Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

112/2014 Markavegur

Árið 2016, miðvikudaginn 30. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 112/2014, kæra á synjun Kópavogsbæjar frá 19. september 2014 um að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla á lóðinni nr. 1 við Markaveg, sem og að fjarlægja jarðvegstipp á lóð nr. 2 við Markaveg í Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra lóðarhafar Markavegar 1, Kópavogi, þá ákvörðun Kópavogsbæjar frá 19. september 2014 um að hafna því að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla á lóðinni nr. 1 við Markaveg og jarðvegstipp á lóð nr. 2 við Markaveg í Kópavogi. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að fjarlægja umræddan rafmagnskassa, háspennustrengi, spindla og jarðvegstipp.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 13. nóvember 2014 og í mars 2016.

Málavextir: Árið 2008 fengu kærendur úthlutað hesthúsalóð að Markavegi 1, á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir Kjóavelli, hesthúsahverfi. Með bréfum kærenda til bæjarstjóra Kópavogs, dags. 1. ágúst 2014, var farið fram á að Kópavogsbær fjarlægði rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla af lóð kærenda og að bærinn hætti að nota lóðina að Markavegi 2-3 sem jarðvegstipp. Gerð var krafa um að sveitarfélagið yrði við nefndum kröfum eigi síðar en 19. september s.á., ella yrði litið svo á að Kópavogsbær hefði synjað erindunum. Mun sveitarfélagið ekki hafa orðið við kröfum kærenda.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að Kópavogsbær hafi brotið gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og mannvirkjalaga nr. 160/2010. Fari umrætt ástand og ákvarðanir bæjarins um athafnaleysi gegn eignarréttindum kærenda, sbr. 72. gr. stjórnarskrár.

Eftir að kærendur hafi fengið lóðinni úthlutað hafi deiliskipulagi fyrir umrætt svæði verið breytt, lóð þeirra snúið um 90° og hesthús á lóðinni fært í norðurenda hennar. Hafi kærendur aldrei verið upplýstir um fyrirhugaðar breytingar eða verið leitað eftir sjónarmiðum þeirra, eins og borið hafi að gera lögum samkvæmt. Samkvæmt eldra skipulagi hafi rafmagnskassi staðið við suðausturhorn húss á lóðinni. Eftir breytingu sé hann sex metra inn á lóðinni sunnanverðri. Á mæliblaði sem afhent hafi verið áður en umrætt hús hafi verið teiknað hafi engin merki verið um rafmagnskassa á lóðinni og engin kvöð tilgreind.

Þegar kærendur hafi fengið lóð sína afhenta hafi legið í henni háspennustrengir sem ekki hafi verið upplýst um. Geti þeir verið hættulegir mönnum og dýrum. Ekki sé hægt að girða lóðina og nýta hana til fulls með eðlilegum hætti. Í sunnanverðri lóðinni liggi vatnslagnir frá austri til vesturs og standi spindlar vegna þeirra upp úr jarðveginum. Sé af þeim sjónmengun. Nefndur rafmagnskassi, lagnir og spindlar hindri afnot kærenda að lóð sinni og minnki gæði hennar og verðmæti.

Kvaðir ofangreinds efnis hafi verið settar í deiliskipulag löngu eftir afhendingu greindrar lóðar og smíði hesthúss á henni eða í maí 2012. Séu rafmagnskassinn og lagnirnar skipulagskvöð, sbr. 20. tl. 2. gr. skipulagslaga en kvaðir og staðsetningar lagna skuli koma fram á lóðarblöðum, sbr. 1.3. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Þau séu gefin út af stjórnvöldum og megi borgarar teysta slíkum opinberum skjölum. Hafi kærendur mátt ganga út frá því að engar kvaðir væru til staðar á lóðinni. Verði þeim ekki gert að bera hallan af „mistökum“ Kópavogsbæjar. Þá sé ekki hægt að íþyngja kærendum með afturvirkri breytingu á lóðarkvöðum.

Í aðalskipulagi sé lóðin að Markavegi 2-3 skipulögð sem hesthúsalóð og svo sé einnig í deiliskipulagi fyrir Kjóavelli. Engin ákvörðun virðist liggja fyrir um að umrædd lóð skuli gerð að jarðvegstipp. Verði að gera þá kröfu að Kópavogsbær fari eftir skipulagi og haldi umhverfi lóða snyrtilegu. Skuli hér sérstaklega bent á 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga og 1. og 2. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Hafi kærendur ekki getað lokið frágangi við lóð sína vegna þessa. Brjóti hinar kærðu ákvarðanir gegn lögvörðum hagsmunum kærenda um hagkvæma og hnökralausa nýtingu lóðar þeirra. Sé óhagræði kærenda mun meira en þörf bæjarfélagsins á að viðhalda hinu ólögmæta ástandi.

Málsrök Kópavogsbæjar: Sveitarfélagið tekur fram að málsmeðferð við umrædda breytingu á deiliskipulagi hafi verið í fullu samræmi við ákvæði þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1993. Með ítrekuðum auglýsingum hafi verið tryggt að aðilar sem hagmuna ættu að gæta, hefðu tök á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Engar slíkar hafi komið frá kærendum. Þá hafi í bréfi til kærenda, þar sem tilkynnt  hafi verið um úthlutun lóðarinnar, verið tekið fram að úthlutunin væri gerð með fyrirvara um að deiliskipulagi kynni að verða breytt.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir bílastæðum og gangstétt meðfram Markavegi og að hestagerði nái ekki nær götu en 8 m. Umræddur rafmagnskassi sé staðsettur á svæði sem sé utan hestagerðis. Lagnir sem þjóni hesthúsum liggi á þessu svæði og þ.m.t. nefndur rafmagnskassi. Þá sé vakin athygli á kvöð um lagnir á lóðinni í deiliskipulagi og samþykktu mæliblaði, dags. 3. mars 2010. Greindir háspennustrengir liggi undir bílastæði á lóðinni og sé slíkt fyrirkomulag víða. Séu strengirnir utan byggingarreits og gerðis. Þá séu spindlar fyrir utan lóð kærenda. Hafi umrætt svæði ekki enn verið fullklárað en við frágang á því verði jarðvegur við spindlana settur í eðlilega hæð líkt og tíðkist.

Láðst hafi að gera grein fyrir lögnum sem fyrir væru á svæðinu við breytingu á eldra skipulagi fyrir Markaveg 1. Á hinn bóginn séu þær utan byggingarreits og gerðis og hafi engin áhrif á nýtingarmöguleika lóðarinnar og hún því eins að gæðum og ef engar lagnir lægju í jörðu.  Raflagnir liggi t.d. við lóðamörk að vestanverðu og við lóðamörk að sunnanverðu þar sem gildandi skipulag geri ráð fyrir að verði bílastæði.  Rafmagnskassi sé staðsettur við austurenda bílastæða og muni ekki skerða nýtingu lóðarinnar eða hafa að öðru leyti áhrif á hagsmuni lóðarhafa. Þá muni Kópavogsbær hafa forgöngu um að moldarhaugar á lóðinni að Markavegi 2-3 verði fjarlægðir.

Athugasemdir kærenda við greinargerð Kópavogsbæjar: Kærendur árétta sjónarmið sín og telja jafnframt að almennur fyrirvari við úthlutun um að deiliskipulag kunni að breytast geti ekki átt við um jafn stórvægilegar breytingar og gerðar hafi verið. Hafi borið að leita eftir sjónarmiðum kærenda. Sú fullyrðing Kópavogsbæjar um að kvaðir á lóð séu lögmætar og utan hestagerðis sé röng. Augljóst sé að rafmagnskassi hefði ekki verið staðsettur á umræddum stað hefðu lóðir upphaflega snúið á þann hátt sem þær gerðu eftir 90° snúning. Samkvæmt greinargerð með deiliskipulagi hafi hestagerði átt að ná að Markavegi og hafi kærendur átt að geta treyst því þegar þeir hafi keypt lóðina. Sé lóðin ekki í samræmi við væntingar þeirra eða það sem um hafi verið samið.

Niðurstaða: Með bréfum, dags. 1. ágúst 2014, beindu kærendur þeim kröfum til Kópavogsbæjar að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla á lóð þeirra að Markavegi 1, sem og jarðvegstipp á lóðinni að Markavegi 2-3. Kom fram í nefndum erindum að yrði ekkert aðhafst yrði litið svo á að í því fælist ákvörðun sveitarfélagsins um að synja kröfu kærenda. Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ hefur fyrrgreindum erindum kærenda hvorki verið svarað né þau tekin fyrir á fundum hjá sveitarfélaginu.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá er það meginregla stjórnsýsluréttar að hver sá er ber skriflegt erindi undir stjórnvald eigi rétt á skriflegu svari við því. Verður að líta svo á að nefnd erindi kærenda séu óafgreidd, en eins og atvikum er hér háttað verður meint athafnaleysi sveitarfélagsins ekki túlkað sem svo að það feli í sér ákvörðun um synjun á kröfum kærenda. Liggur því ekki fyrir að nein sú ákvörðun hafi verið tekin sem bindur enda á málið, en það er skilyrði þess að það verði borið undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni, enda hefur málið ekki enn verið til lykta leitt.

Þó er rétt að benda á að unnt er að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, en kæra þess efnis liggur ekki fyrir úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir