Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

106/2015 Hundahald á höfuðborgarsvæðinu

Árið 2016, fimmtudaginn 14. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2015, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 9. október 2015 um að ráðstafa hundinum Neró til nýs eiganda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. nóvember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 9. október 2015 að ráðstafa hundinum Neró til nýs eiganda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 17. desember 2015 og í mars 2016.

Málavextir: Hundurinn Neró var handsamaður 30. september 2015 við Digranesveg í Kópavogi af starfsmanni Heilbrigðiseftirlits Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis. Hundurinn var laus og ómerktur en með örmerki. Kærandi, sem var umráðamaður hundsins, mun hafa hringt í heilbrigðiseftirlitið 1. október s.á. og fengið þær upplýsingar að farið hefði verið með hundinn í hundageymslu að Leirum í Mosfellsbæ. Kærandi sendi heilbrigðiseftirlitinu textaskilaboð 3. s.m. með beiðni um staðfestingu á því að hundurinn væri skráður í Reykjavík, en óskráður hundur fæst ekki leystur úr haldi. Svar barst frá eftirlitinu með textaskilaboðum mánudaginn 5. s.m. þess efnis að hundurinn væri óskráður í Reykjavík og því væri ekki hægt að afhenda hann fyrr en búið væri að skrá hann.

Föstudaginn 9. október tók Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis þá ákvörðun að ráðstafa hundinum til annars eiganda á grundvelli 12. gr. samþykktar um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir.

Hundurinn var skráður í Reykjavík af fyrri eiganda sínum allt þar til Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur var send tilkynning í byrjun apríl 2014 um eigandaskipti á hundinum. Var hundurinn þá afskráður en mun ekki hafa verið skráður á nýjan eiganda. Á þeim tíma mun hundinum hafa verið ráðstafað innan fjölskyldunnar og var hann síðan haldinn á heimili kæranda. Í kjölfar framangreindrar atburðarásar, eða 15. október 2015, fékk kærandi skráð leyfi fyrir honum í Reykjavík og er það leyfi enn í gildi. Kærandi fór fram á að fá hundinn aftur í sínar vörslur með bréfi til Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, dags. 18. október 2015. Með bréfi, dags. 23. s.m., var beiðni hans hafnað.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður hundinn Neró hafa sloppið að heiman 30. september 2015 og hafi hann verið handsamaður fyrir utan Menntaskólann í Kópavogi. Kærandi hafi hringt í lögregluna samdægurs og aftur daginn eftir og hafi þá verið gefið upp símanúmer hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis. Starfsmaður þar hefði tjáð sér að farið hefði verið með hundinn að Leirum í geymslu. Þegar kærandi hafi ætlað að sækja hann 3. október s.á. hefði sér verið sagt að staðfesting fyrir skráningu þyrfti að liggja fyrir til að hundurinn yrði afhentur. Hann hefði sent heilbrigðiseftirlitinu textaskilaboð og beðið um að staðfest yrði að hundurinn væri skráður í Reykjavík, hjá stjúpföður sonar síns, en sá væri fyrri eigandi hundsins. Svar hefði borist með textaskilaboðum 5. s.m. þess efnis að hundurinn væri óskráður í Reykjavík og fengist ekki afhentur fyrr en búið væri að skrá hann. Hann hefði orðið hissa á þessu þar sem hundurinn hefði verið skráður og greidd af honum gjöld í fleiri ár. Hann hefði haft samband við fyrri eiganda hundsins og beðið hann um staðfestingu þess efnis. Þegar kærandi hefði ekki heyrt neitt frekar frá fyrri eiganda hefði hann talið að staðfestingin hefði verið send beint á heilbrigðiseftirlitið.

Þegar kærandi hefði ætlað að sækja hundinn mánudaginn 12. október 2015 hefði honum verið tjáð að heilbrigðiseftirlitið hefði ráðstafað hundinum til annars eiganda föstudeginum áður, eða 9. s.m. Á fundi með framkvæmdarstjóra heilbrigðiseftirlitsins 13. s.m. hefði komið fram að reynt hefði verið að hringja í kæranda áður en hundinum hefði verið ráðstafað en hann hefði ekki svarað. Ekki hefðu verið send textaskilaboð eða reynt að ná af honum tali aftur, en hundurinn gefinn á annað heimili samdægurs. Það sæti furðu að það skyldi vera gert aðeins fjórum dögum eftir að komið hafi í ljós að hundurinn væri óskráður. Eftir þetta hefði komið í ljós að fyrri eigandi hefði tilkynnt eigendaskipti til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í apríl 2015, en láðst hefði að endurskrá hundinn þá. Kærandi hefði haft samband við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur 14. október s.á. og fengið að vita að hann þyrfti samþykki sameiganda fasteignar sinnar til að fá skráningu. Það hefði legið fyrir daginn eftir og samkvæmt tölvupósti frá heilbrigðiseftirlitinu hafi hundurinn verið skráður á nafn kæranda frá þeim degi og sé það enn.

Kærandi kveðst hafa farið fram á það við Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis að honum yrði afhentur hundurinn aftur eftir að fyrir lá að búið væri að skrá hann en því hefði verið neitað. Þetta hefði honum þótt vera afar mikið bráðræði og undarlegt að ekki hefði verið reynt að finna ásættanlega lausn í málinu.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Heilbrigðisnefndin kveður umræddan hund hafa verið handsamaðan af heilbrigðiseftirliti umdæmisins við Menntaskólann í Kópavogi 30. september 2015. Hafi starfsmaður eftirlitsins farið um svæðið og svipast um eftir hugsanlegum eiganda hundsins án árangurs. Textaskilaboð hafi borist 3. október s.á., úr óskráðu númeri er væntanlega tilheyri kæranda, í farsíma heilbrigðiseftirlitsins, þar sem spurt hafi verið um afdrif hunds að nafni Neró. Hafi mátt ráða af skilaboðunum að þar væri um sama hund að ræða. Þegar starfsmaður eftirlitsins hafi verið aftur við störf 5. s.m. hafi kæranda verið svarað og hann upplýstur um að umræddur hundur væri óskráður og ekki væri unnt að afhenda hann neinum uns hann hefði verið skráður á eiganda. Í framhaldi af skoðun á örmerki hundsins hafi verið haft samband við eiganda hans samkvæmt merkinu. Sá aðili hafi sagt hundinn ekki koma sér við og að hann væri ekki á hans ábyrgð. Kærandi hafi ekki haft samband við heilbrigðisnefndina á næstu dögum.

Í ljósi þess að skráður eigandi hefði sagt hundinn ekki koma sér við og kærandi hafi ekki verið til viðtals hafi hundinum verið fundið nýtt heimili og hann afhentur nýjum eiganda 9. október 2015, þá 10 dögum eftir að hann hefði verið handsamaður. Jafnframt liggi fyrir í málinu að kærandi hafi ekki sótt um skráningu hundsins áður en hann hafi verið handsamaður og hafi ekki virst hlutast til um það fyrr en í fyrsta lagi 14. október 2015. Þá liggi raunar ekki fyrir í gögnum málsins hvort hundurinn sé skráður á kæranda eða ekki.

Í 12. gr. samþykktar nr. 153/2000 um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi segi að sleppi hundur frá eiganda eða umráðamanni skuli viðkomandi gera tafarlausar ráðstafanir til að handsama hann. Eftirlitslausa hunda skuli færa í sérstaka hundageymslu og tilkynna eiganda, sé hundur merktur, handsömunina. Sé hunds eigi vitjað innan einnar viku skuli honum ráðstafað til nýs ábyrgs eiganda, hann seldur fyrir áföllnum kostnaði eða aflífaður. Hafi óskráður hundur verið handsamaður sé óheimilt að afhenda hann fyrr en að lokinni skráningu.

Athygli sé vakin á því að samkvæmt ákvæðinu sé ótvírætt að heilbrigðiseftirliti í umboði heilbrigðisnefndar beri að grípa til einhvers af ofangreindum úrræðum, en hafi ekki val um að neyta annarra ráða, komi upp sú staða að hunds sé ekki vitjað af eiganda innan sjö daga frá handsömun hans. Í ljósi þess að hundsins hefði ekki verið vitjað af eiganda sínum í meira en viku þann 9. október 2015 hafi heilbrigðisnefndin einfaldlega ekki haft val um annað en að nýta eitthvert þeirra úrræða sem fyrrnefnd 12. gr. bjóði. Val nefndarinnar á því úrræði að finna hundinum nýjan eiganda hafi fyllilega stuðst við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, enda sé það úrræði að aflífa hundinn augljóslega mun meira íþyngjandi ráðstöfun.

Það sé ókleift að ráða í það af kæru á hvaða málsástæðum kærandi telji að ógilda beri ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar. Það skuli þó nefnt að reglur sveitarfélaga um takmarkanir á dýrahaldi séu settar í þeim tilgangi að vernda og stuðla að velferð manna og dýra, sem og að réttri og ábyrgri meðferð á dýrum innan sveitarfélaganna. Í því samhengi megi enn fremur benda á lög nr. 55/2013 um velferð dýra. Samkvæmt 7. gr. laganna beri sveitarfélagi skylda til að grípa til aðgerða til þess að hjálpa dýrum sem gangi laus og séu ekki merkt skv. 22. gr. laganna. Markmið laganna skv. 1. gr. sé að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr séu skyni gæddar verur.

Ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar um að finna hundinum nýtt heimili hjá ábyrgum eiganda, í ljósi þess að eigandi hans hefði ekki vitjað hans innan þess tíma sem ákvæði 12. gr. samþykktarinnar tilgreini, hafi ótvírætt verið í samræmi við framangreind markmið laga nr. 55/2013.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ráðstöfun hunds til annars eiganda eftir að hundurinn var handsamaður af Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og vistaður í hundageymslu.

Um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi gildir samþykkt nr. 154/2000, sem sett er með stoð í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Segir í 1. gr. samþykktarinnar að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæminu með skilyrðum samkvæmt henni. Í 2. gr. kemur fram að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis í umboði heilbrigðisnefndar sjái um skráningu og annist framkvæmd og eftirlit með hundahaldi á eftirlitssvæðinu. Í 4. gr. segir að allir hundar á eftirlitssvæðinu séu skráningarskyldir. Í 12. gr. samþykktarinnar kemur fram að sleppi hundur frá eiganda eða umráðamanni skuli viðkomandi gera tafarlausar ráðstafanir til að handsama hann. Eftirlitslausa hunda skuli færa í sérstaka hundageymslu og tilkynna eiganda, sé hundur merktur, handsömunina. Sé hunds eigi vitjað innan einnar viku skal honum ráðstafað til nýs ábyrgs eiganda, hann seldur fyrir áföllnum kostnaði eða aflífaður. Hafi óskráður hundur verið handsamaður er óheimilt að afhenda hann fyrr en að lokinni skráningu.

Ákvæði um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögum nr. 7/1998 eru í VI. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilteknum þvingunaraðgerðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Verða ráðstafanir skv. 12. gr. samþykktar nr. 154/2000 taldar falla undir nefnt lagaákvæði. Samkvæmt 30. gr. laganna skal fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð mála samkvæmt VI. kafla laga nr. 7/1998.

Óumdeilt er að umræddur hundur var handsamaður þar sem hann var laus á almannafæri og vistaður í hundageymslu í samræmi við ákvæði samþykktar nr. 154/2000, en í 12. gr. er gert ráð fyrir að hundi verði ráðstafað til annars eiganda hafi hans ekki verið vitjað innan einnar viku.

Svo sem áður greinir var hundurinn handsamaður 30. september 2015. Kærandi mun hafa verið í sambandi við heilbrigðiseftirlitið degi síðar og tveim dögum þar á eftir, eða 3. október, sendi hann textaskilaboð og beiddist upplýsinga um skráningu hundsins. Honum var tjáð með textaskilaboðum 5. s.m. að hundurinn væri óskráður án þess að kæranda væri leiðbeint frekar, til að mynda um tímafrest samkvæmt 12. gr. samþykktar nr. 154/2000. Telja verður að heilbrigðiseftirlitinu hafi borið, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, að upplýsa kæranda um hugsanlegar afleiðingar þess að hann leysti ekki hundinn úr haldi innan ákveðins tíma, sérstaklega með tilliti til hins skamma frests sem umráðamanni er ætlaður til athafna samkvæmt ákvæðinu.

Fjórum dögum eftir að nefnd skilaboð höfðu verið send kæranda, eða 9. október, var hundinum ráðstafað til annars eiganda. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitinu var reynt að hringja í kæranda áður en hin umdeilda ákvörðun var tekin, en hann svaraði ekki í símann. Honum voru hins vegar hvorki send textaskilaboð né reynt að hringja í hann að nýju. Þess í stað var hundinum ráðstafað þann sama dag. Sér þess hvergi stað í gögnum málsins að ráðstöfun hundsins hafi verið svo aðkallandi að ekki væri ráðrúm til að gæta andmælaréttar kæranda með því að reyna til þrautar að ná sambandi við hann til að gefa honum færi á að tjá sig um þær aðgerðir sem voru yfirvofandi. Ef litið er til þess um hversu íþyngjandi ákvörðun var að ræða var það sérstaklega brýnt.

Í ljósi þess að ákvörðun um ráðstöfun hunds til annars eiganda er íþyngjandi var mikilvægt að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis vandaði sína málsmeðferð í hvívetna í samræmi við reglur stjórnsýslulaga áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja að á það hafi skort og að hin kærða ákvörðun sé þeim annmörkum háð að ógildingu varði, enda var hvorki gætt leiðbeiningarskyldu gagnvart kæranda né honum veittur réttur til andmæla.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 9. október 2015 um að ráðstafa hundinum Neró til nýs eiganda.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                                    Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir