Hnoðravöllum 7, 32, 34, 36, 40, 42, 44, 46, 48 og 50, Hafnarfirði, þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar frá 16. apríl 2014 að breyta deiliskipulagi Hnoðravalla 52, 54, 56 og 58.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um tímabundna stöðvun framkvæmda með vísan til 5. gr. laga nr. 130/2011, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 20. ágúst 2014.

Málavextir: Hinn 11. desember 2013 sótti lóðarhafi Hnoðravalla 52, 54, 56 og 58 um breytingu á deiliskipulagi. Fólust umsóttar breytingar í því að sameina lóðir og fjölga raðhúsaíbúðum úr fjórum í sjö. Hinn 22. janúar 2014 skilaði lóðarhafi inn uppdrætti og var breytingartillagan grenndarkynnt í kjölfarið. Athugasemdir bárust, m.a. frá kærendum, og var fjallað um þær og umsótta deiliskipulagsbreytingu á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 26. febrúar s.á. Var athugasemdum svarað með bréfi, dags. 13. mars s.á. Breytingartillagan var síðan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs 8. apríl s.á. og hún samþykkt. Var bókað að ráðið gerði svör skipulags- og byggingarsviðs við athugasemdum að sínum og að ekki væri talið að umrædd breyting myndi hafa í för með sér verulega aukið umferðarálag á hverfið umfram það sem gert væri ráð fyrir í gildandi deiliskipulagi. Gert væri ráð fyrir tveimur bílastæðum fyrir hverja íbúð. Smærri en fleiri íbúðir væru auk þess í ágætu samræmi við almenna þróun á byggingamarkaði og svaraði þörf fyrir minni íbúðir í nýjum hverfum, án þess að byggingarmagn væri aukið. Þá væru nýleg fordæmi um samsvarandi afgreiðslu erinda í hverfinu. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti tillöguna á fundi sínum 16. apríl 2014 og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní s. á.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir séu eigendur nærliggjandi lóða. Hin kærða skipulagsbreyting hafi í för með sér aukið umferðarálag og bílastæðavanda þar sem bílastæðahlutfall minnki við fjölgun íbúða. Enn fremur valdi annmarkar á teikningum því að ekki fáist séð hvort byggingarmagn minnki eða aukist og hvort byggingarreitur sé jafn stór og áður. Rökstuðning vanti fyrir því að minnkun og fjölgun íbúða sé í samræmi við almenna þróun á byggingarmarkaði. Kærendur hafi fjárfest í fasteignum á þessu svæði á þeim forsendum að stefnt yrði að færri íbúum og stærri íverustöðum. Sé því um forsendubrest að ræða. Að auki hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar þar sem aðeins talsmanni lóðarhafa hafi verið gefið tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum á fundi skipulags- og byggingarráðs 8. apríl 2014.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjarins er vísað til þess að hæpið sé að tala um mikla umferðaraukningu. Gera megi ráð fyrir að færri einstaklingar muni búa í minni íbúðum heldur en í þeim stærri. Samþykktur uppdráttur geri ráð fyrir tveimur bílastæðum fyrir hverja íbúð. Á uppdrætti sé aðeins greint frá þeim breytingum sem gerðar séu á gildandi skipulagi eins og venja sé en annað haldist óbreytt. Í texta á uppdrættinum komi fram að byggingarreitur muni ekki stækka en færast fjær götu. Hvorki umfang húss né hæð þess muni aukast. Sé áréttað að fundir skipulags- og byggingarráðs séu lokaðir. Umsækjendur séu kallaðir á fund í undantekningartilvikum þegar afla þurfi frekari upplýsinga sem varði afgreiðslu málsins. Skipulags- og byggingarráð hafi fengið fulltrúa umsækjanda á sinn fund til að gera nánari grein fyrir fyrirætlunum sínum áður en endanleg afstaða hafi verið tekin til erindisins. Athugasemdir kærenda hafi hins vegar legið fyrir og engin ástæða verið til að kalla þá á fund vegna þeirra. Með vísan til þessa sé því hafnað að ekki hafi verið gætt andmælaréttar kærenda.

Athugasemdir lóðarhafa: Lóðarhafi vísar til þess að málsmeðferð hafi verið í fullkomnu samræmi við ákvæði skipulagslaga. Ítarlega hafi verið farið yfir athugasemdir kærenda og komist að þeirri niðurstöðu að þær gæfu ekki tilefni til að synja erindi lóðarhafa. Uppdrætti hafi verið breytt og sé nú gert ráð fyrir fleiri bílastæðum en áður. Því standist rök kærenda um fækkun bílastæða ekki. Sé á það bent að kærendur geti ekki gert tilkall til þess að engar breytingar séu gerðar á nærliggjandi lóðum. Því sé hafnað að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin. Umsókn lóðarhafa hafi verið til meðferðar og kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við þá umsókn. Ekki sé gert ráð fyrir frekari aðkomu þeirra sem skili inn athugasemdum, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Niðurstaða: Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á deiliskipulagssvæði Valla, 6. áfanga. Í breytingunni felst að lóðirnar að Hnoðravöllum 52, 54, 56 og 58, þar sem heimilt var að byggja fjögurra íbúða raðhús af gerðinni R3 hvert með sínu húsnúmeri, eru sameinaðar í eina lóð með sjö íbúða raðhúsi. Byggingarreit er breytt og hann færður til á lóðinni en reiturinn er ekki stækkaður. Nýtingarhlutfall er óbreytt og miðast við fullnýttan byggingarreit. Í stað átta bílastæða á lóð og fjögurra innbyggðra bílgeymsla verða nú 14 bílastæði á lóð.

Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er umrætt skipulagssvæði merkt íbúðarsvæði, ÍB8. Í greinargerð aðalskipulagsins segir í kafla 2.2.1 Íbúðarbyggð, Nýbyggingarsvæði: „Nýbyggingahverfi á skipulagstímabilinu eru Skarðshlíð, Ásland 4, 5 og miðsvæði, Vatnshlíð og Hamranes 1. Þessi nýbyggingarsvæði mynda ásamt Völlum nýjan bæjarhluta í Hafnarfirði sunnan Reykjanesbrautar. […] Gert er ráð fyrir að þéttleiki byggðarinnar verði: sérbýli og blönduð byggð (einbýli, parhús raðhús) 20 íbúðir á hvern ha lands, fjölbýli 45 íbúðir á hvern ha lands.“ Þá kemur fram í kafla 1.3.1. um markmið byggðar að tryggja skuli fjölbreytt framboð húsagerða í nýjum hverfum og að þar séu ávallt til úthlutunar helstu gerðir húsa, bæði sérbýli og fjölbýli, með hliðsjón af eftirspurn eftir hverri húsagerð á hverjum tíma. Fer hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki í bága við greinda stefnu og markmið aðalskipulagsins, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana jafnframt fullnægt.

Deiliskipulagsbreytingin var grenndarkynnt með vísan til 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, sem heimilar að grenndarkynna óverulegar breytingar á samþykktu deiliskipulagi, en með vísan til þess sem að framan greinir um eðli breytingarinnar verður hún að teljast óveruleg í skilningi ákvæðisins. Áttu kærendur þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna breytingarinnar og að lokinni grenndarkynningu var tekin afstaða til athugasemda kærenda og þeim svarað. Verður því ekki fallist á að ekki hafi verið gætt andmælaréttar kærenda þó að fulltrúi lóðarhafa hafi mætt á fund skipulags- og byggingaráðs til upplýsingagjafar vegna ákveðinna atriða. Skipulags- og byggingarráð fjallaði um tillöguna á fundi sínum 8. apríl 2014 og vísaði henni til bæjarstjórnar, sem samþykkti hana á fundi 16. s.m. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2014. Var málsmeðferð tillögunnar því í samræmi við skipulagslög.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvald í sínu umdæmi og annast gerð deiliskipulags og breytingar á því, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Við töku skipulagsákvarðana ber m.a. að taka mið af því markmiði c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagsmunir heildarinnar séu hafðir að leiðarljósi. Þótt raðhúsaíbúðum fjölgi úr fjórum í sjö á viðkomandi lóð með umræddri deiliskipulagsbreytingu verður ekki talið að sú breyting geti að marki raskað grenndarhagsmunum kærenda, svo sem vegna aukinnar umferðar eða annars ónæðis, þegar litið er til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar er óbreytt frá eldra skipulagi.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 16. apríl 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Velli 6. áfanga – Hnoðravelli 52-54-56-58.

______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Þorsteinn Þorsteinsson

81/2015 Grettisgata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 10. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss að Grettisgötu 41 í Reykjavík og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. september 2015, er barst nefndinni 25. s.m., kæra 23 eigendur og íbúar að Grettisgötu 26, 28b, 29, 35, 35b, 36, 37, 39, 39b, 42, 43a og 45, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss að Grettisgötu 41 í Reykjavík og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu.

Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og er jafnframt gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Málavextir: Með byggingarleyfisumsókn, dags. 28. apríl 2015, sótti eigandi Grettisgötu 41 um leyfi til að hækka hús á lóðinni um 1,5 m, færa framhlið og gafl þess sem næst til upprunalegs horfs og reisa tveggja hæða staðsteypta viðbyggingu. Var umsóknin tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. maí s.á. en afgreiðslu frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Málið var enn á dagskrá fundar byggingarfulltrúa 26. s.m. en afgreiðslu þess var á ný frestað, með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og umsagnar Minjastofnunar Íslands, dags. 20. s.m. Erindið var síðan samþykkt á fundi byggingarfulltrúa 9. júní 2015 og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 11. s.m. Var byggingarleyfi síðan gefið út hinn 22. september 2015.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að hönnun á útliti heimilaðrar viðbyggingar sé í hróplegu ósamræmi við bárujárnsklædda timburhúsið sem fyrir sé að Grettisgötu 41, en það sé friðað samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Það hús tilheyri timburhúsareit sem njóti hverfisverndar í deiliskipulagi, en um sé að ræða heilstæðustu og upprunalegustu timburhúsabyggð sem varðveitt sé í Reykjavík frá upphafi 20. aldar. Þótt mörg hús við Grettisgötu hafi tekið breytingum frá upphaflegri gerð hafi flestir íbúar á svæðinu lagt sig fram við að viðhalda upphaflegu svipmóti byggðarinnar jafnframt því að stuðla að fegrun umhverfisins og verndun menningararfsins. Það sé áhyggjuefni að svo róttæk útlitsbreyting sem hér um ræði fái brautargengi athugasemdalaust og skapi fordæmi fyrir endurgerð annarra eldri húsa á reitnum. Íbúum hafi ekki verið kynnt tillaga að stækkun umrædds húss, þar sem í gildi sé deiliskipulag fyrir svæðið, og áttu af þeim sökum ekki kost á að gera athugasemdir eða kæra tillöguna fyrr en raun beri vitni.

Þá fari hið kærða byggingarleyfi í bága við gildandi deiliskipulag. Ekki verði annað ráðið en að skipulag geri ráð fyrir dýpkun byggingarreits á umræddri lóð um 6 m, en samkvæmt samþykktum byggingarnefndarteikningum sé búið að samþykkja 6,34 m dýpkun. Þá sé farið upp fyrir hámarks nýtingarhlutfall, sem sé 0,65, en samþykktir hafi verið 214,9 m2 brúttó á lóðinni, sem gefi nýtingarhlutfallið 0,74. Samkvæmt deiliskipulagi megi reisa á lóðinni viðbyggingu með kjallara, hæð og ris, en samþykktar teikningar sýni hins vegar þrjár hæðir. Kjallarinn verði jarðhæð vegna landhalla og efsta hæðin geti engan veginn talist undir súð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld gera kröfu um frávísun kærumálsins þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra skal. Kæra í máli þessu hafi borist hinn 25. september 2015, eða rúmlega þremur mánuðum eftir að kærufrestur hafi byrjað að líða. Kærendum hafi mátt vera ljós ákvörðun borgarráðs strax hinn 11. júní 2015 enda séu fundargerðir þess birtar opinberlega í samræmi við lög og venjur.

Andmæli byggingarleyfishafa: Farið er fram á að kærumáli þessu verði vísað frá, þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti, en ella að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað.

Í kjölfar hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúa hafi hún verið birt opinberlega á heimasíðu borgarinnar og hafi þá öllum mátt vera ljóst hvað til stæði. Kæra í máli þessu hafi borist 11 vikum eftir samþykkt og birtingu ákvörðunarinnar, eða eftir að lögmæltur eins mánaðar kærufrestur eftir opinbera birtingu ákvörðunar var liðinn. Þá hafi einn kærenda átt í samskiptum við byggingarleyfishafa allt frá því að flutt hafi verið inn í umrætt hús í byrjun árs 2015. Hafi honum verið kunnugt um áform eigenda um endurbyggingu hússins og viðbyggingu. Megi ætla að aðrir kærendur hafi vitað um áætlaða viðbyggingu löngu áður en kærufrestur hafi runnið út.

Hvað varði efnishlið málsins sé tekið fram að í nágrenni Grettisgötu 41 sé fyrst og fremst blönduð byggð. Af 32 húsum, sem standi við Grettisgötu milli Vitastígs og Frakkastígs, séu 11 steinsteypt eða múrhúðuð, þ. á m. fimm í næsta nágrenni við hús byggingarleyfishafa, og búi fimm kærenda í þeim húsum. Heimiluð viðbygging falli því vel að byggðamynstri næsta nágrennis. Við hönnun umdeildrar viðbyggingar hafi verið haft náið samráð við Minjastofnun og m.a. tekið tillit þess sjónarmiðs að skýr skil yrðu á milli hins friðaða húss og fyrirhugaðrar viðbyggingar. Viðbyggingin verði því ekki í beinu framhaldi af vestur- og austurvegg hússins heldur inndregin. Þá hafi sú ákvörðun verið tekin við hönnun viðbyggingarinnar að hafa hana úr steinsteypu til þess að skerpa skil milli þess gamla og þess nýja. Götuhlið hússins að Grettisgötu 41 raski ekki götumynd svæðisins. Form gamla hússins haldi sér og gluggar séu endurgerðir með hliðsjón af upphaflegri gerð. Þá sé heimiluð viðbygging lítt sjáanleg frá götu vegna staðsetningar og hönnunar.

Í gildandi deiliskipulagi sé byggingarreitur undir núverandi hús teiknaður 6,13 m á lengd frá suðri til norðurs og þar sé heimiluð dýpkun byggingarreits um 6 m undir viðbyggingu. Heildarlengd byggingarreits lóðarinnar frá suðri til norðurs sé því 12,13 m. Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verði heildarlengd hússins að Grettisgötu 41 12,01 m eða 12 cm innan heimilda deiliskipulags. Hafi húsið verið ranglega mælt við gerð deiliskipulagsuppdráttar ætti sú skekkja ekki að raska rétti leyfishafa til að nýta merktan byggingarreit á lóðinni undir byggingar. Fyrir mistök hafi verið stuðst við birt flatarmál í stað brúttóflatarmáls við útreikning nýtingarhlutfalls lóðarinnar en verði það til að raska gildi umrædds byggingarleyfis muni þau mistök verða leiðrétt.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra ákvörðun til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina nema á annan veg sé mælt í lögum. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Ákvörðun um samþykki byggingarleyfisumsóknar er stjórnvaldsákvörðun sem tilkynna skal umsækjanda í samræmi við 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sbr. og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er kveðið á um það í lögum að slíkar ákvarðanir skuli sæta opinberri birtingu. Þegar af þeirri ástæðu getur kærufrestur í máli þessu ekki farið eftir 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, þar sem kveðið er á um að upphaf kærufrests, vegna ákvarðana sem lög mæla fyrir um að birta skuli með opinberum hætti, teljist frá birtingu. Verður hér að miða við það að upphaf kærufrestsins sé við það tímamark þegar kærendum mátti vera ljóst að hin kærða ákvörðun hafði verið tekin og hvert efni hennar var.

Kærendur hafa tekið fram að þeim hafi verið ljóst að heimilt væri samkvæmt deiliskipulagi að reisa viðbyggingu til norðurs við húsið að Grettisgötu 41. Þeir hafi hins vegar ekki átt möguleika á að kæra fyrirhugaðar framkvæmdir fyrr en raun beri vitni þar sem byggingaráformin hefðu ekki verið kynnt fyrir þeim. Byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum var gefið út hinn 22. september 2015 og var þá heimilt að hefja framkvæmdir. Verður hér við það að miða að framkvæmdir við viðbygginguna hafi ekki byrjað fyrr en þá. Fyrr mátti kærendum ekki vera ljóst hvert byggingarefni viðbyggingarinnar yrði eða hönnun hennar að öðru leyti. Verður því að telja að kæran hafi borist innan kærufrests.

Það er skilyrði kæruaðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda viðkomandi ákvörðun nema að lög mæli sérstaklega á annan veg, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Er það í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklega lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í máli þessu bera kærendur fyrir sig málsástæður er lúta að verndun byggðamynsturs og götumyndar, sem telja verður almenna hagsmuni sem skipulagsyfirvöld í hverju sveitarfélagi gæta í skjóli skipulagsvalds. Geta kærendur ekki byggt aðild sína í máli þessu á slíkum hagsmunum. Kemur þá til álita hvort umdeild viðbygging geti snert grenndarhagsmuni kærenda, svo sem vegna skuggavarps. Með hliðsjón af staðháttum og staðsetningu viðbyggingarinnar og umfangs verður ekki séð að hún geti snert hagsmuni annarra kærenda en eigenda og íbúa að Grettisgötu 39, 39b, og 43a. Verður kröfum annarra kærenda í máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Í gildandi deiliskipulagi viðkomandi svæðis eru heimilaðar viðbyggingar við nokkur hús á skipulagsreitnum og eru byggingarreitir markaðir á skipulagsuppdrætti fyrir þær byggingar, m.a. á lóðinni Grettisgötu 41. Má ráða af merkingu á uppdrættinum að lengd heimilaðrar viðbyggingar til norðurs sé 6 m en breidd byggingarreitsins sé sú sama og breidd núverandi húss. Í deiliskipulaginu er heimilað nýtingarhlutfall nefndrar lóðar 0,65. Samkvæmt samþykktum byggingarteikningum verður brúttógólfflatarmál byggingar á lóðinni eftir heimilaða stækkun 230,4 m². Umrædd lóð er 292,3 m² og verður nýtingarhlutfall hennar því 0,78 ef byggt væri samkvæmt samþykktum teikningum. Er hið kærða byggingarleyfi því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem krafa er gerð um í 11. gr. og 1. tl. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Ber af þeim sökum að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda við Grettisgötu 26, 28b, 29, 35, 35b, 36, 37, 42 og 45 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss að Grettisgötu 41 í Reykjavík og staðsteyptri tveggja hæða viðbyggingu.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________        ______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

58/2014 Reykjavíkurflugvöllur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2014, kæra á nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sem auglýst var í B-deild Stjórnatíðinda 6. júní 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2014, er barst nefndinni 4. s.m., kærir eigandi skýlis 35F í Fluggörðum, Reykjavík, nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var í borgarstjórn 1. apríl 2014 og auglýst  í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní s.á. Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi.

Með fimm bréfum, dags. 3. og 4. júlí 2014, er bárust nefndinni 4. og 7. s.m., kæra eigendur skýlis 21 í Fluggörðum, Reykjavík, skýlis 31B, skýlis 31D, skýlis 35A, skýlis 33C, og Guðjón Ármannsson hrl., f.h. áðurnefndra kærenda og eigenda skýla 21, 31B, 31D, 33C, 35A og 35F, auk eigenda og/eða umráðamanna skýla 22A, 22B, 24, 25, 26, 27C, 27E, 28A, 28C, 28D, 28E, 29C, 29D, 29E, 30B, 30E, 31A, 31C, 33A, 33D, 33E, 33F, 34C, 34E, 35B, 35C, 35D, 35E og 36, sem öll eru á sama stað, sömu ákvörðun með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærurnar lúta allar að sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða greind kærumál, sem eru nr. 59/2014, 60/2014, 63/2014, 64/2014 og 67/2014, sameinuð kærumáli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 14. júlí 2014, og í nóvember og desember 2015.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 18. desember 2013 var lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. Samþykkt var að auglýsa tillöguna samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 19. s.m. Tillagan var auglýst frá 23. s.m. til og með 3. febrúar 2014 og bárust athugasemdir við hina kynntu tillögu.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 26. mars 2014 var lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um innsendar athugasemdir, dags. 10. s.m. Var deiliskipulagstillagan samþykkt með vísan til umsagnarinnar. Málið var tekið fyrir á fundi borgarráðs 27. s.m. og samþykkt. Var málinu síðan vísað til staðfestingar borgarstjórnar með vísan til 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. Á fundi borgarstjórnar 1. apríl 2014 var lögð fram fundargerð borgarráðs frá 27. mars 2014 og var 17. liður hennar, tillaga að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar, samþykktur.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2014, var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar, sbr. 42. gr. skipulagslaga. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 28. s.m., kom fram að um væri að ræða endurskoðun á gildandi deiliskipulagi, með síðari breytingum, en upphaflegt deiliskipulag hefði verið samþykkt árið 1986. Með endurskoðuninni væri skipulagssvæði flugvallarins minnkað og nokkur svæði yrðu því utan hinnar nýju afmörkunar án þess að grein væri gerð fyrir skipulagslegri stöðu þeirra eftir breytinguna. Fram kæmi í auglýsingu á tillögunni að gildandi deiliskipulag flugvallarins, með síðari breytingum, m.a. frá 1999, félli úr gildi við gildistöku þessa deiliskipulags. Skipulagsstofnun teldi að ekki væri hægt að fella úr gildi deiliskipulag fyrir lóð eða svæði sem þegar væri byggt samkvæmt skipulaginu án þess að nýtt skipulag kæmi í staðinn. Stofnunin teldi því að upphaflegt deiliskipulag frá 1986, með síðari breytingum, gilti enn fyrir þau svæði sem yrðu utan marka hins nýja deiliskipulags. Reykjavíkurborg þyrfti að útskýra hvernig gerð yrði grein fyrir skipulagi þessara svæða áður en Skipulagsstofnun tæki afstöðu til deiliskipulagsins.

Með bréfi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, dags. 13. maí 2014, var deiliskipulagsuppdráttur sendur Skipulagsstofnun að nýju til yfirferðar. Í bréfinu var gerð grein fyrir breytingum sem gerðar hefðu verið í samræmi við ábendingar Skipulagsstofnunar. Var meðal annars tekinn út texti um að deiliskipulag fyrir flugvöllinn, sem samþykkt hefði verið 15. júní 1999, og breytingar og skilmálar vegna flugvallarsvæðisins féllu úr gildi við gildistöku þessa skipulags. Þá var ákveðið að deiliskipulagið frá 1986, með síðari breytingum, skyldi gilda áfram fyrir svæði í kringum lóð Loftleiðahótels og hluta af Litla Skerjafirði þar til annað deiliskipulag yrði unnið fyrir þessi svæði. Texta um afmörkun deiliskipulagssvæðisins var jafnframt breytt til samræmis við framangreint.

Með bréfi, dags. 26. maí 2014, sendi Reykjavíkurborg Skipulagsstofnun minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. s.m., bréf frá Isavia, dags. 23. apríl s.á., bréf skipulagsfulltrúa til Isavia, dags. 20. maí 2014, og leiðrétta umsögn um athugasemdir sem bárust við auglýsingu deiliskipulagsins. Ástæða þess að umsögnin var leiðrétt var sú að í áðurnefndu bréfi Isavia voru gerðar athugasemdir við efni hennar. Í áðurnefndu minnisblaði, dags. 20. maí 2014, var greint frá meginefni fyrrgreindra bréfa, auk þess sem upplýst var um breytingar á umsögninni.

Í nefndu bréfi Isavia frá 23. apríl 2014 var athygli vakin á staðreyndavillum í umsögninni, nánar tiltekið í svörum við liðum 1c og 1d á blaðsíðu 3, og þess óskað að þær yrðu leiðréttar. Því var lýst að í svari við lið 1c segði: „Samkvæmt niðurstöðu áhættumatsnefndar Isavia „nothæfisstuðull fyrir sjúkraflugvélar á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli“ er stuðullinn fyrir tvær flugbrautir í Reykjavík og tvær í Keflavík fyrir sjúkraflugvélar af tegundinni [Beechcraft] King Air 200 samanlagt 99,5% fyrir allt árið…“ Í svarinu hafi ranglega verið vísað til „áhættumatsnefndar Isavia“ með tilvísun í bréf forstjóra Isavia til innanríkisráðherra í desember 2013, sem hafi falið í sér ábendingu um nothæfisstuðul fyrir sjúkraflugvélar miðað við ákveðnar forsendur, m.a. tvær flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli og tvær á Keflavíkurflugvelli til vara. Áhættumat og nothæfisstuðull séu tveir óskyldir þættir sem þarna hafi verið blandað saman. Segja megi að nothæfisstuðull sé þjónustustig flugvallar en áhættumat sé mat á áhrifum breytinga og lúti fyrst og fremst að mati á öryggi. Áhættumat sé alveg óháð notkunarstuðli þótt stuðullinn geti skipt máli við áhættumat. Unnið sé að gerð áhættumats vegna fyrirhugaðrar lokunar NA/SV-flugbrautar Reykjavíkurflugvallar, sem sent verði Samgöngustofu er taka muni afstöðu til niðurstöðunnar. Réttara væri að segja: „Samkvæmt ábendingu Isavia til innanríkisráðherra er nothæfisstuðull fyrir tvær flugbrautir í Reykjavík og tvær í Keflavík…“ Þá var á það bent að í svari við lið 1d í umsögninni segði: „Stefna um þessa þætti flugstarfseminnar í Vatnsmýri rímar einnig við áform um lokun NA-SV brautar sem hefur verið mikið notuð fyrir æfinga- og kennsluflug á undanförnum áratugum.“ Hér væri ranglega fullyrt að umrædd flugbraut hefði verið mikið notuð fyrir æfinga- og kennsluflug. Staðreyndin væri sú að notkun hennar í þessu skyni hefði ekki verið meiri en annarra flugbrauta á undanförnum áratugum og miklu minni eftir að notkun hennar hefði eingöngu verið miðuð við lendingar í hvössum vindi. Lagt væri til að umrædd setning yrði felld út úr málsgreininni.

Í bréfi Skipulagsstofnunar til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 4. júní 2014, var tiltekið að Isavia hefði gert athugasemdir við tvö atriði í umsögnum Reykjavíkurborgar um athugasemdir sem borist hefðu við auglýsta deiliskipulagstillögu. Reykjavíkurborg hefði leiðrétt þessi atriði. Skipulagsstofnun hefði farið yfir innsend gögn og teldi að Reykjavíkurborg hefði brugðist við ábendingum stofnunarinnar frá 28. apríl 2014. Stofnunin gerði því ekki athugasemd við að Reykjavíkurborg auglýsti samþykkt deiliskipulagsins. Tók deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2014.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að við gerð hins kærða deiliskipulags hafi ekkert samráð verið haft við hagsmunaaðila á Fluggarðasvæðinu, eins og skylt væri samkvæmt 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, þrátt fyrir að skipulagið mæli öðrum þræði fyrir um að leggja skuli Fluggarða niður strax á árinu 2015. Einungis einum aðila Fluggarðasvæðisins hafi verið boðið á hagsmunaaðilakynningu 10. desember 2013. Forsvarsmaður ByggáBIRK, hagsmunafélags eigenda einkabygginga á Reykjavíkurflugvelli, hafi frétt af fundinum og þurft að beita sér sérstaklega til að fá að senda fulltrúa á hann. Byggingar á Fluggarðasvæðinu séu í eigu 63 einstaklinga og lögaðila. Með vísan til ákvæða skipulagsreglugerðar um samráðsskyldu og með tilliti til þess að um veruleg áhrif á hagsmuni fasteignareigenda á svæðinu sé að ræða, hafi Reykjavíkurborg borið að hafa virkt samráð við þá. Skylda borgarinnar til að hafa samráð við hagsmunaaðila sé enn ríkari en ella þar sem deiliskipulagstillagan miði að eignaupptöku og vegi að eignarréttindum sem varin séu af ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Deiliskipulagið mæli meðal annars fyrir um niðurrif flugskólabyggingar við Þorragötu 21. Reykjavíkurborg hafi ekki þinglýsta eignarheimild á umræddu svæði og geti því ekki talist eigandi þess. Borgin hafi því engan rétt til eignaupptöku á svæðinu.

Mótsagna gæti í hinu kærða deiliskipulagi. Á deiliskipulagsuppdrætti komi eftirfarandi fram: „Fluggarðar við Njarðargötu verða innan skipulagssvæðisins þar til gert er ráð fyrir að flugvallarstarfsemi sé víkjandi á svæði Fluggarðanna samkvæmt aðalskipulagi. Ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á því svæði í þessu deiliskipulagi.“ Á skipulagsuppdrætti séu öll mannvirki í Fluggörðum merkt með brúnum lit, sem auðkenna eigi „núverandi byggingar samkvæmt landupplýsingakerfi Reykjavíkur“. Þótt ekki sé gert ráð fyrir breytingum á Fluggarðasvæðinu hafi verið settur inn texti á grunnmynd á uppdrættinum þar sem segi: „Fluggarðar notkun (FV) 2013-2015“. Þar sé vísað til stefnu í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og jafnframt dregin rauð punktalína þétt utan um Fluggarðasvæðið með skýringum: „Framtíðar mörk öryggisgirðingar“ og „Öryggisgirðing eftir niðurlögn Fluggarða“. Samkvæmt framansögðu sé í öðru orðinu sagt að ekki sé gert ráð fyrir neinum breytingum á Fluggarðasvæðinu en í hinu orðinu sé mælt fyrir um að Fluggarða skuli leggja niður og að þeir skuli settir utan öryggisgirðingar. Þessi óskýrleiki deiliskipulagsins sé ótvírætt brot á ákvæði gr. 5.5.2. í skipulagsreglugerð en þar segi að skilmálar skuli vera skýrir og greinargóðir, sbr. einnig gr. 5.5.3. Þá segi í skilmálum skipulagsins að skipulagsreglur flugvallarins séu til fyllingar deiliskipulaginu og að skipulagsreglurnar, er lúti að flugöryggi, séu víðfeðmari en deiliskipulagið. Byggt sé á því að deiliskipulagið sé beinlínis í andstöðu við skipulagsreglurnar og framangreint orðalag í skilmálum deiliskipulagsins sé því villandi. Deiliskipulagið sé haldið þeim alvarlega ágalla að það geri á engan hátt grein fyrir samspili skipulagsreglna flugvallarins og skilmála deiliskipulagsins.

Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar enda liggi ekki fyrir áhættumat vegna áforma í deiliskipulaginu um niðurlagningu NA/SV-flugbrautar. Lokun hennar virðist að auki til þess fallin að Reykjavíkurflugvöllur uppfylli ekki ákvæði reglugerðar um flugvelli nr. 464/2007. Við gerð deiliskipulags sé þó grundvallaratriði að gætt sé að kröfum annarra laga og reglugerða, sbr. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð. Í gr. 3.1.1. í VI. kafla reglugerðar um flugvelli segi að fjöldi og stefna flugbrauta á flugvelli ætti að vera slíkur að notkunarstuðull flugvallarins sé ekki minni en 95% fyrir flugvélarnar sem flugvöllurinn þjóni. Samkvæmt hollenskri rannsókn frá árinu 2006 muni nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar falla langt undir viðmiðunarmörk verði NA/SV-flugbrautin lögð niður. Að þessu sé ekki vikið í deiliskipulagstillögunni, en Reykjavíkurborg hafi borið að kanna sérstaklega hvort flugvöllurinn án NA/SV-flugbrautar uppfyllti ákvæði reglugerðar nr. 464/2007. Niðurstaða athugunar á flugvallarkostum hafi ekki legið fyrir og samgönguyfirvöld hafi ekki markað stefnu um flutning allrar flugvallarstarfsemi úr Vatnsmýri.

Reykjavíkurflugvöllur sé miðstöð innanlandsflugs á Íslandi jafnframt því að bera uppi æfinga- og kennsluflug. Niðurlagning NA/SV-flugbrautar dragi úr öryggi fyrir flugfarþega, sjúkraflug og alla aðra sem noti flugvöllinn. Vísað sé til a-liðar gr. 1.1. í skipulagsreglugerð þar sem fram komi það markmið reglugerðarinnar að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi sé haft að leiðarljósi.

Að lokum er vísað til þess að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu hafi ekki verið í samræmi við lög, sbr. 41. og 42. gr. skipulagslaga. Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins með bréfi, dags. 28. apríl 2014. Athugasemdir stofnunarinnar hafi ekki komið til umræðu í sveitarstjórn heldur hafi skipulagsfulltrúi breytt skipulagsuppdrættinum og sent Skipulagsstofnun bréf, dags. 13. maí s.á., þar sem upplýst hafi verið um þær lagfæringar sem hafi verið gerðar, ásamt leiðréttum uppdrætti. Með bréfi, dags. 26. s.m., hafi umhverfis- og skipulagssvið svo sent Skipulagsstofnun minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréf frá forstjóra Isavia, dags. 23. apríl s.á., bréf skipulagsfulltrúa til Isavia, dags. 20. maí 2014, og breytta umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. mars s.á. Hið kærða deiliskipulag hafi verið samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 10. mars 2014, eins og hún hafi litið upphaflega út, en umsögnin hafi þá innihaldið staðreyndavillur og rangar fullyrðingar. Skipulagsfulltrúi hafi síðar gert breytingar á umsögninni til samræmis við ábendingar Isavia og sent breytta umsögn til Skipulagsstofnunar, en breytingarnar hafi ekki verið lagðar fram, ræddar og samþykktar í sveitarstjórn áður. Þá hafi áðurnefnd gögn, þ.e. minnisblað skipulagsstjóra, bréf forstjóra Isavia og bréf skipulagsfulltrúa til Isavia, ekki heldur verið lögð fram, rædd eða samþykkt í sveitarstjórn.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er á það bent að málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um sé að ræða endurskoðun á eldra deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll frá 1986. Með deiliskipulaginu sé skipulagssvæði flugvallarins minnkað. Deiliskipulagstillagan hafi verið unnin í samvinnu Reykjavíkurborgar og Isavia á grundvelli samkomulags ríkis og borgar frá 19. apríl og 25. október 2013 og Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030.

Málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar hafi verið samkvæmt 41. gr. skipulagslaga. Allar meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og því hafi Reykjavíkurborg ekki borið skylda til að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu eða halda kynningarfund, sbr. 40. gr. skipulagslaga. Engu að síður hafi verið ákveðið að halda kynningarfund með helstu hagsmunaaðilum á flugvellinum 10. desember 2013, þar sem breytingar á deiliskipulaginu hafi verið kynntar. Lengi hafi legið fyrir í aðalskipulagi að starfsemi tengd einkaflugi og flugkennslu væri víkjandi í Vatnsmýrinni og framfylgi hið nýja deiliskipulag einfaldlega þeirri stefnu. Því eigi það ekki að koma á óvart að Fluggarðar séu víkjandi starfsemi í nýju deiliskipulagi. Málsmeðferð deiliskipulagsins og samráð við hagsmunaaðila hafi verið samkvæmt skipulagslögum.

Kærendur hafi vísað til þess að deiliskipulagið sé óskýrt og þversagnakennt. Því til stuðnings virðist þeir vísa í tillögu að deiliskipulagi, en orðalagi hafi verið breytt í hinu samþykkta deiliskipulagi. Nú segi þar: „Fluggarðar við Njarðargötu verða innan skipulagssvæðisins þar til gert er ráð fyrir að flugvallarstarfsemi sé víkjandi á svæði Fluggarðanna samkvæmt aðalskipulagi. Ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu.“ Engin uppbygging muni því eiga sér stað á Fluggörðunum á meðan þeir séu innan skipulagssvæðisins. Reykjavíkurborg telji deiliskipulagið uppfylla kröfur gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð og að ekki gæti mótsagna í skipulaginu.

Hvað varði heimild til niðurrifs flugskólabyggingar við Þorragötu 21 sé vísað til þess að í aðalskipulagi hafi lengi verið ráðgert að æfinga- og kennsluflug og öll starfsemi sem því tengdist viki af flugvellinum fyrr en síðar. Því ætti ekki að koma á óvart að í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að rífa megi bygginguna við Þorragötu 21, þar sem sú starfsemi sem þar fari fram sé víkjandi, líkt og Fluggarðar. Stefnan um þessa þætti flugstarfseminnar í Vatnsmýri rími einnig við áform um lokun NA/SV-flugbrautar, sem hafi verið mikið notuð fyrir æfinga- og kennsluflug undanfarna áratugi. Tímasett markmið aðalskipulags beinist hins vegar fyrst og fremst að breyttri landnotkun á Fluggarðasvæðinu og sé deiliskipulagið í samræmi við það markmið. Samkvæmt sjálfsákvörðunar- og skipulagsvaldi sveitarfélaga geti deiliskipulag lagt á kvöð um niðurrif húsa. Deiliskipulag mæli fyrir um byggingarheimildir og byggðarþróun en taki ekki afstöðu til eignarréttinda. Valdi skipulagsákvörðun tjóni á gildum eignarheimildum reiknist bætur samkvæmt 51. gr. skipulagslaga að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins.

Í reglugerð nr. 464/2007 um flugvelli sé ekki fjallað um gerð áhættumats, hvaða þætti eigi að leggja mat á eða framkvæmd matsins. Ekki komi þar heldur fram hvort framkvæma eigi áhættumat fyrir eða eftir samþykkt deiliskipulags. Hins vegar sé vakin athygli á því að ef framkvæma eigi áhættumat fyrir samþykkt deiliskipulags geti neikvæð niðurstaða slíks mats sett deiliskipulag í uppnám. Með þeirri niðurstöðu væri í raun búið að flytja skipulagsvald yfir til rekstraraðila flugvalla, sem gætu hindrað samþykkt deiliskipulags. Það myndi ganga gegn sjálfsákvörðunarrétti og skipulagsvaldi sveitarfélaga, sem tryggt sé í stjórnarskrá og skipulagslögum. Í 25. gr. reglugerðarinnar sé ekki kveðið á um það hver eigi að eiga frumkvæði að gerð áhættumats, en með vísan til 7., 16. og 22. gr. hennar megi álykta að það sé handhafi rekstrar- og flugvallarskírteinis sem hlutast skuli til um það.

Innanríkisráðuneytið hafi fengið Isavia til að skoða afleiðingar lokunar NA/SV-flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Í bréfi Isavia til ráðuneytisins, dags. 13. desember 2013, hafi komið fram að samkvæmt athugun Veðurstofu Íslands væri nothæfisstuðull fyrir sjúkraflugvélar á Reykjavíkurflugvelli, ef miðað væri við tvær flugbrautir í Reykjavík ásamt óbreyttu flugbrautakerfi í Keflavík, umtalsvert hærri en ef miðað væri við Reykjavíkurflugvöll í núverandi mynd með þremur flugbrautum, eða 99,5%, vegið meðaltal yfir árið. Ef eingöngu væri miðað við lokun NA/SV-flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli yrði notkunarstuðull hans 97,5%, vegið meðaltal yfir árið, sem væri yfir lágmarki samkvæmt gr. 3.1.1. í VI. kafla reglugerðar um flugvelli. Samstarf hafi verið með ríki og borg í aðdraganda deiliskipulagsins sem endurspeglist í samkomulagi þeirra frá 19. apríl og 25. október 2013. Í samkomulaginu frá 19. apríl komi eftirfarandi fram: „Að NA/SV flugbrautin verði lögð af og það land sem við það losnar sunnan vallarins verði skipulagt undir blandaða byggð. Innanríkisráðuneytið auglýsi lokun flugbrautar samhliða auglýsingu deiliskipulags nýrrar flugstöðvar.“ Því sé vísað á bug að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar eða ákvæðum reglugerðar um flugvelli.

Í viðbótargreinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að hið kærða deiliskipulag hafi verið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 28. apríl 2014, hafi ekki verið gerðar athugasemdir heldur einungis óskað eftir leiðréttingum á texta í greinargerð á deiliskipulagsuppdrætti, en gera þyrfti betur grein fyrir skipulagslegri stöðu svæða sem áður hefðu verið innan deiliskipulagsins en væru felld út með nýja deiliskipulaginu. Athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi ekki lotið að form- eða efnisgöllum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, heldur hafi stofnunin einungis óskað eftir betri skýringum frá Reykjavíkurborg á framangreindum atriðum. Því hafi hvorki þurft né verið skylt að fara aftur með málið fyrir borgarráð til samþykktar, en tekið væri fram í nefndu bréfi að ekki yrði tekin afstaða til erindisins fyrr en skýringar lægju fyrir.

Í bréfi Isavia, dags. 23. apríl 2014, hafi aðeins verið gerðar athugasemdir við villur í umsögn um innsendar athugasemdir, dags. 10. mars 2014, sem send hafi verið þeim sem gerðu athugasemdir, en ekki hafi verið gerðar athugasemdir við hina auglýstu deiliskipulagstillögu. Þar að auki hafi bréf Isavia borist 15. maí 2014, eða tveimur mánuðum eftir að lögbundinn athugasemdafrestur hafi runnið út.

Í minnisblaði skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, komi fram að skipulagsfulltrúi hefði ritað bréf til forstjóra Isavia sama dag, þar sem þakkað hefði verið fyrir ábendingarnar er vörðuðu villur í umsögn embættisins. Umsögn skipulagsfulltrúa hafi svo verið leiðrétt til samræmis við ábendingar Isavia og með bréfi, dags. 26. maí 2014, hafi hún verið send Skipulagsstofnun til yfirferðar, sbr. 42. gr. skipulagslaga, ásamt minnisblaði skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréfi frá Isavia, dags. 23. apríl s.á, og bréfi skipulagsfulltrúa til Isavia, dags. 20. maí s.á. Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2014, komi fram að Isavia hafi gert athugasemdir við tvö atriði í umsögn Reykjavíkurborgar um athugasemdir sem borist hafi við auglýsta tillögu og að Reykjavíkurborg hafi leiðrétt þessi atriði. Skipulagsstofnun hafi farið yfir innsend gögn og talið að Reykjavíkurborg hefði brugðist við ábendingum stofnunarinnar frá 28. apríl 2014. Stofnunin hafi ekki gert athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.

Minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, og bréf Isavia, dags. 23. apríl 2014, hafi verið lögð fram til kynningar á fundi borgarráðs 5. júní 2014, ásamt deiliskipulagi Hlíðarenda, en deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar hafi verið samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014 og málinu því lokið af hálfu borgarinnar. Bréfin hafi af þeim sökum verið lögð fram til kynningar með deiliskipulagi Hlíðarenda, þar sem staða flugvallarins hafi m.a. verið mikið til umræðu. Ekki verði séð að lagðar hafi verið fram athugasemdir eða bókanir vegna þessa.

Að lokum er ítrekað að ábendingar Skipulagsstofnunar í bréfi, dags. 28. apríl 2014, hafi ekki verið á þá leið að nauðsynlegt hafi verið að leggja bréf stofnunarinnar fram til samþykktar, hvorki í umhverfis- og skipulagsráði né borgarráði, enda hafi ekki verið um að ræða athugasemdir sem vörðuðu form- eða efnisgalla, sbr. 42. gr. skipulagslaga, heldur einungis ósk um ítarlegri skýringar á skipulagslegri stöðu svæða sem féllu utan deiliskipulagsins en hefðu verið innan þess í eldra skipulagi flugvallarins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi nýs deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar og ber málatilbúnaður kærenda með sér að fyrst og fremst standi ágreiningur um þá ráðagerð borgaryfirvalda að aðstaða þeirra fyrir einkaflugsstarfsemi í svonefndum Fluggörðum á skipulagssvæðinu eigi að víkja.

Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur liggja fyrir allar meginforsendur hins kærða deiliskipulags, svo sem að einkaflugsstarfsemi á svæðinu skuli víkja. Var borgaryfirvöldum því heimilt að falla frá gerð lýsingar á skipulagsverkefninu samkvæmt 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og kynningu tillögunnar fyrir íbúum sveitarfélagsins og hagsmunaaðilum, sbr. 3. mgr. 40. gr. laganna. Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar í samræmi við 41. gr. skipulagslaga og bárust athugasemdir við tillöguna. Að kynningu lokinni var málið til meðferðar hjá umhverfis- og skipulagsráði. Samþykkti ráðið deiliskipulagstillöguna með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagssviðs frá 10. mars 2014, sem hafði að geyma svör við fram komnum athugasemdum. Var sú afgreiðsla samþykkt í borgarráði 27. mars 2014 og staðfest í borgarstjórn hinn 1. apríl s.á. Þess skal getið í tilefni af málatilbúnaði kærenda að ákvörðun um deiliskipulag felur ekki í sér ráðstöfun á beinum eða óbeinum eignarréttindum, en standi slík réttindi í vegi fyrir framkvæmd skipulags getur komið til eignarnáms skv. 50. gr. skipulagslaga eða eftir atvikum til greiðslu bóta í samræmi við 51. gr. laganna. Slík álitaefni heyra ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum undir dómstóla.

Eins og rakið er í málavöxtum voru gerðar breytingar á texta í greinargerð á hinum samþykkta skipulagsuppdrætti og fyrrgreindri umsögn skipulagssviðs, sem umhverfis- og skipulagsráð skírskotaði til við afgreiðslu málsins. Greindar breytingar á skipulagsuppdrætti voru gerðar vegna fyrirspurnar Skipulagsstofnunar í bréfi, dags. 28. apríl 2014. Þá var og breytt umsögn skipulagssviðs í tilefni af ábendingum Isavia, dags. 23. s.m. Voru þessar breytingar allar gerðar eftir lokaafgreiðslu borgarstjórnar á deiliskipulagstillögunni hinn 1. apríl 2014.

Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Eðli máls samkvæmt verður það stjórnvald sem tók upprunalega ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds síns sjálft að standa að breytingum á henni og er það einnig í samræmi við ákvæði VI. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um afturköllun ákvörðunar o.fl. Ekki liggur fyrir að borgarráð eða borgarstjórn hafi tekið málið til umfjöllunar eftir nefndar breytingar og tekið afstöðu til þeirra, en skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga ber sveitarstjórn að taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á skipulagstillögu. Í því sambandi skal áréttað að breytingar þær sem gerðar voru á áðurgreindri umsögn umhverfis- og skipulagssviðs eftir afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar í borgarstjórn lutu að svörum við fram komnum athugasemdum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem títtnefndar breytingar gátu haft áhrif á afgreiðslu málsins, verður að telja að hið kærða deiliskipulag, sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. júní 2014, sé haldið slíkum annmörkum að fella beri það úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hið kærða deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar, er tók gildi með auglýsingu nr. 539/2014 í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2014, er fellt úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                           Ásgeir Magnússon

_____________________________             ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                               Þorsteinn Þorsteinsson