Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2015 Hringrás

Árið 2016, miðvikudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2015, kæra á ákvörðunum Umhverfisstofnunar um að veita kæranda áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs og að hafna beiðni kæranda um heimild til að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Hringrás hf., Klettagörðum 9, Reykjavík, ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita kæranda áminningu skv. 66. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, þar sem stofnuninni hafi ekki borist magntölur úrgangs frá kæranda. Áminningin var birt kæranda með bréfi, dags. 13. ágúst 2015, og var þar veittur frestur til úrbóta til og með 4. september s.á. Jafnframt er kærð sú ákvörðun Umhverfisstofnunar, sem tilkynnt var kæranda með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. september 2015, að hafna því að veita kæranda heimild til að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, þ.e. annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir Umhverfisstofnunar verði felldar úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 29. október 2015.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 22. september 2015 og 9. mars 2016.

Málsatvik: Kærandi rekur endurvinnslu brotajárns og móttöku spilliefna hérlendis og hefur til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun á grundvelli laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Í  1. mgr. 19. gr. laganna segir m.a. að rekstraraðilar skuli fyrir 1. maí ár hvert skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um þann úrgang sem meðhöndlaður var á undangengnu almanaksári. Skal skýrslan innihalda upplýsingar um tegundir úrgangsins og magn, uppruna og ráðstöfun hverrar tegundar. Skýrslan skal vera á því formi sem Umhverfisstofnun leggur til og vera aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar.

Kærandi afhenti ekki umrædda skýrslu á tilsettum tíma og með bréfi, dags. 12. júní 2015, tilkynnti Umhverfisstofnun honum um áform um áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs. Var honum veittur frestur til 26. s.m. til að bæta úr með afhendingu upplýsinganna eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Kærandi tjáði Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 25. júní 2015, að hann teldi að birting umræddra skýrslna myndi raska viðskiptahagsmunum sínum og valda sér tjóni. Eftir frekari samskipti kæranda og Umhverfisstofnunar var honum veitt áminning vegna vanskila á magntölum úrgangs með bréfi, dags. 13. ágúst 2015. Veitti stofnunin kæranda frest til úrbóta til og með 4. september s.á.

Eftir frekari samskipti kæranda og Umhverfisstofnunar óskaði kærandi eftir því með bréfi, dags. 2. september 2015, að skila inn tveimur skýrslum til Umhverfisstofnunar. Önnur skýrslan átti að vera á því formi sem stofnunin hafði þegar lagt til en hin átti að geyma samandregnar upplýsingar um magntölur úrgangs og vera til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 9. s.m., var beiðni kæranda hafnað. Kærandi hefur kært framangreindar ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður Umhverfisstofnun hafa í áraraðir fengið gögn um söfnun og meðhöndlun úrgangs frá fyrirtækjum sem meðhöndli úrgang og fram til þessa hafi stofnunin og Hagstofa Íslands unnið úr gögnunum heildartölfræði um úrgangsmál fyrir landið. Eftir breytingu á 19. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs hyggist Umhverfisstofnun nú birta gögn frá hverju og einu fyrirtæki á vef sínum. Kærandi telji mikla hagsmuni í húfi fyrir sig, verði þær upplýsingar sem stofnunin óski eftir gerðar opinberar á því formi sem stofnunin hafi lagt til í samræmi við 1. mgr. 19. gr. laganna. Í umræddum skýrslum sé að finna viðkvæmar viðskiptaupplýsingar, sér í lagi hjá kæranda vegna rekstrarforms hans, og gætu samkeppnisaðilar greint rekstur hans með nokkuð nákvæmum hætti yrðu upplýsingarnar gerðar opinberar á því formi sem Umhverfisstofnun krefjist.

Umhverfisstofnun beri að meta hagsmuni þá sem í húfi séu við beitingu viðkomandi lagaákvæðis og ganga ekki lengra en þörf krefji til að þjóna markmiðum þeim sem að sé stefnt með reglunni. Birting umræddra gagna geti skaðað hagsmuni fyrirtækja á samkeppnismarkaði og gangi fortakslaus beiting ákvæðisins gegn grundvallarreglum íslensks réttar um atvinnufrelsi, jafnræði og meðalhóf. Það þjóni ekki hagsmunum almennings eða umhverfis að birta nákvæmar viðskiptaupplýsingar fyrirtækisins og Umhverfisstofnun gæti ákveðið að túlka skyldu skv. 19. gr. með vægari hætti, t.d. með því að fallast á tillögu kæranda um það hvernig upplýsingarnar verði birtar, þ.e. með samandregnum upplýsingum og tölfræði um magntölur úrgangs.

Hafnað sé þeim málsrökum Umhverfisstofnunar að jafnræði á milli aðila væri raskað ef stofnunin féllist á að birta umræddar upplýsingar á því formi sem kærandi leggi til, enda hafi ekki verið birtar neinar skýrslur á heimasíðu stofnunarinnar. Væri einfalt mál að gefa öðrum aðilum einnig færi á að skila skýrslum inn á umræddu tvöföldu formi.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að það komi skýrt fram í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs að rekstraraðilar skuli fyrir 1. maí ár hvert skila til stofnunarinnar skýrslu um úrgang sem meðhöndlaður hafi verið á undangengnu almanaksári. Jafnframt sé ljóst samkvæmt ákvæðinu að skýrslan skuli vera á því formi sem Umhverfisstofnun leggi til. Tilgangur nefndrar skýrslugjafar sé að safna tölfræðiupplýsingum og beri stofnuninni að safna viðkomandi upplýsingum og senda áfram í samræmi við skyldur Íslands samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna.

Einnig sé skýrt kveðið á um það í 1. mgr. 19. gr. að áðurnefndar skýrslur skuli vera aðgengilegar á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Hafi stofnunin ekki svigrúm til að víkja frá svo skýru lagaboði með því að heimila takmarkaða birtingu skýrslnanna. Vakin sé sérstök athygli á því að stofnunin óski einungis eftir upplýsingum um þann úrgang sem rekstraraðili endurvinni, endurnýti, fargi sjálfur eða flytji úr landi til meðhöndlunar. Hvorki sé óskað eftir upplýsingum um þann úrgang sem rekstraraðili sendi til meðhöndlunar hjá öðrum aðilum innanlands né að í skýrslunni komi fram heildarmagn þess úrgangs sem rekstraraðili hafi tekið  við. Einungis sé um upplýsingar að ræða sem nauðsynlegar séu til að uppfylla kröfur um gögn sem íslenskum stjórnvöldum beri að standa skil á gagnvart framangreindum erlendum stofnunum.                                                                                                                                                                                                                                                                                                              

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skulu rekstraraðilar skila til Umhverfisstofnunar fyrir 1. maí ár hvert skýrslu um þann úrgang sem meðhöndlaður var á undangengnu almanaksári. Skal skýrslan innihalda upplýsingar um tegundir úrgangsins og magn, uppruna og ráðstöfun hverrar tegundar. Segir einnig að skýrslan skuli vera á því formi sem Umhverfisstofnun leggi til. Í 6. málsl. 1. mgr. segir loks að skýrslurnar skuli gerðar aðgengilegar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Af orðalagi ákvæðisins má ráða að rekstraraðilar beri fortakslausa skyldu til að skila umræddum upplýsingum og að skylt sé að hafa þær á því formi sem Umhverfisstofnun leggur til. Engar frekari leiðbeiningar liggja fyrir um hvernig formið skuli vera. Ákvörðunarvald þar um liggur því alfarið hjá stofnuninni, þó með þeim fyrirvara að gætt sé almennra reglna stjórnsýsluréttarins við þá ákvarðanatöku, t.a.m. með því að ganga ekki lengra í kröfum sem gerðar eru til rekstaraðila um upplýsingagjöf en nauðsyn ber til.

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að rekstraraðilar skuli nota tiltekið form þar sem er krafist upplýsinga um alls 72 úrgangsflokka, magn í tonnum og aðferð við endurvinnslu, endurnýtingu og förgun í hverjum flokki. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá stofnuninni er formið byggt upp með það að leiðarljósi að safna einungis þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru fyrir tölfræðiúrvinnslu og upplýsingagjöf samkvæmt alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Hefur stofnunin lagt fram gögn þessu til staðfestingar. Að teknu tilliti til þessa og afdráttarlauss orðalags áðurnefndrar 1. mgr. 19. gr. laga nr. 55/2003 verður ekki annað séð en að sú leið sem Umhverfisstofnun hefur valið við upplýsingasöfnun og form skýrslu sé í samræmi við nefnt lagaákvæði. Þá kemur skýrt fram í nefndri 1. mgr. 19. gr. laganna að skýrsla sem birt skuli á heimasíðu Umhverfisstofnunar sé sú skýrsla sem rekstraraðili skilar inn á áðurnefndu formi. Var stofnuninni því rétt að hafna beiðni kæranda um heimild til að skila inn tveimur skýrslum í stað einnar.

Samkvæmt því sem að framan greinir bar kæranda að skila til Umhverfisstofnunar skýrslu með upplýsingum um þann úrgang sem meðhöndlaður var af honum á undangengnu almanaksári fyrir 1. maí 2015, en það var ekki gert. Í 2. mgr., sbr. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 55/2003 er kveðið á um heimild Umhverfisstofnunar til að veita aðila áminningu til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og skal jafnframt veita hæfilegan frest til úrbóta. Með bréfi, dags. 12. júní 2015, voru kæranda kynnt áform um áminningu vegna vanskila á umræddum upplýsingum og gefinn frestur til 26. s.m. til að bæta úr eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ákvörðun um áminningu var tekin 13. ágúst s.á. Telja verður að með þessu hafi verið gætt andmælaréttar kæranda og hann fengið rúman tíma til úrbóta áður en gripið var til þvingunarúrræða samkvæmt greindu lagaákvæði.

Að öllu framangreindu virtu þykja hinar kærðu ákvarðanir ekki haldnar neinum þeim annmörkum sem raskað geta gildi þeirra og verður kröfu um ógildingu þeirra af þeim sökum hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar sem tilkynnt var með bréfi, dags. 13. ágúst 2015, um að veita kæranda áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs. Jafnframt er hafnað kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar Umhverfisstofnunar að hafna beiðni kæranda um heimild til að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar. 

_______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir