Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

98/2015 Sveinbjarnagerði

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2015, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 2. september 2015, um að veita starfsleyfi til fjögurra ára til reksturs eggjabús að Sveinbjarnargerði II og á þeirri afstöðu sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps frá 21. október 2015 að starfsleyfið samræmist gildandi aðalskipulagi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. nóvember 2015, sem barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Sveinbjarnargerðis IIB og III þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 2. september 2015 að veita Græneggjum ehf. starfsleyfi til fjögurra ára til reksturs eggjabús að Sveinbjarnargerði II. Jafnframt er kærð ákvörðun sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps um að ákvæði Aðalskipulags Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 takmarki ekki heimild til búrekstrar í Sveinbjarnargerði og að starfsleyfi Græneggs ehf. samræmist gildandi aðalskipulagi. Er gerð krafa um að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að starfsemi eggjabúsins verði stöðvuð.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra 11. desember 2015 og frá Svalbarðsstrandarhreppi 30. nóvember 2015.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 96/2013, sem kveðinn var upp 24. apríl 2015, var felld úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra um að hafna kröfum um stöðvun á rekstri alifuglabús Græneggs ehf. í Sveinbjarnargerði. Komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að umræddur landbúnaður væri starfsleyfisskyldur og að ákvörðun heilbrigðisnefndar hefði verið byggð á röngum forsendum.

Á fundi heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra 24. júní 2015 var tekin fyrir umsókn Græneggs ehf. um starfsleyfi fyrir rekstri á eggjabúi. Var samþykkt að auglýsa umsóknina og tillögu að starfsleyfi í samræmi við fyrirmæli reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Bárust athugasemdir á kynnningartíma, þ. á m. frá kærendum. Að kynningu lokinni var erindið tekið fyrir að nýju á fundi heilbrigðisnefndarinnar 2. september 2015 og var samþykkt að veita leyfi til fjögurra ára fyrir starfsemi eggjabús með stæði fyrir 10.000 hænur. Með bréfi frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, dags. 16. september 2015, var kærendum tilkynnt um greinda ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar. Jafnframt var þeim var gerð grein fyrir svörum nefndarinnar við athugasemdum þeirra og þeim leiðbeint um kæruleiðir og fresti. Með tölvupósti 18. s.m. bað einn kærenda um frekari gögn og var þeirri beiðni svarað með tölvupósti starfsmanns heilbrigðiseftirlitsins 21. s.m. Óskaði kærandi þá eftir frekari skýringum varðandi hvaða lögbýli starfsleyfið væri bundið við. Var honum svarað því til 30. s.m. að starfsleyfi væri gefið út á kennitölu rekstraraðila og væri það bundið við ákveðinn húsakost, en varðandi skipulagsmál var kæranda bent á að hafa samband við skipulagsyfirvöld. Sama dag fór kærandi fram á að starfsleyfið yrði dregið til baka og álits Skipulagsstofnunar leitað. Var honum svarað samdægurs og vísað til fyrri svara um ástæður þess að álits Skipulagsstofnunar hefði ekki verið leitað og ítrekað að beina þyrfti ágreiningi varðandi skipulagsmál til skipulagsyfirvalda.

Á fundi sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 21. október 2015 var tekið fyrir erindi áðurnefnds kæranda frá 1. s.m. þar sem óskað var eftir áliti sveitarstjórnar um það hvort hið kærða starfsleyfi samrýmdist gildandi aðalskipulagi. Var afstaða sveitarstjórnar um að svo væri bókuð á umræddum fundi.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að hin kærða starfsleyfisveiting standist ekki aðalskipulag. Við meðferð á hinu umrædda starfsleyfi hafi verið skylt að leita umsagnar sérfróðra aðila, þ.e. Skipulagsstofnunar og eftir atvikum Umhverfisstofnunar eða annarra viðeigandi aðila, sbr. gr. 9.2. í reglugerð nr. 785/1999. Með því að heimila verslun og þjónustu á svæðinu hafi orðið til fjarlægðartakmörkun á nýtingu jarðarinnar til landbúnaðar. Þá telji kærendur að miða eigi við að kærufrestur hafi byrjað að líða frá bókun sveitarstjórnar hinn 21. október 2015, en þá fyrst hafi kærendur fengið fullnægjandi svör við þeim athugasemdum sínum sem sendar hafi verið Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra 24. júlí 2015. Hafi svör heilbrigðiseftirlitsins frá 16. september s.á. ekki verið fullnægjandi og geti kærufrestur því ekki talist frá þeim degi. Hafi enda kærendum verið bent á, í tölvupósti frá starfsmanni heilbrigðiseftirlitsins 30. s.m., að hafa samband við skipulagsyfirvöld sveitarfélagsins til að fá frekari upplýsingar. Hafi kærendur því ekki haft allar forsendur til þess að kæra umræddar ákvarðanir fyrr en endanleg afstaða sveitarstjórnar hafi legið fyrir.

Málsrök heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra: Af hálfu heilbrigðisnefndar er skírskotað til þess að skv. 4. gr. laga nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin 2. september 2015. Hafi kærufrestur því runnið út 3. október s.á. en kæran sé dagsett 5. nóvember s.á. Fráleitt sé að miða eigi kærufrest við svar sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps, enda hafi sú fyrirspurn sem þar hafi verið tekin afstaða til ekki verið skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfisins.

Í reglugerð nr. 520/2015, um eldishús alifugla loðdýra og svína, sé ekki kveðið á um nein fjarlægðarmörk þegar varphænur séu færri en 40.000. Með hinni kærðu ákvörðun sé veitt leyfi fyrir 10.000 hænum og sé því ljóst að kærendur eigi engra lögvarinna hagsmuna að gæta. Þá sé vakin athygli á því að í gr. 9.2 í reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun, sé kveðið á um að leita skuli umsagnar eftir því sem eigi við hverju sinni. Á umræddu starfssvæði sé gilt aðalskipulag þar sem gert sé ráð fyrir landbúnaðarstarfsemi og sé starfsemin ekki ný af nálinni. Hafi því hvorki verið ástæða til að óska umsagnar Skipulagsstofnunar né Umhverfisstofnunar, líkt og kærendur haldi fram. Engin rök séu fyrir því að fella hið kærða starfsleyfi úr gildi.

Málsrök Svalbarðsstrandarhrepps:
Sveitarfélagið bendir á að kæran sé of seint fram komin. Hafi erindi frá lögmanni kærenda borist skipulagsnefnd sveitarfélagsins 4. febrúar 2013, þar sem sú skoðun hafi verið látin í ljós að rekstur eggjabús í Sveinbjarnargerði væri í andstöðu við gildandi aðalskipulag hreppsins. Skipulagsnefnd hafi hafnað þeirri ályktun og hafi sú ákvörðun skipulagsnefndar ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Ljóst sé að meira en ár sé síðan að sveitarfélagið hafi tekið afstöðu til þess álitaefnis sem hér um ræði. Séu atvik þau sömu og þegar fyrri ákvörðun hafi verið tekin og geti kærendur ekki öðlast nýjan kærufrest vegna erindis sem afgreitt hafi verið í byrjun árs 2013. Þá sé það ekki á valdi sveitarfélagsins að endurskoða ákvörðun heilbrigðisnefndar. Jafnframt sé á það bent að í Sveinbjarnargerði hafi verið stundaður landbúnaður í áratugi. Hafi hótelrekstur á svæðinu komið til síðar. Ekki hafi verið ætlunin að takmarka landbúnaðarframleiðslu á svæðinu með því að heimila ferðaþjónustu. Í aðalskipulaginu sé svæðið merkt L1, sem feli í sér að um landbúnaðarsvæði sé að ræða án þess að settar séu skorður við því hvers konar landbúnað megi stunda á jörðinni. Svæðið sé jafnframt merkt með hringtákni, sem þýði að á jörðinni megi einnig stunda verslunar- og þjónustustarfsemi.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að ekki sé um nýjan rekstur að ræða.  Eggjaframleiðsla hafi verið stunduð á svæðinu í rúm 50 ár. Kappkostað hafi verið að hafa öll tilskilin leyfi fyrir eggjaframleiðslunni og húsakostur verið endurbættur. Hið kærða starfsleyfi hafi verið auglýst og hagsmunaaðilum hafi verið gefinn kostur á að gera athugasemdir, en slíkt hafi ekki tíðkast í landbúnaði nema að um verulega mengandi starfsemi hafi verið að ræða. Jafnframt sé á það bent að tveir af kærendum hafi upphaflega stofnað lögbýlið Sveinbjarnargerði II utan um alifuglabúsrekstur. Þá sé kæran of seint fram komin. Þær ákvarðanir sem séu kærðar í máli þessu hafi verið kærendum kunnar, eða a.m.k. mátt vera þeim kunnar, innan kærufrests, en samt sem áður hafi þeir látið hjá líða að kæra innan frestsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti leyfis vegna starfsemi eggjabús með stæði fyrir 10.000 hænur. Er þess krafist að hið umdeilda starfsleyfi verði ógilt, en jafnframt gerð sú krafa að felld verði úr gildi afstaða sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps þess efnis að veiting starfsleyfisins fari ekki í bága við gildandi aðalskipulag. 

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að vísa skuli kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. og 2. tl. sömu málsgreinar. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en sé svo væri rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algerum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kærenda og starfsleyfishafa ekki saman.

Kærufrestur í máli þessu miðast við það tímamark þegar kærendur máttu vita um samþykki hins kærða leyfis. Ljóst er að heilbrigðisfulltrúi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra sendi kærendum samhljóða bréf, dags. 16. september 2015, þar sem þeim var gert kunnugt um svör heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra við athugasemdum þeirra og bókun nefndarinnar á samþykki starfsleyfisins, auk þess sem þeim var leiðbeint um kæruleið og kærufrest. Einn kærenda óskaði frekari gagna með tölvupósti 18. s.m. og var þeirri beiðni svarað með tölvupósti 21. s.m., eins og nánar greinir í málavaxtalýsingu. Þá áttu frekari tölvupóstsamskipti sér stað til 30. september 2015. Þann dag óskaði kærandi eftir því að starfsleyfið yrði dregið til baka og að álits Skipulagsstofnunar yrði leitað, en fékk þau svör samdægurs að ástæður þess að heilbrigðisnefnd hefði ekki leitað álits Skiplagsstofnunar hefðu þegar verið kynntar kæranda með tölvupósti 21. s.m. Auk þess var áréttað að ágreiningur varðandi skipulagsmál væri ekki á könnu heilbrigðiseftirlitsins og var ítrekað við kæranda að hann beindi þeim málum í réttan farveg, þ.e. til skipulagsyfirvalda. Sami kærandi sendi sveitarstjórn Svalbarðstrandarhrepps tölvupóst 1. október 2015 þar sem hann óskaði eftir því að sveitarstjórn tæki afstöðu til þess hvort hið kærða starfsleyfi samræmdist gildandi skipulagi. Var afstaða sveitarstjórnar þess efnis að svo væri bókuð á fundi hennar 21. s.m.

Að framangreindu virtu verður hér við það að miða kærufrestur hafi byrjað að líða þegar kærendum var tilkynnt um samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar, þ.e. 16. september 2016. Samskipti eins kærenda við heilbrigðiseftirlitið í kjölfarið snerust um gagnaöflun og veitingu upplýsinga. Ekki var hins vegar um það að ræða að farið væri fram á frekari rökstuðning skv. 21. gr. stjórnsýslulaga, en slík beiðni hefði eftir atvikum haft í för með sér að kærufrestur byrjaði ekki að líða fyrr en að honum veittum, sbr. 3. mgr. 27. gr. laganna. Þá er ekki hægt að líta svo á að fyrirspurn til sveitarstjórnar hafi falið í sér beiðni um slíkan rökstuðning, enda er ákvörðun um veitingu starfsleyfis ekki á hennar valdi heldur heilbrigðisnefndar, skv. gr. 9., sbr. lið 6.6 í I. viðauka reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

Kemur þá til skoðunar hvort kærufrestur hafi rofnað skv. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, en í tölvupósti 30. september 2015 lýsti einn kærenda þeirri skoðun sinni að hið kærða starfsleyfi stæðist ekki aðalskipulag og fór fram á að leyfið yrði dregið til baka og álits Skipulagsstofnunar óskað. Þótt litið yrði svo á að kærufrestur hafi rofnað vegna þessa verður ekki framhjá því horft að kærandanum var svarað því til sama dag, í tölvupósti frá starfsmanni heilbrigðiseftirlitsins, að honum hefði þegar verið greint frá ástæðum þess að álits Skipulagsstofnunar hefði ekki verið leitað, sbr. samskipti sömu aðila frá 21. s.m. Var auk þess tekið fram að ágreiningur varðandi skipulagsmál ætti ekki undir heilbrigðiseftirlit og kæranda ítrekað leiðbeint um að þau mál heyrðu undir skipulagsyfirvöld. Í tilvitnuðum tölvupósti heilbrigðiseftirlitsins 21. september 2015 var vísað til þess að álits Skipulagsstofnunar hefði ekki verið leitað, enda hefði aðalskipulag legið fyrir. Öll samskiptin bera þess merki að um skoðanaskipti og útskýringar var að ræða og var ekki tilefni til frekari málsmeðferðar af hálfu heilbrigðisnefndar eftir samskiptin 30. september 2015.

Kæra í máli þessu barst ekki fyrr en 5. nóvember 2015 og var þá kærufrestur liðinn. Var þá og liðinn rúmur mánuður frá síðustu samskiptum eins kærenda við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra. Með hliðsjón af því verður, gegn hagsmunum starfsleyfishafa, ekki talið afsakanlegt að kæra hafi borist að liðnum kærufresti, enda var kærendum leiðbeint í upphafi um kæruheimild og kærufrest. Verður kröfum kærenda hvað varðar hið kærða starfsleyfi því vísað frá í samræmi við fyrirmæli fyrrgreindrar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Jafnframt gera kærendur þá kröfu að felld verði úr gildi afstaða sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps frá 21. október um að „ákvæði aðalskipulags Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 takmarki ekki heimild til búrekstrar í Sveinbjarnargerði og að starfsleyfi Græneggs ehf. samræmist gildandi aðalskipulagi“. Var sú afstaða sveitarstjórnar í samræmi við fyrri svör sveitarstjóra fyrir hönd sveitarstjórnar í bréfi til lögmanns tveggja kærenda, dags. 19. júní 2013. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki borin undir kærustjórnvald. Ljóst er af atvikum málsins að „afstaða“ stjórnvalds felur ekki í sér lokaákvörðun heldur ákveðna túlkun, sem eftir atvikum er lögð til grundvallar niðurstöðu máls, sem svo getur verið kæranleg. Af þeim sökum verður þessari kröfu kærenda einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

141/2016 Bræðraborgarstígur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 8. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 141/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 um að samþykkja leyfi til að fjarlægja bílskúr og byggja nýjan í hans stað á lóðinni Bræðraborgarstíg 23.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra I, Bræðraborgarstíg 23a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 að samþykkja leyfi til að fjarlægja bílskúr og byggja nýjan í hans stað á lóðinni Bræðraborgarstíg 23. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. nóvember 2016.

Málavextir:
Hinn 15. nóvember 2011 var samþykkt byggingarleyfi fyrir 36 m2 bílskúr, sem var 3,5 m á hæð, á lóðinni Bræðraborgarstíg 23 í stað bílskúrs sem fyrir var á lóðinni. Ekki var farið í þær framkvæmdir og féll byggingarleyfið af þeim sökum úr gildi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 2. febrúar 2016 var tekin fyrir ný umsókn um leyfi til þess að rífa bílskúr á nefndri lóð og reisa í hans stað stærri bílskúr, innar á lóðinni og fjær lóðarmörkum. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 3. júní 2016 var samþykkt að grenndarkynna umsóknina, með athugasemdafresti frá 24. júní til 21. júlí s.á., og bárust athugasemdir frá kærendum. Tekin var afstaða til þeirra athugasemda og lagt til að fyrirhugaður bílskúr yrði lækkaður. Hinn 4. október s.á. var svo samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa leyfi fyrir 31,5 m2 bílskúr, 0,6 m frá lóðarmörkum kærenda.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið farið að stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Á fyrri stigum málsins hafi andmæla- og upplýsingaréttur ekki verið virtur og ekki verið tekið tillit til óskar kærenda um frest til að kynna sér gögn máls og gera grein fyrir afstöðu sinni. Núverandi bílskúr sé notaður sem geymsla og hafi hann upphaflega verið reistur án heimildar. Því sé haldið fram í umsögn skipulagsfulltrúa að stækkun bílskúrs sé lítilsháttar, en um sé að ræða rétt tæplega tvöföldun á stærð skúrsins, úr 17 m2 í 31,5 m2, og mjög mikla hækkun. Núverandi bílskúr sé ekki 3 m hár eins og ranglega komi fram í umsögninni. Þar að auki sé verið að samþykkja nýtt bílastæði fyrir framan heimilaðan bílskúr og verði því bílgeymslur meðfram allri lóð kærenda.

Kærendur hafi óskað eftir því að fá að gera athugasemdir við staðsetningu bílskúrsins með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 16. september 2016. Í bréfinu hafi verið gerð tillaga um það að í stað þess að bílastæðið yrði fyrir framan bílskúrinn yrði það áfram við hlið hans. Þessi ósk kærenda hafi hins vegar verið virt að vettugi og aldrei tekin til umfjöllunar. Í tilkynningu Reykjavíkurborgar um afgreiðslu málsins sé lögð áhersla á að ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli samþykktar frá árinu 2011, en sú samþykkt sé fallin úr gildi. Nýtt mál verði að meta sjálfstætt. Því sé mótmælt sem fram komi í sama bréfi að kærendur hafi ekki fært fram rök fyrir þeim skaða og því ónæði sem fylgja muni umræddri byggingu. Það sé alrangt. Lóð kærenda sé mjög lítil og fái sitt fagurfræðilega gildi og verðmæti af því græna opna svæði sem þarna sé. Sú breyting sem felist í hinni kærðu ákvörðun muni jafnframt draga úr notagildi lóðarinnar þar sem upplifun verði ekki söm. Í framangreindu bréfi sé látið að því liggja að komið hafi verið til móts við athugasemdir kærenda, en það eigi ekki við rök að styðjast.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að öll málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við reglur skipulagslaga nr. 123/2010 og hagsmunaaðilum hafi verið kynnt fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn. Rétt sé að með tölvupósti hinn 30. júní 2016 hafi kærendur óskað eftir lengri fresti til að kynna sér umsóknina og koma með athugasemdir, en láðst hafi að taka formlega afstöðu til frestbeiðninnar. Ætla verði að þeirri beiðni hefði verið hafnað, enda hafi þess verið óskað að málinu yrði frestað þar til eftir að sumarleyfum kærenda lyki í lok ágústmánaðar, eða um sex vikur. Verði heldur ekki annað sé en að kærendur hafi haft nægan tíma til kynna sér gögn málsins, sem hafi borist þeim 27. júní s.á., og hafi þeir því haft fimm vikur til að kynna sér þau. Almennt sé orðið við óskum um framlengingu athugasemdafrests ef sérstakar ástæður komi til, s.s. að gögn hafi borist of seint, en almennt sé verði ekki framlengt lengur en sem nemi einni viku til tíu dögum. Allt að einu hafi kærendur komið að athugasemdum með tölvupósti 20. júlí 2016 og hafi þær verið teknar til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði lögum samkvæmt.

Engu breyti í máli þessu hvort bílskúrinn sem fyrir sé á umræddri lóð hafi verið reistur í óleyfi eða ekki, enda sé með samþykktinni veitt heimild til að rífa þá skúrbyggingu. Í umsögn skipulagsfulltrúa vegna athugasemda kærenda hafi komið fram að á árinu 2011 hafi verið samþykkt byggingaráform fyrir um 36 m2 bílskúr á lóðinni, sem ekki hafi verið byggður. Þar sé fyrir 17 m2 bílskúr, sem teljist frekar lítill samkvæmt byggingarreglugerð. Fallist hafi verið á athugasemdir kærenda við hæð skúrsins og hafi því verið lagt til að hann yrði ekki hærri en samþykkt hefði verið árið 2011, eða 3,5 m, en núverandi skúr væri sagður 3 m á hæð. Dýpt skúrsins ætti ekki að hafa áhrif á ásýnd frá aðliggjandi lóð. Bílskúrinn sé að auki færður fjær lóðamörkum en núverandi skúr, eða um 0,6 m. Ekki sé verið að samþykkja bílastæði á lóðinni en eðlilegt sé að hægt sé að leggja einni bifreið fyrir framan einfaldan bílskúr.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja byggingarleyfi fyrir nýjum bílskúr á lóðinni Bræðraborgarstíg 23 í stað eldri bílskúrs sem skyldi fjarlægður. Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag og var leyfið veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt heimild í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdafresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þó svo að láðst hafi að taka afstöðu til beiðni kærenda um framlengingu á athugasemdafresti verður ekki séð að það hafi valdið þeim réttarspjöllum. Þeir komu athugasemdum sínum að við grenndarkynninguna. Þær voru teknar til umfjöllunar og afstaða tekin til þeirra. Kærendum var síðan tilkynnt um niðurstöðu málsins í samræmi við fyrirmæli nefnds ákvæðis skipulagslaga.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður hinn nýi bílskúr samkvæmt leyfinu 31,5 m2 að flatarmáli með 2,10 m vegghæð og 3,50 m mænishæð. Skúr sá sem fyrir er á lóðinni og skal fjarlægður er 17,25 m2 að flatarmáli, með einhalla þaki, og 2,38 m hár þar sem hann er hæstur. Sá skúr er á mörkum lóða leyfishafa og kærenda, en heimilaður bílskúr mun standa 0,6 m frá nefndum lóðamörkum og um 2 m innar á lóð en sá eldri. Staðsetning bílskúranna er í norð-austur frá lóð kærenda. Að því virtu verður ekki ráðið að hinum nýja bílskúr fylgi merkjanlega aukin grenndaráhrif frá því sem fyrir var á lóð kærenda, svo sem aukið skuggavarp.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar hækkar úr 0,41 í 0,44, eða um 7%, en nýtingarhlutfall á næstu lóðum er sambærilegt eða hærra. Þá eru fordæmi í hverfinu fyrir bílskúrum af svipaðri stærð og hér um ræðir. Hið kærða byggingarleyfi er því í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda þar að lútandi því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 um að samþykkja leyfi til að fjarlægja bílskúr og byggja nýjan í hans stað á lóðinni Bræðraborgarstíg 23.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

124/2016 Skútahraun

Með

Árið 2016, fimmtudaginn 8. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 3. ágúst 2016 um að leggja dagsektir á lóðarhafa Skútahrauns 4, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. september 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra S, L, Guðsteinn ehf. og K16 ehf., lóðarhafar og eigendur eignarhluta 228-2671, 228-2672 og 228-2673 í fasteigninni Skútahrauni 4, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. ágúst 2016 að leggja dagsektir á lóðarhafa Skútahrauns 4. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 12. október 2016.

Málavextir: Hinn 23. júní 2016 sendi byggingarfulltrúinn í Hafnarfirði lóðarhöfum Skútahrauns 2a og 4 bréf þar sem eftirfarandi kom fram: „Á eftirlitsferð um hverfið tók ég eftir að við Skútahraun 2a og 4, er búið að koma fyrir lausamunum á bæjarlandi, sumt af þessum lausamunum er í Garðabæ, ekki er heimild fyrir slíku […]. Ykkur er gefin eins mánaðar frestur til að gera úrbætur og koma svæðinu í upprunalegt horf, að öðrum kosti muni verða lagðar dagsektir á ykkur samanber 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Frestur er til 1. ágúst 2016.“ Á afgreiðslufund byggingarfulltrúa 3. ágúst 2016 var samþykkt að leggja dagsektir á lóðarhafa Skútahrauns 4, sem námu 20.000 krónum á dag frá og með 1. ágúst 2016, samkvæmt heimild í 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Með bréfi, dags. 19. s.m., var lóðarhöfum tilkynnt um umrædda ákvörðun byggingarfulltrúa.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að bókun byggingarfulltrúa frá 3. ágúst 2016, þar sem samþykkt sé að leggja á þá dagsektir, sé óljós. Ekki sé tekið hvaða „bæjarland“ sé átt við eða hvaða lausamunir hafi þar verið settir. Þá sé hvorki tekið fram hvar lóðarhafar hafi átt að hafa tekið jarðveg né tilgreint hver þeirra eigi að hafa framkvæmt það. Þegar um sé að ræða matskennda stjórnvaldsákvörðun, líkt og hér um ræði, sé nauðsynlegt að gera grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við matið. Svo óskýr og óljós ákvörðun geti ekki lagt athafnaskyldu á kærendur, hvað þá verið grundvöllur íþyngjandi þvingunarúrræðis stjórnvalds.

Sú fullyrðing byggingarfulltrúa að kærendur hafi fjarlægt jarðveg til að stækka athafnasvæði sitt sé röng. Með hliðsjón af hæðarmun á milli lóðar kærenda og Skútahrauns 6, og nýlegu samþykki bæjarins fyrir byggingu geymsluhúss á lóðinni nr. 6, geti hugsast að verið sé að vísa til þess svæðis varðandi meinta fjarlægingu jarðvegs. Liggi það ekki ljóst fyrir þar sem enga tilgreiningu um slíkt sé að finna í hinni kærðu ákvörðun.

Þá eigi umrædd ákvörðun sér ekki lagastoð. Hafnarfjarðarbær vísi til 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, en ákvæðið kveði á um að við tilteknar aðstæður geti byggingarfulltrúi gripið til dagsekta til að knýja eiganda eða umráðamann mannvirkis eða lóðar til að framkvæma úrbætur á mannvirki eða lóð í hans eigu eða umráðum. Umrætt ákvæði nái hins vegar ekki yfir hina meintu heimildarlausu háttsemi kærenda, auk þess sem fyrirmælum ákvæðisins hafi ekki verið fylgt við töku ákvörðunarinnar. Ákvörðun bæjarins snúi ekki að kröfu um úrbætur á mannvirki eða lóð í eigu eða umráðum kærenda, eins og gert sé að skilyrði í 1. mgr. 56. gr. laganna, heldur snúi hún að meintum athöfnum þeirra á landi Hafnarfjarðarbæjar, en um slíkt gildi aðrar reglur og önnur úrræði. Loks hafi kærendum aldrei verið gefin ábending um hina meintu heimildarlausu háttsemi, þeir krafðir um úrbætur, áminntir eða gert viðvart áður en ákvörðun hafi verið tekin, líkt og 56. gr. kveði á um. Þeim hafi verið send tilkynning 23. ágúst 2016 um að dagsektir hefðu byrjað að leggjast á 23 dögum áður. Slík afturvirk beiting íþyngjandi þvingunarúrræða sé ólögmæt nema skýr lagaheimild sé til staðar, en svo sé ekki í máli þessu.

Með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn skráðum og óskráðum efnis- og málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins og sé hún haldin svo verulegum annmörkum að ógildingu varði. Bent sé á að við kaup kærenda á fasteignum og afnotarétti greindrar lóðar hafi þess í engu verið getið að við kaupin myndu þeir undirgangast kvöð Hafnarfjarðarbæjar um skyldu til að vinna á eigin kostnað jarðvegsframkvæmdir á bæjarlandi að viðlögðum dagsektum. Útilokað hafi verið fyrir kærendur að sjá fyrir slíka kröfu bæjarins vegna athafna sem þeir hafi ekki framkvæmt.

Málsrök Hafnarfjarðarbær: Af hálfu sveitarfélagins er vísað til þess að ekki sé rétt að kærendum hafi verið ókunnugt um ákvörðun um fyrirhugaða álagningu dagsekta. Með bréfi, dags. 23. júní 2016, hafi byggingarfulltrúi upplýst kærendur um að óheimilt væri að koma fyrir lausamunum á bæjarlandi og þeim gefinn einn mánuður til úrbóta og til að koma svæðinu í upprunalegt horf, en að öðrum kosti yrðu lagðar á þá dagsektir í samræmi við 56. gr. mannvirkjalaga. Í bréfinu hafi komið skýrt fram að lagðar yrðu á dagsektir frá 1. ágúst s.á. ef ekki yrði brugðist við.

Því sé mótmælt að óljóst sé í hverju hin meinta heimildarlausa háttsemi hafi falist, hverjir hafi framkvæmt hana og hvaða úrbóta væri þörf. Í lóðarleigusamningi frá 29. september 2003 sé lóðin skýrt afmörkuð á uppdrætti, og sé lóðarhöfum einungis heimilt að nýta sína lóð á grundvelli hans. Kærendur hafi fært lóðarmörk sín og nýtt sér bæjarland í heimildarleysi. Krafa bæjarins gagnvart kærendum snúi að úrbótum á lóð í umráðum þeirra og að því að aflétt verði ólögmætu ástandi sem þar sé til staðar. Þá sé ekki verið að beita þvingunarúrræðum afturvirkt, enda hafi kærendur  fengið ábendingu um hina heimildarlausu háttsemi með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. júní 2016, þar sem skorað hafi verið á þá að bæta úr.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 3. ágúst 2016 um að leggja dagsektir á kærendur sem lóðarhafa Skútahrauns 4 vegna lausamuna sem bæjaryfirvöld ætla að séu á svæði í umráðum þeirra.

Í 1. mgr. 56. gr. laga nr.160/2010 um mannvirki er tekið fram að telji byggingarfulltrúi að ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar sé ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli hann gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Í 2. mgr. ákvæðisins er síðan að finna heimild til að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur. Þá er kveðið á um í 4. mgr. 56. gr. að álagðar dagsektir njóti lögveðs í mannvirki, byggingarefni og viðkomandi lóð.  

Orðalag 56. gr. mannvirkjalaga ber með sér að þvingunarúrræðum ákvæðisins verði einungis beint að lóðarhöfum eða eigendum fasteigna vegna ástands lóða þeirra og mannvirkja á þeim. Þegar um er að ræða bæjarland, eins og lagt var til grundvallar í áskorun byggingarfulltrúa til kærenda um úrbætur, verði að beita öðrum lagaheimildum, s.s. heimild fyrir viðkomandi heilbrigðisnefnd til að fjarlægja m.a. lausamuni á almannafæri, að undangenginni viðvörun, sbr. 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Var því 56. gr. mannvirkjalaga ekki viðhlítandi lagaheimild fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa til að beita kærendur dagsektum vegna lausamuna sem staðsettir voru á bæjarlandi.

Hin kærða ákvörðun um beitingu dagsekta til að knýja á um athafnir er íþyngjandi ákvörðun sem verður ekki túlkuð með rýmkandi lögskýringu. Efni slíkrar ákvörðunar verður að vera skýrt svo ekki orki tvímælis hvaða skyldur til athafna um sé að ræða. Í greindu áminningarbréfi byggingarfulltrúa var þess hvorki getið til hvaða lausamuna á svæðinu verið væri að vísa né hvar umrædd efnistaka hefði átt sér stað. Kærendur gátu því ekki með ótvíræðum hætti gert sér grein fyrir því hvernig þeir gætu brugðist við á viðunandi hátt svo ekki kæmi til beitingar dagsekta.

Þá er sá ágalli á málsmeðferð byggingarfulltrúans að hin kærða ákvörðun, sem tekin var hinn 3. ágúst 2016, átti samkvæmt efni sína að gilda frá 1. s.m. en kærendum var þó ekki tilkynnt um hana fyrr en með bréfi, dags. 19. s.m.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun haldin verulegum annmörkum og verður af þeim sökum felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 3. ágúst 2016 um að leggja dagsektir á lóðarhafa Skútahrauns 4, Hafnarfirði.
 

_______________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

41/2016 Hvannalundur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 7. apríl 2016 um að synja beiðni um að fjarlægja eða færa til mannvirki á lóð nr. 8 við Hvannalund í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. apríl 2016, er barst nefndinni 27. s.m., kæra eigendur lóðar nr. 10 við Hvannalund, Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 7. apríl 2016 að synja beiðni um að fjarlægja eða færa til mannvirki á lóðinni að Hvannalundi 8. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að hlutast til um það að umrætt mannvirki verði fjarlægt eða fært til þannig að það sé að lágmarki 10 m frá lóðamörkum.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 13. júní 2016.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 17. apríl 2015, var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 um að sam-þykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni nr. 8 við Hvannalund. Taldi úrskurðarnefndin að samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016 og með vísan til gr. 4.22.2. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 væri ekki heimilt að veita hið umdeilda byggingar-leyfi án undangenginnar deiliskipulagsgerðar.

Kærendur máls þessa, er staðið höfðu að fyrrgreindu málsskoti, sendu 25. maí s.á. tölvubréf til sveitarfélagsins og óskuðu eftir viðbrögðum þess við ofangreindum úrskurði. Töldu þeir ljóst að reist hefði verið nýbygging án gildandi heimilda. Stæði hún á lóðarmörkum en slíkt hefði verið óheimilt samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og var þess farið á leit að upplýst yrði hvort til stæði að færa eða fjarlægja umrædda byggingu. Áréttuðu kærendur fyrirspurn sína með tölvubréfi 13. júní s.á. sem byggingarfulltrúi svaraði með bréfi 15. s.m. Á fundi skipulagsnefndar 25. júní 2015 var afgreiðslu málsins frestað og byggingarfulltrúa falið að leita álits lögfræðings um málið. Mun lögmaður kærenda hafa fengið þær upplýsingar frá byggingarfulltrúa í ágúst s.á. að unnið væri að umsögn vegna málsins og með tölvupósti lögmanns kærenda til byggingarfulltrúa 12. október 2015 var óskað frekari upplýsinga um fyrrnefnda umsögn. Með bréfi skipulagsfulltrúa til eigenda Hvannalundar 8, dags. 12. febrúar 2016, kom fram að gerð hefði verið sú krafa að stækkun sumarhúss þeirra yrði fjarlægð og var þeim veittur frestur til að koma að sjónarmiðum sínum. Bárust athugasemdir þeirra með bréfi, dags. 17. febrúar s.á.
Málið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 10. mars 2016 og eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Skipulagsnefnd fellst ekki á að efnisrök eða hagsmunir séu fyrir því að fjarlægja húsið frá lóðarmörkum. Vinna við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins stendur nú yfir og er fyrirhugað að þeirri vinnu ljúki á haustmánuðum. Afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er því frestað til 1. október 2016.“ Voru kærendur upplýstir um afgreiðslu skipulagsnefndar með tölvubréfi 31. mars 2016 í kjölfar fyrirspurnar þeirra um erindi sitt. Staðfesti sveitarstjórn nefnda afgreiðslu skipulagsnefndar 7. apríl s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að ákvæði 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé heimildarákvæði sem undirorpið sé frjálsu mati stjórnvalda. Verði ákvarðanir sem sveitarfélag taki á grundvelli ákvæðisins að fela í sér hagsmunamat, þar sem hagsmunir þriðja aðila sem ósáttur sé við bygginguna séu vegnir á móti hagsmunum byggingaraðila. Við ákvarðanatöku þurfi að fara að stjórnsýslulögum og málefnaleg sjónarmið að liggja til grundvallar. Af dómum Hæstaréttar megi ráða að þau sjónarmið sem skipti máli við nefnt hagsmunamat séu meðalhóf, huglæg afstaða eiganda mannvirkis, réttmætar væntingar og fjárhagsleg sjónarmið. Ekki hafi farið fram neitt slíkt mat af hálfu sveitarfélagsins í máli þessu. Viðbygging við umrætt sumarhús hafi verið reist án tilskilinna leyfa og síðar hafi byggingarmagni við lóðarmörk kærenda verið mótmælt við grenndarkynningu. Hafi sveitar-félagið farið þess á leit að byggingarmagn yrði ekki aukið á lóðarmörkum en þeim tilmælum hafi ekki verið fylgt eftir. Bæði sveitarfélagið og framkvæmdaraðili hafi vitað að ekki mætti veita leyfi fyrir framkvæmdunum án deiliskipulags vegna ákvæða í aðalskipulagi. Sé eign kærenda að Hvannalundi 10 ósöluhæf sökum fyrrnefndrar byggingar.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarfélagið bendir á að samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki sé byggingarfulltrúa heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Sé ákvörðun þessi háð mati stjórnvalds hverju sinni, þar sem m.a. þurfi að taka tillit til meðalhófs. Geti kærendur ekki knúið byggingaryfirvöld til beitingar úrræðis þessa, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína. Megi hér vísa til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 90/2012. Í öndverðu hafi ekki verið um óleyfisframkvæmd að ræða. Hafi byggingarleyfið verið fellt úr gildi vegna formannmarka á veitingu þess. Byggingarmagn við lóðamörk hafi verið óbreytt og ekki stafi hætta af húsinu. Hagsmunir kærenda og lóðarhafa Hvannalundar 8 hafi verið metnir við afgreiðslu málsins og skipulagssjónarmið höfð í huga. Þá liggi ekkert fyrir um að húseign kærenda hafi rýrnað í verði eða að þeir hafi orðið fyrir tjóni sökum þessa.

Athugasemdir lóðarhafa Hvannalundar 8: Sjónarmið umræddra lóðarhafa liggja fyrir í gögnum málsins. Þar kemur fram að þeir hafi árið 1991 fest kaup á lóðinni Hvannalundi 8 ásamt húsi reistu árið 1959. Árið 2010 hafi verið ákveðið að styrkja eldri undirstöður hússins og bæta við nýjum undirstöðum og endurnýja bita. Einnig hafi verið ákveðið að sækja um leyfi til að breyta gluggum, hækka þakið og lengja það yfir verönd sem sé í suður. Byggingarmagn á lóðarmörkum yrði það sama og áður. Við grenndarkynningu hafi allir hagsmunaðilar samþykkt nefndar breytingar nema eigendur Hvannalundar 10. Byggingarleyfi hafi síðan verið gefið út og hafi þá verið farið af stað og viðhald klárað. Hafi úrskurðarnefndin fellt leyfið úr gildi eingöngu þar sem ekki hafi mátt gefa það út fyrr en búið væri að deiliskipuleggja greint svæði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um að synja beiðni kærenda um að beitt verði úrræðum 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að fjarlægja eða færa til mannvirki á lóðinni að Hvannalundi 8 við mörk lóðar þeirra. Í tilvitnuðu ákvæði er mælt fyrir um að ef byggingarframkvæmd sé hafin, án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag, geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt.

Sveitarstjórn er heimilt með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingar-leyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki vikið að því hvort ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða 2. mgr. 55. gr. laganna geti orðið með öðrum hætti en þar greinir. Ekki liggur fyrir að Bláskógabyggð hafi sett sér slíka samþykkt, en skv. 6. mgr. 7. gr. nefndra laga skal samþykkt sem sett er samkvæmt lagagreininni lögð fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar. Hins vegar er tekið fram í 48. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélagsins Bláskógabyggðar nr. 592/2013, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 27. júní s.á., að skipulagsnefnd fari með skipulagsmál skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarmál skv. 7. gr. laga um mannvirki. Samþykktin er sett með stoð í 9. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og var hún staðfest af innanríkisráðherra. Liggur því fyrir að sú samþykkt á ekki stoð í 7. gr. mannvirkjalaga og hefur hún ekki verið sett með þeim hætti sem þar er mælt fyrir um. Getur hún því ekki vikið til hliðar fyrirmælum 2. mgr. 55. gr. laganna um að það sé á forræði byggingarfulltrúa að meta og taka ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis sem þar greinir. Synjun skipulagsnefndar og sveitarstjórnar á erindi kærenda hefur því ekki þýðingu að lögum þar sem málið var ekki afgreitt af þar til bæru stjórnvaldi lögum samkvæmt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur endi á mál sem borin verður undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður máli þessu því vísað frá nefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

148/2016 Kröflulína 4

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 148/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. október 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, Skútustaðahreppi, og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. október 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Skútustaðahreppi 15. nóvember 2016.

Málavextir: Landsnet hf. fyrirhugar að leggja 220 kV loftlínu, Kröflulínu 4, frá Kröfluvirkjun í Skútustaðahreppi að gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum í Þingeyjarsveit. Frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Norðurþingi, er áætlað að leggja Þeistareykjalínu 1, einnig fyrir 220 kV rekstrarspennu. Með bráðabirgðaúrskurði í máli nr. 46/2016, dags. 30. júní 2016, stöðvaði úrskurðarnefndin framkvæmdir sem raskað gætu Leirhnjúkshrauni á grundvelli ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps, dags. 20. apríl s.á., um að samþykkja framkvæmdaleyfi til handa Landsneti fyrir Kröflulínu 4. Með úrskurði, uppkveðnum 10. október s.á., felldi úrskurðarnefndin nefnda ákvörðun úr gildi.

Á fundi Skipulagsnefndar Skútustaðahrepps 24. október 2016 var tekin fyrir að nýju umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4. Ítarlega var bókað um forsögu og meðferð málsins og samþykkt að leggja til við sveitarstjórn að umsóknin yrði samþykkt og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út og auglýsa leyfið. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti tillögu og bókun skipulagsnefndar á fundi sínum 26. s.m. og er sú ákvörðun kærð í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993, auk þess sem hún fari í bága við náttúruverndarlöggjöf, einkum 8. gr. og 2.- 4. mgr. 61. gr., sbr. 3. gr., náttúruverndarlaga nr. 60/2013, bráðabirgðaákvæði laga nr. 97/2004 um vernd Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og eftir atvikum skipulagslög nr. 123/2010.

Við skoðun á vettvangi í byrjun september 2016 hafi komið í ljós að vegslóðar hafi verið lagðir og borplön gerð á svæði norðan fyrirhugaðs tengivirkis á Hólasandi og allt til Þeistareykja. Hafi orðið vart við að jarðskaut hafi verið plægð milli mastrastæða með því að vinnuvélar hafi farið beint af augum milli þeirra í stað þess að plægja þau í vegslóð, líkt og leyfishafi hafi upplýst á staðnum að hafi verið áskilið við verktaka. Hvorki samningur við verktaka né samningur er vísað hafi verið til að leyfishafi hafi gert við Umhverfisstofnun um eftirlit hafi verið gerðir aðgengilegir fyrir kærendur og geti þeir því ekki sagt til um hvað þar standi. Þeir hafi hinsvegar í fórum sínum ljósmyndir sem sýni glögglega hvernig farið hafi verið með jarðskaut í hraunið á þessu svæði og því raskað, að því er virðist algerlega að þarflausu og eftirlitslaust. Þetta veki ekki miklar væntingar um frágang á svæðinu.

Með úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dags. 14. október 2016, hafi leyfishafa verið heimilað eignarnám í óskiptu landi jarðarinnar Reykjahlíðar, en í gegnum það land eigi Kröflulína 4 að liggja á um 20 km kafla. Með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta, dags. 3. nóvember s.á., hafi leyfishafa verið heimiluð umráð hins eignarnumda gegn tryggingu, áður en til ákvörðunar um fjárhæð eignarnámsbóta komi, sbr. 14. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Ekki sé vitað hvort aðfarar hafi verið beiðst skv. 13. gr. laganna til þess að fá umráð hins eignarnumda, en líta verði svo á að slíkt hljóti að vera skilyrði umráða og að fyrr en slíkt hafi endanlega verið veitt hafi leyfishafi ekki formleg umráð hins eignarnumda. Allt að einu sé ljóst að allt stefni í það að óbreyttu að Leirhnjúkshrauni, líkt og Neðra-Bóndhólshrauni og óbyggðum víðernum, verði raskað á óafturkræfan hátt í þessum mánuði. Yfirlýsingar leyfishafa á opinberum vettvangi bendi einnig í þá átt. Stöðvun framkvæmda sé því nauðsynleg.

Málið hafi almenna þýðingu fyrir náttúru Íslands og orðspor landsins, fyrir alla Íslendinga og einnig erlenda ferðamenn og vísindamenn er heimsæki landið. Hagsmunirnir séu stórfelldir en um sé að ræða svæði þar sem fyrirhugað sé að vinna veruleg og óafturkallanleg spjöll á íslenskri náttúru og umhverfi. Löggjafinn hafi viðurkennt að verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd á þeim svæðum við Mývatn, sem mál þetta fjalli um, séu verulegir hagsmunir sem teljist til verulegra almannahagsmuna.

Ríkar ástæður séu fyrir stöðvunarkröfu kærenda í málinu, líkt og í máli nr. 46/2016. Náttúruverndarnefnd Þingeyinga hafi nú sérstaklega bent á að Neðra-Bóndhólshraun njóti verndar 61. gr. náttúruverndarlaga, líkt og Leirhnjúkshraun, og virðist það óumdeilt. Því sé þess sérstaklega krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar þar. Það sama eigi við um þau óbyggðu víðerni sem kunni að vera um að ræða á línuleið Kröflulínu 4, innan sveitarfélagsmarka Skútustaðahrepps.

Málsrök Skútustaðahrepps: Skútustaðahreppur kveður stöðvunarkröfu hafa verið til umfjöllunar í máli fyrir úrskurðarnefndinni nr. 46/2016, vegna fyrri ákvörðunar um framkvæmdaleyfi, sbr. úrskurð, dags. 30. júní 2016. Framkvæmdir hafi þá verið stöðvaðar að því marki sem þær væru innan Leirhnjúkshrauns. Rök fyrir stöðvun framkvæmda hefðu einkum beinst að því að í málinu hefði reynt í fyrsta skipti á túlkun nýrra ákvæða um náttúruvernd og að óvissa væri um stöðu Leirhnjúkshrauns, svo sem verndargildi hraunsins samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 60/2013. Í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um efnislegan þátt málsins, þar sem um ógildingu ákvörðunar hafi m.a. verið vísað til reglna um efni rökstuðnings og að rökstuðningur bæri ekki með sér að gætt hafi verið að reglum náttúruverndarlaga, hafi mátt telja fyrri stöðvun framkvæmda réttlætanlega. Allt önnur staða sé nú uppi í málinu.

Málsmeðferð Skútustaðahrepps eftir ógildingu fyrri ákvörðunar og efni rökstuðnings að baki nýrri útgáfu framkvæmdaleyfis beri með sér að ítarlega hafi verið farið yfir gögn málsins og gætt að ákvæðum náttúruverndarlaga við afgreiðslu þess. Þá sé ljóst, vegna þeirra fjögurra kærumála varðandi Bakkalínur sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi haft til meðferðar, að skýring á ákvæðum nýrra náttúruverndarlaga sé ekki háð sömu óvissu og við afgreiðslu fyrri stöðvunarkröfu.

Ákvörðun um stöðvun framkvæmda feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar. Í athugasemd við 5. gr. í frumvarpi til laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þar sem heimild til stöðvunar framkvæmda sé að finna, komi m.a. fram að þar sem kæruaðild sé opin öllum sé þó sérstaklega mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar. Athugasemdin feli þannig í sér að eðlilegt sé að strangari kröfur séu gerðar til efnislegra forsendna að baki kæru þegar kærandi sé ekki aðili sem hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, eins og gildi í máli þessu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að við ákvörðun um hvort beita skuli heimild til stöðvunar framkvæmda skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála beri að líta til sömu sjónarmiða og rakin séu í athugasemdum við 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar. Ávallt verði að vega og meta hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og við það mat skuli líta til réttmætra hagsmuna hjá öllum aðilum málsins og horfa til þess hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt. Þá mæli það almennt á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar séu mikilvægir almannahagsmunir. Almennt séu hagsmunir þeir sem tilgreindir séu í kæru óljósir og erfitt að henda reiður á þeim, sérstaklega ef þeir séu bornir saman við þá hagsmuni sem leyfishafi hafi af því að af framkvæmdum verði.

Með úrskurði sínum í máli nr. 46/2016 hafi úrskurðarnefndin lokið skoðun á þeim atriðum sem talið hefði verið að þörfnuðust nánari rannsóknar við. Sú skoðun hefði leitt til þeirrar niðurstöðu að fundargerðir skipulagsnefndar og sveitarstjórnar bæru ekki með sér að litið hefði verið til náttúruverndarlaga nr. 60/2013 við mat á leyfisumsókn. Við afgreiðslu nýs framkvæmdaleyfis hafi verið bætt úr þeim annmarka. Ekki hafi verið sýnt fram á að ríkar ástæður séu til að stöðva framkvæmdir að nýju og augljóst sé að ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfisins verði ekki breytt. Því séu engar forsendur til að fallast á stöðvunarkröfu kærenda.

Alls séu 69 möstur í Kröflulínu 4. Engar framkvæmdir séu hafnar við möstur 1 til 34 innan lands Reykjahlíðar, þ.m.t. í Leirhnjúkshrauni, þar sem ekki liggi fyrir heimildir leyfishafa yfir landsréttindum á þeim hluta línuleiðarinnar. Hafi leyfishafi krafist dómsúrskurðar um að tiltekin landsréttindi verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum landeigenda og fengin leyfishafa. Byggi sú krafa á úrskurði iðnaðar- og viðskiptaráðherra um heimild til eignarnáms, dags. 14. október 2016, og úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta um að heimila leyfishafa umráðatöku, dags. 3. nóvember s.á. Leyfishafi hafi áform um að hefja framkvæmdir á svæðinu að fengnum dómsúrskurði um aðfarargerð, en nauðsynlegt sé að vinna að framkvæmdum að því marki sem veðurfarslegar aðstæður leyfi hverju sinni.

Framkvæmdir við slóða, plön, gröft, undirstöður og stagfestur séu hinsvegar langt komnar á öðrum hlutum línuleiðarinnar. Þá sé búið að setja saman og reisa níu möstur innan Skútustaðahrepps. Í Neðra-Bóndhólshrauni sé nú þegar lokið við slóðagerð og undirstöður, auk hluta stagfesta, en til standi að ljúka framkvæmdum við þær á næstunni. Því sé ljóst að þau sjónarmið sem lögð hafi verið til grundvallar í úrskurði til bráðabirgða í máli nr. 46/2016 eigi ekki við og því sé ekki unnt að fallast á stöðvunarkröfu. Þá sé verndargildi Neðra-Bóndhólshrauns minna en Leirhnjúkshrauns sökum þess að fyrrnefnda hraunið sé að hluta til sandorpið. Krafa kærenda um stöðvun framkvæmda á óbyggðum víðernum sé afar óljós hvað varði afmörkun þess svæðis sem vísað sé til og sé því sú krafa vanreifuð.

Kærendur hafi ekki sýnt fram á að efnisleg rök séu til stöðvunar framkvæmda. Í kröfu þeirra felist í raun krafa um að fallið verði frá framkvæmdum sem þegar séu hafnar á grundvelli leyfa og opinberrar ákvarðanatöku. Af þeirri ástæðu, sem og að teknu tilliti til ríkra hagsmuna leyfishafa, beri að hafna öllum kröfum um stöðvun framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin til þess sjálfstæða heimild, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Kærendur krefjast stöðvunar framkvæmda til að koma í veg fyrir óafturkræfa röskun á framkvæmdasvæðinu, nánar tiltekið í Leirhnjúkshrauni, Neðra-Bóndhólshrauni og á ótilgreindum víðernum. Af hálfu leyfishafa og sveitarfélagsins er bent á að ekki sé um sömu kringumstæður að ræða og þegar framkvæmdir hafi verið stöðvaðar í máli nr. 46/2016. Þá leggur leyfishafi áherslu á að halda verði áfram framkvæmdum á meðan veður leyfi eigi honum að vera mögulegt að uppfylla samningsbundnar skyldur sínar.

Samkvæmt upplýsingum leyfishafa eru framkvæmdir hafnar á svæðinu. Vegslóðar hafi verið lagðir og borplön gerð á svæði norðan fyrirhugaðs tengivirkis á Hólasandi og allt til Þeistareykja. Úrskurðarnefndin aflaði frekari upplýsinga frá leyfishafa vegna framkvæmdanna og mun hann þrátt fyrir tíðarfar hyggja á frekari framkvæmdir, að teknu tilliti til öryggis starfsmanna og aðstæðna. Frekari framkvæmdir eru því yfirvofandi.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar, þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar. Að mati úrskurðarnefndarinnar er almennt of viðurhlutamikið að stöðva framkvæmdir á þeim grundvelli einum að umhverfi verði raskað, jafnvel þótt rask verði umtalsvert og um sé að ræða umhverfi sem njóti sérstakrar verndar af einhverjum orsökum. Er enda einsýnt að flestar þær framkvæmdir sem sæta mati á umhverfisáhrifum myndu þá verða stöðvaðar án þess að frekari skoðunar þyrfti við. Verður því annað og meira að liggja fyrir til þess að heimild 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 verði beitt.

Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt upplýsingum frá leyfishafa muni framkvæmdir við Leirhnjúkshraun ekki hefjast nema dómstólar samþykki kröfu hans um beina aðfarargerð til umráða yfir tilteknum landsréttindum. Mun þingfesting þess máls fyrirhuguð í dag, en búast má við því að rekstur þess taki nokkurn tíma. Þá er á það bent að þegar mun vera lokið við slóðagerð og undirstöður í Neðra-Bóndhólshrauni auk hluta stagfesta. Framkvæmdir þar eru því langt komnar og verður það ekki aftur tekið.

Að teknu tillit til framangreindra aðstæðna allra og gagna málsins, sem úrskurðarnefndin hefur kynnt sér, verður ekki séð að skilyrði séu til að beita undantekningarheimild úrskurðarnefndarinnar til stöðvunar framkvæmda, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Þó þykir rétt að árétta að framkvæmdir eru alfarið á áhættu leyfishafa á meðan efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur ekki fyrir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

 

115/2016 Dalsmári Tennishöll

Með
Árið 2016, mánudaginn 21. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 115/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. ágúst 2016, er barst nefndinni 29. s.m., kærir G, Þinghólsbraut 33, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 28. júní 2016 að samþykkja breytt deiliskipulag Kópavogsdals, útivistarsvæðis, vegna lóðar nr. 13 við Dalsmára. Gerðar eru athugasemdir við hina kærðu ákvörðun og verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 11. október 2016.

Málsatvik og rök: Árið 2013 var óskað heimildar til að stækka Tennishöllina að Dalsmára 13 og voru gögn lögð fram því til stuðnings. Í kjölfar samþykktar skipulagsnefndar, sem staðfest var af bæjarstjórn, var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi Kópavogsdals, útivistarsvæði, vegna lóðar nr. 13 við Dalsmára. Í breytingartillögunni fólst að greind lóð yrði stækkuð til austur og byggt yrði við Tennishöllina sem stendur á lóðinni. Á fundi skipulagsnefndar 20. október 2014 var deiliskipulagstillögunni hafnað. Á fundi bæjarráðs 23. s.m. var málinu frestað og vísað til umsagnar sviðsstjóra menntasviðs, framkvæmdastjóra markaðsstofu Kópavogs og sviðsstjóra umhverfissviðs. Á fundi bæjarráðs 27. nóvember s.á. var málinu vísað til skipulagsnefndar til umsagnar sem bókaði á fundi sínum 15. desember 2014 að afstaða nefndarinnar væri óbreytt.

Með bréfi, dags. 8. september 2015, var óskað eftir því að framlögð tillaga að nýju útliti og stækkunar Tennishallarinnar fengi afgreiðslu hjá skipulagsnefnd. Á fundi skipulagnefndar 5. október s.á. var erindinu hafnað, en á fundi bæjarstjórnar 13. s.m. var hins vegar samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna í samræmi við skipulagslög. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 13. nóvember 2015 með fresti til athugasemda til 11. janúar 2016. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda, og var þeim svarað með umsögn skipulags- og byggingardeildar. Á fundi skipulagsnefndar 27. júní 2016 var nefnd umsögn samþykkt sem og tillaga að breyttu deiliskipulagi. Var tillagan samþykkt af bæjarstjórn 28. s.m. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. júlí 2016.

Kærandi skírskotar til þess að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum hans í deiliskipulagsferlinu á nokkurn hátt. Afgreiðslutími málsins hafi farið út fyrir alla viðeigandi fresti og komið hafi nýjar upplýsingar á tímabilinu sem hefði átt að taka tillit til, t.a.m hugmyndir byggingaraðila um frágang, að hafa tennisvelli í kringum húsið og um bílastæði og annað er varði starfsemi tennisfélagsins. Þá sé sú bygging sem skipulagsbreytingin taki til sögð vera á íþróttasvæði en það sé hins vegar ljóst af öllum teikningum að byggingin muni ná talsvert inn á annað skipulagssvæði, þ.e. opið svæði, samkvæmt aðalskipulagi. Deiliskipulagstillagan sé því ekki í samræmi við orðalag aðalskipulags.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Hin kærða ákvörðun sé samþykkt breyting á deiliskipulagi vegna Tennishallarinnar við Dalsmára 13 í Kópavogsdal. Kærandi búi að Þinghólsbraut 33 í Kópavogi sem sé á sunnanverðu Kársnesi. Kærandi geti því ekki átt einstaklegra, verulegra né lögvarinna hagsmuna að gæta, enda búi hann ekki í næsta nágrenni við Tennishöllina. Þá sé því mótmælt að afgreiðslutími hafi farið út fyrir alla fresti. Allir lögbundnir frestir hafi verið virtir, m.a. hafi verið veittur lengri athugasemdarfrestur á kynningartíma og Skipulagsstofnun hafi verið send samþykkt deiliskipulagsbreyting innan sex mánaða líkt og kveðið sé á um í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá sé ekki hægt að fallast á að hin kærða skipulagsbreyting sé ekki í samræmi við aðalskipulag Kópavogs. Ótækt sé að leggja svo mikla áherslu á nákvæmni aðalskipulags enda yrði deiliskipulagsgerð þá marklaus. Verði að veita bæjarstjórn svigrúm til að útfæra aðalskipulag líkt með hinu kærða deiliskipulagi. Hin kærða ákvörðun sé því ekki andstæð stefnu í aðalskipulagi.

Lóðarhafi Dalsmára 13 bendir á að kærandi búi fjarri því svæði sem hin kærða ákvörðun taki til. Verði því ekki séð að hann eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu í skilningi 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Af þeim sökum beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Í kæru eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð, þ.e. að henni hafi verið ábótavant og ekki hafi verið staðið við lögbundna fresti. Jafnframt er því haldið fram að innbyrðis samræmi skipulagsáætlana hafi ekki verið gætt. Þá er í kæru vísað til athugasemda kæranda við auglýsta deiliskipulagstillögu og virðast þær að mestu byggja á gæslu almannahagsmuna, þ.m.t. skipulagslegra hagsmuna, s.s. um áhrif á nánasta umhverfi og umferð á svæðinu, auk þess að byggja á skoðunum á þróun starfsemi í Kópavogsdal. Hins vegar er hvorki minnst á möguleg grenndaráhrif sem gætu komið fram við framkvæmd hinnar kærðu ákvörðunar né hvaða annarra lögvarinna hagsmuna kærandi eigi mögulega að gæta í málinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands á kærandi lögheimili að Þinghólsbraut 33 í Kópavogi en hin kærða ákvörðun tekur til lóðarinnar Dalsmára 13 í Kópavogsdal. Hin kærða deiliskipulagsbreyting gerir ráð fyrir stækkun á Tennishöllinni sem er staðsett í tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá lögheimili kæranda. Þá er um sinn hvorn bæjarhlutann að ræða og liggur þar á milli Hafnarfjarðarvegur, fjögurra akreina stofnvegur, en til stofnvega teljast m.a. umferðarmestu vegir sem tengja saman sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sbr. a. lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007. Er því ljóst að fasteign kæranda er ekki í þeirri nálægð við Tennishöllina, eða aðstæður að öðru leyti með þeim hætti, að framkvæmdir með stoð í hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu hafi þau áhrif á umhverfi hans að skapi honum þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

___________________________________
Nanna Magnadóttir

 

22/2015 Þrastarás

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2015, kæra á synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 24. mars 2015 á umsókn um byggingarleyfi fyrir svalaskýli á þakhæð hússins að Þrastarási 39, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Þrastarás 39, Hafnarfirði, synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 24. mars 2015 á umsókn hans um byggingarleyfi fyrir svalaskýli á þakhæð hússins að Þrastarási 39. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 13. maí 2015.

Málavextir: Árið 2010 lagði kærandi í tvígang fram fyrirspurn til skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um hvort heimilað yrði að stækka kvist á húsi hans að Þrastarási 39 en í bæði skiptin fékk hann neikvætt svar. Í seinna skiptið óskaði hann eftir rökstuðningi sem var á þá leið að stækkun kvists væri hvorki í samræmi við deiliskipulag né byggingarreglugerð, þar sem rýmið myndi ekki uppfylla skilyrði um lágmarkshæð herbergja og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi umfram heimildir deiliskipulagsins. Þá snúi kvisturinn að bakgarði nágranna en aðrir kvistir sem hafi verið samþykktir snúi allir að götu eða opnu svæði. Hinn 6. mars 2015 sótti kærandi um leyfi til þess að byggja svalaskýli á þakhæð nefnds húss með því að framlengja þakkvisti og loka honum með gleri í brautum. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa, 18. mars. s.á. var erindinu vísað til skipulags- og byggingarráðs sem tók málið fyrir 24. s.m. og hafnaði erindinu með vísan til fyrri afgreiðslna vegna fyrirspurna kæranda.

Málsrök kæranda: Kærandi telji að engin efnisleg rök séu fyrir hinni kærðu synjun skipulags- og byggingarráðs, enda ákvörðun ráðsins órökstudd. Arkitekt hússins hafi teiknað breytingarnar og samþykki liggi fyrir frá nágranna að Þrastarási 37. Um sé að ræða mjög minimalíska breytingu sem sé í fullu samræmi við byggingarreglugerð. Breyting þessi hafi engin áhrif á götumynd, enda snúi umræddar svalir að baklóð. Eins skyggi umræddar breytingar á engan hátt á nærliggjandi garð eða auki útsýni yfir hann frá því sem nú sé. Hagsmunir kæranda séu miklir í málinu vegna rakaskemmda á neðri hæð frá svölunum. Svalirnar sléttfyllist af snjó sem breytist í krapa þegar hláni og þá leki. Svalalokun sé því nauðsynleg til að verja húsið fyrir leka.

Kærandi telji að þessar breytingar falli vel að deiliskipulagi þar sem í hverfinu séu alls konar útbyggingar leyfðar. Þá sé rétt að árétta að kvistur og svalir séu byggðar samkvæmt samþykktum teikningum frá bæjaryfirvöldum.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að fyrirhuguð framkvæmd samræmist ekki gildandi deiliskipulagi, sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 9. apríl 2002. Húsið sé parhús og um það gildi skilmálar merktir P1 í skipulaginu. Svalaskýli teljist í skráningartöflu lokaðar svalir í höfuðflokki S og lokunarflokki A samkvæmt skilgreiningu Fasteignaskrár. Hér sé því ekki um B-lokun að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar um að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja svalaskýli á þakhæð húss hans með því að framlengja þak á kvisti og loka honum með gleri í brautum.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frá árinu 2002. Þar er hús kæranda skilgreint sem húsgerð P1, parhús á einni hæð, og samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins má grunnflötur húss ekki vera stærri en nemur 40% af grunnfleti lóðar. Þá er heimilað að nýta rými í rishæð, rúmist það innan tilskilinna hæðarmarka, og er hámarksmænishæð húsgerðarinnar 5 m frá gólfplötu. Svalaskýlið, sem kærandi óskaði að reisa, myndi vera í lokunarflokki A samkvæmt ÍST 50:1998 og því myndi sú breyting hækka nýtingarhlutfall lóðar kæranda. Hins vegar myndi það ekki teljast til stækkunar á grunnfleti húss og færi því ekki gegn skipulagsskilmálum að því leyti, en í skipulaginu eru ekki sett tiltekin mörk á nýtingarhlutfall. Þá verður ekki séð að lokun svala og stækkun kvists, auki grenndaráhrif, svo sem vegna yfirsýnar á lóð nágranna, umfram þau sem þegar eru til staðar vegna þaksvalanna á húsi kæranda. Þá gilda ákvæði gr. 6.7.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um lágmarkshæð herbergja ekki um þakrými í húsi kæranda, þar sem af fyrirliggjandi teikningum verður ráðið að þakrýmið sé nýtt sem geymslurými, og því ekki hægt að synja umsókn hans á þeim forsendum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður að telja að rökstuðningi hinnar kærðu synjunar sé svo áfátt að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar á umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir svalaskýli á þakhæð hússins að Þrastarási 39.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

34/2016 Brekkuhvarf

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Brekkuhvarfs 20 og ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 26. júlí s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Brekkuhvarfi 22, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. febrúar 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Brekkuhvarfs 20, þar sem lóðinni var skipt upp í tvær lóðir, nr. 20 og 20a. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 27. september 2016, er barst úrskurðarnefndinni 28. s.m., kæra fyrrgreindir kærendur ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 26. júlí 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a. Er gerð krafa um að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt leyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður það mál, sem er nr. 128/2016, sameinað máli þessu þar sem þau eru samofin og sömu kærendur standa að báðum málunum.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 29. apríl, 30. september og 7. nóvember 2016.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar 5. október 2015 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa Brekkuhvarfs 20 um breytingu á gildandi deiliskipulagi svæðisins sem er frá árinu 1992. Í breytingunni fólst að greindri lóði yrði skipt upp í tvær lóðir, Brekkuhvarf 20 og Brekkuhvarf 20a, og að á lóðinni nr. 20a yrði heimiluð bygging einbýlishúss á einni til tveimur hæðum og hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar yrði 0,3. Samþykkti nefndin að grenndarkynna breytingartillöguna.

Að lokinni kynningu var tillagan lögð fyrir skipulagsnefnd að nýju hinn 30. nóvember 2015. Athugasemdir höfðu borist frá kærendum og var þeim vísað til skipulags- og byggingardeildar bæjarins. Málið var á dagskrá skipulagsnefndar 18. janúar 2016 og var þar lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar við fram komnum athugasemdum ásamt tillögu að breytingum á hinni kynntu tillögu. Var hin breytta tillaga samþykkt og þeirri afgreiðslu vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Fólu breytingarnar í sér að hús á hinni nýju lóð yrði lækkað og að nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,3 í 0,23. Á fundi bæjarstjórnar 26. janúar 2016 var málinu vísað til skipulagsnefndar að nýju og 15. febrúar s.á. samþykkti nefndin tillöguna frá 18. janúar s.á. Hinn 23. febrúar 2016 samþykkti bæjarstjórn deiliskipulagsbreytinguna og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. mars 2016.

Hinn 26. júlí 2016 samþykkti byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar byggingarleyfi fyrir 190,2 m2 einbýlishúsi ásamt bílskúr á einni hæð að Brekkuhvarfi 20a með stoð í hinu breytta deiliskipulagi.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að val þeirra við kaup á fasteign þeirra við Brekkuhvarf árið 2004 hafi tekið mið af deiliskipulagi svæðisins, sem kallað hafi verið „sveit í borg“. Svæðið einkennist af afar stórum lóðum með mjög lágu nýtingarhlutfalli og miklu rými milli sérbýla.

Lóðin að Brekkuhvarfi 20 sé mjög stór, eða 2.346 m2. Íbúðarhúsið á þeirri lóð hafi áður verið gamall sumarbústaður, sem síðar hafi verið byggt við og standi húsið skáhallt á miðri lóðinni. Hindri það að hægt sé að framkvæma eitthvað vitrænt skipulag á lóðinni. Núverandi eigendur, sem hafi keypt eignina árið 2005, hafi ráðist í talsverðar endurbætur á íbúðarhúsinu. Húsið hafi verið í slæmu ásigkomulagi og í raun hefði verið eðlilegast að rífa það og byggja heildstæða einingu í samræmi við skipulagningu annarra lóða í hverfinu. Þegar eigendur Brekkuhvarfs 20 hafi sótt um byggingu hesthúss á lóðinni hafi þeir fundið því stað í norðausturhluta lóðarinnar en áætlað hafi verið að það leysti af hólmi gamalt hesthús sem standi utan byggingarreits við götu. Svo hafi farið að nýja hesthúsið hafi orðið að íbúð en gamla hesthúsið standi enn utan byggingarreits og sé í fullri notkun. Nú bregði eigendur Brekkuhvarfs 20 á það ráð að fá leyfi fyrir skiptingu lóðarinnar og byggja þar hús á 1-2 hæðum. Telji kærendur það vera algjörlega í ósamræmi við núverandi skipulag og sama eigi við um húsagerðina. Þetta hafi áhrif á hús kærenda og umhverfi.

Ekki verði séð að meðalhófs hafi verið gætt við vinnslu og samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða að vinnsla hennar hafi verið í samræmi við gott og faglegt verklag við gerð deiliskipulags.

Málsrök Kópavogsbæjar:
Af hálfu Kópavogsbæjar kemur fram að hin kærða ákvörðun feli í sér breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 20 við Brekkuhvarf og feli breytingin í sér að umræddri lóð sé skipt í tvær lóðir, þ.e. nr. 20 og 20a. Nýja lóðin verði 937,7 m2 að stærð með byggingarreit fyrir 220 m2 einbýlishús. Nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,23. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir 280 m2 húsi á lóðinni, með nýtingarhlutfalli 0,29, en fallið hafi verið frá því til að koma til móts við athugasemdir kærenda. Hafi það verið gert með því að minnka byggingarreit um 5 m og minnka byggingarmagn um 60 m2. Hin kærða deiliskipulagsbreyting geri ráð fyrir byggingu sem sé í samræmi við götumynd viðkomandi svæðis, nýtingarhlutfall og útlit. Ásýnd hverfisins muni því ekki breytast. Að auki sé að finna mörg fordæmi fyrir svipaðri uppskiptingu á lóðum á umræddu skipulagssvæði. Hafi verið ákveðið að grenndarkynna tillöguna fyrir lóðarhöfum í næsta nágrenni en aðeins hafi borist athugasemdir frá kærendum á kynningartíma.

Því sé hafnað að hin kærða ákvörðun breyti forsendum gildandi deiliskipulags. Eftir breytingu verði umræddar lóðir 937,7 m2 og 1.406 m2 að stærð. Lóðirnar verði því þrátt fyrir breytinguna stórar. Einnig sé bent á að minni lóðir finnist á umræddu skipulagssvæði. Breytingin sé auk þess í fullu samræmi við Aðalskipulag Kópavogs 2012-2024. Umrætt svæði sé í aðalskipulaginu skilgreint sem ÍB-5 Vatnsendi (Kórar, Hvörf, Þing) og segi um það svæði að þar sé blönduð byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa, sem að mestu hafi verið byggð á árunum 1990-2012, en uppbyggingu sé enn ekki lokið þar sem helsta uppbyggingarsvæðið sé á Vatnsenda.

Verði ekki séð að deiliskipulagsbreytingin muni hafa veruleg grenndaráhrif fyrir kærendur. Vakin sé athygli á því að nýbyggingin muni að öllu leyti verða innan heimilaðs byggingarreits lóðar nr. 20 fyrir umdeilda breytingu og sé því ekki verið að búa til nýja byggingarlínu. Því hafi mátt búast við að reiturinn yrði nýttur með einhverjum hætti. Auk þess sé röng sú staðhæfing kærenda að lágmarksfjarlægð sé ekki virt. Fjarlægðin frá nýbyggingunni að lóðarmörkum sé 5 m og frá nýbyggingu að húsi kærenda séu 11 m. Séu því skilyrði um lágmarksfjarlægð uppfyllt.

Niðurstaða: Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var lóðinni Brekkuhvarfi 20 skipt upp í tvær lóðir, nr. 20 og 20a, og heimiluð bygging einnar hæðar einbýlishúss á síðargreindu lóðinni með nýtingarhlutfalli allt að 0,23. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einnar hæðar einbýlishúsi á sömu lóð með stoð í hinu breytta deiliskipulagi.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar segir að breytingar á deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar samkvæmt 1. mgr. sama ákvæðis, megi grenndarkynna. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist vera óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.

Nýtingarhlutfall umræddra lóða eftir breytingu er sambærilegt við aðrar lóðir í götunni og fordæmi eru fyrir því á skipulagssvæðinu að stærri lóðum hafi verið skipt í tvær eða fleiri lóðir. Þá er fyrirhugað einbýlishús á lóðinni Brekkuhvarfi 20a einnig í samræmi við upphaflega skipulagsskilmála svæðisins, sem samþykktir voru 1992.  Jafnframt er húsið innan þess byggingarreits sem fyrir var áður en ráðist var í umrædda deiliskipulagsbreytingu. Hins vegar verður að líta til þess að með hinni kærðu breytingu er heimiluð bygging nýs íbúðarhúss og getur slík breyting ekki talist óveruleg í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu deiliskipulagsbreytingu úr gildi.

Hin kærðu byggingaráform voru samþykkt 26. júlí 2016 og barst kæran til úrskurðarnefndarinnar 28. september s.á. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins að kæranda hafi verið tilkynnt um samþykki byggingaráformanna, en byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum hefur ekki verið gefið út og framkvæmdir því ekki hafist. Verður því við það miðað að kæra vegna byggingarleyfisins hafi borist innan kærufrests.

Hin kærðu byggingaráform voru samþykkt með stoð í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Eins og að framan er rakið hefur úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að fella beri þá deiliskipulagsbreytingu úr gildi. Af þeim sökum eiga byggingaráformin ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svo sem áskilið er í 10. gr. laga um mannvirki og verður samþykkt byggingaráformanna af þeim sökum felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Brekkuhvarf 20 og ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 26. júlí 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

10/2015 Stöðuleyfisgjöld

Með
Árið 2016, föstudaginn 28. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011. fyrir:

Mál nr. 10/2015, kæra á ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar um að leggja á stöðuleyfisgjöld vegna gáma að Þórsmörk og Fjarðargötu 1, Seyðisfirði, fyrir árið 2014
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. febrúar 2015, sem barst nefndinni 7. s.m., kæra S, Þórsmörk, Seyðisfirði, og Stálstjörnur ehf., Garðarsvegi 21, Seyðisfirði, þá ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar að krefja nefnda aðila um greiðslu stöðuleyfisgjalda fyrir árið 2014 vegna gáma að Þórsmörk og Fjarðargötu 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað 2. mars 2015.

Málsatvik og rök:
Á fundi umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar 20. nóvember 2014 kom fram að nefndin hefði farið um kaupstaðinn og skráð lausafjármuni, m.a. gáma, sem stæðu utan gámasvæðis. Var samþykkt að senda öllum lóðarhöfum reikning fyrir stöðuleyfi lausafjármuna vegna ársins 2014 samkvæmt gjaldskrá með 50% álagi vegna kostnaðar nefndarinnar við eftirlit og skráningu. Sendi Seyðisfjarðarkaupstaður kærendum reikninga fyrir álögðum gjöldum. Einn kærenda var krafinn um stöðuleyfisgjald ásamt 50% álagi vegna gáma að Fjarðargötu 1, samtals að upphæð kr. 382.500 samkvæmt reikningi með gjalddaga 31. desember 2014 og eindaga 25. janúar 2015. Þá var annar kærandi krafinn um greiðslu gjalds vegna stöðuleyfis auk álags, samtals kr. 112.500, vegna gáma að Þórsmörk. Mun sá reikningur hafa verið móttekinn 9. janúar 2015 en bakfærður 27. s.m. og annar kærandi krafinn í þess stað um greiðslu nefnds gjalds og álags með reikningi að sömu upphæð með eindaga 6. febrúar 2015.

Kærendur telja m.a. að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til að sveitarfélagið geti lagt á gjald fyrir stöðuleyfi að eigin frumkvæði en kærendur hafi ekki sótt um nefnd leyfi. Álagt álag eigi sér enga stoð, hvorki í gjaldskrá né í lögum um mannvirki nr. 160/2010 eða byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá hafi kröfu verið beint að röngum aðila.

Sveitarfélagið bendir á að gámaeigendum hafi á liðnum árum ítrekað verið bent á skyldur sínar samkvæmt lögum um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012 með auglýsingum og dreifibréfum sveitarfélagsins. Ekki hafi verið brugðist við þessum ábendingum á nokkurn hátt. Á fundi umhverfisnefndar 2. febrúar 2015 hafi verið samþykkt að afturkalla útsenda reikninga vegna stöðuleyfa fyrir árið 2014 og endurgreiða þá sem þegar voru greiddir. Hafi skrifstofa kaupstaðarins þegar fylgt eftir niðurstöðu nefndarinnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á.
 
Svo sem að framan er rakið var reikningur með umdeildri kröfu á hendur eins kærenda bakfærður og ákvörðun af hálfu umhverfisnefndar bæjarins um greinda gjaldtöku á hendur öðrum kærendum hefur verið afturkölluð. Hefur hin umdeilda álagning stöðuleyfisgjalda  af þeim sökum ekki lengur réttarverkan að lögum og hafa kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með hliðsjón af 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

               

_________________________________________
Ómar Stefánsson

 

89/2015 Heiðarbær Þingvallasveit

Með
Árið 2016, föstudaginn 18. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Kristín Benediktsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2015, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Uppsveita bs. frá 10. september 2015 um að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til byggingar sumarhúss á lóð 170211, nú 223275, í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, Þingvallasveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir, leigjandi lóðar 170211, nú 223275,  í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, ákvörðun skipulagsnefndar Uppsveita bs. frá 10. september 2015 um að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til byggingar sumarhúss á umræddri lóð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fyrri ákvörðun skipulagsnefndarinnar frá 6. nóvember 2014 um að grenndarkynna skuli umsókn um leyfi til byggingar húss á téðri lóð verði látin standa.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 12. nóvember 2015 og frekari gögn á árinu 2016.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 6. nóvember 2014 var lögð fram   fyrirspurn um hvort leyft yrði að byggja sumarhús á lóð nr. 170211 við Grafningsveg í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit. Í erindinu var m.a. tilgreint að samkvæmt tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Heiðarbæjar við Þingvallavatn væri gert ráð fyrir því að lóðinni yrði skipt í tvo hluta. Ekki hefði tekist að afgreiða skipulagstillöguna innan lögbundins frests. Hafi rétthafar lóðarinnar allt frá árinu 2005 óskað eftir því að heimilað yrði að skipta lóðinni en vinna við deiliskipulag hafi tafið afgreiðslu málsins. Ríkið væri eigandi umræddrar lóðar og hefði samþykkt lóðarskiptin fyrir sitt leyti. Var erindið afgreitt með eftirfarandi hætti: „Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við skiptingu lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi beiðni. Þá er samþykkt að umsókn um byggingarleyfi verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipu-lagslaga nr. 123/2010 þegar lóðastofnun hefur gengið í gegn“. Staðfesti sveitarstjórn greinda afgreiðslu 13. nóvember 2014.

Hinn 3. september 2015 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa 98,2 m² sumarhús á fyrrgreindri lóð og umsókninni vísað til skipulagsnefndar þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir. Skipulagsnefnd tók erindið fyrir 10. s.m. og frestaði afgreiðslu málsins. Var fært til bókar að í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011, væri ekki unnt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá að ákvæði aðalskipulags, um að deiliskipulag þyrfti að vera forsenda byggingarleyfa en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga, yrði fellt út. Var kæranda tilkynnt afgreiðsla skipulagsnefndar með bréfi, dags. 11. september 2015, og þar tekið fram að sá fyrirvari væri á nefndri tilkynningu að sveitarstjórn samþykkti hana á næsta fundi sínum.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að forsendur fyrir niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011 hafi annars vegar verið reistar á Aðalskipulagi Þingvallasveitar 2004-2016 og hins vegar á skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Sé aðalskipulagið unnið á grundvelli eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og nefndrar reglugerðar. Sú reglugerð hafi ekki lengur verið í gildi þegar kærandi hafi sótt um byggingarleyfi.

Hafi nefndin í úrskurði sínum byggt niðurstöðu málsins á ákvæðum aðalskipulagsins um hverfisvernd, en þó sérstaklega á því ákvæði þess að vinna skuli deiliskipulag fyrir sumarhúsasvæði í Þingvallasveit „innan 4 ára frá gildistöku aðalskipulagsins“ og að ekki verði „gefin út byggingarleyfi á þeim svæðum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag að loknum þessum 4 árum“.

Skilgreining „hverfisverndar“ sé svipuð í fyrrgreindri skipulagsreglugerð og nýrri skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Sá grundvallarmunur sé þó á að samkvæmt eldri reglugerðinni skuli gera grein fyrir slíkum svæðum í „svæðis- og aðalskipulagi“ og öll svæði sem „staðfest hverfisvernd gildir um samkvæmt aðalskipulagi skulu deiliskipulögð ef framkvæmdir eru fyrirhugaðar“. Í gr. 5.3.2.17. í gildandi skipulagsreglugerð sé hins vegar heimilt „að setja ákvæði um hverfisvernd“ við gerð deiliskipulags, „þótt slíkt svæði sé ekki afmarkað í aðalskipulagi“. Jafnframt sé skírskotað til gr. 6.3. í síðarnefndu reglugerðinni.

Í 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi m.a. fram að tilgangur aðalskipulags sé að setja fram stefnu „um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál“ og að leggja grundvöll fyrir gerð deiliskipulags varðandi þessa þætti. Hafi ákvæði 12. gr. laganna verið breytt með lögum nr. 87/2015 þannig að „jafnframt skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um verndaráætlun í byggð samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð“. Kveðið sé á um markmið aðalskipulags í skipulagsreglugerðinni og í gr. 4.7.1. hennar segi að stefna aðalskipulags sé bindandi við gerð deiliskipulags og útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa.

Hverfisverndarsvæðin virðist ekki mjög vel skilgreind í aðalskipulaginu fyrir utan almenna stefnumörkun þess um vatnsvernd, gróður, stærð lóða o.s.frv. Verði ekki séð að umsókn kæranda brjóti á neinn hátt í bága við stefnu þess um landnotkun eða byggingarform og lögð sé áhersla á að gætt verði þeirra verndarsjónarmiða sem þar séu mörkuð. Hafi hvorki skipulags- né byggingarnefnd gert neinar athugsemdir við umsóknina í þá veru. Það skilyrði aðalskipulagsins um að byggingarleyfi verði ekki gefin út eftir 2. júní 2010 sé óvenjulegt og falli ekki undir eðlilega stefnumörkun þess sem skal vera leiðbeinandi „við mat á einstökum byggingarumsóknum innan eldri sumarhúsasvæða“ á meðan deiliskipulag liggi ekki fyrir.

Í 44. gr. skipulagslaga segi að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Hafi ákvæðinu verið breytt og tekið fram í athugasemdum við þá breytingu að lögð væri fram breyting á orðalagi 1. mgr. 44. gr. laganna á þann veg að skýrt yrði að við framkvæmd grenndarkynningar vegna byggingar-eða framkvæmdaleyfis verði aðalskipulag að liggja fyrir og framkvæmdin að vera í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Jafnframt sé vísað til gr. 5.9.1. skipulagsreglugerðar um grenndarkynningu.

Þótt „stefna“ aðalskipulags sé bindandi við útgáfu byggingarleyfis skv. 6. mgr. 32. gr. skipulagslaga sé ekki hægt að fallast á að nefnt ákvæði aðalskipulagsins, um bann við útgáfu byggingarleyfa hafi deiliskipulag ekki verið afgreitt, víki til hliðar skýrum lagaákvæðum um að byggingarleyfi megi gefa út á grundvelli grenndarkynningar samræmist það aðalskipulagi að öðru leyti. Um verulega íþyngjandi ákvæði sé að ræða sem hindri að rétthafi lóðar geti fengið byggingarleyfi. Það sé að auki ósanngjarnt vegna þess langa tíma sem deiliskipulag hafi verið í smíðum og þar sem ákvæðið sé ótímabundið.

Hljóti sanngirnisrök að styðja það að byggingarleyfi verði grenndarkynnt án frekari tafa vegna sögu málsins. Sé það sjónarmið stutt af landeiganda. Þá komi fram í aðalskipulaginu í kafla um stefnu um frístundabyggð á láglendi að annað leiðarljós við mótun stefnunnar, en að vernda lífríki Þingvallavatns og ásýnd svæðisins, sé að gæta eins og framast er unnt sanngirni og jafnræðis gagnvart landeigendum sem lýst hafi áhuga á að skipuleggja sumarhúsasvæði á sínum jörðum.   

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að undanfarin ár hafi skipulagsnefnd samþykkt að grenndarkynna mætti byggingarleyfi á svæðum þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi svo verið gert þrátt fyrir ákvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins um að fjórum árum eftir gildistöku þess skyldi deiliskipulag ávallt vera forsenda fyrir byggingarleyfi á þessu svæðum. Í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011, sem fjalli um viðbyggingu á sumarhúsalóð í landi Miðfells, hafi sveitarfélagið ekki talið mögulegt að taka aðra ákvörðun en þá sem kærð sé í máli þessu. Þá sé bent á að unnið sé að endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins og sé gert ráð fyrir að nýtt aðalskipulag taki gildi um mitt árið 2016.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um það í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði eða vafi leikur á um að fyrirhugað mannvirki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag skal leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laganna og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ef sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags, enda hafi áður farið fram grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Felur það lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan m.a. í sér að skipulagsnefnd taki ákvörðun um hvort veita megi byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulags. Hins vegar er endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi var tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa 3. september 2015. Vísaði hann erindinu til skipulagsnefndar sem frestaði afgreiðslu þess. Var sú afstaða nefndarinnar á því reist að í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011 væri ekki unnt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá með því að fella út ákvæði í aðalskipulagi um að deiliskipulag þyrfti að vera forsenda byggingarleyfa, en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga.

Skýrt er kveðið á um í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt, en af framansögðu er ljóst að svo er ekki. Verður að svo komnu að líta á málskot kæranda sem kæru á óhæfilegum drætti á afgreiðslu máls, skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, enda lítur hin kærða ákvörðun að frestun á afgreiðslu umsóknar kæranda.

Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi hefur allt frá árinu 2005 óskað eftir skiptingu lóðar nr. 170211 svo honum væri unnt að reisa sumarhús á lóðinni. Kemur fram í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins f.h. Jarðeigna ríkisins til kæranda, dags. 30. september 2014, að vinna við deiliskipulag frístundabyggðar fyrir Heiðarbæ hafi staðið í vegi fyrir afgreiðslu þess erindis. Eins og fyrr greinir mun tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis ekki hafa verið afgreidd innan lögbundins frests en lóðinni mun þó hafa verið formlega skipt upp sumarið 2015 í samræmi við þá tillögu. Byggingarfulltrúi vísaði umsókn kæranda um byggingarleyfi til skipulagsnefndar 3. september s.á. sem frestaði afgreiðslu málsins ótímabundið á fundi sínum 11. s.m.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana skv. 3. mgr. 3. gr. laganna. Aðalskipulag Bláskógabyggðar, Þingvallasveit, 2004-2016 tók gildi árið 2006 og var þar kveðið á um ekki yrðu gefin út byggingarleyfi á ódeiliskipulögðum svæðum að liðnum fjórum árum frá gildistöku þess. Er sú afstaða sveitarfélagsins í samræmi við þá meginreglu skipulagslaga að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Með greindu ákvæði tók sveitarfélagið þá ákvörðun að nýta sér ekki undanþáguákvæði 44. gr. skipulagslaga um að skipulagsnefnd geti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ákveðið að unnt sé að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar enda fari áður fram grenndarkynning. Er sveitarstjórn bundin af greindu skilyrði meðan aðalskipulagi er ekki breytt. Verður að líta svo á að rök sveitarfélagsins fyrir því að fresta afgreiðslu á umsókn kæranda um byggingaleyfi hafi þar með verið málefnaleg og verður ekki talið að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins þegar kæra í máli þessu barst 15. október 2015.

Hins vegar verður að líta til þess að nú er liðið meira en ár frá því að málinu var frestað ótímabundið. Í samræmi við 4. mgr. 28. gr. skipulagslaga og gr. 4.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 mun almenn endurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar hafa hafist árið 2014. Munu vonir standa til þess að unnt verði að auglýsa tillögu að greindu aðalskipulagi í byrjun árs 2017, en frekari lögbundin málsmeðferð á sér stað eftir auglýsingu sem líkur eru á að taki mánuði frekar en vikur að ljúka. Þannig er gert ráð fyrir að endurskoðað aðalskipulag geti tekið gildi á vormánuðum 2017 samkvæmt þeim upplýsingum sem aflað hefur verið frá sveitarfélaginu. Er því fyrirsjáanlegt að afgreiðsla á umsókn kæranda um byggingarleyfi muni enn tefjast umfram það sem orðið er.

Stjórnvöldum ber að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er skv. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga á grundvelli laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem þá eru í gildi og að teknu tilliti til annarra réttarheimilda. Umsókn er þá samþykkt eða henni synjað og eftir atvikum beint í annan farveg. Sveitarfélagið getur t.a.m. breytt aðalskipulagi, haft frumkvæði að deiliskipulagsgerð eða leiðbeint framkvæmdaraðila um að óska heimildar til að vinna sjálfur að gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Í því sambandi er rétt að geta þess að ekki mun hafa verið tekin ákvörðun í máli þessu um að hefja gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði, en um mitt árið 2016 tók gildi deiliskipulag fyrir tvær lóðir í landi Heiðarbæjar. Þá mun samkvæmt upplýsingum frá skipulagsfulltrúa koma til greina að skipta umræddu svæði í nokkur deiliskipulagssvæði.

Ríflega 14 mánuðir eru liðnir frá töku hinnar kærðu ákvörðunar 10. september 2015 og liggja ekki fyrir neinar nýjar ákvarðanir vegna umsóknar kæranda um byggingarleyfi. Þá er fyrirsjáanlegt, eins og áður er greint, að afgreiðsla hennar mun tefjast enn frekar ef ekki er leitað annarra lausna en almennrar endurskoðunar á aðalskipulagi. Verður að svo komnu ekki komist hjá því að telja að afgreiðsla umsóknarinnar sé farin að tefjast umfram það sem við verði unað gegn andmælum kæranda. Er því lagt fyrir skipulagsnefnd Uppsveita bs., sveitarstjórn Bláskógabyggðar og byggingarfulltrúa að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar án ástæðulauss dráttar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir skipulagsnefnd Uppsveita bs., sveitarstjórn Bláskógabyggðar og byggingarfulltrúa að ljúka afgreiðslu umsóknar kæranda um leyfi til byggingar sumarhúss á lóð 170211, nú 223275, í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, Þingvallasveit.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Kristín Benediktsdóttir