Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2014 Laxalind

Árið 2016, fimmtudaginn 7. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. júní 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Lindahverfis, norðan Fífuhvammsvegar, vegna lóðarinnar Laxalind 15.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. júlí 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra R og H, Laxalind 17, Kópavogi, ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. júní 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Lindahverfis, norðan Fífuhvammsvegar, vegna lóðarinnar nr. 15 við Laxalind. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að úrskurðað verði að skylt sé að sækja um byggingarleyfi vegna framkvæmda á téðri lóð.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 26. ágúst 2014 og í febrúar 2016.

Málavextir: Lóðin að Laxalind 15 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Lindahverfis, norðan Fífuhvammsvegar. Hefur í nokkur ár staðið styr um mannvirki á mörkum nefndrar lóðar og lóðar kærenda og fóru kærendur þess á leit við sveitarfélagið að það tæki afstöðu til lögmætis þeirra. Í kjölfar þess var málið til skoðunar hjá byggingarfulltrúa, sem fór fram á það við lóðarhafa Laxalindar 15 að framkvæmdir við hin umdeildu mannvirki, þ.e. skjólveggi og þrjú hús „í tengslum við þá“, yrðu stöðvaðar, en jafnframt var bent á að unnt væri að óska eftir breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar. Urðu lyktir málsins þær að með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. janúar 2014, var lóðarhöfum Laxalindar 15 gert að fjarlægja fyrrgreind mannvirki fyrir 1. apríl s.á., en að öðrum kosti yrðu lagðar á dagsektir þar til svo hefði verið gert. Þá var vakin athygli á því að embættinu hefði ekki borist beiðni um breytt deiliskipulag greindrar lóðar.

Hinn 18. mars 2014 var á fundi skipulagsnefndar Kópavogs tekið fyrir erindi um breytingu á deiliskipulagi fyrrnefndrar lóðar og var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir lóðarhöfum Laxalindar 6, 8, 13, 17, 19 og Mánalindar 12. Fól tillagan í sér að á lóðamörkum Laxalindar 15 og 17 yrði 26 m² opinn skáli, sem og skjólgirðing og væri mesta hæð hennar séð frá Laxalind 17, um 1,7 m. Enn fremur var gert ráð fyrir 15,8 m² hjólaskýli á norðaustur horni lóðarinnar, á lóðamörkum við götu og við Laxalind 17. Mesta hæð við götu væri 1,6 m og hæsti punktur skýlisins 1,98 m. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum. Erindið var lagt fram að nýju á fundi skipulagsnefndar 20. maí 2014 og því vísað til umsagnar bæjarlögmanns. Nefndin tók erindið fyrir á ný 5. júní s.á. og var það samþykkt með vísan til umsagnar bæjarlögmanns. Bæjarstjórn tók málið fyrir 10. júní 2014 og samþykkti framlagða tillögu. Öðlaðist breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 20. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að bæjaryfirvöld hafi ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum þeirra, um að framkvæmdir á lóðinni að Laxalind 15 væru hugsanlega ekki í samræmi við byggingarreglur og grenndarrétt, fyrr en þær hafi verið á lokastigi. Hafi samþykkt tillaga verið útfærð og lögð fram að framkvæmdum loknum til að fá samþykki eftir á og að því er virðist í því skyni að ekki þyrfti að sækja um byggingarleyfi. Skekki þetta réttarstöðu kærenda, en lög og reglugerðir geri ráð fyrir að hafa skuli samráð við og leita samþykkis nágranna fyrir framkvæmdum áður en þær hefjist. Virðist málsmeðferð hafa tekið mið af því að framkvæmdaraðilinn hafi lagt í mikinn kostnað við breytingu lóðarinnar og hafi þau sjónarmið vegið þyngra en skipulagsreglur og réttur nágranna.

Umsókn um breytt deiliskipulag hafi borist Kópavogsbæ í mars 2014 þegar byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafi tekið gildi og eigi því ákvæði þeirrar reglugerðar við. Hefði einnig þurft að afla samþykkis nágranna fyrir framkvæmdunum samkvæmt eldri byggingarreglugerð. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hefjist afskipti þess af málinu í maí 2012.

Ekki liggi fyrir samþykki kærenda fyrir framkvæmdunum svo sem skylt sé samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012. Frá upphafi hafi samþykki kærenda byggst á því að framkvæmdir væru innan ramma reglugerða og skipulags svæðisins og að fyrir lægi samþykki sveitarfélagsins. Hafi kærendur aldrei samþykkt endanlega útfærslu framkvæmdanna eða staðsetningu mannvirkja á lóðinni. Þá geti framkvæmdin ekki verið undanþegin byggingarleyfi skv. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð, m.a. vegna stærðar umræddra smáhýsa. Um verulegar breytingar sé að ræða og hafi ekki verið unnt að fara með málið eins og um óverulega breytingu væri að ræða. Sé vikið frá formi og útliti viðkomandi svæðis og séu breytingarnar fordæmisgefandi. Þá skerðist útsýni úr eldhúsi, svo og þegar ekið sé út af bílstæði, sem skapi hættu fyrir gangandi vegfarendur. Rýri umræddar breytingar verðmæti eignar kærenda.

Svo virðist sem einungis hluti þeirra gagna sem þrætu þessari tengist hafi verið lagður fyrir skipulagsnefnd áður en nefndin afgreiddi málið. Það hafi því ekki verið lagt fyrir af hlutleysi. Einnig sé erfitt að sjá af gögnum frá nefndinni hverju það varði að framkvæmdum hafi verið að fullu lokið áður en óskað hafi verið eftir breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar. Ljósmyndir er sýni aðstæður hafi ekki verið lagðar fyrir nefndina.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær tekur fram að á þeim tíma sem eigendur Laxalindar 15 hófust handa við að reisa girðingu á lóð sinni hafi ekki verið gerð krafa í þágildandi byggingarreglugerð um skriflegt leyfi fyrir girðingu á lóðamörkum. Munnlegt samþykki lóðarhafa Laxalindar 17 fyrir framkvæmdunum hafi legið fyrir. Framkvæmdir við grillskýli og hjólageymslu hafi verið langt á veg komnar þegar bæjaryfirvöld hafi látið stöðva þær. Eftir heildarmat á aðstæðum og með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga hafi lóðarhöfum verið boðið að skila inn umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir umrædda lóð, ella myndi sveitarfélagið krefjast þess að nefnd mannvirki yrðu fjarlægð. Sú umsókn hafi fengið lögmæta málsmeðferð hjá Kópavogsbæ. Sé það mat sveitarfélagsins að þrátt fyrir að téðar framkvæmdir hafi farið fram án tilskilinna leyfa þá sé með lögmætri deiliskipulagsbreytingu búið að lagfæra ástandið afturvirkt og óþarfi að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum, þar sem þeim hafi verið lokið.

Athugasemdir lóðarhafa: Lóðarhafar telja að þeim hafi ekki borið að sækja um breytingu á deiliskipulagi lóðar sinnar, en til að leysa málið endanlega og í sátt við bæjaryfirvöld hafi það verið gert. Hafi skipulagsyfirvöld lagt sig í líma við að leysa málið með friðsamlegum hætti. Hafi oftar en einu sinni verið fundað með aðilum með það markmið að leiðarljósi. Þrátt fyrir greinargerðir, bréfaskriftir og fundahöld hafi aldrei komið fram kröfur af hálfu kærenda sem byggi á því að brotið hafi verið gegn hagsmunum þeirra. Sé fullyrðing kærenda um verðrýrnun eignar þeirra órökstudd og sé henni mótmælt sem rangri og ósannaðri. Öðrum málsástæðum sé mótmælt sem ósönnuðum, röngum og afar vanreifuðum. Núverandi fyrirkomulag sé með þeim hætti að sómi sé að, útsýni nágranna skerðist ekki og um vandaðar og áferðarfallegar framkvæmdir sé að ræða.

Hafi samþykkis kærenda verið aflað fyrir framkvæmdunum sem slíkum og fullyrðingum um að svo sé ekki sé mótmælt sem röngum. Ein aðalforsenda þess hvernig staðið hafi verið að framkvæmdum hafi verið sú að samþykki lægi fyrir. Hafi lóðarhafar verið í góðri trú um að skilyrði þágildandi byggingarreglugerðar væru uppfyllt. Haft hafi verið fullt samráð við kærendur um framkvæmdirnar og að ósk þeirra hafi breytingar verið gerðar á undirbúningsstigi framkvæmdanna og á meðan á þeim stóð. Til dæmis hafi grindverk verið lækkað eftir að það hafi verið reist þótt samþykki fyrir hæð þess hefði áður legið fyrir af hálfu kærenda. Mjög hafi verið vandað til grenndarkynningar. Engin efnisleg mótmæli hafi komið frá kærendum við nefndar framkvæmdir. Næstu nágrannar hafi lýst yfir samþykki sínu vegna þeirra. Hvorki hagsmunir Kópavogsbæjar né almannahagsmunir séu með einhverjum hætti skertir eða settir í hættu. Liggi fyrir að skipulagsyfirvöld telji öll skilyrði þegar uppfyllt til útgáfu byggingarleyfis.

Við afgreiðslu á kæru þessari beri að líta sérstaklega til meðalhófsreglu stjórnsýslunnar. Enn fremur beri að gæta að því að jafnrétti borgaranna sé virt, en ljóst sé að mýmargar framkvæmdir af þeim sama toga og hér um ræði sé að finna víðsvegar í Kópavogi, án þess að við þeim hafi verið amast.

Niðurstaða: Með samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs á breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Laxalind 15 var heimilað að reisa þar, við mörk lóðarinnar Laxalind 17, hjólaskýli, opinn skála og skjólgirðingu. Framkvæmdum mun hafa verið lokið áður en hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt og liggur fyrir að samþykki sveitarfélagsins fyrir þeim lá ekki fyrir þegar þær hófust. Er ágreiningur milli aðila um hvort heimilt hafi verið að reisa fyrrnefnd mannvirki án þess að slíkt samþykki lægi fyrir og hvort fyrir hendi hafi verið samþykki kærenda fyrir greindum framkvæmdum. Úrskurðarnefndin hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt því tekur úrskurðarnefndin til úrlausnar lögmæti ákvarðana stjórnvalda, sem kæranlegar eru til nefndarinnar, en það er utan valdsviðs hennar að taka stjórnvaldsákvarðanir á viðkomandi lagasviðum. Verður því ekki fjallað um kröfu kærenda um að úrskurðað verði að skylt sé að sækja um byggingarleyfi fyrir hinum umdeildu mannvirkjum, heldur sætir einungis sú ákvörðun er lýtur að áðurnefndri deiliskipulagsbreytingu lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar.

Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024, sem tók gildi 26. febrúar 2014, er tiltekið að komi fram óskir um breytingar í núverandi byggð skuli liggja fyrir greinargerð með skýringarmyndum, þar sem ítarlega sé greint frá mögulegum áhrifum breytingarinnar á þá byggð sem fyrir sé. Einkum skuli horft til þess hvernig breytingin falli að aðliggjandi byggð og yfirbragði hverfisins hvað varði stærð og hlutföll, umferð, bílastæðaþörf, útsýni og skuggamyndun. Samkvæmt aðalskipulaginu skal jafnframt líta til ákveðinna skilyrða þegar óskað er eftir breytingum skv. 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Á svæði því er hér um ræðir er í gildi deiliskipulag Lindahverfis norðan Fífuhvammsvegar, sem samþykkt mun hafa verið í sveitarstjórn árið 1995. Eru lóðir við Laxalind nr. 1-19 (odda-tölur) og Mánalind nr. 1-19 (oddatölur) á reit 11 a,b, en á því svæði er gert ráð fyrir parhúsum á tveimur hæðum. Í almennum ákvæðum fyrir greindar lóðir er m.a. tekið fram að hafa skuli samráð við nágranna um frágang á sameiginlegum lóðamörkum. Einnig sé notkun veggja, hærri en 0,5 m yfir jarðvegsyfirborði á lóðamörkum, háð samþykki byggingarnefndar. Í sérákvæðum fyrir fyrrnefndar lóðir er tekið fram að gert sé ráð fyrir tveggja hæða parhúsum með innbyggðri bílageymslu á lóðunum. Jafnframt skal vera lokuð sorpgeymsla í eða við hvert hús og skal stærð hennar miðuð við að geymslan geti rúmað a.m.k. tvö sorpílát. Sé sorpgeymsla ráðgerð sjálfstæð skal staðsetning hennar ekki vera nær aðliggjandi lóð en sem nemur 2,0 m og ekki nær lóðamörkum við götu en 1,0 m. Í skipulagsskilmálum er ekki að finna ákvæði um hjólageymslur, en skv. gr. 7.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skal á lóðum bygginga koma fyrir bílastæðum, bílgeymslu, sorpgeymslu, hjólageymslu, gróðri og öðru því sem hæfir notkun viðkomandi byggingar og er í samræmi við ákvæði gildandi skipulags.

Skipulagsyfirvöld kusu að fara með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu eftir undanþáguákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, er kveður á um að sveitarstjórn skuli láta fara fram grenndarkynningu telji hún að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að skipulagslögum er sem dæmi um slíkar óverulegar deiliskipulagsbreytingar nefnt glerjun útisvala, skyggni yfir útidyr, dúkkuhús sem sett eru í garð o.s.frv. Er sambærilegt ákvæði að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt er þar tilgreint að metið skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu sem varði almannahagsmuni.

Eins og rakið hefur verið var í hinni umþrættu deiliskipulagsákvörðun gert ráð fyrir skjólgirðingu, opnum skála og hjólaskýli á lóðinni Laxalind 15. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er umdeild skjólgirðing á lóðamörkum Laxalindar 15 og 17 og er mesta hæð hennar, séð frá Laxalind 17, um 1,7 m. Hjólaskýli á lóðamörkum við götu og við Laxalind 17 er 15,8 m². Hæð þess við götu er 1,6 m, þak skýlisins hækkar frá götu og er hæsti punktur þess 1,98 m. Jafnframt er opinn skáli á lóðamörkum Laxalindar 15 og 17, sem er 26 m² að flatarmáli. Hæsti punktur skálans er 2,5 m og hæð við lóðamörk er 2,0 m. Hæðarmunur mun vera á greindum lóðum og er lóðin Laxalind 17 að jafnaði um 0,8 m hærri en lóðin Laxalind 15.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er vikið frá skilmálum skipulagsins að því er varðar umfang mannvirkja og fjarlægð þeirra frá lóðamörkum, sem getur haft í för með sér nokkur grenndaráhrif. Heimilaðar breytingar, svo sem áður er lýst, eru til þess fallnar að breyta útliti og formi viðkomandi svæðis. Er það því mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið skilyrði til að fara með málið eftir 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Er í því sambandi rétt að árétta að með ákvörðuninni var veitt fordæmi og telur úrskurðarnefndin að með tilliti til jafnræðissjónarmiða hefði fremur átt að taka afstöðu til þess hvort tilefni væri til að gera almenna breytingu á skilmálum skipulagsins í gildandi deiliskipulagi.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. júní 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Lindahverfis, norðan Fífuhvammsvegar, vegna lóðarinnar Laxalind 15.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson