Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2016 Vegamótastígur

Árið 2016, miðvikudaginn 30. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 16/2016, kæra á ákvörðun borgarstjórnar frá 17. nóvember 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.5 vegna lóðanna nr. 7 og nr. 9 við Vegamótastíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er móttekið var 29. janúar 2016, kærir H, f.h. íbúa og eigenda Grettisgötu 3, 3a og 5 þá ákvörðun borgarstjórnar frá 17. nóvember 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.5 vegna lóða nr. 7 og nr. 9 við Vegamótastíg í Reykjavík. Erindi sama efnis frá sömu aðilum var móttekið hjá innanríkisráðuneytinu 10. febrúar 2016 og framsent úrskurðarnefndinni. Barst það nefndinni 18. s.m. Skilja verður málsskot kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 10. mars 2016.

Málsatvik og rök: Árið 2002 var samþykkt deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5 sem afmarkast af Laugavegi, Klapparstíg, Grettisgötu og Vegamótastíg. Gerði deiliskipulagið m.a. ráð fyrir því að fjarlægja mætti núverandi byggingu á lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg, en nefnd lóð er á horni Grettisgötu og Vegamótastígs. Einnig yrði byggingarreitur lóðarinnar stækkaður og heimilt að reisa þar fjögurra hæða byggingu með inndreginni efstu hæð og kjallara. Á aðliggjandi lóð að Laugavegi 18b var gert ráð fyrir sambærilegum byggingarheimildum á nýjum byggingarreit syðst á lóðinni en að hús við Laugaveg væri óbreytt. Árið 2005 var samþykkt breyting á nefndu deiliskipulagi er fól m.a. í sér að síðargreindu lóðinni var skipt í tvær og önnur þeirra varð nr. 7 við Vegamótastíg. Árið 2008 tók gildi breytt deiliskipulag vegna lóðanna nr. 7 og nr. 9 við Vegamótastíg. Fól það í sér, samkvæmt greinargerð þess, að á lóðunum væri byggt nokkurn veginn í samræmi við fyrra deiliskipulag, en að gamall steinbær sem áður hafði staðið á lóðinni að Vegamótastíg nr. 7 yrði endurreistur á þaki nýbyggingar og einnig að gamla húsið á lóðinni við Vegamótastíg nr. 9 yrði flutt upp á þak.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 15. maí 2015 var lögð fram umsókn um leyfi til að breyta deiliskipulagi lóðanna að Vegamótastíg nr. 7 og nr. 9. Gerði tillagan ráð fyrir að á nefndum lóðum yrðu fimm hæða byggingar og yrði efsta hæð inndregin, sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð yrði undir húsunum. Einnig yrði hætt við að endurreisa gamla steinbæinn á þaki nýbyggingar og að færa gamla húsið á lóðinni að Vegamótastíg nr. 9 upp á þak. Málinu var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og á fundi skipulagsfulltrúa 5. júní s.á. var því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem á fundi 1. júlí s.á. samþykkti að auglýsa framlagða tillögu.  Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu 9. s.m. Að lokinni auglýsingu var umsóknin lögð fram að nýju á embættisafgreiðslufundum skipulagsfulltrúa 4. og 18. september 2015 og samþykkt í tvígang að framlengja frest til athugasemda vegna beiðni kærenda þar um. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 25. september s.á. var erindinu vísað til umsagnar verkefnisstjóra og á fundi skipulagsfulltrúa 2. október s.á. var því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Ráðið tók málið fyrir 21. s.m. og samþykkti meirihluti þess tillöguna með þeim breytingum er fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa. Samþykkti borgarstjórn tillöguna 17. nóvember 2015. Öðlaðist breytingin gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember s.á.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum telja kærendur að fimm hæða byggingar við Vegamótastíg muni raska verulega ásýnd svæðisins, enda séu húsin við Grettisgötu umtalsvert lægri. Sé ekki tekið mið af heildarsýn hverfisins í deiliskipulaginu. Fyrirhugaðar byggingar muni t.a.m. skerða útsýni og birtu, valda skuggamyndun og ýta undir sterka vindsveipa. Lífsgæði kærenda muni rýrna sem og virði eigna þeirra. Hætta sé á tjóni af framkvæmdunum, t.d. vegna sprengingar klappar. Gera megi ráð fyrir miklum hávaða og ónæði af fyrirhuguðum hótelrekstri í húsunum. Muni staðsetning og aðkoma að bílastæði/kjallara valda kærendum miklum óþægindum og ónæði. Kærendur hafi séð auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins nokkrum dögum áður en kæra barst úrskurðarnefndinni.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæra sé of seint fram komin með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæra í máli þessu hafi borist úrskurðarnefndinni 29. janúar 2016. Frestur til að kæra hafi verið til 11. janúar 2016 og hafi hann því verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Beri þegar að þeirri ástæðu að vísa máli frá enda hafi engin rök verið færð fyrir því hvers vegna víkja ætti frá skýrum ákvæðum laga að þessu leyti.

Lóðarhafi nefndra lóða gerir kröfu um frávísun málsins með vísan til þess að lögbundinn kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni. Þá uppfylli kæran ekki þau skilyrði sem sett séu í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður, nema á annan veg sé mælt í lögum. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu miðast upphaf frestsins við birtingu ákvörðunar. Kæra í máli þessu var móttekin hjá úrskurðarnefndinni 29. janúar 2016, eða rúmum mánuði eftir birtingu hinnar kærðu ákvörðunar, og var þá kærufrestur til nefndarinnar liðinn samkvæmt tilvitnuðu ákvæði. Ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________
Nanna Magnadóttir