Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2016 Hlíðarendi í Vatnsmýri

Árið 2016, miðvikudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2016, kæra á samþykktum borgarstjórnar Reykjavíkur frá 2. desember 2014 og 17. febrúar 2015 um breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda í Vatnsmýri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Flugfélag Íslands ehf. og Icelandair ehf. samþykktir borgarstjórnar Reykjavíkur frá 2. desember 2014 og 17. febrúar 2015 um breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda í Vatnsmýri. Tóku hinar kærðu deiliskipulagsbreytingar gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. janúar og 15. maí 2015. Gera kærendur þá kröfu að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Mýflug hf. fyrrgreinda deiliskipulagsbreytingu er tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. maí 2015 og gerir þá kröfu að umrætt deiliskipulag verði fellt úr gildi. Þar sem málatilbúnaður kærenda er á sömu lund verður greint kærumál, sem er nr. 7/2016, sameinað kærumáli þessu.

Málsatvik og rök:
Hinn 30. apríl 2014 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu að breytingum á deiliskipulagi Hlíðarenda í Vatnsmýri frá árinu 2007. Fól tillagan m.a. í sér aukningu á íbúðarhúsnæði og breytingu á fermetrafjölda atvinnuhúsnæðis á skipulagssvæðinu. Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu ráðsins 16. júní 2014 og var skipulagstillagan síðan auglýst til kynningar og bárust nokkrar athugasemdir á kynningartíma, m.a. af hálfu kærenda. Urðu lyktir mála þær að breyting á deiliskipulagi Hlíðarenda var samþykkt í borgarstjórn 2. desember 2014 og tók gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2015. Þá var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 28. janúar 2015 samþykkt að auglýsa breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda er lutu m.a. að skilgreiningum kvaða um útbyggingar, svalir og fjölda uppdeildra húseininga. Sú afgreiðsla var samþykkt í borgarstjórn 17. febrúar s.á. og var tillagan auglýst til kynningar. Engar athugasemdir bárust og að kynningu lokinni var málið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 17. apríl 2015 og samþykkt á grundvelli viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar um embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. maí 2015.

Kærendur vísa til þess að deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem gerði ráð fyrir að NA/SV flugbraut vallarins yrði lögð niður hafi fallið úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 58/2014. Deiliskipulag Hlíðarenda byggi á þeirri forsendu og séu m.a. hæðir húsa við það miðaðar. Óhjákvæmilegt sé að fella hið kærða deiliskipulag úr gildi sökum þess að greind forsenda skipulagsins væri brostin. Kærendur hafi mikla hagsmuni af því að flugstarfsemi á Reykjavíkurflugvelli haldi áfram í óbreyttri mynd og að ekki verði dregið úr notagildi flugvallarins með óafturkræfum hætti án þess að um það verði sátt með hagsmunaaðilum og framtíðarlausn sé fundin fyrir innanlandsflug á Íslandi. Umrædd flugbraut hafi nýst í neyðartilfellum, svo sem vegna sjúkraflugs, þegar aðrar flugbrautir vallarins hafi lokast.

Reykjavíkurborg fer fram á að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni sökum þess að eins mánaðar kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn þegar málið barst úrskurðarnefndinni. Málið verði því ekki borið undir nefndina samkvæmt tilvitnuðu ákvæði, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um kærufrest mála sem skotið verður til nefndarinnar. Er hann ákveðinn einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um viðkomandi ákvörðun nema lög þau sem kæranleg ákvörðun byggist á mæli fyrir um annan kærufrest. Þá er og tekið fram að ef um sé að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hinar kærðu ákvarðanir byggjast á skipulagslögum nr. 123/2010 og í lokamálslið 1. mgr. 42. gr. þeirra laga er mælt fyrir um að birta skuli auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og á það einnig við um breytingu á deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Í 52. gr. laganna kemur fram að um aðild, kærufrest og málsmeðferð kærumála samkvæmt þeim lögum fari eftir lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærufrestur vegna hinna kærðu deiliskipulagsbreytinga byrjaði samkvæmt framansögðu að líða hinn 15. janúar 2015 annars vegar og 16. maí s.á. hins vegar, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og lauk að liðnum mánuði frá greindum dagsetningum. Kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni hinn 15. og 17. janúar 2016 eða um sjö og ellefu mánuðum eftir lok kærufrests.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Ógildingarkröfur í máli þessu eru fyrst og fremst reistar á þeirri málsástæðu að með úrskurði um ógildingu deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar sé brostin sú forsenda deiliskipulags Hlíðarenda að SA/NV flugbraut vallarins verði lögð niður. Er því um að ræða atvik sem ekki voru fyrir hendi er hinar kærðu ákvarðanir voru teknar og snerta ekki undirbúning og málsmeðferð þeirra ákvarðana. Breyttar eða brostnar forsendur gildandi deiliskipulags geta eftir atvikum leitt til viðbragða stjórnvalda sem hafa á hendi skipulagsvald á viðkomandi svæði og geta ákvarðanir af því tilefni eftir atvikum verið kæranlegar.
 
Af framangreindum ástæðum þykja undantekningaákvæði 1. og 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sem skýra ber þröngt, ekki eiga hér við og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 1. mgr. 28. gr. nefndra laga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir